Vinnumálastofnun efli þjónustu í Þingeyjarsýslum

Framsýn telur afar mikilvægt að Vinnumálastofnun efli þjónustu sína í Þingeyjarsýslum. Með bréfi kallar Framsýn eftir aukinni þjónustu stofnunarinnar á svæðinu er varðar almenna þjónustu við atvinnuleitendur, vinnumiðlun og vinnustaðaeftirlit. Bréfið er meðfylgjandi:

Vinnumálastofnun
Unnur Sverrisdóttir
Kringlunni 1
103 Reykjavík

 Húsavík 5. september 2020

 Varðar starfsemi Vinnumálastofnunnar

Þann 1. desember 2014 tók Vinnumálastofnun ákvörðun um að loka skrifstofu stofnunnarinnar á Húsavík í sparnaðarskyni og þar sem atvinnuleysi hafði dregist saman í Þingeyjarsýslum. Þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar var mótmælt af sveitarfélögum og stéttarfélögum í héraðinu, en stofnunin sá ekki ástæðu til að endurskoða ákvörðun sína.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum stórlega aukist og því miður virðist ekki bjart yfir komandi mánuðum, svo vitnað sé í fjölda uppsagna á svæðinu og skýrslur Vinnumálastofnunar, sem enn gera ráð fyrir vaxandi atvinnuleysi.

Segja má að síðustu ár hafi hlutverk Vinnumálastofnunnar í Þingeyjarsýslum færst að hluta inn á borð starfsmanna Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík, sem daglega veita upplýsingar um stöðu og réttindi fólks sem misst hefur  atvinnu sína. Upplýsingar og þjónustu sem þeir eiga að hafa greiðan aðgang að hjá Vinnumálastofnun. Er þar einkum um að ræða erlenda starfsmenn, sem vita takmarkað um réttindi sín til atvinnuleysisbóta og þjónustu Vinnumálastofnunar s.s.  starfsmenn PCC og ferðaþjónustufyrirtækja. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa einnig leitað töluvert til  stéttarfélaganna eftir upplýsingum er tengist uppsögnum, hlutabótum og atvinnuleysisbótum starfsmanna á tímum Covid-19.

Framsýn stéttarfélag bendir á að stjórnvöldum ber skylda til þess á hverjum tíma að tryggja Vinnumálastofnun nægjanlegt  fjármagn svo hún geti staðið undir sínum skyldum. Telur félagið löngu tímabært  að efla starfsemi stofnunarinnar á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Verulega hafi skort á að svo hafi verið, sérstaklega er varðar vinnumiðlun, almenna þjónustu og vinnustaðaeftirlit á svæðinu. Ekki er kveðið fast að orði þó sagt sé að ástand þessara mála sé orðið algjörlega óviðunandi.

Það sem af er ári hefur atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum stóraukist. Til að bregðast við þeirri stöðu setti Framsýn á laggirnar vinnumiðlun á félagssvæðinu, með það markmið að reyna  að miðla atvinnuleitendum í aðra vinnu. Sem betur fer hefur framtakið skilað þó nokkrum árangri en vissulega eru það vonbrigði að ekki hafi tekist betur til. Allt  of margir hafa hafnað vinnu sem þeim hefur staðið til boða. Þörf er á aðhaldi frá Vinnumálastofnun, því að sjálfsögðu á engum að líðast að vera á atvinnuleysisbótum standi þeim vinna til boða sem samræmist getu, menntun og fyrri reynslu viðkomandi.  Þá er mikilvægt að Vinnumálastofnun taki upp virkt samstarf við Þekkingarnet Þingeyinga um námskeiðahald fyrir þá sem þegar eru komnir inn á atvinnuleysisbætur og/eða eiga því miður eftir að bætast í þann hóp á komandi mánuðum. Virk fræðsla er mjög mikilvæg á tímum sem þessum.

Þá hefur lítið sem ekkert verið um vinnustaðaeftirlit í Þingeyjarsýslum á vegum Vinnumálastofnunar. Enn og aftur hefur það aðallega verið í höndum Framsýnar, sem réði á sínum tíma sérstakan mann í vinnustaðaeftirlit. Eftirlitið hefur skilað góðum árangri en skort hefur á að opinberir aðilar taki þátt í því með stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum.

Með bréfi þessu kallar Framsýn eftir viðræðum við Vinnumálastofnun um að stofnunin auki þjónustu við atvinnuleitendur í  Þingeyjarsýslum og aðra þá sem sækja þurfa þjónustu sem fellur almennt undir starfsemi stofnunarinnar. Til greina kemur að Framsýn komi til móts við Vinnumálastofnun með því að leggja til aðstöðu undir starfsemina á Húsavík til reynslu. Í það minnsta færi félagið með opnum huga í slíkar viðræður við Vinnumálastofnun.

Frekari upplýsingar gefur undirritaður.

Virðingarfyllst
Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

Afrit:
Ásmundur Einar Daðason,
Félags- og barnamálaráðherra 

Soffía Gísladóttir,
Forstöðumaður VMST á Norðurlandi eystra

 

 

 

 

 

 

 

 

Vilt þú hafa áhrif á málefni ungs fólks?

Innan Framsýnar er starfandi kraftmikið ungliðaráð á aldrinum 16-35 ára sem skipað er til eins árs í senn. Skipunin fer fram á fundi Framsýnar í október á hverju ári. Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Ungliðaráðið starfar á vettvangi Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG og starfar náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags. Þá skal ungliðaráðið vera tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ á hverjum tíma. Frá fyrstu tíð hefur starfsemi Framsýnar-ung verið mjög kraftmikið og skemmtilegt. Við viljum skora á ungt og áhugasamt fólk að gefa kost á sér í stjórn en kjörtímabilið er eitt ár, það er frá október á hverju ári. Stjórn Framsýnar- ung á hverjum tíma gefst tækifæri á að sitja alla stjórnar- og trúnaðarráðsfundi Framsýnar. Hafir þú áhuga fyrir því að taka þátt í öflugu starfi er þér bent á að senda netpóst á netfagnið kuti@framsyn.is. Koma svo!

Það er ekkert smá frjósemi í gangi hjá stjórn Framsýnar-ung. Hér má sjá þrjár af fjórum stjórnarkonum í Framsýn-ung. Þetta eru þær Elva, Guðmunda Steina og Sunna. Á myndina vantar Heiðu Elínu sem komst ekki á aðalfund Framsýnar en myndin var tekin á aðalfundinum.

Forsætisráðherra heilsaði upp á formann Framsýnar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heilsaði upp á formann Framsýnar á leið hennar um Húsavík.  Tekin var umræða um stöðuna í þjóðfélaginu og málefni verkalýðshreyfingarinnar. Formaður Framsýnar kom ýmsu á framfæri við ráðherrann sem hann taldi að betur mæti fara í þjóðfélaginu, ekki síst varðandi þá sem búa við lökust kjörin í landinu.

Yfir tuttugu mál á dagskrá stjórnarfundar Framsýnar

Stjórn Framsýnar kemur saman til fyrsta fundar eftir aðalfund félagsins næstkomandi mánudag, 14. september kl. 17:00 í fundarsal félagsins.  Að venju er stjórn Framsýnar-ung boðið að sitja fundinn.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Heimsókn forsætisráðherra
  4. Málefni: Framsýn-ung
  5. Starfsmannamál
  6. Trúnaðarmannanámskeið
  7. Þing ASÍ
  8. Formannafundur SGS
  9. Jólafundur stjórnar- og trúnaðarráðs
  10. Afmælisboð formanns
  11. Málefni Vinnumálastofnunnar
  12. Heimsókn ríkissáttasemjara
  13. Heimskautagerðið Raufarhöfn
  14. Verðkönnun ASÍ
  15. Samningaviðræður við PCC
  16. Málefni starfsmenntasjóðs Framsýnar
  17. Nýr trúnaðarmaður hjá Íslandsbleikju
  18. Þing Sjómannasambands Íslands
  19. Málefni Hrunabúðar
  20. Íslandsbanki- fjármál Framsýnar
  21. ASÍ – Móttaka ársreikninga
  22. Atvinnumál – þróun atvinnuleysis
  23. Önnur mál

Þetta er allt að koma – Flugfélagið Ernir fjölgar flugferðum til Húsavíkur

Flugfélagið Ernir hafa ákveðið að fjölga aftur ferðum til Húsavíkur, það er að bæta við flugum á þriðjudögum og fimmtudögum í tvær ferðir á dag. Þetta eru að sjálfsögðu mjög jákvæðar fréttir. Hér er linkur á nýja áætlun sem tók gildi í dag https://www.ernir.is/afangastadir/husavik. Áfram verður svo flogið einu sinni á dag;  Mánudag-Föstudag-Sunnudag.

Fréttir af aðalfundi – Framsýn, stéttarfélag eitt öflugasta stéttarfélag landsins

Framsýn stéttarfélag stendur mjög sterkt um þessar mundir og hefur reyndar gert til fjölda ára. Styrkur félagsins kemur auk þess ekki síst fram í góðri þjónustu við félagsmenn, góðu aðgengi að sjóðum félagsins, öflugum starfsmenntastyrkjum og öðru því sem er í boði á vegum félagsins eins og orlofshúsum, orlofsíbúðum, hótelum og mjög ódýru flugi um Húsavíkurflugvöll. Aðkoma félagsmanna að þessari þjónustu og styrkjum færir félagsmönnum á hverju ári milljóna tugi. Það er góð kjarabót að vera félagsmaður í stéttarfélagi.

Í starfi stéttarfélaga er mikilvægt að sinna góðu upplýsingastreymi til félagsmanna. Framsýn verður ekki sakað um að gera það ekki. Félagið heldur úti heimasíðu og gefur reglulega út Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna um réttindi þeirra og fréttir af starfseminni sem sjaldan eða aldrei hefur verið eins öflug og um þessar mundir.

Hvernig byggja menn upp öflugt stéttarfélag til að ná fram þessum markmiðum? Það gera menn með virkum félagsmönnum, hæfu starfsfólki og öflugri stjórn, trúnaðarráði, trúnaðarmönnum á vinnustöðum og ungliðastarfi í gegnum Framsýn-ung. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf félagsins á hverjum tíma og gefa allt í starfið. Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring. Þegar þessir þættir spila saman eins og góð hljómsveit verður til öflugt stéttarfélag félagsmönnum og samfélaginu til hagsbóta.

Höfum í huga að það er ekki sjálfgefið að eiga aðild að öflugu stéttarfélagi, einu af öflugustu stéttarfélögunum innan Starfsgreinasambands Íslands svo vitnað sé í kannanir sem gerðar hafa verið um viðhorf fólks til stéttarfélaga. Þetta staðfestir einnig netkönnun sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði fyrir Framsýn árið 2019. Niðurstaðan er frábær fyrir félagið. Til hamingju félagar og ágætu starfsmenn stéttarfélaganna, hafið kærar þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf í þágu félagsmanna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ríkið bótaskylt vegna lausnarlauna

Viðskiptablaðið fjallar um áhugaverða niðurstöðu er varðar svokölluð lausnarlaun sem hafa verið túlkuð svo af hinu opinbera að fólk afsali sér rétti til starfs til frambúðar.

Íslenska ríkið og eitt sveitarfélaga landsins þurftu að þola viðurkenningu á óskiptri skaðabótaskyldu sökum þess að hafa hafnað því að ráða einstakling sem kennara við grunnskóla í sveitarfélaginu haustið 2017. Dóminum var ekki áfrýjað og segir lögmaður kennarans að dómurinn geti haft talsverð áhrif til bóta á réttarstöðu launþega, sér í lagi hjá hinu opinbera.

Umræddur kennari hefur áratugareynslu af kennslu í grunnskóla. Á vormánuðum ársins 2015 kom í ljós að hann var með kransæðasjúkdóm sem þarfnaðist meðhöndlunar og var hann óvinnufær sökum þess um nokkurra mánaða skeið. Þá um haustið gekkst hann undir aðgerð vegna þess.

Á þeim tíma átti kennarinn 360 daga veikindarétt samkvæmt kjarasamningi sínum en hann átti að renna sitt skeið um miðjan janúar 2016. Skömmu áður en hann rann sitt skeið var undirritaður samningur um að honum skyldu greidd lausnarlaun en sá var gerður á þeim grunni að maðurinn ætti ekki afturkvæmt til starfa sinna. Hljóðaði samningurinn upp á greiðslu fullra mánaðarlauna í þrjá mánuði eftir að látið er af störfum.

Í ágúst 2017 sótti kennarinn um starf hjá öðrum skóla í sama sveitarfélagi en þá hafði hann náð kröftum sínum á nýjan leik. Svar skólastjóra þess skóla var á þá leið að nítján mánuðum fyrr hefði kennarinn undirritað samkomulag um greiðslu lausnarlauna á þeim grunni að hann væri varanlega ófær um að sinna starfi sínu vegna vanheilsu. Af þeim sökum kæmi umsókn hans ekki til álita við ráðningu í starfið þrátt fyrir að kennarinn hefði verið eini umsækjandinn sem hefði leyfisbréf til starfans. Þess í stað var sótt um undanþágu til ráðherra til þess að ráða leyfislausan starfsmann tímabundið við skólann.

„Það hefur tíðkast, að minnsta kosti hjá kennurum, að litið sé svo á að langveikir einstaklingar megi ekki snúa aftur til starfa, nái þeir bata, hafi þeir tekið við lausnarlaunum vegna varanlegrar óvinnufærni. Lausnarlaunaþegum var þó almennt ekki tilkynnt um þennan galla á gjöf Njarðar, það er að með móttöku lausnarlaunanna fyrirgerði viðkomandi rétti sínum til að starfa í faginu til frambúðar,“ segir Ingvar Smári Birgisson, lögmaður mannsins, við Viðskiptablaðið.

Því vildi kennarinn ekki una heldur sinna starfi sínu á nýjan leik. Ótækt væri að skólar gætu túlkað slíkt tvíhliða samkomulag með slíkum hætti. Það gæti ekki staðist skoðun að um óafturkræfa yfirlýsingu, um óvinnufærni allt þar til yfir lýkur, væri að ræða.

Sveitarfélagið taldi á móti að ekki hefði verið brotið gegn rétti kennarans þar sem fyrir hefði legið yfirlýsing trúnaðarlæknis skólans þess efnis að hann væri óvinnufær ævina á enda. Ríkið krafðist síðan sýknu á þeim grunni að það gæti ekki borið ábyrgð á einstökum aðgerðum sveitarfélaga. Á þau rök féllst héraðsdómur ekki og taldi hvorki lög né kjarasamninga geyma heimild til að sniðganga kennarann með þessum hætti.

Að sögn Ingvars áfrýjuðu hvorki ríki né sveitarfélag niðurstöðu héraðsdóms og því stendur hann óhaggaður. Spurður að því hvort dómurinn geti haft áhrif út fyrir þetta tiltekna mál segir lögmaðurinn að svo kunni að vera. „Í dóminum er staðfest að skerðing á atvinnufrelsi í kjarasamningum er háð sömu skýrleikakröfum og sambærilegar skerðingar í lögum. Þannig er ljóst að atvinnufrelsi einstaklinga verður ekki skert með ótvíræðu orðalagi í kjarasamningum, enda um grundvallarréttindi einstaklinga að ræða,“ segir Ingvar Smári. „Fordæmisgildi dómsins kann að vera umtalsvert, sérstaklega fyrir launþega hjá hinu opinbera.“

Sannað þótti að maðurinn hefði orðið fyrir fjártjóni vegna þessa og skaðabótaskylda ríkisins og sveitarfélagsins því viðurkennd. Gjafsóknarkostnaður mannsins, 1,8 milljónir króna án virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

Frétt: Viðskiptablaðið 3. september 2020

Til fróðleiks má geta þess að Framsýn stéttarfélag aðstoðar reglulega félagsmenn sem átt hafa í langvarandi veikindum og starfað hafa hjá ríkinu eða sveitarfélögum að ná fram kjarasamningsbundum rétti til lausnarlauna. Ekki síst í ljósi þess er dómurinn mjög áhugaverður.

 

Fréttir af aðalfundi – Góður rekstur skilar sér beint til félagsmanna

Í gegnum tíðina hefur verið mikið aðhald í rekstri Framsýnar. Aðhaldið hefur ekki síst skilað sér í því að félagsmenn Framsýnar búa við góða þjónustu og gott aðgengi að sjóðum félagsins, það er sjúkrasjóði, orlofssjóði, vinnudeilusjóði og starfsmenntasjóðum á vegum félagsins. Fjárhagsleg afkoma félagsins á árinu 2019 var með ágætum þrátt fyrir verulegar hækkanir úr sjúkrasjóði til félagsmanna milli ára.

Rekstrarafgangur var á öllum sjóðum félagsins nema Fræðslusjóði. Þess ber að geta að Fræðslusjóður Framsýnar hefur ekki fastar tekjur en veitir félagsmönnum viðbótarstyrki til starfsmenntunar þegar rétti þeirra er lokið úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum s.s. Landsmennt, Ríkismennt, Sveitament, Sjómennt og Fræðslusjóði verslunarmanna. Félagsgjöld og iðgjöld lækkuðu um 0,13% milli rekstrarára.

Rekstrartekjur félagsins námu kr. 278.337.904,- sem er aukning um 1,76% milli ára. Rekstrargjöld námu 214.865.064,- sem er hækkun um 18% milli ára. Þessi hækkun er einkum tilkomin vegna hækkunar styrkja úr sjúkrasjóði. Fjármagnstekjur námu kr. 58.321.709,-.  Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 233.054.138,- á móti kr. 233.346.473,- á árinu 2018. Í árslok 2019 var tekjuafgangur félagsins kr. 114.939.909,-. Heildareignir félagsins námu kr. 2.146.256.344,- í árslok 2019. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam  kr. 60.524.956,-. Önnur aðildarfélög greiddu kr. 6.170.050,-  til rekstursins. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.

Vilt þú eiga notalega stund í Dranghólaskógi

Framsýn stéttarfélag á orlofshús í Dranghólaskógi sem er við Lund í Öxarfirði. Húsið er afar vinsælt enda á mjög fallegum stað í skóginum. Orlofshúsið var í fullri leigu í sumar. Áhugasamir félagsmenn geta fengið það leigt í september og jafnvel í október líka enda verði tíðafarið í lagi, það er einstaka daga, viku- eða helgarleigu. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Góður andi í viðræðum PCC og Framsýnar

Fulltrúar frá PCC á Bakka og fulltrúar Framsýnar komu saman til fundar í gær til að ræða framvindu sérmála í gildandi sérkjarasamningi aðila. Ákveðið hefur verið að fara í vinnutímastyttingar um næstu mánaðamót sem gefur starfsmönnum aukafrí án launaskerðingar í  6 daga, eða 48 stundir á ári. Næstu vikurnar verða notaðar til að þróa vinnutímabreytingarnar svo þær verði klárar um næstu mánaðamót. Þá verður ráðist í að þróa bónuskerfi innan fyrirtækisins sem ætlað er að færa fyrirtækinu  og starfsmönnum ábata með betri vöru og skilvirkari störfum. Samhliða þróun á bónuskerfi verður unnið að því að þróa hæfnirama/álag sem ætlað er að gefa starfsmönnum allt að 5% launahækkun til viðbótar umsömdum launahækkunum á hverjum tíma. Markmið kerfisins er að hvetja starfsfólk og stjórnendur til að setja þjálfun og starfsþróun í öndvegi og vinna gegn stöðnun og einhæfni. Til viðbótar er áhugi fyrir því að þróa námskeiðahald sem gagnist starfsmönnum við dagleg störf í verksmiðjunni. Á fundinum gær urðu einnig umræður um hvernig staðið verður að nýráðningum/endurráðningum þegar verksmiðjan fer aftur á stað. Samningsaðilar reikna með að funda nokkuð stíft á næstu vikum og mánuðum um sérmál starfsmanna.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var um 80 starfsmönnum sagt upp í sumar. Uppsagnirnar koma að fullu til framkvæmda í lok september. Þegar uppsagnirnar verða gegnar yfir má reikna með að um 50 starfsmenn verði við störf hjá fyrirtækinu. Fullur vilji er til þess hjá stjórnendum fyrirtækisins að hefja starfsemi á ný þegar markaðsaðstæður lagast og áhrifa Covid hætta að gæta.

Baldvin leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna

Baldvin Valdemarsson var nýlega ráðinn sviðsstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá SSNE með aðsetur á Húsavík. SSNE, stendur fyrir landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Innan samtakanna eru 12 sveitarfélög með liðlega 30.000 íbúa. Baldvin heilsaði upp á formann Framsýnar í gær og tók stöðuna með honum á atvinnuástandinu, atvinnumálum og málefnum SSNE.

Baldvin starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar þar sem hann gengdi fjölbreyttum verkefnum, s.s. verkefnum tengdum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, rekstrarráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri auk virkrar þátttöku í vinnu við innviðagreiningu fyrir Norðurland eystra. Þar á undan gengdi hann fjölbreyttum stjórnendastörfum, m.a. sem framkvæmdastjóri Slippsins og við eigin atvinnurekstur. Baldvin hefur því yfirgripsmiklar þekkingu og reynslu úr atvinnulífinu, reynslu á sviði rekstrar og stjórnunar, af atvinnuþróun og nýsköpun. Auk þess hefur hann langa reynslu af þátttöku í samfélags- og sveitarstjórnarmálum. Baldvin er með Cand.Oecon gráðu frá Háskóla Íslands. Framsýn býður hann velkominn til starfa á Húsavík.

 

 

 

Fréttir af aðalfundi- rekstur Hrunabúðar sf. gengur vel

Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru öll leigurými í notkun. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26.

Fréttir af aðalfundi- félagsmenn fengu 18 milljónir í námsstyrki

Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2019 fengu 344 félagsmenn greiddar kr. 18.024.508,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða.

Námsstyrkir árið 2019 skiptast þannig milli sjóða:

227 félagsmenn fengu greidda styrki úr Landsmennt                                                               kr. 11.495.084,-.

12 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sjómennt                                                           kr.   1.037.925,-.

12 félagsmenn fengu greidda styrki úr Ríkismennt                                                           kr.      594.862,-.

33 félagsmenn fengu greidda styrki úr Fræðslusjóði verslunar og skrifstofufólks                kr.  2.027.445,-.

60 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sveitamennt                                                         kr.  2.869.192,-.

Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.

Þá má geta þess að félagið leggur mikið upp úr heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn, það er í vinnuskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á félagssvæðinu.

Þó nokkuð er um að fyrirtæki og stofnanir leiti til Framsýnar eftir fræðslu fyrir starfsmenn sem tengist réttindum og skyldum þeirra á vinnumarkaði sem er afar ánægjulegt.  Þá eru starfsmenn stéttarfélaganna reglulega beðnir um að kenna á námskeiðum er tengjast vinnurétti.

 

Fréttir af aðalfundi – Félagsmenn fengu greiddar 77 milljónir í sjúkrastyrki

Á árinu 2019 voru 1.427 styrkir greiddir úr sjúkrasjóði félagsins en voru 1.246 árið 2018.  Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 77.257.643,-. Sama upphæð fyrir árið á undan var kr. 50.973.935,-. Samkvæmt þessari niðurstöðu er veruleg hækkun á greiðslum úr sjúkrasjóði milli ára eða sem nemur um 52%. Mestu munar um hækkun á sjúkradagpeningum milli ára til félagsmanna en þær nær tvöfölduðust, fóru úr tæpum 25 milljónum í tæpar 47 milljónir.

 

Aukin frjósemi meðal Þingeyinga?

Eitt af markmiðum Framsýnar er að fjölga Þingeyingum. Liður í því er að veita félagsmönnum fæðingarstyrk. Séu báðir foreldrar í félaginu sem fullgildir félagar eiga þeir rétt á 300.000 króna fæðingarstyrk og helming af upphæðinni sé annað foreldrið í félaginu. Í hverjum mánuði eru einn til þrír félagsmenn sem sækja um þennan sérstaka styrk sem er í boði hjá Framsýn. Þegar styrkjum fyrir ágúst var úthlutað á föstudaginn voru afgreiddir átta fæðingarstyrkir til félagsmanna sem er afar jákvætt og staðfestir að markmið Framsýnar að fjölga Þingeyingum gengur vel þar sem fæðingum fer fjölgandi sé tekið mið af umsóknum um fæðingarstyrki hjá félaginu. Koma svo!

Góður gestur á fundi stjórnar Sjúkrasjóðs Framsýnar

Á föstudaginn kom stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar saman til fyrsta fundar eftir aðalfund félagsins. Stjórnina skipa Dómhildur Antonsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Aðalsteinn Árni Baldursson en formaður félagsins á hverjum tíma er sjálfkjörinn í stjórn sjúkrasjóðsins. Ingibjörg hefur ekki áður komið að störfum fyrir Framsýn en hún starfaði áður hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Í  dag er hún starfsmaður Þekkingarnets Þingeyinga, hún er boðin velkomin í stjórn sjúkrasjóðsins. Með þeim á myndinni er Jónína Hermannsdóttir starfsmaður stéttarfélaganna og Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sem kom í opinbera heimsókn til Framsýnar á föstudaginn til að kynna sér starfsemina. Til fróðleiks má geta þess að Jónína og Aðalsteinn Leifsson eru þremenningar. Stjórn sjúkrasjóðsins kemur saman mánaðarlega til að úthluta sjúkradagpeningum og öðrum styrkjum til félagsmanna. Á síðasta ári úthlutaði stjórnin 77 milljónum til félagsmanna.

Ingibjörg var að taka þátt í sínum fyrsta fundi í stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar. Aðalsteinn og Dómhildur hafa setið í stjórn ásamt Einari Friðbergssyni sem gaf ekki kost á sér áfram þar sem hann hefur hætt störfum á vinnumarkaði.

Skrifað undir í dag

Framsýn og Fjallalamb hf. gengu í dag frá nýjum sérkjarasamningi fyrir starfsfólk við sauðfjárslátrun í haust. Samningurinn byggir á gildandi kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að. Til stendur að slátra um þrjátíu þúsund fjár hjá Fjallalambi í haust. Sláturtíðin hefst 15. september og er ætlað að standa yfir í um sex vikur. Í heildina koma um sjötíu starfsmenn að slátruninni. Búið er að fullmanna sláturhúsið.

Þrátt fyrir mikið atvinnuleysi á Íslandi tókst ekki að manna sláturhúsið nema með því að flytja inn um tuttugu starfsmenn. Fram að þessu hefur þurft að ráða um 40 erlenda starfsmenn til starfa hjá Fjallalambi en í ár verða þeir helmingi færri þar sem um 20 starfsmenn á íslenskum vinnumarki réðu sig til starfa á Kópaskeri í haust sem er að sjálfsögðu jákvætt.

Nýr sérkjarasamningur var undirritaður á Kópaskeri í dag sem gildir fyrir starfsfólk við sauðfjárslátrun hjá Fjallalambi í haust.

 

Hjálparsíminn 1717 fyrir pólskumælandi

Næstkomandi fimmtudag, 3. september verður opnuð þjónusta fyrir pólskumælandi einstaklinga á Hjálpasíma Rauða krossins 1717 og netspjallinu www.1717.is

Þjónustan verður opin á fimmtudögum frá kl. 20-23 framvegis.

Hópur pólskumælandi sjálfboðaliða hefur gengið til liðs við verkefnið og hlotið alla viðeigandi þjálfun til að sinna svörun. Úrræðið verður auglýst á ýmsum miðlum. Markmið okkar er að ná til pólskumælandi einstaklinga sem búa hér á landi en einnig teljum við mikilvægt að koma þessum skilaboðum til allra er málið gæti varðað. Við teljum verkefnið þarft með tilliti til þess hve stór hópur pólskumælandi einstaklinga býr á Íslandi og með stuðningi frá félagsmálaráðuneytinu erum við í stakk búin til að sinna þessum stóra hópi fólks sem telur nú yfir 20 þúsund einstaklinga.

Ef þú vilt birta upplýsingar úr þessum pósti á þínum miðli og koma úrræðinu þannig á framfæri er það velkomið. Í viðhengi má finna “logo” verkefnisins á pólsku og á heimasíðunni má finna ítarlegri upplýsingar og myndir.

Skipt um þak

Atvinnuástand hjá iðnaðarmönnum í Þingeyjarsýslum hefur almennt verið mjög gott, sérstaklega í byggingariðnaði. Töluvert hefur verið um húsbyggingar og viðhald á eldra húsnæði. Þessir tveir heiðursmenn sem báðir starfa hjá Trésmiðjunni Rein, Sigmar Stefánsson og  Artur Ostaszewski, voru að skipta um þak á húsi við Álfhólinn á Húsavík þegar starfsmaður stéttarfélaganna átti þar leið hjá í góða veðrinu sem verið hefur hér Norðanlands undanfarnar vikur.

Það er eins gott að veðrið sé gott þegar skipt er um þak á húsi sem þessu.

Ríkissáttasemjari í heimsókn á Húsavík

Sá ágæti maður, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, kom í opinbera heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna á föstudaginn. Tilefni heimsóknarinnar var að fræðast um starfsemi aðildarfélaga skrifstofunnar, Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur. Auk þess tók hann fund með forstjóra PCC á Húsavík, Rúnari Sigurpálssyni.  Að sjálfsögðu var Aðalsteini vel tekið og ekki var annað að heyra en að hann hefði verið ánægður með heimsóknina.

Þess má geta að Aðalsteinn Leifsson tók við embætti ríkissáttasemjara 1. apríl 2020. Skipun Aðalsteins í embættið er til fimm ára.

Aðalsteinn lauk MBA námi frá Edinburgh Business School / Herriot Watt University í október 2004. Auk þess hefur hann lokið MSc námi frá London School of Economics (LSE). Þá stundaði hann doktorsnám í samningatækni hjá Grenoble École de Management samhliða vinnu á árunum 2016-2018.

Frá því í janúar 2014 hefur Aðalsteinn starfað sem framkvæmdastjóri hjá EFTA, sem hefur starfstöðvar í Genf, Brussel og Luxemburg. Samhliða störfum sínum hjá EFTA hefur Aðalsteinn verið lektor í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann hefur meðal annars kennt samningatækni og lausn deilumála í MBA-námi.

Aðalsteinn hefur verið aðstoðarsáttasemjari hjá embætti ríkissáttasemjara frá því í byrjun árs 2019 en þá tók hann þátt í sáttamiðlun vegna kjarasamningagerðar á almennum vinnumarkaði. Hann hefur veitt embættinu liðsinni og verið til ráðgjafar auk þess að sitja fundi með samningsaðilum.

Aðalsteinn hefur því víðtæka þekkingu á samningamálum og er höfundur bókar um samningatækni. Auk fræðilegrar þekkingar hefur hann reynslu af þátttöku í samningaviðræðum, kennslu í samningatækni, ráðgjöf við samningsaðila og aðstoð við deiluaðila við að bæta samskipti.

Eins og meðfylgjandi mynd ber með sér áttu nafnarnir góðar samræður en þess má geta til fróðleiks að Aðalsteinn Leifsson er ættaður frá Bakka við Húsavík.