Hitafundur á Húsavík

Nýlega lagði Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra, þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, svo eitthvað sé nefnt, leið sína til Húsavíkur. Tilgangurinn var að heimsækja formann Framsýnar og ræða við hann þjóðmálin og önnur aðkallandi mál. Eins og kunnugt er, er Guðni ekki síst áhugamaður um landbúnaðarmál, málefni eldri borgara og samgöngumál. Vel fór á með þeim félögum sem skiptust á skoðunum í blíðunni á Húsavík. Með Guðna í för voru feðgarnir Ágúst og Guðjón Ragnar Jónasson. Þrátt fyrir að fundurinn hafi farið vel fram má segja að hann hafi verið hitafundur enda um 20 gráður á mæli þegar gestirnir tóku hús á formanni Framsýnar sem bauð þeim upp á kaffi, vatn og meðlæti.  

Að sjálfsögðu var tekinn göngutúr um Húsavík. Þessir tveir snillingar eru ekki skoðanalausir, það er; Þráinn Gunnarsson og Hannes Höskuldsson sem tóku tal við Guðna sem sagði alla vera Framsóknarmenn inn við beinið. Væntanlega eru Þráinn og Hannes ekki alveg sammála því.

Guðni og félagar gáfu sér líka tíma til að líta við í Grobbholti þar sem forystuærin Elding tók vel á móti gestunum að sunnan.

Deila á