Jöfn skipting fæðingarorlofs mikilvægt jafnréttismál

Fæðingarorlofskerfið er hornsteinn jafnréttis, bæði á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Jöfn skipting fæðingarorlofsins milli foreldra er því mikilvægt skref í átt að jafnrétti, eins og segir í umsögn BSRB um fyrirhugaðar breytingar á lögum um fæðingarorlof. Þess má geta að Starfsmannafélag Húsavíkur á aðild að BSRB.

BSRB fagnar því að til standi að lengja orlofið í tólf mánuði og styður þá skiptingu sem lögð er til í frumvarpi stjórnvalda, það er að megin reglan verði sú að orlofið skiptist jafnt, en að einn mánuður verði framseljanlegur. Bandalagið telur það falla vel að markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof, en þau eru annars vegar að tryggja börnum samvist við báða foreldra sína og hins vegar að gera konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Með jafnri skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra mun fjarvera foreldra af vinnumarkaði verða jafn löng og áhrifin af því að fara tímabundið af vinnumarkaði verða þau sömu.

Í umsögn BSRB er því fagnað að ákveðnar heimildir séu til þess að veita öðru foreldrinu alla 12 mánuðina í fæðingarorlofi, svo sem ef barn er ekki feðrað eða ef annað foreldrið sætir nálgunarbanni eða brottvísun af heimili. Bandalagið telur rétt að bæta við matskenndri heimild til Fæðingarorlofssjóðs að færa réttindi milli foreldra, með það að markmiði að tryggja að barnið njóti umönnunar foreldris til jafns við önnur börn til 12 mánaða aldurs.

Hámarksgreiðslur fylgi launaþróun
Bandalagið varar við því að stytta það tímabil sem foreldrar hafa til töku fæðingarorlofs úr 24 mánuðum í 18. Ekki er hægt að tryggja að börn komist inn á leikskóla við 18 mánaða aldur í öllum sveitarfélögum og varhugavert að stytta tímabilið áður en bilið milli 12 mánaða fæðingarorlofs og leikskóla verður brúað.

Engar breytingar verða gerðar á greiðslum til foreldra í fæðingarorlofi samkvæmt frumvarpinu. BSRB gerir ekki athugasemd við hámarksgreiðslurnar eins og þær eru í dag en telur eðlilegt að þær fylgi almennri launaþróun í landinu. Þá ítrekar bandalagið í umsögn sinni þá kröfu að greiðslur sem samsvara lágmarkslaunum verði óskertar, en nú miðast allar greiðslur við 80 prósent af fyrri launum.

BSRB kallar eftir því að hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækki í takti við launaþróun í landinu.

 

 

Deila á