Mikki og Toggi komu í kaffi

Það er alltaf líf og fjör á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Daglega koma margir við á skrifstofunni til að leita sér upplýsinga. Tveir góðir komu við í gær, þeir Michael Þórðarson og Þorgrímur Sigurjónsson, sem eru hættir á vinnumarkaði eftir langa starfsæfi. Þeir eru félagsmenn í Framsýn og eru heppnir að vera í stéttarfélagi þar sem menn viðhalda áunnum réttindum þrátt fyrir að vera hættir á vinnumarkaði og greiði því ekki lengur félagsgjald til Framsýnar. Þeir tóku spjall við starfsmenn stéttarfélaganna og lögðu formanni Framsýnar lífsreglurnar.

 

Stjórnar og trúnaðarráðsfundur á mánudaginn

Stjórn Framsýnar, trúnaðarráð og stjórn Framsýnar-ung kemur saman til fundar næsta mánudag kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Mörg mál eru á dagskrá fundarins:

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Kosning Kjörnefndar
  4. Þing SGS
  5. Staðan í kjaramálum
  6. Erindi frá Tjörneshrepp
  7. Kröfugerð sjómanna
  8. Málefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
  9. Fulltrúaráðsfundur Lsj. Stapa
  10. Jólafundur/jólaboð stéttarfélaganna
  11. Palestínuferð ASÍ
  12. Íslandshótel- brot á ráðningarsambandi
  13. Málefni starfsmanna PCC
  14. Tryggingamál stéttarfélaganna
  15. Málefni starfsmanna stéttarfélaganna
    1. Starfsöryggi
    2. Stytting á vinnutíma
  16. Önnur mál

 

 

 

 

Stéttarfélögin óska Þekkingarnetinu og Náttúrustofu til hamingju með afmælið

Þekkingarnet Þingeyinga og Náttúrustofa Norðausturlands halda upp á 15 ára starfsafmæli í dag. Fyrir 15 árum hófst starfsemi þessara stofnana undir einu þaki í þekkingarsetri á Húsavík.  Áður hafði reyndar símenntunarhluti Þekkingarnetsins hafið starfsemi, undir nafni Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga.  Á þessum 15 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar og starfsemin eflst og stækkað. Starfsfólk hefur bæst við, verkefni stækkað og þeim fjölgað og stofnanir bæst í hópinn. Í dag eru heilsársstarfsmenn um 15 og fjölgar töluvert árstíðabundið í tímabundnum verkefnum. Í tilefni af þessum merka áfanga er gestum og gangandi boðið velkomið í kaffisopa og spjall á Þekkingarsetrinu ykkar á Hafnarstéttinni á Húsavík í dag.

Framsýn í viðræður við Tjörneshrepp

Tjörneshreppur hefur óskað eftir viðræðum við Framsýn stéttarfélag um gerð kjarasamnings fyrir hönd starfsmanna hreppsins. Áður hafði Tjörneshreppur afturkallað samningsumboðið frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 Þar sem Starfsgreinasamband Íslands hefur haft samningsumboð Framsýnar vegna sveitarfélaga á félagssvæði félagsins og í ljósi þess að Tjörneshreppur hefur afturkallað samningsumboðið frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur Framsýn ákveðið að afturkalla samningsumboðið frá Starfsgreinasambandinu er varðar Tjörneshrepp. Gengið var frá því í dag

 Fullur vilji er til þess innan hreppsnefndar Tjörneshrepps og stjórnar Framsýnar að hefja þegar í stað viðræður um gerð kjarasamnings fyrir starfsmenn hreppsins með það að markmiði að klára gerð kjarasamnings á næstu vikum.

 Þess má geta til viðbótar að ákvörðun Tjörneshrepps þarf ekki að koma á óvart þar sem framkoma Launanefndar sveitarfélaga í garð sveitarfélagsins og reyndar í garð samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands hefur verið með miklum ólíkindum.

 

 

Ferð ASÍ til Palestínu

Í síðustu viku fór 20 manna hópur frá Alþýðusambandinu í stutta ferð til Palestínu til að kynnast af eigin raun aðstæðum vinnandi fólks á svæðinu, meðal þeirra sem boðinn var þátttaka í ferðinni var formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Í ferðinni voru haldnir fjölmargir fundir m.a. með verkalýðsfélögum, fulltrúum úr atvinnuvegaráðuneyti Palestínu, góðgerðarfélögum og læknum auk þess sem farið var inn í Balata flóttamannabúðirnar í Nablus.

Hér er rætt við Drífu Snædal forseta ASÍ og Halldór Oddsson lögfræðing sem voru meðal þeirra sem fóru í ferðina.

 

Heilsueflandi vinnustaðir

Embætti landlæknis, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður hafa undanfarna mánuði unnið að viðmiðum til að tryggja að vinnustaðir hafi góð verkfæri til að skapa heilsueflandi umhverfi.

Nánar má lesa um málið hér.

Fréttatilkynning frá Eflingu – stéttarfélagi og Starfsgreinasambandi Íslands.

SGS og Eflingu barst núna eftir hádegið bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem tilkynnt var að sveitarfélögin hefðu einhliða ákveðið að vísa yfirstandandi kjaradeilu til Ríkissáttasemjara. Ástæðan sem tilgreind er og vísað til er ályktun sem samþykkt var í tilefni af kvennafrídeginum á þingi SGS í síðustu viku. Þar var meðal annars var fjallað um stöðu ófaglærða verkakvenna og stöðunni kjaradeilunni.

Sveitarfélögin virðast telja ástæðu til að slíta viðræðum við SGS og Eflingu þegar þau segja hlutina eins og þeir eru alveg óhrædd við að berjast fyrir eðlilegum réttindum og betri kjörum fyrir sitt fólk. Kjarkurinn er nú ekki meiri en svo hjá samninganefnd sveitarfélaganna að þau treystu sér ekki til þess að koma þessu á framfæri á fundi né að hafa samband með beinum hætti við okkur sem sína viðsemjendur.

Er það raunar í samræmi við þeirra framgöngu og málatilbúnað síðan samningar runnu út í apríl, hvort sem það snýr að jöfnun lífeyrisréttinda, innágreiðslum, fyrirkomulag viðræðna eða öðrum atriðum.

það er skrýtinn veruleiki sem birtist í þessu bréfi sveitarfélaganna að telja það ekki  ,,að koma illa fram við kvennastéttir og að þeim sé sýnd takmarkalaus lítisvirðing í yfirstandandi viðræðum“ að neita að ræða kröfur þessa hóps, vísa hluta þeirra til dómstóla og sýna sjónarmiðum okkar í engu skilning.

Starfsgreinasambandið mun ekki láta hræða sig frá því að álykta á sínum þingum um það sem brennur á okkar fólki eða standa fast á okkar réttmætu og eðlilegu kröfum.

Það er aftur á móti ljóst að þessi málatilbúnaður sveitarfélaganna stuðlar með engu móti að lausn þessarar alvarlegu deilu og hvaða afleiðingar það getur haft er alfarið á ábyrgð Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Reykjavík 28. október 2019

ps. Framsýn stéttarfélag er aðili að þessari deilu í gegnum Starfsgreinasamband Íslands.

 

Staðan tekin á Garðvík

Starfsmenn stéttarfélaganna leggja mikið upp úr góðu sambandi við fyrirtæki á svæðinu. Einn liður í því er að fara í heimsókn í fyrirtækin. Í dag fór starfsmaður stéttarfélaganna í heimsókn til Garðvíkur. Guðmundur Vilhjálmsson, eigandi fyrirtækisins fór vel í gegnum hvernig rekstur fyrirtækisins gengur fyrir sig og hvað sé á döfunni. Meðal annars var ný aðstaða fyritækisins á Haukamýri 1 skoðuð en það húsnæði var áður í eigu Steinsteypis. Til stendur að flytja verkstæðisvinnu fyrirtækisins í þetta nýkeypta húsnæði en formleg opnun þess verður 15. nóvember næstkomandi. Sagði Guðmundur að þetta mundi gjörbreyta allri aðstöðu fyrirtækisins, sérstaklega þegar kemur að verslunarhluta þess.

Verkefnastaða Garðvíkur er með ágætum um þessar mundir en 11 starfsmenn voru við störf hjá fyrirtækinu í dag. Garðvík hefur verið með talsvert af verkefnum utan Húsavíkur undanfarið, til dæmis í Fjarðabyggð og á Þórshöfn. Fyrir liggur verkefni í Mývatnssveit en Garðvík hefur einmitt unnið þónokkur verkefni þar á liðnum árum.

Myndina tók Aðalsteinn J. Halldórsson, starfsmaður stéttarfélaganna en þar má sjá Guðmund á nýja verkstæðinu á Haukamýri 1.

 

Flosi Eiríksson gestur á fundi Miðflokksins á Húsavík

Þingeyjardeild Miðflokkusins hélt opin málfund um álögur á fyrirtæki og einstaklinga í salakynnum Skrifstofu stéttarfélaganna laugardaginn 26. október. Fundurinn var vel sóttur en um 60 manns sátu hann.

Ásamt formanni Miðflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni tóku til máls á fundinum Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, Hrafnhildur E. Karlsdóttir, hótelstjóri Hótel KEA, Ólafur Ísleifsson, þingmaður, Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður og loks Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Við erum hér líka, huldufólkssögur úr nútímanum I: Margrét Lilja

Halló, heyrir einhver í mér

„Halló, heyrir einhver í mér?“ Hrópin bergmála á þröngum upplýstum stuttum kuldalegum gangi. Í öðru enda hans eru hátalara sem enginn hefur sótt en við hinn situr ung stúlka í léttum hjólastól og keyrir hann utan í hurðina í von um að einhver hinum megin heyri bank. Hún kallar aftur: „Halló, ég er lokuð hérna inni, getið þið hjálpað mér.“ Orðin kastast af veggjunum og deyja út. Bílstjórinn hjá ferliþjónustunni hafði ýtt ungu konunni inn fyrir dyrnar og farið, ekki áttað sig á að hún hafði ekki afl til að opnað dyrnar út úr ganginum. Og ekki heldur þær sem hún kom inn um. Henni er mál að pissa. Hún vill ekki vera þarna. Hún vill ekki vera í hjólastól. Hún vildi að hún gæti opnað hurðina, en hún getur það ekki, hendurnar eru aflvana. Hún gæti ekki opnað dyrnar þótt líf hennar lægi við. Hún er bjargarlaus lokuð inn á þjónustugangi í Eirbergi, kennslustofum Háskóla Íslands við Landspítalann. Hún er orðin of sein tíma. Hún kemst ekki á stólnum sínum sömu leið og aðrir nemendur, þarf að fara inn um þjónustuinnganginn sem ætlaður er fyrir vörur, það sem kallað er aðföng. Nokkuð lýsandi fyrir stöðu okkar sem erum fötluð, hugsar konan, fordyrnar eru fyrir þau ófötluðu, okkur hinum er vísað á bakdyrnar. En nú eru þær læstar.

Konan í stólnum er Margrét Lilja Arnheiðardóttir, 22 ára gamall nemandi við Háskóla Íslands. Hún vissi alltaf að hún myndi fara í háskóla en það hvarfaði ekki að henni að hún myndi koma þangað í hjólastól. Það er ekki markmiðið hjá neinum. Margrét er ekki enn orðin vön þessum stól. Kannski venst engin hjólastól. Segir maður hjólastólnum sínum, hugsaði Margrét, eins og maður segir fæturnir mínir, mjöðmin á mér, lifrin í mér? Frá því hún gat ekki lengur gengið síðast liðið haust og settist í stólinn hefur hún talið sér trú um að þetta sé tímabundið ástand, að einn daginn myndi hún standa upp úr stólnum. En þar sem hún situr þarna lokuð inni á þjónstugangi leyfir hún sér að hugsa, en … hvað ef hún muni ekki ganga aftur, ekki nema kannski tvö, þrjú skref? Hvað ef hún verður alltaf í þessum stól. Lokuð inni á þessum gangi eða einhverjum öðrum gangi, bjargarlaus, fyrir neðan tröppur, fyrir framan klósett sem hún getur ekki notað hjálparlaust, fyrir framan dyr sem hún getur ekki opnað, dyr sem standa henni ekki opnar.

Svo voru dyrnar opnaðar. „Hvað ert þú að gera hér?“ spurði forviða maður. „Ekkert“, svaraði Margrét Lilja, „það er ekkert hægt að gera hér.“ Nema náttúrlega að horfast í augu við stöðu sína.

Margrét Lilja var bráðgert barn, varð læs án þess að nokkur kannaðist við að hafa kennt henni að lesa. Og eins og algengt er um börn sem eru örðuvísi var henni strítt, lögð í einelti bæði í Hólabrekkuskóla í Breiðholti og í Hveragerði. Margréti fannst því ekki erfitt að flytjast um fermingu með móður sinni og bróður út til Sarpsborgar í Austfold í Noregi, þótt það reynist mörgum börnum þungt að flytjast milli landa á hápunkti gelgjunnar. Margrét var hins vegar fegin að losna frá Íslandi, eignast nýtt líf. Og hún eignaðist góða vini, sérstaklega á menntaskólaárunum. Henni finnst hún hafa verið ósköp venjulegt barn og unglingur. Nema hvað hún var mjög veik sem barn, undarlega liðug og laus í liðunum sem krakki, alltaf að detta og slasa sig. Og á unglingsárunum glímdi hún við alvarlega anorexíu, alveg frá því skömmu eftir að hún kom til Noregs og þar til hún veiktist alvarlega 21 árs. Anorexíunni fylgdi kvíði og þunglyndi, en ekkert of alvarlegt, segir Margrét, hún var ári lengur í menntaskóla, en það kom ekki að sök. En hún var alltaf þreytt. Og anorexían fór illa með líkamann. Sem var veikur fyrir. „Ég vissi að það var eitthvað að mér, en ég vissi ekki hvað,“ segir Margrét.

Eftir menntaskólann, í ársbyrjun 2017, fór Margrét sem aupair til Englands, í vist hjá íslenskri konu, Ágústu sem átti eftir að reynast henni vel, manninum hennar og tveimur börnum. Það gekk ágætlega, hún sinnti börnunum og leið vel hjá fjölskyldunni, en einn morgun í ágúst vaknaði hún ekki. Og ekki heldur næsta morgun. Þegar hún loks vaknaði á þriðja degi gat hún ekki hreyft sig. Og auðvitað ekki sinnt börnunum. Ágústa sinnti henni, var komin með sjúkling á heimilið, unga konu sem lá aflvana í rúminu og gat ekki hreyft sig. Heimilislæknir fjölskyldunnar tengdi saman brotin úr sjúkrasögu Margrétar og sagði að hún væri með heilkenni sem kallast Ehlers–Danlos sem veldur skemmdum í bandvef, svo hann brotnar. Þetta erfist, það eru margir með þetta, sumir án þess að vita af því, en hjá sumum veldur þetta miklum skemmdum, verkjum, lömun og allskyns einkennum. Margrét Lilja er ein af þeim.

Þegar það var talið óhætt að flytja hana var flogið með Margréti til Íslands þar sem afi og amma ætluðu að taka á móti henni . En Margrét veiktist í vélinni, gat ekki andað, missti meðvitund og var flutt með bláum ljósum á sjúkrabíl frá Keflavík á Borgarspítalann þar sem hún lá á taugadeildinni næstu tíu vikurnar.

Svo tók við endurhæfing. Reyndu að ganga lengra, þú getur þetta. Ekki gefast upp, reyndu að sleppa hækjunum. Ekki setjast í hjólastól. Ef þú sest í hjólastól þá stendurðu aldrei upp aftur. Áfram. Reyndu meira. Gerðu meira. Ekki hætta.

Margrét skráði sig í lífeindafræði í Háskólanum um haustið 2018. Mætti á hækjunum fyrsta daginn og ætlaði ekki að láta veikindin stöðva sig. Halda áfram, ekki gefast upp, þú getur þetta. Þegar hún vaknaði daginn eftir var hún lömuð hægra megin, frá öxl og niður í tær. Þannig lá hún í þrjá daga. Á fjórða degi var sóttur hjólastóll og á honum fór hún í skólann. Yfir þröskulda, upp tröppur, afsakið, en geturðu hjálpað mér, muna að panta bíl á réttum tíma. Hvorki Læknagarður né Eirberg eru gerð fyrir hjólastóla. En Margrét vildi ekki láta það stöðva sig. Ekki einu sinni þegar hún lokaðist inni á þjónustuganginum. Það var ekki fyrr en höfuðkúpan losnaði frá efsta liðnum í hryggnum og hún var komin með kraga, máttvana og veik, að hún gafst upp. Hún gat ekki klárað lífeindafræðina. Það voru of margir þröskuldar á leiðinni.

Líf öryrkja er endalaus barátta. Þeir þurfa að berjast við sjúkdóminn sinn og fötlunina. Margir þurfa að berjast til að komast leiðar sinnar, komast þangað sem aðrir fara án nokkurs erfiðis. Flestir þurfa að berjast við fátækt og svo til allir við Tryggingastofnun og aðra hluta kerfisins, kerfis sem þó var búið til þeim til stuðnings. Og allir öryrkjar þurfa að berjast við fordóma og þöggun, berjast fyrir að einhver hlusti, fyrir að fá að hafa eitthvað um málefni sín að segja, fyrir að fá að vera fullgild manneskja. Hún getur verið óbærilegt, þessi linnulausa barátta. Og ekki batnar það þegar fólk heldur því fram að öryrkjar séu í þessari stöðu vegna þess að þeir hafi gefist upp, berjist ekki nóg. Festir öryrkjar berjast frá því þeir vakna og þar til þeir lognast út af, hverja stund. Það sem öðrum reynist auðvelt getur reynst þeim nær óyfirstíganlegt. Ekki bara vegna fötlunar og sjúkdóma heldur líka vegna fátæktar, útilokunar, höfnunar og hindrana.

Og þegar fólk þarf að berjast er betra að berjast í hóp, það er bugandi að berjast ein. Margrét gaf sig því fram við Öryrkjabandalagið, mætti á fund Kvennahreyfingarinnar ÖBÍ og kynntist þar mörgu góðu fólki. Og fór síðast liðið vor á ráðstefnu í Brussel um málefni öryrkja og varð eiginlega fyrir hugljómun, hitti fólk sem berst fyrir réttindum og kjörum fatlaðra, veikra og sjúkra, um allan heim, á svo mörgum vígstöðvum. Margrét fann kraftinn í þessari hreyfingu, hindranir breyttust í óunna sigra og hún vildi vera með. Hún skráði sig í félagsfræði, ætlar að mennta sig í einhverju sem tengist þessari baráttu. Í félagsfræðinni er líka auðveldara aðgengi en í lífeindafræði, ekki fullkomið en skárra. Hún starfar í aðgengisátaki Öryrkjabandalagsins, talar á fundum um stöðu ungra öryrkja, er í ráði Háskólans um málefni fatlaðs fólks, er virk í stúdentapólitíkinni og er til í meira. Ef hún hefur krafta til.

„Ég get svo margt,“ segir Margrét. „Ég get auðvitað ekki allt, en ég get helling. Ég er ung og ég get lært. Ég get starfað í hreyfingu öryrkja og fyrir málefnum fatlaðra. Ég get barist fyrir viðurkenningu og bættu aðgengi, gegn fordómum og þöggun, fyrir virðingu og mannsæmandi kjörum. Ég hef það ekki slæmt, bý í eigin íbúð og get lifað góðu lífi ef ég gæti að orkubúskapnum mínum, sem er ekki góður. En svo er sumt sem ég get ekki. Ég get til dæmis ekki tekið námslán því ég veit ekki hvort ég haldi heilsu út önnina. Ef ég veikist falla lánin á mig. Það er ekki gert ráð fyrir að veikt fólk taki námslán. En ég get lært þangað til ég veikist og kannski veikist ég ekki og tek prófin. Ég hef alltaf átt auðvelt með að læra og mun örugglega ná góðum prófum.“

„Og ég er svo margt,“ segir Margrét. „Ég er ósköp venjuleg ung kona, hegða mér og hugsa um það sama og flestar ungar konur. En ég er líka með alvarlegan sjúkdóm og ég er öryrki. Ég er ekki annað hvort af þessu, ég er bæði. Þegar ég varð öryrki hætti ég ekki að vera ung kona. Þið ættuð að tala við mig eins og ég er, ekki eins og þið haldið að ég sé. Og þið ættuð ekki að loka eyrunum fyrir því sem ég hef að segja vegna þess að ég er veik og ég er öryrki, vegna þess að ég er í hjólastól og þarf hjálp við margt sem ykkur finnst sjálfsagt að geta gert. Þú mátt alveg hlusta á það sem ég hef að segja. Ég er hérna … Halló, heyrir einhver í mér?“

Ávarp forseta ASÍ á formannafundi sambandsins

Formannafundur Alþýðusambands Íslands var haldinn í gær í Reykjavík. Þingeyingar áttu sína fulltrúa á fundinum. Jónas Kristjánsson var á svæðinu fyrir Þingiðn og Aðalsteinn Árni fyrir Framsýn. Nokkur mikilvæg mál voru á dagskrá fundarins. Hér má lesa ávarp forseta  sambandsins, Drífu Snædal.

Kæru félagar, velkomin á formannafund ASÍ. Það er gott að nýta þetta tækifæri til að taka stöðuna á milli þinga. Við erum stödd í augnabliki í stóra samhenginu með fjöregg samstöðu launafólks í höndunum. Hreyfingu sem var til fyrir okkar daga og mun vonandi vera til eftir okkar daga líka. Okkur ber skylda til að horfa áratugi fram í tímann en ekki síður áratugi aftur í tímann . Persónur og leikendur skipta litlu máli í stóra samhenginu og ákvarðanir skulu teknar með framsýni í huga en ekki augnabliksstöðu.

Þó að það þyki skammaryrði að tala um Ísland sem smáríki þá erum við frekar fá og höfum verið einsleit hingað til þó það breytist hratt þessi misserin. Við þurfum því að líta í kringum okkur til að meta árangurinn af okkar starfi, mæla okkur á stærri mælistiku en við höfum hér innanlands. Og við komum vel út í samanburðinum. Jafnrétti mælist með því besta í heiminum, hlutfall ungs fólks sem hvorki stundar nám né vinnu er með því lægsta sem þekkist, laun hér eru með því hæsta og almenn lífsgæði líka, ójöfnuður er til þess að gera lítill í samanburði við aðrar þjóðir.

Við höfum sem sagt náð góðum árangri og það er ekki síst sterkri verkalýðshreyfingu að þakka. Óvíða hefur hreyfing launafólks haft jafn mikil áhrif og hér á landi. Á meðan nágrannaþjóðir okkar tóku ákvarðanir í ríkisstjórn um uppbyggingu félagslegs húsnæðis þá tók verkalýðshreyfingin á Íslandi þann bolta. Sama má segja um mörg önnur félagsmál sem bæta lífsgæðin. Það má því með sanni segja að verkalýðshreyfingin hafi verið stór hluti af uppbyggingu velferðarkerfisins hér á landi, stærri en í flestum öðrum löndum. En það er vandratað einstígi hvenær við erum að axla ábyrgð á velferðarmálum sem með réttu á að vera í höndum stjórnvalda. Hvenær erum við að firra stjórnvöld ábyrgð á sameiginlegri velferð? Sem betur fer erum við í samtali við ríkistjórnina og vinnum með henni, veitum aðhald og beitum þrýstingi en félagar okkur víða um heim eiga hvorki í samtali við atvinnurekendur né stjórnvöld. Þeirra barátta snýst um að láta raddir sínar heyrast þar sem ákvarðanir eru teknar en við erum góðu heilli við það borð í krafti styrks okkar, þó hann megi vera meiri og sterkari.

En þó að við komum vel út í alþjóða samanburði þá er það ekki tilefni til að setjast með hendur í skauti. Staðan er langt frá því að teljast ásættanleg og ógnirnar eru víða. Það er ekki nóg að vera best í jafnrétti þegar jafnrétti hefur ekki verið náð. Það er ekki ásættanlegt að byggja góð hús þegar það er fólk sem býr ekki enn við húsnæðisöryggi og það er ekki í lagi að hafa náð árangri í bættum kjörum þegar fólk býr enn við fátækt og óttast um afkomu sína. Þegar eitt fyrirtæki hagnast um 8,7 milljarða á einu ári á meðan fólk sem missir heilsuna og er dæmt í fátækt, er eitthvað mikið að. Þegar heilu kaupstaðirnir þurfa að treysta á góðvild atvinnurekenda til að þrífast og lifa í stöðugum ótta við að arðurinn og atvinnutækifærin séu flutt á milli byggðarlaga er staðan ekki í lagi.

Á meðan jafn mikill ójöfnuður ríkir og raun ber vitni hefur verkalýðshreyfingin verk að vinna. Á meðan það er fólk í okkar samfélagi, hvort sem það er utan eða innan vinnumarkaðar, sem nær ekki endum saman er staðan ekki í lagi. En við höfum náð árangri, ekki bara í sögulegu samhengi heldur einnig síðasta árið. Þegar ég segi félögum okkar í öðrum löndum frá því að okkur hafi tekist að fjölga skattþrepum, að við séum að undirbúa stórsókn gegn launaþjófnaði, stórefla húsnæðisöryggi og leyfum okkur meira að segja að hafa skoðanir á vaxtaákvörðun seðlabankans þá á fólk erfitt með að trúa því. En það er okkar menning og uppbygging á samfélagi. Verkalýðshreyfingunni er ekkert óviðkomandi enda er vinnandi fólki ekkert óviðkomandi. Og í hinu pólitíska landslagi og umróti er eins gott að við stöndum í lappirnar. Við þurfum stöðugt að vera á varðbergi til að passa að þau markmið sem við fengum stjórnvöld inná síðasta vetur haldi.

Kraftarnir sem draga í aðrar áttir eru sterkir. Nýjasta dæmið er að þegar okkur hefur tekist að auka jöfnuð í gegnum skattkerfið með þrýstingi í gegnum kjarasamninga þá á að auka misrétti með því að lækka erfðafjárskatt. Meiri spámenn en ég, og reyndar flestir sem láta sig hagfræði varða með hag almennings í huga vara við því að auður flytjist óáreittur á milli kynslóða. Þannig verður til óeðlileg auðsöfnun og misrétti í kjölfarið. Þegar meira að segja Economist, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Aþjóðabankinn hvetja ríki og alþjóðasamfélagið til að draga úr auðsöfnun í gegnum skattkerfið þá ætla stjórnvöld hér á landi að fara í aðra átt til að tryggja að kvótapeningarnir flytjist nú örugglega kynslóð fram af kynslóð, auðurinn sem var í almannaeigu en er það ekki lengur.

Sama má segja um veggjöldin sem eru algerlega óútfærð og því erfitt að vera með eða á móti. Ég hef ekki skotið loku fyrir það að veggjöld verði sett upp en það þarf að vera á forsendum jafnaðar, að það vinni ekki gegn okkar markmiðum og komi ekki niður á þeim sem síst skyldi. Þannig má hugsa sér að nýta tilfærslu í gegnum barnabætur og húsnæðisbætur í samhengi við nýja álagningu, hvort sem það eru grænir eða gráir skattar eða hvaða litapallettu við viljum setja á það. Við eigum að vera til viðræðu um að efla barnabótakerfin í samhengi við græna skatta og auðvitað eigum við að þrýsta á um almennilegar almenningssamgöngur, umhverfi og fólki til heilla. En að setja á almennan nefskatt eins og veggjöld sem er íþyngjandi fyrir almenning án þess að nokkuð komi í staðinn er ekki til umræðu. Við ætlum hreyfingunni sæti við borðið þar sem þessar ákvarðanir verða teknar og það er óhugsandi að taka afdrifaríkar ákvarðanir sem snertir heimilisbókhald fólks án þess að við séum þar. Við þurfum ávallt að vera tilbúin í slíka umræðu sem hreyfing og þá þurfum við líka að hafa rætt málin innbyrðis.

Það er alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir innan okkar vébanda og skárra væri það nú í stærstu fjöldahreyfingu landsins. Við höfum samþykktir þingsins okkar til að byggja á en við verðum líka að finna leið til að tala saman um áríðandi mál og auka þekkingu taktfast og stöðugt. Liður í því er stofnun rannsóknarseturs vinnumarkaðarins sem tilkynnt var á mánudaginn og mun vonandi verða til að framleiða þekkingu á okkar eigin forsendum til að grundvalla ávarðanir á. En stofnuninni er líka ætlað að vera vettvangur til að miðla þeirri þekkingu sem verið er að framleiða annars staðar, bæði hérlendis og erlendis, og við þurfum að vita af til að verða betri og skipulagðari í okkar baráttu.

Skipulag hreyfingarinnar er annað mál sem hefur verið mér hugleikið og ég hef reynt að setja sjálfa mig og aðra í þankaganginn: Hvernig myndum við byggja upp hreyfingu í dag ef við byrjuðum með autt blað? Þegar ég set sjálfa mig í þau spor þá er það fyrsta sem ég hugsa um verðmætin í hreyfingunni okkar. Nálægðin við félagsmenn, staðarþekkingin og stuttu boðleiðirnar, möguleiki alls félagsfólks til þátttöku og skoðanaskipta, opnir fundir og gott aðgengi. Þetta eru gríðarleg verðmæti. En ég er líka fullviss um að það sé hægt að gera betur og þá aðallega til að gæta hagsmuna okkar í ákveðnum atvinnugreinum. Það er ekkert sérstaklega rökrétt að hafa skörp skil á milli almenna markaðarins og hins opinbera í verkalýðshreyfingu þegar mörkin í raunveruleikanum þar á milli eru að verða sífellt daufari. Sömuleiðis erum við að bregðast okkar félagsfólki þegar barátta um sálirnar á milli stéttarfélaga kemur niður á þjónustu og réttindum. Vinnandi fólk á Íslandi á skýlausa kröfu á að við finnum bestu leiðirnar til að gæta hagsmuna þess, þjóna því og búa til sem mestan slagkraft. Það væri því rökrétt að staðbinda stéttarfélög eins og er í dag, en hafa jafnframt atvinnugreinasamtök á landsvísu; Samband vinnandi fólks í ferðaþjónustu, samband vinnandi fólks í veiðum og fiskvinnslu, samband vinnandi fólks í velferðar- og almannaþjónustu, samband vinnandi fólks í orkufrekri starfsemi og svo framvegis. Með slíkri uppbyggingu gæfist okkur bæði færi á að veita félagsfólki aukinn faglegan styrk en líka að búa til þekkingu út frá atvinnugreinum og vera þrýstiafl þegar ákvarðanir eru teknar sem snerta greinarnar. Mig langar að fá ykkur til að hugsa þetta með mér, ræða þetta áfram í ykkar félögum og velta við öllum steinum. Mig langar líka til að biðja ykkur um að setja upp gleraugu kynja, stéttar og uppruna í þessum pælingum. Það er nefninlega ekki nóg að kjósa konu sem forseta ASÍ ef skipulagið stenst ekki mælikvarða kynjajafnréttis að öðru leyti og með því að atvinnugreinaskipta landssamböndum er vonandi hægt að draga úr stéttaskiptingu innan greinanna sjálfra.

En í núverandi skipulagi getum við tekið hænuskref í átt að betri þjónustu og sterkari réttindum fyrir vinnandi fólk. Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur samþykkt að undirrita viljayfirlýsingu við BSRB um réttindaflutning félagsmanna milli sjúkra- og styrktarsjóða þannig að fólk þurfi ekki að byrja á byrjunarreit ef það flytur sig á milli almenna- og opinbera markaðarins. Við munum svo vonandi reka smiðshöggið á þennan réttindaflutning á næsta þingi okkar. Í því samhengi langar mig að velta upp þeirri hugmynd að sjúkrasjóðir sameinist undir einum hætti innan ASÍ til að dreifa áhættu og álagi vegna atvinnugreina, landssvæða og kynja. Það væri leið til að styrkja samtryggingarhugsjónir okkar enn frekar því það er alveg ljóst að áföll geta og hafa dunið yfir staðbundið eða atvinnugreinabundið sem setur óeðlilegan þrýsting á minni sjóði. Sömuleiðis er það mjög landssvæðabundið hvaða þjónustu og styrki hægt er að bjóða upp á og það er varla sanngjarnt að það fari eftir búsetu hvaða rétt til fyrirbyggjandi styrkja þér býðs. Setjum þessar pælingar á dagskrá og leyfum þeim að malla áfram í grasrótinni án þess að breyta með boðvaldi.

Kæru félagar,

Nú keppast fræðingar við að rýna í framtíðina, hvaða breytingar eru væntanlegar með svokölluðu fjórðu iðnbyltingu og hvaða viðbrögð þurfa að vera við hamfarahlýnun. Breytingarnar eru hraðar og skýrslur eru úreltar um leið og þær birtast. Það sem við vitum hins vegar er að breytingar eru staðreynd og við þurfum að vera tilbúin. Við höfum tekist á við breytingar áður sem samfélag og staðið okkur vel. Þegar iðnaðarsafnið á Akureyri er heimsótt rennur upp fyrir konu hvaða gríðarlegu breytingar hafa átt sér stað í atvinnuháttum eins samfélags á til þess að gera fáum árum. Úr því að vera iðnaðarbær varð Akureyri þekkingar- og menningarbær. Á Grandanum í Reykjavík eru komin hvalaskoðunarfyrirtæki, hótel og tölvuleikjafyrirtæki þar sem áður voru veiðar og fiskvinnsla fyrir tveimur áratugum. Ungt fólk fær frekar eldskírn á vinnumarkaði í þjónustugreinum en fiskvinnslu í dag og í framtíðinni verður það kannski endurvinnsla og verðmætasköpun úr sorpi sem verður aðal iðnaðurinn.

Við vitum það eitt að breytingarnar í dag eru hraðari og örari en við höfum áður séð. Ef fortíðin spáir fyrir um framtíðina (sem er nú yfirleitt raunin) þá munu störf koma í stað starfa, atvinnugreinar koma í stað atvinnugreina. Við stöndum frammi fyrir risastóru verkefni sem er að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu til að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.

Eitt af því mest spennandi sem er að gerast í heiminum í kolefnabindingu er að gerast í gegnum rannsóknir hér á landi þar sem okkar besta vísindafólk sýnir framsýni, dug og færni. Getur það verið að kolefnisbinding sé nýja ígildi stóriðju hér á landi? Og er þá ekki kominn tími til að við gerum alvöru úr því að hampa iðn- og tæknigreinum í stað þess að leggja áherslu á bóknámsgreinar. Að standa loksins við stóru orðin í menntamálum.

Þó að við sjáum illa inn í framtíðina þá skulum við vera fullmeðvituð um það að við erum fær um breytingar án þess að gefa nokkurn afslátt á kröfunni um mannsæmandi líf með virðingu fyrir afkomu og lífgæðum. Ef við hefðum gengist inná að lækka laun eða draga úr lífsgæðum til að keppa við laun í öðrum löndum þegar alþjóðavæðingin varð staðreynd hefðum við verið í mun verri málum í dag. Það má hins vegar segja að sterk verkalýðshreyfing hér á landi og í nágrannalöndunum þar sem ekki var gefinn afsláttur af launum þrátt fyrir alþjóðasamkeppni hafi styrkt framfarir og tækniþróun. Og við atvinnurekendur segjum við „verði ykkur að góðu“. Þannig getum við ekki keppt við önnur lönd í að halda niðri launum í ferðaþjónustu, við verðum að keppa í gæðum og nýsköpun á þeim vettvangi sem öðrum.

Hvað ætli hugmyndin um Ísland sem jafnréttisparadís hafi gefið af sér í atvinnutækifærum alþjóðlega? Þó ég efist um mælikvarðana og sætti mig ekki við að vera þæg og stillt á meðan jafnrétti er ekki náð að þá hefur það mikið að segja um orðspor okkar og virðingu í aþjóðasamfélaginu. En jafnrétti er ekki bara útflutningsvara heldur ber að stefna að jafnrétti og jöfnuði vegna þess að þannig er siðað samfélag, það er réttlátt og sanngjarnt að auka jöfnuð og jafnrétti og það er eini raunverulegi mælikvarðinn. Það er ágætt ef viðsemjendur þeirra opinberu starfsmanna sem nú sitja við samningaborðið, gera sér grein fyrir þessu því það er með öllu ólíðandi að opinberir starfsmenn, að stórum hluta konur í láglaunastörfum, hafi verið samningslausir í 7 mánuði. Vinnandi fólk hefur sýnt þolinmæði fram úr hófi en hún er á þrotum og ég heyri vaxandi ólgu í öllum landshornum. Mikil er ábyrgð þeirra sem ætla ekki að hlusta á þessar raddir og stefna fólki sem annars er seinþreytt til vandræða út í átök.

Baráttan næstu árin og áratugina mun snúast um að vinnandi fólk fái hlutdeild í þeim arði sem mun skapast með aukinni tækni. Það er hægt að gera og verður gert með kröfu um hærri laun en ekki síður um styttingu vinnudags. Það er eitt af stóru málunum og við erum lögð af stað í þá vegferð að minnka vinnuna í 6 tíma á dag sem ég efa ekki að verður framtíðin hér á norðuhveli jarðar allavega. Við ætlum að ræða þessi fyrstu skref hér á eftir, sem við náðum í samningunum síðasta vetur, hvernig útfærslan á að vera og hvaða ávinning fólk sér af því en ekki síður hvað framtíðin ber í skauti sér, hvaða áherslur við eigum að leggja til að gera enn betur til að auka lífsgæðin. Verður það þannig að við vinnum 6 tíma á dag og ein klukkustund fer í endurmenntun og fræðslu til dæmis? Slagorðið um átta tíma vinnu, átta tíma svefn og átta tíma ánægju varð frægt um allan heim fyrir hundrað árum og það voru samdir slagarar um slíka kröfu. Krafan um 6 tíma vinnu, eins tíma menntun, níu tíma ánægju og átta tíma svefn er ekki alveg jafn þjál krafa og sennilega ekki innblástur fyrir slagarahöfunda en gæti orðið okkar krafa engu að síður. Það er kominn tími á nýja kröfu hundrað árum síðar.

En kæru félagar,

Þegar ný forysta tók við stjórnartaumunum hjá ASÍ fyrir tæpu ári þá var málefnanefndum innan samtakanna ætlað stærra hlutverk en áður og þær voru stokkaðar upp. Í haust hafa verið haldin tvö mjög áhugaverð málþing á vegum fastanefnda ASÍ og fleira er í farveginum. Menntamálanefnd hélt málþing um fjórðu iðnbyltinguna og fyrsta málþingið í röð þriggja um umhverfismál setti þann málaflokk á dagskrá okkar svo um munaði. Við getum ekki og eigum ekki að skila auðu í þeim samfélagsbreytingum sem krafist verður næstu ár í átt að sjálfbærum samfélögum. Verkalýðshreyfingin um heim allann hefur mótað sér stefnu sem nefnist á ensku „just transition“ eða „sanngjörn umskipti“ og miðar að því að umbreyta okkar efnahagskerfi þannig að breytingarnar framundan leiði til fleiri starfa, betri starfa, heilbrigðari starfa og aukins jöfnuðar og jafnréttis. Ef verkalýðshreyfingin skilar auðu er það ávísun á aukna samþjöppun auðs, vaxandi fátækt og átök eins og hefur oft orðið raunin við mikil umskipti innan samfélaga. Við þurfum að mennta og uppfræða okkur, vera ávallt á varðbergi, bjóða nýjar lausnir og vera tilbúin til verka. Það er von mín að ný og róttæk umhverfisstefna verði samþykkt á þingi ASÍ eftir ár, sem getur orðið vegvísir okkar í starfinu framundan. Öflin sem við er að eiga eru fjármagnseigendur sem leita nú allra leiða til að maka krókinn og tryggja eigið öryggi án tillits til almennings, öfl sem eru tilbúin til að varpa lýðræðinu fyrir róða fyrir eigin gróða. Og þessi öfl eru sterk, í alþjóðsamfélaginu og jafnvel hér innanlands líka. Við því er aðeins eitt svar. Samstaða fjöldans og það vill svo vel til að við erum með heila fjöldahreyfingu sem er sterk, úrræðagóð og virk og stöndum því vel að vígi gagnvart framtíðinni.

Ég segi þennan formannafund Alþýðusambands Íslands settan.

 

Vinnutími styttist um áramótin / Gildir fyrir verslunar- og skrifstofufólk innan Framsýnar

Samkvæmt ákvæðum kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og LÍV tekur vinnutímastytting gildi 1. janúar 2020. Framsýn á aðild að samningnum. Atvinnurekendur skulu hafa samráð við launamenn um tillögu að útfærslu vinnutímastyttingar á grundvelli eftirfarandi valkosta:

a) Hver dagur styttist um 9 mínútur, starfsmaður styttir vinnudaginn um 9 mínútur á hverjum degi og fer fyrr heim sem því nemur, á óbreyttum kjörum.
b)Hver vika styttist um 45 mínútur eða styttingunni safnað upp með öðrum hætti, til dæmis á 2ja vikna fresti eða mánaðarlega.
c) Safnað upp innan ársins, um það bil fjórir og hálfur dagur.
d) Vinnutímastyttingu með öðrum hætti, á óbreyttum kjörum/launum.

Samkomulag skal hafa náðst um framkvæmd vinnutímastyttingar fyrir 1. desember 2019. Ef samkomulag næst ekki styttist vinnutími um 9 mínútur á dag miðað við fullt starf.

Frekari upplýsingar um vinnutímabreytingarnar er hægt að nálgast á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Vinnutímastyttingin nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa eftir kjarasamningi Landssambands ísl, verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Það er við verslun,- þjónustu- og skrifstofustörf.

Framsýn stéttarfélag

 

Fylgiskjal með frétt:

Verslunar- og skrifstofufólk

Stytting á vinnutíma félagsmanna Framsýnar:

9 mín á dag

45 mín á viku

3,15 tímar á mánuði

Útreikningur miðast við fullt starf.

Stjórnarfundur í Framsýn mánudaginn 21. október

Stjórn Framsýnar hefur verið kölluð saman til fundar mánudaginn 21. október kl. 17:00. Að venju er stjórn Framsýnar ung boðið að sitja fundinn sem fram fer í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. PCC BakkiSilicon hf- þróun launakerfis
  4. Þing- SGS-LÍV-AN
  5. Formannafundur SSÍ
  6. Staða kjaraviðræðna-Landsvirkjun-ríki-sveitarfélög
  7. Málefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
  8. Vinnuferð formanns
  9. Kjör trúnaðarmanns hjá Landsvirkjun
  10. Íbúð félagsins á Akureyri
  11. Vinnutímabreyting hjá verslunar- og skrifstofufólki
  12. Reglur sjúkrasjóðs-geymdur réttur
  13. Jólafundur-jólaboð Framsýnar
  14. Stjórnarkjör Framsýn-ung
  15. Önnur mál

Jóla- og áramótaúthlutun orlofsíbúða

Félagsmenn sem ætla að sækja um dvöl í orlofsíbúðum stéttarfélaganna í Reykjavík/Kópavogi og á Akureyri um jól og áramót eru beðnir um að skila inn umsóknum fyrir 4. nóvember nk. á skrifstofu stéttarfélaganna. Einnig er hægt að sækja um með því að senda skilaboð á netfangið linda@framsyn.is. Í kjölfarið verður íbúðunum úthlutað til félagsmanna. Í boði eru 8 íbúðir.

Framsýn
Þingiðn
Starfsmannafélag Húsavíkur

 

10% ríkustu fjölskyldurnar eiga 58%

Eigið fé eignamesta tíundahluti fjölskyldna hér á landi nam um 2.728 milljörðum króna á árinu 2018 sem jafngildir tæplega 58% af öllu eiginfé heimila í landinu samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um skulda og eignastöðu heimila. Á sama tíma nam eigið fé 1-8 tíundar samtals um 948 milljörðum króna.

Heildareignir heimilanna námu í árslok 2018 6.855 milljörðum króna sem er aukning um 13% frá fyrra ári. Til heildareigna teljast fasteignir, ökutæki, innistæður í bönkum og verðbréf. Hlutdeild fasteigna í heildareignum nemur ríflega 75%. Á sama tíma námu heildarskuldir heimilanna 2.111 milljörðum sem er aukning um 7,6% frá árslokum 2017.

Eigið fé heimilanna, sem er mismunur á heildareignum og skuldum, nam þannig samtals 4.744 milljörðum króna í lok árs 2018 og jókst um 15,6% frá fyrra ári.

 

 

Hörð og ósveigjanleg afstaða sveitarfélaganna mikil vonbrigði.

Deilur hafa staðið milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands um efndir á samkomulagi frá því í júlí 2009 um jöfnun lífeyrisréttinda hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Eftir afdráttarlausa neitun sveitarfélaganna á að ræða lausnir í yfirstandandi kjaraviðræðum átti SGS ekki annan kost en að vísa ágreiningsefnum til Félagsdóms í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Sveitarfélögin vildu ekki að málið fengi efnislega meðferð og lögðu því fram frávísunarkröfur. Félagsdómur féllst á þær að hluta en vísaði ekki frá kröfu SGS að sveitarfélögunum væri skylt samkvæmt kjarasamningi að koma til viðræðna um mögulega lausn.

Sveitarfélögin gátu ekki einu sinni fellt sig við þá hóflegu niðurstöðu og hafa kært úrskurð Félagsdóms til Hæstaréttar. Endurspeglar sú aðgerð þá óbilgirni og hörku sem sveitarfélögin hafa sýnt í þessu máli og þann einbeitta vilja að standa ekki við undirritað samkomulag um að jafna lífeyriskjör þeirra starfsmanna sem hvað lökust hafa kjörin.

Málflutningur sveitarfélaganna vekur líka upp spurningar um hvernig hægt sé að gera samninga við aðila sem kalla samninga sem þau sjálf skrifa undir ,,skúffuskjal“ sem ekki hafi neitt gildi og skipti engu máli. Slíkur málatilbúnaður er óvenjulegur dónaskapur í garð samtaka launafólks og forystumanna þeirra sem fram að þessu hafa ekki talið ástæðu til að efast um heilindi viðsemjanda þegar skrifað er undir kjarasamninga og samkomulög þeim tengdum.

Þessi harða og ósveigjanlega afstaða gagnvart starfsmönnum sveitarfélaganna er gríðarlega mikil vonbrigði og getur haft afar alvarlegar afleiðingar á næstu vikum.

Fréttatilkynning frá Starfsgreinasambandi Íslands 4.10.2019