Einhver sem hefur gist í íbúð 204 í Þorrasölum hefur gleymt þessu úri sem sést á mynd hér að ofan. Úrið er nú statt á Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem eigandinn getur nálgast það.
Einhver sem hefur gist í íbúð 204 í Þorrasölum hefur gleymt þessu úri sem sést á mynd hér að ofan. Úrið er nú statt á Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem eigandinn getur nálgast það.
Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki sínu desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof. Uppbótin er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Við starfslok á að gera upp áunna desemberuppbót.
Ekki er enn búið að semja við ríki eða sveitarfélögin og því gilda þar sömu upphæðir og í fyrra. Þegar búið verður að semja við ríki og sveitarfélögin þarf að greiða uppbót miðað við það sem samið verður um. Sett verður inn frétt á heimasíðuna með réttum upphæðum um leið og samningar nást.
Almenni markaðurinn – kr. 92.000,-
Þeir sem eru í starfi fyrstu viku í desember eða hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eiga rétt á uppbót eigi síðar en 15. desember. Fullt ársstarf m.v. 45 vikur eða 1.800 klst. á tímabilinu 1. janúar til 31. desember.
Ríkið – ósamið
Kjarasamningar hafa ekki tekist milli ríkisins og Starfsgreinasambandsins og því liggur ekki fyrir hver desemberuppbótin verður í ár. Hins vegar er hefð fyrir því að greiða, við slíkar aðstæður, desemberuppbót fyrra árs sem er kr. 89.000,-. Desemberuppbótin leiðréttist síðar þegar gengið hefur verið frá endanlegum kjarasamningi. Þeir sem eru við störf fyrstu viku nóvember eða hafa starfað í 13 vikur samfellt á árinu skulu fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda desemberuppbót, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs.
Sveitarfélög – ósamið
Kjarasamningar hafa ekki tekist milli sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins og því liggur ekki fyrir hver desemberuppbótin verður í ár. Hins vegar er hefð fyrir því að greiða, við slíkar aðstæður, desemberuppbót fyrra árs sem er kr. 113.000,-. Desemberuppbótin leiðréttist síðar þegar gengið hefur verið frá endanlegum kjarasamningi. Þeir sem starfað hafa frá 1. september skulu fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember. Desemberupphæðin miðast við starfstíma og starfshlutfall. Þeir sem láta af störfum á árinu eiga rétt á desemberuppbót hafi þeir starfað samfellt í 6 mánuði. Greitt er miðað við starfstíma og starfshlutfall og miðast þá tímabilið við 1. janúar til 31. desember.
Meðfylgjandi þessari frétt er mynd af góðu fólki sem lengi kom að stjórnun Verkalýðsfélags Húsavíkur, Kristjáni Ben, Helga Bjarna, Kristjáni Mik, Helgu Gunnars og Kristjáni Ásgeirs.
Velferðarsjóður Þingeyinga gegnir mikilvægu hlutverki í Þingeyjarsýslum. Það er að styrkja þá sem eiga fjárhagslega erfitt í hinu daglega lífi. Sjóðurinn hefur undarnfarið biðlað til samfélagsins eftir framlögum þar sem þörfin er mikill ekki síst núna þegar jólahátíðin nálgast. Að sjálfsögðu brást Framsýn við erindinu og lagði sjóðnum til kr. 100.000,-. Skorað er á aðra þá sem koma því við að styrkja sjóðinn að gera slíkt hið sama og Framsýn. Stöndum með þeim sem minna mega sín og leggjum mikilvægu verkefni lið. Reiknisnúmer: 1110-05-402610 og kt 600410-0670
Nú kl. 11:15 hófust viðræður í Reykjavík milli Framsýnar og Flugfélagsins Ernis um áframhaldandi sérkjör félagsmanna á flugleiðinni Húsavík-Reykjavík. Samkomulagið hefur byggst á því að Framsýn í umboði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hefur verslað ákveðið magn af flugmiðum af flugfélaginu á sérkjörum fyrir félagsmenn stéttarfélaganna. Á síðustu 12 mánuðum hafa um 5.000 flugmiðar verið seldir í gegnum stéttarfélögin til félagsmanna. Almenn ánægja hefur verið með samstarfið og binda stéttarfélögin vonir við að nýr samningur milli aðila verði undirritaður fyrir jól svo sérkjörin haldist áfram á næsta ári. Núverandi samkomulag rennur út um áramótin.
Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar síðasta mánudag var gengið frá kjöri á fulltrúum félagsins í samninganefnd Sjómannasambands Íslands sem fer með samningsumboð félagsins í komandi kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Samninganefndin verður skipuð fulltrúum frá öllum aðildarfélögum sambandsins. Ákveðið var að Jakob Gunnar Hjaltalín verði aðalmaður í samninganefndinni fh. Sjómannadeildar Framsýnar og Aðalsteinn Árni verði varamaður.
Sjómannadeild Framsýnar hafði áður samþykkt að fela Sjómannasambandinu samningsumboð félagsins. Þá hafði Framsýn einnig áður mótað kröfugerð sjómanna innan Framsýnar sem þegar hefur verið komið á framfæri við Sjómannasamband Íslands.
Nú þegar fjárhagsáætlanagerð stendur yfir hjá sveitarfélögunum minnir Alþýðusamband Íslands sem og Framsýn stéttarfélag á yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga síðastliðið vor þar sem mælst var til þess að sveitarfélögin tækju þátt í að stuðla að verðstöðugleika með því að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám.
Í yfirlýsingunni beindi Samband íslenskra sveitarfélaga þeim tilmælum til sveitarfélaganna að gjöld á þeirra vegum hækki ekki umfram 2,5% á árinu 2020, og minna ef verðbólga væri lægri, en yfirlýsingin vó þungt í heildarniðurstöðu kjarasamninga.
Sveitarstjórnir ákvarða gjöld fyrir ýmsa þjónustu sveitarfélaganna en þar má m.a. nefna leikskólagjöld, gjöld fyrir frístundaheimili, skólamáltíðir, sundlaugar auk fasteignagjalda en ljóst er að hækkanir á opinberum gjöldum sem þessum minnka ávinning launafólks af kjarasamningum.
Nauðsynlegt að lækka álagningarhlutfall eigi hækkanir á fasteignagjöldum að vera innan við 2,5%
Fasteignagjöld eru í flestum tilfellum reiknuð sem hlutfall af fasteignamati og munu hækkanir á fasteignamati því leiða til hækkana á fasteignagjöldum ef engar breytingar verða gerðar á álagningarhlutfalli sveitarfélaganna.
Breytingar á fasteignamati fyrir næsta ár hafa legið fyrir síðan í sumar og því ljóst hvernig fasteignaskattar munu hækka í hverju sveitarfélagi ef álagningarhlutfallið helst óbreytt. Ef breyting á fasteignamati í 22 hverfum í 16 stærstu sveitarfélögunum er skoðuð, má sjá að í öllum tilfellum nema einu hækkar fasteignamatið milli ára. Þannig lækkar fasteignamatið einungis í miðbæ Reykjavíkur, um 2% í fjölbýli og 1,1% í sérbýli en töluverðar hækkanir má sjá á fasteignamati í öðrum hverfum.
Opinberum aðilum ber að sýna ábyrgð og taka þátt í því að viðhalda verðstöðugleika svo að markmið kjarasamninga um aukinn kaupmátt, lága verðbólgu og lægri vexti nái fram að ganga. Alþýðusambandið ætlast til þess að sveitastjórnir landsins axli þessa ábyrgð í yfirstandandi fjárhagsáætlanagerð og standi við gefnar yfirlýsingar gagnvart launafólki.
ASÍ mun veita sveitarfélögum aðhald og fylgjast náið með gjaldskrárbreytingum á næstu vikum.
Framsýn stéttarfélag hefur tekið í notkun nýja orlofsíbúð á Akureyri sem er í Furulundi 11 E og hefur þegar verið opnað fyrir útleigu á íbúðinni til félagsmanna sem er í raðhúsi. Fyrstu gestirnir fóru í íbúðina síðasta föstudag. Það fór vel á því að það væri Svava Árnadóttir og fjölskylda frá Raufarhöfn enda Svava verið mikil baráttukona fyrir því að Framsýn eignaðist íbúð á Akureyri fyrir félagsmenn. Við það tækifæri afhendi Ósk Helga varaformaður Framsýnar Svövu blómvönd frá félaginu.
Samkvæmt ákvæðum sérkjarasamnings Framsýnar/Þingiðnar og PCC BakkiSilicon hf. er fullur vilji til þess meðal samningsaðila að taka upp hæfnisálag í verksmiðju fyrirtækisins á Bakka. Síðustu vikurnar hefur verið unnið að því að fullmóta launakerfið með það að markmiði að því verði komið á fyrir áramót. Grunnlaun starfsmanna koma til með að byggjast sérstaklega á tveimur þáttum, starfsaldri og hæfni. Starfsaldurshækkanir eru hluti af núgildandi launatöflu. Til viðbótar koma starfsmenn til með að geta sótt um frekari hækkanir enda standist þeir gefnar hæfniskröfur. Hæfnismatið fer fyrst fram eftir eins árs starfsaldur, það er hæfnisþrep 1. Síðar, en þó innan 5 ára frá ráðningu, geta starfsmenn óskað eftir endurskoðun á matinu með það að markmiði að komast í hæfnisþrep 2 sem um leið gefur viðkomandi starfsmanni hærri laun. Stéttarfélögin binda miklar vonir við að hæfnisálagið komi til með að skila starfsmönnum hærri launum og um leið PCC betra starfsfólki og þar með betri afkomu fyrirtækisins.

Starfsmenn PCC hafa undanfarið setið kynningarfundi um málefni verksmiðjunnar og nýja launakerfið sem er í mótun. Þeim hefur verið skipt upp í hópa en um 150 manns vinna hjá fyrirtækinu sem er þegar orðinn einn mikilvægasti vinnustaðurinn á Húsavík en fyrirtækið hóf framleiðslu á síðasta ári.
Það er alltaf líf og fjör á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Daglega koma margir við á skrifstofunni til að leita sér upplýsinga. Tveir góðir komu við í gær, þeir Michael Þórðarson og Þorgrímur Sigurjónsson, sem eru hættir á vinnumarkaði eftir langa starfsæfi. Þeir eru félagsmenn í Framsýn og eru heppnir að vera í stéttarfélagi þar sem menn viðhalda áunnum réttindum þrátt fyrir að vera hættir á vinnumarkaði og greiði því ekki lengur félagsgjald til Framsýnar. Þeir tóku spjall við starfsmenn stéttarfélaganna og lögðu formanni Framsýnar lífsreglurnar.

Stjórn Framsýnar, trúnaðarráð og stjórn Framsýnar-ung kemur saman til fundar næsta mánudag kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Mörg mál eru á dagskrá fundarins:
Dagskrá:
Þekkingarnet Þingeyinga og Náttúrustofa Norðausturlands halda upp á 15 ára starfsafmæli í dag. Fyrir 15 árum hófst starfsemi þessara stofnana undir einu þaki í þekkingarsetri á Húsavík. Áður hafði reyndar símenntunarhluti Þekkingarnetsins hafið starfsemi, undir nafni Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga. Á þessum 15 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar og starfsemin eflst og stækkað. Starfsfólk hefur bæst við, verkefni stækkað og þeim fjölgað og stofnanir bæst í hópinn. Í dag eru heilsársstarfsmenn um 15 og fjölgar töluvert árstíðabundið í tímabundnum verkefnum. Í tilefni af þessum merka áfanga er gestum og gangandi boðið velkomið í kaffisopa og spjall á Þekkingarsetrinu ykkar á Hafnarstéttinni á Húsavík í dag.
Tjörneshreppur hefur óskað eftir viðræðum við Framsýn stéttarfélag um gerð kjarasamnings fyrir hönd starfsmanna hreppsins. Áður hafði Tjörneshreppur afturkallað samningsumboðið frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Þar sem Starfsgreinasamband Íslands hefur haft samningsumboð Framsýnar vegna sveitarfélaga á félagssvæði félagsins og í ljósi þess að Tjörneshreppur hefur afturkallað samningsumboðið frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur Framsýn ákveðið að afturkalla samningsumboðið frá Starfsgreinasambandinu er varðar Tjörneshrepp. Gengið var frá því í dag
Fullur vilji er til þess innan hreppsnefndar Tjörneshrepps og stjórnar Framsýnar að hefja þegar í stað viðræður um gerð kjarasamnings fyrir starfsmenn hreppsins með það að markmiði að klára gerð kjarasamnings á næstu vikum.
Þess má geta til viðbótar að ákvörðun Tjörneshrepps þarf ekki að koma á óvart þar sem framkoma Launanefndar sveitarfélaga í garð sveitarfélagsins og reyndar í garð samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands hefur verið með miklum ólíkindum.
Síðustu daga hefur verið unnið að því að klára að standsetja íbúð Framsýnar að Furulundi 11 E á Akureyri. Félagsmenn geta nú þegar haft samband við skrifstofu stéttarfélaganna og fengið hana leigða. Fyrstu leigjendur eru væntanlegir í íbúðina um helgina.
Í síðustu viku fór 20 manna hópur frá Alþýðusambandinu í stutta ferð til Palestínu til að kynnast af eigin raun aðstæðum vinnandi fólks á svæðinu, meðal þeirra sem boðinn var þátttaka í ferðinni var formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Í ferðinni voru haldnir fjölmargir fundir m.a. með verkalýðsfélögum, fulltrúum úr atvinnuvegaráðuneyti Palestínu, góðgerðarfélögum og læknum auk þess sem farið var inn í Balata flóttamannabúðirnar í Nablus.
Hér er rætt við Drífu Snædal forseta ASÍ og Halldór Oddsson lögfræðing sem voru meðal þeirra sem fóru í ferðina.
Embætti landlæknis, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður hafa undanfarna mánuði unnið að viðmiðum til að tryggja að vinnustaðir hafi góð verkfæri til að skapa heilsueflandi umhverfi.
Nánar má lesa um málið hér.
SGS og Eflingu barst núna eftir hádegið bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem tilkynnt var að sveitarfélögin hefðu einhliða ákveðið að vísa yfirstandandi kjaradeilu til Ríkissáttasemjara. Ástæðan sem tilgreind er og vísað til er ályktun sem samþykkt var í tilefni af kvennafrídeginum á þingi SGS í síðustu viku. Þar var meðal annars var fjallað um stöðu ófaglærða verkakvenna og stöðunni kjaradeilunni.
Sveitarfélögin virðast telja ástæðu til að slíta viðræðum við SGS og Eflingu þegar þau segja hlutina eins og þeir eru alveg óhrædd við að berjast fyrir eðlilegum réttindum og betri kjörum fyrir sitt fólk. Kjarkurinn er nú ekki meiri en svo hjá samninganefnd sveitarfélaganna að þau treystu sér ekki til þess að koma þessu á framfæri á fundi né að hafa samband með beinum hætti við okkur sem sína viðsemjendur.
Er það raunar í samræmi við þeirra framgöngu og málatilbúnað síðan samningar runnu út í apríl, hvort sem það snýr að jöfnun lífeyrisréttinda, innágreiðslum, fyrirkomulag viðræðna eða öðrum atriðum.
það er skrýtinn veruleiki sem birtist í þessu bréfi sveitarfélaganna að telja það ekki ,,að koma illa fram við kvennastéttir og að þeim sé sýnd takmarkalaus lítisvirðing í yfirstandandi viðræðum“ að neita að ræða kröfur þessa hóps, vísa hluta þeirra til dómstóla og sýna sjónarmiðum okkar í engu skilning.
Starfsgreinasambandið mun ekki láta hræða sig frá því að álykta á sínum þingum um það sem brennur á okkar fólki eða standa fast á okkar réttmætu og eðlilegu kröfum.
Það er aftur á móti ljóst að þessi málatilbúnaður sveitarfélaganna stuðlar með engu móti að lausn þessarar alvarlegu deilu og hvaða afleiðingar það getur haft er alfarið á ábyrgð Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Reykjavík 28. október 2019
ps. Framsýn stéttarfélag er aðili að þessari deilu í gegnum Starfsgreinasamband Íslands.
Starfsmenn stéttarfélaganna leggja mikið upp úr góðu sambandi við fyrirtæki á svæðinu. Einn liður í því er að fara í heimsókn í fyrirtækin. Í dag fór starfsmaður stéttarfélaganna í heimsókn til Garðvíkur. Guðmundur Vilhjálmsson, eigandi fyrirtækisins fór vel í gegnum hvernig rekstur fyrirtækisins gengur fyrir sig og hvað sé á döfunni. Meðal annars var ný aðstaða fyritækisins á Haukamýri 1 skoðuð en það húsnæði var áður í eigu Steinsteypis. Til stendur að flytja verkstæðisvinnu fyrirtækisins í þetta nýkeypta húsnæði en formleg opnun þess verður 15. nóvember næstkomandi. Sagði Guðmundur að þetta mundi gjörbreyta allri aðstöðu fyrirtækisins, sérstaklega þegar kemur að verslunarhluta þess.
Verkefnastaða Garðvíkur er með ágætum um þessar mundir en 11 starfsmenn voru við störf hjá fyrirtækinu í dag. Garðvík hefur verið með talsvert af verkefnum utan Húsavíkur undanfarið, til dæmis í Fjarðabyggð og á Þórshöfn. Fyrir liggur verkefni í Mývatnssveit en Garðvík hefur einmitt unnið þónokkur verkefni þar á liðnum árum.
Myndina tók Aðalsteinn J. Halldórsson, starfsmaður stéttarfélaganna en þar má sjá Guðmund á nýja verkstæðinu á Haukamýri 1.
Þingeyjardeild Miðflokkusins hélt opin málfund um álögur á fyrirtæki og einstaklinga í salakynnum Skrifstofu stéttarfélaganna laugardaginn 26. október. Fundurinn var vel sóttur en um 60 manns sátu hann.
Ásamt formanni Miðflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni tóku til máls á fundinum Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, Hrafnhildur E. Karlsdóttir, hótelstjóri Hótel KEA, Ólafur Ísleifsson, þingmaður, Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður og loks Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.
Sjöunda þingi Starfsgreinasambands Íslands lauk á föstudag. Ný framkvæmdastjórn var kjörinn á þinginu og hlaut Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, endurkjör í stjórnina.
Frekari fréttir af þinginu má lesa á vef Starfsgreinasambandsins.
Halló, heyrir einhver í mér
„Halló, heyrir einhver í mér?“ Hrópin bergmála á þröngum upplýstum stuttum kuldalegum gangi. Í öðru enda hans eru hátalara sem enginn hefur sótt en við hinn situr ung stúlka í léttum hjólastól og keyrir hann utan í hurðina í von um að einhver hinum megin heyri bank. Hún kallar aftur: „Halló, ég er lokuð hérna inni, getið þið hjálpað mér.“ Orðin kastast af veggjunum og deyja út. Bílstjórinn hjá ferliþjónustunni hafði ýtt ungu konunni inn fyrir dyrnar og farið, ekki áttað sig á að hún hafði ekki afl til að opnað dyrnar út úr ganginum. Og ekki heldur þær sem hún kom inn um. Henni er mál að pissa. Hún vill ekki vera þarna. Hún vill ekki vera í hjólastól. Hún vildi að hún gæti opnað hurðina, en hún getur það ekki, hendurnar eru aflvana. Hún gæti ekki opnað dyrnar þótt líf hennar lægi við. Hún er bjargarlaus lokuð inn á þjónustugangi í Eirbergi, kennslustofum Háskóla Íslands við Landspítalann. Hún er orðin of sein tíma. Hún kemst ekki á stólnum sínum sömu leið og aðrir nemendur, þarf að fara inn um þjónustuinnganginn sem ætlaður er fyrir vörur, það sem kallað er aðföng. Nokkuð lýsandi fyrir stöðu okkar sem erum fötluð, hugsar konan, fordyrnar eru fyrir þau ófötluðu, okkur hinum er vísað á bakdyrnar. En nú eru þær læstar.
Konan í stólnum er Margrét Lilja Arnheiðardóttir, 22 ára gamall nemandi við Háskóla Íslands. Hún vissi alltaf að hún myndi fara í háskóla en það hvarfaði ekki að henni að hún myndi koma þangað í hjólastól. Það er ekki markmiðið hjá neinum. Margrét er ekki enn orðin vön þessum stól. Kannski venst engin hjólastól. Segir maður hjólastólnum sínum, hugsaði Margrét, eins og maður segir fæturnir mínir, mjöðmin á mér, lifrin í mér? Frá því hún gat ekki lengur gengið síðast liðið haust og settist í stólinn hefur hún talið sér trú um að þetta sé tímabundið ástand, að einn daginn myndi hún standa upp úr stólnum. En þar sem hún situr þarna lokuð inni á þjónstugangi leyfir hún sér að hugsa, en … hvað ef hún muni ekki ganga aftur, ekki nema kannski tvö, þrjú skref? Hvað ef hún verður alltaf í þessum stól. Lokuð inni á þessum gangi eða einhverjum öðrum gangi, bjargarlaus, fyrir neðan tröppur, fyrir framan klósett sem hún getur ekki notað hjálparlaust, fyrir framan dyr sem hún getur ekki opnað, dyr sem standa henni ekki opnar.
Svo voru dyrnar opnaðar. „Hvað ert þú að gera hér?“ spurði forviða maður. „Ekkert“, svaraði Margrét Lilja, „það er ekkert hægt að gera hér.“ Nema náttúrlega að horfast í augu við stöðu sína.
—
Margrét Lilja var bráðgert barn, varð læs án þess að nokkur kannaðist við að hafa kennt henni að lesa. Og eins og algengt er um börn sem eru örðuvísi var henni strítt, lögð í einelti bæði í Hólabrekkuskóla í Breiðholti og í Hveragerði. Margréti fannst því ekki erfitt að flytjast um fermingu með móður sinni og bróður út til Sarpsborgar í Austfold í Noregi, þótt það reynist mörgum börnum þungt að flytjast milli landa á hápunkti gelgjunnar. Margrét var hins vegar fegin að losna frá Íslandi, eignast nýtt líf. Og hún eignaðist góða vini, sérstaklega á menntaskólaárunum. Henni finnst hún hafa verið ósköp venjulegt barn og unglingur. Nema hvað hún var mjög veik sem barn, undarlega liðug og laus í liðunum sem krakki, alltaf að detta og slasa sig. Og á unglingsárunum glímdi hún við alvarlega anorexíu, alveg frá því skömmu eftir að hún kom til Noregs og þar til hún veiktist alvarlega 21 árs. Anorexíunni fylgdi kvíði og þunglyndi, en ekkert of alvarlegt, segir Margrét, hún var ári lengur í menntaskóla, en það kom ekki að sök. En hún var alltaf þreytt. Og anorexían fór illa með líkamann. Sem var veikur fyrir. „Ég vissi að það var eitthvað að mér, en ég vissi ekki hvað,“ segir Margrét.
Eftir menntaskólann, í ársbyrjun 2017, fór Margrét sem aupair til Englands, í vist hjá íslenskri konu, Ágústu sem átti eftir að reynast henni vel, manninum hennar og tveimur börnum. Það gekk ágætlega, hún sinnti börnunum og leið vel hjá fjölskyldunni, en einn morgun í ágúst vaknaði hún ekki. Og ekki heldur næsta morgun. Þegar hún loks vaknaði á þriðja degi gat hún ekki hreyft sig. Og auðvitað ekki sinnt börnunum. Ágústa sinnti henni, var komin með sjúkling á heimilið, unga konu sem lá aflvana í rúminu og gat ekki hreyft sig. Heimilislæknir fjölskyldunnar tengdi saman brotin úr sjúkrasögu Margrétar og sagði að hún væri með heilkenni sem kallast Ehlers–Danlos sem veldur skemmdum í bandvef, svo hann brotnar. Þetta erfist, það eru margir með þetta, sumir án þess að vita af því, en hjá sumum veldur þetta miklum skemmdum, verkjum, lömun og allskyns einkennum. Margrét Lilja er ein af þeim.
Þegar það var talið óhætt að flytja hana var flogið með Margréti til Íslands þar sem afi og amma ætluðu að taka á móti henni . En Margrét veiktist í vélinni, gat ekki andað, missti meðvitund og var flutt með bláum ljósum á sjúkrabíl frá Keflavík á Borgarspítalann þar sem hún lá á taugadeildinni næstu tíu vikurnar.
Svo tók við endurhæfing. Reyndu að ganga lengra, þú getur þetta. Ekki gefast upp, reyndu að sleppa hækjunum. Ekki setjast í hjólastól. Ef þú sest í hjólastól þá stendurðu aldrei upp aftur. Áfram. Reyndu meira. Gerðu meira. Ekki hætta.
Margrét skráði sig í lífeindafræði í Háskólanum um haustið 2018. Mætti á hækjunum fyrsta daginn og ætlaði ekki að láta veikindin stöðva sig. Halda áfram, ekki gefast upp, þú getur þetta. Þegar hún vaknaði daginn eftir var hún lömuð hægra megin, frá öxl og niður í tær. Þannig lá hún í þrjá daga. Á fjórða degi var sóttur hjólastóll og á honum fór hún í skólann. Yfir þröskulda, upp tröppur, afsakið, en geturðu hjálpað mér, muna að panta bíl á réttum tíma. Hvorki Læknagarður né Eirberg eru gerð fyrir hjólastóla. En Margrét vildi ekki láta það stöðva sig. Ekki einu sinni þegar hún lokaðist inni á þjónustuganginum. Það var ekki fyrr en höfuðkúpan losnaði frá efsta liðnum í hryggnum og hún var komin með kraga, máttvana og veik, að hún gafst upp. Hún gat ekki klárað lífeindafræðina. Það voru of margir þröskuldar á leiðinni.
—
Líf öryrkja er endalaus barátta. Þeir þurfa að berjast við sjúkdóminn sinn og fötlunina. Margir þurfa að berjast til að komast leiðar sinnar, komast þangað sem aðrir fara án nokkurs erfiðis. Flestir þurfa að berjast við fátækt og svo til allir við Tryggingastofnun og aðra hluta kerfisins, kerfis sem þó var búið til þeim til stuðnings. Og allir öryrkjar þurfa að berjast við fordóma og þöggun, berjast fyrir að einhver hlusti, fyrir að fá að hafa eitthvað um málefni sín að segja, fyrir að fá að vera fullgild manneskja. Hún getur verið óbærilegt, þessi linnulausa barátta. Og ekki batnar það þegar fólk heldur því fram að öryrkjar séu í þessari stöðu vegna þess að þeir hafi gefist upp, berjist ekki nóg. Festir öryrkjar berjast frá því þeir vakna og þar til þeir lognast út af, hverja stund. Það sem öðrum reynist auðvelt getur reynst þeim nær óyfirstíganlegt. Ekki bara vegna fötlunar og sjúkdóma heldur líka vegna fátæktar, útilokunar, höfnunar og hindrana.
Og þegar fólk þarf að berjast er betra að berjast í hóp, það er bugandi að berjast ein. Margrét gaf sig því fram við Öryrkjabandalagið, mætti á fund Kvennahreyfingarinnar ÖBÍ og kynntist þar mörgu góðu fólki. Og fór síðast liðið vor á ráðstefnu í Brussel um málefni öryrkja og varð eiginlega fyrir hugljómun, hitti fólk sem berst fyrir réttindum og kjörum fatlaðra, veikra og sjúkra, um allan heim, á svo mörgum vígstöðvum. Margrét fann kraftinn í þessari hreyfingu, hindranir breyttust í óunna sigra og hún vildi vera með. Hún skráði sig í félagsfræði, ætlar að mennta sig í einhverju sem tengist þessari baráttu. Í félagsfræðinni er líka auðveldara aðgengi en í lífeindafræði, ekki fullkomið en skárra. Hún starfar í aðgengisátaki Öryrkjabandalagsins, talar á fundum um stöðu ungra öryrkja, er í ráði Háskólans um málefni fatlaðs fólks, er virk í stúdentapólitíkinni og er til í meira. Ef hún hefur krafta til.
„Ég get svo margt,“ segir Margrét. „Ég get auðvitað ekki allt, en ég get helling. Ég er ung og ég get lært. Ég get starfað í hreyfingu öryrkja og fyrir málefnum fatlaðra. Ég get barist fyrir viðurkenningu og bættu aðgengi, gegn fordómum og þöggun, fyrir virðingu og mannsæmandi kjörum. Ég hef það ekki slæmt, bý í eigin íbúð og get lifað góðu lífi ef ég gæti að orkubúskapnum mínum, sem er ekki góður. En svo er sumt sem ég get ekki. Ég get til dæmis ekki tekið námslán því ég veit ekki hvort ég haldi heilsu út önnina. Ef ég veikist falla lánin á mig. Það er ekki gert ráð fyrir að veikt fólk taki námslán. En ég get lært þangað til ég veikist og kannski veikist ég ekki og tek prófin. Ég hef alltaf átt auðvelt með að læra og mun örugglega ná góðum prófum.“
„Og ég er svo margt,“ segir Margrét. „Ég er ósköp venjuleg ung kona, hegða mér og hugsa um það sama og flestar ungar konur. En ég er líka með alvarlegan sjúkdóm og ég er öryrki. Ég er ekki annað hvort af þessu, ég er bæði. Þegar ég varð öryrki hætti ég ekki að vera ung kona. Þið ættuð að tala við mig eins og ég er, ekki eins og þið haldið að ég sé. Og þið ættuð ekki að loka eyrunum fyrir því sem ég hef að segja vegna þess að ég er veik og ég er öryrki, vegna þess að ég er í hjólastól og þarf hjálp við margt sem ykkur finnst sjálfsagt að geta gert. Þú mátt alveg hlusta á það sem ég hef að segja. Ég er hérna … Halló, heyrir einhver í mér?“