Samningur 18 aðildarfélaga SGS við ríkið samþykktur

Niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning 18 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með miklum meirihluta. Eitt þeirra félaga sem aðild á að samningnum er Framsýn stéttarfélag.

Atkvæðagreiðslan stóð yfir á tímabilinu 19. til 26. mars. Í heildina var kjörsókn tæplega 20%. Já sögðu 88,65% en nei sögðu 9,19%. 2,16% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 947 manns.

Samningurinn, sem undirritaður var 6. mars síðastliðinn, er því samþykktur hjá eftirfarandi félögum: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífanda stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu (PDF)

 

  1. 27. MARS 2020Kjarasamningum og réttindum launafólks má ekki víkja til hli…
  2. 27. MARS 2020Samningur 18 aðildarfélaga SGS við ríkið samþykktur
  3. 23. MARS 2020Tímabundin lokun skrifstofu SGS
  4. 19. MARS 2020Atkvæðagreiðsla hafin um nýjan kjarasamning SGS og ríkisins

Hvernig er gengið frá samkomulagi milli fyrirtækja og starfsmanna um skert starfshlutfall?

Afar mikilvægt er að gengið sé rétt frá málum þegar fyrirtæki semur við starfsmenn um að taka á sig skert starfshlutfall. Hér má sjá samkomulag sem hægt er að styðjast við þegar gengið er frá samkomulagi um skert starfshlutfall. Þetta form er til á íslensku, ensku og pólsku.

Samkomulag
um tímabundna lækkun starfshlutfalls

Vegna tímabundins samdráttar í rekstri fyrirtækisins er samkomulag milli (heiti fyrirtækis og kennitala) og (nafn starfsmanns og kennitals) um tímabundna lækkun starfshlutfalls.

Starfshlutfall er nú ___% og verður ____%.

(Lýsa getur þurft hvað felst í lækkuðu starfshlutfalli, t.d. hvort lækkað starfshlutfall í vaktavinnu feli í sér færri eða styttri vaktir (eða bæði) eða hvaða áhrif það hefur á fasta kvöld- og helgarvinnu).

Lægra starfshlutfall / breyttur vinnutími gildir á tímabilinu frá ____________ til ___________ 2020.

Á tímabilinu verða laun lægri sem nemur lækkun starfshlutfalls (eða tilgreina nánar m.v. breyttan vinnutíma).

 

Forsendur:

Forsenda samkomulags þessa er að starfsmaður geti á tímabilinu sótt um og fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli sérstaks bráðabirgðaákvæðis laga um atvinnuleysistryggingar.

Bráðabirgðaákvæði um atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli gildir til 1. júní 2020.

Ef rekstrarforsendur breytast er fyrirtækinu heimilt án ástæðulausrar tafar að hækka starfshlutfall starfsmanns í allt að fyrra hlutfalli.

 

Staður og dagsetning

 

F.h. (heiti fyrirtækis)                                                                     (nafn starfsmanns – undirritun)

Þetta er málið – Kjarasamningum og réttindum launafólks má ekki víkja til hliðar

Til stéttarfélaga innan Starfsgreinasambandsins um land allt  berast nú mikið af fyrirspurnum og athugasemdum vegna uppsagna, fyrirvaralausra breytinga á vaktafyrirkomulagi og fjölmargra annara atriða sem snúa að vinnufyrirkomulagi og réttindum fólks samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.

Að gefnu tilefni ítrekar Formannafundur Starfsgreinasambandsins að allar breytingar á að vinna í fullu  samráði við starfsfólk og skorar á atvinnurekendur að nýta sér ekki núverandi aðstæðurnar til að fara á svig við gildandi kjarasamninga og brjóta á réttindum launafólks. Slíkt framferði er algerlega óásættanlegt og verður mætt af fullum þunga af hálfu félaga innan SGS Starfsgreinasambands Íslands.

 

 

Þjónusta í gegnum opnanlegt fag á glugga

Eins og fram hefur komið er Skrifstofa stéttarfélaganna lokuð fyrir heimsóknum. Félagsmönnum er velkomið að hafa samband við starfsfólk í gegnum síma og/eða með því að senda netpóst. Þrátt fyrir að skrifstofan sé formlega lokuð hafa félagsmenn komið við og bankað á glugga í leit að þjónustu. Á meðfylgjandi mynd má sjá Aðalstein J, sinna einum erlendum félagsmanni í gegnum glugga.  Að sjálfsögðu standa starfsmenn vaktina og vinna sín daglegu störf sem eru mjög krefjandi og eru vinnudagarnir langir um þessar mundir.

Verum á verði varðandi verðlagshækkanir

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir með Alþýðusambandinu sem beinir þeim tilmælum til fyrirtækja að sýna ábyrgð og halda aftur af verðhækkunum við þær aðstæður sem nú eru uppi og koma þannig í veg fyrir frekari verðbólgu og efnahagslega óvissu sem kemur illa niður bæði á heimilum og fyrirtækjum.

Nokkur umræða hefur verið um að verð á innfluttum vörum fari nú hækkandi vegna þeirrar gengislækkunar sem orðið hefur á síðustu mánuðum og hefur verðlagseftirliti ASÍ einnig borist nokkuð af ábendingum og áhyggjum neytenda þar um. Í því samhengi er nauðsynlegt að beina því til söluaðila að  gengislækkun ein og sér leiðir ekki sjálfkrafa til samsvarandi verðhækkana þar sem mun fleiri þættir hafa áhrif á verðlag innfluttra vara.

Í því sérstaka ástandi sem myndast hefur vegna Covid-19 veirunnar, hefur almenningur heldur ekki sömu tækifæri til að versla og gera verðsamanburð og hann hefur venjulega. Samkeppni á markaði minnkar þar sem verslun færist yfir á færri aðila og tækifæri neytenda til að veita aðhald minnkar. Í slíkri stöðu er auðveldara en ella fyrir fyrirtæki að hækka verð og okra á viðskiptavinum.

Fyrirtæki eru hvött til að nýta sér ekki ástandið með þessum hætti heldur laða frekar að sér ný viðskipti og styrkja þau viðskiptasambönd sem fyrir eru með því að sýna samfélagslega ábyrgð og  leita allra leiða til að halda verði í lágmarki.

Neytendur eru hvattir til að fylgjast vel með verðlagi, biðja um og passa upp á strimla og láta vita ef þeir verða varir við okur eða óeðlilega miklar verðhækkanir. Það má gera með því að deila inn á facebook hóp verðlagseftirlitsins; Vertu á verði – eftirlit með verðlagi en einnig má senda ábendingu til Samkeppniseftirlitsins í gegnum útfyllingarform á vefsíðu þeirra eða í gegnum netfangið samkeppni@samkeppni.is.

 

Landsmennt fræðslusjóður SA og verkafólks á landsbyggðinni býður einstaklingum og fyrirtækum að sækja námskeið þeim að kostnaðarlausu 

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Landsmenntar fræðslusjóðs ákveðið bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu. Einnig mun sjóðurinn rýmka úthlutunarreglur sjóðsins og stofna til átaks í stafrænni/rafrænni fræðslu innan atvinnulífsins í samstarfi við fræðsluaðila og fyrirtæki.

Einnig mun sjóðurinn rýmka úthlutunarreglur sjóðsins sem taka til námskeiða sem ekki eru rafræn eða í fjarkennslu.  Stofnað verður til átaks í stafrænni/rafrænni fræðslu innan atvinnulífsins í samstarfi við fræðsluaðila og fyrirtæki.

Átakið tekur gildi frá  15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Nánari útfærstla á átaksverkefninu:  Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þessir samningar gilda einnig tímabundið og gagnvart því námi/námskeiðum sem fræðsluaðilar bjóða upp á innan þessa tímaramma það er frá 15. mars til og með 1. ágúst 2020

Um leið og Landsmennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Gildistími verði frá 15. mars til og með 1. ágúst 2020.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 1. ágúst 2020.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars  til og með 1. ágúst 2020.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri Landsmenntar í síma 863 6480 eða á tölvupósti, kristin@landsmennt.is

 

Situation – Covid 19

During those uncertain times it is important that we are all informed about the situation in our society. We would like to encourage you to visit our website www.nordurthing.is for updates on the situation in our local community as well as www.covid.is for updates on official information on COVID-19 in Iceland. Both websites can be translated to English and Polish in the upper right corner. You can also find regular updates on our facebook page https://www.facebook.com/nordurthingmulticultural/. If you have any questions you can message us there,  email nordurthing@nordurthing.is or call 4646100.

 

 

Yfirlýsing frá ASÍ vegna áhrifa efnahagssamdráttar á heimilin

Heimsfaraldur vegna Covid-19 hefur nú áhrif á atvinnu og afkomu fjölmargra heimila. Alþýðusamband Íslands leggur ríka áherslu á að stjórnvöld, fjármálastofnanir og aðrir kröfuhafar komi til móts við fólk í þessum erfiðu aðstæðum. Öllu máli skiptir nú að tryggja afkomuöryggi heimila þannig að öllum sé kleift að setja eigin heilsu og annarra í forgang.

Liður í þessu er að opinberir aðilar, sveitarfélög, fjármálastofnanir, leigufélög, lífeyrissjóðir og aðrir kröfuhafar sýni sanngirni og sveigjanleika varðandi greiðslufresti á meðan mesta óvissan stendur yfir. Mikilvægt er að innheimtukostnaður og dráttarvextir verði ekki lagðir á vanskil og fólki gefist tækifæri til að dreifa greiðslum og lengja í lánum svo greiðslubyrði fari ekki úr hófi fram.

Bankar, fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir og leigufélög hafa þegar tilkynnt um úrræði fyrir heimili sem þurfa aukið svigrúm við þessar aðstæður. Alþýðusambandið beinir því til þessara aðila að þeir hafi ávallt að leiðarljósi að upplýsa einstaklinga með skýrum og greinagóðum hætti um áhrif þeirra úrræða sem í boði eru á greiðslubyrði til lengri og skemmri tíma og hvaða leiðir séu færar til að draga úr langtímaáhrifum á fjárhag heimilanna. Þá skuli öllum kostnaði sem innheimtur er vegna úræðanna haldið í lágmarki.

Alþýðusambandið telur með öllu óásættanlegt að kröfuhafar geti nýtt sér þá neyð sem blasir við mörgum heimilum við núverandi aðstæður. ASÍ mun á næstunni fylgjast náið með þeim greiðsluerfiðleikaúrræðum sem boðið verður upp á og þeim þjónustugjöldum sem innheimt verða vegna þeirra.

 

The union´s office is closed for visits

Because of the Covid 19 epidemic the unions in Þingeyjarsýsla have decided to limit it´s members access to the unions staff by shutting off all visits to the office indefinitely. This decision was made to ensure the welfare of the unions members.

The unions continue to provide it´s services the best way possible through the telephone and digitally.

If you need to turn in applications for sickness benefits, get counseling or other errands you can email us. Furthermore, a mailbox has been placed next to the enterance to the union´s office where members can return keys to the union´s flats as well as other data that members choose to turn in on paper rather than digitally, like applications for  grants or summer houses.

Aðalsteinn Árni Baldursson                         kuti@framsyn.is

Jónína Hermannsdóttir                                nina@framsyn.is

Linda M. Baldursdóttir                                  linda@framsyn.is

Aðalsteinn J. Halldórsson                             adalsteinn@framsyn.is

Haukur Sigurgeirsson                                    Bokhald@framsyn.is

Ágúst S. Óskarsson                                         virk@framsyn.is

We will also put news and other information on the union´s website, www.framsyn.is as well as Framsýn´s Facebook page. The office´s telephone number is 4646600.

We ask members for understanding of this impaired service.

The union´s staff

 

 

 

 

 

Skrifstofa stéttarfélaganna lokar fyrir heimsóknir

Vegna Covid-19 faraldursins hafa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum ákveðið að takmarka aðgengi  félagsmanna að starfsmönnum skrifstofunnar með því að loka fyrir heimsóknir á skrifstofuna um óákveðin tíma. Þetta er gert með velferð félagsmanna að leiðarljósi.

Stéttarfélögin munu halda úti þjónustu eins og kostur er í gegnum síma og með rafrænum hætti.

Ef þið þurfið að skila inn umsóknum vegna greiðslna úr sjúkrasjóði, fá ráðgjöf eða aðrar upplýsingar má senda okkur tölvupóst. Þá hefur einnig verið komið upp póstkassa við hurðina á Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem hægt er að skila inn lyklum af íbúðum og öðrum gögnum sem berast þurfa stéttarfélögunum s.s. umsóknum um styrki eða orlofshús velji menn að skila þeim í pappírsformi.

 Aðalsteinn Árni Baldursson                        kuti@framsyn.is  

Jónína Hermannsdóttir                                 nina@framsyn.is

Linda M. Baldursdóttir                                  linda@framsyn.is

Aðalsteinn J. Halldórsson                             adalsteinn@framsyn.is

Haukur Sigurgeirsson                                     Bokhald@framsyn.is

Ágúst S. Óskarsson                                          virk@framsyn.is

Við munum einnig setja inn fréttir og upplýsingar inn á heimasíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is eftir þörfum og á facebooksíðu félagsins. Símanúmerið er 4646600.

Beðist er velvirðingar á þessari skertu þjónustu við félagsmenn stéttarfélaganna.

Starfsfólk stéttarfélaganna

Ágætu ríkisstarfsmenn innan Framsýnar – munið að kjósa

Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn sem undirritaður var við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs 6. mars síðastliðinn er hafinn. Samningurinn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkinu. Afar mikilvægt er að félagsmenn taki þátt í atkvæðagreiðslunni. Það er gert með því að smella á hlekkinn í bleika borðanum hér að ofan. Til þess að geta greitt atkvæði verður svo að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Atkvæðagreiðslan klárast fimmtudaginn 26. mars næstkomandi klukkan 16:00. Hægt er að kjósa utankjörfundar á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Formaður Framsýnar gestur Rauða borðisins

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar var enn viðmælanda Gunnars Smára Egilssonar hjá Rauða borðinu. Rauða borðið er vefþáttur sem hýstur er á Facebook. Fleiri gestir voru í þættinum en auk Aðalsteins voru þar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins.

Fyrir notendur Facebook er hægt að horfa á þáttinn með því að smella hér.

Við minnum á facebook síðu Framsýnar

Við viljum minna lesendur á Facebook síðu Framsýnar. Þar er helstu fréttum og upplýsingum deilt reglulega. Nú þegar hafa tæplega 1.600 manns „líkað við‟ síðuna og fá þá allar helstu upplýsingar sjálfkrafa beint í æð. Við hvetjum lesendur sem ekki hafa líkað við síðuna að gera það og fá þannig enn betri aðgang að upplýsingum um starfsemi stéttarfélaganna sem á ekki síst við á þessum víðsjárverðum tímum.

Reiknivél vegna skerðingar á starfshlutfalli

Nú liggur fyrir að fjölmörg fyrirtæki, munu nýta sér breytingar á lögum nr.54/2006 um atvinnuleysistryggingar eða svokallaðar Hlutabætur.

En þessi lög eiga að hjálpa fyrirtækjum að halda ráðningarsamningi við sitt starfsfólk við þessar fordæmalausu aðstæður sem upp hafa komið vegna COVID 19.

Stéttarfélögin vilja hvetja félagsmenn sína til þess að kynna sér réttarstöðu sína vel og vandlega en fjölmargar upplýsingar er hægt að finna inná vef ASÍ.

Einnig er komin upp reiknivél sem félagsmenn geta notað til að sjá hvernig hlutbætur koma út miðað við skert starfshlutfall.

Reiknivélin virkar þannig að fólk slær inn núverandi starfshlutfall og síðan inn skert starfshlutfall og mánaðarlaun, þá á fólk að geta séð hvernig laun frá atvinnurekenda og frá atvinnuleysistryggingarsjóði koma út í heildina. Rétt er að ítreka það að laun frá 400.000 kr. og niður munu ekki skerðast.

Kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögum varðandi AÞ

Framsýn hefur ákveðið að kalla eftir upplýsingum frá þeim sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum sem eiga aðild að Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga varðandi ákvarðanatöku sveitarfélaganna að sameina félagið Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Almenn óánægja er með þessa ákvörðun sveitarfélaganna. Þá telja stéttarfélögin að þau hafi verið svikin þar sem þau samþykktu að gefa eftir hlutafé í atvinnuþróunarfélaginu þegar sveitarfélögin lögðu til að formi atvinnuþróunarfélagsins yrði breytt  úr hlutafélagi í sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri í Þingeyjarsýslum. Megin rökin fyrir samþykktinni voru þau að þannig stuðlaði starfsemin að þéttara samstarfi sveitarfélaganna á starfssvæðinu og kjörnir sveitarstjórnarmenn fengju meiri innsýn varðandi starfsemina í Þingeyjarsýslum. Eftir þessa samþykkt, sem menn héldu að væri komin til að vera, gengu sveitarfélögin enn lengra með því að sameina atvinnuþróunarfélagið, Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar í andstöðu við stéttarfélögin.

Í bréfi stéttarfélaganna til sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum kemur fram:

Stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum hefur lengi verið umhugað um byggða- og atvinnumál í Þingeyjarsýslum. Liður í því hefur verið virk þátttaka í starfi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Á sínum tíma var lagt að stéttarfélögunum að koma að starfseminni með hlutafé sem þau og gerðu ásamt sveitarfélögum, einstaklingum og öðrum félagasamtökum.

Á grundvelli samþykktar fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga bs. 8. nóv. 2017 var formi atvinnuþróunarfélagsins breytt  úr hlutafélagi í sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Megin rökin fyrir samþykktinni voru þau að þannig stuðlaði starfsemin að þéttara samstarfi sveitarfélaganna á starfssvæðinu og kjörnir sveitarstjórnarmenn fengju meiri innsýn varðandi starfsemina. Þrátt fyrir að stéttarfélögin væru þeirrar skoðunar á þeim tíma, að halda ætti starfsemi atvinnuþróunarfélagsins í óbreyttu formi, féllust þau á að fara þessa leið. Enda markmiðið með breytingunum ekki síst að efla starfsemina í heimabyggð svo vitnað sé í umræðuna sem átti sér stað innan byggðaráðs Norðurþings, sameining til Eyjarfjarðar var ekki talin vænlegur kostur:

Ekki síst í ljósi þessar umræðu töldu stéttarfélögin rétt að gefa eftir sitt hlutafé og ganga þessa vegferð með sveitarfélögunum sem vissulega bera ábyrgð á starfsemi Atvinnu-þróunarfélagsins umfram aðra enda að mestu eigendur félagsins. Reyndar hafa sveitarfélögin alltaf lagt mikið upp úr góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á svæðinu er varðar starfsemi AÞ.

Eins og fram hefur komið tóku sveitarfélögin hins vegar u beygju í málinu og ákváðu að fara leiðina sem varað var við á fundi byggðaráðs Norðurþings og vitnað er til í bréfi þessu, það er að sameinast Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.

Því má segja að sveitarfélögunum hafi tekist að leika á stéttarfélögin sem í góðri trú lögðu í þessa vegferð með því að gefa eftir sitt hlutafé enda stefnan tekin á að efla starfsemina í heimabyggð en ekki að sameina hana öðrum stofnunum á Norðurlandi.

Með þessu bréfi kallar Framsýn stéttarfélag eftir fundargerðum þeirra sveitarfélaga sem tengjast málinu sem varðar ákvörðun þess efnis að leggja af starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í þeirri mynd sem verið hefur og sameinast Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.

Þetta eru sveitarfélögin; Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit, Langanesbyggð, Tjörneshreppur og Svalbarðshreppur.

Beðið er um staðfestingu á því að sameining AÞ við Eyþing og AE hafi verið formlega tekin fyrir í viðkomandi sveitarstjórn og samþykkt með formlegum hætti enda um grundvallar ákvörðun að ræða sem fellur undir ákvarðanatöku sveitarstjórna.

Þess er vænst að bréflegt svar við fyrirspurninni liggi fyrir í síðasta lagi 31. mars 2020.

 

 

 

Aðgerðarhópur heimamanna fundaði í morgun

Fulltrúar frá sveitarfélögum, stéttarfélögum og SANA sem stendur fyrir samtök atvinnurekanda í Þingeyjarsýslum komu saman í morgun til að ræða stöðuna á svæðinu vegna COVID 19 veirunnar. Þessir aðilar hafa myndað samstarfshóp sem ætlað er að funda vikulega og fara yfir stöðu mála, það er að miðla upplýsingum milli aðila og hvernig best sé að bregðast við aðstæðum á hverjum tíma.

Fulltrúar frá Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Skútustaðahrepp, Tjörneshrepp, Sana og Framsýn komu saman á fjarfundi í morgun til að fara yfir stöðu mála.

Formenn SGS fóru yfir stöðuna í morgun

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands fóru yfir stöðuna sem komin er upp í þjóðfélaginu vegna Covid 19 veirunnar. Fundað var í gegnum svokallað zoom kerfi í morgun. Magnús M. Norðdahl deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ satt einnig fundinn og svaraði fyrirspurnum fundarmanna. Fram kom að starfsfólk stéttarfélaganna er að gera sitt besta til að þjónusta félagsmenn og ekki síður fyrirtæki sem í stórum stíll hafa leitað til stéttarfélaganna eftir upplýsingum er varðar stöðu fyrirtækja og þar með starfsmanna við þær fordæmalausu aðstæður sem atvinnulífið býr við um þessar mundir. Ljóst er að mikið álag er á starfsmönnum stéttarfélaganna sem leitast við að gera sitt besta til að þjónusta félagsmenn og þá aðra sem þurfa á þjónustu félaganna að halda.

 

 

Skrifstofa stéttarfélaganna -Viðbrögð við Covid 19 veirunni-

Þar sem mikil óvissa ríkir í þjóðfélaginu vegna Covid 19 veirunnar viljum við biðja þá sem þurfa á aðstoð stéttarfélaganna að halda að fylgjast vel með heimasíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is þar sem til greina kemur að draga úr þjónustu við félagsmenn tímabundið vegna aðstæðna s.s með lokun. Frekari upplýsingum til félagsmanna verður komið á framfæri við þá á heimasíðunni á hverjum tíma.

Stéttarfélögin