STH -Bæjarstarfsmenn undirrita kjarasamning

Samninganefnd BSRB gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fyrir hönd 14 aðildarfélaga BSRB, skrifaði rétt eftir miðnætti í gær undir nýjan kjarasamning við samninganefnd Sambandsins með fyrirvara um samþykki félagsmanna. Samningurinn nær til 7000 félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögunum og gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023. Boðuðum verkföllum sem áttu að hefjast á miðnætti hefur fyrir vikið verið aflýst.

Meðal helstu atriða kjarasamningsins eru sem nær til félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur:

  • Stytting vinnuvikunnar sem hefur um árabil verið eitt af helstu baráttumálum BSRB
  • Laun hækka í samræmi við lífskjarasamninginn svokallaða
  • Stofnun Félagsmannasjóðs sem felur í sér 80 þúsund króna árlega greiðslu til félagsmanna
  • 30 daga orlof fyrir alla

Hinn nýi kjarasamningur verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum.

Þríhliða sátt um viðbrögð við COVID-19

Ríkisstjórn Íslands, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa náð þríhliða samkomulagi um aðgerðir til þess að hægja á útbreiðslu COVID-19 veirunnar hér á landi með því að tryggja að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Mikill fjöldi launafólks hefur að tilmælum yfirvalda farið í sóttkví sem felur það í sér að það getur ekki sótt vinnu auk þess sem öll samskipti eru takmörkuð. Slíkt felur í sér mikla röskun á högum og daglegu lífi. Miklir samfélagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að sóttkví sé haldin og hægt á útbreiðslu veirunnar. Af þeim ástæðum verður að tryggja að það launafólk sem sætir sóttkví  þurfi ekki að óttast um afkomu sína meðan á henni stendur.

Aðilar hafa því orðið ásáttir um eftirfarandi:

  1. Samtök atvinnulífsins munu beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.
  2. Alþýðusamband Íslands mun beina þeim tilmælum til aðildarsamtaka sinna að sjóðfélagar í sjúkrasjóðum þeirra sem sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjóðunum að tæmdum veikindarétti.
  3. Stjórnvöld munu beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á lögum um sjúkratryggingar í þá veru að atvinnurekendi, sem greiðir launamanni sem sætt hefur eða mun sæta sóttkví laun, geti krafið sjúkratryggingar um endurgreiðslu kostnaðar að ákveðnu hámarki séu tilteknar aðstæður fyrir hendi eins og til dæmis að launamaður geti ekki sinnt vinnu heiman frá sér. Unnið verði að útfærslu á þeirri aðkomu stjórnvalda og gildistíma og stefnt verði að því að þeirri vinnu verði lokið 13. mars.

Meðan á sóttkví stendur reynir ekki á veikindarétt almenns launafólks, frekar en opinberra starfsmanna, en sjúkrasjóðirnir þurfa að vera reiðubúnir til að taka við þeim sem veikjast og tæma veikindarétt sinn af þeim ástæðum.

Hvað þessa yfirlýsingu varðar mun Framsýn stéttarfélag tryggja að félagsmenn sem hugsanlega sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjúkrasjóði félagsins að tæmdum veikindarétti hjá viðkomandi atvinnurekanda.

 

Samningur undirritaður við ríkið í dag

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd 18 aðildarfélaga sinna, skrifaði í dag undir nýjan kjarasamning við samninganefnd ríkisins með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023 og nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkinu. Það er meðal annars hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Skógrækt ríkisins, Vegagerðinni, framhaldsskólunum á Húsavík og Laugum og hjá Vatnajökulsþjóðgarði.

Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:

  • Laun hækka í samræmi við lífskjarasamninginn og hækka frá 1. apríl 2019.
  • Lágmarksorlof hjá öllum starfsmönnum verður 30 dagar.
  • Markviss skref til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.
  • Vinnuvika vaktavikufólks verður 36 stundir m.v. fullt starf og nýtt launamyndunarkerfi tekið upp. Breytingar á fyrirkomulagi vaktavinnu sem býður upp á manneskjulegra umhverfi með styttri vinnuviku, þar sem miðað er að bættri heilsu, auknu öryggi og betri samþættingu einkalífs og vinnu.
  • Tekin er upp ný launatafla sem byggir á álagsþrepum en ekki aldurþrepum, í tengslum við það eru stofnannasamningar endurskoðaðir og er ráðstafað allt að 142 milljónum króna vegna þessa.
  • Framlag í orlofssjóð hækkar.
  • Fellt út ákvæði um að heimilt sé að láta fólk gista í tjöldum.
  • Full orlofsuppbót hækkar úr 50.000 kr. árið 2019 í 53.000 kr. árið 2022.
  • Full persónuuppbót (desemberuppbót) hækkar úr 92.000 kr. árið 2019 í 000 kr. árið 2022.
  • Tekið er upp nýtt ákvæði að félagsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtals í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.

 

  • Samningurinn verður kynntur félagsmönnum Framsýnar á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 26. mars. Atkvæðagreiðslan verður rafræn og munu félagsmenn Framsýnar sem starfa eftir kjarasamningnum fá frekari gögn varðandi samninginn og atkvæðagreiðsluna á næstu dögum.

Á meðfylgjandi mynd sem fylgir þessari frétt má sjá formann Framsýnar, Aðalstein Árna og félaga hans og formann Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálm Birgisson, frá undirritun samningsins í Karphúsinu í dag.

Heimsókn í Norðlenska

Starfsmaður stéttarfélaganna heimsótti Norðlenska á Húsavík á dögunum. Þrátt fyrir að nú sé ekki sláturtíð var heldur betur nóg líf í húsinu en um 50 starfsmenn eru við störf hjá Norðlenska á Húsavík í vetur. Nú í sumar eru fyrirhugaðar framkvæmdir hjá fyrirtækinu en til stendur að setja þak ofan á gistieiningarnar sem standa norðan við aðalbygginguna. Gistieiningarnar hafa gjörbreytt aðstöðu fyrirtækisins til hins betra en erfitt var orðið að finna gistipláss fyrir tímabundna starfsmenn fyrirtækisins á haustin. Einingarnar hafa líka verið notaðar í vetur en 11 starfsmenn fyrirtækisins notast við hana þessa vikurnar.

Undirbúningur næstu sláturtíðar er að byrja jafnvel þó enn sé um háflt ár í að hún hefjist. Reiknað er með því að sláturfjöldinn verði í kringum 100.000 gripir í ár.

Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð

Um síðustu mánaðamót rann út frestur til að skila inn lista eða tillögum um fólk í trúnaðarstörf á vegum Framsýnar stéttarfélags fyrir komandi kjörtímabil sem eru tvö ár, það er frá aðalfundi félagsins 2020 til aðalfundar 2022. Ekki bárust aðrar tillögur eða listar en frá trúnaðarráði félagsins um félagsmenn í stjórnir, ráð eða nefndir á vegum félagsins. Því er sjálfkjörið í trúnaðarstörf í Framsýn fyrir næsta kjörtímabil. Um 80 manns gegna trúnaðarstöðum fyrir félagið á hverjum tíma, það er fyrir utan trúnaðarmenn á vinnustöðum sem eru um þessar mundir um tuttugu.

Fjölmargir koma að stjórnunarstörfum fyrir Framsýn á hverjum tíma.

Opnað fyrir umsóknir orlofshúsa

Opnað hefur verið fyrir umsóknir orlofshúsa fyrir sumarið 2020. Sama fyrirkomulag er á umsóknunum eins og verið hefur undanfarin ár, en þeim skal skilað á Skrifstofu stéttarfélaganna eða í tölvupósti á linda@framsyn.is.

Hægt er að nálgast umsóknareyðublaðið á excel og pdf formi hér á síðunni. Auk þess mun umsóknareyðublað fylgja fréttabréfi stéttarfélaganna sem kemur út á næstunni.

COVID-19 og fjarvistir frá vinnu

Að gefnu tilefni vill Alþýðusamband Íslands taka fram, að launafólk sem sett er í sóttkví eða sem gert er að læknisráði að halda sig heima við og umgangast ekki vinnufélaga eða annað fólk í umhverfi sínu vegna þess það sé annað af tvennu sýkt af COVID-19 eða sé hugsanlegir smitberar hans, er að mati ASÍ óvinnufært vegna sjúkdóms eða vegna hættu á því að verða óvinnufært vegna hans. Þau forföll eru greiðsluskyld skv. ákvæðum kjarasamninga og laga. Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands og því nær þessi tilkynning m.a. til félagsmanna þessara félaga.

Samningafundur framundan

Eftir fund með starfsmönnum hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík síðasta fimmtudag hefur Framsýn gengið frá kröfugerð fyrir hönd starfsmanna. Jafnframt hefur verið gengið frá því við Samtök atvinnulífsins, sem hefur verið í forsvari fyrir fyrirtækin í viðræðunum við Framsýn, að fyrsti samningafundurinn verði á allra næstu dögum. Þegar þetta er skrifað var ekki búið að fastnegla daginn. Þar sem vertíðin hjá hvalaskoðunarfyrirtækjunum fer að hefjast er mikilvægt að samningaviðræður klárist sem fyrst.

 

Trúnaðarmannanámskeið framundan

Stéttarfélögin standa fyrir tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði dagana 16 – 17 apríl nk. Námskeiðið verður haldið á Húsavík. Skráning fer fram hjá Félagmálaskóla alþýðu og  þar er hægt að skrá sig inn á Mínar síður eða með rafrænum skilríkjum   https://www.felagsmalaskoli.is/ eða með því að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.  Námskeiðin eru trúnaðarmönnum að kostnaðarlausu og eru bæði fræðandi og skemmtileg. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga eiga trúnaðarmenn rétt á að sækja slík námskeið á vinnutíma án skerðingar launa.

Mynd: Trúnaðarmannanámskeiðiðn hafa verið vel sótt af félagsmönnum. Á öllum vinnustöðum þar sem starfa 5 eða fleiri starfsmenn eiga að vera starfandi trúnaðarmenn. Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

 

Erlendum starfsmönnum auðveldað að gera skattskil

Framundan er tími skattframtalsskila. Þrátt fyrir að framtalsskil séu orðin býsna einföld fyrir lang flesta þá eru form og upplýsingar að mestu á íslensku hjá skattinum. Fyrir því eru ýmsar ástæður m.a. tæknilegar. Ekki er ólíklegt að þetta muni breytast á allra næstu árum enda starfa þúsundir erlendra starfsmanna á Íslandi á hverjum tíma sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Mikilvægt er að unnið verði markvist að því að auðvelda erlendum starfsmönnum að gera skil á skattaskýrslum.

Í viðleitni til að auðvelda þeim framtalsskil sín hafa nú verið gefnar út leiðbeiningar á ensku og pólsku sem ættu í mjög mörgum tilvikum að nægja til að viðkomandi geti sjálfir gengið frá og skilað skattframtali.  Hér er slóðin: https://www.rsk.is/filingtaxreturn. Leiðbeiningarnar eru einnig til í prentuðu formi hjá Ríkisskattstjóra.

 

Stjórnarfundur í Framsýn á mánudaginn

Stjórnarfundur verður í Framsýn mánudaginn 2. mars kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Fjölmörg mál liggja fyrir fundinum. Auk stjórnar Framsýnar er stjórn Framsýnar-ung boðið að taka þátt í fundinum.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Aðalfundur félagsins
    1. Dagsetning aðalfundar
    2. Listi stjórnar og trúnaðarráðs
    3. Málefni aðalfundarins
  4. Kjarasamningur ríkisstarfsmanna
  5. Kjarasamningur fyrir starfsfólk hvalaskoðunarfyrirtækja
  6. Stofnanasamningar
  7. Kjör á trúnaðarmanni í mötuneyti Framhaldsskólans á Laugum
  8. Hrunabúð-viðgerð á stétt við útihurð
  9. Samningur við Völsung
  10. Erindi sem borist hafa félaginu
    1. Sjúkraþjálfun Húsavíkur
    2. Slökkvilið Norðurþings
    3. Stúlknakór Húsavíkur
    4. Karlakórinn Hreimur
  11. Orlofsbyggðin á Illugastöðum
  12. Önnur mál
    1. Fundarsalur Hrunabúð

 

ASÍ og Isavia taka höndum saman um upplýsingagjöf til erlends launafólks

ASÍ og Isavia hafa gert með sér samstarfssamning um miðlun upplýsinga til erlends launafólks um íslenskan vinnumarkað, kjarasamninga, réttindi og skyldur. Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, undirrituðu samstarfssamning þess efnis í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli í dag.

Markmiðið með samningnum og samstarfi ASÍ og Isavia er að stuðla að heilbrigðum vinnumarkaði á Íslandi, þar sem allir njóti kjara og annarra réttinda í samræmi við kjarasamninga og lög og þar sem launafólki er ekki mismunað á grundvelli þjóðernis. Þetta er liður í baráttunni fyrir heilbrigðum vinnumarkaði, að kjarasamningar séu virtir og fólk af erlendum uppruna sem kemur til landsins að vinna fái upplýsingar um réttindi sín.

Til að ná þessu markmiði verða skjáir í flugstöðinni notaðir til að miðla upplýsingum til farþega. Þá verður prentað kynningarefni gert aðgengilegt á nokkrum stöðum – þar á meðal í töskumóttökusal flugstöðvarinnar.

Verkefnið byggir m.a. á samfélagslegri ábyrgð aðila eins og hún birtist í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um góða atvinnu og hagvöxt og um frið og réttlæti.

„Íslenskur vinnumarkaður er skipulagður og launafólk á skjól í stéttarfélögum,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. „Þessu er ekki til að heilsa alls staðar í veröldinni og því mikilvægt að koma þeim upplýsingum vel og skilmerkilega á framfæri við launafólk hvert það getur leitað að stuðningi og skjóli. Flugstöð Leifs Eiríkssonar er sá staður þar sem fólk kemst fyrst í kynni við landið og því er afar ánægjulegt að hægt sé að koma upplýsingum á framfæri þar, í bæklingum og á skjáhvílum.“

„Isavia er stór vinnuveitandi, Keflavíkurflugvöllur er stór vinnustaður og því til viðbótar þá er okkur umhugað um heilbrigði vinnumarkaðs á Íslandi.,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Þess vegna tökum við þátt í því verkefni að auðvelda erlendu launafólki að nálgast réttar upplýsingar um leið og það fer í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar, stærstu gáttina til landsins. Þannig fær það tækifæri til að að sækja upplýsingar um réttindi sín og skyldur öllum til hagsbóta.“

Nánari upplýsingar um réttindi launafólks má finna á vef ASÍ – www.asi.is

 

Samkomulag um kjör starfsmanna við afþreyingarþjónustu

Í síðustu kjarasamningum Landssambands íslenskra verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að var gerður sérkjarasamningur sem gildir um samsett störf (afgreiðslu- og þjónustustörf) hjá afþreyingar- og ferðaþjónustufyrirtækjum, þar sem starfsmenn sinna jafnt afgreiðslu, bókunum, símaþjónustu og sambærilegum  verkefnum, samsett störf. Störf sem falla undir samninginn eru m.a. afgreiðsla í hvalaskoðunarfyrirtækjum, hestaleigum, fjallaferðum, ferjum, bílaleigum, söfnum, leikhúsum, hópferðabifreiðum og sala á ferðum inni á hótelum.

Öskudagurinn líflegur á Húsavík

Það var óvenjumikið líf og fjör á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag, það er á sjálfan Öskudaginn. Fólk á öllum aldri kom við og söng og þáði mæru í staðin hjá starfsmönnum stéttarfélagnna. Myndirnar tala sínu máli. Takk fyrir okkur.

Fundur um kjarasamning starfsmanna  við hvalaskoðun – fimmtudaginn kl. 17:00

Vegna endurnýjunar á kjarasamningi Framsýnar við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna á hvalaskoðunarbátum á Húsavík boðar félagið til fundar með starfsmönnum hvalaskoðunarfyrirtækja fimmtudaginn 27. febrúar kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Mikilvægt er að félagsmenn Framsýnar sem starfa á hvalaskoðunarbátum mæti á fundinn og komi sínum skoðunum á framfæri eða sendi þær á netfangið kuti@framsyn,is komist þeir ekki á fundinn.

Framsýn stéttarfélag

Félagar í STH samþykktu verkfallsboðun takist ekki samningar

Yfirgnæfandi meirihluti félaga í öllum aðildarfélögum BSRB sem lokið hafa atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun samþykkti boðun verkfalls. Verkfallsaðgerðir munu hefjast mánudaginn 9. mars, takist samningar ekki fyrir þann tíma.

Um 87,6 prósent þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunum samþykktu boðun verkfalls hjá sínu félagi. Um 8,1 prósent voru andvíg boðun verkfalls og 4,3 prósent skiluðu auðu í atkvæðagreiðslunum. Það er því ljóst að um 15.400 félagsmenn í aðildarfélögum BSRB eru á leið í verkfallsaðgerðir eftir rúmar tvær vikur.

Sé horft til félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur, þá samþykktu 93,5% félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum að fara í verkfall náist ekki kjarasamningar fyrir 9. mars. Félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur sem starfa hjá ríkinu samþykktu einnig að fara í verkfall náist ekki kjarasamningar fyrir boðun verkfalls. Alls samþykktu 88,9% félagsmanna að fara í verkfall.

Alls stóðu 17 aðildarfélög BSRB fyrir atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem stóð frá 17. til 19. febrúar. Félagsmenn í 15 félögum samþykktu að boða til aðgerða. Hjá einu félagi, Starfsmannafélagi Garðabæjar, náðist ekki næg þátttaka í atkvæðagreiðslunni. Um 41 prósent greiddu atkvæði en 50 prósent félagsmanna þurfa að greiða atkvæði svo verkfallsboðun sé lögleg. Atkvæðagreiðsla hjá einu félagi, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, er enn í gangi og verða niðurstöður kynntar þegar þær liggja fyrir.

Þátttakan í atkvæðagreiðslum aðildarfélaganna var almennt afar góð. Að meðaltali tóku um 65 prósent félagsmanna í hverju félagi þátt í atkvæðagreiðslunum en þátttakan fór allt upp í tæplega 98 prósent í einstökum félögum.

Verkföllin munu hafa mikil áhrif á almannaþjónustuna enda munu þau ná til starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni, þar með talið á Landspítalanum, og í skólum, leikskólum og á frístundaheimilum. Þá mun starfsfólk í sundlaugum og íþróttahúsum auk starfsmanna sem sinna þjónustu við aldraða og fólk með fötlun leggja niður störf, svo einhver dæmi séu nefnd.

Tvíþættar verkfallsaðgerðir

Boðuðum verkfallsaðgerðum má skipta í tvo hluta. Annars vegar mun þorri félagsmanna hjá ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg leggja niður störf á ákveðnum dögum. Þessi hópur mun leggja niður störf dagana 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31. mars og 1. apríl.

Í hinum hlutanum eru smærri hópar starfsmanna sem verða í ótímabundnu verkfalli frá og með 9. mars. Í þeim hópi eru meðal annars starfsmenn í grunnskólum og leiðbeinendur á frístundaheimilum á nær öllu höfuðborgarsvæðinu auk Akraness. Að óbreyttu má því reikna með að frístundaheimilin verði lokuð frá upphafi verkfalls þar til samningar takast. Í þeim hópi eru einnig starfsmenn hjá Skattinum og sýslumannsembættum um allt land.

Þessar aðgerðir munu halda áfram fram í dymbilviku, en hafi samningar ekki tekist fyrir 15. apríl munu félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum fara í ótímabundið allsherjarverkfall þar til samningar hafa tekist.

Félagsmenn í eftirtöldum félögum hafa samþykkt boðun verkfalls:
  • Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
  • Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
  • FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
  • Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Sjúkraliðafélag Íslands
  • Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu
  • Starfsmannafélag Fjallabyggðar
  • Starfsmannafélag Fjarðabyggðar
  • Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
  • Starfsmannafélag Húsavíkur
  • Starfsmannafélag Kópavogs
  • Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
  • Starfsmannafélag Suðurnesja
  • Starfsmannafélag Vestmannaeyja

Þrjú félög til viðbótar; Landssamband lögreglumanna, Tollvarðafélag Íslands og Félag starfsmanna stjórnarráðsins, hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar, en félagsmenn þeirra hafa ekki verkfallsrétt og munu félögin því ekki boða til sambærilegra aðgerða. Þá styðja fangaverðir, sem eru í Sameyki en hafa ekki verkfallsrétt, aðgerðirnar þó þeir verði að standa utan við þær. Þá er atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun ekki lokið hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Félögin hafa verið kjarasamningslaus frá 1. apríl 2019, eða í á ellefta mánuð. Kjarasamningsviðræður munu halda áfram samhliða undirbúningi verkfallsaðgerða.

Hægt er að skoða niðurstöðurnar brotnar niður á einstök félög hér.

Fréttatilkynning frá SGS – útlínur á kjarasamningi við ríkið liggja fyrir

Viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins og Samninganefnd ríkisins náðu  samkomulagi um útlínur á nýjum kjarasamningi á fundi í gær hjá ríkissáttasemjara. Viðræður hafa staðið undanfarna mánuði og hefur m.a. verið að störfum vinnuhópur aðila á opinberum markaði um breytingar á fyrirkomulagi vaktavinnu.  Endanlegar tillögur starfshóps liggja ekki fyrir. Þegar þær eru frágengnar kemur samninganefnd SGS saman og tekur samninginn til umræðu og afgreiðslu. Ekki er hægt að gefa neinar upplýsingar um einstök atriði samkomulagsins fyrr en að lokum fundi samninganefndar.

 

 

Staða bókara í boði – Skrifstofa stéttarfélaganna

Vegna forfalla auglýsa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum eftir bókara til starfa  út árið 2020. Frekari upplýsingar gefur Aðalsteinn Árni Baldursson á Skrifstofu stéttarfélaganna, 464-6600 -www.framsyn.is. Umsóknarfrestur er til 1. mars n.k. Um er að ræða gefandi og skemmtilegt starf með samhentu og góðu samstarfsfólki.

Stéttarfélögin

 

Kaldbakskot heimsótt

Á dögunum fór Aðalsteinn J. Halldórsson, starfsmaður stéttarfélaganna í heimsókn til Sigurjóns Benediktssonar í Kaldbak. Eins og vel er þekkt rekur Sigurjón þar gistiþjónustuna Kaldbakskot sem samanstendur af sumarhúsum sem eru í landi Kaldbaks ásamt gamla íbúðarhúsinu og húsunum sem fylgja því.

Það er mikill myndarskapur yfir starfseminni í Kaldbak sem skartar náttúrulega sínum vetrarskrúða þessar vikunnar. Aðspurður sagði Sigurjón að starfsemin hafi gengið vel síðasta sumar en það var það besta í sögu rekstursins. Það sem af er ári hafi bókanir þó verið heldur meira hikandi en verið hefur en janúar er í sögulegu samhengi besti bókunarmánuðurinn.

Stéttarfélögin óska Sigurjóni góðs gengis í framtíðinni og þökkum fyrir ánægjulega heimsókn

Það er í mörg horn að líta í rekstri eins í Kaldbakskotum. Hér er Sigurjón að ditta að aðstöðunni í Kaldbak.

Fleygar og rökstuðningur – Málefni AÞ til umræðu

Eins og áður hefur komið fram hafa Samtök atvinnurekenda á Norðausturlandi (SANA) og Framsýn stéttarfélag, sem telur hátt í fjögur þúsund félagsmenn, mótmælt sameiningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna á Norðurlandi eystra. Sé tekið mið af viðbrögðum almennings við yfirlýsingu SANA og Framsýnar er mjög mikil andstaða við þessa sameiningu meðal Þingeyinga.

Oddvitar fimm sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfar yfirlýsingar aðila vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum, SANA og Framsýnar.  Þar segir meðal annars: „Við afþökkum með öllu þá fleyga sem nú er reynt að reka okkar á milli, af aðilum sem einmitt eru okkur svo mikilvægir bandamenn í að markmið okkar náist.“

Áfram er haldið: „Nú þegar ný samtök eru að brölta upp úr startblokkunum í því langhlaupi sem framundan er getum við ekki annað en lýst vonbrigðum með ótímabæra og ósanngjarna kröfu Framsýnar stéttarfélags og stjórnar SANA um að Þingeyingar hætti við aðild að því mikilvæga samstarfi sem nú hefur verið myndað.“

Oddvitarnir skauta fimlega fram hjá þeim markmiðum sem lagt var upp með í upphafi varðandi starfsemi sameiginlegs félags s.s. þeim að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík. Í fundargerð Eyþings frá 9. apríl 2019 kemur skýrt fram: „Starfsstöðin á Húsavík verði jafnframt aðalskrifstofa félagsins.“  Síðar hurfu þessi markmið eins og dögg fyrir sólu sem og önnur, sem áttu að vera forsendur þess að menn legðu upp í þessa vegferð. Hvað varð um markmiðin?  Oddvitarnir skulda Þingeyingum svör við því. Undirritaður hefur sent þeim flestum fyrirspurnir varðandi sameininguna sem og formanni nýju samtakanna SSNE og kallað eftir svörum við nokkrum spurningum.  Staðið hefur á svörum enda greinilega ekki vilji til þess að ræða málið eða svara spurningum með lýðræðislegum hætti.

Því miður virðist sem oddvitarnir hafi einangrað sig úti í horni þar sem megn óánægja er með sameininguna meðal Þingeyinga og meðal þess fólks sem starfar með þeim að sveitarstjórnarmálum.

Tökum dæmi:

Undirritaður, fulltrúi stéttarfélaganna í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, lagði fram harðorða bókun á síðasta stjórnarfundi AÞ um sameininguna sem er meðfylgjandi þessum skrifum sem og yfirlýsing SANA og Framsýnar um sama mál. Fundurinn var 29. janúar 2020 í Kjarna á Laugum.

„Umræða varð um efni bókunarinnar og það vinnuferli sem viðhaft hefur verið við sameininguna fram að þessu. Fram kom óánægja með hvernig mál hefðu þróast, m.a. gagnrýni á að samþykktir aðalfundar Eyþings um að höfuðstöðvar hinna nýju samtaka yrði staðsett á Húsavík hefðu horfið úr vinnuferlinu, bæði í drögum að samþykktum samtakanna og í meðförum stjórnar hinna nýju samtaka, t.a.m. þegar starf framkvæmdastjóra var auglýst.„

Þetta stendur orðrétt í fundargerð stjórnar AÞ.

Fundargerðin er aðgengileg á heimasíðu félagsins. Hverjir voru það sem höfðu þessar áhyggjur af stöðu mála fyrir utan fulltrúa atvinnulífsins, það er Framsýnar og SANA? Jú, fulltrúar skipaðir af sveitarstjórnum Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps og Norðurþings í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Fulltrúi Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps komst ekki til fundarins en sendi skýr skilaboð til fundarins þar sem fulltrúinn kom sínum skoðunum vel á framfæri, hætta ætti við sameininguna. Er von að spurt sé, eru oddvitarnir gjörsamlega sambandslausir við umhverfið og samstarfsfólk í sveitarstjórnum?

Á áðurnefndum stjórnarfundi AÞ kom fram hjá framkvæmdastjóra félagsins að hann teldi að gengið hefði  verið fram hjá honum við ráðningu á framkvæmdastjóra fyrir sameinað félag. Ég tek heilshugar undir með honum sem og fjölmargir aðrir. Væntanlega hefur komið honum um koll að búa á Húsavík enda unnið markvisst að því að koma starfseminni til Akureyrar eftir vafasömum leiðum.

Framkvæmdastjóri AÞ kom óánægju sinni vel á framfæri á fundinum og hefur óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni og fram kemur í fundargerð fundarins:

„Framkvæmdastjóri gerði stjórn grein fyrir því að hann hefði sótt um starf framkvæmdastjóra hinna nýju samtaka og væri afar ósáttur við niðurstöðu stjórnar í ráðningarferlinu og hefði óskað eftir rökstuðningi fyrir henni.“

Til viðbótar má geta þess að oddviti VG í Norðurþingi sem fór fyrir sínu fólki í síðustu sveitarstjórnarkosningum og er nú í fríi frá sveitarstjórnarmálum hefur blandað sér í umræðuna með því að skrifa ágæta færslu inn á Facebook varðandi umræðuna sem átt hefur sér stað innan sveitarfélagsins Norðurþings um málið, það er í aðdraganda sameiningarinnar. Fyrir þá sem ekki vita er VG í meirihlutasamstarfi í Norðurþingi. Í færslunni  kemur meðal annars fram:

Mér er sagt að þetta mál eigi sér lengri aðdraganda en ég þekki af eigin raun. En það kom alla vega til tals í upphafi síðasta kjörtímabils og virtist mér þá afstaða fólks/flokka ekki fara eftir neinum línum. Sjálfum fannst mér þá, og finnst enn, þetta vera misráðið og sagði þá skoðun mína skýrt á þeim vettvangi sem þetta bar á góma. Ég stóð fyrir bókun fyrir 2 og hálfu ári sem var samþykkt samhljóða í byggðarráði Norðurþings og staðfest í sveitarstjórn síðar.“

Bókunin er hér meðfylgjandi:

Er von að spurt sé, er ekki eitthvað að í stjórnsýslunni þegar mál hafa þróast með þeim hætti sem komið hefur verið inn á í þessari samantekt. Væntanlega verður því miður ekki hægt að snúa þessari vanhugsuðu ákvörðun við, nema menn noti skynsemina og afturkalli sameininguna sem væri það eina rétta í stöðunni. Þrír af þeim oddvitum sem skrifuðu undir yfirlýsinguna gegn skoðunum Framsýnar og SANA hafa nú komið sér vel fyrir í stjórn sameiginlegs félags, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Það verður áhugavert að fylgjast með störfum þeirra á þeim vetfangi.

 Aðalsteinn Árni Baldursson,
fulltrúi stéttarfélaganna í stjórn AÞ

  

Yfirlýsing

Lögð fram á stjórnarfundi í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga 29. janúar 2020.

Undirritaður, stjórnarmaður í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, gerir alvarlegar athugasemdir við sameiningu félagsins við Eyþing og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar undir nafninu; Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Aðvörunarorð sem undirritaður hefur viðhaft í aðdraganda sameiningar hafa því miður flest ef ekki öll gengið eftir. Til viðbótar hefur verið illa haldið á málinu frá upphafi.

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur í gegnum tíðina gengt mikilvægu hlutverki í Þingeyjarsýslum. Tilgangur félagsins hefur verið að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á starfssvæðinu og veita samræmda og þverfaglega ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnulífi, samfélags- og byggðaþróun. Markmið félagsins hefur auk þess verið að stuðla að jákvæðri þróun atvinnumála, bæta almenn búsetuskilyrði á starfssvæðinu og auka nýsköpun og arðsemi í atvinnulífinu.

Þá hefur félagið komið að margvíslegum verkefnum s.s. verkefninu „Brothættar byggðir“ sem hófst árið 2014 á vegum Byggðastofnunar. Markmiðið með verkefninu hefur verið að styðja við byggð og stöðva fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum á Íslandi s.s. í Öxarfirði, Raufarhöfn og Bakkafirði. Hvað verkefnið varðar hefur Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga verið í forystuhlutverki í héraðinu og unnið náið með Byggðastofnun, íbúum og hagsmunaaðilum á viðkomandi svæðum.

Frá fyrstu tíð hefur verið kappkostað að stjórn Atvinnuþróunarfélagsins á hverjum tíma endurspegli skoðanir og hagsmunni sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum. Stjórnin hefur verið skipuð fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að félaginu auk fulltrúa frá atvinnurekendum (SANA) og stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum. Í gegnum tíðina hefur samstarf þessara aðila verið til mikillar fyrirmyndar er viðkemur hagsmunum fyrirtækja, stofnana og íbúa á svæðinu, það er verið á jafnréttisgrundvelli. Reyndar verið ákveðin fyrirmynd þar sem fulltrúar atvinnulífsins hafa auk sveitarstjórnarmanna átt fast sæti í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Þrátt fyrir stærð Norðurþings hefur sveitarfélagið ekki gert kröfu um stjórnarformennsku í félaginu.

Nú ber svo við að pólitíkin hefur ákveðið að rústa þessu samstarfi með því að leggja af starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og sameina það Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Eyþingi. Allir starfsmenn Atvinnuþróunarfélagsins hafa fengið uppsagnarbréf og vita því lítið um sína framtíð.

Kjörin hefur verið sjö manna stjórn skipuð sveitarstjórnarmönnum, það er fjórum fulltrúum frá sveitarfélögum við Eyjafjörð og þremur frá sveitarfélögum úr Þingeyjarsýslum. Til að tryggja vægi Akureyrar gerði sveitarfélagið kröfu um að stjórnarformaðurinn komi ávallt frá Akureyri auk þess sem sveitarfélagið verði með tvo stjórnarmenn til að tryggja stöðu sína enn frekar. Í nýrri stjórn er ekki gert ráð fyrir aðkomu fulltrúa frá atvinnulífinu. Þannig flyst valdið sem var til staðar hjá sveitarstjórnarmönnum og aðilum vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum í atvinnumálum vestur um til Akureyrar.

Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið á aukaaðalfundi Eyþings 9. apríl 2019 að starfsstöðin á Húsavík yrði jafnframt aðalskrifstofa félagsins fyrir sameinað félag virðist sem það ætli ekki að ganga eftir þar sem í endanlegum samþykktum félagsins er talað um að varnarþing félagsins verði á Húsavík. Ekki er lengur talað um að aðalskrifstofa félagsins verði á Húsavík, hvað þá að framkvæmdastjórinn hafi fasta viðveru þar.

Þá vekur athygli að Capacent sem var falið að koma að ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra taldi ekki ástæðu til að auglýsa á starfsvæði Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga eftir framkvæmdastjóra fyrir nýtt sameinað félag á Norðurlandi. Þess í stað var auglýst í miðlum á Akureyri. Eftir að undirritaður gerði athugasemd við auglýsinguna var honum þakkað fyrir ábendinguna s.br. eftirfarandi svar; „Takk fyrir ábendinguna, mjög góður punktur. Auglýsingin mun á næstunni birtast í Skránni.“

 Fyrir liggur að búið er að ráða framkvæmdastjóra fyrir sameinað félag og vil ég nota tækifærið og óska honum velfarnaðar í starfi um leið og ég gagnrýni stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra harðlega fyrir að sniðganga Reinhard Reynisson framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem var meðal umsækjanda.

Reinhard hefur langa og viðtæka reynslu á sviði atvinnuþróunar og starfsemi sveitarfélaga enda fyrrverandi sveitarstjóri og sveitarstjórnarmaður. Þá hefur hann gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ýmsa aðila og samtök er viðkoma málefnum sem koma til með að falla undir frekari atvinnuþróun og starfsemi sveitarfélaga á Norðurlandi eysta.

Stjórn SSNE skuldar stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga rökstuðning fyrir þessari ákvörðun að horfa fram hjá ráðningu Reinhards Reynisonar í starf framkvæmdastjóra.

Að lokum vill undirritaður lýsa yfir fullum stuðningi við störf  Reinhards Reynisonar í þágu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um leið og honum eru þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins sem framkvæmdastjóri og fyrir ánægjulegt samstarf að málefnum félagsins í gegnum tíðina.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
fulltrúi stéttarfélaganna í stjórn AÞ

 

  

FRÉTTATILKYNNING FRÁ SAMTÖKUM ATVINNUREKENDA Á NORÐAUSTURLANDI (SANA) OG FRAMSÝN STÉTTARFÉLAGI Í ÞINGEYJARSÝSLUM

Misráðin sameining  Atvinnuþróunarfélaga í Eyjarfirði og Þingeyjarsýslum

Nýverið samþykktu sveitarfélögin við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum að sameina Atvinnuþróunarfélög Eyjafjarðar og Þingeyinga við landshlutasamtökin Eyþing. Þessi nýju samtök kalla sig Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Ákvörðun um þetta var tekin af meirihluta í þeim  sveitarstjórnum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sem mynda kjölfestuna í hinu nýja félagi. Hvorki almennir íbúar eða  fyrirtæki höfðu sérstakt vægi við þessa ákvörðun og heyrðu  einungis af henni í fjölmiðlum. Þannig voru ekki haldnir kynningarfundir fyrir íbúa eða fyrirtæki í aðdraganda þessarar ákvörðunar.

Samtök atvinnurekenda á Norðausturlandi (SANA) og Framsýn stéttarfélag hafa átt sinn fulltrúann hvort í  stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um árabil. Báðir þeir stjórnarmenn voru skeptískir á þennan samruna sem myndað hefur SSNE enda þótti þeim óljóst hver hagræðið ætti að vera fyrir stuðning við atvinnulíf í Þingeyjarsýslum.  Auk þess óttuðust  þeir að völd og ákvarðanataka hins nýja félags myndu verða á  Akureyri vegna ójafns íbúafjölda. Afstaða SANA og Framsýnar gat ekki komið í veg fyrir samrunann enda hafa sveitarfélögin sjálf  lang mest vægi innan félaganna þriggja.

Nú hefur komið í ljós það sem fulltrúar SANA og Framsýnar  óttuðust – þ.e. að í samþykktum hins nýja félags SSNE stendur skýrum stöfum að stjórnarformaður nýja félagsins skuli um  ókomna tíð koma frá Akureyri hvað sem tautar og raular.  Nýráðinn framkvæmdastjóri SSNE er svo auk þess einnig búsettur á Akureyri. Meirihluti stjórnar verður frá Eyjafjarðarsvæðinu í krafti íbúafjölda. Í samþykktunum kemur þó fram að  varnarþing skuli vera á Húsavík en það hefur augljóslega lítið vægi miðað við hin atriðin.

Stjórn SANA og Framsýnar skora hér með á sveitarfélögin í  Þingeyjarsýslum að ganga tafarlaust úr nýstofnuðu félagi enda  liggur fyrir að völd og ákvarðanataka verður öll utan Þingeyjarsýslna og því mun betur heima setið fyrir Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga en af stað farið.

Húsavík, 7. febrúar 2020

 Í stjórn SANA,
Guðmundur Vilhjálmsson formaður, framkvæmdastjóri Garðvíkur ehf
Valdimar Halldórsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar hf.
Helgi Kristjánsson, framkvæmdastjóri Gríms ehf.

Fyrir hönd Framsýnar,
Aðalsteinn Á. Baldursson formaður