Ríkið á villigötum – samningsvilji ekki til staðar

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna kjarasamninga við Fjármálaráðherra f.h. Ríkissjóðs samþykkti á fundi í dag fyrir hönd 18 aðildarfélaga, þar á meðal Framsýnar, að vísa kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara.

Þessi ákvörðun var tekin í framhaldi af samningafundi í gær og ganginum í viðræðum undanfarna mánuði, en kjarasamingurinn rann út 31. mars 2019.

Jafnframt var farið fram á það við sáttasemjara að hann boði til fundar eins skjótt og auðið er, enda algerlega óástættanlegt að launafólk bíði mánuðum saman eftir því að sest sé að samningaborðinu af alvöru.

Verslunarmenn, munið fundinn í kvöld

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður haldinn í kvöld, fimmtudag kl. 20:00, í fundarsal félagsins. Skorað er á félagsmenn að mæta á fundinn og taka þátt í áhugaverðum fundarstörfum. Að sjálfsögðu verða góðar veitingar í boði.

Afsláttarkjör í boði fyrir félagsmenn

Um þessar mundir er Leikfélag Húsavíkur að hefja sýningar á Litlu Hryllingsbúðinni í Samkomuhúsinu á Húsavík. Félagsmönnum stéttarfélaganna bjóðast afsláttarkjör á sýninguna.

Forsendan er að félagsmenn komi við á Skrifstofu stéttarfélaganna áður en þeir fara í leikhúsið og fái afsláttarmiða hjá félögunum. Afslátturinn er ekki í boði komi menn eftir leiksýninguna.  Verð til félagsmanna er kr. 2.000,-. Einn miði er í boði fyrir hvern félagsmann sem fer á sýninguna.

 

Framsýn

Þingiðn

STH

„Glataðir milljarðar?

Samninganefnd Sjómannasambands Íslands sem Framsýn á aðild að kom saman til fundar 20. janúar til að ræða kröfugerð sambandsins og önnur málefni sjómanna, þar á meðal verðmyndunarmál. Eftir góðar umræður var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

„Samninganefnd Sjómannasambands Íslands skorar á íslensk stjórnvöld að láta fara fram óháða rannsókn á söluvirði afurða í íslenskum sjávarútvegi.

Miðað við fréttir undanfarinna mánaða má ætla að milliverðlagning á sjávarfangi sé mjög algeng. Ætla má að íslenskt þjóðfélag verði af gríðarlegum fjármunum ef rétt reynist. Það er því skýlaus krafa samninganefndar Sjómannasambands Íslands að fram fari vönduð, óháð opinber rannsókn á endanlegu söluvirði útflutnings sjávarafurða og hvað af raunverulegum verðmætum skilar sér til Íslands.

Einnig áréttar samninganefnd Sjómannasambands Íslands áhyggjur sínar af endurvigtunarleyfum fiskvinnsluhafa á Íslandi. Ítrekað hefur verið sýnt fram á mismun á ísprósentu. Mjög mikill munur hefur verið staðfestur eftir því hvort Fiskistofa stendur yfir vigtun eða ekki.

Í þessum málum báðum eru gífurlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir bæði sjómenn og þjóðfélagið í heild sinni.“

 

 

Félagsmenn Framsýnar athugið – Kynningarfundur um kjarasamning SGS og SNS  

Framsýn boðar til kynningarfundar um kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem félagið á aðild að. Fundurinn verður haldinn laugardaginn 25. janúar kl. 11:00 í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík.

Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og stendur til 9. febrúar. Í næstu viku munu starfsmenn sveitarfélaga innan Framsýnar, samtals 272 félagsmenn, fá kjörgögn og upplýsingar um kjarasamninginn heim til sín í pósti. Starfsmenn sem ekki fá kjörgögn í hendur og starfa eftir kjarasamningi Framsýnar og sveitarfélaganna geta kært sig inn á kjörskrá.

Starfsmenn sveitarfélaga sem búa utan Húsavíkur geta fengið kynningu á samningnum á sínum vinnustað/svæðum leggi þeir fram ósk þess efnis við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Framsýn stéttarfélag

Samið við Tjörneshrepp

Eins og fram hefur komið gekk Starfsgreinasamband Íslands, sem Framsýn á aðild að, frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir helgina. Í kjölfarið settust fulltrúar frá Framsýn og Tjörneshreppi við samningaborðið og kláruðu gerð kjarasamnins fyrir starfsmenn hreppsins. Viðræður höfðu þá staðið yfir með hléum í nokkrar vikur. Samningurinn er á svipuðum nótum og kjarasamningur SGS og sveitarfélganna. Þó eru að finna ákvæði varðandi launaröðun starfsmanna samkvæmt starfsmati sem kemur til með að koma vel út fyrir starfsmenn Tjörneshrepps. Tjörneshreppur var ekki með samningsumboðið hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og því varð sveitarfélagið að semja sérstaklega við Framsýn um kjör starfsmanna. Báðir kjarasamningarnir fara í atkvæðagreiðslu á næstu dögum meðal starfsmanna. Þá mun Framsýn einnig boða til kynningarfunda um samningana.  Meðfylgjandi mynd var tekin síðdegis á föstudaginn af fulltrúum Framsýnar og oddvita Tjörneshrepps þegar kjarasamningur aðila var undirritaður.

Minnum á áður auglýstan fund verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags verður haldinn fimmtudaginn 23. janúar kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    1. Skýrsla stjórnar
    2. Kjör formanns og stjórnar
  2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningi verslunar- og skrifstofufólks að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti á fundinum.

Atvinnuleysi vaxandi á Íslandi

Um það bil átta þúsund voru án atvinnu í síðasta mánuði og jafngildir það 4,2 prósenta atvinnuleysi. Til samanburðar var skráð atvinnuleysi 2,2 prósent í desember árið 2017. Atvinnuleysi hefur ekki verið meira frá því í mars 2013 þegar 4,5 prósent voru án atvinnu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi sem birt var í vikunni. Karlar eru í meirihluta þeirra sem eru atvinnulausir, rúmlega 4.600 á móti 3.400 konum. Hlutfallslega munar þó litlu á atvinnuleysi kynjanna, það er 4,4 prósent meðal karla en 4,2 prósent meðal kvenna. Um 40 prósent allra atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar.

Atvinnuleysi minnkaði lítillega milli mánaða á Vestfjörðum en jókst alls staðar annars staðar á landinu. Langmest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 8,7 prósent. Minnsta atvinnuleysið er á Norðurlandi vestra, 1,8 prósent.

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi aukist í janúar, verði allt að 4,7 prósent.

Rúmlega 1.600 höfðu í síðasta mánuði verið án vinnu í meira en tólf mánuði, það er umtalsverð aukning milli ára því í lok desember 2018 höfðu rétt tæplega þúsund verið án vinnu í meira en tólf mánuði.

(Þessi frétt er tekin af ruv.is)

Framsýn gengur frá samningi við samninganefnd sveitarfélaga

Starfsgreinasamband Íslands sem Framsýn á aðild að gekk frá nýjum kjarasamningi í gær við Samband íslenskra sveitarfélaga með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023. Samningurinn nær til 17 aðildarfélaga sambandsins.

Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:

  • Laun hækka um 90.000 kr. á tímabilinu 1. janúar 2020 til 1. janúar 2022. Þann 1. janúar 2023 hækka laun í samræmi við hækkanir á almennum vinnumarkaði.
  • Lágmarksorlof hjá öllum starfsmönnum verður 30 dagar.
  • Markviss skref til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.
  • Vegna þess hversu lengi það hefur dregist að gera kjarasamning fá félagsmenn greidda eingreiðslu, upp á samtals 195.000 kr., miðað við fullt starf tímabilið 1. apríl til 31. desember 2019. Til frádráttar kemur 125.000 kr. innágreiðsla frá því í október 2019.
  • Persónuuppbót sem greiðist 1. maí ár hvert og nemur 50.450 kr. fyrir fullt starf árið 2020. Desemberuppbót hækkar úr 115.850 kr. árið 2019 í 124.750 kr. árið 2022. SGS mun áfram taka fullan þátt í starfshópi aðila opinbera vinnumarkaðarins sem fjallar um fyrirkomulag vaktavinnu og starfskjör vaktavinnufólks. Nái starfshópurinn niðurstöðu um frekari breytingar munu samningsaðilar taka upp viðræður um með hvaða hætti þær verða innleiddar.
  • Tekið er upp nýtt ákvæði um að starfsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtals í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.
  • Á næstu mánuðum verður lögð vinna í að leiðrétta og endurskoða fyrirkomulag ráðninga tímavinnufólks. Þá verður stofnaður sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður nú í ár og fá allir félagsmenn í fullu starfi greiddar 61.000 kr. Starfsmenn sem eru ekki í fullu starfi fá greiðslu miðað við starfstíma og starfshlutfall.
  • Þá verður réttur starfsmanna sveitarfélaga til desemberuppbótar aukinn.
  • Nú geta starfsmenn sveitarfélaga sótt um að starfa til 72 ára aldurs. Í dag geta menn starfað til 70 ára aldurs.
  • Réttur vegna veikinda barna er aukin úr 13 ára í 16 ára aldur enda sé um alvarleg veikinda að stríða.
  • Réttur barnshafandi kvenna er aukin varðandi nauðsynlegar fjarvistir frá vinnu vegna mæðraskoðunar, án frádráttar á föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum Framsýnar á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 10. febrúar. Stjórn Framsýnar hefur verið kölluð saman til fundar í dag kl. 17:00 þar sem formaður félagsins mun gera grein fyrir helstu atriðum samningsins.

Rétt er að taka fram að Framsýn hefur ekki ákveðið hvort atkvæðagreiðslan um samninginn verður rafræn eða ekki. Ákvörðun þess efnis verður tekin á stjórnarfundinum í dag. Reiknað er með að félagsmenn fái helstu upplýsingar um kjarasamninginn til sín í pósti, málið er í skoðun. Alls eru 272 félagsmenn Framsýnar á kjörskrá um þennan kjarasamning.

Litla Hryllingsbúðin – félagsmönnum bjóðast leikhúsmiðar á afsláttarkjörum

Laugardaginn 25. janúar mun Leikfélag Húsavíkur frumsýna leikritið Litla Hryllingsbúðin eftir Howard Ashman og Alan Menken í leikstjórn Völu Fannell í Samkomuhúsinu á Húsavík.

Litla Hryllingsbúðin er sígildur rokksöngleikur, fyrir alla fjölskylduna, fullur af húmor, kraftmikilli tónlist, heillandi persónum og krassandi söguþræði.

Verkið fjallar um erkilúðan Baldur sem lifir frekar óspennandi lífi. Hann eyðir fábrotnum dögum sínum við vinnu í blómabúðinni hans Markúsar. Hann lætur sig dreyma um ástir Auðar sem vinnur með honum í búðinni. Dag einn uppgötvar Baldur undarlega plöntu sem hann nefnir Auði II í höfuðið á sinni heittelskuðu. Plantan vekur óskipta athygli og viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr og Baldur verður stöðugt vinsælli. Kvöld eitt kemur í ljós að plantan getur talað og hún lofar Baldri frægð og frama, gulli og grænum skógum. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða. Inn í söguna blandast svo kærasti Auðar, tannlæknir með kvalarlosta og atburðarrásin tekur óvænta stefnu.

Leikfélag Húsavíkur fagnar í ár 120 ára afmæli og besta afmælisgjöfin væri sú að allir þeir sem vettlingi geta valdið komi í Gamla Samkomuhúsið, skemmti sér yfir Litlu Hryllingsbúðinni og fagni um leið 120 ára afmæli Leikfélags Húsavíkur.

Þess má geta að stéttarfélögin, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur taka þátt í gleðinni með því að bjóða félagsmönnum sérkjör í samstarfi við Leikfélag Húsavíkur. Forsendan er að félagsmenn komi við hjá stéttarfélögunum áður en þeir fara í leikhúsið og fái afsláttarmiða hjá félögunum. Ekki þýðir að koma eftir á, það er eftir leiksýninguna.  Verð til félagsmanna er kr. 2.000,-. Fullt verð er kr. 3.000,-.

 

 

Auglýsing um kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í þingeyjarsýslum kjörtímabilið 2020-2022

Auglýsing um kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í þingeyjarsýslum kjörtímabilið 2020-2022

Aðalstjórn:

Jónas Kristjánsson                      Formaður                      Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Vigfús Þór Leifsson                     Varaformaður                Norðurvík ehf.

Hólmgeir Rúnar Hreinsson          Ritari                             Trésmiðjan Rein ehf.

Þórður Aðalsteinsson                 Gjaldkeri                        Trésmiðjan Rein ehf.

Jónas Hallgrímsson                   Meðstjórnandi                 Trésmiðjan Rein ehf.

Aðalstjórn er jafnframt stjórn sjúkra-, orlofs- og vinnudeilusjóðs

Varastjórn:                                  Vinnustaður:   

Gunnólfur Sveinsson                     Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Gunnar Sigurðsson                       Eimskip hf.

Daníel Jónsson                            Curio ehf.

Hörður Ingi Helenuson                 Fagmál ehf.

Trúnaðarmannaráð:

Sigurjón Sigurðsson                        Norðurvík ehf

Kristján G. Þorsteinsson                 Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Andri Rúnarsson                            Fjallasýn ehf.

Kristinn Jóhann Lund                     Curio ehf.

Sigurður Helgi Ólafsson                 G.P.G-Fiskverkun ehf.

Bjarni Björgvinsson                       Norðurvík ehf.

Varatrúnaðarmannaráð:

Sveinbjörn Árni Lund                     Curio ehf.

Kristján Gíslason                           Norðlenska ehf.

Erlingur S. Bergvinsson                 Bifreiðaskoðun Íslands ehf.

Bjarni Gunnarsson                        Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Skoðunarmenn ársreikninga:                             Kjörstjórn:

Jón Friðrik Einarsson                                             Þorvaldur Ingi Björnsson

Arnþór Haukur Birgisson                                       Vigfús Þór Leifsson

Varamaður:                                                        Varamenn:

Steingrímur Hallur Lund                                       Andri Rúnarsson

Kristján Gíslason

Kjörnefnd:                                                           Fulltrúi félagsins 1. maí nefnd:

Davíð Þórólfsson                                                   Jónas Kristjánsson

Gunnólfur Sveinsson

Kristján Gíslason

Heimilt er hverjum fullgildum félaga að koma með breytingartillögur um félagsmenn í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan í trúnaðarstöður næsta kjörtímabil. Breytingartillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 10% fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 20% félagsmanna. Skylt er að koma breytingartillögum til skrifstofu félagsins að Garðarsbraut 26, 640 Húsavík, fyrir 1. mars 2020.

Kjörnefnd Þingiðnar

Fundur í stjórn Framsýnar á mánudaginn

Stjórn Framsýnar kemur saman til fyrsta stjórnarfundar á nýju ári mánudaginn 13. janúar kl. 17.00 í fundarsal félagsins. Mörg mál liggja fyrir fundinum til umræðu og afgreiðslu og er dagskráin því löng.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Áherslur félagsins 2020
  4. Sjúkrasjóður félagsins
  5. Erlendir félagsmenn-ljósmyndasýning
  6. Málefni Skrifstofu stéttarfélaganna
  7. Störf kjörnefndar félagsins
  8. Staðan í kjaraviðræðum
  9. Leikskólinn Grænuvellir-starfsmannamál
  10. Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks
  11. Niðurstaða Félagsdóms-viðbrögð sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum
  12. Endurskoðun á samningi um hvalaskoðun
  13. Endurskoðun á félagslögum
  14. Vinnustaðaheimsóknir
  15. Málefni Þorrasala
  16. Starfsemi Vinnumálastofnunnar
  17. Erindi frá Leikfélagi Húsavíkur
  18. Önnur mál
    1. Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar
    2. Bensín/olíuverð á Íslandi
    3. Dagbækur Framsýnar
    4. Aðalfundur Rifós hf.

Ellilífeyrir hækkaði um 3,5% um áramót

Fjárhæðir greiðslna TR hækkuðu um 3,5% um áramótin, eða 1.janúar 2020. Ellilífeyrir verður að hámarki  tæpar 256.800 kr. á mánuði. Ríflega 33 þúsund manns fá greiddan „ellilífeyri“ frá Tryggingastofnun, eins og það heitir í lögunum. Samkvæmt ársskýslu stofnunarinnar frá 2018 koma um 45% tekna „ellilífeyrisþega“ frá TR en um 35% frá lífeyrissjóðum.  Þeir sem eru 65 ára og eldri rétt á greiðslum frá TR að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Á heimasíðu Tryggingastofnunar segir meðal annars.

Ellilífeyrir

  • Ellilífeyrir er að hámarki 256.789 kr. á mánuði.
  • Heimilisuppbót er að hámarki 64.889 kr. á mánuði.
  • Ellilífeyrir og tengdar greiðslur eru að hámarki 321.678 kr. á mánuði hjá þeim sem búa einir (með heimilisuppbót).
  • Almennt frítekjumark skattskyldra tekna er 25.000 kr. á mánuði.
  • Sérstakt frítekjumark atvinnutekna er 100.000 kr. á mánuði.

Þeir sem eru 65 ára og eldri og hafa búið á Íslandi í minnst þrjú ár eiga einhvern rétt á ellilífeyri. Í reiknivél er hægt að slá inn mismunandi forsendur og sjá niðurstöðu. Þeir sem eru að hefja töku ellilífeyris eru hvattir til að kynna sér vel þá kosti sem í boði eru.

Fylgiskjöl með umsókn 

Þegar sótt er um ellilífeyri þarf að skila inn umsókn en auk þess þarf að skila inn eftirtöldum gögnum:

  • Staðfesting á að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði
  • Tekjuáætlun
  • Upplýsingar um nýtingu skattkorts

(Heimild: Lifðu núna)

Orðsending frá Kjörnefnd Þingiðnar

Um þessar mundir er unnið að því að stilla félagsmönnum upp í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Þingiðnar fyrir kjörtímabilið 2020-2022.

Í lögum Þingiðnar er tekið fram:

“Í nóvember ár hvert, skal á félagsfundi kjósa kjörnefnd fyrir félagið. Þrír félagar skulu eiga sæti í kjörnefnd. Kjörnefnd gerir tillögur um félagsmenn í allar trúnaðarstöður félagsins fyrir næsta starfsár. Kjörnefnd er heimilt að láta fara fram könnun meðal félagsmanna, um hverjir eigi að gegna trúnaðarstöðum fyrir næsta starfsár. Könnunin skal vera skrifleg. Kjörnefnd skal hafa lokið störfum í síðasta lagi 31. janúar ár hvert. Tillögur kjörnefndar skulu vera félagsmönnum til sýnis á skrifstofu félagsins til 28. febrúar.

Heimilt er hverjum fullgildum félaga að koma með breytingartillögur um félagsmenn í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan í trúnaðarstöður næsta starfsár. Breytingartillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 10% fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 20% félagsmanna. Skylt er að koma breytingartillögum til skrifstofu félagsins fyrir 1. mars.”

Hér með er þess óskað að þeir sem vilja gefa kost á sér til starfa fyrir félagið og sitja ekki nú þegar í stjórnum, ráðum eða nefndum á vegum félagsins að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og gefa kost á sér. Jafnframt eru þeir sem sitja nú þegar í stjórnum, ráðum og nefndum fyrir félagið og vilja ekki vera áfram beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og gefa upp sína afstöðu.

Skattkerfisbreytingar um áramót

Um ára­mót taka gildi ýms­ar skatta­breyt­ing­ar er snerta bæði heim­ili og fyr­ir­tæki í land­inu. Fjár­málaráðuneytið vek­ur at­hygli á þeim og seg­ir að áhrif breyt­ing­anna séu met­in til sam­tals 9,5 millj­arða kr. lækk­un­ar.

Fram kem­ur á vef ráðuneyt­is­ins , nú um ára­mót taki gildi um­fangs­mikl­ar breyt­ing­ar á tekju­skatti.

„Eru þær breyt­ing­ar afrakst­ur vinnu um heild­ar­end­ur­skoðun tekju­skatt­s­kerf­is­ins til lækk­un­ar á skatt­byrði. Ábati breyt­ing­anna skil­ar sér til allra tekju­tí­unda en sér­stak­lega til lág- og milli­tekju­hópa. Tekið er upp þriggja þrepa kerfi með nýju og lægra grunnþrepi. Sjá mynd­ina hér fyr­ir neðan.

Tekju­skatt­ur ein­stak­linga. Mynd/​Fjár­mála- og efna­hags­ráðuneytið
(Heimild mbl.is)

Dagbækur í prentun

Því miður fengum við ekki dagbækurnar okkar í hús fyrir áramótin eins og til stóð samkvæmt munnlegu samkomulagi. Þær eru í prentun og fara væntanlega í póst norður til Húsavíkur í lok næstu viku. Við reiknum því með því að þær verði aðgengilegar félagsmönnum upp úr 13. janúar. Um leið og þær koma verða þær auglýstar á heimasíðunni en fjölmargir félagsmenn hafa komið við á skrifstofu stéttarfélaganna til að nálgast dagbók en gripið í tómt. Beðist er velvirðingar á því.

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður 23. janúar kl. 20:00

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags verður haldinn fimmtudaginn 23. janúar kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    1. Skýrsla stjórnar
    2. Kjör formanns og stjórnar
  2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningi verslunar- og skrifstofufólks að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti á fundinum.

Stjórnin