Bókað um málefni AÞ í Byggðaráði Norðurþings

Fyrr í sumar fjallaði Byggðaráð Norðurþings um málefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Framkvæmdastjóri SSNE, Eyþór Björnsson var kallaður til en Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammstafað SSNE, var stofnað 2020 við sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings. Starfssvæði samtakanna afmarkast af sveitarfélagamörkum allra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, frá Siglufirði í vestri að Bakkafirði í austri, að Tjörneshrepp undanskildum.

Það er ekki bara að Framsýn hafi haft áhyggjur af stöðunni og framvindu mála, sé tekið mið af umræðunni sem varð á fundi Byggðaráðs Norðurþings og meðfylgjandi bókun ber með sér frá Hjálmari Boga Hafliðasyni.

Hjálmar Bogi óskar bókað;
„Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammstafað SSNE, var stofnað 2020 við umdeilda sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hafði unnið gott starf með góða tengingu við verkalýðshreyfinguna sem og fulltrúa atvinnurekanda í Þingeyjarsýslu. Sameiningin var keyrð í gegn af meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings án fullnægjandi raka. Fram kemur á vefsíðu samtakanna að heimili og varnarþing samtakanna er á skrifstofu SSNE á Húsavík, eftir ítrekanir að hálfu minnihluta sveitarstjórnar. Hlutverk SSNE er að þjónusta sveitarstjórnir og atvinnulíf á starfssvæði landshlutasamtakanna. Samtökin áttu m.a. að taka við hlutverki Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga (AÞ) á sviði atvinnuþróunar. Dregið hefur úr mætti og starfsemi SSNE, sem tók við hlutverki AÞ. Ljóst má vera mikilvægi þess að endurmeta stöðuna og rýna til gagns. Starfsmaður SSNE sem sinna á atvinnumálum hefur látið af störfum en hann hafði ekki búsetu á Húsavík eða nágrenni, þrátt fyrir að um það hafi verið gefið vilyrði. Fram kom í erindi frá SSNE að félagið hyggst staðsetja starfsmann á Húsavík sem sinni menningarmálum félagsins. Hvar var sú ákvörðun tekin? Hvernig var stöðumati háttað þar sem fram kemur þörf fyrir slíkt starf á Húsavík umfram starf sem felur í sér aðra þætti s.s. atvinnumál og -uppbyggingu á þeim tækifærum sem hér finnast. Rétt er að benda á að ekkert samráð hefur verið haft við kjörna fulltrúa í sveitarstjórn Norðurþings vegna framangreindrar breytingar. Slíkt vekur óneitanlega furðu og ekki líklegt til að skapa samstöðu og traust.“

Hægt er að lesa um afstöðu annarra fulltrúa í Byggðaráði Norðurþings varðandi starfsemi SSNE með því að fara inn á heimasíðu sveitarfélagsins, skorað er á menn að gera það. Þá má geta þess að Framsýn mun í ljósi umræðunnar á fundi byggðaráðs kalla eftir frekari upplýsingum frá SSNE um starfsemi samtakanna í Þingeyjarsýslum. Bréf þess efnis fer  frá félaginu í dag. Nánar um það á heimasíðunni á morgun.

Deila á