Stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur stóðu fyrir sumarferð síðasta laugardag út í Flatey á Skjálfanda. Forsvarsmenn Gentle Giants skipulögðu ferðina með starfsmönnum stéttarfélaganna. Uppselt var í ferðina sem tókst í alla staði mjög vel, gott var í sjóinn og það var fallegt og gefandi að ganga um eyjuna undir leiðsögn Guðmundar A. Hólmgeirssonar og Gísla Jónatanssonar sem var staddur í eyjunni og aðstoðaði Guðmund, eða Alla Hólmgeirs eins og hann er oftast kallaður, við að fræða gestina um söguna, búsetu og atvinnulífið í Flatey á fyrri tímum. Guðni Sigþórsson skipstjóri stóð í brúnni og sá til þess að vel færi um gestina þegar siglt var yfir í Flatey frá Húsavík og heim aftur. Með honum í áhöfn var Vittoria Sesani sem er frá Ítalíu. Auk þess að fræðast um eyjuna var boðið upp á grill og léttar veitingar í boði stéttarfélaganna. Ósk, Jónas, Linda og Jónína stóðu vaktina við grillið og sáu til þess að enginn færi svangur heim. Full ástæða er til að þakka Gentle Giants og gestum stéttarfélaganna fyrir ánægjulega ferð sem í alla staði var til mikillar fyrirmyndar. Meðfylgjandi eru myndir úr ferðinni.
Heiðurshjón, takk fyrir frábærar móttökur í Flatey.