Nýju persónuverndarlög­in hafa ekki áhrif á upp­lýs­inga­gjöf til eftirlitsfulltrúa

Eitthvað hefur borið á því að fyrirtæki beri fyr­ir sig nýja per­sónu­vernd­ar­lög­gjöf og vilji ekki láta af hendi upp­lýs­ing­ar um launa­kjör og rétt­indi starfs­manna þegar eft­ir­litsaðilar á veg­um Alþýðusambands Íslands. Dæmi eru um að séttarfélög hafi staðið í stappi við fyrirtæki vikum og jafnvel mánuðum saman vegna þessa.

Nú hefur Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, skorið úr um það að nýju persónuverndarlögin eigi ekki að koma í veg fyrir fyrir að eftirlitsfulltrúar stéttarfélaganna geti aflað þeirra upplýsinga sem þeir þurfa að fá til þess að sannreyna að starfsfólk séu á launakjörum samkvæmt kjarasamningum.

Nánar má lesa um málið í frétt Morgunblaðsins sem lesa má hér.

Mynd tekin af visir.is

Konur taka af skarið

„Konur taka af skarið“ eru námskeið/samtalsfundir sem AkureyrarAkademían, Jafnréttisstofa, Starfsgreinasambandið og JCI Sproti standa fyrir. Síðastliðinn laugardag var fyrsta námskeiðið af sex haldið í sal Einingar Iðju á Akureyri, en samskonar námskeið verða haldin á Egilsstöðum, Selfossi, Reykjavík, Ísafirði og Borgarnesi á næstunni. Það er Jafnréttissjóður Íslands sem styrkir þetta verkefni, en markmið þess er að hvetja konur til þátttöku og áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar. Vel var mætt á þetta fyrsta námskeið og norðlenskar konur höfðu gaman saman og áttu ekki einungis skemmtilegan, heldur ekki síður fróðlegan dag þar sem dagskráin var sérlega áhugaverð.

Berglind Þrastardóttir stjórnarformaður AkureyrarAkademíunnar var fundarstjóri, bauð hún konur velkomnar og að því loknu var gengið til dagskrár. Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, hélt erindi um kynjakerfið undir yfirskriftinni „Að bjóða kynjakerfinu birginn“ og að því loknu fjallaði Drífa Snædal, nýkjörinn forseti ASÍ, um stöðu verkalýðsbaráttunnar í dag og ræddi hún einnig um uppbyggingu verkalýðsfélaganna.

Viktor Ómarsson, hjá JCI Sprota, eini karlmaðurinn á fundinum, hélt erindi um leiðtogaþjálfun og leiðbeindi þátttakendum um hvernig hægt er að hafa áhrif og koma sínu á framfæri. Fjallaði hann einnig um fundarsköp og fundarstjórnun og lagði fyrir nokkur verkefni af því tagi.

Að síðustu spjallaði Drífa Snædal um reynslu sína og upplifun af því að vera kona starfandi innan verkalýðshreyfingarinnar.

Námskeiðin „Konur taka af skarið“ eru opið öllum félagskonum í Starfsgreinasambandi Íslands og starfsmannafélögum sveitarfélaganna, þeim að kostnaðarlausu.

Þrjár konur sem jafnframt eru félagsmenn í Framsýn tóku þátt í námskeiðinu.

 

Fjarvistaruppbót landvarða

Þeir landverðir sem starfað hafa hjá Vatnajökulsþjóðgarði – á vinnustöðum í óbyggðum- frá árinu 2011 og ekki verið í samband við sitt stéttarfélag s.s.  Framsýn, landvarðafélagið eða Starfsgreinasambandið vegna greiðslu fjarvistaruppbótar eru beðnir um að gera það sem fyrst.
Eftir að greiðsla fjarvistaruppbótar var viðurkennd með dómi héraðsdóms Austurlands og staðfest hæstarétti https://www.asa.is/images/stories/DomarPDF/Fjarvistaruppbot2017.pdf gerðu félögin kröfu um greiðslu uppbótarinnar til allra sinna félagsmanna sem undir dóminn féllu.
Þrátt fyrir dóminn ætlar Vatnajökulsþjóðgarður ekki að greiða uppbótina nema til þeirra landvarða sem hjá þeim hafa starfað nema þeir kalli eftir því sjálfir. Nokkrir landverðir hafa verið í sambandi og er unnið að því með lögmanni að leysa úr þeirra málum og nú sendum við út þetta ákall í þeirri von að ná til þeirra sem ekki hafa haft samband.

Skipting eftirlaunaréttinda milli hjóna

Starfsmenn stéttarfélaganna fá reglulega fyrirspurnir frá félagsmönnum varðandi það hvort hjón geti gert samkomulag um skiptingu á eftirlaunagreiðslum eða eftirlaunaréttindum.

Í lögum um lífeyrissjóði er ákvæði sem heimilar hjónum og sambúðarfólki að gera samkomulag um skiptingu á eftirlaunagreiðslum eða eftirlaunaréttindum. Ákvæðið er hugsað sem jafnréttis- eða sanngirnismál, til að jafna réttindi þeirra sem verið hafa í á vinnumarkaði og þeirra sem hafa verið heimavinnandi. Skiptingin getur numið allt að 50% af eftirlaunaréttindum og hún skal vera gagnkvæm sem þýðir að ekki er hægt að skipta aðeins réttindum annars aðilans.

Heimilt er að skipta réttindum til eftirlauna með þrennum hætti:

Lífeyrisgreiðslum skipt

Greiðslur sjóðfélaga renna þá allt að hálfu til maka eða fyrrverandi maka. Þetta er tímabundin ráðstöfun á meðan báðir aðilar eru á lífi.

Áunnum lífeyrisréttindum er skipt

Gera þarf samninginn fyrir 65 ára aldur og áður en lífeyristaka hefst. Ef sjúkdómar eða heilsufar draga úr lífslíkum er hægt að gera slíkan samning.

Framtíðarréttindum er skipt

Sjálfstæð réttindi myndast fyrir maka til að jafna lífeyrisréttindi til framtíðar.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir í hverju skiptingin er fólgin áður en hún er ákveðin. Eingöngu er verið að skipta rétti til eftirlauna. Réttur til örorku og makalífeyris helst óbreyttur. Í þeim tilfellum þar sem um er að ræða ævilangan makalífeyri má segja að búið sé að jafna réttindi að nokkru leyti.

Tekjutenging Tryggingastofnunar gagnvart greiðslum frá lífeyrissjóðum getur einnig flækt málið. Skiptingin getur valdið því að heildargreiðslur til sjóðfélaga og maka frá Tryggingastofnun lækka en óljóst er hvernig Tryggingastofnunar kunna að breytast í framtíðinni.

Frekari upplýsingar má finna á vefnum lifeyrismal.is og samantekt Stapa um makasamninga sem birt var í frétt hjá sjóðnum.

Sjóðfélagalán til félagsmanna

Félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar eiga rétt á lánum hjá Lsj. Stapa enda séu þeir sjóðfélagar. Stapi veitir lán gegn veði í fasteign í eigu sjóðfélaga. Lánsrétt eiga sjóðfélagar sem greiða eða hafa greitt til samtryggingar- eða séreignardeildar sjóðsins. Umsóknir og upplýsingar um lánareglur, vexti o.fl. er að finna á heimasíðu sjóðsins. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á lan@stapi.is eða hafa samband í síma 4604500.

 

Jólabærinn Húsavík – mikil ásókn í jólahlaðborð

Svo virðist sem straumurinn liggi til Húsavíkur í desember á jólahlaðborð. Samkvæmt upplýsingum frá Fosshótel Húsavík hafa tæplega þúsund manns boðað komu sína í jólahlaðborð hjá hótelinu og koma gestirnir víða að. Án efa er bæði um að ræða íslands- og heimsmet. Svo virðist sem þrennt hafi þar sérstaklega áhrif, glæsilegt jólahlaðborð sem gerist ekki betra, frábært og nýupptekið hótel og þá skemma Sjóböðin ekki fyrir sem njóta mikilla vinsælda.

Það verða margir jólasveinar á ferðinni á Húsavík í desmeber, það er bæði alvöru jólasveinar og eins aðrir jólasveinar úr samfélaginu.

 

Stjórn Framsýnar kölluð saman til fundar

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar þriðjudaginn 13. nóvember kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Ungliðar innan Framsýnar-ung hafa einnig seturétt á fundinum. Mörg mál eru á dagskrá fundarins.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Kjaraviðræður við PCC
  4. Staða kjaraviðræðna SGS/LÍV við SA
  5. Þing ASÍ
  6. Skipan trúnaðarmanna hjá PCC
  7. Málefni Sjómannafélags Íslands/yfirlýsing
  8. Skipan í ungliðaráð Framsýnar
  9. Félagsfundur um ójöfnuð í þjóðfélaginu
  10. Gjöf til minningar um Hafliða Jósteinsson
  11. Jólafundur félagsins
  12. Jólaboð stéttarfélaganna
  13. Aðalfundur Sjómannadeildar
  14. Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks
  15. Íbúðakaup á Akureyri
  16. Húsnæði stéttarfélaganna/leiga á aðstöðu VÍS
  17. Námskeið- konur taka af skarið
  18. Námskeið á vegum Ríkissáttasemjara
  19. Önnur mál

Orlofsíbúðir teknar í gegn

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að mála íbúðir Framsýnar og Þingiðnar í Þorrasölum í Kópavogi. Verkinu mun ljúka á næstu dögum. Um er að ræða 5 íbúðir. Mjög góð nýting er á íbúðunum og eru þær í stöðugri útleigu til félagsmanna. Auk þessara íbúða á Framsýn eina íbúð í Reykjavík sem og Starfsmannafélag Húsavíkur.

 

 

Kjaraviðræður að hefjast við PCC

Kjaraviðræður stéttarfélaganna Framsýnar og Þingiðnar við PCC BakkiSilicon hf. hefjast í næstu viku. Starfsmenn stéttarfélaganna ásamt trúnaðarmönnum starfsmanna munu leggja lokahönd á kröfugerðina í dag. Þá hafa Samtök atvinnulífsins fallist á að funda með stéttarfélögunum um kröfugerðina um miðja næstu viku. Endanlegur fundartími verður ákveðinn í vikunni.

 

Að gefnu tilefni skal áréttað

Málefni Sjómannafélags Íslands hafa mikið verið til umræðu í fjölmiðlum undanfarið. Rétt er að taka fram að Sjómannafélag Íslands er sjálfstætt stéttarfélag sjómanna sem stendur fyrir utan Sjómannasamband Íslands, sem er samband sjómannafélaga á Íslandi sem hafa undirmenn innan sinna raða. Félagið er heldur ekki aðili að Alþýðusambandi Íslands. Þess má geta að Sjómannadeild Framsýnar á aðild að Sjómannasambandi Íslands og þar með Alþýðusambandi Íslands.

Sjómannafélag Íslands hét áður Sjómannafélag Reykjavíkur en tóku ákvörðun um að skipta um nafn og heitir nú Sjómannafélag Íslands. Eðlilega hefur þetta valdið töluverðum ruglingi meðal fólks og fjölmiðla sem fjallað hafa um innri málefni Sjómannafélags Íslands undanfarið. Félag sem er ekki í góðum málum sé tekið mið af fréttum síðustu daga.

SGS auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Starfsgreinasamband Íslands óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf framkvæmdastjóra. Um er að ræða afar fjölbreytt og krefjandi starf.

Starfssvið:

  • Stjórnun og ábyrgð á daglegum rekstri
  • Stefnumótun og framkvæmd ákvarðana
  • Umsjón með gerð og túlkun kjarasamninga
  • Umsjón með kynningarstarfi, útgáfu og samskiptum við fjölmiðla
  • Skipulagning samráðs og samstarfs aðildarfélaga
  • Samskipti við innlend og erlend aðildarfélög
  • Menntunar- og hæfniskröfur:
  • Menntun og reynsla sem nýtist í starfi
  • Reynsla af stjórnun og rekstri
  • Reynsla og þekking á málefnum stéttarfélaga og kjarasamningum
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogahæfileikar
  • Hæfni til að miðla upplýsingum í ræðu og riti
  • Góð kunnátta í íslensku, ensku og einu norðurlandamáliUmsóknarfrestur er til og með 15. november n.k.
  • Umsækjendur eru vinsamlegast beðnir að sækja um starfið á heimasíðu Capacent Ráðninga, www.capacent.is.
  • Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssamband innan ASÍ og samanstendur af 19 stéttarfélögum verkafólks með um 57 þúsund félagsmenn. Hlutverk sambandsins er að styðja og styrkja aðildarfélögin í þeirra starfi og hagsmunabaráttu félagsmanna þeirra. Skrifstofa sambandsins er í Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík.

Þing ASÍ samþykkti stefnur í nokkrum málaflokkum til næstu ára

Á nýafstöðnu þingi ASÍ var mörkuð stefna í þeim fimm málaflokkum sem voru sérstaklega til umfjöllunar á þinginu og í aðdraganda þess. Í maí og september voru farnar tvær hringferðir um landið og haldnir 18 fundir á 11 stöðum þar sem vel á sjötta hundrað manns í grasrót verkalýðshreyfingarinnar fjölluðu um málaflokkana fimm. Umfjöllun um þá var svo framhaldið á 43. þingi ASÍ þar sem 300 þingfulltrúar komu að vinnunni. Málaflokkarnir sem um ræðir eru eftirfarandi:

Tekjuskipting og jöfnuður
Húsnæðismál
Heilbrigðismál og velferð
Tækniþróun og skipulag vinnunnar
Jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs

Hér má sjá stefnuskjölin eins og þau voru samþykkt á 43. þingi ASÍ.

 

Yfirlýsing frá fjórum formönnum stéttarfélaga vegna vinnubragða Sjómannafélags Íslands

 

Undirritaðir formenn VR, Eflingar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness fordæma ólýðræðisleg vinnubrögð trúnaðarmannaráðs Sjómannafélags Íslands og brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu.

Stéttarfélög eru og eiga að vera skv. lögum nr. 80/1938, opin öllum sem starfa á því starfssvæði sem kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags ná yfir. Félagsaðildinni fylgja mikilvæg réttindi sem eru hluti af velferð launafólks á vinnumarkaði og hún tryggir vernd félagsmanna í samskiptum sínum við atvinnurekendur. Þetta kemur skýrt fram á heimasíðu Sjómannafélags Íslands þar sem sérstaklega er fjallað dagpeninga og styrki til félagsmanna, orlofskosti þeirra og aðgang að lögfræðiþjónustu svo fáein dæmi séu tekin. Stéttarfélagi er undir engum kringumstæðum heimilt að reka félagsmann úr félaginu og svipta hann þar með þessum réttindum.

Aðild að stéttarfélagi felur jafnframt í sér rétt til lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa i félaginu með málfrelsi, tillögurétti, atkvæðisrétti og kjörgengi. Krafa um greiðslu félagsgjalda í þrjú ár til þess að öðlast kjörgengi innan félagsins felur augljóslega í sér ólögmætar hömlur á frelsi og réttindi félagsmanna og slíkt þekkist ekki innan íslenskrar verkalýðshreyfingar.

Alvarleg brot félagsmanna gegn félaginu eins og t.d. ef hann vinnur með atvinnurekendum gegn hagsmunum þess geta í alvarlegustu undantekningar tilvikum leitt til þess að hömlur verði settar á atkvæðisrétt og kjörgengi. Skoðanaágreiningur og gagnrýni á störf félagsins eru ekki slík brot heldur skýrt merki um lýðræðislega þátttöku í starfsemi félagsins.

Leiða má af því líkur að skoðanir Heiðveigar á starfsemi Sjómannafélags Íslands og ákvörðun hennar um gefa kost á sér til formanns í félaginu sé ástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum af hálfu trúnaðarmannaráðs félagsins. Í því efni hefur hún einungis nýtt sér félagsbundin réttindi sín og stjórnarskrárvarið málfrelsi sem augljóslega hefur komið við kaunin á forystu félagsins. Þess vegna er mikilvægt að félagsmenn Sjómannafélags Íslands bregðist við samþykkt félagsins og mótmæli henni harðlega.

Verði þessi gjörningur ekki afturkallaður er Sjómannafélag Íslands að skrifa nýjan kafla í sögu verkalýðshreyfingarinnar sem ekki er sómi af. Formenn VR, Eflingar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness skora því á forystu Sjómannafélags Íslands að virða lög og reglur sem gilda almennt um starfsemi stéttarfélaga og kjörgengi félagsmanna á vegum verkalýðshreyfingarinnar og afturkalla ákvörðun sína um brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur þegar í stað.

Aðalsteinn Árni Baldursson, Framsýn stéttarfélag
Sólveig Anna Jónsdóttir, Efling stéttarfélag
Vilhjálmur Birgisson, Verkalýðsfélag Akraness
Ragnar Þór Ingólfsson, VR

 

 

Sláturtíð Norðlenska á Húsavík lokið

Sláturtíð Norðlenska á Húsavík lauk í gær, 30. október. Þetta er lengsta sláturtíð síðustu ára en slátrun hófst 30. ágúst.
Alls komu 120 starfsmenn til starfa við sláturtíðina þetta haustið og af 14 þjóðernum. Alls störfuðu 175 manns í sláturtíðinni í haust. Einungis einu sinni hefur fleiri gripum verið slátrað á Húsavík en 95.436 gripum var slátrað í haust sem er 78 gripum færri en í fyrra sem var metár í slátrun á Húsavík.
Meðalvigt dilka var með hærra móti þetta haustið en hún var 16,69 kíló. Miðað við fjölda af slátruðu fullorðnu fé má reikna með því að sauðfé hafi heldur fækkað á upptökusvæði Norðlenska á Húsavík. Það er þó ekki um verulega fækkun að ræða.

Einn innleggjanda á Húsavík, Sigurður Ágúst Þórarinsson í Skarðaborg, flokkar gripi sína.

Það var fleiru slátrað á Húsavík en sauðfé þetta haustið.

Pétur Óskar Skarphéðinsson stóð vaktina í fjárrétt Norðlenska á Húsavík í haust.

Ólafur Ingólfsson, Hlíð, ásamt Benedikt Hrólfi Jónssyni, aðstoðarréttarstjóra Norðlenska á Húsavík.

Heimild: Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík.

 

Öskubuskuævintýri á þingi ASÍ

Óhætt er að segja að þing Alþýðusambands Íslands sem fram fór í síðustu viku hafi verið tímamótaþing. Þingið sjálft fór vel fram en mikil spenna var í loftinu varðandi kjör í flest embætti innan ASÍ. Tæplega 300 fulltrúar tóku þátt í þinginu frá aðildarfélögum sambandsins. Að lokum fór svo að verulegar breytingar urðu á kjöri fólks í trúnaðarstöður fyrir ASÍ. Miðað við niðurstöðurnar var ákall um verulegar breytingar, fólk sem starfað hefur lengi innan ASÍ í stjórnum og ráðum náði ekki kjöri þrátt fyrir að sækjast hart eftir því. Segja má að róttæku öflin innan Alþýðusambandsins hafi unnið fullnaðar sigur svo vitnað sé í fréttaskýringu Ríkisútvarpsins frá niðurstöðum þingsins. Ánægjulegt er að sjá að þrír öflugir formenn innan aðildarfélaga sambandsins, sem hafa verið mjög áberandi í umræðunni um verkalýðsmál, náðu kjöri í þau embætti sem þau sóttust eftir. Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness var kjörinn fyrsti varaforseti ASÍ en Guðbrandur Einarsson formaður Landssambands ísl. verslunarmanna fór fram gegn Vilhjálmi en varð að játa sig sigraðan. Guðbrandur hefur lengi starfað við hlið Gylfa Arnabjörnssonar forseta ASÍ sem gaf ekki kost á sér. Þess í stað var Drífa Snædal kjörin forseti. Ljóst er að Drífu bíður mikið starf að sameina ólík sjónarmið innan hreyfingarinnar. Líkt og Vilhjálmur þurfti Drífa að keppa við Sverri Mar Albertsson um embættið. Sverrir og Guðbrandur duttu báðir út úr trúnaðarstörfum fyrir sambandið en þeir voru áður í miðstjórn. Ánægjulegt var að sjá að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar fengu bæði góða kosningu í miðstjórn. Athygli vakti að tvær reyndar konur sem setið hafa í miðstjórn náðu ekki kjöri, þær Signý Jóhannesdóttir og Ingibjörg Ósk Birgisdóttir sem verið hefur annar varaforseti ASÍ. Að lokum má geta þess að formaður Framsýnar gaf kost á sér í varamiðstjórn og hlaut hann góða kosningu. Fram að þessu hafa félagarnir Aðalsteinn Árni og Vilhjálmur Birgisson verið útilokaðir frá trúnaðarstörfum fyrir ASÍ. Nú eru aðrir tímar og tími umbreytinga hafin. Þessar niðurstöður sanna að menn vilja sjá breytingar í anda skoðana alþýðunnar í landinu. Ekki er ólíklegt að menn eigi eftir að sjá frekari breytingar á forystusveit stéttarfélaga og sambanda á komandi árum. Það er vor í lofti. Reyndar hafa ekki allir gengið sáttir frá borði. Sem dæmi má nefna Guðmund Ragnarsson sem sat um tíma í miðstjórn ASÍ auk þess að vera formaður VM. Hann féll í kosningu til formanns á síðasta aðalfundi félagsins. Fjölmiðlar sáu ástæðu til að draga hann fram í kastljósið á dögunum til að tjá sig um kröfur Starfsgreinasambandsins og VR. Hann taldi þær viðáttu vitlausar, alltof háar. Það er á sama tíma og verkafólk með um 300.000 krónur á mánuði spyr forystumenn stéttarfélaganna að því, hverjum detti eiginlega í hug að semja um svona léleg laun? Sem betur fer, er ekki eftirspurn eftir formönnum í verkalýðshreyfingunni sem hafa ekki skilning á kröfum þeirra sem skrapa botninn er viðkemur kjörum og velferð í þessu landi. Framsýn óskar nýju og fersku fólki velfarnaðar í störfum Alþýðusambands Íslands á komandi árum. Félagsmenn Alþýðusambands Íslands treysta ykkur til góðra verka í þeirra þágu.

Það var mikið plottað á þinginu, hér má sjá fráfarandi forseta ASÍ hvísla í eyrað á Guðbrandi vini sínum, mótframbjóðenda Vilhjálms Birgissonar í embætti fyrsta varaforseta ASÍ. Svo fór að Vilhjálmur sigraði glæsilega.

Hvað á ég nú að kjósa? Torfi Aðalsteinsson var einn af fulltrúum Framsýnar á þinginu veltir fyrir sér stöðunni.

Þau komu og sigruðu, Sólveig Anna formaður Eflingar og Ragnar Þór formaður VR. Þau náðu bæði kjöri í miðstjórn ASÍ.

Aðalsteinn Árni í varamiðstjórn ASÍ

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og víðar, þá fór þing Alþýðusambands Íslands fram í síðustu viku í Reykjavík. Miklar breytingar urðu á stjórn sambandsins og fulltrúar sem ekki hafa áður tekið þátt í stjórnunarstörfum fyrir sambandið náðu kjöri gegn sitjandi valdhöfum. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, gaf kost á sér í varamiðstjórn og náði kjöri en kosið var um flest embætti innan hreyfingarinnar, það er um forseta, fyrsta varaforseta, miðstjórn og varamiðstjórn. Aðalsteinn hefur ekki áður setið í stjórnunarstörfum fyrir Alþýðusamband Íslands.

Aðalsteinn Árni og Vilhjálmur Birgisson formaður VA hafa ekki alltaf verið vinsælustu piltarnir hjá forystu ASÍ enda duglegir við að veita forystunni aðhald. Þeir náðu báðir kjöri í þau embætti sem þeir sóttust eftir. Það eru greinilega nýjir tímar framundan hjá ASÍ.

Hjörleifur sigraði Framsýnarmótið

Hjörleifur Halldórsson sigraði Framsýnarmótið í skák sem fór fram í húsnæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu, helgina 27.-28. október. Hjörleifur fékk 5,5 vinninga af 7 mögulegum. Af heimamönnum var Sigurður Daníelsson hlutskarpastur með 4,5 vinninga.

Nánar má lesa um mótið á hér.