Eðalvagn til sölu

Til sölu er bifreið stéttarfélaganna sem er Nissan Qashqai HOF01 árgerð 2008. Þessi eðalvagn er keyrður 215.000 km. Ásett verð er kr. 650.000,-. Að sjálfsögðu munum við skoða önnur tilboð í bifreiðina. Frekari upplýsingar gefur Aðalsteinn Árni Baldursson á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Gengið frá samkomulagi í dag við PCC

Fulltrúar Framsýnar/Þingiðnar gengu í dag frá samkomulagi við PCC um framkvæmd á vinnutímastyttingu sem tekur gildi um næstu mánaðamót meðal starfsmanna PCC á Bakka og samið var um í síðustu kjarasamningum að tæki gildi 1. október 2020.

Samkvæmt samkomulaginu styttist vinnutíminn um 6 virka daga eða 48 dagvinnustundir á ársgrundvelli. Þegar mest var störfuðu um 150 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Eins og fram hefur komið í fjölmiðum var 80 starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp í sumar og hafa uppsagnirnar verið að koma til framkvæmda. Á næstu mánuðum munu því um 50 til 60 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu við  viðhald, rekstur og önnur störf innan fyrirtækisins.

Samkvæmt samkomulaginu styttist virkur vinnutími 1. október 2020 úr 37 klst. og 5 mín. á viku í 36 klst. að meðaltali á viku eða 156 klst. á mánuði m.v. meðalmánuð án skerðingar á mánaðarlaunum starfsmanns. Vinnutímastytting leiðir ekki til breytinga á vaktakerfi, fjölda dag- og yfirvinnustunda eða mánaðarlaunum.

Vinnutímastyttingu vaktavinnumanna verður safnað upp með þeim hætti að starfsmaður fær frí sem nemur heilum vöktum. Samkomulag er um að vinnutímastytting í 12 klst. vaktakerfi nemi fjórum 12 klst. vöktum m.v. fullt ársstarf. Starfsmaður heldur dagvinnulaunum með vaktaálagi, án yfirvinnugreiðslna.

Hjá dagvinnumönnum getur vinnutímastytting komið til framkvæmda sem styttri vinnutími viku hverja, mánaðarleg stytting eða annað fyrirkomulag sem ákveðið verður að höfðu samráði við starfsmenn. Miðað við fullt ársstarf er samkomulag um að vinnutímastytting nemi sex dögum á dagvinnulaunum, án yfirvinnugreiðslna (eða fjórum vinnudögum m.v. 10 klst. vinnudag).

Frívaktir / frídagar vegna vinnutímastyttingar skulu teknar innan 14 mánaða frá því rétturinn skapaðist. Óteknar frívaktir / frídagar skuli gerðar upp við starfslok.

Frívaktir skulu teknar í samráði við næsta yfirmann í tilfellum vaktavinnumanna og miðað er við að frívaktar sé óskað með að lágmarki tveggja vikna fyrirvara.

Hjá dagvinnumönnum er almenna reglan að stytting sé tekin út á sama hátt og hjá skrifstofufólki með styttri vinnudegi á föstudögum, en annars í samráði við næsta yfirmann.

Það voru Dögg Stefánsdóttir mannauðsstjóri PCC og Rúnar Sigurpálsson forstjóri PCC sem gengu frá samningnum í dag fyrir hönd fyrirtækisins. Frá stéttarfélögunum Framsýn og Þingiðn skrifaði Aðalsteinn Árni Baldursson undir samninginn. Mikill ánægja er með samninginn meðal samningsaðila.

 

Skiptaverð til sjómanna hækkar

Vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu milli viðmiðunartímabila sem ákvarðar skiptaverð til sjómanna þá hækkar skiptaverðið í október sem hér segir:

Þegar afli er seldur til skyldra aðila innanlands verður skiptaverðið í október 72,5% af heildar aflaverðmætinu (ath. þó ágreining við SFS um þetta, en málið verður útkljáð í Félagsdómi á næstunni).

Þegar afli er seldur óskyldum aðila innanlands verður skiptaverðið í október 72% af heildar aflaverðmætinu.

Þegar frystiskip selur afla með FOB söluskilmálum verður skiptaverðmætið í október 73% af verðmætinu en 67,5% ef selt er með CIF söluskilmálum.

Þegar rækja er fryst um borð verður skiptaverðmætið í október 70% af FOB verðmætinu og 64,5% af CIF verðmætinu.

Þegar afli er fluttur út í gámum er skiptaverðið 72% af verðmætinu að frádregnum flutnings- og sölukostnaði.

Olíuverð hefur ekki áhrif á skiptaverð þegar siglt er með aflann til sölu í erlendri höfn. Skiptaverðið er 70% af söluverðmætinu þegar uppsjávarfiski er landað erlendis og 66% af söluverðmætinu þegar botnfiski er landað í erlendri höfn.

Að öðru leyti er vísað á heimasíðu SSÍ (www.ssi.is) um skiptaverðið.

 

Framsýn styrkir Blakdeild Völsungs

Framsýn hefur gengið frá styrktarsamningi við Blakdeild Völsungs til tveggja ára. Innan blakdeildarinnar hefur verið rekið öflugt starf og sendir deildin bæði karla- og kvennalið í Íslandsmót í vetur. Lúðvík Kristinsson formaður Blakdeildarinnar og formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson skrifuðu undir samninginn á dögunum.

 

 

Starfsmann vantar við jarðboranir/Looking for a person for a drilling job

Fyrirtækinu Alvarr ehf. vantar mann í útivinnu við jarðboranir.  C/CE ökuréttindi nauðsynleg og helst reynsla af rafsuðu. Fyrirtækið hefur m.a. unnið við boranir á félagssvæði Framsýnar.

Looking for a person for a drilling job.  C/CE driving licence vital and preferably some pin welding experience.

Frekari upplýsingar gefur Friðfinnur K. Daníelsson í síma 894-1624

More information: Friðfinnur K. Daníelsson í síma 894-1624

 

W najbliższy czwartek 3 września zostanie otwarta dla osób polskojęzycznych Infolinia Czerwonego Krzyża 1717 i czat internetowy www.1717.is

W najbliższy czwartek 3 września zostanie otwarta dla osób polskojęzycznych Infolinia Czerwonego Krzyża 1717 i czat internetowy www.1717.is

Usługa w j. polskim będzie czynna w czwartki w godz. 20-23.

Grupa wolontariuszy mówiących po polsku przyłączyła się do projektu i przeszła odpowiednie szkolenie, aby móc odpowiadać na pytania. Celem jest dotarcie do polskojęzycznych osób mieszkających w tym kraju. Uważamy, że projekt jest konieczny ze względu na dużą grupę polskojęzycznych osób mieszkających na Islandii, a przy wsparciu Ministerstwa Spraw Społecznych jesteśmy w stanie obsłużyć tę dużą grupę osób, która obecnie liczy

ponad 20 000 osób.

Od 2004 roku 1717 otrzymał setki tysięcy wiadomości przez telefon i czat online od osób potrzebujących pomocy.

Rocznie w 1717 odbieranych jest około 15 tysięcy wiadomości i są one bardzo zróznicowane. Większość z nich dotyczy problemów psychologicznych i społecznych, takich jak depresja, lęk, myśli samobójcze, izolacja społeczna i obawy finansowe.

W projekcie bierze udział około 100 wolontariuszy, którzy zapewniają wsparcie psychologiczne, aktywne słuchanie. Kontakt jest bezpłatny (np. do połączenia nie jest wymagany kredyt), a usługa jest zawsze anonimowa i poufna. Usługa jest dostępna przez 24 godziny na dobę w języku islandzkim, ale w ostatnich miesiącach trwały wyżej wymienione prace mające na celu rozszerzenie usługi.

Dobrze jest poznać i wskazać ludziom 1717. Dzwonić można przez całą dobę, pomoc otrzymają wszyscy, którzy tego potrzebują!

Żaden problem nie jest zbyt duży lub mały dla telefonu zaufania 1717 i czatu internetowego.

Vinnumálastofnun þakkar fyrir sig

Starfsfólki Skrifstofu stéttarfélaganna barst í vikunni glaðningur frá Vinnumálastofnun, það er frá skrifstofu stofnunarinnar á Norðurlandi eystra með þakklæti fyrir aðstoðina. Hér er verið að vitna til þess að mikið álag hefur verið á Skrifstofu stéttarfélaganna undanfarnar vikur og mánuði sem tengist aðstæðum sem skapast hafa vegna Covid-19 og falla undir starfsemi Vinnumálastofnunnar. Starfsfólk stéttarfélaganna þakkar fyrir sendinguna sem er konfekt frá Nóa.

Framsýn fjallar um stöðuna í kjaramálum og vaxandi atvinnuleysi

Stjórn og trúnaðarráð ásamt stjórn Framsýnar-ung kemur saman til fundar miðvikudaginn 30. september kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Aðalumræðuefni fundarins verða kjaramál og staðan í atvinnumálum.

Dagskrá.

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Lífskjarasamningurinn
  4. Samkomulag við VMST
  5. Atvinnuástandið á félagssvæðinu
  6. Formannafundir/SGS-ASÍ
  7. Flugsamgöngur Hús-Rvk
  8. Verðkönnun ASÍ
  9. Samkomulag við PCC
  10. Kjör fulltrúa á þing/fundi:ASÍ-SSÍ-AN
  11. Erindi frá Félagi íslenskra félagsliða
  12. Orlofshúsið á Illugastöðum
  13. Norðurþing- breytingar á kjörum starfsmanna
  14. Önnur mál

Auka námsstyrkur til félagsmanna

Framsýn hefur ákveðið að auka námsstyrki til félagsmanna sem fullnýta styrki úr starfsmenntasjóðum sem þeir eiga aðild að í gegnum kjarasamninga sem Framsýn á aðild að. Það er Landsmennt, Ríkismennt, Sjómennt, Sveitamennt og Fræðslusjóð verslunarmanna. Miðað við full réttindi eiga félagsmenn rétt á 130.000 króna styrk á ári frá þessum sjóðum. Noti menn réttinn ekki á hverju ári getur hann safnast upp í allt að 390.000 króna rétt á þriggja ára tímabili. Til viðbótar þessum góðum styrkjum hefur Framsýn ákveðið að bjóða þeim félagsmönnum sem stunda dýrt nám allt að 100.000 króna styrk til viðbótar úr Fræðslusjóði Framsýnar. Þannig vill félagið koma til móts við félagsmenn á erfiðum tímum þegar búast má við töluverðu atvinnuleysi næstu mánuðina. Varðandi þá styrki sem nefndir eru hér að ofan gilda þeir ekki bara fyrir formlegt nám sem félagsmenn stunda heldur einnig fari þeir á styttri eða lengri námskeið sem og á tómstundanámskeið. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Ísfélaginu á Þórshöfn vantar starfsfólk

Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík hefur unnið að því undanfarið að miðla atvinnulausu fólki í vinnu og hafa þó nokkrir fengið vinnu í gegnum skrifstofuna við fjölbreytt störf. Nú ber svo við að Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn sár vantar starfsfólk á vertíð. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Siggeir Stefánsson hjá Ísfélaginu í síma 894-2608 sem jafnframt veitir frekari upplýsingar. Gangi áætlanir eftir er framundan mikil vinna og góðir tekjumöguleikar fyrir áhugasama.

 

Verðkönnun í matvöruverslunum á félagssvæði stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum

Í flestum tilfellum var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði í matvörukönnun ASÍ sem framkvæmd var þann 8. september í verslunum staðsettum á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Í 43 tilvikum af 98 var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði og í 21 tilviki 40-60% munur. Könnunin náði bæði til stærri verslanakeðja og minni matvöruverslana sem eru í eigu sjálfstæðra aðila en verslanirnar sem voru skoðaðar eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Skerjakolla, Urð, Verslunin Ásbyrgi og Dalakofinn.

Nettó var oftast með lægsta verðið, í 63 tilvikum af 98 og Kjörbúðin næst oftast, í 40. Urð, Raufarhöfn var með lægsta verðið í sex tilvikum og Skerjakolla, Kópaskeri í þremur tilvikum. Skerjakolla var oftast með hæsta verðið í 47 tilvikum og Krambúðin næst oftast, í 20 tilvikum. Urð var með hæsta verðið í 14 tilvikum, Dalakofinn í 10 og Kjörbúðin í 5 tilvikum.

102% munur á kílóverði af Cheeriosi og 57% á ýsuflökum
Dæmi um mikinn verðmun í könnuninni var 83% munur á hæsta og lægsta kílóverði á heilum kjúklingi, lægst var verðið í Nettó og Kjörbúðinni, 699 kr. en hæst í Skerjakollu, 1.279 kr. Þá var 57% munur á hæsta og lægsta verði af ýsuflökum, lægst var verðið í Urð, 1.590 kr. kílóið en hæst í Skerjakollu, 2.498 kr.

Fleiri dæmi um mikinn verðmun í könnuninni er 118% munur á hæsta og lægsta kílóverði af Cheeriosi, 139% munur á hæsta og lægsta verði af frosnum jarðaberum og 108% verðmunur á Pringles stauk. Þá var 102% munur á hæsta og lægsta kílóverði af Neutral þvottaefni og 132% munur á 2 lítrum af Pepsi Max. Þá var í mörgum tilfellum gríðarlegur verðmunur á grænmeti og ávöxtum.

Þrátt fyrir að Nettó og Kjörbúðin hafi í heildina litið komið töluvert betur út í verðkönnuninni en minni verslanir mátti finna dæmi um að verð væru lægri í minni verslunum sem eru reknar af sjálfstæðum aðilum eða að verðmunurinn væri tiltölulega lítill. Oftar kom það þó fyrir að verð í minni verslununum væru lægri en í Krambúðinni.

Mikill munur var á vöruúrvali í verslununum en mest var úrvalið í Nettó þar sem 96 vörur fengust af þeim 98 sem voru í könnuninni en minnsta úrvalið var í Versluninni Ásbyrgi þar sem 23 vörur fengust. 88 vörur fengust í Kjörbúðinni, 86 í Krambúðinni, 77 í Urð, 65 í Skerjakollu og 54 í Dalakofanum Laugum. Vert er að hafa í huga að verðkönnunin var framkvæmd í öðrum útibúum Nettó, Kjörbúðarinnar og Krambúðarinnar en þeim sem eru á svæðinu og getur því verið einhver munur á vöruúrvali.

Könnunin var gerð í matvöruverslunum um land allt og má sjá niðurstöður fyrir allt landið á heimasíðu ASÍ, www.asi.is.

Við samanburð á milli verslana ber að athuga að hér er um mjög margar mismunandi verslanir að ræða, allt frá litlum verslunum sem þjóna neytendum í dreifbýli til stórra keðjuverslana.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vara sem er það verð er neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni, að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ

 

Betri vinnutími – kynningarvefur fyrir félagsmenn Framsýnar hjá ríki og sveitarfélögum

Tímamótasamkomulag um styttingu vinnutímans náðist í kjarasamningum opinberra starfsmanna á vormánuðum 2020. Í kjölfarið opnaði Kjara- og mannauðssýsla ríkisins kynningarvef um styttingu vinnutímans undir heitinu betrivinnutími.is.

Á vefnum er farið yfir mögulegar útfærslur á styttingu vinnutíma dagvinnufólks og þær breytingar sem verða á vinnufyrirkomulagi vaktavinnufólks. Á vefnum er einnig leitast við að svara helstu spurningum og veita leiðbeiningar um framkvæmd breytinganna sem eiga að leiða til betri vinnutíma. Þá er einnig að finna svokallaðan vaktareikni sem hægt er að nota til þess að fá betri mynd af því hvaða breytingar nýtt vinnufyrirkomulag getur haft á kjör vaktavinnufólks.

Framsýn stéttarfélag hvetur félagsmenn til að kynna sér efnið á vefnum vel og vandlega enda verður útfærslan á styttingu vinnutímans með ólíkum hætti eftir því hvort fólk vinnur hefðbundna dagvinnu eða vaktavinnu.

 

Verið á verði við starfslok

Nú þegar haustið nálgast sér fyrir endann á árstíðarbundnum sumarstörfum af margvíslegu tagi. Starfslokum fylgir uppgjör á launum og öðrum greiðslum, svo sem orlofi. Mikilvægt er að fara yfir útreikninga og gæta þess að allar greiðslur séu í samræmi við kjarasamninga og ráðningarkjör. Ef einhver vafi vaknar um að greiðslur séu réttar eða eitthvað er óljóst hvetjum við alla til að hafa samband við sitt stéttarfélag og fá upplýsingar og aðstoð. Rangur launaútreikningur er allt of algengur og því nauðsynlegt fyrir launafólk að fara yfir alla launaseðla og tryggja að laun og greiðslur séu rétt reiknaðar og frágengnar.

(Frétt sgs.is)

 

Allt á fullu hjá Norðlenska

Um þessar mundir er allt á fullu hjá Norðlenska á Húsavík sem rekur eitt öflugasta sauðfjársláturhús landsins. Áætlaður sláturfjöldi er rétt rúmlega 90.000 fjár og síðasti sláturdagur er áætlaður 30. október. Að slátrun og vinnslu koma milli 170-180 manns. Meðan á sláturtíðinni stendur er einnig mikið líf á Húsavík enda koma margir starfmenn um langan veg til að vinna tímabundið hjá Norðlenska meðan á vertíðinni stendur og halda síðan heima á leið aftur.

Guðmundur Flosi og meistari Sigurjón eru meðal öflugra starfsmanna hjá Norðlenska á Húsavík.

 

Kjaratölfræðinefnd kynnir fyrstu skýrslu sína

Nýlega kynnti kjaratölfræðinefnd sína fyrstu skýrslu, Samningalotan 2019-2020, fyrir aðilum vinnumarkaðarins og strax í kjölfarið birtist hún opinberlega. Hægt er að sjá  fundinn og skýrsluna  á www.ktn.is

Skýrslan skiptist í fjóra meginkafla sem fjalla um efnahagsmál, umgjörð kjarasamninga, gerða kjarasamninga í yfirstandandi kjaralotu og mælingar Hagstofu Íslands á launaþróun sem flokkaðar eru eftir heildarsamtökum launafólks og launagreiðenda.

Í efnahagskafla er farið yfir áhrif kórónukreppunnar á efnahag og vinnumarkað og samanburður gerður á efnahagsspám fyrir og eftir heimsfaraldurinn. Viðbrögðum stjórnvalda er lýst og ljósi varpað á tvær nýlegar kreppur.

Meginefni skýrslunnar er um breytingar og dreifingu launa í yfirstandandi samningalotu samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Fjallað er um helsta inntak kjarasamninga, þ.á.m. launabreytingar og styttingu vinnutíma.

Í kafla um umgjörð kjarasamninga er lýst skipulagi samtaka á vinnumarkaði, lagaumhverfi og hlutverki ríkissáttasemjara. Þá fylgir skýrslunni yfirlit yfir gerða kjarasaminga.

Kjaratölfræðinefndin var skipuð af félags- og barnamálaráðherra 21. nóvember 2019 og samkvæmt skipunarbréfi skal hún draga saman og vinna úr talnaefni um launa- og efnahagsmál til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Markmiðið er að stuðla að sameiginlegum skilningi á eðli, eiginleikum og þróun hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Áformað er að skýrslur nefndarinnar komi út tvisvar á ári.

Aðild að kjaratölfræðinefnd eiga forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands.

„Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar er unnin við þær óvenjulegu aðstæður að hraðar og miklar breytingar eru að verða á högum launafólks vegna kórónuveirufaraldursins. Það er von okkar að skýrslan nýtist samtökunum vel við mat á stöðu félagsmanna sinna,“ segir Edda Rós Karlsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar.

Bein slóð á skýrsluna: https://65f501ee-1639-4d7b-b353-37ac1ebc2862.filesusr.com/ugd/0497ac_609df9bd2b8e4ee78e499c7cff690018.pdf

Vefsíða kjaratölfræðinefndar: https://www.ktn.is/

Slóð á fjarfundinn frá því í gær: https://www.dropbox.com/s/yu1jd22pceor15d/Kynningarfundur%2C%20sk%C3%BDrsla%20kjarat%C3%B6lfr%C3%A6%C3%B0inefndar%20-%2016.09.2020.edit2.mp4?dl=0

 

 

 

Framkvæmdum við Heimskautsgerðið verði hraðað

Á stjórnarfundi Framsýnar í dag var samþykkt að hvetja til þess að aukið fjármagn verði sett í framkvæmdir  við Heimskautsgerðið á Raufarhöfn með það að markmiði að klára framkvæmdina á næstu tveimur árum. Um er að ræða mjög áhugavert verkefni sem án efa á eftir að draga til sín mikinn fjölda ferðamanna og styrkja þannig ferðaþjónustuna á svæðinu.

Heimskautsgerðið er sprottið upp úr vangaveltum Erlings Thoroddsen um hvernig hægt er að virkja endalausa víðáttu, þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina. Inn í þessum vangaveltum kom hugmyndin að nota dvergatal Völuspár og Snorra Eddu og dusta rykið af fornum sagnaheimi og færa til nútíðar. Utan um þennan hugarheim rís Heimskautsgerðið á Melrakkaási við Raufarhöfn. Haukur Halldórsson listamaður tók þátt í hugmyndavinnu með Erlingi, gerði skissur og líkan sem stuðst er við.

Heimskautsgerðið er um 50 metrar í þvermál, 6 metra há hlið vísa til höfuðáttanna. Í miðju hringsins er 10 metra há súla á fjórum stöplum, sem áform eru uppi um að skarti kristaltoppi sem brýtur sólarljósið og varpar geislum sólar um allt Gerðið. Fjórir skúlptúrar eru inní Gerðinu hvert með sínu sniði. Pólstjörnubendir sem vísar á Pólstjörnuna. Hásæti sólar þar sem birtan í ákveðinni stöðu boðar sumarkomu. Geislakór er rými á milli hárra stöpla þar sem hægt verður að setjast niður, tæma hugann og endurnýja orku sína. Altari elds og vatns sem virkjar frumkraftana.

Inni Gerðinu verður árhringur dverga, steinar sem hver um sig tákna ákveðinn dverg. Þessir dvergar eru alls 72 talsins og er getið í íslenskum fornbókmenntum. Með þeim fjölda á hver dvergur sitt „vik“ í árinu, ef miðað er við 5 daga viku. Með því að tengja nöfn dverganna við árstíðir, eins og til dæmis nafnið Vetrarfaðir á fyrsta vetrardag þá ganga nöfnin upp eftir því hvar í árinu þeir lenda sem myndar 72 vikur. Árhringur dverga er þannig orðinn einskonar almanak, þar sem hver dvergur ræður 5 dögum. Til dæmis Várkaldur í viku vors, Bjartur í viku sumars þegar nætur eru bjartar og Dvalinn í haustviku þegar allt leggst í dvala fyrir veturinn. Enginn hefur getað útskýrt tilurð eða hlutverk dverganna í Völuspá nema þeirra Austra, Vestra, Norðra og Suðra, sem halda uppi himninum. Í hugmyndafræði Heimskautsgerðisins hefur öllum dvergum verið gefið hlutverk og þeir verið persónugerðir. Þannig er hægt að tengja dvergana við afmælisdaga og mynda tengsl við þá. Dvergarnir eru svo hluti af tímabilum goðanna sem eru gömlu mánuðirnir. Þegar á árið er litið sést að það eru 6 dvergar sem tilheyra hverjum (gamla) mánuði og hver mánuður tilheyrir ákveðnu goði. Hliðin, Austri, Vestri, Norðri og Suðri, á milli stöplanna vísa mót höfuðáttunum, þannig að miðnætursólin sést frá suðurhliði gegnum miðsúlu og norðurhlið, á sama hátt og sólarupprás sést frá vesturhliði í gegn um miðsúlu og austurhlið. Samspil ljóss og skugga sýnir eyktamörkin.

Nánari upplýsingar um hugmyndafræði Heimskautsgerðisins er að finna á heimasíðunni www.heimskautsgerdi.is.

 

Réttað í Hraunsrétt í dag

Hraunsrétt í Aðaldal er ein ef ekki fallegasta og merkilegasta fjárrétt á Íslandi. Þar býr einnig fallegasta fólkið að sjálfsögðu. Í dag komu bændur og búalið í Aðaldal saman til að rétta í frekar leiðinlegu veðri. Vegna sóttvarnarreglna var aðgengi gesta að réttinni takmarkað þetta árið. Réttirnar fóru vel fram og voru bændum í Aðaldal til mikils sóma. Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag.

„Eðli stofnunarinnar að vaxa í óáran, en minnka í góðæri“

Eðli stofnunarinnar að vaxa í óáran, en minnka í góðæri. Svo mælti forstjóri Vinnumálastofnunnar árið 2014 þegar ákveðið var að loka starfsstöð Vinnumálastofnunnar á Húsavík þrátt fyrir mótmæli heimamanna. Nú ber svo við að atvinnuleysi á svæðinu er í sögulegu hámarki. Þess vegna ekki síst, hlýtur að teljast eðlilegt að Vinnumálastofnun bregðist við ástandinu með því að auka þjónustu við atvinnuleitendur í Þingeyjarsýslum. Sjónvarpstöðin N4 fjallaði um málið í gær, þar var talað við Soffíu Gísladóttir forstöðumann VMST á Norður- og Austurlandi og Aðalstein Árna Baldursson formann Framsýnar stéttarfélags. https://www.facebook.com/N4Sjonvarp/videos/833180370555371

 

Vinnumálastofnun efli þjónustu í Þingeyjarsýslum

Framsýn telur afar mikilvægt að Vinnumálastofnun efli þjónustu sína í Þingeyjarsýslum. Með bréfi kallar Framsýn eftir aukinni þjónustu stofnunarinnar á svæðinu er varðar almenna þjónustu við atvinnuleitendur, vinnumiðlun og vinnustaðaeftirlit. Bréfið er meðfylgjandi:

Vinnumálastofnun
Unnur Sverrisdóttir
Kringlunni 1
103 Reykjavík

 Húsavík 5. september 2020

 Varðar starfsemi Vinnumálastofnunnar

Þann 1. desember 2014 tók Vinnumálastofnun ákvörðun um að loka skrifstofu stofnunnarinnar á Húsavík í sparnaðarskyni og þar sem atvinnuleysi hafði dregist saman í Þingeyjarsýslum. Þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar var mótmælt af sveitarfélögum og stéttarfélögum í héraðinu, en stofnunin sá ekki ástæðu til að endurskoða ákvörðun sína.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum stórlega aukist og því miður virðist ekki bjart yfir komandi mánuðum, svo vitnað sé í fjölda uppsagna á svæðinu og skýrslur Vinnumálastofnunar, sem enn gera ráð fyrir vaxandi atvinnuleysi.

Segja má að síðustu ár hafi hlutverk Vinnumálastofnunnar í Þingeyjarsýslum færst að hluta inn á borð starfsmanna Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík, sem daglega veita upplýsingar um stöðu og réttindi fólks sem misst hefur  atvinnu sína. Upplýsingar og þjónustu sem þeir eiga að hafa greiðan aðgang að hjá Vinnumálastofnun. Er þar einkum um að ræða erlenda starfsmenn, sem vita takmarkað um réttindi sín til atvinnuleysisbóta og þjónustu Vinnumálastofnunar s.s.  starfsmenn PCC og ferðaþjónustufyrirtækja. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa einnig leitað töluvert til  stéttarfélaganna eftir upplýsingum er tengist uppsögnum, hlutabótum og atvinnuleysisbótum starfsmanna á tímum Covid-19.

Framsýn stéttarfélag bendir á að stjórnvöldum ber skylda til þess á hverjum tíma að tryggja Vinnumálastofnun nægjanlegt  fjármagn svo hún geti staðið undir sínum skyldum. Telur félagið löngu tímabært  að efla starfsemi stofnunarinnar á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Verulega hafi skort á að svo hafi verið, sérstaklega er varðar vinnumiðlun, almenna þjónustu og vinnustaðaeftirlit á svæðinu. Ekki er kveðið fast að orði þó sagt sé að ástand þessara mála sé orðið algjörlega óviðunandi.

Það sem af er ári hefur atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum stóraukist. Til að bregðast við þeirri stöðu setti Framsýn á laggirnar vinnumiðlun á félagssvæðinu, með það markmið að reyna  að miðla atvinnuleitendum í aðra vinnu. Sem betur fer hefur framtakið skilað þó nokkrum árangri en vissulega eru það vonbrigði að ekki hafi tekist betur til. Allt  of margir hafa hafnað vinnu sem þeim hefur staðið til boða. Þörf er á aðhaldi frá Vinnumálastofnun, því að sjálfsögðu á engum að líðast að vera á atvinnuleysisbótum standi þeim vinna til boða sem samræmist getu, menntun og fyrri reynslu viðkomandi.  Þá er mikilvægt að Vinnumálastofnun taki upp virkt samstarf við Þekkingarnet Þingeyinga um námskeiðahald fyrir þá sem þegar eru komnir inn á atvinnuleysisbætur og/eða eiga því miður eftir að bætast í þann hóp á komandi mánuðum. Virk fræðsla er mjög mikilvæg á tímum sem þessum.

Þá hefur lítið sem ekkert verið um vinnustaðaeftirlit í Þingeyjarsýslum á vegum Vinnumálastofnunar. Enn og aftur hefur það aðallega verið í höndum Framsýnar, sem réði á sínum tíma sérstakan mann í vinnustaðaeftirlit. Eftirlitið hefur skilað góðum árangri en skort hefur á að opinberir aðilar taki þátt í því með stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum.

Með bréfi þessu kallar Framsýn eftir viðræðum við Vinnumálastofnun um að stofnunin auki þjónustu við atvinnuleitendur í  Þingeyjarsýslum og aðra þá sem sækja þurfa þjónustu sem fellur almennt undir starfsemi stofnunarinnar. Til greina kemur að Framsýn komi til móts við Vinnumálastofnun með því að leggja til aðstöðu undir starfsemina á Húsavík til reynslu. Í það minnsta færi félagið með opnum huga í slíkar viðræður við Vinnumálastofnun.

Frekari upplýsingar gefur undirritaður.

Virðingarfyllst
Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

Afrit:
Ásmundur Einar Daðason,
Félags- og barnamálaráðherra 

Soffía Gísladóttir,
Forstöðumaður VMST á Norðurlandi eystra