Starfsgreinasamband Íslands á nú í viðræðum við Náttúruverndarstofnun um stofnanasamning fyrir landverði sem eru í stéttarfélögum innan sambandsins, þar á meðal Framsýnar. Náttúruverndarstofnun tók nýlega við verkefnum sem snúa að náttúruvernd, lífríkis- og veiðistjórnun hjá Umhverfisstofnun og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Stofnunin fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Þá sinnir stofnunin samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar og eftirliti á ofangreindum sviðum.
Starfsgreinasambandið var fyrir með stofnanasamning við Vatnajökulsþjóðgarð og Umhverfisstofnun sem eftir sameiningu nefnist Náttúruverndarstofnun. Því þarf að semja við nýja stofnun. Formaður Framsýnar er í samninganefnd Starfsgreinasambandsins sem fer fyrir samningnum fh. aðildarfélaga sambandsins sem hafa landverði innan sinna raða. Viðræður hafa gengið nokkuð vel, ekki er ólíklegt að skrifað verði undir nýjan stofnanasamning síðar í þessum mánuði. Meðfylgjandi mynd er tekin í morgun þegar samningsaðilar sátu á samningafundi á Teams.