Vilt þú hafa áhrif á málefni ungs fólks?

Innan Framsýnar er starfandi kraftmikið ungliðaráð á aldrinum 16-35 ára sem skipað er til eins árs í senn. Skipunin fer fram á fundi Framsýnar í október á hverju ári. Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Ungliðaráðið starfar á vettvangi Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG og starfar náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags. Þá skal ungliðaráðið vera tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ á hverjum tíma. Frá fyrstu tíð hefur starfsemi Framsýnar-ung verið mjög kraftmikið og skemmtilegt. Við viljum skora á ungt og áhugasamt fólk að gefa kost á sér í stjórn en kjörtímabilið er eitt ár, það er frá október á hverju ári. Stjórn Framsýnar- ung á hverjum tíma gefst tækifæri á að sitja alla stjórnar- og trúnaðarráðsfundi Framsýnar. Hafir þú áhuga fyrir því að taka þátt í öflugu starfi er þér bent á að senda netpóst á netfagnið kuti@framsyn.is. Koma svo!

Það er ekkert smá frjósemi í gangi hjá stjórn Framsýnar-ung. Hér má sjá þrjár af fjórum stjórnarkonum í Framsýn-ung. Þetta eru þær Elva, Guðmunda Steina og Sunna. Á myndina vantar Heiðu Elínu sem komst ekki á aðalfund Framsýnar en myndin var tekin á aðalfundinum.

Forsætisráðherra heilsaði upp á formann Framsýnar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heilsaði upp á formann Framsýnar á leið hennar um Húsavík.  Tekin var umræða um stöðuna í þjóðfélaginu og málefni verkalýðshreyfingarinnar. Formaður Framsýnar kom ýmsu á framfæri við ráðherrann sem hann taldi að betur mæti fara í þjóðfélaginu, ekki síst varðandi þá sem búa við lökust kjörin í landinu.

Yfir tuttugu mál á dagskrá stjórnarfundar Framsýnar

Stjórn Framsýnar kemur saman til fyrsta fundar eftir aðalfund félagsins næstkomandi mánudag, 14. september kl. 17:00 í fundarsal félagsins.  Að venju er stjórn Framsýnar-ung boðið að sitja fundinn.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Heimsókn forsætisráðherra
  4. Málefni: Framsýn-ung
  5. Starfsmannamál
  6. Trúnaðarmannanámskeið
  7. Þing ASÍ
  8. Formannafundur SGS
  9. Jólafundur stjórnar- og trúnaðarráðs
  10. Afmælisboð formanns
  11. Málefni Vinnumálastofnunnar
  12. Heimsókn ríkissáttasemjara
  13. Heimskautagerðið Raufarhöfn
  14. Verðkönnun ASÍ
  15. Samningaviðræður við PCC
  16. Málefni starfsmenntasjóðs Framsýnar
  17. Nýr trúnaðarmaður hjá Íslandsbleikju
  18. Þing Sjómannasambands Íslands
  19. Málefni Hrunabúðar
  20. Íslandsbanki- fjármál Framsýnar
  21. ASÍ – Móttaka ársreikninga
  22. Atvinnumál – þróun atvinnuleysis
  23. Önnur mál

Þetta er allt að koma – Flugfélagið Ernir fjölgar flugferðum til Húsavíkur

Flugfélagið Ernir hafa ákveðið að fjölga aftur ferðum til Húsavíkur, það er að bæta við flugum á þriðjudögum og fimmtudögum í tvær ferðir á dag. Þetta eru að sjálfsögðu mjög jákvæðar fréttir. Hér er linkur á nýja áætlun sem tók gildi í dag https://www.ernir.is/afangastadir/husavik. Áfram verður svo flogið einu sinni á dag;  Mánudag-Föstudag-Sunnudag.

Fréttir af aðalfundi – Framsýn, stéttarfélag eitt öflugasta stéttarfélag landsins

Framsýn stéttarfélag stendur mjög sterkt um þessar mundir og hefur reyndar gert til fjölda ára. Styrkur félagsins kemur auk þess ekki síst fram í góðri þjónustu við félagsmenn, góðu aðgengi að sjóðum félagsins, öflugum starfsmenntastyrkjum og öðru því sem er í boði á vegum félagsins eins og orlofshúsum, orlofsíbúðum, hótelum og mjög ódýru flugi um Húsavíkurflugvöll. Aðkoma félagsmanna að þessari þjónustu og styrkjum færir félagsmönnum á hverju ári milljóna tugi. Það er góð kjarabót að vera félagsmaður í stéttarfélagi.

Í starfi stéttarfélaga er mikilvægt að sinna góðu upplýsingastreymi til félagsmanna. Framsýn verður ekki sakað um að gera það ekki. Félagið heldur úti heimasíðu og gefur reglulega út Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna um réttindi þeirra og fréttir af starfseminni sem sjaldan eða aldrei hefur verið eins öflug og um þessar mundir.

Hvernig byggja menn upp öflugt stéttarfélag til að ná fram þessum markmiðum? Það gera menn með virkum félagsmönnum, hæfu starfsfólki og öflugri stjórn, trúnaðarráði, trúnaðarmönnum á vinnustöðum og ungliðastarfi í gegnum Framsýn-ung. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf félagsins á hverjum tíma og gefa allt í starfið. Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring. Þegar þessir þættir spila saman eins og góð hljómsveit verður til öflugt stéttarfélag félagsmönnum og samfélaginu til hagsbóta.

Höfum í huga að það er ekki sjálfgefið að eiga aðild að öflugu stéttarfélagi, einu af öflugustu stéttarfélögunum innan Starfsgreinasambands Íslands svo vitnað sé í kannanir sem gerðar hafa verið um viðhorf fólks til stéttarfélaga. Þetta staðfestir einnig netkönnun sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði fyrir Framsýn árið 2019. Niðurstaðan er frábær fyrir félagið. Til hamingju félagar og ágætu starfsmenn stéttarfélaganna, hafið kærar þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf í þágu félagsmanna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ríkið bótaskylt vegna lausnarlauna

Viðskiptablaðið fjallar um áhugaverða niðurstöðu er varðar svokölluð lausnarlaun sem hafa verið túlkuð svo af hinu opinbera að fólk afsali sér rétti til starfs til frambúðar.

Íslenska ríkið og eitt sveitarfélaga landsins þurftu að þola viðurkenningu á óskiptri skaðabótaskyldu sökum þess að hafa hafnað því að ráða einstakling sem kennara við grunnskóla í sveitarfélaginu haustið 2017. Dóminum var ekki áfrýjað og segir lögmaður kennarans að dómurinn geti haft talsverð áhrif til bóta á réttarstöðu launþega, sér í lagi hjá hinu opinbera.

Umræddur kennari hefur áratugareynslu af kennslu í grunnskóla. Á vormánuðum ársins 2015 kom í ljós að hann var með kransæðasjúkdóm sem þarfnaðist meðhöndlunar og var hann óvinnufær sökum þess um nokkurra mánaða skeið. Þá um haustið gekkst hann undir aðgerð vegna þess.

Á þeim tíma átti kennarinn 360 daga veikindarétt samkvæmt kjarasamningi sínum en hann átti að renna sitt skeið um miðjan janúar 2016. Skömmu áður en hann rann sitt skeið var undirritaður samningur um að honum skyldu greidd lausnarlaun en sá var gerður á þeim grunni að maðurinn ætti ekki afturkvæmt til starfa sinna. Hljóðaði samningurinn upp á greiðslu fullra mánaðarlauna í þrjá mánuði eftir að látið er af störfum.

Í ágúst 2017 sótti kennarinn um starf hjá öðrum skóla í sama sveitarfélagi en þá hafði hann náð kröftum sínum á nýjan leik. Svar skólastjóra þess skóla var á þá leið að nítján mánuðum fyrr hefði kennarinn undirritað samkomulag um greiðslu lausnarlauna á þeim grunni að hann væri varanlega ófær um að sinna starfi sínu vegna vanheilsu. Af þeim sökum kæmi umsókn hans ekki til álita við ráðningu í starfið þrátt fyrir að kennarinn hefði verið eini umsækjandinn sem hefði leyfisbréf til starfans. Þess í stað var sótt um undanþágu til ráðherra til þess að ráða leyfislausan starfsmann tímabundið við skólann.

„Það hefur tíðkast, að minnsta kosti hjá kennurum, að litið sé svo á að langveikir einstaklingar megi ekki snúa aftur til starfa, nái þeir bata, hafi þeir tekið við lausnarlaunum vegna varanlegrar óvinnufærni. Lausnarlaunaþegum var þó almennt ekki tilkynnt um þennan galla á gjöf Njarðar, það er að með móttöku lausnarlaunanna fyrirgerði viðkomandi rétti sínum til að starfa í faginu til frambúðar,“ segir Ingvar Smári Birgisson, lögmaður mannsins, við Viðskiptablaðið.

Því vildi kennarinn ekki una heldur sinna starfi sínu á nýjan leik. Ótækt væri að skólar gætu túlkað slíkt tvíhliða samkomulag með slíkum hætti. Það gæti ekki staðist skoðun að um óafturkræfa yfirlýsingu, um óvinnufærni allt þar til yfir lýkur, væri að ræða.

Sveitarfélagið taldi á móti að ekki hefði verið brotið gegn rétti kennarans þar sem fyrir hefði legið yfirlýsing trúnaðarlæknis skólans þess efnis að hann væri óvinnufær ævina á enda. Ríkið krafðist síðan sýknu á þeim grunni að það gæti ekki borið ábyrgð á einstökum aðgerðum sveitarfélaga. Á þau rök féllst héraðsdómur ekki og taldi hvorki lög né kjarasamninga geyma heimild til að sniðganga kennarann með þessum hætti.

Að sögn Ingvars áfrýjuðu hvorki ríki né sveitarfélag niðurstöðu héraðsdóms og því stendur hann óhaggaður. Spurður að því hvort dómurinn geti haft áhrif út fyrir þetta tiltekna mál segir lögmaðurinn að svo kunni að vera. „Í dóminum er staðfest að skerðing á atvinnufrelsi í kjarasamningum er háð sömu skýrleikakröfum og sambærilegar skerðingar í lögum. Þannig er ljóst að atvinnufrelsi einstaklinga verður ekki skert með ótvíræðu orðalagi í kjarasamningum, enda um grundvallarréttindi einstaklinga að ræða,“ segir Ingvar Smári. „Fordæmisgildi dómsins kann að vera umtalsvert, sérstaklega fyrir launþega hjá hinu opinbera.“

Sannað þótti að maðurinn hefði orðið fyrir fjártjóni vegna þessa og skaðabótaskylda ríkisins og sveitarfélagsins því viðurkennd. Gjafsóknarkostnaður mannsins, 1,8 milljónir króna án virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

Frétt: Viðskiptablaðið 3. september 2020

Til fróðleiks má geta þess að Framsýn stéttarfélag aðstoðar reglulega félagsmenn sem átt hafa í langvarandi veikindum og starfað hafa hjá ríkinu eða sveitarfélögum að ná fram kjarasamningsbundum rétti til lausnarlauna. Ekki síst í ljósi þess er dómurinn mjög áhugaverður.

 

Fréttir af aðalfundi – Góður rekstur skilar sér beint til félagsmanna

Í gegnum tíðina hefur verið mikið aðhald í rekstri Framsýnar. Aðhaldið hefur ekki síst skilað sér í því að félagsmenn Framsýnar búa við góða þjónustu og gott aðgengi að sjóðum félagsins, það er sjúkrasjóði, orlofssjóði, vinnudeilusjóði og starfsmenntasjóðum á vegum félagsins. Fjárhagsleg afkoma félagsins á árinu 2019 var með ágætum þrátt fyrir verulegar hækkanir úr sjúkrasjóði til félagsmanna milli ára.

Rekstrarafgangur var á öllum sjóðum félagsins nema Fræðslusjóði. Þess ber að geta að Fræðslusjóður Framsýnar hefur ekki fastar tekjur en veitir félagsmönnum viðbótarstyrki til starfsmenntunar þegar rétti þeirra er lokið úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum s.s. Landsmennt, Ríkismennt, Sveitament, Sjómennt og Fræðslusjóði verslunarmanna. Félagsgjöld og iðgjöld lækkuðu um 0,13% milli rekstrarára.

Rekstrartekjur félagsins námu kr. 278.337.904,- sem er aukning um 1,76% milli ára. Rekstrargjöld námu 214.865.064,- sem er hækkun um 18% milli ára. Þessi hækkun er einkum tilkomin vegna hækkunar styrkja úr sjúkrasjóði. Fjármagnstekjur námu kr. 58.321.709,-.  Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 233.054.138,- á móti kr. 233.346.473,- á árinu 2018. Í árslok 2019 var tekjuafgangur félagsins kr. 114.939.909,-. Heildareignir félagsins námu kr. 2.146.256.344,- í árslok 2019. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam  kr. 60.524.956,-. Önnur aðildarfélög greiddu kr. 6.170.050,-  til rekstursins. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.

Vilt þú eiga notalega stund í Dranghólaskógi

Framsýn stéttarfélag á orlofshús í Dranghólaskógi sem er við Lund í Öxarfirði. Húsið er afar vinsælt enda á mjög fallegum stað í skóginum. Orlofshúsið var í fullri leigu í sumar. Áhugasamir félagsmenn geta fengið það leigt í september og jafnvel í október líka enda verði tíðafarið í lagi, það er einstaka daga, viku- eða helgarleigu. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Góður andi í viðræðum PCC og Framsýnar

Fulltrúar frá PCC á Bakka og fulltrúar Framsýnar komu saman til fundar í gær til að ræða framvindu sérmála í gildandi sérkjarasamningi aðila. Ákveðið hefur verið að fara í vinnutímastyttingar um næstu mánaðamót sem gefur starfsmönnum aukafrí án launaskerðingar í  6 daga, eða 48 stundir á ári. Næstu vikurnar verða notaðar til að þróa vinnutímabreytingarnar svo þær verði klárar um næstu mánaðamót. Þá verður ráðist í að þróa bónuskerfi innan fyrirtækisins sem ætlað er að færa fyrirtækinu  og starfsmönnum ábata með betri vöru og skilvirkari störfum. Samhliða þróun á bónuskerfi verður unnið að því að þróa hæfnirama/álag sem ætlað er að gefa starfsmönnum allt að 5% launahækkun til viðbótar umsömdum launahækkunum á hverjum tíma. Markmið kerfisins er að hvetja starfsfólk og stjórnendur til að setja þjálfun og starfsþróun í öndvegi og vinna gegn stöðnun og einhæfni. Til viðbótar er áhugi fyrir því að þróa námskeiðahald sem gagnist starfsmönnum við dagleg störf í verksmiðjunni. Á fundinum gær urðu einnig umræður um hvernig staðið verður að nýráðningum/endurráðningum þegar verksmiðjan fer aftur á stað. Samningsaðilar reikna með að funda nokkuð stíft á næstu vikum og mánuðum um sérmál starfsmanna.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var um 80 starfsmönnum sagt upp í sumar. Uppsagnirnar koma að fullu til framkvæmda í lok september. Þegar uppsagnirnar verða gegnar yfir má reikna með að um 50 starfsmenn verði við störf hjá fyrirtækinu. Fullur vilji er til þess hjá stjórnendum fyrirtækisins að hefja starfsemi á ný þegar markaðsaðstæður lagast og áhrifa Covid hætta að gæta.

Baldvin leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna

Baldvin Valdemarsson var nýlega ráðinn sviðsstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá SSNE með aðsetur á Húsavík. SSNE, stendur fyrir landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Innan samtakanna eru 12 sveitarfélög með liðlega 30.000 íbúa. Baldvin heilsaði upp á formann Framsýnar í gær og tók stöðuna með honum á atvinnuástandinu, atvinnumálum og málefnum SSNE.

Baldvin starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar þar sem hann gengdi fjölbreyttum verkefnum, s.s. verkefnum tengdum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, rekstrarráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri auk virkrar þátttöku í vinnu við innviðagreiningu fyrir Norðurland eystra. Þar á undan gengdi hann fjölbreyttum stjórnendastörfum, m.a. sem framkvæmdastjóri Slippsins og við eigin atvinnurekstur. Baldvin hefur því yfirgripsmiklar þekkingu og reynslu úr atvinnulífinu, reynslu á sviði rekstrar og stjórnunar, af atvinnuþróun og nýsköpun. Auk þess hefur hann langa reynslu af þátttöku í samfélags- og sveitarstjórnarmálum. Baldvin er með Cand.Oecon gráðu frá Háskóla Íslands. Framsýn býður hann velkominn til starfa á Húsavík.

 

 

 

Fréttir af aðalfundi- rekstur Hrunabúðar sf. gengur vel

Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru öll leigurými í notkun. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26.

Fréttir af aðalfundi- félagsmenn fengu 18 milljónir í námsstyrki

Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2019 fengu 344 félagsmenn greiddar kr. 18.024.508,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða.

Námsstyrkir árið 2019 skiptast þannig milli sjóða:

227 félagsmenn fengu greidda styrki úr Landsmennt                                                               kr. 11.495.084,-.

12 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sjómennt                                                           kr.   1.037.925,-.

12 félagsmenn fengu greidda styrki úr Ríkismennt                                                           kr.      594.862,-.

33 félagsmenn fengu greidda styrki úr Fræðslusjóði verslunar og skrifstofufólks                kr.  2.027.445,-.

60 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sveitamennt                                                         kr.  2.869.192,-.

Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.

Þá má geta þess að félagið leggur mikið upp úr heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn, það er í vinnuskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á félagssvæðinu.

Þó nokkuð er um að fyrirtæki og stofnanir leiti til Framsýnar eftir fræðslu fyrir starfsmenn sem tengist réttindum og skyldum þeirra á vinnumarkaði sem er afar ánægjulegt.  Þá eru starfsmenn stéttarfélaganna reglulega beðnir um að kenna á námskeiðum er tengjast vinnurétti.

 

Fréttir af aðalfundi – Félagsmenn fengu greiddar 77 milljónir í sjúkrastyrki

Á árinu 2019 voru 1.427 styrkir greiddir úr sjúkrasjóði félagsins en voru 1.246 árið 2018.  Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 77.257.643,-. Sama upphæð fyrir árið á undan var kr. 50.973.935,-. Samkvæmt þessari niðurstöðu er veruleg hækkun á greiðslum úr sjúkrasjóði milli ára eða sem nemur um 52%. Mestu munar um hækkun á sjúkradagpeningum milli ára til félagsmanna en þær nær tvöfölduðust, fóru úr tæpum 25 milljónum í tæpar 47 milljónir.

 

Aukin frjósemi meðal Þingeyinga?

Eitt af markmiðum Framsýnar er að fjölga Þingeyingum. Liður í því er að veita félagsmönnum fæðingarstyrk. Séu báðir foreldrar í félaginu sem fullgildir félagar eiga þeir rétt á 300.000 króna fæðingarstyrk og helming af upphæðinni sé annað foreldrið í félaginu. Í hverjum mánuði eru einn til þrír félagsmenn sem sækja um þennan sérstaka styrk sem er í boði hjá Framsýn. Þegar styrkjum fyrir ágúst var úthlutað á föstudaginn voru afgreiddir átta fæðingarstyrkir til félagsmanna sem er afar jákvætt og staðfestir að markmið Framsýnar að fjölga Þingeyingum gengur vel þar sem fæðingum fer fjölgandi sé tekið mið af umsóknum um fæðingarstyrki hjá félaginu. Koma svo!

Góður gestur á fundi stjórnar Sjúkrasjóðs Framsýnar

Á föstudaginn kom stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar saman til fyrsta fundar eftir aðalfund félagsins. Stjórnina skipa Dómhildur Antonsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Aðalsteinn Árni Baldursson en formaður félagsins á hverjum tíma er sjálfkjörinn í stjórn sjúkrasjóðsins. Ingibjörg hefur ekki áður komið að störfum fyrir Framsýn en hún starfaði áður hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Í  dag er hún starfsmaður Þekkingarnets Þingeyinga, hún er boðin velkomin í stjórn sjúkrasjóðsins. Með þeim á myndinni er Jónína Hermannsdóttir starfsmaður stéttarfélaganna og Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sem kom í opinbera heimsókn til Framsýnar á föstudaginn til að kynna sér starfsemina. Til fróðleiks má geta þess að Jónína og Aðalsteinn Leifsson eru þremenningar. Stjórn sjúkrasjóðsins kemur saman mánaðarlega til að úthluta sjúkradagpeningum og öðrum styrkjum til félagsmanna. Á síðasta ári úthlutaði stjórnin 77 milljónum til félagsmanna.

Ingibjörg var að taka þátt í sínum fyrsta fundi í stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar. Aðalsteinn og Dómhildur hafa setið í stjórn ásamt Einari Friðbergssyni sem gaf ekki kost á sér áfram þar sem hann hefur hætt störfum á vinnumarkaði.

Skrifað undir í dag

Framsýn og Fjallalamb hf. gengu í dag frá nýjum sérkjarasamningi fyrir starfsfólk við sauðfjárslátrun í haust. Samningurinn byggir á gildandi kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að. Til stendur að slátra um þrjátíu þúsund fjár hjá Fjallalambi í haust. Sláturtíðin hefst 15. september og er ætlað að standa yfir í um sex vikur. Í heildina koma um sjötíu starfsmenn að slátruninni. Búið er að fullmanna sláturhúsið.

Þrátt fyrir mikið atvinnuleysi á Íslandi tókst ekki að manna sláturhúsið nema með því að flytja inn um tuttugu starfsmenn. Fram að þessu hefur þurft að ráða um 40 erlenda starfsmenn til starfa hjá Fjallalambi en í ár verða þeir helmingi færri þar sem um 20 starfsmenn á íslenskum vinnumarki réðu sig til starfa á Kópaskeri í haust sem er að sjálfsögðu jákvætt.

Nýr sérkjarasamningur var undirritaður á Kópaskeri í dag sem gildir fyrir starfsfólk við sauðfjárslátrun hjá Fjallalambi í haust.

 

Hjálparsíminn 1717 fyrir pólskumælandi

Næstkomandi fimmtudag, 3. september verður opnuð þjónusta fyrir pólskumælandi einstaklinga á Hjálpasíma Rauða krossins 1717 og netspjallinu www.1717.is

Þjónustan verður opin á fimmtudögum frá kl. 20-23 framvegis.

Hópur pólskumælandi sjálfboðaliða hefur gengið til liðs við verkefnið og hlotið alla viðeigandi þjálfun til að sinna svörun. Úrræðið verður auglýst á ýmsum miðlum. Markmið okkar er að ná til pólskumælandi einstaklinga sem búa hér á landi en einnig teljum við mikilvægt að koma þessum skilaboðum til allra er málið gæti varðað. Við teljum verkefnið þarft með tilliti til þess hve stór hópur pólskumælandi einstaklinga býr á Íslandi og með stuðningi frá félagsmálaráðuneytinu erum við í stakk búin til að sinna þessum stóra hópi fólks sem telur nú yfir 20 þúsund einstaklinga.

Ef þú vilt birta upplýsingar úr þessum pósti á þínum miðli og koma úrræðinu þannig á framfæri er það velkomið. Í viðhengi má finna “logo” verkefnisins á pólsku og á heimasíðunni má finna ítarlegri upplýsingar og myndir.

Skipt um þak

Atvinnuástand hjá iðnaðarmönnum í Þingeyjarsýslum hefur almennt verið mjög gott, sérstaklega í byggingariðnaði. Töluvert hefur verið um húsbyggingar og viðhald á eldra húsnæði. Þessir tveir heiðursmenn sem báðir starfa hjá Trésmiðjunni Rein, Sigmar Stefánsson og  Artur Ostaszewski, voru að skipta um þak á húsi við Álfhólinn á Húsavík þegar starfsmaður stéttarfélaganna átti þar leið hjá í góða veðrinu sem verið hefur hér Norðanlands undanfarnar vikur.

Það er eins gott að veðrið sé gott þegar skipt er um þak á húsi sem þessu.

Ríkissáttasemjari í heimsókn á Húsavík

Sá ágæti maður, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, kom í opinbera heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna á föstudaginn. Tilefni heimsóknarinnar var að fræðast um starfsemi aðildarfélaga skrifstofunnar, Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur. Auk þess tók hann fund með forstjóra PCC á Húsavík, Rúnari Sigurpálssyni.  Að sjálfsögðu var Aðalsteini vel tekið og ekki var annað að heyra en að hann hefði verið ánægður með heimsóknina.

Þess má geta að Aðalsteinn Leifsson tók við embætti ríkissáttasemjara 1. apríl 2020. Skipun Aðalsteins í embættið er til fimm ára.

Aðalsteinn lauk MBA námi frá Edinburgh Business School / Herriot Watt University í október 2004. Auk þess hefur hann lokið MSc námi frá London School of Economics (LSE). Þá stundaði hann doktorsnám í samningatækni hjá Grenoble École de Management samhliða vinnu á árunum 2016-2018.

Frá því í janúar 2014 hefur Aðalsteinn starfað sem framkvæmdastjóri hjá EFTA, sem hefur starfstöðvar í Genf, Brussel og Luxemburg. Samhliða störfum sínum hjá EFTA hefur Aðalsteinn verið lektor í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann hefur meðal annars kennt samningatækni og lausn deilumála í MBA-námi.

Aðalsteinn hefur verið aðstoðarsáttasemjari hjá embætti ríkissáttasemjara frá því í byrjun árs 2019 en þá tók hann þátt í sáttamiðlun vegna kjarasamningagerðar á almennum vinnumarkaði. Hann hefur veitt embættinu liðsinni og verið til ráðgjafar auk þess að sitja fundi með samningsaðilum.

Aðalsteinn hefur því víðtæka þekkingu á samningamálum og er höfundur bókar um samningatækni. Auk fræðilegrar þekkingar hefur hann reynslu af þátttöku í samningaviðræðum, kennslu í samningatækni, ráðgjöf við samningsaðila og aðstoð við deiluaðila við að bæta samskipti.

Eins og meðfylgjandi mynd ber með sér áttu nafnarnir góðar samræður en þess má geta til fróðleiks að Aðalsteinn Leifsson er ættaður frá Bakka við Húsavík.

Ánægja með starfsemi Þingiðnar

Aðalfundur Þingiðnar var haldinn miðvikudaginn 26. ágúst. Jónas Kristjánsson formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann spurði hvort fundarmenn hefðu athugasemdir við boðun fundarins sem hefði verið auglýstur með góðum fyrirvara á heimasíðu félagsins og síðar í Skránni. Ekki komu fram athugasemdir við boðun fundarins. Því næst gerði hann tillögu um að Aðalsteinn Árni stjórnaði fundi og ritaði fundargerð. Tillaga formanns var samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  • Skýrsla stjórnar
  • Ársreikningar
  • Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
  • Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
  • Lagabreytingar
  • Ákvörðun árgjalda
  • Laun stjórnar
  • Kosning löggilts endurskoðanda
  1. Önnur mál

Niðurstöður fundarins:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. a) Skýrsla stjórnar

Formaður flutti skýrslu stjórnar:

Fundir
Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 1. júlí 2019 voru 23. Formaður félagsins hefur verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s. á vegum Lsj. Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar. Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins. Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins á síðasta kjörtímabili 2018-2020: Jónas Kristjánsson, Vigfús Þór Leifsson, Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson.

Fullgildir félagsmenn
Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2019 voru 123, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins.  Greiðandi félagsmenn voru 113 á árinu 2019; 111 karlar og 2 konur. Þess utan voru gjaldfrjálsir félagsmenn 10 á síðasta ár. Þess ber að geta að nú er aftur komið jafnvægi á fjölda félagsmanna eftir stórframkvæmdirnar á Bakka og á Þeistareykjum. Félagsmönnum fjölgaði verulega meðan á framkvæmdunum stóð en hefur heldur fækkað frá þeim tíma sem á sínar eðlilegu skýringar enda framkvæmdum að mestu lokið í dag. Töluvert hefur verið um nýbyggingar á svæðinu undanfarið sem hefur tryggt gott atvinnuástand meðal iðnaðarmanna.

Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 15.233.547 sem er 23,3% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir á árinu 2019 námu kr. 7.027.788 þar af úr sjúkrasjóði kr. 5.833.032 sem er umtalsverð hækkun frá fyrra ári sem skýrist að mestu af greiðslu sjúkradagpeninga til félagsmanna. Á árinu 2019 fengu samtals 67 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Árið áður fengu 43 félagsmenn greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 7.170.794 og eigið fé í árslok 2019 nam kr. 240.561.201 og hefur það aukist um 3,0% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.107.228 sem er þó nokkur lækkun milli ára. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma að undanskildum örfáum tilvikum þar sem ítreka þarf skil á iðgjöldum til félagsins.

Orlofsmál
Í gegnum tíðina hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið í sumar með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands eftir ekki síst erfiða tíma er tengjast veðurfari í vetur og heimsfaraldri sem takmarkar að menn geti ferðast erlendis í frí vegna ferðatakmarkana milli landa. Þingiðn hvetur því til þess að félagsmenn ferðist innanlands í sumar. Liður í því er að stórauka framboð varðandi gistimöguleika og þá samþykktu stéttarfélögin að lækka leiguverð á orlofshúsum og íbúðum í sumar úr kr. 28.000,- í kr. 20.000,-. Til stóð að hækka það í kr. 29.000,- sumarið 2020. Þannig vildu félögin jafnframt koma til móts við félagsmenn sem margir hverjir hafa orðið fyrir verulegum tekjuskerðingum vegna Covid-19. Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum 1-3 í Kópavogi og gengur rekstur hennar mjög vel. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum stéttarfélaganna. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl. Þá fengu 16 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 323.845,-. Stéttarfélögin stóðu fyrir dagsferð í Flateyjardal haustið 2019 sem Ósk Helgadóttir skipulagði með formanni Þingiðnar og starfsfólki stéttarfélaganna. Ferðin tókst í alla staði mjög vel og tóku tæplega 30 manns þátt í ferðinni. Vegna heimsfaraldursins sem við Íslendingar höfum orðið að takast á við var ákveðið að hætta við ferð í sumar. Til stóð að bjóða upp á dagsferð um Demantshringinn. Vonandi verður hægt að bjóða upp á góða ferð sumarið 2021. Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 10.300,- per flugmiða. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sé ekki síst samningur stéttarfélaganna við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma. Reikna má með því að verðið á flugmiðum til félagsmanna hækki í kr. 10.900,- í vetur.

Þorrasalir 1-3
Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.

Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn í gegnum nýja fræðslusjóðinn sem félagið stofnaði til 2018.  Á síðasta ári fengu 6 félagsmenn styrki úr sjóðnum til náms/námskeiða samtals kr. 311.711.

Málefni sjúkrasjóðs
Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 5.833.032 á árinu 2019 sem er veruleg hækkun milli ára. Árið 2018 voru greiddar kr. 3.922.164 í styrki til félagsmanna.

Greiðslur til 67 félagsmanna árið 2019 skiptast þannig:

Almennir sjúkrastyrkir                                  kr. 1.808.028,-
Sjúkradagpeningar                                       kr. 4.025.004,-.

Kjaramál
Eins og kunnugt er var skrifað undir nýjan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 3. maí 2019 með gildistíma til 1. nóvember 2022. Megin áherslur iðnaðarmanna í samningunum var að tryggja þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum og tryggja forsendur fyrir áframhaldandi kaupmætti á samningstímanum, uppfæra kauptaxtakerfið og stytta vinnuvikuna. Frá undirskrift kjarasamningsins hefur verið lögð vinna í á vegum Samiðnar að útfæra launakerfið. Þá hefur einnig verið unnið í því að útfæra styttingu vinnuvikunnar. Í fyrsta lagi var tekinn upp virkur vinnutími frá 1. apríl 2020 sem þýðir að virkur vinnutími verður 37 vinnustundir sem hækkar tímavinnu einingu í dagvinnu um 8,33% en heildarlaun verða óbreytt miðað við 40 vinnustundir. Frá sama tíma varð breyting á yfirvinnu og verður hún frá þeim tíma tvískipt. Yfirvinna eitt, sem er fyrir 16 yfirvinnustundir á fjögra vikna launatímabili, og yfirvinna tvö, sem greiðist fyrir vinnutíma umfram 41 virka klst. á viku að meðaltali á launatímabili /mánuði. Yfirvinna tvö er einnig greidd fyrir vinnu á nóttu á tímabilinu frá kl. 00.00-06.00. Þann 1. janúar 2021 er gert ráð fyrir að stigið verði skref tvö en þá opnast möguleiki á að semja um styttingu vinnuvikunnar í 36 vinnustundir. Takist ekki að útfæra vinnutímastyttingu í fyrirtækjasamningum styttist vinnuvikan 1. janúar 2022 í 36 stundir og 15 mínútur. Vitað er að hluti fyrirtækja á félagssvæði Þingiðnar hafa tekið nýja kerfið upp meðan önnur fyrirtæki hafa haldið í gamla kerfið. Þá hefur tvískipt yfirvinna flækt málið hjá verktökum sem selja út starfsmenn í vinnu þar sem gera þarf ráð fyrir mismunandi yfirvinnukaupi hjá starfsmönnum við útreikninginn á útseldri vinnu.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið  í gangi á svæðinu. Það sama verður því miður ekki sagt um aðrar atvinnugreinar á svæðinu þar sem Covid- 19 hefur haft veruleg áhrif á starfsemi s.s. ferðaþjónustuaðila. Þá hefur PCC á Bakka boðað uppsagnir á næstu vikum vegna markaðsmála og Covid- 19. Það mun hafa áhrif á einhverja félagsmenn Þingiðnar. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu viðunandi er varðar iðnaðarmenn. Vitaskuld koma annað slagið upp mál sem krefjast viðbragða, við það verður ekki sloppið. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna. Það sést til dæmis á því að forsvarsmenn fyrirtækja sem koma með starfsemi inn á svæðið leita mikið eftir aðstoð og þjónustu stéttarfélaganna. Í dag eru stéttarfélögin með starfsmann í hálfu starfi við vinnustaðaeftirlit.

Hátíðarhöldin 1. maí
Í fyrsta skiptið síðan 1923 hafði íslenskt launafólk ekki tækifæri á að safnast saman 1. maí 2020 til að leggja áherslur á kröfur sínar vegna takmarkana sem heilbrigðisyfirvöld á Íslandi fyrirskipuðu og tengjast Covid- 19 veirunni. Árið 1923 fóru menn í fyrstu kröfugönguna 1. maí undir lúðrablæstri og rauðum fánum. Dagurinn varð síðan lögskipaður frídagur á Íslandi 1972. Eðlilega urðu stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum að fella niður hefðbundna dagskrá í Íþróttahöllinni á Húsavík í ár. Hátíðarhöldin voru því með óhefðbundnu sniði vegna þessara sérstöku aðstæðna. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna slógust í hóp heildarsamtaka launafólks sem voru með útsendingu frá sérstakri skemmti- og baráttusamkomu sem fram fór í Hörpu að kvöldi 1. maí. Viðburðinum var sjónvarpað í gegnum Ríkissjónvarpið. Að dagskránni í sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum stóðu: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ. 

Starfsemi félagsins
Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra:

  • Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn. Íslandsbanki hefur nú óskað eftir endurskoðun á vaxtakjörum stéttarfélaganna í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Viðræður eru framundan en sex mánaða uppsagnarfrestur er á núverandi samningi.
  • Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna stóðu fyrir opnu húsi á aðventunni í desember líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á kaffi, tertur og tónlistaratriði. Fjölmargir lögðu leið sína til stéttarfélaganna og þáðu veitingar.
  • Félagið kom að því að styðja aðeins við bakið á íþróttastarfi Völsungs með auglýsingu.
  • Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á leiksýningu á vegum Leikfélags Húsavíkur.
  • Félagið hefur komið að kynningum á starfsemi stéttarfélaga í grunnskólum á félagssvæðinu með Framsýn stéttarfélagi.
  • Félagið kom að því að styrkja kaup Slökkviliðs Norðurþings á búnaði til nota til björgunar á fólki sem lent hefur t.d. í rútuslysum eða óhöppum annarra stærri farartækja. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna lögðu verkefninu til kr. 250.000,-.
  • Félagið kom að því að styrkja Sjúkraþjálfun Húsavíkur til kaupa á nýjum búnaði fyrir sjúkraþjálfun í Hvammi. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna lögðu verkefninu til kr. 750.000,-, þar af Þingiðn kr. 300.000,-.
  • Félagið kom að því að styrkja Velferðarsjóð Þingeyinga um kr. 50.000,- enda sjóðurinn mikilvægur í samfélaginu.
  • Samþykkt var að styrkja Björgunarsveitina Garðar um kr. 250.000,-. 

Samkomulag við Flugfélagið Erni
Í desember 2019 endurnýjuðu stéttarfélögin samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið byggir m.a. á því að stéttarfélögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna. Flugmiðarnir hafa verið seldir á kostnaðarverði og eru aðeins ætlaðir félagsmönnum. Þeir einir geta ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir félagsmenn sína  þegar horft er til þess að stéttarfélögin hafa sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan þau hófu að selja félagsmönnum flugmiða á þessum hagstæðu kjörum. Með endurnýjuðu samkomulagi við flugfélagið í lok síðasta árs hafa stéttarfélögin tryggt félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör út árið 2020. Verð til félagsmanna hefur verið kr. 10.300,- per flugmiða/kóða en mun hækka síðar á árinu upp í kr. 10.900,- samkvæmt samkomulaginu.

Húsnæði stéttarfélaganna
Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf. Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru öll leigurými í notkun. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26 sem áður var í eigu félagsmanna.

Covid- 19
Óhætt er að segja að heimsfaraldurinn Covid- 19 hafi haft veruleg áhrif á heimsbyggðina og þar með Ísland, sem ekki er séð fyrir endann á.  Vegna tilmæla frá heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi um að allir legðust á eitt með að sporna gegn útbreiðslu veikinnar var ákveðið að loka Skrifstofu stéttarfélaganna frá 25. mars til  4. maí í varúðarskyni. Það er að verja starfsmenn og félagsmenn gegn hugsanlegu smiti. Þrátt fyrir að skrifstofan væri formlega lokuð mætu starfsmenn stéttarfélaganna til starfa með hefðbundnum hætti. Félagsmenn stéttarfélaganna tóku þessari ákvörðun vel. Í stað þess að koma í heimsókn á skrifstofuna höfðu þeir samband í gegnum síma eða með því að vera í tölvusambandi. Nokkrir komu reyndar á gluggann á skrifstofunni í leit að upplýsingum og þá var póstkassa komið fyrir við úthurðina fyrir gögn frá félagsmönnum.  Meðan lokað var fyrir aðgengi að skrifstofunni var mikið leitað eftir þjónustu. Fjölmargir félagsmenn stéttarfélaganna leituðu til félagsins á tímabilinu sem og atvinnurekendur á félagssvæðinu. Gerðu starfsmenn sitt besta til að þjónusta viðskiptavini og segja má að staðin hafi verið nánast 24/7 vakt. Það er félagsmenn gátu nálgast upplýsingar hjá starfsmönnum skrifstofunnar nánast hvenær sem er. Vissulega var álagið á starfsmönnum mikið enda að takast á við heimsfaraldur og með fjölmarga félagsmenn í óvissu sem voru meðal annars að missa vinnuna eða fara á hlutabætur á móti skertu starfhlutfalli hjá fyrirtækjum sem urðu að bregðast við heimsfaraldrinum. Stéttarfélögin ákváðu að koma til móts við félagsmenn með ýmsum hætti í ljósi ástandsins sem skapast vegna Covid- 19. Meðal annars með auknum framlögum í formi styrkja og þjónustu við félagsmenn. Tekin var ákvörðun um að lækka leiguverð í orlofshúsum sumarið 2020, það er úr kr. 28.000,- í kr. 20.000,-. Til stóð að hækka það í kr. 29.000,- sumarið 2020.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Í samvinnu Virk og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Ágúst Sigurður Óskarsson hefur annast þá þjónustu. Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu. Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur, fyrirtæki og stofnanir sem eru virk og tilbúin í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest og gefa nýjum starfsmönnum tækifæri. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur. Formleg þjónusta við einstaklinga á vettvangi Virk hefst með tilvísun frá lækni (oftast heimilislækni/lækni heilsugæslu). Þingiðn og samstarfsstéttarfélög í Þingeyjarsýslum eiga virkt samstarf við Virk – starfsendurhæfingarsjóð um skipulag og stuðning við þjónustuna. Á síðustu misserum hefur byggst upp gott samstarf um miðlun verkefna og samstarf ráðgjafa við Eflingu – stéttarfélag. Starfsmaður Virk á Húsavík hefur að hluta starfað sem ráðgjafi á félagssvæði Eflingar. Á heimasíðu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er mikið af fræðslu- og stuðningsefni um starfsendurhæfingu, forvarnarstarf á vinnustöðum og jákvæða virkni, sjá www.virk.is og www.velvirk.is. Þar er einnig að finna Ársrit Virk sem inniheldur yfirlit um starfsemi hvers árs og gagnlegt efni á sviði starfsendurhæfingar.  Ráðgjafi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum er Ágúst Sigurður Óskarsson og er hann til staðar á Skrifstofu Framsýnar á Húsavík, sími 464-6600 og netfang virk@framsyn.is. 

Málefni skrifstofunnar
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur og Framsýn. Þar starfa 7 starfsmenn í 5,9 stöðugildum. Vegna veikinda á skrifstofunni var Elísabet Gunnarsdóttir ráðin tímabundið til starfa sem fjármálastjóri. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórnir félaganna, starfsmenn og félögin í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta til dæmis kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Vinnustaðaheimsóknir voru fjölmargar á síðasta ári. Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Til skoðunar er að skipta út núverandi bifreið stéttarfélaganna og kaupa þess í stað nýjan/nýlegri bíl til nota fyrir félögin. Þá má geta þess að ákveðið var að semja við Sjóvá um tryggingar fyrir stéttarfélögin á síðasta ári. Þar áður voru stéttarfélögin með tryggingarnar hjá VÍS.

Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu. Full ástæða er til að þakka Kristni Bjartmari Gunnlaugssyni, sem nú hverfur úr stjórn félagsins, sérstaklega fyrir störf hans í þágu félagsins í gegnum tíðina. Kiddi hefur verið virkur í starfinu og mætt á nánast alla stjórnarfundi á vegum Þingiðnar.

b) Ársreikningar
Fundarstjóri, Aðalsteinn Árni, gerði grein fyrir ársreikningum félagsins.

Fram kom að reksturinn hefur gengið mjög vel, ekki síst þar sem aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna vinna náið saman að verkalýðsmálum. Meðal annars með því að reka sameiginlega skrifstofu. Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 15.233.547 sem er 23,3% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir á árinu 2019 námu kr. 7.027.788 þar af úr sjúkrasjóði kr. 5.833.032 sem er umtalsverð hækkun frá fyrra ári sem skýrist að mestu af greiðslu sjúkradagpeninga til félagsmanna. Á árinu 2019 fengu samtals 67 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Árið áður fengu 43 félagsmenn greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 7.170.794 og eigið fé í árslok 2019 nam kr. 240.561.201 og hefur það aukist um 3,0% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.107.228 sem er þó nokkur lækkun milli ára. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma að undanskildum örfáum tilvikum þar sem ítreka þarf skil á iðgjöldum til félagsins.

c) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Almennar umræður urðu um skýrslu stjórnar og ársreikninga. Í máli fundarmanna kom fram almenn ánægja með reksturinn. Fram kom hjá fundarstjóra að Íslandsbanki hefði á dögunum boðað uppsögn á vaxtakjörum sem félagið hefði haft undanfarin ár. Uppsögnin væri gerð með sex mánaða fyrirvara. Framundan væru viðræður við bankann um áframhaldandi viðskipti og vaxtakjör. Eftir umræður var ársreikningurinn borinn upp og samþykktur samhljóða.

Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári var samþykkt samhljóða.

d) Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu

Tillaga Kjörnefndar um félagsmenn í trúnaðarstöður fyrir félagið næsta kjörtímabil 2020-2022 skoðast samþykkt þar sem ekki hafa borist aðrar tillögur um félagsmenn í trúnaðarstöður innan félagsins.

Tillaga um að starfsmenn félagsins sjái áfram um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar milli aðalfunda var samþykkt samhljóða.

e) Lagabreytingar

Engar lagabreytingar voru lagðar fram á fundinum.

f) Ákvörðun árgjalda

Tillaga stjórnar um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum var samþykkt samhljóða.

Tillaga stjórnar um að iðgjald félagsmanna í fræðslusjóð félagsins verði óbreytt milli ára, það er 0,3% af launum var samþykkt samhljóða.

g) Laun stjórnar

Tillaga um að laun stjórnar verði óbreytt milli ára. Það er þrír tímar á hærri yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins var samþykkt samhljóða.

h) Kosning löggilts endurskoðanda

Tillaga um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjái um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2020 var samþykkt samhljóða.

2. Önnur mál
Fundarstjóri gerði fundarmönnum grein fyrir því að ríkissáttasemjari, Aðalsteinn Leifsson, væri væntanlegur í heimsókn til Húsavíkur á föstudaginn. Tilgangur heimsóknarinnar væri að heilsa upp á stéttarfélögin og atvinnurekendur á svæðinu. Lagt fram til kynningar.

Formaður kallaði Kristinn B. Gunnlaugsson upp og þakkaði honum fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Hann sagði Kidda hafa verið lengi í stjórn og nánast komið á alla stjórnarfundi í gegnum tíðina, fyrir það bæri að þakka um leið og hann afhendi honum smá glaðning frá félaginu. Kristinn þakkaði fyrir sig og sagði það hafa verið afar ánægjulegt að starfa fyrir félagið en hann er nú kominn á eftirlaun.

Í lok fundar fengu fundarmenn smá glaðning frá félaginu, boli og handklæði um leið og formaður sleit fundi og þakkaði fundum sem og fundarstjóra fyrir góðan fund.

Kiddi hefur lengi starfað fyrir Þingiðn, hann fékk smá glaðing frá félaginu fyrir vel unninn störf í þágu félagsins. Með honum á myndinni er formaður Þingiðnar, Jónas Kristjánsson.