Verndum verslunarfólkið okkar!

Verndum verslunarfólkið okkar! Svo skrifar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður Landssambands íslenzkra verzlunarmanna sem Framsýn stéttarfélag á aðild að.

Veiran illskæða geysar nú sem aldrei fyrr og hafa sóttvarnalæknir og yfirvöld boðað hertari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu. Tveggja metra reglan hefur tekið gildi á ný og viðskiptavinum verslana er skylt að bera grímur ef ekki er hægt að tryggja að minnsta kosti tveggja metra fjarlægðarmörk. Þó aðgerðirnar eigi aðeins við um höfuðborgarsvæðið eins og staðan er í dag þá væri það sterkur leikur hjá landsmönnum öllum að herða á eigin sóttvörnum. Sem formaður Framsýnar stéttarfélags tek ég heilshugar undir þessi ummæli formanns LÍV.

Ég vil því biðla til allra viðskiptavina verslana og annarra þjónustuaðila að gæta ýtrustu varkárni og fylgja í hvívetna þeim reglum sem hafa verið settar, bæði fyrir þeirra eigin hag og þeirra sem standa vaktina fyrir okkur hin í verslunum og þjónustu, enda verður illa komið fyrir okkar samfélagi ef við getum ekki verslað nauðsynjar. Þá er einnig mikilvægt að atvinnurekendur tryggi öryggi í starfsumhverfi verslunarfólks og fólks í þjónustu. Nú sem aldrei fyrr er brýnt að við verndum verslunarfólkið okkar. Sem betur fer höfum við Þingeyingar sloppið mjög vel fram að þessu og vonandi verður svo áfram. Forsendan fyrir því er að við förum gætilega í okkar daglegum störfum og umgengni við annað fólk. Ég vil nota tækifærið og þakka öllu því frábæra fólki sem stendur vaktina í verslun og þjónustu við viðskiptavini fyrir framlag þeirra í okkar þágu sem þurfum á þessari þjónustu að halda í okkar daglega lífi. Hafið kærar þakkir fyrir enda ekki sjálfgefið á þessum undarlegu tímum að menn séu klárir að standa vaktina og þjóna öðrum þegar nánast daglega er varað við útbreiðslu veikinnar. Takk fyrir okkur.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
Formaður Framsýnar stéttarfélags

 

Deila á