Kjaraviðræður að hefjast við PCC

Kjaraviðræður stéttarfélaganna Framsýnar og Þingiðnar við PCC BakkiSilicon hf. hefjast í næstu viku. Starfsmenn stéttarfélaganna ásamt trúnaðarmönnum starfsmanna munu leggja lokahönd á kröfugerðina í dag. Þá hafa Samtök atvinnulífsins fallist á að funda með stéttarfélögunum um kröfugerðina um miðja næstu viku. Endanlegur fundartími verður ákveðinn í vikunni.

 

Að gefnu tilefni skal áréttað

Málefni Sjómannafélags Íslands hafa mikið verið til umræðu í fjölmiðlum undanfarið. Rétt er að taka fram að Sjómannafélag Íslands er sjálfstætt stéttarfélag sjómanna sem stendur fyrir utan Sjómannasamband Íslands, sem er samband sjómannafélaga á Íslandi sem hafa undirmenn innan sinna raða. Félagið er heldur ekki aðili að Alþýðusambandi Íslands. Þess má geta að Sjómannadeild Framsýnar á aðild að Sjómannasambandi Íslands og þar með Alþýðusambandi Íslands.

Sjómannafélag Íslands hét áður Sjómannafélag Reykjavíkur en tóku ákvörðun um að skipta um nafn og heitir nú Sjómannafélag Íslands. Eðlilega hefur þetta valdið töluverðum ruglingi meðal fólks og fjölmiðla sem fjallað hafa um innri málefni Sjómannafélags Íslands undanfarið. Félag sem er ekki í góðum málum sé tekið mið af fréttum síðustu daga.

SGS auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Starfsgreinasamband Íslands óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf framkvæmdastjóra. Um er að ræða afar fjölbreytt og krefjandi starf.

Starfssvið:

  • Stjórnun og ábyrgð á daglegum rekstri
  • Stefnumótun og framkvæmd ákvarðana
  • Umsjón með gerð og túlkun kjarasamninga
  • Umsjón með kynningarstarfi, útgáfu og samskiptum við fjölmiðla
  • Skipulagning samráðs og samstarfs aðildarfélaga
  • Samskipti við innlend og erlend aðildarfélög
  • Menntunar- og hæfniskröfur:
  • Menntun og reynsla sem nýtist í starfi
  • Reynsla af stjórnun og rekstri
  • Reynsla og þekking á málefnum stéttarfélaga og kjarasamningum
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogahæfileikar
  • Hæfni til að miðla upplýsingum í ræðu og riti
  • Góð kunnátta í íslensku, ensku og einu norðurlandamáliUmsóknarfrestur er til og með 15. november n.k.
  • Umsækjendur eru vinsamlegast beðnir að sækja um starfið á heimasíðu Capacent Ráðninga, www.capacent.is.
  • Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssamband innan ASÍ og samanstendur af 19 stéttarfélögum verkafólks með um 57 þúsund félagsmenn. Hlutverk sambandsins er að styðja og styrkja aðildarfélögin í þeirra starfi og hagsmunabaráttu félagsmanna þeirra. Skrifstofa sambandsins er í Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík.

Þing ASÍ samþykkti stefnur í nokkrum málaflokkum til næstu ára

Á nýafstöðnu þingi ASÍ var mörkuð stefna í þeim fimm málaflokkum sem voru sérstaklega til umfjöllunar á þinginu og í aðdraganda þess. Í maí og september voru farnar tvær hringferðir um landið og haldnir 18 fundir á 11 stöðum þar sem vel á sjötta hundrað manns í grasrót verkalýðshreyfingarinnar fjölluðu um málaflokkana fimm. Umfjöllun um þá var svo framhaldið á 43. þingi ASÍ þar sem 300 þingfulltrúar komu að vinnunni. Málaflokkarnir sem um ræðir eru eftirfarandi:

Tekjuskipting og jöfnuður
Húsnæðismál
Heilbrigðismál og velferð
Tækniþróun og skipulag vinnunnar
Jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs

Hér má sjá stefnuskjölin eins og þau voru samþykkt á 43. þingi ASÍ.

 

Yfirlýsing frá fjórum formönnum stéttarfélaga vegna vinnubragða Sjómannafélags Íslands

 

Undirritaðir formenn VR, Eflingar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness fordæma ólýðræðisleg vinnubrögð trúnaðarmannaráðs Sjómannafélags Íslands og brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu.

Stéttarfélög eru og eiga að vera skv. lögum nr. 80/1938, opin öllum sem starfa á því starfssvæði sem kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags ná yfir. Félagsaðildinni fylgja mikilvæg réttindi sem eru hluti af velferð launafólks á vinnumarkaði og hún tryggir vernd félagsmanna í samskiptum sínum við atvinnurekendur. Þetta kemur skýrt fram á heimasíðu Sjómannafélags Íslands þar sem sérstaklega er fjallað dagpeninga og styrki til félagsmanna, orlofskosti þeirra og aðgang að lögfræðiþjónustu svo fáein dæmi séu tekin. Stéttarfélagi er undir engum kringumstæðum heimilt að reka félagsmann úr félaginu og svipta hann þar með þessum réttindum.

Aðild að stéttarfélagi felur jafnframt í sér rétt til lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa i félaginu með málfrelsi, tillögurétti, atkvæðisrétti og kjörgengi. Krafa um greiðslu félagsgjalda í þrjú ár til þess að öðlast kjörgengi innan félagsins felur augljóslega í sér ólögmætar hömlur á frelsi og réttindi félagsmanna og slíkt þekkist ekki innan íslenskrar verkalýðshreyfingar.

Alvarleg brot félagsmanna gegn félaginu eins og t.d. ef hann vinnur með atvinnurekendum gegn hagsmunum þess geta í alvarlegustu undantekningar tilvikum leitt til þess að hömlur verði settar á atkvæðisrétt og kjörgengi. Skoðanaágreiningur og gagnrýni á störf félagsins eru ekki slík brot heldur skýrt merki um lýðræðislega þátttöku í starfsemi félagsins.

Leiða má af því líkur að skoðanir Heiðveigar á starfsemi Sjómannafélags Íslands og ákvörðun hennar um gefa kost á sér til formanns í félaginu sé ástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum af hálfu trúnaðarmannaráðs félagsins. Í því efni hefur hún einungis nýtt sér félagsbundin réttindi sín og stjórnarskrárvarið málfrelsi sem augljóslega hefur komið við kaunin á forystu félagsins. Þess vegna er mikilvægt að félagsmenn Sjómannafélags Íslands bregðist við samþykkt félagsins og mótmæli henni harðlega.

Verði þessi gjörningur ekki afturkallaður er Sjómannafélag Íslands að skrifa nýjan kafla í sögu verkalýðshreyfingarinnar sem ekki er sómi af. Formenn VR, Eflingar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness skora því á forystu Sjómannafélags Íslands að virða lög og reglur sem gilda almennt um starfsemi stéttarfélaga og kjörgengi félagsmanna á vegum verkalýðshreyfingarinnar og afturkalla ákvörðun sína um brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur þegar í stað.

Aðalsteinn Árni Baldursson, Framsýn stéttarfélag
Sólveig Anna Jónsdóttir, Efling stéttarfélag
Vilhjálmur Birgisson, Verkalýðsfélag Akraness
Ragnar Þór Ingólfsson, VR

 

 

Sláturtíð Norðlenska á Húsavík lokið

Sláturtíð Norðlenska á Húsavík lauk í gær, 30. október. Þetta er lengsta sláturtíð síðustu ára en slátrun hófst 30. ágúst.
Alls komu 120 starfsmenn til starfa við sláturtíðina þetta haustið og af 14 þjóðernum. Alls störfuðu 175 manns í sláturtíðinni í haust. Einungis einu sinni hefur fleiri gripum verið slátrað á Húsavík en 95.436 gripum var slátrað í haust sem er 78 gripum færri en í fyrra sem var metár í slátrun á Húsavík.
Meðalvigt dilka var með hærra móti þetta haustið en hún var 16,69 kíló. Miðað við fjölda af slátruðu fullorðnu fé má reikna með því að sauðfé hafi heldur fækkað á upptökusvæði Norðlenska á Húsavík. Það er þó ekki um verulega fækkun að ræða.

Einn innleggjanda á Húsavík, Sigurður Ágúst Þórarinsson í Skarðaborg, flokkar gripi sína.

Það var fleiru slátrað á Húsavík en sauðfé þetta haustið.

Pétur Óskar Skarphéðinsson stóð vaktina í fjárrétt Norðlenska á Húsavík í haust.

Ólafur Ingólfsson, Hlíð, ásamt Benedikt Hrólfi Jónssyni, aðstoðarréttarstjóra Norðlenska á Húsavík.

Heimild: Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík.

 

Öskubuskuævintýri á þingi ASÍ

Óhætt er að segja að þing Alþýðusambands Íslands sem fram fór í síðustu viku hafi verið tímamótaþing. Þingið sjálft fór vel fram en mikil spenna var í loftinu varðandi kjör í flest embætti innan ASÍ. Tæplega 300 fulltrúar tóku þátt í þinginu frá aðildarfélögum sambandsins. Að lokum fór svo að verulegar breytingar urðu á kjöri fólks í trúnaðarstöður fyrir ASÍ. Miðað við niðurstöðurnar var ákall um verulegar breytingar, fólk sem starfað hefur lengi innan ASÍ í stjórnum og ráðum náði ekki kjöri þrátt fyrir að sækjast hart eftir því. Segja má að róttæku öflin innan Alþýðusambandsins hafi unnið fullnaðar sigur svo vitnað sé í fréttaskýringu Ríkisútvarpsins frá niðurstöðum þingsins. Ánægjulegt er að sjá að þrír öflugir formenn innan aðildarfélaga sambandsins, sem hafa verið mjög áberandi í umræðunni um verkalýðsmál, náðu kjöri í þau embætti sem þau sóttust eftir. Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness var kjörinn fyrsti varaforseti ASÍ en Guðbrandur Einarsson formaður Landssambands ísl. verslunarmanna fór fram gegn Vilhjálmi en varð að játa sig sigraðan. Guðbrandur hefur lengi starfað við hlið Gylfa Arnabjörnssonar forseta ASÍ sem gaf ekki kost á sér. Þess í stað var Drífa Snædal kjörin forseti. Ljóst er að Drífu bíður mikið starf að sameina ólík sjónarmið innan hreyfingarinnar. Líkt og Vilhjálmur þurfti Drífa að keppa við Sverri Mar Albertsson um embættið. Sverrir og Guðbrandur duttu báðir út úr trúnaðarstörfum fyrir sambandið en þeir voru áður í miðstjórn. Ánægjulegt var að sjá að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar fengu bæði góða kosningu í miðstjórn. Athygli vakti að tvær reyndar konur sem setið hafa í miðstjórn náðu ekki kjöri, þær Signý Jóhannesdóttir og Ingibjörg Ósk Birgisdóttir sem verið hefur annar varaforseti ASÍ. Að lokum má geta þess að formaður Framsýnar gaf kost á sér í varamiðstjórn og hlaut hann góða kosningu. Fram að þessu hafa félagarnir Aðalsteinn Árni og Vilhjálmur Birgisson verið útilokaðir frá trúnaðarstörfum fyrir ASÍ. Nú eru aðrir tímar og tími umbreytinga hafin. Þessar niðurstöður sanna að menn vilja sjá breytingar í anda skoðana alþýðunnar í landinu. Ekki er ólíklegt að menn eigi eftir að sjá frekari breytingar á forystusveit stéttarfélaga og sambanda á komandi árum. Það er vor í lofti. Reyndar hafa ekki allir gengið sáttir frá borði. Sem dæmi má nefna Guðmund Ragnarsson sem sat um tíma í miðstjórn ASÍ auk þess að vera formaður VM. Hann féll í kosningu til formanns á síðasta aðalfundi félagsins. Fjölmiðlar sáu ástæðu til að draga hann fram í kastljósið á dögunum til að tjá sig um kröfur Starfsgreinasambandsins og VR. Hann taldi þær viðáttu vitlausar, alltof háar. Það er á sama tíma og verkafólk með um 300.000 krónur á mánuði spyr forystumenn stéttarfélaganna að því, hverjum detti eiginlega í hug að semja um svona léleg laun? Sem betur fer, er ekki eftirspurn eftir formönnum í verkalýðshreyfingunni sem hafa ekki skilning á kröfum þeirra sem skrapa botninn er viðkemur kjörum og velferð í þessu landi. Framsýn óskar nýju og fersku fólki velfarnaðar í störfum Alþýðusambands Íslands á komandi árum. Félagsmenn Alþýðusambands Íslands treysta ykkur til góðra verka í þeirra þágu.

Það var mikið plottað á þinginu, hér má sjá fráfarandi forseta ASÍ hvísla í eyrað á Guðbrandi vini sínum, mótframbjóðenda Vilhjálms Birgissonar í embætti fyrsta varaforseta ASÍ. Svo fór að Vilhjálmur sigraði glæsilega.

Hvað á ég nú að kjósa? Torfi Aðalsteinsson var einn af fulltrúum Framsýnar á þinginu veltir fyrir sér stöðunni.

Þau komu og sigruðu, Sólveig Anna formaður Eflingar og Ragnar Þór formaður VR. Þau náðu bæði kjöri í miðstjórn ASÍ.

Aðalsteinn Árni í varamiðstjórn ASÍ

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og víðar, þá fór þing Alþýðusambands Íslands fram í síðustu viku í Reykjavík. Miklar breytingar urðu á stjórn sambandsins og fulltrúar sem ekki hafa áður tekið þátt í stjórnunarstörfum fyrir sambandið náðu kjöri gegn sitjandi valdhöfum. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, gaf kost á sér í varamiðstjórn og náði kjöri en kosið var um flest embætti innan hreyfingarinnar, það er um forseta, fyrsta varaforseta, miðstjórn og varamiðstjórn. Aðalsteinn hefur ekki áður setið í stjórnunarstörfum fyrir Alþýðusamband Íslands.

Aðalsteinn Árni og Vilhjálmur Birgisson formaður VA hafa ekki alltaf verið vinsælustu piltarnir hjá forystu ASÍ enda duglegir við að veita forystunni aðhald. Þeir náðu báðir kjöri í þau embætti sem þeir sóttust eftir. Það eru greinilega nýjir tímar framundan hjá ASÍ.

Hjörleifur sigraði Framsýnarmótið

Hjörleifur Halldórsson sigraði Framsýnarmótið í skák sem fór fram í húsnæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu, helgina 27.-28. október. Hjörleifur fékk 5,5 vinninga af 7 mögulegum. Af heimamönnum var Sigurður Daníelsson hlutskarpastur með 4,5 vinninga.

Nánar má lesa um mótið á hér.

Mikill undirbúningur í gangi

Fulltrúar frá aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands hittust á fundi í Reykjavík í gær til að yfirfara kröfur sambandsins áður en formlegar viðræður hefjast við Samtök atvinnulífsins. Framsýn átti að sjálfsögðu fulltrúa á fundinum en formaður Framsýnar fer fyrir kjarasamningi SGS og SA er varðar starfsfólk í ferðaþjónustu. Framundan er mikil vinna hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins við kjarasamningsgerð sem vonandi skilar ásættanlegum árangri fyrir verkafólk.

 

Þingi ASÍ lokið – ný og öflug forysta tekur við keflinu

Þingi Alþýðusambands Íslands lauk síðasta föstudag en þingið stóð yfir í þrjá daga. Þingiðn, Framsýn og Verkalýðsfélag Þórshafnar áttu 8 fulltrúa á þinginu auk þess sem Aðalbjörn Jóhannsson var fulltrúi ASÍ-UNG á þinginu en hann er formaður ASÍ-UNG auk þess að vera félagsmaður í Framsýn. Þinginu verða gerð nánari skil á heimasíðunni á næstu dögum sem og sögulegum kosningum sem leiddu til verulegra breytinga á forystusveit sambandsins sem voru löngu tímabærar.

Meðfylgjandi er mynd af Sigurveigu Arnardóttur sem var ein af fulltrúum Framsýnar á þinginu.

Samstaða í verki hjá Torfa

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga var mik­ill bar­áttu­hug­ur í þeim fjölmörgu kon­um sem komu saman víða um land til­efni af kvennafrídegin­um þann 24. október. En það voru ekki eingöngu konur sem stóðu vaktina daginn þann. Í það minnsta á Arnarhóli blönduðu karlmenn sér í hópinn og sýndu konum samstöðu og er það vel.

Þeirra á meðal var Torfi nokkur Aðalsteinsson, baráttuglaður bárðdælingur sem þekktur er fyrir að hafa sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum og vera ófeiminn við að láta þær í ljósi. Torfi var staddur í Reykjavík á kvennafrídaginn, en hann sat sem fulltrúi Framsýnar á 43. þingi ASÍ sem haldið var dagana 24.-26. október. Hlé var gert á þingstörfum kl.14.55 í tilefni dagsins og konur streymdu á Arnarhól, þar á meðal fulltrúar Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar. Torfi stóð að sjálfsögðu með sínum konum og þrátt fyrir kuldaþræsing í höfuðborginni stóð karlinn keikur á Arnarhóli og mótmælti launamun kynjanna eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Torfi á ekki langt að sækja baráttugleðina, en til gamans má geta þess að móðuramma Torfa var Halldóra Ólöf Guðmundsdóttir, herská baráttukona sem barðist fyrir bættum hag íslenskrar alþýðu á fyrrihluta síðustu aldar. Halldóra lærði netagerð og var formaður Nótar félags netagerðarmanna um tíma, fyrsta og sennilega eina konan sem gengt hefur því embætti hér á landi. Halldóra barðist ötullega fyrir því að konur sem störfuðu við netagerð nytu sömu launa og karlar. Þá baráttu leiddi hún til sigurs árið 1946 og voru konurnar í Nót þær fyrstu á landinu sem ári náðu launajafnrétti á við karla.

Síðan eru liðin 72 ár, sem er kannski ekki langur tími í sögu þjóðar, en enn vantar talsvert uppá kynjajafnrétti okkar Íslendinga. Baráttukonur eins og Halldóra sem risu upp gegn misskiptingu og óréttlæti í árdaga verkalýðshreyfingarinnar voru að mörgum taldar frekar og yfirgangssamar, bæði af körlum og ekki síður eigin kynsystrum. Sú hugsun er sem betur fer á undanhaldi og í dag eru konur frekar metnar af verðleikum, rétt eins og aðrir menn. Konur munu enda halda baráttunni áfram ótrauðar og það fer einkar vel á því að hugsandi menn eins og Torfi haldi uppi merki þeirra sem lönduðu fyrstu sigrunum í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Með því einmitt að styðja konur í orði og í verki í baráttu þeirra til jafnréttis – til betra samfélags.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=215556&pageId=2774169&lang=is&q=Halldóra Halldóra Guðmundsdóttir

Mikið fjölmenni var samankomið á Arnarhóli í tilefni af kvennafrídeginum

Langur og strangur dagur í gær – undirbúningur í fullum gangi við mótun kröfugerðar starfsmanna PCC

Framsýn og Þingiðn stóðu fyrir fjórum fundum í gær með starfsmönnum PCC BakkiSilicon. Tilefni fundanna var að móta kröfugerð fyrir hönd starfsmanna. Fundað var með framleiðslustarfsmönnum, iðnaðarmönnum og skrifstofufólki. Á næstu dögum verður síðan unnið að því að ganga endanlega frá kröfugerðinni áður en fundað verður með Samtökum atvinnulífsins um málið um miðjan nóvember. Sérkjarasamningur stéttarfélaganna, Framsýnar og Þingiðnar er laus um næstu áramót.

Iðnaðarmenn innan Þingiðnar fara yfir sín mál með fulltrúum félagsins.

Framleiðslustarfsmönnum bauðst að mæta á tvo fundi þar sem þeir ganga á vaktir og eiga því ekki auðvelt með að mæta á sama fundinn.

 

Vinsamlegur fundur með yfirmönnum PCC

Fulltrúar frá stéttarfélögunum Framsýn og Þingiðn áttu vinsamlegan fund með forstarfsmönnum PCC BakkiSilicon fyrir helgina. Farið var yfir stöðuna og samstarf aðila en nokkur fjölmiðlaumræða hefur verið um starfsemi fyrirtækisins á Bakka, ekki síst starfsmannaveltuna og samskipti á vinnustaðnum. Aðilar voru sammála um að efla samskiptin enn frekar enda hagsmunir beggja aðila að starfsemin gangi vel á Bakka og starfsmenn búi við viðunandi kjör og vinnuaðstæður. Þá ber þess að geta að kjaraviðræður hefjast í byrjun nóvember um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn. Núverandi samningur rennur út um áramótin. Um þessar mundir er unnið að því að móta kröfugerðina með því að funda með starfsmönnum. Þar sem um mjög fjölmennan vinnustað er um að ræða þarf að halda fjóra fundi með starfsmönnum. Fundirnir fara fram í dag, mánudag. Síðan tekur við frágangur á kröfugerðinni áður en hún verður lögð fyrir Samtök atvinnulífsins í byrjun nóvember.

PCC BakkiSilicon – Starfsmannafundur / Staff meeting – Þingiðn

Starfsmannafundir verða haldnir fyrir félagsmenn Þingiðnar mánudaginn 22. október klukkan 9:00 í mötuneyti PCC BakkiSilicon.

Rætt verður um kröfugerð fyrir komandi viðræður við PCC BakkiSilicon.

Samningar eru lausir 31. desemer 2018.

Mikilvægt er að starfsmenn mæti og hafi áhrif á kröfugerðina.

A staff meeting for Þingiðn members will be held in the canteen of PCC BakkiSilicon on Monday 22nd of October at 9:00.

The upcoming demands for the future collective agreement with PCC BakkiSilicon is the be discussed. The current agreement is over on the 31. Desember 2018.

It is important that employees attend the meeting to have their impact on the demands.

 

PCC BakkiSilicon – Starfsmannafundur / Staff meeting – Framsýn

Starfsmannafundir verða haldnir fyrir félagsmenn Framsýnar mánudaginn 22. október klukkan 14:00 og 16:30 í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Starfsmönnum gefst kostur á að mæta á annan hvorn fundinn.

Rætt verður um kröfugerð fyrir komandi viðræður við PCC BakkiSilicon.
Samningar eru lausir 31. desemer 2018.
Mikilvægt er að starfsmenn mæti og hafi áhrif á kröfugerðina.

A staff meeting for Framsýn members will be held að Framsýn office, Garðarsbraut 26 on Monday 22nd of October at 14:00 and 16:30. Employees can choose which one of the meeting they will attend.

The upcoming demands for the future collective agreement with PCC BakkiSilicon is the be discussed. The current agreement is over on the 31. Desember 2018.
It is important that employees attend one of the meetings to have their impact on the demands.