Þó líði ár og öld – stórafmæli í dag

Í dag fögnum við 110 ára sögu verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum en húsvískir daglaunamenn réðust í að stofna með sér félag um stéttbundin hagsmunamál sín þann 14. apríl 1911, Verkamannafélag Húsavíkur. Sömu leið ákváðu verkakonur á Húsavík að ganga er þær nokkrum árum síðar, eða 28. apríl 1918 stofnuðu með sér eigið félag undir nafninu Verkakvennafélagið Von. Er tímar liðu taldi verkafólk við Skjálfanda hag sínum betur borgið í einni öflugri fylkingu með sameiningu félaganna vorið 1964 sem fékk heitið Verkalýðsfélag Húsavíkur.

Saga verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum er um margt mjög merkileg. Allt frá fyrstu tíð höfðu bæði Verkamannafélagið og Verkakvennafélagið Von á stefnuskrám sínum að sinna kaupgjaldsmálum félagsmanna. En þeim var jafnljóst að hagsbótina mátti einnig sækja í aðra staði, s.s. með samtryggingarsjóðum, hagkvæmri verslun, samhjálpar- og menningarstarfi fyrir félagsmenn og afskiptum af málefnum bæjarfélagsins. Á slíkt lögðu félögin engu síðri áherslu en sjálfa kaupgjaldsbaráttuna. Eftir sameiningu verkakvenna- og karla árið 1964, þar sem allt almennt verkafólk fór fram undir sama merki jókst slagkraftur félagsins til muna.

Síðan þá hafa enn frekari sameiningar orðið innan hagsmunasamtaka verkafólks í Þingeyjarsýslum og starfsemin vaxið og dafnað. Þann 1. maí 2008 sameinuðust Verkalýðsfélag Raufarhafnar,  Verkalýðsfélag Öxarfjarðar,  Verslunarmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Húsavíkur endanlega undir heitinu  Framsýn stéttarfélag og spannar

félagssvæðið um 18% landsins, allt frá Vaðlaheiði í vestri að Raufarhöfn í austri.

Rúmlega öld er liðin frá því að frumherjarnir stigu fram og sýndu það áræði að stofna með sér félag sem hafði það að markmiði að gæta hagsmuna verkafólks. Það þurfti kjark í þá daga fyrir fátækt fólk og skuldugt að rísa upp og krefjast bættra kjara af vinnuveitendum sínum. Eitt af því sem okkur ber að varðveita er saga þessa fólks sem markaði sporin og lagði þann grunn sem við byggjum á í dag.

Strax í upphafi snerust helstu umræðuefni á fundum félaganna um eflingu atvinnulífs, mannlífs, vöxt og viðgang svæðisins. Með tímanum rótfestist sú áhersla í starfi þeirra og allar götur síðan hafa þau, og síðar Framsýn- stéttarfélag, haft mikil áhrif á alla umræðu um atvinnu- og kjaramál enda notið mikillar virðingar, ekki bara meðal félagsmanna heldur alls samfélagsins svo vitnað sér í orð þáverandi forseta Íslands, Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar sem lét þessi orð falla á 100 ára afmælishátíð Framsýnar þegar hann lauk lofsorði á starfsemi og málflutning félagsins.

„Rödd Framsýnar sem netmiðlar og ljósvakinn varpa um þjóðartorgið, hefur verið rómsterk og áhrifarík og á stundum verið sú samviska launafólks sem á þurfti að halda þegar miklar ákvarðanir voru í vændum. Á slíkum stundum þarf sterka rödd til að flytja skoðanir fólksins á vinnustöðunum. Það er rödd fólksins sem þarf að heyrast. Í þessum efnum hefur verkalýðsfélagið ykkar á síðustu misserum og árum verið til fyrirmyndar. Það er merkilegt hlutverk og mikilvægt verkefni fyrir félag sem hefur náð þessum virðulega aldri en er samt ungt í anda og athöfn, að verða þannig, í krafti sinnar eigin getu og upplýsingatækninnar, áhrifaríkur málsvari fyrir launafólk í landinu öllu.“   

Sem fyrr ber það hæst í starfi Framsýnar, sem það tók í arf frá forverum sínum þar sem helstu áhersluatriðin snúa að vexti og viðgangi atvinnulífsins auk samhjálpar, sem nú er rekin í mynd lífeyrissjóða, sjúkrasjóða og margvíslegra félagslegra réttinda og fræðslustarfs. Félagið hefur verið virkur þátttakandi og jafnvel verið frumkvæðisaðili að ýmsum meiriháttar atvinnufyrirtækjum í Þingeyjarsýslum, fyrirtækjum sem skipt hafa sköpum fyrir viðgang svæðisins.  Þráðurinn til upphafsins hefur ekki slitnað. Velferð félagsmanna og samfélagsins alls er enn þann dag í dag það markmið sem félagið setur í öndvegi.

Á síðari áratugum hefur viðfangsefnum íslenskrar verkalýðshreyfingar fjölgað og allt starf verkalýðsfélaga orðið faglegra í eðli sínu, jafnvel sérfræðilegt í sumum tilvikum. Hreyfing launafólks í Þingeyjarsýslum hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Framsýn hefur vaxið og eflst og starfsemi þess orðið margþættari með tímanum. Á fjórða þúsund félagsmanna er innan félagsins sem í dag er talið eitt af öflugustu stéttarfélögum landsins enda hafa umsvif þess aldrei verið meiri en um þessar mundir, félagsmönnum til hagsbóta. Verulega hefur fjölgað í félaginu á umliðnum árum enda eftirsóknarvert að vera félagsmaður.  Það kraftmikla starf sem fram fer á vegum félagsins er ekki síst því að þakka að mikill áhugi er meðal félagsmanna að starfa fyrir félagið, sem er virðingarvert og ber að þakka sérstaklega fyrir.

Á tímamótum sem þessum er full ástæða til að óska félagsmönnum og Þingeyingum öllum til hamingju með afmælið, það er árangursríka verkalýðsbaráttu vinnandi fólks í 110 ár.

Baráttan fyrir fullum jöfnuði og almennu jafnrétti mun fylgja okkur áfram inn í framtíðina auk þess sem við komum til með að þurfa að takast á við nýjar áskoranir sem fylgja breyttu samfélagi. Við höfum mikið verk að vinna hvað þessa þætti varðar og aðra þá sem stuðlað geta að því að gera samfélagið okkar enn betra fyrir komandi kynslóðir. Rödd Framsýnar verður án efa áfram rómsterk og áhrifarík um ókomna tíð.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Formaður fundaði með stjórnendum Húsasmiðjunnar

Athygli vakti á dögunum þegar fréttir bárust af því að Húsasmiðjan hefði sagt upp leigu á verslunarhúsnæði fyrirtækisins á Húsavík. Viðbrögð heimamanna létu ekki á sér standa enda afar mikilvægt að Húsasmiðjan haldi úti öflugri verslun á Húsavík. Mikill uppgangur hefur verið á svæðinu á undanförnum árum sem ekki er séð fyrir endann á. Hér er ekki síst verið að vísa til uppbyggingarinnar á Bakka og Þeistareykjum. Samhliða hafa verið töluverðar framkvæmdir í byggingariðnaði á svæðinu auk þess sem milljarða framkvæmdir standa nú yfir í Kelduhverfi og Öxarfriði er tengjast uppbyggingu í fiskeldi á landi. Þá eru stórar framkvæmdir á teikniborðinu s.s. uppbygging hjúkrunarheimilis á Húsavík, Þörungaverksmiðja auk annarra smærri verkefna.  Óhætt er að segja að það sé bjart framundan í byggingariðnaði í Þingeyjarsýslum og því ekki síst mikil þörf fyrir öfluga byggingarvöruverslun. Nýlega kom fram í fjölmiðlum að síðasta ár hefði verið eitt það besta í sögu Húsasmiðjunnar, byggingarvöruverslunin hefði velt um 20 milljöðrum og hagnaður fyrir skatt hefði verið um 900 milljónir og þá hafi veltan aukist um 7% milli ára sem eru afar jákvæðar fréttir.

Með þessar upplýsingar í bakpokanum gekk formaður Framsýnar á fund yfirmanna Húsasmiðjunnar í Reykjavík og hvatti þá til þess að efla starfsemi verslunarinnar á Húsavík. Fundurinn fór fram síðasta fimmtudag. Áður hafði málið verið til umræðu innan stjórna Framsýnar og Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum auk þess sem formaður Framsýnar fundaði með starfsmönnum Húsasmiðjunnar á Húsavík. Einnig náðist að funda með nokkrum verktökum í Þingeyjarsýslum um stöðuna. Alls staðar kom fram mikill velvilji í garð Húsasmiðjunnar. Að sjálfsögðu höfðu menn skoðanir á vöruúrvalinu og þjónustu við viðskiptavini. Það mætti alltaf bæta þann þátt.

Fundur formanns Framsýnar með forsvarsmönnum Húsasmiðjunnar var vinsamlegur í alla staði. Skilaboðunum var vel tekið. Fram kom að Húsasmiðjan væri með verslunarreksturinn til skoðunar og ekkert hefði verið ákveðið endanlega varðandi starfsemina á Húsavík en staðbundni reksturinn hafi reynst þungur undanfarin ár í harðri verðsamkeppni við stærri verslanir, pantanir afgreiddar annars staðar frá og aukna netverslun. Stéttarfélögin óskuðu eftir því að fá að fylgjast með framvindu mála og starfsmenn Húsasmiðjunnar á Húsavík yrðu upplýstir um stöðuna á hverjum tíma.

Vilt þú vera fulltrúi Framsýnar á ársfundi Lsj. Stapa?

Ársfundur Lsj. Stapa verður haldinn miðvikudaginn 5. maí í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Framsýn á rétt á 12 fulltrúum á fundinn. Hér með er skorað á félagsmenn sem jafnframt eru sjóðfélagar í Lsj. Stapa til að gefa kost á sér á fundinn fh. félagsins. Áhugasamir hafi samband við formann Framsýnar, Aðalstein Árna sem fyrst en Framsýn þarf að tilkynna fulltrúa félagsins í síðasta lagi 21. apríl. Til viðbótar má geta þess að ársfundurinn er opinn öllum sjóðfélögum með málfrelsi og tillögurétti.

Fundað um flugmál og verslunarrekstur

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar fimmtudaginn 15. apríl kl. 17:00 ásamt stjórn Framsýnar- ung. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Málefni Flugfélagsins Ernis – áætlunarflug til Húsavíkur

-Fundur með forsætisráðherra

-Fundur með forstjóra Samkeppniseftirlitsins

-Fundur með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

-Bréf til þingmanna

4. Ársfundur Lsj. Stapa

5. Málefni Húsasmiðjunnar

-Fundur með stjórnendum Húsasmiðjunnar

6. Fréttabréf stéttarfélaganna

7. Frumvarp um lífeyrissjóðsmál

8. Kjör trúnaðarmanns hjá Eimskip

9. Afmæli félagsins

10. Heimsókn forsetateymis ASÍ

10. Önnur mál

-Innleiðing á vinnutímabreytingum hjá ríki/sveitarfélögum

-Aðalfundur Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum

-Afmælishátíð

Skráning stendur yfir á námskeiðið Áfram ég !

Félagsmönnum aðildarfélaga Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar og Sjómenntar bjóðast þetta námskeið sér að kostnaðarlausu. Það þýðir að félagsmenn Framsýnar eru í góðum málum og geta tekið þátt í þessu magnaða námskeiði.

Vefnámskeið í beinni

Námskeiðið verður haldið dagana:

21. apríl – 28. apríl – 5. maí – 12. maí

Kl.16.00.-19.00.

Stutt kynning á námskeiðinu má sjá HÉR

Frekari upplýsingar má sjá HÉR

Skráning á www.rmradgjof.is

Gamli og nýi tíminn

Þegar fréttaritari heimasíðu stéttarfélaganna átti leið um Hafnarfjarðarhöfn í dag máti sjá tvö öflug fiskiskip í höfninni sem tengjast hingað norður. Annars vegar  var það Þorsteinn ÞH 115 sem hefur alla tíð heitið þessu nafni, fyrst EA 15, því næst GK 15 og nú síðustu árin ÞH 115. Útgerð og eigandi er útgerðarfyrirtækið Önundur ehf. á Raufarhöfn. Bát­ur­inn er einn af minni Svíþjóðarbát­un­um svo­nefndu, en hann var smíðaður árið 1946 og er elsti bát­ur flot­ans sem gerður er út til fisk­veiða. Þorsteini ÞH hefur alla tíð verið vel við haldið og var glæsilegur í Hafnarfjarðarhöfn eftir góða vertíð.

Við næsta bryggjukant í Hafnarfirði mátti sjá Jökul ÞH 299 sem  GPG Seafood ehf. á Húsavík festi nýlega kaup á og verður gerður út frá Raufarhöfn. Skipið hét áður Nanok og er ísfisk- og frystiskip. Það er smíðað árið 1996 og er 45×11 metrar á lengd og breidd. Um er að ræða hreina viðbót við skipaflota GPG og til þess ætlað að auka hráefnisöflun fyrirtækisins. GPG starfrækir flaka- og hrognavinnslu á Raufarhöfn, saltfiskvinnslu og fiskþurrkun á Húsavík og dótturfélagið Þórsnes í Stykkishólmi starfrækir salfiskvinnslu í Stykkishólmi og útgerð.  Fyrir réttu ári keypti GPG Halldór fiskvinnslu á Bakkafirði. Eftir því sem best er vitað mun Jökull sigla til heimahafnar á Raufarhöfn á næstu vikum en unnið er að alls konar viðgerðum um borð í skipinu sem hafa tekið lengri tíma en áætlað var í fyrstu. Til viðbótar má geta þess að GPG er að láta smíða nýjan línubát. Reiknað er með að nýi línu­bát­urinn verði af­hent­ur á árinu. Um er að ræða plastbát sem verður 13,25 metr­ar að lengd, 5,5 metr­ar að breidd og vega 29,9 brútt­ót­onn. Báturinn verður mjög glæsilegur í alla staði. Sem betur fer er mikill kraftur í starfsemi GPG Seafood, ekki síst á Húsavík og Raufarhöfn.

Þorsteinn ÞH á sér langa og farsæla útgerðarsögu frá Raufarhöfn og fleiri höfnum á Íslandi þar sem báturinn hefur verið gerður út á veiðar.

Gamli og nýi tíminn, Þorsteinn ÞH 115 frá Raufarhöfn sem er elsta skipið sem gert er út á fiskveiðar á Íslandi og nýjasta skipið í flotanum hér norðan heiða, Jökull ÞH 299 sem gerður verður út frá Raufarhöfn en skipið er væntanlegt til heimahafnar á næstu vikum eftir því sem best er vitað.

Vinnustaðaheimsókn

Formaður Framsýnar fór í vinnustaðaheimsókn til starfsmanna Húsasmiðjunnar í gær. Mikilvægur þáttur í starfi félagsins eru heimsóknir sem þessar auk þess sem mikið er lagt upp úr kynningu á tilgangi stéttarfélaga fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hefur ekki mikið verið um vinnustaðaheimsóknir eða almenna fræðslu um verkalýðsmál undanfarna mánuði. Vonandi kemur fljótlega að því að menn geti farið að lifa eðlilegu lífi og tímabili Covid ljúki.

Á fundi formanns Framsýnar með starfsmönnum Húsasmiðjunnar var almennt farið yfir stöðuna og þær fréttir sem birtust í fjölmiðlum um að til skoðunar væri að loka verslun Húsasmiðjunnar á Húsavík. Sú frétt kom mörgum á óvart, ekki síst starfsmönnum. Framsýn hefur kallað eftir upplýsingum frá forsvarsmönnum Húsasmiðjunnar um stöðu mála og framtíðaráform hvað verslunarrekstur varðar á Húsavík.

Þeir fiska sem róa

Það hefur víða aflast vel undanfarið. Einn af þeim togbátum sem hefur fiskað vel er Pálína Þórunn GK 49 sem er í eigu Nesfisks og gerður út frá Sandgerði. Pálína Þórunn hefur verið á veiðum á grunnslóð uppá síðkastið og fiskað vel og flestir túrar endað með fullfermi eftir stutta útiveru. Trúnaðarmaður um borð er Aðalsteinn Pálsson sem sendi okkur þessar skemmtilegu myndir af lífinu um borð. Hann sagði í nægu að snúast um borð enda fiskiríið afar gott.

Vilja sjá Húsasmiðjuna eflast á Húsavík

Stjórn Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum kom saman til fundar í gær. Tekin voru fyrir nokkur mál. Umræður urðu um fréttir sem borist hafa um að Húsasmiðjan sé með til skoðunar að fækka verslunum fyrirtækisins á Íslandi, þar á meðal á Húsavík. Í máli stjórnarmanna kom fram að það væri verulega óheppilegt. Sögðust þeir vonast til þess að svo yrði ekki. Þess í stað væri mikilvægt að efla starfsemina á Húsavík. Í máli Aðalsteins Árna starfsmanns félagsins kom fram að hann hefur verið í sambandi við stjórnendur Húsasmiðjunnar um áform fyrirtækisins hvað frekari verslunarrekstur varðar á Húsavík.

Á fundinum urðu einnig umræður um Rekstraráætlun Skrifstofu stéttarfélaganna,

fjármál Þingiðnar og ávöxtun á fjármunum félagsins en gengið hefur verið frá samningum við Íslandsbanka og Sparisjóð Suður Þingeyinga um vaxtakjör á innistæðum félagsins hjá þessum fjármálastofnunum. Að mati stjórnar eru þau ásættanleg miðað við aðstæður í þjóðfélaginu.

Ákveðið var að stefna að því að halda aðalfund félagsins í lok maí en unnið er að því að klára bókhaldið fyrir árið 2020.

Miklar umræður urðu um stöðuna á áætlunarfluginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur með Flugfélaginu Erni. Stjórnarmenn höfðu áhyggjur af stöðunni þar sem ákveðin öfl virðast vinna gegn áframhaldandi flugi til Húsavíkur. Ákveðið var að fylgja málinu eftir og kalla eftir upplýsingum vegna málsins frá yfirvöldum.

Fyrir liggur vegna aðstæðna í þjóðfélaginu að ekki verður hægt að halda hátíðarhöldin á Húsavík í ár á baráttudegi verkafólks 1. maí sem er miður að mati stjórnar.

Hins vegar fagnar stjórnin ákvörðun PCC um að hefja á ný framleiðslu í apríl sem skiptir verulega miklu máli fyrir samfélagið við Skjálfanda.

Þá urðu umræður um heimsókn forsetateymis ASÍ á dögunum til Húsavíkur þar sem fundað var með stjórnum Þingiðnar og Framsýnar um starfsemi Alþýðusambandsins auk þess sem almenn umræða varð um starfsemi og helstu áherslur í starfi Þingiðnar og Framsýnar á þessum undarlegu tímum. Forsetateymið er á ferðinni um landið í sömu erindagjörðum, það er að heyra hljóðið í stjórnum aðildarfélaga sambandsins. Í máli stjórnarmanna sem tóku þátt í fundinum kom fram að þeir hefðu verið ánægðir með fundinn. Meiri skilningur virtist vera á málefnum stéttarfélaganna á landsbyggðinni, væri tekið mið af fyrri fundum með forsvarsmönnum ASÍ. Heimsóknir sem þessar væru gagnslausar með öllu ef forsvarsmenn ASÍ hlustuðu ekki á raddir félagsmanna aðildarfélaga sambandsins.

Það hefur mikið verið byggt á félagssvæði Þingiðnar á síðustu árum, ekki er annað sjá en að uppbygging á svæðinu haldi áfram á komandi árum. Ekki síst þess vegna kallar stjórn Þingiðnar eftir því að Húsasmiðjan efli verslun fyrirtækisins á Húsavík. Málið var til umræðu á stjórnarfundi í gær.

Líf á ný við höfnina

PCC á Bakka mun hefja framleiðslu á ný í næsta mánuði. Síðustu vikurnar hefur fyrirtækið unnið að því að ráða starfsmenn sem eru afar gleðilegar fréttir enda mikið atvinnuleysi til staðar á Íslandi um þessar mundir. Starfsemi PCC  fylgir mikil umsvif á svæðinu, ekki síst hjá þjónustufyrirtækjum og undirverktökum og þá fylgir starfseminni jafnframt töluverðir flutningar í gegnum höfnina. Í morgun máti sjá skip í Húsavíkurhöfn sem var að koma með aðföng til PCC. Annað skip beið á Skjálfanda eftir því að komast að bryggju. Það er því óhætt að segja að aukið líf sé að færast yfir samfélagið við Skjálfanda sem er hið besta mál í alla staði. Síðan væri óskandi að ferðaþjónustan næði sér á strik í sumar og Covid léti sig hverfa.

Það skiptir verulega miklu máli fyrir Húsavíkursvæðið og nærliggjandi sveitir og byggðarlög að PCC hefji starfsemi á ný eftir páska.

Snúningur tekin á SA

Formaður Framsýnar fundaði með fulltrúm Samtaka atvinnulífsins fyrir síðustu helgi um sérmál ákveðinna hópa innan ferðaþjónustunnar. Viðræðurnar fóru vel fram og frekari viðræður eru fyrirhugaðar eftir páskana.

Opið fyrir skráningu hjá NTV skólanum, námskeið í apríl

Opnað hefur verið fyrir skráningar á námskeiðin á slóðinni: http://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags 

Frekari upplýsingar um námskeiðin má finna á eftirfarandi slóð: http://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid

Félagsmönnum aðildarfélaga Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar og Sjómenntar bjóðast þessi námskeið sér að kostnaðarlausu.

Einstaklingar skrá sig hjá NTV skólanum og mun skólinn senda reikninga beint á skrifstofu fræðslusjóðanna

Námskeiðin sem um ræðir eru:

NámskeiðDagsetningarVikur
Bókhald Grunnur  21. apríl til 10. júní8 vikur
Digital Marketing  21. apríl til 26. maí5 vikur
Frá hugmynd að eigin rekstri(Gerð viðskiptaáætlunar)  21. apríl til 26. maí5 vikur

Öll námskeiðin (námsefni, verkefnavinna, verkefnaskil og samskipti) eru inni á nemendaumhverfi NTV skólans í gegnum nettengingu.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá NTV skólanum eða þínu stéttarfélagi og einnig hægt að leita upplýsinga hjá Huldu eða Kristínu á skrifstofu fræðslusjóðanna (s:599-1450).

Opnað fyrir umsóknir um orlofshús

Stéttarfélögin hafa opnað fyrir umsóknir um orlofshús/íbúðir sumarið 2021. Hægt er að nálgast allar upplýsingar og umsóknareyðublað á heimasíðunni. Umsóknareyðublöðin má nálgast hér. Umsóknarfresturinn er til 21. apríl. Í næstu viku er svo væntanlegt Fréttabréf til félagsmanna með sömu upplýsingum varðandi þá kosti sem verða í boði sumarið 2021, sumarhús, íbúðir og íbúð á Spáni. Þá verður einnig komið inn á  aðra afþreyingarkosti en framboðið verður óvenju mikið fyrir félagsmenn í sumar.

Ákveðið að fella niður formleg hátíðarhöld 1. maí

Vegna sóttvarnarreglna hafa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum ákveðið að fella niður formleg hátíðarhöld 1. maí í Íþróttahöllinni á Húsavík, það er á  baráttudegi verkafólks. Þetta var ákveðið á sameiginlegum fundi félaganna í gær. Þess í stað skora stéttarfélögin á félagsmenn að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar um leið og menn hafi það í huga að þau réttindi sem við búum við í dag komu ekki af sjálfu sér. Fyrir þeim börðust forfeður okkar sem við stöndum í þakkarskuld við. Að sjálfsögðu er svo skorað á alla sem það geta að flagga 1. maí.

Orlofshús á Spáni til leigu fyrir félagsmenn

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa aðgengi fyrir félagsmenn að tveggja herbergja íbúð í Alicante á Spáni. Um er að ræða íbúð á neðri hæð í litlu fjölbýli með nokkuð stóru útisvæði sem tilheyrir þessari íbúð eingöngu. Auk svefnherbergis er baðherbergi, rúmgóð stofa, eldhús og þvottahús með þvottavél. Í heildina eru svefnstæði fyrir fjóra í tvíbreiðu rúmi í herbergi og svefnsófa í stofunni. Í húsinu eru rúmföt og tuskur. Íbúðin er í lokuðum íbúðarkjarna með sér sundlaug og útisvæði. Frá flugvellinum í Alicante er um 40 km að íbúðinni. Auðvelt er að komast að henni frá flugvellinum með rútu, leigubíl eða bílaleigubíl. Margvísleg afþreying er á svæðinu, svo sem bátsferðir, skemmtisiglingar og fleira. Þá er í göngufæri verslunarkjarni þar sem finna má úrval verslana s.s. Primark og H&M. Einnig er stutt í matvöruverslanir s.s. Carrefour.

Verð á íbúð:
Sumartími frá 1. apríl – 30. september, vikuleiga kr. 56.000,- og hver dagur eftir það á kr. 7.000,-.
Vetrartími frá 1. október – 31. mars, vikuleiga kr. 42.000,- og hver dagur eftir það á kr. 5.000,-.

Frá þessu verði dragast til viðbótar sérkjör félagsmanna, kr. 1.500 per. dag sem gist er í íbúðinni. Félagsmenn geta fengið íbúðina leigða í allt að 14 daga enda sé hún laus. Ekki er vitlaust að miða tímabil dvalar við hvenær ódýrast er að fljúga til Alicante. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna og á skrifstofu Verkalýðsfélags Þórshafnar.

spann2012 105

Áskorun frá Árgangi 60 – söfnum fyrir endurbótum á Húsavíkurkirkju

Eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu er löngu tímabært að ráðast í verulegar endurbætur á Húsavíkurkirkju.  Ekki hefur verið gerð ítarleg verk- og kostnaðaráætlun en gróf kostnaðaráætlun vegna viðgerða á turni er um 10 milljónir.  Síðan þarf að halda áfram kostnaðarsömum viðgerðum á öðrum hlutum kirkjunnar. Fyrirliggjandi er að kostnaður við heildar framkvæmdir mun hlaupa á einhverjum tugum milljóna.  Kirkjan á hins vegar enga sjóði til að standa undir viðgerðum sem  þessum og þeir opinberu sjóðir sem hægt er að leita til vegna framkvæmda af þessu tagi eru févana. Því hafa verið stofnuð Hollvinasamtök Húsavíkurkirkju til að leggja þessu máli lið og afla fjár til hvers konar viðhalds og endurbóta á Húsavíkurkirkju.

Árgangur 1960 frá Húsavík hefur ákveðið að leggja þessari mikilvægu söfnun til 266.000 króna framlag um leið og skorað er á aðra árganga frá Húsavík að gera slíkt hið sama, það er að leggja söfnunarátakinu lið með fjárframlagi.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir stjórn Hollvinasamtaka Húsavíkurkirkju, hana skipa:

Heiðar Hrafn Halldórsson, sími: 866-7100, netfang: hezman10@gmail.com

Jóna Matthíasdóttir, sími: 866-1848, netfang: jonamatta@gmail.com

Sólveig Mikaelsdóttir, sími: 895-0466, netfang: solveigmikaels@gmail.com

Færðu gestunum glaðning úr heimahéraði

Þegar forsetar ASÍ voru á ferðinni á Húsavík í vikunni færði Framsýn þeim landbúnaðarvörur að gjöf úr héraðinu, það er frá Fjallalambi og Hveravöllum í Reykjahverfi. Með gjöfinni fylgdi hvatning til Alþýðusambandsins að standa vörð um íslenskan landbúnað, ekki síst þar sem fjöldi félagsmanna aðildarfélaga sambandsins starfar við landbúnað á Íslandi.

Ragnar Þór endurkjörinn formaður VR

Ragnar Þór Ingólfsson kom ásamt forsetateymi ASÍ til fundar við stjórnir Þingiðnar og Framsýnar á þriðjudaginn. Við það tækifæri færði formaður Framsýnar Ragnari Þór blómvönd frá félaginu en hann var nýlega endurkjörinn sem formaður VR til næstu tveggja ára eftir harða kosningabaráttu við Helgu Guðrúnu Jónasdóttir. Svo fór að Ragnar sigraði með miklum yfirburðum. Eftir að Ragnar Þór tók við VR fyrir nokkrum árum hafa félögin, Framsýn og VR, átt mjög gott samstarf um málefni launafólks og störfuðu m.a. þétt saman í síðustu kjarasamningum þegar svonefndur Lífskjarasamningur var gerður.

Sköpum 7000 störf strax!

Ríkisstjórnin kynnti þann 12. mars 2021 atvinnuátak undir yfirskriftinni „Hefjum störf“. Markmiðið er að með átakinu verði til allt að 7.000 tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Ráðgert er að verja um 4.500 – 5.000 milljónum króna til þessara aðgerða.

Sjá nánar á þessari vefsíðu Vinnumálastofnunar

Lítil og meðalstór fyrirtæki
Nú er auðveldara fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að ráða fólk og búa sig undir bjartari framtíð en fyrirtæki sem hafa færri en 70 starfsmenn geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur með ríflegum stuðningi. Hverjum nýjum starfsmanni fylgir allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð, í allt að sex mánuði og getur fyrirtækið ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til heildar starfsmannafjöldi hefur náð 70. Ráðningartímabilið er sex mánuðir á tímabilinu frá apríl til desember 2021.

Ráðningarstyrkir fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum Þá geta fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum nýtt sér ráðningarstyrki sem auðvelda atvinnurekendum að ráða starfsfólk og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem eru án atvinnu. Með ráðningarstyrk getur atvinnurekandi fengið fullar grunnatvinnuleysisbætur með hverjum atvinnuleitanda sem hefur verið án vinnu í 30 daga eða lengur í allt að sex mánuði með hverjum nýjum starfsmanni, eða 307.430 krónur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ekkert þak er á fjölda starfsmanna sem fyrirtæki geta ráðið með þessu úrræði.

Sveitarfélög og opinberar stofnanir
Til að koma til móts við þann hóp sem er við það að fullnýta bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur ekki fengið atvinnu við lok bótatímabilsins verður farið í sérstakar aðgerðir til að aðstoða einstaklinga í þessum hópi við að komast aftur inn á vinnumarkað. Þannig greiðir Vinnumálastofnun ráðningastyrk í allt að sex mánuði, og er heimilt að lengja um aðra sex fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, vegna ráðningu einstaklinga sem eru við það að ljúka bótarétti. Er stofnuninni heimilt að greiða ráðningarstyrki sem nema fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Skilyrði er að ráðinn sé einstaklingur sem á sex mánuði eða minna eftir af bótarétti.

Þá er sveitarfélögum einnig heimilt að ráða til sín einstaklinga sem fullnýttu bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingarkerfisins á tímabilinu 1. október. til 31. desember 2020.

Félagasamtök
Félagasamtök, sem rekin eru til almannaheilla og án hagnaðarsjónarmiða, er gert kleift að stofna til tímabundinna átaksverkefna í vor og sumar með ráðningarstyrk sem nemur fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Þá verður greitt 25% álag til þess að standa straum af kostnaði við verkefnin, svo sem við landvernd, viðhald göngustíga, landhreinsun, gróðursetningu, íþróttir og afþreyingu fyrir börn og unglinga og svo framvegis. Skilyrði fyrir ráðningarstyrk er að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur.

Sumarstörf fyrir námsmenn
Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og verður það kynnt síðar í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og aðra hagsmunaaðila.

Forsetateymi ASÍ fundaði á Húsavík

Það var öflugt lið sem kom til móts við stjórnir Framsýnar og Þingiðnar á fundi á Húsavík í gær. Stjórn Framsýnar-ung tók einnig þátt í fundinum. Forsetateymi ASÍ ásamt framkvæmdastjóra sambandsins Höllu Gunnarsdóttur litu við en þau eru á hringferð um landið. Tilgangur ferðarinnar er að funda með stjórnum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og heyra í þeim hljóðið og hvað brennur helst á þeim varðandi það sem betur má fara í starfi sambandsins. Á fundinum í gær skiptumst fundarmenn á skoðunum um málefni Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfingarinnar almennt auk þess sem starfsemi stéttarfélaga var til umræðu sem og atvinnuástandið sem er verulega slæmt um þessar mundir.

Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar kölluðu eftir meiri skilningi á stöðu félagsmanna innan stéttarfélaga á landsbyggðinni. Eðlilegt væri að ASÍ beitti sér fyrir meiri jöfnuði burt séð frá búsetu. Meðal annars var komið inn á þann mikla kostnað fólks sem fylgir því að sækja sér læknishjálp eða menntun fjarri heimabyggð, ekki síst fyrir láglaunafólk á landsbyggðinni.

Þá kom fram gagnrýni á Bjarg sem er íbúðafélag stofnað af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma. Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar komu þeim skilaboðum á framfæri að þeir vildu sjá Bjarg koma til móts við þarfir fólks sem víðast um landið, ekki bara nánast á höfuðborgarsvæðinu. Meðan svo væri stæði Bjarg ekki undir nafni sem kostur fyrir tekjulágar fjölskyldur að eignast öruggt húsaskjól.

Kallað var eftir því að öll störf á vegum ASÍ væru auglýst laus til umsóknar en óánægju hefur gætt innan hreyfingarinnar með að svo hafi ekki verið í öllum tilvikum.

Umræður urðu um síðasta þing ASÍ þar sem sú breyting varð á að ekki var lengur pláss fyrir forseta af landsbyggðinni eins og sátt hefur verið um fram að þessu. Núverandi forsetar ASÍ koma allir af höfuðborgarsvæðinu en þeim var fjölgað um einn á síðasta þingi sambandsins, það er varaforsetum sem eftir samþykktar breytingar eru þrír. Framsýn hefur haldið því fram að það sé óásættanlegt með öllu, sjónarmmið launþega á landsbyggðinni verði þar með undir í umræðunni, ekki síst varðandi stefnumótun ASÍ í stórum og þýðingarmiklum málum.

Þá töldu fulltrúar Framsýnar rétt að taka upp umræðu um launakjör annars vegar hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga og hins vegar á almenna vinnumarkaðinum. Fyrir liggur að launakjör fólks á almenna vinnumarkaðinum hafa dregist verulega aftur úr launakjörum starfsmanna hjá hinu opinbera. Fulltrúar Framsýnar komu þeim ábendingum á framfæri við forsetateymið að þetta væri varhugaverð þróun. Mikilvægt væri að gera átak í að bæta kjör starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum.  

Fulltrúar Framsýnar komu því skýrt á framfæri við forsetateymið að félagið legðist alfarið gegn því að endurvekja SALEK-samkomulagið í formi Grænbókar sem stjórnvöld hafa lagt mikið upp úr að nái fram að ganga. Nefnd um gerð grænbókar um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál var sett á laggirnar í nóvember í fyrra og ætlað að skila tillögum sínum til forsætisráðherra í apríl. Framsýn hefur verið afar gagnrýnin á SALEK-samkomulagið. SALEK er norrænt vinnumarkaðsmódel og er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Verði SALEK að veruleika dregur það úr vægi félagsmanna stéttarfélaga að hafa áhrif á sín mál er viðkemur kjarabaráttu sem er andstætt þeim reglum sem hafa gilt á íslenskum vinnumarkaði fram að þessu. Eðlilega hugnast Framsýn ekki þess vegferð í nafni SALEK að draga úr vægi launamanna að hafa áhrif á sín mál, reyndar eru skiptar skoðanir um málið innan hreyfingarinnar.

Í heildina var fundurinn góður og þess er vænst að forsetateymið fylgi eftir þeim áherslum sem fram komu á fundinum.

Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ er hér með forsetunum; Kristján Þórður Snæbjarnarson, Drífa Snædal, Sólveig Anna Jónsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson.

Forsetateymi ASÍ fundaði með stjórnum Þingiðnar, Framsýnar og Framsýnar-ung í gærkvöldi. Fundurinn fór vel fram og skiptust menn á skoðunum um málefni verkalýðshreyfingarinnar.

Guðmunda formaður Framsýnar-ung og Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ hugsandi yfir ræðu formanns Framsýnar sem væntanlega hefur ekki verið gáfuleg.