Vorið er komið og börn í skoðunarferð

Veðrið hér Norðanlands hefur verið með miklum ágætum síðustu vikurnar. Með þessari stuttu frétt fylgja með myndar af börnum á leikskóla- og grunnskólaaldri sem gerðu sér ferð í Grobbholt á Húavík til að upplifa sauðburð og góða veðrið. Góða helgi landsmenn góðir:

Samstarf sveitarfélaga, verkalýðsfélaga og hagsmunaaðila – formaður með erindi

Vorfundur SSSFS (samtaka stjórnenda á stjórnsýslu- og fjármálasviðum sveitarfélaga) stendur yfir á Húsavík um þessar mundir. Í gær var formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, fenginn til að vera með erindi fyrir fundarmenn sem hann nefndi „Samstarf sveitarfélaga, verkalýðsfélaga og hagsmunaaðila“. Fundur SSSFS fer fram á Fosshótel Húsavík auk þess sem hópurinn kynnir sér atvinnuuppbyggingu og samfélagsmál á svæðinu. Án efa koma fundarmenn til með að upplifa góða tíma á Húsavík ekki síst þar sem veðrið er frábært.

Nemendur í Stórutjarnaskóla fræðast um verkalýðsmál

Það er ákaflega mikilvægt fyrir ungt fólk sem er að hefja þátttökuí atvinnulífinu að fá fræðslu um um réttindi og ekki síður skyldur sínar á vinnumarkaði. Eitt af hlutverkum stéttarfélaga er að heimsækja grunn- og framhaldsskóla landsins og fræða þennan hóp þar um. Aðalsteinn Halldórsson starfsmaður Skrifstofu stéttarfélaganna fór nýverið í skólaheimsókn í Stórutjarnaskóla, þar sem hann hitti krakkana í 9 og 10 bekk og útskýrði m.a.fyrir þeim hlutverk stéttarfélaga, hvernig lesa ætti úr launaseðlum og ýmislegt gagnlegt sem öllum launþegum er þarft að tileinka sér. Aðalsteini var vel tekið, enda þessi góði hópur einstaklega fróðleiksfús. Þegar þetta unga fólk síðan í lok þessa mánaðar leggur námsbókum sínum tímabundið til hliðar og hefur störf víðsvegar um félagssvæði Framsýnar ættu þeim öllum að vera í fersku minni fyrirlestur Aðalsteins.

 

 

Félagar í Þingiðn, ekki gleyma að kjósa!

Kosningin er rafræn og eru allir félagsmenn hvattir til að skrá sig inn og kjósa um viðkomandi kjaraasamning

>> KJÓSA HÉR
>> GLOSUJ TU
>> CLICK TO VOTE


Kynning á helstu atriðum   –   KYNNINGARGLÆRUR   –   HLAÐVARPSSPJALL

>> ENSKA
>> PÓLSKA

>> Sjá samning SA
>> Sjá samning SA vegna meistara
>> Sjá samning Bílgreinasambandsins
>> Sjá samning Félags pípulagningameistara
>> Sjá samning FIT og SA vegna snyrtifræðinga

Þann 3. maí s.l. undirritaði Samiðn fyrir hönd aðildarfélaga sinna, kjarasamning við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd aðildarfyrirtækja og meistarafélaga innan SI. 7 maí var undirritaður samningar við Bílgreinasambandið og Félag pípulagningarmeistara sem er efnislega samhljóða samningum við SA

Helstu atriði samningsins eru:
• Kjarasamningurinn gildir frá 1. apríl 2019 og til októberloka 2022.
• Launatöflur eru einfaldaðar. Byrjendataxtar hækka að lágmarki um 90.000 kr. Byrjunarlaun sveina hækkar um 114 þúsund krónur. (sjá launataxta í kynningu á netinu)
Almenn launahækkun er:
• 1. apríl 2019 er kr. 17.000.
• 1. apríl 2020 er kr. 18.000.
• 1. janúar 2021 er kr. 15.750.
• 1. janúar 2022 er kr. 17.250.
• Eingreiðsla 26.000 er kr. og kemur til útborgunar í maí 2019.
Hagvaxtatengdar launahækkanir
• Á árunum 2020 – 2023 komi til framkvæmda launahækkun að gefinni ákveðinni þróun hagvaxtar á hvern íbúa. Þetta ákvæði nýtist best þeim tekjulægri þar sem þessi hækkun fer af fullum þunga á taxtakaup og 75% á önnur laun. Hagvaxtartengdar launahækkanir koma til áhrifa 1. maí árin 2020, 2021, 2022 og 2023 og byggjast á hagvaxtartölum ársins á undan, reiknuðum af Hagstofu Íslands.
Breytingar á vinnutíma – virkur vinnutími – 1. apríl 2020
• Kaffitímar falla út úr virkum vinnutíma, engin breyting á töku kaffitíma nema með ákvörðun á vinnustað.
• Ný deilitala dagvinnu verður 160, í stað 173,33
• Hækkar dagvinnulaun um 8,33% – mánaðarlaun verða óbreytt
• Virkur vinnutími í dagvinnu er 37 klst. og 24 mínútur

1.april 2020 – Nýjar yfirvinnuprósentur
o Yfirvinna 1: 1,02% af mánaðarlaunum (63,2% álag á dagvinnustund í nýju kerfi miða við deilitölu 160 og 76,7% m.v. eldra kerfi og deilitölu 173,33) hámark 17,33 yfirvinnustundir á mánuði.
o Yfirvinna 2: 1,10% af mánaðarlaunum (Refsiálag) (76% álag á dagvinnustund í nýju kerfi og 90,7% m.v.eldrakerfið og deilitölu 173,33) eftir 17,33 yfirvinnustundir og milli klukkan 00:00 og 06:00

1. janúar 2021
o Yfirvinna 1: 1,00% af mánaðarlaunum (60% álag á dagvinnustund í nýju kerfi m.v. deilitölu 160 og 73,3% í eldrakerfinu m.v. deilitölu 173,33) að hámarki 17,33 yfirvinnustundir.
o Yfirvinna 2: 1,15% af mánaðarlaunum (Refsiálag) (84% álag á dagvinnustund í nýju kerfi m.v. deilitölu 160 en 99,3% m.v. eldra kerfi og deilitölu 173,33) eftir 17,33 yfirvinnustundir og milli klukkan 00:00 og 06:00

• Stórhátíðarálag helst óbreytt, 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu (138,3% m.v. 173,33 deilitölu)
Frá 1. apríl 2020 – ný deilitala 156
o Starfsmenn og fyrirtæki geta stytt vinnutíma á vinnustað niður í 36 klst. á viku (156 klst. á mánuði) með samkomulagi sín á milli, meirihluti starfsmanna þarf að samþykkja slíkt.

janúar 2022
o Ef fyrirtæki vill ekki stytta vinnutíma með samkomulagi þá geta starfsmenn einhliða stytt vinnutímann, fellt út formleg kaffihlé, og verður vinnutími á viku 36 klst 15 mínútur!
o Raunveruleg stytting vinnutíma er þá 3 klst 45 mínútur. Þar af 50 mínútur hrein stytting auk niðurfellingar kaffitíma upp á 2:55.
o Gert í “Stöðluðum, valkvæðum fyrirtækjaþætti”
o Starfsmenn ákveða þessa styttingu í leynilegri atkvæðagreiðslu sín á milli!
o Virkur vinnutími á viku 36 klst. og 15 mínútu.

Yfirvinna 1
• Gildir um fyrstu 17,33 klst á launatímabili/mánuði að meðaltali m.v. fullt starf.

Yfirvinna 2 (refsiálag)
• Greiðist af vinnu umfram 177,33 á launatímabili/mánuði!
• Gildir alltaf á nóttunni, frá kl. 00:00 – 06:00
• Verði vinnutími styttur í 156 klst á mánuði lækkar þetta í 173,33 klst

Skýringar á yfirvinnu 1 og 2.
a) Hjá starfsmanni í fullu starfi sem skilar 37 klst. dagvinnu á viku að meðaltali á launatímabili / mánuði (160 klst. m.v. meðalmánuð) er yfirvinna 1 greidd fyrstu 4 klst. á viku að jafnaði eða 17,33 klst. á mánuði m.v. meðalmánuð. Yfirvinna 2 er greidd fyrir yfirvinnu umfram það.

b) Ef starfsmaður skilar ekki fullri dagvinnu vegna vinnuskipulags eða fjarvista er miðað við að yfirvinna 2 sé greidd þegar starfsmaður hefur skilað 41 klst. á viku að meðaltali á mánuði eða 177,33 klst. m.v. meðalmánuð.

c) Dagvinnustundir á sérstökum frídögum, í orlofi, veikindatilvikum eða launalausu leyfi teljast þó sem hluti 37 klst. vinnuviku / 160 klst. mánaðar. Slíkar fjarvistir teljast til vinnustunda í skilningi a) liðar.

d) Óunnin yfirvinna, sem t.d. er greidd vegna skerðingar á hvíldartíma og aukagreiðsla vegna vinnu í greiddum neysluhléum utan dagvinnutímabils, telst ekki með tímum sem safnast upp og veita rétt til greiðslu yfirvinnu 2.

Hækkanir launaliða
Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er:
o Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2019 verði orlofsuppbót kr. 50.000.
o Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2020 verði orlofsuppbót kr. 51.000.
o Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2021 verði orlofsuppbót kr. 52.000.
o Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2022 verði orlofsuppbót kr. 53.000.

Desemberuppbót fyrir hvert almanaksár miðað við fullt starf er:
o Á árinu 2019 92.000 kr.
o Á árinu 2020 94.000 kr.
o Á árinu 2021 96.000 kr.
o Á árinu 2022 98.000 kr.
• Mælingatala, verkfæra og fatagjald hækka um 2,5% í hvert sinn 1. apríl 2019, 1. apríl 2020,
1. janúar 2021 og 1. janúar 2022

Önnur atriði

Þjónusta utan bakvakta
Þjónusta utan bakvakta með fjarlausnum og símhringingum. Sé starfsmanni sem ekki er á bakvakt gert að sinna þjónustu með fjarlausnum eða símhringingum í frítíma sínum skal samið um þóknun vegna þess ónæðis sem af því hlýst. Tilgreina skal þóknun í ráðningarsamningi. Með fjarlausnum er átt við vinnu sem starfsmaður getur unnið utan vinnustaðar með tölvubúnaði.
Við mat á þóknun skal meðal annars litið til þess:
a. Hversu líklegt er að starfsmaður verði fyrir röskun vegna þjónustunnar.
b. Hversu mikið vinnuframlag er farið fram á að hálfu starfsmanns vegna þjónustunnar þegar hennar er krafist.
c. Hversu tafarlausra viðbragða er krafist af hendi starfsmanns.
d. Á hvaða tíma sólahrings starfsmaður kann að vera beðinn um að veita þjónustuna.

Bakvaktarákvæði
Ef starfsmaður þarf að vera reiðubúinn að sinna útkalli með skömmum fyrirvara (innan klukkustundar) fær hann greitt sem svarar 33% dagvinnustundar fyrir hverja klst. á bakvakt.
• Ef starfsmaður þarf að vera reiðubúinn að sinna útkalli innan tveggja klukkustunda fær hann greitt sem svarar 25% dagvinnustundar fyrir hverja klst. á bakvakt.
• Ef starfsmaður þarf að vera reiðubúinn að sinna útkalli innan tveggja til fjögurra klukkustunda fær hann greitt sem svarar 16,5% dagvinnustundar fyrir hverja klst. á bakvakt.
• Fyrir bakvakt á helgidögum (öðrum en sunnudögum) og stórhátíðardögum greiðist 50% hærra bakvaktarálag en skv. ofanskráðu.
• Bakvaktir skal boða með minnst tíu daga fyrirvara og bakvaktaskrá skal að öllu jöfnu ekki gilda í skemmri tíma en tvær vikur.

Um ónæði vegna síma
• Séu símanúmer starfsmanna gefin upp af hálfu fyrirtækisins skal við launaákvörðun tekið tillit til þeirrar vinnu sem af því hlýst.
Orlofsávinnsla
• Starfsmaður sem unnið hefur 10 ár í sömu starfsgrein á rétt á orlofi í 28 virka daga og orlofslaunum sem nema 12,07%. Hækkun orlofs tekur gildi 1. maí 2021 þannig að hærri orlofsprósenta er greidd frá þeim tíma. Aukið orlof kemur þannig til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2022.
Veikindi barna
• Veikindaréttur vegna barna á jafnframt við um börn undir 16 ára aldri í alvarlegum tilvikum sem leiða til sjúkrahúsvistar í a.m.k. einn dag.

Kynningafundir:
Kynningafundur verður mánudaginn 13. maí kl. 17:00 í Stórhöfða 31, 112 Reykjavík. Fundurinn er á fyrstu hæð, gengið inn Grafarvogsmegin
Kynningafundur verður haldinn í Hofi, Akureyri miðvikudaginn 15. maí kl. 17:00. Fundurinn er sameiginlegur með öðrum iðnaðarmannafélögum sem stóðu að samfloti í samningsgerðinni.
Kynningafundir verða haldnir víðar um land sameiginlega með öðrum iðnaðarmannafélögum. Fylgist með á heimasíðu félagsins um nánari tímasetningu.

Atkvæðagreiðsla
Atkvæðagreiðsla um samninginn fer fram með rafrænum hætti. Aðgengi að atkvæðagreiðslunni er gegnum heimasíðu þíns félags. Til þess að kjósa þarftu að hafa rafræn skilríki eða Íslykil. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér samninginn á heimasíðu félagsins og taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
Fyrirtækið APmedia ehf. sér um rafræna kosningu um samninginn. Öll svör vistast í tölvukerfi fyrirtækisins, sem tryggir nafnleynd og að útilokað er að rekja svör til einstaklinga.
Atkvæðagreiðslan hefst föstudaginn 10. maí 2019, kl. 16:00 og mun standa til kl. 12.00 á hádegi þriðjudaginn 21. maí 2019.

>>> Smelltu hér til að taka þátt

Viðræðum miðar áfram

Fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn funduðu með talsmönnum Samtaka atvinnulífsins og PCC í gær um sérkjarasamning aðila fyrir starfsemi PCC á Bakka. Samningurinn rann út um síðustu áramót, frá þeim tíma hafa samningsaðilar hist reglulega til ræða kröfur stéttarfélaganna um breytingar á núverandi samningi.  Viðræðurnar þokuðust áfram í gær og verður fundarhöldum haldið áfram á næstu dögum. Stéttarfélögin hafa lagt mikla áherslu á að klára viðræðurnar í maí, ef ekki þurfi félögin að fara að huga að frekari aðgerðum til að knýja á um gerð sérkjarasamnings milli aðila.

Stéttarfélögin leggja mikið upp úr því að klára gerð sérkjarasamnings við PCC í þessum mánuði.

Launaþróunartrygging skilar sér til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða er það ekki?

Að gefnu tilefni viljum við minna á eftirfarandi samkomulag um hækkanir til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga:

17. apr 2019 launaþróunartrygging, launaskrið
Laun starfsmanna sveitarfélaga sem eru í einhverjum af aðildarfélögum BSRB s.s. innan Starfsmannafélags Húsavíkur munu hækka um 1,5 prósent frá 1. janúar 2019 eftir að samkomulag um framhald launaþróunartryggingar opinberra starfsmanna var undirritað í gær.
Laun starfsmanna ríkisins sem eru í einum af aðildarfélögum BSRB munu ekki hækka að þessu sinni þar sem laun þeirra hækkuðu meira en sem nemur hækkunum á almenna vinnumarkaðinum á síðasta ári. Laun félaga í aðildarfélögum ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum s.s. félagsmanna Framsýnar, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar munu hækka um 1,7 prósent og laun félaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu um 0,4 prósent frá 1. janúar.
Mögulega mun hækkunin koma til framkvæmda frá næstu mánaðarmótum hjá einhverjum vinnustöðum en hjá öðrum um mánaðarmótin maí-júní. Hækkunin er afturvirk frá 1. janúar.
Launaþróunartryggingin varð til með undirritun rammasamkomulags milli ríkisins, sveitarfélaga, BSRB, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í október 2015. Þetta er þriðja og síðasta mælingin þar sem borið er saman launaskrið á almenna markaðinum og hinum opinbera. Opinberum starfsmönnum er í kjölfarið bætt upp það launaskrið sem orðið hefur á almenna markaðinum umfram það sem orðið hefur á þeim opinbera.
Tilgangurinn með launaþróunartryggingunni er meðal annars sá að tryggja að laun á opinbera vinnumarkaðinum sitji ekki eftir og að þar með myndist uppsöfnuð þörf á hækkun þegar kemur að kjarasamningum. Hækkanirnar sem fást vegna hennar koma til viðbótar við kjarasamningsbundnar hækkanir.
Þetta var þriðja og síðasta mælingin á launaskriði vegna samninga aðildarfélaga BSRB sem runnu út í lok mars. Ein af kröfum BSRB í kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi er að nýtt samkomulag um launaskriðstryggingu verði undirritað til að tryggja félagsmönnum aðildarfélaga bandalagsins sama launaskrið og mælist á almenna vinnumarkaðinum.

Félagsfundur Þingiðnar

Kynningarfundur um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Þingiðnar sem undirritaður var 3. maí 2019 verður haldinn í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík, þriðjudaginn 14. maí 2019 kl. 20:00.
Félagar fjölmennið.
Atkvæðagreiðslan um samninginn verður rafræn 10.-21. maí 2019. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is
Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum.

Stór stund á Húsavík – eftirlaunafólki boðið að tala á 1. maí

„Dagurinn í dag er söguleg stund því þetta er í fyrsta sinn sem eftirlaunafólki er boðið að halda sjálfa hátíðarræðuna á degi verkalýðsins 1. maí. Það sem meira er dagurinn hér á Húsavík er helgaður baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum.“

Þetta sagði aðal ræðumaður hátíðarhaldanna á Húsavík, Ásdís Skúladóttir í magnaðri ræðu.

Ásdís hélt áfram og sagði meðal annars:

„Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum: Framsýn, stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur og Þingiðn, félag iðnaðarmanna, hafa boðið eftirlaunafólki að láta rödd sína hljóma hér í dag. Þetta eru tímamót í sögu 1. maí hér á landi. Heill því fólki sem tók þessa ákvörðun. 

Við erum stolt og glöð ég, Erna Indriðadóttir og Viðar Eggertsson að fá að vera hér í dag á Húsavík og fagna með ykkur 1. maí sem fulltrúar Gráa hersins.

Krafa okkar á þessum degi er algjörlega skýr: Við krefjumst þess að fá sömu launahækkanir fyrir eldri borgara og lægst launaða fólkið á íslenskum vinnumarkaði samdi um í nýgerðum kjarasamningum. Við viljum sömu hækkanir frá og með 1. apríl eins og aðrir hafa samið um.  

Á landsfundi eldri borgara í síðasta mánuði komu hins vegar fram mikil gleðitíðindi því einn aðgerðarhópur Gráa hersins hefur nú þegar hafið undirbúning málsóknar gegn ríkinu og stofnað til þess sérstakan sjóð „Málsóknarsjóð Gráa hersins“ Þessi málsókn er hafin vegna „óréttlátra og yfirgengilegra tekjutenginga“. Í aðgerðahópnum er nú verið að vinna að skipulagsskrá sjóðsins í samráði við lögmenn Málflutningsstofu Reykjavíkur.  

Að fara í málssókn hefur lengi verið til umræðu. Það sem hefur hamlað er auraleysi. Framsýn stéttarfélag gekk að vísu fram fyrir skjöldu fyrir margt löngu og sagðist myndu styrkja dómsmálið fjárhagslega. Það gaf byr í seglinn. Síðan gerðist það að Verslunarmannafélag Reykjavíkur ákvað eftir fund Gráa hersins með Ragnari Þór Ingólfssyni, að VR myndi styrkja Gráa herinn til að ráðast í slík málaferli, Félag málmiðnaðarmanna hefur gert hið sama, Rafiðnaðarsamband Íslands samþykkt að leggja fram fjármagn og Félag eldri borgara í Reykjavík hefur samþykkti að gerast stofnaðili að málsóknarsjóðnum og að leggja fram peninga. Síðan hafa borist fyrirheit frá fleiri stéttarfélögum, félögum eldri borgara og einstaklingum um peningalegan stuðning. Þessari málsókn er ætlað að fara „Alla leið“ – upp eftir öllum dómsstigunum og enda fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassburg, ef með þarf.“ 

Hægt er að lesa ræðu Ásdísar í heild sinni undir annarri frétt á heimasíðunni.

Stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum hafa borist fjölmargar kveðjur frá eldri borgurum víða um land fyrir ákvörðun félaganna um að helga 1. maí hátíðarhöldin á Húsavík baráttu eldri borgara. Stéttarfélögin þakka fyrir allar hlýju kveðjurnar.

 

Gleði og baráttuhugur á hátíðarhöldunum á Húsavík

Hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum fóru fram í Íþróttahöllinni á Húsavík í gær. Að venju tókust þau afar vel en um 600 manns lögðu leið sína í höllina. Áberandi var hvað mikið var af fólki sem kom langt að, Grenivík, Akureyri, Ólafsfirði, Siglufirði svo eitthvað sé nefnd. Ræðumenn dagsins, Aðalsteinn Árni og Ásdís Skúladóttir fengu mikið lof fyrir sínar ræður sem og þeir skemmtikraftar sem komu fram. Guðni Ágústsson klikkaði ekki hvað þá Söngfélagið Sálubót sem sjaldan eða aldrei hefur verið í betra formi. Eyþór Ingi, Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson kunna sitt fag og skiluðu því vel til ánægðra gesta. Barnabörn Kristjáns Ásgeirssonar fyrrverandi formanns Verkalýðsfélags Húsavíkur sem minnst var á hátíðinni, þau Elísabet Anna og Kristján Elinór tóku Maístjörnuna með viðeigandi hætti og voru glæsileg á sviði. Stéttarfélögin vilja nota tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu gestum sem lögðu leið sína í höllina fyrir komuna, skemmtikröftum og þeim félagsmönnum sem komu að því að gera umgjörð hátíðarinnar sem glæsilegasta fyrir þeirra framlag.

 

Gleðiega hátíð! – Hátíðarræða, Ásdís Skúladóttir

Gleðiega hátíð!
Dagurinn i dag er söguleg stund því þetta er í fyrsta sinn sem eftirlaunafólki er boðið að halda sjálfa hátíðarræðuna á degi verkalýðsins 1. Maí. það sem meira er dagurinn hér á Húsavík er helgaður baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum: Framsýn, stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur og Þingiðn, félag iðnaðarmanna, hafa boðið eftirlaunafólki að láta rödd sína hljóma hér í dag. Þetta eru tímamót í sögu 1.maí hér á landi. Heill því fólki sem tók þessa ákvörðun. 

Við eigum samleið!
Við erum stolt og glöð ég, Erna Indriðadóttir og Viðar Eggertsson að fá að vera hér í dag á Húsavík og fagna með ykkur 1. maí sem fulltrúar Gráa hersins.

Krafa okkar á þessum degi er algjölega skýr: Við krefjumst þess að fá sömu launahækkanir fyrir eldri borgara og lægst launaða fólkið á íslenskum vinnumarkaði samdi um í nýgerðum kjarasamaningum. Við viljum sömu hækkanir frá og með 1.apríl eins og aðrir hafa samið um. 

Góðir hátíðargestir!
Þegar ég settist niður til að skrifa þessa ræðuþá rifjast upp ýmislegt sem hefur verið hulið þögn í sögu lands og þjóðar. Í dag sviptum við hulunni endanlega af þeirri staðreynd að það eru alltof margir eldri borgarar sem búa við bágar aðstæður og fátækt.

Vafalaust hefur eftirfarandi saga ekki verið í Íslandsögunni sem þið lásuð í barnaskóla eða grunnskóla, en hún er úr “Svaða þætti og Arnórs kerlingarnefs”.

Seint á 10. öld, gerðist á Íslandi svo mikið hallæri að fjöldi manns dó af sulti. Vegna þessa var ákveðið á samkomu héraðsmanna (ráðamanna þess tíma) að gefa fátæku fólki, gömlu fólki, fötluðu fólki, ekkert að borða, veita því öngva hjálp né húsaskjól, né möguleika á að vinna fyrir mat sínum – sem auðvitað myndi þýða bráðan bana fjölda manns. Þessu var skjótt komið til framkvæmda í héraðinu.

Þá var mestur höfðingi í héraðinu Arnór kerlingarnef er bjó á Miklabæ í Óslandshlíð. Er Arnór kom heim af samkomu héraðsmanna þá gekk þegar fyrir hann móðir hans sem ásakaði hann mjög er hann hafði orðið samþykkur svo grimmum dómi yfir fólki.

Tjáði hún fyrir honum hversu óheyrilegt og afskaplegt það væri að menn skyldu setja í svo grimman dauðann móður sína og föður, náfrændur sína, héraðsmenn og vini.

„Nú vit það fyrir víst,“ segir móðir hans, „þó að þú sjálfur gerir eigi slíka hluti, þá ertu með öngu móti sýkn eða hlutlaus af þessu glæpafullu manndrápi þar sem þú ert höfðingi – ef þú stendur ekki í mót með öllu afli slíkum ódáða.“

Arnór skildi góðfýsi móður sinnar og mannkærleik. Tók hann það ráð að hann sendi þegar í stað sína menn um hina næstu bæi að safna saman öllu gamalmenni og héraðsmönnum er út hafði þegar verið rekið og flytja heim til sín og lét þar næra með allri líkn.

Arnór fékk ákvörðun héraðsþingsins hnekkt í framhaldinu. Þessi saga er ekki sögð í skólum landsins.Og sossum skiljanlegt hvers vegna henni er ekki haldið á lofti!

Höfum við gengið til góðs?
Eins og margir vita hefur Grái herinn nánast eingöngu beint starfi sínu að kjaramálum eldra fólks; við völdum sem sé að vinna að sveigjanlegum verkalokum og þar með „ótímabæru brottkasti“ fólks af vinnumarkaði og að því að fá afnumdar þær „skerðingar“ sem fólk býr við sem hefur átt of mörg afmæli.

Það er ekki sú veröld sem við viljum?
Grái herinn er aðgerðarhópur, sjálfsprottinn hópur upp úr öflugu starfi FEBR í tíð Þórunnar Sveinbjörnsdóttur – og Ellerts B. Schram hefur sannarlega fylgt hennar fordæmi – en eins og flestir vita var Þórunn endurkjörin formaður Landssambands eldri borgara í byrjun aprílmánaðar.

Það var mikill baráttuvilji og hugur í mönnum á þessum magnaða landsfundi, þó margt hafi vissulega gott átt sér stað á síðustu árum og áratugum var algjör samstaða um að málin gengju of hægt fyrir sig og alltof oft hefði ekki verið staðið við gefin loforð gangvart okkur eldra fólkinu.

Sagt hefur verið, að stjórnvöld eigi ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Í einu ljóða sinna í Ljóðabókinni „Tvennir tímar“ segir Björg Pétursdóttir verkalýðsforkólfi og skáld: „ … fögur loforð þarf að efna“.

Við bíðum ekki lengur!
Í hinum nýja Lífskjarasamningi þar sem ýmsar kjarabætur komu fram í fjölbreyttu formi, er hvergi minnst á launakjör eldri borgara, enda komu þeir ekki að borðinu í þessum samningum. Af hverju er okkur skákað til hliðar? Hvers vegna eigum við ekki sæti við samningaborðið? Nei, við erum bara sett í nefnd sem skilar ekki af sér fyrr en undir jól – við þekkjum þessa nefnd vel.

Síður fésbókarinnar loga!
Ég endurtek: Krafa okkar er skýr. Við krefjumst þess að fá sömu launahækkanir fyrir eldri borgara og lægst launaða fólkið á íslenskum vinnumarkaði samdi um í nýgerðum kjarasamingum. Við viljum sömu hækkanir frá og með sama degi og aðrir hafa samið um. Það er ófrávíkjanleg krafa Gráa hersins að lægstu eftirlaun verði aldrei lægri en lágmarkslaun í landinu.

Við erum hætt að bíða!
Á landsfundi eldri borgara í síðasta mánuði komu hins vegar fram mikil gleðitíðindi því einn aðgerðarhópur Gráa hersins hefur nú þegar hafið undirbúning málsóknar gegn ríkinu og stofnað til þess sérstakan sjóð „Málsóknarsjóð Gráa hersins“ Þessi málsókn er hafin vegna „óréttlátra og yfirgengilegra tekjutenginga“

Í aðgerðahópnum er nú verið að vinna að skipulagsskrá sjóðsins í samráði við lögmenn Málflutningsstofu Reykjavíkur. 

Stundin er runnin upp!
Að fara í málssókn hefur lengi verið til umræðu. Það sem hefur hamlað er auraleysi. Framsýn stéttarfélag gekk að vísu fram fyrir skjöldu fyrir margt löngu og sagðist myndu styrkja dómsmálið fjárhagslega. Það gaf byr í seglinn. Síðan gerðist það að Verslunarmannafélag Reykjavíkur ákvað eftir fund Gráa hersins með Ragnari Þór Ingólfssyni, að VR myndi styrkja Gráa herinn til að ráðast í slík málaferli, Félag málmiðnaðarmanna hefur gert hið sama, Rafiðnaðarsamband Íslands samþykkt að leggja fram fjármagn og Félag eldri borgara í Reykjavík hefur samþykkti að gerast stofnaðili að málsóknarsjóðnum og að leggja fram peninga.

Síðan hafa borist fyrirheit frá fleiri stéttarfélögum, félögum eldri borgara og einstaklingum um peningalegan stuðning. Þessari málsókn er ætlað að fara „Alla leið“ – upp eftir öllum dómsstigunum og enda fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassburg, ef með þarf. 

Við erum hætt að bíða!
Því það er ósvinna og skammarlegt að okkur aldraða fólkinu sé haldið í fátæktargildru með óréttlátu, ónýtu og gatslitnu kerfi og yfirgengilegum skerðingum – og gera þannig þetta æviskeið lífsins að kvíðvænlegu hlutskipti fyrir fjölda manns. Sá sem er ungur í dag er gamall á morgun! 

Fréttir berast af því að eldra fólk deyi á biðlistum hjúkrunarheimilanna – að heimilin séu undirmönnuð. Undirmönnuð! Það er rætt um að gamalt fólk teppi rúmin á hátæknisjúkrahúsunum; sé fráflæðisvandi. Undirmönnun! Amma mín datt fram úr rúmi og brotnaði, mamma mín datt fram úr rúmi og brotnaði, systir mín datt og brotnaði – hvernig skyldi ég brotna?

Það er vissulega ekki hægt að stinga Elli kerlingu af en það er hægt að storka henni vel og lengi með því að leggja áherslu lýðheilsu ungra sem aldinna. Lífsstíll okkar hefur mikið að segja um það hvernig við eldumst, hvernig matarræði okkar er, hvort við hreyfum okkur nóg og síðast en ekki síst hvort við höf aura til að njóta almennra lífsgæða í hvunndeginum. Heilsan er allt í senn, andleg, líkamleg og félagsleg. 

Fjárfestum í lýðheilsu.
Það er nokkuð ljóst að nokkuð hluti gamals fólks hefur um aldir þurft að lifa með ógn þurfalingstilverunnar og ómagastimpilinn yfir höfði sér, síðustu æviárin. Er sú ógn enn til í einhverju formi í því nútíma velferðarsamfélagi sem við lifum í?

Hvernig komum við til móts við þá sem eru gamlir og veikir? Býr fólk á eigin heimili lengur en það getur? Nýtur það „góðfýsi og mannkærleika“. Þurfum við virkilega að hlusta á það í fjölmiðlum að okkur sé alltaf að fjölga eins og við séum náttúruvá eða engilsprettufaraldur.

Áhyggjulausa ævikvöldið er auðsjáanlega ekki fyrir alla, bara suma! Þeir eru líka orðnir ansans ári margir sem kvíða þessu tímabili ævinnar. Vilja ekki vera settir í nefnd, ekki láta tala um sig eins og þeir séu engilsprettufaraldur, ekki vera “bótaþegar”, ekki “ótímabært brottkast” og ekki “fráflæðisvandi” hátæknisjúkrahúsa …..! 

Við erum hætt að bíða!

Byltingin byrjar á Húsavík!                    

„ Jöfnum kjörin í okkar gjöfula landi og búum þannig til gott samfélag fyrir okkur öll, ekki bara fyrir fáa útvalda.“

Nú eru hafin hátíðarhöld í Íþróttahöllinni á Húsavík í tilefni af baráttudegi verkafólks 1. maí. mikið fjölmenni er saman komið en það eru stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum sem standa fyrir hátíðarhöldunum. Hér má lesa ávarp formanns Framsýnar sem hann er að flytja þegar þetta er skrifað:

Ágæta samkoma

Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag verkafólks!

Kjörorð dagsins „Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla“ er nokkuð sem öllum ætti að þykja sjálfsagt mál, enda hefur það löngu sýnt sig að þeim samfélögum farnast best þar sem jöfnuður er mestur. Þar sem enginn er skilinn eftir.

Vaxandi ójöfnuður hefur læst sig í íslenskt samfélag líkt og illgresi í akur. Afleiðingarnar liggja fyrir; aukin misskipting, samþjöppun valds og auður hinna ríkustu vex og dafnar meðan lífskjör almennings standa í stað eða versna ekki síst barnafjölskyldna og þeirra sem minna mega sín.

Þetta er ekki ásættanleg staða í einu ríkasta landi heims. Við viljum samfélag þar sem allir eiga að geta lifað með reisn og hér á enginn að þurfa að hokra í fátækt.

Hvernig má það líka vera í samfélagi sem kennir sig við velferð að skattbyrði þeirra tekjulægstu hafi verið þyngd á sama tíma og skattar þeirra tekjuhærri hafa verið lækkaðir. Það er öfugmælavísa úr leikhúsi fáránleikans.

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum hafa miðast að því að laga þetta óréttlæti. Það er nefnilega nóg til fyrir alla sé rétt skipt og ríkjandi ójöfnuður er ekkert annað en mannanna verk.

Mín skilaboð út í samfélagið eru skýr: „ Jöfnum kjörin í okkar gjöfula landi og búum þannig til gott samfélag fyrir okkur öll, ekki bara fyrir fáa útvalda.“

Því miður eru ekki allir sammála þessari skoðun samanber umræðuna sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarna mánuði og varðar kröfugerð verkafólks gagnvart stjórnvöldum og Samtökum atvinnulífsins.

Ég var t.d. verulega hugsi þegar ég var spurður af félagsmanni í aðdraganda kjaraviðræðnanna við Samtök atvinnulífsins: „ Hverjir semja svona Kúti, mér og mínum er ætlað að framfleyta okkur á mánaðarlaunum innan við 300 þúsund krónur á mánuði, það er ekki hægt?“ Ég skal fúslega viðurkenna að ég átti mjög erfitt með að svara þessari spurningu, sitjandi við samningaborðið.

Spurningin var fullkomlega eðlileg enda þessi ágæti félagsmaður rasandi yfir sínum bágu kjörum. Yfir launum sem eru ekki einungis lág, heldur skammarlega lág og langt undir öllum eðlilegum framfærsluviðmiðum.

Skoðun þessa manns og annara félagsmanna um lífvænleg kjör var höfð að leiðarljósi þegar gengið var frá kröfugerð Framsýnar á hendur Samtökum atvinnulífsins haustið 2018 sem ég hef reynt eftir bestu getu að fylgja eftir.

Flestir vita fyrir hvað Framsýn stendur í kjarabaráttunni, auk félaga okkar í Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, VR og Eflingu. Við höfum kallað eftir róttækari verkalýðsbaráttu og fórum fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir voru við Samtök atvinnulífsins og undirritaðir í byrjun apríl.

Loksins, loksins er komið afl sem viðsemjendur okkar óttast, fjármagnseigendur sem og ákveðnir eigendur prentmiðla í landinu.

Félagar!

Ég vona að þið lítið ekki á mig sem hryðjuverkamann. Fyrir mér eru hryðjuverkamenn ekki síst þeir sem fremja stríðsglæpi eða fremja sjálfsmorðsárásir. Af hverju segi ég þetta?

Við sem höfum farið fyrir þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði og tekið hafa virkilega á, höfum verið teknir fyrir af ákveðnum fjölmiðlum, sem eru í eigu þeirra sem baða sig daglega upp úr peningum líkt og sögupersónan Jóakim aðalönd í Andrésar andarblöðunum.

Verkalýðsforingjar hafa verið teknir sérstaklega fyrir í leiðurum þessara blaða og jafnvel líkt við hryðjuverkamenn, fyrir það eitt að fylgja eftir kröfum fjöldahreyfingar sem telur yfir 100 þúsund félagsmenn og falla undir aðildarfélög Alþýðusambands Íslands. Það er um þriðjungur þjóðarinnar.

Elítan óttast að róttækt og baráttuglatt hugsjónafólk innan verkalýðshreyfingarinnar muni ógna veldi þeirra sem hafa í krafti auðæfa sinna lengstum farið með valdið í íslensku samfélagi. Óttast aflið sem gerði hallarbyltingu á síðasta þingi Alþýðusambands Íslands, aflið sem yfirtók síðustu kjarasamninga og leiddi þá farsællega í höfn. Óttast að það verði minna til skiptanna fyrir eigendur fjármagnsins, gegn þeirri þróun þurfi að berjast með öllum tiltækum ráðum.

Minnugur félagsmannsins sem spurði: „Hverjir semja svona?“ fannst mér merkilegt að lesa skrif Fréttablaðsins meðan á kjaraviðræðunum stóð. Í forystugreinum blaðsins var haldið uppi stöðugum áróðri gegn hækkun lægstu launa og sagt að svigrúm til að hækka lægstu launin væri minna en ekki neitt. Kröfum verkafólks var lýst sem sturluðum og þær væru ekki í neinum tengslum við efnahagslegan veruleika. Það væri ekki eftirspurn eftir hugmyndum þeirra verkalýðsforingja sem töluðu með öðrum hætti. En verkalýðsforingjar sem það gerðu væru stærsta einstaka ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra íslensks launafólks, því þeir mislæsu stöðuna til launahækkana hrapalega.

Reyndar skaut ritstjórn Morgunblaðsins einnig föstum skotum að verkalýðshreyfingunni. Sá sem þar stendur keikur í brúnni þarf sem betur fer ekki að lifa af þeim lífeyri sem megin þorri íslensks eftirlaunafólks þarf hins vegar að gera. Lífeyri sem í allt of mörgum tilfellum er langt undir fátækramörkum og skertur við hvert einasta tækifæri. Hvar er siðferðið hjá mönnum sem skrifa með þessum hætti en þiggja sjálfir margfaldan lífeyri annarra í sömu stöðu sem lífeyrisþegar? Er von að spurt sé?

Áróðursmaskínan gegn hækkun lægstu launa fór mikinn meðan á samningaviðræðunum stóð og fjölmiðlaumræða „Elítu blaðanna“ einkenndist að hræðsluáróðri, sem virtist beinast sérstaklega að fréttum af uppsögnum, samdrætti og gjaldþrotum fyrirtækja. Einhverra hluta vegna hafa þessar fréttir nánast horfið eftir að skrifað var undir kjarasamningana.

Félagar!

Ég hef ekki fjallað sérstaklega um niðurstöðu nýgerðra kjarasamninga en atkvæðagreiðslu um þá er nú lokið. Fyrir liggur að þeir voru samþykktir alls staðar meðal félagsmanna LÍV og Starfsgreinasambands Íslands, sem Framsýn á aðild að. Á flestum stöðum voru þeir samþykktir með miklum meirihluta atkvæða. Innan Framsýnar voru þeir samþykktir með allt að 90% greiddra atkvæða. Sé tekið mið af niðurstöðunni, þá eru félagsmenn mjög ánægðir með samninginn, en kosningaþátttakan hefði þurft að vera miklu betri meðal félagsmanna.

Sjálfur hef ég lengi komið að gerð kjarasamninga. Ég tel þá vera með þeim áhugaverðari sem gerðir hafa verið fyrir verkafólk frá þjóðarsáttarsamningum 1990. Þá er ég að tala um innihald samningsins sem byggir á kröfu okkar um krónutöluhækkanir og útspil ríkisstjórnarinnar sem miklar vonir eru bundnar við. Það er okkar í verkalýðshreyfingunni að fylgja því eftir að ríkisstjórnin standi við boðaðar aðgerðir. Þær varða sérstaklega skattalækkanir, vaxtalækkanir, ákveðna frystingu á hækkunum á þjónustugjöldum ríkis- og sveitarfélaga, hækkun barnabóta og lengingu fæðingarorlofs, svo ekki sé talað um sértækar aðgerðir er snúa að íbúðarkaupum fólks, ekki síst ungs fólks.

Þrátt fyrir að niðurstaðan liggi fyrir er þegar hafinn undirbúningur að gerð næstu kjarasamninga eftir tæp fjögur ár. Verkafólk má aldrei sofna á verðinum, baráttan fyrir sanngjarnara þjóðfélagi lýkur aldrei.

Það sama á við um baráttu aldraðra og öryrkja. Við erum öll í sama liði og saman eigum við að berjast fyrir auknum jöfnuði í þjóðfélaginu.

Það fer því vel á því að aðalræðumaður dagsins sé fulltrúi fólks á eftirlaunum, Ásdís Skúladóttir leikstjóri. Hún hefur látið sig þessi mál varða auk þess að hafa komið að starfi Grá hersins sem er hreyfing fólks sem kallar eftir breytingum á kjörum eldri borgara. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna hingað í dag ásamt fylgdarliði.

Með þessari ákvörðun vilja stéttarfélögin styðja við baráttu þeirra fjölmörgu eldri borgara sem hafa lagt stéttarfélögum lið í gegnum tíðina og eru nú komnir á eftirlaun; eftirlaun sem mörgum þeirra reynist erfitt að framfleyta sér á vegna þeirra miklu skerðinga sem þeim er gert að sæta vegna löggjafar um eftirlaun frá almannatryggingum.

Framsýn stéttarfélag hefur látið sig málefni eldri félagsmanna varða og njóta þeir áfram réttinda í félaginu, þrátt fyrir að þeir láti af störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku. Félagið hefur staðið fyrir málþingi um málefni eldri borgara og heitið Gráa hernum framlagi vegna málsóknar gegn íslenska ríkinu varðandi skerðingar á lífeyri.

Án efa verður áhugavert að hlusta á Ásdísi hér á eftir, en hátíðarhöldin á Húsavík í ár eru sérstaklega tileinkuð baráttu eldri borgara fyrir réttlæti og mannsæmandi lífi.

Ágæta samkoma!

Fallinn er frá góður félagi og mannvinur, Kristján Ásgeirsson. Verkalýðsforingi, bæjarfulltrúi, útgerðarmaður, en fyrst og fremst góður og gegnheill maður sem vildi öllum vel.

Kiddi Ásgeirs eins og hann var ávallt nefndur kom lengi að störfum fyrir Verkalýðsfélag Húsavíkur, sem stjórnarmaður, formaður og varaformaður. Hann mótaði félagið til framtíðar ásamt góðu samstarfsfólki og kom að því að opna fyrstu skrifstofu félagsins um 1970.

Áður var ekki óalgengt að fólk leitaði heim til hans eftir aðstoð. Kiddi tók öllum vel og opnaði heimili sitt fyrir þeim sem á þurftu að halda og töldu á sér brotið.

Þegar saga verkalýðsbaráttu á Húsavík er sögð koma ættir Kidda fyrir, allt frá stofnun fyrstu verkalýðsfélaga á Húsavík þar til hann ákvað að stíga til hliðar árið 1992, eftir 27 ára farsælt starf í þágu verkafólks í þingeyjarsýslum.

Föðuramma Kidda, Þuríður Björnsdóttir, var fyrsti formaður Verkakvennafélagsins Vonar og Ásgeir Kristjánsson faðir hans var lengi formaður Verkamannafélags Húsavíkur.

Árið 1976 komst Kiddi í þá sérstöku stöðu að vera formaður í verkalýðsfélagi, bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri Höfða hf. sem stofnað var um rekstur togarans Júlíusar Havsteen það ár. Þessi tengsl vöktu eðlilega upp margar spurningar á þeim tíma og voru ekki óumdeilanlegar. Hann var sagður sitja hringinn í kringum borðið.

Ekki var vilji meðal félagsmanna til þess að Kiddi hætti afskiptum af verkalýðsmálum, enda mjög virtur fyrir störf sín innan félagsins og heildarsamtaka verkafólks. Þess í stað ákvað hann að stíga til hliðar sem formaður, en taka að sér varaformennsku í félaginu. Kiddi sagði þetta ekkert mál, menn mættu bara aldrei gleyma uppruna sínum og fyrir hvað þeir stæðu.

Orðin sem hann mælti eitt sinn í útvarpsviðtali lýsa manngerð Kristjáns Ásgeirssonar kannski best: „ Ég hef sem betur fer alltaf verið í þeirri stöðu að geta talað frá hjartanu og hef aldrei haft verulegar áhyggjur af eigin heilsu. En aftur á móti hef ég verið voðalega viðkvæmur andspænis veikindum annarra“. Tilvitnun lýkur.

Því hefur verið haldið fram að kjör félagsmanna Verkalýðsfélags Húsavíkur hafi almennt verið betri en hjá sambærilegum stéttarfélögum. Það hafi ekki síst verið Kristjáni Ásgeirssyni að þakka, enda hafði hann góða yfirsýn yfir málin og lagði ríka áherslu á atvinnuöryggi, góð laun og félagslega hugsun í rekstri fyrirtækja.

Kiddi þótti mikill málafylgjumaður og var einlægur baráttumaður fyrir ýmsum mikilvægum réttindamálum sem þykja sjálfsögð í dag, s.s. atvinnuleysistryggingum, stofnun lífeyrissjóða og að félagsmenn stéttarfélaga hefðu aðgengi að öflugum sjúkrasjóðum.

Hann var gerður að heiðursfélaga í Verkalýðsfélagi Húsavíkur á 95 ára afmæli þess árið 2006.

Fyrir hönd Framsýnar stéttarfélags votta ég fjölskyldu Kristjáns Ásgeirssonar dýpstu samúð. Við minnumst látins félaga með miklu þakklæti fyrir hans óeigingjörnu störf í þágu verkafólks í Þingeyjarsýslum. Megi minning um góðan mann lifa um ókomna tíð.

Að svo mæltu langar mig að biðja ykkur um að rísa úr sætum og minnast Kristjáns Ásgeirssonar.

Undirbúningur á fullu fyrir hátíðarhöldin

Búist er við miklu fjölmenni á hátíðarhöldin á Húsavík í dag sem hefjast kl. 14:00 í tilefni af baráttudegi verkafólks 1. maí. Baráttukonan Ásdís Skúladóttir leikstjóri og einn stofnenda Gráa hersins flytur hátíðarræðu dagsins sem fulltrúi eldri borgara, enda dagurinn tileinkaður baráttu eldri borgara. Söngfélagið Sálubót syngur nokkur lög undir stjórn Jaan Alavere. Eyþór Ingi og Guðni Ágústsson sjá um grín og gamanmál og að sjálfsöðu mun Eyþór Ingi einnig taka nokkur lög ásamt meðlimum úr Stjórninni, þeim Siggu Beinteins og Gretari Örvarssyni. Að sjálfsögðu verður síðan boðið upp á kaffi og tertur. Meðfylgjandi þessari frétt eru myndir sem teknar voru í gærkvöldi þegar unnið var að því að standsetja salinn fyrir daginn í dag.

 

Hátíðargestum boðið á sýningu um konur í landkönnun

Öllum gestum 1. maí hátíðar stéttarfélaganna er boðið á opnun sumarsýningar Könnunarsafnsins í Hlöðufelli, en sýningin fjallar um konur í landkönnun og opnar formlega þegar dagskrá er lokið í höllinni. Rauði miðinn sem menn fá á hátíðarhöldunum  gildir sem aðgöngumiði í safnið, bæði 1. maí og alla vikuna á eftir. Sýningin heitir Óttalausar eða Fearless Females á ensku og segir frá hugrökkum konum sem ruddu brautina fyrir kynsystur sínar í landkönnun og vísindum, allt frá 17. öld og fram á okkar daga.  

Höfundar sýningarinnar eru þrjár ungar konur, Loïsà Vernieres frá Frakklandi, Sarah Brown frá Bandaríkjunum og Anna-Lena Winkler frá Þýskalandi. Sýningin verður opin til 20. október. 

 

Byrjar byltingin á Húsavík?

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum: Framsýn, stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur og Þingiðn, félag iðnaðarmanna, standa fyrir mikilli hátíðardagskrá á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí, í ár á Húsavík sem brýtur blað í sögu slíkra hátíðarhalda á Íslandi.

Eftir því sem við komumst næst er þetta í fyrsta skipti í sögunni, hér á landi, sem hátíðarhöldin á baráttudegi verkalýðsins eru tileinkuð eldri borgurum og baráttu þeirra fyrir bættum kjörum í þjóðfélaginu; baráttu fyrir að loks muni renna upp sá dagur að allir aldraðir lifi áhyggjulaust ævikvöld.

Stéttarfélögin þrjú hafa boðið einum af stofnendum Gráa hersins, Ásdísi Skúladóttur leikstjóra, til að flytja hátíðarræðu dagsins. Hún mun flytja ræðuna sem fulltrúi eldri borgara. Baráttuhópurinn Grái herinn var stofnaður af félögum í Félagi eldri borgara í Reykjavík.

Með þessari ákvörðun vilja stéttarfélögin styðja við baráttu þeirra fjölmörgu eldri borgara sem hafa lagt stéttarfélögum lið í gegnum tíðina og eru nú komnir á eftirlaun; eftirlaun sem mörgum þeirra reynist erfitt að framfleyta sér á vegna þeirra miklu skerðinga sem þeim er gert að sæta vegna löggjafar um eftirlaun frá almannatryggingum.

Hátíðin verður haldin í Íþróttahöllinni á Húsavík og hefst kl. 14.00 miðvikudaginn 1. maí n.k.

Dagskráin er afar fjölbreytt, eins og sjá má: HÉR

Því auk Ásdísar Skúladóttur Gráa hernum, koma fram grínararnir og söngvararnir Guðni Ágústsson, Eyþór Ingi, Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson úr Stjórninni, Söngfélagið Sálubót og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar. Þá verður fundargestum boðið upp á kaffiveitingar meðan á hátíðinni stendur. 

Nánari upplýsingar veita:
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags, sími: 464 6604 / 864 6604
Ásdís Skúladóttir, leikstjóri og einn stofnenda Gráa hersins, sími: 551 6603 / 666 7810
Erna Indriðadóttir, fjölmiðlakona og félagi í Gráa hernum, sími: 854 6630
Viðar Eggertsson, leikstjóri og félagi í Gráa hernum, sími: 898 8661

 

Allir í höllina 1. maí 2019 – glæsileg hátíð framundan

Það verður mikið fjör í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí. Að venju bjóða stéttarfélögin upp á veglega dagskrá. Baráttukonan Ásdís Skúladóttir leikstjóri og einn stofnenda Gráa hersins flytur hátíðarræðu dagsins, enda dagurinn tileinkaður baráttu eldri borgara. Söngfélagið Sálubót syngur nokkur lög undir stjórn Jaan Alavere. Eyþór Ingi og Guðni Ágústsson sjá um grín og gamanmál og að sjálfsöðu mun Eyþór Ingi einnig taka nokkur lög ásamt meðlimum úr Stjórninni, þeim Siggu Beinteins og Gretari Örvarssyni.

Hátíðardagskrá 1. maí 2019
Að venju standa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum fyrir veglegri hátíðardagskrá í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2019 kl. 14:00.

Dagskrá: 

Ávarp: Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags

Hátíðarræða: Ásdís Skúladóttir leikstjóri og einn stofnenda Gráa hersins.

Söngur og tónlist: Söngfélagið Sálubót ásamt hljómsveit taka nokkur lög. Stjórnandi Jaan Alavere

Söngur og grín: Eyþór Ingi Gunnlaugsson eftirherma og einn af fremstu söngvurum landsins tendrar fram fallegan söng auk þess að herma eftir þjóðþekktu fólki.

Grín: Guðni Ágústsson er einn heitasti grínistinn um þessar mundir. Hann verður á svæðinu í sínu besta formi.

Söngur: Grétar Örvarsson og Sigríður Beinteinsdóttir úr Stjórninni spila og syngja þekkt dægurlög.

Meðan á hátíðarhöldunum stendur verður gestum boðið upp á kaffi og meðlæti í boði stéttarfélaganna.

Þingeyingar og landsmenn allir, fjölmennum í höllina og drögum fána að hún á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí 2019. Í ár verða hátíðarhöldin á Húsavík tileinkuð baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum og jöfnuði í þjóðfélaginu. Hver vill ekki lifa áhyggjulausu æfikvöldi?

Framsýn, stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur – Þingiðn, félag iðnaðarmanna

 

Gleðilegt sumar

Ágætu félagar og landsmenn allir, stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum senda ykkur kveðjur um gleðilegt sumar, megi það verða okkur gjöfult og gott í alla staði.

Forseti Alþingis í heimsókn

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis leit við á skrifstofu stéttarfélaganna í dag og tók stöðuna með starfsmönnum skrifstofunnar. Eðlilega voru þjóðmálin og nýgerðir kjarasamningar til umræðu.