Guðmundur Vilhjálms tekur við formennsku í Framsýn stéttarfélagi

Ekki er ólíklegt að þetta séu tíðindi ársins ef ekki síðasta áratugar. Aðalsteinn Árni Baldursson sem verið hefur formaður Framsýnar, áður Verkalýðsfélags Húsavíkur lengur en nokkur annar maður í þessari veröld, hefur látið af störfum. Stjórn Framsýnar gekk frá starfslokum við hann í gærkvöldi eftir langan og strangan 24 tíma samningafund. Eins og kunnugt er, þá er Aðalsteinn Árni mikill kröfuhundur og krafðist hann þess að fá feitan starfslokasamning. Sagan segir að samningurinn sé í takt við starfslokasamning fyrrverandi Ríkislögreglustjóra. Rétt er að taka fram að algjör trúnaður ríkir um samninginn og því ekki opinber.

Félagið verður ekki lengi formannslaust þar sem þegar hefur verið samið við Guðmund Vilhjálmsson framkvæmdastjóra Garðvíkur og formanns SANA, sem eru heildarsamtök atvinnurekanda á norðausturhorninu, að taka við keflinu og leiða Þingeyskan verkalýð áfram á braut kjara og jafnréttis. Samningar tókust í nótt og hóf Guðmundur störf í morgun kl. 08:15 nokkuð hress eftir erfiða nótt. Það er eftir undirritun ráðningarsamnings sem er ótímabundinn. Hvorugur aðili getur sagt upp samningnum sem Guðmundur sagði fagnaðarefni enda færi vel um hann í stól formanns Framsýnar. Hann sagði þó þörf á því að endurnýja tölvuna og kaupa stærri tölvuskjá, helst tvo. Núverandi græjur væru svo gamaldags að þær ættu best heima á Byggðasafni Þingeyinga og hló um leið og hann hristi höfuðið yfir þessum úrelta tækjabúnaði.

Guðmundur Vilhjálmsson er 53 ára gamall Langnesingur og er fæddur og uppalinn að Syðra-Lóni á Langanesi.  Guðmundur er Vélfræðingur að mennt, lauk námi frá Vélskóla Íslands 1994 og fékk meistararéttindi í Vélsmíði árið 2001.  Guðmundur hefur jafnframt tvær útskriftir úr Háskólanum í Reykjavík, bæði á vélasviði og rekstrarsviði auk byggingastjóraréttinda. Eiginkona Guðmundar er Jóhanna Sigríður Logadóttir og eiga þau hjónin tvo syni, þá Friðrik Aðalgeir 14 ára og Loga Vilhjálm 12 ára. Starfsferill Guðmundar hefur lengst af verið tengdur sjávarútvegi, meðal annars hjá Samherja hf, Hraðfrystistöð Þórshafnar, Ísfélagi Vestmannaeyja og síðustu átta ár Guðmundar HB Granda og var Guðmundur þar í átta ár vélstjóri á Lundey NS. Síðustu fjögur ár hefur Guðmundur rekið Garðvík ehf á Húsavík.

Í samtali við heimasíðuna sagðist Guðmundur virkilega ánægður með að takast á við ný verkefni. Einhverjir hefðu haft að orði, hvort það væri ekki óeðlilegt að hann tæki við stéttarfélagi verandi einn af stærstu og öflugustu atvinnurekendum á Norðurlandi. Hann sagðist telja að menn þyrftu ekki að óttast það eða hafa óþarfa áhyggjur, hagsmunir fyrirtækja og starfsmanna færu vel saman og best væri að hafa öll eggin í sömu körfu. Það væri ekki spurning í hans huga, það er að hafa jafnan hitta á öllum eggjunum. Þannig væri hægt að skapa aukin tækifæri fyrir alla og unga út kjarabótum á svæðinu. Menn gætu hins vegar velt fyrir sér hvort hænan eða eggið hafi komið á undan, það væri umhugsunarefni. Hann vildi einnig taka fram að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem framkvæmdastóri fyrirtækis væri jafnframt formaður í verkalýðsfélagi. Sá ágæti maður Kristján Ásgeirsson hefði á sínum tíma bæði verið formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur og Útgerðarfyrirtækisins Höfða. Á þeim tíma hefði það verið talið afar eðlilegt og rúmlega það. Það væri full ástæða til að endurvekja þessa góðu tíma. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til að þakka Aðalsteini Árna fyrir hans störf í þágu Framsýnar þar sem hann hefði ekki unnið neina sérstaka sigra heldur verið með allt niður um sig eins og formaður Verkalýðsfélagsins á Akranesi hefði haldið fram í Boðberanum, málgagni KÞ, á dögunum.

Ekki náðst í Aðalstein Árna við gerð þessarar fréttar til að bera undir hann þessi óvæntu tíðindi. Sagan segir að hann ætli að snúa sér alfarið að fjárrækt eða jafnvel svínarækt en Aðalsteinn er búfræðingur að mennt og heldur nokkrar kindur, dúfur, hænur og eina kanínu í Grobbholti.

Við loka frágang fréttarinnar, rétt í þessu,  náðist þessi óvænta mynd af fyrrverandi formanni Framsýnar en sauðburður hófst í Grobbholti í morgun. Foreldrar ásamt börnum eru velkomin í heimsókn í dag milli kl. 17:00 og 19:00 til að sjá nýfædd lömb og annan búfénað og villidýr. Hann sagði alla velkomna á þessum tímamótum, það væri nefnilega líf eftir Framsýn og vildi ekki ræða málið frekar enda sauðburður í fullum gangi og rúmlega það hjá þessum fjórum ám sem bera í Grobbholti þetta vorið.

Atvinnuleysisbætur og félagsaðild

Þeir félagsmenn stéttarfélaganna sem fara í skert starfshlutfall samkvæmt tímabundnu samkomulagi við viðkomandi atvinnurekendur vegna Covid 19 þurfa að hafa í huga, ætli þeir sér að viðhalda fullum réttindum í stéttarfélögunum verða þeir að taka fram þegar þeir sækja um atvinnuleysisbætur að þeir ætli að greiða félagsgjald af atvinnuleysisbótunum. Sama á við um þá sem fara í fæðingarorlof.

Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Framsýn stéttarfélag
Starfsmannafélag Húsavíkur
Þingiðn, félag iðnaðarmanna

Tillögur stjórnvalda – Nýtt starfshlutfall ber að virða

Að gefnu tilefni vilja stéttarfélögin árétta að atvinnurekendur, sem nýta sér úrræði stjórnvalda um að lækka stafshlutfall starfsmanna tímabundið vegna slæmrar stöðu sem tengist Covid-19,  er óheimild með öllu að krefjast vinnuframlags umfram hið nýja starfshlutfall nema greiða fyrir það sérstaklega. Umræða um þetta hefur verið að skjóta upp kollinum síðustu daga og hafa félagsmenn stéttarfélaganna komið sínum athugasemdum á framfæri við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Tilgangur þeirra lagabreytinga sem samþykktar voru nýlega var að auðvelda atvinnurekendum að halda starfsfólki og koma í veg fyrir fjölda uppsagnir. Þannig hafa atvinnurekendur nú möguleika á að lækka starfshlutafall starfsmanna niður í allt að 25% með samþykki starfsmanna. Á móti eiga starfsmenn rétt á atvinnuleysisbótum sem nemur skerðingunni enda sé bótaréttur til staðar hjá Vinnumálastofnun.

Rétt er að taka fram að það er óheimilt með öllu að fara fram á það við starfsmenn fyrirtækja að þeir skili hærra starfshlutfalli/vinnuframlagi en þeir eru ráðnir til samkvæmt heimild stjórnvalda um skert starfshlutfall vegna aðstæðna í þjóðfélaginu nema fyrirtækin greiði þeim laun fyrir þá vinnu. Á móti skerðast síðan atvinnuleysisbæturnar.

Að auki er starfsfólki skylt að leita sér að starfi á móti skertu starfshlutfalli hjá viðkomandi atvinnurekanda sé það í boði.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum skora á fyrirtæki og stofnanir að framfylgja alfarið lögum og reglum sem gilda um tímabundnar hlutabætur til fyrirtækja í vanda vegna Covid 19.

 

 

Verum bjartsýn og opnum hugann fyrir öllu því fegursta sem náttúran hefur að bjóða

Nú er blessuð sólin farin að hækka á lofti og gerir það að verkum að skammdegisdrunginn hopar og geislar sólarinnar finna sér leið inn í hrímguð sálartetur landans, eftir erfiðan vetur. Síðan í desemberbyrjun hefur Vetur konungur engan slaka gefið, en vonandi fara nú fréttir af fannfergi, ófærð og appelsínugulum viðvörunum að heyra sögunni til. Ef grannt er hlustað leynast nefnilega inn á milli hörmungafrétta heimsbyggðarinnar, nokkrar jákvæðar fréttir. Á dögunum var greint frá því að vorboðinn ljúfi, blessuð lóan væri komin og byrjuð að kveða burt snjóinn á Suðurlandinu og við vitum að þegar svo er komið byrja aðrir vorboðar að tínast til landsins einn af öðrum.  Fréttir af þessu tagi lyfta dagsins amstri einhvern vegin upp á hærra plan og vekja þá von í brjósti um að vorið sé kannski bara á næsta leiti.

Inn á milli stórhríðarkaflanna í vetur hafa laumað sér nokkrir góðviðrisdagar og þá kunna margir vel að meta, enda vel hægt að njóta fegurðar landsins þó það klæðist tímabundið hvítum hjúpi. Það gerir öllum gott að taka sér smá stund frá amstri hversdagsins, ná upp púlsinum með því að skreppa í  góðan göngutúr, eða leika við börnin úti í snjónum. Við skulum ekki gleyma að hreyfa okkur á þessum skrýtnu tímum sem við erum að upplifa, sem eru langt frá því að vera eins og við höfum óskað eftir.  Höfum í huga að reglubundin hreyfing er sterkasta meðalið sem við eigum við streitu og kvíða – og kostar ekkert. Drífum okkur út og njótum, verum bjartsýn og opnum hugann fyrir öllu því fegursta sem náttúran hefur að bjóða. (ÓH)

 

Flytja inn í nýtt hús á vordögum

Það telst til tíðinda þegar fólk ræðst í það stórvirki að byggja sér einbýlishús, en að sögn fróðra manna hefur slíkt ekki gerst í Fnjóskadal í tæpan áratug. Það eru  Benedikt Geir Ármannsson og María Fernanda Reyes sem byggja í landi Vatnsleysu, en húsið er einingahús sem keyptar eru frá fyrirtækinu Landshús ehf. Benedikt sem er uppalinn á Vatnsleysu hefur búið á Akureyri um nokkurt skeið, en er nýlega fluttur heim og tekinn við búi af foreldrum sínum. Benedikt rekur blikksmíðafyrirtæki á Akureyri samhliða búskapnum, en María, sem einnig er starfandi blikksmiður, mun flytja í dalinn fagra á vordögum. Það er alltaf ánægjulegt þegar dugmikið fólk flytur í sveitina, en fjölskyldan áætlar að flytja inn í nýja húsið á síðar á árinu. (ÓH)

Benedikt Geir Ármannsson veit ekki að því að henda upp einbýlishúsi í einum fallegasta dal landsins.

Verklegar framkvæmdir í gangi

Garðvík ehf. á Húsavík hefur undanfarið unnið að því að laga stétt við Hrunabúð sem er félag um rekstur á leiguhúsnæði á efri hæðinni að Garðarsbraut 26, það er fyrir ofan skrifstofur stéttarfélaganna. Að sjálfsögðu stóðu starfsmenn Garðvíkur sig afar vel og hafa nú að mestu lokið framkvæmdum við verkefnið. Stéttin við hurðina var hellulögð og hiti settur undir hana sem kemur sér vel enda oft snjóþungt hér norðan heiða.

Samningur 18 aðildarfélaga SGS við ríkið samþykktur

Niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning 18 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með miklum meirihluta. Eitt þeirra félaga sem aðild á að samningnum er Framsýn stéttarfélag.

Atkvæðagreiðslan stóð yfir á tímabilinu 19. til 26. mars. Í heildina var kjörsókn tæplega 20%. Já sögðu 88,65% en nei sögðu 9,19%. 2,16% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 947 manns.

Samningurinn, sem undirritaður var 6. mars síðastliðinn, er því samþykktur hjá eftirfarandi félögum: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífanda stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu (PDF)

 

  1. 27. MARS 2020Kjarasamningum og réttindum launafólks má ekki víkja til hli…
  2. 27. MARS 2020Samningur 18 aðildarfélaga SGS við ríkið samþykktur
  3. 23. MARS 2020Tímabundin lokun skrifstofu SGS
  4. 19. MARS 2020Atkvæðagreiðsla hafin um nýjan kjarasamning SGS og ríkisins

Hvernig er gengið frá samkomulagi milli fyrirtækja og starfsmanna um skert starfshlutfall?

Afar mikilvægt er að gengið sé rétt frá málum þegar fyrirtæki semur við starfsmenn um að taka á sig skert starfshlutfall. Hér má sjá samkomulag sem hægt er að styðjast við þegar gengið er frá samkomulagi um skert starfshlutfall. Þetta form er til á íslensku, ensku og pólsku.

Samkomulag
um tímabundna lækkun starfshlutfalls

Vegna tímabundins samdráttar í rekstri fyrirtækisins er samkomulag milli (heiti fyrirtækis og kennitala) og (nafn starfsmanns og kennitals) um tímabundna lækkun starfshlutfalls.

Starfshlutfall er nú ___% og verður ____%.

(Lýsa getur þurft hvað felst í lækkuðu starfshlutfalli, t.d. hvort lækkað starfshlutfall í vaktavinnu feli í sér færri eða styttri vaktir (eða bæði) eða hvaða áhrif það hefur á fasta kvöld- og helgarvinnu).

Lægra starfshlutfall / breyttur vinnutími gildir á tímabilinu frá ____________ til ___________ 2020.

Á tímabilinu verða laun lægri sem nemur lækkun starfshlutfalls (eða tilgreina nánar m.v. breyttan vinnutíma).

 

Forsendur:

Forsenda samkomulags þessa er að starfsmaður geti á tímabilinu sótt um og fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli sérstaks bráðabirgðaákvæðis laga um atvinnuleysistryggingar.

Bráðabirgðaákvæði um atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli gildir til 1. júní 2020.

Ef rekstrarforsendur breytast er fyrirtækinu heimilt án ástæðulausrar tafar að hækka starfshlutfall starfsmanns í allt að fyrra hlutfalli.

 

Staður og dagsetning

 

F.h. (heiti fyrirtækis)                                                                     (nafn starfsmanns – undirritun)

Þetta er málið – Kjarasamningum og réttindum launafólks má ekki víkja til hliðar

Til stéttarfélaga innan Starfsgreinasambandsins um land allt  berast nú mikið af fyrirspurnum og athugasemdum vegna uppsagna, fyrirvaralausra breytinga á vaktafyrirkomulagi og fjölmargra annara atriða sem snúa að vinnufyrirkomulagi og réttindum fólks samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.

Að gefnu tilefni ítrekar Formannafundur Starfsgreinasambandsins að allar breytingar á að vinna í fullu  samráði við starfsfólk og skorar á atvinnurekendur að nýta sér ekki núverandi aðstæðurnar til að fara á svig við gildandi kjarasamninga og brjóta á réttindum launafólks. Slíkt framferði er algerlega óásættanlegt og verður mætt af fullum þunga af hálfu félaga innan SGS Starfsgreinasambands Íslands.

 

 

Þjónusta í gegnum opnanlegt fag á glugga

Eins og fram hefur komið er Skrifstofa stéttarfélaganna lokuð fyrir heimsóknum. Félagsmönnum er velkomið að hafa samband við starfsfólk í gegnum síma og/eða með því að senda netpóst. Þrátt fyrir að skrifstofan sé formlega lokuð hafa félagsmenn komið við og bankað á glugga í leit að þjónustu. Á meðfylgjandi mynd má sjá Aðalstein J, sinna einum erlendum félagsmanni í gegnum glugga.  Að sjálfsögðu standa starfsmenn vaktina og vinna sín daglegu störf sem eru mjög krefjandi og eru vinnudagarnir langir um þessar mundir.

Verum á verði varðandi verðlagshækkanir

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir með Alþýðusambandinu sem beinir þeim tilmælum til fyrirtækja að sýna ábyrgð og halda aftur af verðhækkunum við þær aðstæður sem nú eru uppi og koma þannig í veg fyrir frekari verðbólgu og efnahagslega óvissu sem kemur illa niður bæði á heimilum og fyrirtækjum.

Nokkur umræða hefur verið um að verð á innfluttum vörum fari nú hækkandi vegna þeirrar gengislækkunar sem orðið hefur á síðustu mánuðum og hefur verðlagseftirliti ASÍ einnig borist nokkuð af ábendingum og áhyggjum neytenda þar um. Í því samhengi er nauðsynlegt að beina því til söluaðila að  gengislækkun ein og sér leiðir ekki sjálfkrafa til samsvarandi verðhækkana þar sem mun fleiri þættir hafa áhrif á verðlag innfluttra vara.

Í því sérstaka ástandi sem myndast hefur vegna Covid-19 veirunnar, hefur almenningur heldur ekki sömu tækifæri til að versla og gera verðsamanburð og hann hefur venjulega. Samkeppni á markaði minnkar þar sem verslun færist yfir á færri aðila og tækifæri neytenda til að veita aðhald minnkar. Í slíkri stöðu er auðveldara en ella fyrir fyrirtæki að hækka verð og okra á viðskiptavinum.

Fyrirtæki eru hvött til að nýta sér ekki ástandið með þessum hætti heldur laða frekar að sér ný viðskipti og styrkja þau viðskiptasambönd sem fyrir eru með því að sýna samfélagslega ábyrgð og  leita allra leiða til að halda verði í lágmarki.

Neytendur eru hvattir til að fylgjast vel með verðlagi, biðja um og passa upp á strimla og láta vita ef þeir verða varir við okur eða óeðlilega miklar verðhækkanir. Það má gera með því að deila inn á facebook hóp verðlagseftirlitsins; Vertu á verði – eftirlit með verðlagi en einnig má senda ábendingu til Samkeppniseftirlitsins í gegnum útfyllingarform á vefsíðu þeirra eða í gegnum netfangið samkeppni@samkeppni.is.

 

Landsmennt fræðslusjóður SA og verkafólks á landsbyggðinni býður einstaklingum og fyrirtækum að sækja námskeið þeim að kostnaðarlausu 

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Landsmenntar fræðslusjóðs ákveðið bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu. Einnig mun sjóðurinn rýmka úthlutunarreglur sjóðsins og stofna til átaks í stafrænni/rafrænni fræðslu innan atvinnulífsins í samstarfi við fræðsluaðila og fyrirtæki.

Einnig mun sjóðurinn rýmka úthlutunarreglur sjóðsins sem taka til námskeiða sem ekki eru rafræn eða í fjarkennslu.  Stofnað verður til átaks í stafrænni/rafrænni fræðslu innan atvinnulífsins í samstarfi við fræðsluaðila og fyrirtæki.

Átakið tekur gildi frá  15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Nánari útfærstla á átaksverkefninu:  Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þessir samningar gilda einnig tímabundið og gagnvart því námi/námskeiðum sem fræðsluaðilar bjóða upp á innan þessa tímaramma það er frá 15. mars til og með 1. ágúst 2020

Um leið og Landsmennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Gildistími verði frá 15. mars til og með 1. ágúst 2020.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 1. ágúst 2020.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars  til og með 1. ágúst 2020.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri Landsmenntar í síma 863 6480 eða á tölvupósti, kristin@landsmennt.is

 

Situation – Covid 19

During those uncertain times it is important that we are all informed about the situation in our society. We would like to encourage you to visit our website www.nordurthing.is for updates on the situation in our local community as well as www.covid.is for updates on official information on COVID-19 in Iceland. Both websites can be translated to English and Polish in the upper right corner. You can also find regular updates on our facebook page https://www.facebook.com/nordurthingmulticultural/. If you have any questions you can message us there,  email nordurthing@nordurthing.is or call 4646100.

 

 

Yfirlýsing frá ASÍ vegna áhrifa efnahagssamdráttar á heimilin

Heimsfaraldur vegna Covid-19 hefur nú áhrif á atvinnu og afkomu fjölmargra heimila. Alþýðusamband Íslands leggur ríka áherslu á að stjórnvöld, fjármálastofnanir og aðrir kröfuhafar komi til móts við fólk í þessum erfiðu aðstæðum. Öllu máli skiptir nú að tryggja afkomuöryggi heimila þannig að öllum sé kleift að setja eigin heilsu og annarra í forgang.

Liður í þessu er að opinberir aðilar, sveitarfélög, fjármálastofnanir, leigufélög, lífeyrissjóðir og aðrir kröfuhafar sýni sanngirni og sveigjanleika varðandi greiðslufresti á meðan mesta óvissan stendur yfir. Mikilvægt er að innheimtukostnaður og dráttarvextir verði ekki lagðir á vanskil og fólki gefist tækifæri til að dreifa greiðslum og lengja í lánum svo greiðslubyrði fari ekki úr hófi fram.

Bankar, fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir og leigufélög hafa þegar tilkynnt um úrræði fyrir heimili sem þurfa aukið svigrúm við þessar aðstæður. Alþýðusambandið beinir því til þessara aðila að þeir hafi ávallt að leiðarljósi að upplýsa einstaklinga með skýrum og greinagóðum hætti um áhrif þeirra úrræða sem í boði eru á greiðslubyrði til lengri og skemmri tíma og hvaða leiðir séu færar til að draga úr langtímaáhrifum á fjárhag heimilanna. Þá skuli öllum kostnaði sem innheimtur er vegna úræðanna haldið í lágmarki.

Alþýðusambandið telur með öllu óásættanlegt að kröfuhafar geti nýtt sér þá neyð sem blasir við mörgum heimilum við núverandi aðstæður. ASÍ mun á næstunni fylgjast náið með þeim greiðsluerfiðleikaúrræðum sem boðið verður upp á og þeim þjónustugjöldum sem innheimt verða vegna þeirra.

 

The union´s office is closed for visits

Because of the Covid 19 epidemic the unions in Þingeyjarsýsla have decided to limit it´s members access to the unions staff by shutting off all visits to the office indefinitely. This decision was made to ensure the welfare of the unions members.

The unions continue to provide it´s services the best way possible through the telephone and digitally.

If you need to turn in applications for sickness benefits, get counseling or other errands you can email us. Furthermore, a mailbox has been placed next to the enterance to the union´s office where members can return keys to the union´s flats as well as other data that members choose to turn in on paper rather than digitally, like applications for  grants or summer houses.

Aðalsteinn Árni Baldursson                         kuti@framsyn.is

Jónína Hermannsdóttir                                nina@framsyn.is

Linda M. Baldursdóttir                                  linda@framsyn.is

Aðalsteinn J. Halldórsson                             adalsteinn@framsyn.is

Haukur Sigurgeirsson                                    Bokhald@framsyn.is

Ágúst S. Óskarsson                                         virk@framsyn.is

We will also put news and other information on the union´s website, www.framsyn.is as well as Framsýn´s Facebook page. The office´s telephone number is 4646600.

We ask members for understanding of this impaired service.

The union´s staff

 

 

 

 

 

Skrifstofa stéttarfélaganna lokar fyrir heimsóknir

Vegna Covid-19 faraldursins hafa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum ákveðið að takmarka aðgengi  félagsmanna að starfsmönnum skrifstofunnar með því að loka fyrir heimsóknir á skrifstofuna um óákveðin tíma. Þetta er gert með velferð félagsmanna að leiðarljósi.

Stéttarfélögin munu halda úti þjónustu eins og kostur er í gegnum síma og með rafrænum hætti.

Ef þið þurfið að skila inn umsóknum vegna greiðslna úr sjúkrasjóði, fá ráðgjöf eða aðrar upplýsingar má senda okkur tölvupóst. Þá hefur einnig verið komið upp póstkassa við hurðina á Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem hægt er að skila inn lyklum af íbúðum og öðrum gögnum sem berast þurfa stéttarfélögunum s.s. umsóknum um styrki eða orlofshús velji menn að skila þeim í pappírsformi.

 Aðalsteinn Árni Baldursson                        kuti@framsyn.is  

Jónína Hermannsdóttir                                 nina@framsyn.is

Linda M. Baldursdóttir                                  linda@framsyn.is

Aðalsteinn J. Halldórsson                             adalsteinn@framsyn.is

Haukur Sigurgeirsson                                     Bokhald@framsyn.is

Ágúst S. Óskarsson                                          virk@framsyn.is

Við munum einnig setja inn fréttir og upplýsingar inn á heimasíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is eftir þörfum og á facebooksíðu félagsins. Símanúmerið er 4646600.

Beðist er velvirðingar á þessari skertu þjónustu við félagsmenn stéttarfélaganna.

Starfsfólk stéttarfélaganna

Ágætu ríkisstarfsmenn innan Framsýnar – munið að kjósa

Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn sem undirritaður var við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs 6. mars síðastliðinn er hafinn. Samningurinn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkinu. Afar mikilvægt er að félagsmenn taki þátt í atkvæðagreiðslunni. Það er gert með því að smella á hlekkinn í bleika borðanum hér að ofan. Til þess að geta greitt atkvæði verður svo að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Atkvæðagreiðslan klárast fimmtudaginn 26. mars næstkomandi klukkan 16:00. Hægt er að kjósa utankjörfundar á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Formaður Framsýnar gestur Rauða borðisins

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar var enn viðmælanda Gunnars Smára Egilssonar hjá Rauða borðinu. Rauða borðið er vefþáttur sem hýstur er á Facebook. Fleiri gestir voru í þættinum en auk Aðalsteins voru þar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins.

Fyrir notendur Facebook er hægt að horfa á þáttinn með því að smella hér.

Við minnum á facebook síðu Framsýnar

Við viljum minna lesendur á Facebook síðu Framsýnar. Þar er helstu fréttum og upplýsingum deilt reglulega. Nú þegar hafa tæplega 1.600 manns „líkað við‟ síðuna og fá þá allar helstu upplýsingar sjálfkrafa beint í æð. Við hvetjum lesendur sem ekki hafa líkað við síðuna að gera það og fá þannig enn betri aðgang að upplýsingum um starfsemi stéttarfélaganna sem á ekki síst við á þessum víðsjárverðum tímum.