Hafna beiðni Framsýnar um jöfnun meðal starfsmanna Skútustaðahrepps

Skútustaðahreppur svaraði erindi Framsýnar í gær en félagið fór fram á að sveitarfélagið greiddi starfsmönnum eingreiðslu kr. 105.000 þar sem kjarasamningar hafa ekki tekist líkt og öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins sem eru með lausa samninga. Eins og sjá má hér að neðan hafnaði sveitarfélagið beiðni Framsýnar sem eru mikil vonbrigði þar sem með því er sveitarfélagið að mismuna starfsmönnum eftir aðld að stéttarfélagi sem er þeim til skammar.  Hér má sjá svar sveitarfélagsins:

Vegna erindis Framsýnar stéttarfélags 2. júlí 2019 og svo ítrekun á því erindi þann 7. ágúst s.l. þá hafnar sveitarfélagið óskum Framsýnar sem fram koma í bréfinu.  

Eins og þér er kunnugt um hafa kjaraviðræður staðið yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga frá því í febrúar 2019 án niðurstöðu. Mikið ber á milli og vísaði Starfsgreinasamband Íslands, sem fer með samningsumboð Framsýnar, deilunni til ríkissáttasemjara þann 28. maí s.l.

Samband íslenskra sveitarfélaga fer með fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu en rétt er að árétta að sveitarfélagið Skútustaðahreppur veitti samninganefndinni fullnaðarumboðið í desember s.l. Í því felst að sveitarfélaginu er óheimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð og skuldbindur sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum, með staðfestingu stjórnar sambandsins. 

Það er einlæg von sveitarfélagsins Skútustaðahrepps að samningsaðilar nái saman og leysi þá deilu sem uppi er sem fyrst.“

 

Kalla eftir upplýsingum frá veiðiheimilum á félagssvæðinu

Framsýn stéttarfélag hefur ákveðið að kalla eftir upplýsingum frá veiðiheimilum á félagssvæði Framsýnar varðandi starfskjör starfsmanna enda eitt af hlutverkum stéttarfélaga að fylgjast með kjörum, aðbúnaði og réttundum þeirra sem eru á vinnumarkaði og falla undir kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Flest störf í veiðiheimilum falla undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að, það er fyrir utan þau störf sem unnin eru af fagmenntuðu fólki s.s. lærðum þjónum og matreiðslumönnum. Í bréfi Framsýnar til veiðiheimilanna er kallað eftir ráðningarkjörum starfsmanna, ráðningarfyrirkomulagi, aðild að stéttarfélögum, fjölda starfsmanna og eftir hvaða kjarasamningum starfsmenn starfa eftir á veiðiheimilunum.

Þá má geta þess að málefni starfsmanna sem starfa á veiðiheimilum voru til umræðu á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands í síðustu viku. Þar var samþykkt að kalla eftir þessum upplýsingum frá þeim aðilum sem reka veiðiheimili víða um land.

Mest brotið á erlendu launfólki – hæstu kröfurnar í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð

Undanfarin ár hefur verið hraður vöxtur í efnahagslífinu á Íslandi. Ný rannsókn ASÍ, sem byggir á skoðanakönnunum og launakröfum stéttarfélaga, bendir til að samhliða þessari þróun hafi jaðarsetning og brotastarfsemi aukist á íslenskum vinnumarkaði. Stéttarfélög fá inn á borð til sín fleiri og alvarlegri mál en áður tengd launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum. Brotin virðast einkum beinast gegn hópum sem síður þekkja rétt sinn, þ.e. erlendu launafólki, ungu fólki og einstaklingum með lágar tekjur. Við þessum brotum eru í dag engin viðurlög sem Alþýðusambandið telur algerlega óásættanlegt.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:
• Launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna á ári.
• Fjögur aðildarfélög ASÍ gerðu 768 launakröfur árið 2018 upp á samtals 450 milljónir króna og nam miðgildi kröfuupphæðar 262.534 kr.
• Meira en helmingur allra krafna stéttarfélaga eru gerðar fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna. Um 19% launafólks á íslenskum vinnumarkaði er af erlendum uppruna.
• Um helmingur allra krafna kemur úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu en hæstu launakröfurnar eru gerðar á fyrirtæki í mannvirkjagerð.
• Niðurstöður spurningakönnunar Gallup eru í takt við launakröfur stéttarfélaga og benda til þess að brotastarfsemi beinist fremur gegn erlendu launafólki og yngra fólki, með lægri tekjur og í óreglulegu ráðningarsambandi og hlutastörfum.
• Skoðun á launakröfum og spurningakönnunin benda til að brotin felist m.a. í vangreiðslum á launum, álagsgreiðslum og ýmsum réttindabrotum.
• Hjá meirihluta launafólks, einkum hjá þeim sem hafa lengri starfsaldur og hærri tekjur, er brotastarfsemi nærri óþekkt.
Brotastarfsemi gagnvart erlendu launafólki og ungmennum er alvarleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði sem uppræta verður með öllum tiltækum ráðum. Dæmin skipta ekki bara tugum eða hundruðum. Brotin snerta þúsundir einstaklinga. Þessir félagar okkar eiga að njóta kjara og annarra réttinda til jafns við aðra á vinnumarkaði. Það eru hagsmunir samfélagsins alls. Hér er ábyrgð stjórnvalda og samtaka atvinnurekenda mikil.

• Bæta þarf löggjöf og regluverk. Lögbinda verður hörð viðurlög og sektargreiðslur vegna launaþjófnaðar og annarra brota gegn launafólki
• Efla þarf upplýsingamiðlun, eftirlit á vinnumarkaði og eftirfylgni vegna brotastarfsemi. Bæta með kerfisbundnum hætti samstarf og samvinnu stjórnvaldsstofnana og aðila vinnumarkaðarins með samræmdri og öflugri upplýsingamiðlun.
• Stuðningur við brotaþola. Tryggja verður að þeir einstaklingar sem brotið er á sæki rétt sinn með stuðningi verkalýðshreyfingarinnar og samfélagsins alls og þeir njóti öryggis og skjóls.

Í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 2019 gaf ríkisstjórn Íslands fyrirheit um að gripið verði til fjölmargra aðgerða gegn launaþjófnaði og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fyrirheit sem byggja á kröfum og áherslum verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir liggur aðgerðaáætlun en verkefnið nú er að fylgja yfirlýsingunni eftir og hrinda að fullu í framkvæmd á næstu mánuðum þannig að stigin verði markviss og afgerandi skref til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Nánari upplýsingar:
Drífa Snædal, forseti ASÍ, 695-1757
Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, 663 9026

Örfrá sæti laus í sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal á laugardaginn

Vegna forfalla eru örfá sæti laus í sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal á laugardaginn, 17. ágúst.

Fyrir nokkrum árum gerðu stéttarfélögin góða ferð í Fjörður, en að þessu sinni verður Flateyjardalurinn heimsóttur. Um er að ræða dagsferð. Lagt verður af stað frá Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26 klukkan 8:30. Heimkoma er áætluð um kvöldmatarleitið. Fararstjórn er í höndum Óskar Helgadóttur varaformanns Framsýnar en hún þekkir hverja þúfu á þessum slóðum. Henni til aðstoðar verður Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar.

Stéttarfélögin hafa staðið fyrir skemmtiferðum fyrir félagsmenn sína undanfarin ár og hafa þær verið vinsælar og vel sóttar. Skaginn milli Eyjafjarðar og Skjálfanda hefur að geyma einstaka náttúruparadís. Til svæðisins teljast eyðibyggðirnar á Látraströnd, í Fjörðum, á Flateyjardal, Flateyjardalsheiði, nyrst í Fnjóskadal og í Náttfaravíkum að ógleymdri Flatey sem lúrir makindalega úti á Skjálfandanum. Eftir þúsund ára erfiðan búskap lagðist byggð af á þessum útkjálka, en eftir stendur mikilfengleg náttúra sem er í senn angurblíð og fögur, en jafnframt ógnvekjandi og hrikaleg. Skaginn geymir sögu genginna kynslóða og þar á hvert tóftarbrot sína sögu, þar bjó kraftmikið fólk sem háði harða og óvægna baráttu við náttúruöflin.

Reiknað er með að menn nesti sig sjálfir í ferðina en boðið verður upp á grillmat og drykki í boði stéttarfélaganna síðdegis á laugardaginn. Linda Baldurs á skrifstofu stéttarfélaganna tekur við skráningum í ferðina. Þátttökugjaldið er kr. 5.000 fyrir félagsmenn og gesti.

Ósk Helgadóttir er frábær fararstjóri og hún verður án efa í miklu stuði á laugardaginn.

…..Jónas Kristjánsson verður svo á katinum Ósk til aðstoðar.

 

 

Samþykkt að höfða mál fyrir Félagsdómi

Formenn Starfsgreinasambands Íslands komu saman til fundar í gær til að ræða stöðuna í kjaraviðræðum aðildarfélaga sambandsins og Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið er deilan í hnút. Eftir umræður var þetta niðurstaða fundarins:
Starfsgreinasamband Íslands sem Framsýn á aðild að harmar þá afstöðu Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, að neita að ganga til kjarasamningsviðræðna um hvernig ná megi fram jöfnuði milli almenna og opinbera lífeyriskerfisins, sérstaklega hvað félagsmenn aðildarfélaga SGS og almennt verkafólk í þjónustu sveitarfélaganna varðar, líkt og samið var um í kjarasamningum 7. júlí 2009. Nú þegar hefur stærsta sveitarfélag landsins ákveðið að efna samkomulag aðila fyrir sitt leiti en önnur þverskallast við og neita einfaldlega að ganga til viðræðna um jöfnun lífeyrisréttinda starfsmanna sinna á þeirri forsendu að þau hafi aldrei undirgengist slíka skyldu. SGS hafnar þeirri afstöðu alfarið enda ráð gert fyrir þessari óefndu jöfnun í öllum forsendum og útreikningum aðila eftir 2009.
Formannafundur SGS samþykkir því að sambandið höfði mál fyrir Félagsdómi þar sem látið verður reyna á túlkun samningsákvæðisins frá 2009 um skyldu sveitarfélaga til þess að ganga til kjarasamningsviðræðna um jöfnun lífeyrisréttinda.

Formenn SGS fjalla um alvarlega kjaradeilu sambandsins við sveitarfélögin og hugsanlegar verkfallsaðgerðir í haust

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hefur áður mótmælt harðlega þeirri gróflegu mismunun sem Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) ætlast til að sveitarfélögin sýni gagnvart sínu starfsfólki. Kjaradeila SGS og sveitarfélaganna er í hörðum hnút og var vísað til Ríkissáttasemjara vegna þess að Samninganefnd sveitarfélaganna krafðist þess að SGS félli frá fyrirliggjandi samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda og það yrði ekki rætt í kjaraviðræðunum.

Vegna þess hversu samningaviðræður við sveitarfélög og ríki hafa dregist náðist samkomulag, þ.e. við aðra samningsaðila en SGS, að starfsfólk með lausa kjarasamninga fengi eingreiðslu að upphæð 105.000 kr. sem greiðist út 1. ágúst sem innágreiðsla fyrir nýjan kjarasamning.

SÍS hefur ákveðið einhliða að félagsmenn í félögum innan SGS fái ekki þessa eingreiðslu, og hefur sent póst til allra sveitarfélaga þar sem þeim er beinlínis bannað að koma eins fram við alla sína starfsmenn. Hér er greinilega verið að reyna að kúga SGS til uppgjafar og ótrúlegt að sveitarfélögunum finnist það sæmandi að greiða ekki lægst launaða starfsfólkinu umrædda eingreiðslu líkt og öðrum.

Sambandið hefur borið það fyrir sig að eingreiðslan þurfi að tengjast tæknilegum atriðum um endurskoðun viðræðuáætlunar sem á sér enga lagastoð og er hreinn fyrirsláttur. Af sama meiði eru yfirlýsingar af hálfu SÍS um að það sé á einhvern hátt óheimilt að ræða stöðuna og deilumálin í fjölmiðlum. Það bendir til þess að þau vita að málatilbúnaður þeirra og rökstuðningur er afar veikur.

Næsti viðræðufundur í deilunni er boðaður hjá Ríkissáttasemjara 21. ágúst næstkomandi. Í ljósi þess og þeirra einstrengislegu fyrirmæla sem fram koma í pósti sambandsins hefur SGS boðað til sérstaks formannafundar á morgun, 8. ágúst til að ræða þessa alvarlegu stöðu og ákveða næstu skref. SGS krefst þess að störf og framlag okkar félagsmanna í þágu sveitarfélaganna um land allt verði virt og þeim ekki mismunað með þessum gróflega hætti. Haldi Samband íslenskra sveitarfélaga þessari afstöðu til streitu er hætta á að það þýði hörð átök. Formaður Framsýnar mun taka þátt í fundinum á morgun en afstaða félagsins er skýr, það á ekki að líða sveitarfélögunum það að mismuna starfsmönnum í launakjörum eftir félagsaðild.

 

Skútustaðahreppur ekki svarað erindi Framsýnar

Því miður hefur Skútustaðahreppur ekki séð ástæðu til að svara erindi Framsýnar stéttarfélags frá 2. júlí 2019 varðandi afstöðu sveitarfélagsins til tilmæla Framsýnar um að sveitarfélagið greiði starfsmönnum sveitarfélagsins sem jafnframt eru félagsmenn í Framsýn eingreiðslu/innágreiðslu upp á kr. 105.000 miðað við fullt starf meðan ósamið er.

Það er til samræmis við ákvörðun Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögin greiði starfsmönnum stéttarfélaga/landssambanda, sem eru með lausa samninga, eingreiðslu kr. 105.000,-. Það er öðrum en félagsmönnum aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands.

Sveitarfélögum á félagssvæði Framsýnar var gefin frestur til að svara erindinu til 11. júlí 2019. Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur hafa þegar svarað erindinu.

Ekki þarf að taka fram að um mjög alvarlega mismunun er um að ræða meðal starfsmanna sveitarfélaga, þar sem þeim sem eru á lægstu laununum er haldið eftir meðan aðrir starfsmenn með lausa samninga fá þessa eingreiðslu. Svona vinnubrögð eru reyndar fordæmalaus sem betur fer.

Dæmi eru um að sveitarfélög hafi hunsað tilmæli Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og greitt starfsmönnum til jafns við aðra starfsmenn viðkomandi sveitarfélaga. Umrædd sveitarfélög bera greinilega virðingu fyrir störfum þessara starfsmanna í þágu sveitarfélaganna. Í þeim flokki er Tjörneshreppur.

(Frétt uppfærð. Rétt í þessu 7. ágúst var að berast póstur frá Skútustaðahreppi þar sem fram kemur að beiðni Framsýnar verði tekin fyrir á næsta sveitarstjórnarfundi síðar í þessum mánuði)

 

Skilafrestur vegna umsókna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna fyrir ágúst mánuð

Vegna sumarleyfa á skrifstofu stéttarfélaganna eru umsækjendur um styrki eða sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum Framsýnar og Þingiðnar beðnir um að skila inn umsóknum fyrir 20. ágúst vilji þeir fá endursgreiðslur frá félögnum í lok ágúst. Annars koma greiðslurnar ekki til framkvæmda fyrr en í lok september. Frekari upplýsingar er hægt að fá á skrifstofu stéttarfélaganna.

Mikið fjölmenni á hrútasýningu

Fjáreigendafélag Húsavíkur stóð fyrir hrútasýningu á Mærudögum sem er árviss viðburður á bæjarhátíð Húsvíkinga. Keppnin fór fram á föstudagskvöldinu eftir setningu Mærudaga á hafnarstéttinni. Töluverður fjöldi fólks fylgdist með keppninni sem fór vel fram enda mikill metnaður meðal fjáreigenda á Húsavík að sigra keppnina og hafa umgjörðina sem besta. Eftir sýninguna söng Karlakórinn Hreimur nokkur lög fyrir gesti.

Sex magnaðir hrútar voru til sýnis og kepptu um hver væri glæsilegasti hrúturinn í flokki yngri og eldri hrúta. Skemmst er frá því að segja að kynbóta hrútar frá fjárræktarbúinu Grobbholti á Húsavík sigruðu bæði í flokki yngri og eldri hrúta og fékk búið veglegan bikar í verðlaun.

Eldri flokkur: Bassi besti sem er ættaður frá Bassastöðum á Stöndum

Yngri flokkur/veturgamlir hrútar: Horni sem er ættaður úr Grobbholti

Stórbændurnir, Sigurður Ágúst Þórarinsson úr Skarðaborg og Guðmundur Ágúst Jónsson úr Fagraneskoti voru yfirdómarar og kynnir kvöldsins var Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings. Skrásetjari, Sveinbjörn Lund frá Miðtúni á Sléttu. Sveinbjörn sá til þess að allir dómar væru rétt skráðir á þar til gerð blöð.

Til viðbótar voru tvær konur fengnar til að velja fallegasta punginn og andlitsfallið á þeim hrútum sem tóku þátt í keppninni. Þetta voru þær Guðný J. Grímsdóttir úr Reykjadal og Pálína Halldórsdóttir af Tjörnesinu. Þær fóru á kostum og enduðu með því að velja Horna úr Grobbholti stæðilegasta hrútinn enda þykir hann fjallmyndarlegur og með einstakan pung til undaneldis.

Ljósmyndasýning á Mærudögum

Framsýn stóð fyrir ljósmyndasýningu á Mærudögum og fór hún fram í Þröskuldi, litla fundarsalnum á efri hæð Garðarsbrautar 26. Sýningin var helguð verkakonunum í Von og myndirnar lýsa vel vinnuaðstöðu og aðbúnaði verkafólks frá stofnun Verkakvennafélagsins árið 1918 og fram eftir síðustu öld. Það var afar ánægjulegt hversu margir lögðu leið sína í Þröskuld, en um 100 gestir sóttu sýninguna heim og gáfu sér tíma til að spá og spjalla yfir kaffi og meðlæti. Myndirnar voru unnar í samstarfi við Pétur Jónasson ljósmyndara og hefur þeim verið valinn áframhaldandi staður í Þröskuldi, en salurinn er tileinkaður baráttu Vonarkvenna.

Eftirfarandi myndir eru af gestum sýningarinnar. Þær voru teknar af Ósk Helgadóttur, varaformanni Framsýnar sem hélt um stjórnartaumanna á sýningunni ásamt öðru stjórnarfólki Framsýnar.

Messað á Þönglabakka

Síðustu 12 árin hefur það verið fastur viðburður í Laufásprestakalli að boða til messu á Þönglabakka í Þorgeirsfirði einu sinni á sumri. Það viðraði vel til messuhalds í veðurblíðunni í gær og margir lögðu leið sín í Þorgeirsfjörðinn, ýmist gangandi, hjólandi eða siglandi með Húna frá Akureyri og Grenivík.
Byggð í Fjörðum lagðist af árið 1944, var þá kirkjan tekin ofan og efniviður hennar nýttur til annara bygginga eins og títt var í þá daga þegar skortur var á byggingarefni.
Þrátt fyrir að kirkjan sé ekki lengur til staðar á Þönglabakka er helgihaldið ekki vandamál. Messan fór fram undir berum himni, altaristaflan undurfögur náttúran sem bjó sig upp á og skartaði sínu fegursta í tilefni dagsins, en kirkjugestir létu fara vel um sig í grösugum kirkjugarðinum og hlýddu á guðsorð og sálmasöng.
Það voru Kristján Valur Ingólfsson, biskup , Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir og Sindri Geir Óskarsson guðfræðingur sem þjónuðu í messunni. Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir stýrði söng, einsöngvari var Benedikt Kristjánsson, Gunnar Sigfússon lék á trompet og Haukur Ingólfsson á gítar. Að messu lokinni var boðið upp á kaffi og kleinur áður en kirkjugestir héldu heim á leið.

Félagsmenn fengu 21 milljón í námsstyrki- örfrétt frá aðalfundi

Félagsmenn Framsýnar fengu samtals greiddar kr. 20.702.621,- í námsstyrki úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum á árinu 2018, það er með styrkjum úr Fræðslusjóði Framsýnar.

Styrkirnir skiptast þannig milli sjóða: 

279 félagsmenn fengu greidda styrki úr Landsmennt  kr. 12.868.294,-.

6 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sjómennt kr.     407.625,-.

13 félagsmenn fengu greidda styrki úr Ríkismennt kr.     602.759,-.

38 félagsmenn fengu greidda styrki úr Fræðslusjóði verslunar og skrifstofufólks kr. 2.680.362,-.

78 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sveitamennt kr. 3.843.581,-.

Að auki fengu 5 félagsmenn styrki úr Fræðslusjóði Framsýnar kr. 300.000,-.

Sparað með Framsýn- örfréttir frá aðalfundi

Félagsmenn Framsýnar spöruðu sér umtalsverða fjármuni á síðasta ári með því að hafa aðgengi að ýmsu í gegnum félagið, hér koma nokkur dæmi:

Félagsmönnum stéttarfélaganna á Húsavík stendur til boða að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld sem skiptast þannig fyrir árið 2018:

Seldir flugmiðar 5.545        Sparnaður fyrir félagsmenn              kr. 66.540.000,-

Seldir gistimiðar  854         Sparnaður fyrir félagsmenn              kr.   1.964.200,-

Samtals sparnaður fyrir félagsmenn              kr. 68.504.200,-

Sambærilegar tölur fyrir 2017 eru eftirfarandi:

Seldir flugmiðar  4.470           Sparnaður fyrir félagsmenn              kr. 49.617.000,-

Seldir gistimiðar   739           Sparnaður fyrir félagsmenn              kr.   1.625.800,-

Samtals sparnaður fyrir félagsmenn               kr. 52.302.250,-

Þess má geta að árið 2018 flugu 14.332 farþegar um Húsavíkurflugvöll. Eins og sjá má var hlutfall félagsmanna Framsýnar sem notfærðu sér flugið því verulega hátt eða 39% af heildar farþegafjöldanum. Flug um Húsavíkurflugvöll fór mest í 20.199 farþega árið 2016 þegar framkvæmdirnar á svæðinu vegna Bakka og Þeistareykja stóðu hvað hæst.

Til viðbótar má geta þess að 78 félagsmenn fengu tjaldstæðisstyrki árið 2018 eða samtals kr. 1.317.365,-.

 

Hól fyrir rekstur sjúkrasjóðs- örfrétt frá aðalfundi

Samkvæmt 3.mgr. 49. gr. laga ASÍ skulu stjórnir sjúkrasjóða aðildarfélaga ASÍ fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Framsýn lét framkvæma þessa athugun og sá PWC um skoðunina. Niðurstaðan er skýr: „ekkert bendi til annars en að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar á allra næstu árum sé litið til eiginfjárstöðu í árslok 2017, afkomu sjóðsins á undanförnum árum og þess að bótagreiðslur úr sjóðnum og iðgjöld til sjóðsins verði áfram með líkum hætti og verið hefur.“ Þá kemur fram í fylgiskjali að staðan sé í raun öfundsverð.

Félagsmenn tæplega fjögur þúsund – örfrétt frá aðalfundi

Alls greiddu 3.446 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2018. Af þeim sem greiddu til Framsýnar á síðasta ári voru 2.234 karlar og 1.212 konur sem skiptast þannig: konur eru 35% og karlar 65%. Skýringin á kynjahlutfallinu liggur fyrir, breytingarnar eru tilkomnar vegna verklegra framkvæmda á svæðinu á síðustu árum og því hefur karlastörfum fjölgað umtalsvert umfram hefðbundin kvennastörf. Lengi vel var kynjahlutfallið nánast jafnt. Flest bendir til þess að kynjahlutfallið muni jafnast frekar á næstu árum. Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 344, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 8 til 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu. Félagsmenn þann 31. desember 2018 voru samtals 3.790. Stærstu hóparnir innan félagsins starfa við ferðaþjónustu, matvælaiðnað, mannvirkja- og byggingagerð.

Fegurð og kyrð í Loðmundarfirði

Allt er víst breytingum háð og margvíslegar ástæður liggja að baki því að byggð legst af á stöðum sem virðast þó á flestan hátt byggilegir. Einn síkra staða er Loðmundarfjörður, eyðifjörður á milli Borgarfjarðar eystri og Seyðisfjarðar. Samfélagsbreytingar hafa líklega átt mestan þátt í því að byggð lagðist af í þessum búsældarlega firði laust fyrir 1970, því þá rétt eins og gerist enn í dag sótti fólk úr hinum dreifðu byggðum landsins í auknum mæli til þéttbýlisstaðanna í leit að menntun og nýjum tækifærum.

En þótt fólkið hafi flutt burtu og allt hafi hljóðnað, öðlast staðir eins Loðmundarfjörður oft nýtt gildi og er hann í dag vinsæll áfangastaður göngufólks og annarra ferðalanga. Fábreytileikinn sem áður ýtti undir brottflutning íbúanna er í dag orðinn eftirsóknarverður í augum margra og nú liggja verðmæti þessa fallega staðar í náttúrunni, í kyrrðinni. Yfirgefin hús, tóftarbrot og framræstar mýrar segja söguna að því að nútíminn hafi næstum því hafið þar innreið sína.

Varaformaður Framsýnar Ósk Helgadóttir dvaldi í lok júnímánaðar nokkra daga í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Loðmundarfirði og naut kyrrðarinnar og undursamlegrar náttúru þessarar fallegu eyðibyggðar. Heimasíða Framsýnar fékk nokkrar myndir hjá Ósk til birtingar frá þessari einstöku náttúruperlu:

Kirkjan á Klyppstað var byggð 1895 og er nú unnið að endurbótum á kirkjugólfinu og sökklinum undir kirkjunni. Það er mesað á Klyppstað einu sinni á sumri.

Á Sævarenda er stórt æðarvarp og búsetuúrræði kollanna sem byggja varpið fjölbreytt og skemmtilega útfærð.

Framsýn kom að ýmsum málum- örfrétt frá aðalfundi

Framsýn kom að ýmsum málum á síðasta starfsári:

  1. Félagið sendi frá sér 13 ályktanir og yfirlýsingar milli aðalfunda sem eru meðfylgjandi skýrslunni.
  2. Félagið stóð fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn 31. maí 2019 á veitingastaðnum Kaupfélaginu. Boðið tókst að venju mjög vel en um 100 gestir þáðu boð félagsins og fengu sér kaffi og tertu.
  3. Félagið kom að því að styrkja Mærudaga á Húsavík sumarið 2018 sem og nokkrar aðrar samkomur sem haldnar hafa verið á starfsárinu auk þess að styðja við bakið á íþróttafélögum á félagssvæðinu.
  4. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna stóðu fyrir opnu húsi á aðventunni í desember líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á kaffi, tertur og tónlistaratriði. Fjölmargir lögðu leið sína til stéttarfélaganna og þáðu veitingar.
  5. Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á sýningar á vegum Leikfélags Húsavíkur og Leikdeildar Eflingar. Leikritin voru til sýningar eftir áramótin 2019.
  6. Framsýn stóð fyrir trúnaðarmannanámskeiði í apríl 2019. Félagsmálaskóli alþýðu sá um skipulagningu námskeiðsins sem stóð yfir í tvo daga. Undanfarin ár hefur félagið staðið fyrir trúnaðarmannanámskeiði á hverju ári enda mikilvægt að efla trúnaðarmenn í störfum sínum á vinnustöðum.
  7. Félagið minnist Hafliða Jósteinssonar sem lést 2. ágúst 2018 með því að færa Hvammi, heimili aldraðra Soundbar/hljóðstöng og DVD spilara að gjöf. Hafliði var alla tíð mjög virkur í starfi Framsýnar, áður Verslunarmannafélags Húsavíkur. Hafliði var sannur og góður félagi.
  8. Ráðist var í þakviðgerðir á húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 í lok sumars 2018. Norðurvík tók að sér verkið. Kostnaðaráætlun hljóðaði uppá krónur 5.819.300- fyrir heildarvinnu. Um var að ræða löngu tímabæra aðgerð.
  9. Félags- og jafnréttismálaráðherra, Ásmundur Daði Einarsson ásamt aðstoðarmanni óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar í júní 2018. Ráðherra óskaði eftir góðu samstarfi við Framsýn um velferðarmál.
  10. Hin árlega Sólstöðuhátíð var haldin á Kópaskeri í júní 2018. Framsýn var beðið um að kynna félagið á hátíðinni. Formaður og varaformaður Framsýnar höfðu umsjón með kynningarbás Framsýnar og kynntu verkefni og starfsemi Framsýnar.
  11. Á hátíðarhöldunum 1. maí var Kristjáns Ásgeirssonar minnst en hann gegndi stjórnunarstörfum fyrir Verkalýðsfélag Húsavíkur í 27 ár eða til ársins 1992, þar af um tíma sem formaður. Hann andaðist 12. apríl 2019 en hann fæddist 26. júlí 1932. Kristján sem var mikill verkalýðssinni setti sterkan svip á uppbyggingu félagsins og lagði grunn að því góða starfi sem síðar varð viðhaldið. Hann var gerður að heiðursfélaga í Verkalýðsfélagi Húsavíkur á 95 ára afmæli félagsins. Athöfnin fór fram þann 1. maí 2006 á hátíðarhöldum dagsins.

Ljósmyndasýning á Mærudögum

Framsýn stendur fyrir ljósmyndasýningu á Mærudögum að Garðarsbraut 26, efri hæð. Það er fyrir ofan Skrifstofu stéttarfélaganna. Til sýnis verða gamlar ljósmyndir af verkakonum við störf, það er frá tíma Verkakvennafélagsins Vonar fyrri hluta síðustu aldar. Um er að ræða virkilega áhugaverðar myndir sem lýsa atvinnuháttum vel frá þessum tíma.

Ljósmyndasýningin verður opin frá kl. 13:00 til 18:00 laugardaginn 27. júlí. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir og boðið verður upp á kaffi, aðra drykki og tertu.
Framsýn stéttarfélag

Útnefndur besti veitingastaðurinn

Fosshótel Húsavík var nýlega útnefndur besti veitingastaðurinn 2018 hjá Íslandshótelum. Innan keðjunnar eru 17 hótel víða um land. Um er að ræða mikla viðurkenningu fyrir hótelið og starfsmenn sem leggja mikinn metnað í að þjónusta þá gesti sem sækja hótelið heim. Í sumar starfa um 50 starfsmenn hjá Fosshótel Húsavík sem flestir eru í Framsýn. Hótelstjóri er Erla Torfadóttir. Á myndinni má sjá Guðrúnu Þórhallsdóttur veitingastjóra og Hrólf Jón Flosason yfirkokk með bikarinn góða sem á stendur „Besti veitingastaðurinn 2018.“ Eðlilega eru starfsmenn að rifna úr stolti og til hamingju með það.

Sumarferð stéttarfélaganna

Eins og undanfarin ár munu stéttarfélögin standa fyrir sumarferð í ár. Hún verður farin laugardaginn 17. ágúst og verður dagsferði í Flateyjardal.

Lagt verður af stað frá Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26 klukkan 8:30. Tíminn verður því með ferðalöngum í liði enda margt að skoða í þessari földu nátturuperlu. Heimkoma er áætluð um kvöldmatarleitið. Fararstjórn er í höndum Óskar Helgadóttur varaformanns Framsýnar en hún þekkir hverja þúfu á þessum slóðum.

Skráning er á Skrifstofu stéttarfélaganna í síma 464 6600.