Formaður Framsýnar í viðtali á Bylgjunni

Á dögunum sýndi Ríkissjónvarpið þátt af fréttaskýringaþættinum Kveik þar sem farið var yfir stöðuna á vinnumarkaðnum í dag með sérstaka áherslu á þau brot atvinnurekanda sem eru allt of algeng á landinu og hvernig megi sporna við slíkum brotum. Sérstaklega var rætt um málefni starfsmannaleiga. Mikil umræða hefur átt sér stað í þjóðfélaginu í kjölfar þáttarins. Kemur sú umræða beint ofan í þær kjaraviðræður sem fyrir liggja á næstu vikum og því málefni vinnumarkaðarins mjög í brennidepli þessa dagana.
Formaður Framsýnar var í viðtali í þættinum „Í bítið‟ í kjölfar þáttarins þar sem farið var yfir efni þáttarins og hans sjónarmið á þessi mál.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

Einstaklega frábærar móttökur hjá Solidarnosc

Félagar úr stjórn og trúnaðarráði Framsýnar auk starfsmanna félagsins fóru í náms- og kynnisferð til Póllands í síðustu viku. Tilgangurinn var að heimsækja Solidarnosc í Gedansk og fræðast um uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífs í Póllandi. Til að gera langa sögu stutta voru móttökurnar frábærar. Solidarnosc skipulagði tveggja daga stranga dagskrá þar sem gestunum frá Íslandi var gert grein fyrir kjarasamningagerð, starfsmenntamálum og samstarfi verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda að málefnum er snerta vinnumarkaðinn í Póllandi. Auk þess var farið með gestina í heimsóknir í tvær skipasmíðastöðvar í Gdansk og á söfn tengd sögu Solidarnosc og stríðinu en seinni heimstyrjöldin byrjaði í Gdansk með áras Þjóðverja á borgina. Alls fóru 16 einstaklingar frá Framsýn í ferðina á eigin vegum.

Andrzej Matla er hér með formanni Framsýnar. Andrzej sér um erlend samskipti fyrir Solidarnosc í Gedansk. Hann skipulagði ferð Framsýnar til Póllands er viðkemur Solidarnosc.

Mirosslaw Piórek sem er einn af æðstu mönnum Solidarnosc flutti fróðlegt erindi um stöðuna á pólskum vinnumarkaði. Til hliðar má sjá Agnieszku Szczodrowska sem túlkaði fyrir hópinn.

Jóna og María fylgjast með erindi Mirosslaw Piórek.

Krzysztof Dosla forseti Solidarnosc í Gdansk sagði frá verkalýðssamtökunum og uppbyggingu þeirra í Póllandi. Hann var einnig áhugasamur um samstarf við Framsýn að málefnum pólskra verkamanna og kvenna sem kæmu til starfa á Íslandi.

Miklar og góðar umræður urðu undir fyrirlestri forseta Solidarnosc.

Robert Szewczyk kemur að samskiptum Solidarnosc við erlend verkalýðssamtök. Hann fór yfir mál er tengjast verkefnum sem þeir hafa verið að vinna að og tengjast þeim mikla fjölda Pólverja sem hafa yfirgefið landið í atvinnuleit, þar á meðal til Íslands. Á móti er mikil ásókn erlends verkafólks að koma til Póllands að vinna, sérstaklega frá Úkrarínu.

Töluvert er um vinnustaðasamninga í Póllandi. Einn af þeim er í skipasmíðastöðinni, REMONTOWA, sem er í Gdansk. Þangað var fulltrúum Framsýnar boðið í heimsókn þar sem forsvarsmaður Solidarnosc í skipasmíðastöðinni gerði grein fyrir honum. Sjá má Jónas Kristjánsson formann Þingiðnar einnig á myndinni.

Eftir fyrirlestur um uppbyggingu vinnustaðasamninga í Póllandi var gestunum boðað skoða skipasmíðastöðuna auk þess öllum var boðið í hádegisverð. Robert Szewczyk og Zakrzewski Stefan sáu um að fræða gestina um starfsemi REMONTOWA sem er stærsta skipasmíðastöð í Evrópu. Frábærar móttökur.

Andrzej Matla bauð í nafni Solidarnosc gestunum frá Íslandi í sögusafn verkalýðssamtakana í Gdansk. Virkilega áhugavert safn sem allir eiga að skoða sem leið eiga um þessa fallegu borg.

Sem betur höfum við Íslendingar ekki þurft að þola sömu þjáningar og Póllverjar þegar kemur að stríði. Sagan er á hverju strái í Gdansk enda hófst síðari heimstyrjöldin í borginni með innrás Þjóðverja. Nýlega var opnað stórt og mikið safn í borginni sem er ætlað að segja söguna. Átakanlegt safn svo ekki sé meira sagt. Gestunum úr Þingeyjarsýslum var boðið að skoða safnið.

Að sjálfsögðu versluðu menn sér minjagripi. Hér er Þórir Stefánsson í nýjum bol með nafni Solidarnosc. Við munum fjalla frekar um heimsóknina eftir næstu helgi.

Auknar heimildir eftirlitsfulltrúa

Lög númer 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum hafa verið uppfærð. Helstu tíðindi eftir breytingu að nú er hægt að beita atvinnurekanda hærri dagsektum en áður. Áður var heimildin allt að 100.000 krónur en hefur nú hækkað í 1.000.000 krónur. Til þessa sektar getur komið til dæmis ef eftirlitsfulltrúa er neitað um aðgengi að vinnustöðum. Einnig er hægt að beita sektum til dæmis ef starfsmenn eru ekki með vinnustaðaskírteini.
Þessar heimildir sýna ágætlega alvarleika málsins og því mikilvægt að atvinnurekendur séu vel með á nótunum um innihald laganna og jafnframt taki á móti eftirlitsaðilum þegar þeir eru á ferðinni.
Hér má nálgast lögin.

Framsýn gengur frá kröfugerð

Undanfarna mánuði hefur Framsýn stéttarfélag unnið að mótun kröfugerðar sem innlegg inn í sameiginlega kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands Íslenskra verslunarmanna. Framsýn hefur þegar veitt þessum tveimur samböndum sem félagið á aðild að samningsumboð fh. félagsins.

Mótun kröfugerðar fór þannig fram að farið var í kannanir meðal félagsmanna, vinnustaðaheimsóknir og þá voru haldnir tveir félagsfundir fyrir íslensku- og enskumælandi félagsmenn.

Framsýn gerir sér fulla grein fyrir því að stjórnvöld verði að liðka fyrir samningunum með aðkomu er varðar velferðar- og skattamál.

Tillögum Framsýnar hefur verið komið á framfæri við samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands sem kemur saman í byrjun október til að móta endanlega kröfugerð sambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins, það er þegar kröfur og samningsumboð aðildarfélaganna liggja fyrir.

Helstu atriði kröfugerðarinnar gagnvart Samtökum atvinnulífsins eru:

    • Lágmarkslaun verði kr. 375.000 á mánuði mv. full starf.
    • Gildistími kjarasamningsins verði frá 1. janúar 2019 þegar núgildandi kjarasamningur rennur út. Lengd samningsins fari eftir innihaldi hans.
    • Samið verði um krónutöluhækkanir
    • Samið verði um nýja launatöflu þar sem núverandi tafla er löngu úrelt. Það er að ákveðið hlutfall sé milli flokka, þrepa og starfsaldurs.
    • Laun ungmenna verði með sambærilegum hætti og var fyrir undirskrift síðustu kjarasamninga. Það er að miðað verði við 18 ára aldur m.v. launataxta viðkomandi en ekki 20 ára aldur. Í þessu sambandi þarf að taka mið af lögum nr. 86 frá 25. júní 2018. „Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.“
    • Samið verði um styttingu vinnuvikunnar gegn sömu launum.
    • Orlofsréttur færist óskertur milli atvinnurekenda, tekin verði upp lífaldurstenging líkt og er hjá sveitarfélögunum.
    • Starfsmenntun og ábyrgð í starfi verði almennt metin til hærri launa.
    • 80% vaktavinna teljist full vinna.
  • Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningunum:
    • Í ljósi þess að skattbyrði hefur aukist mest hjá lágtekjufólki er eðlilegt að verkalýðshreyfingin krefjist þess að ríkstjórnin komi til móts við þennan hóp með skattkerfisbreytingum. Fjölgun skattþrepa eða sérstök hækkun á persónuafslætti þeirra sem eru á lágmarkslaunum verði skoðað.
    • Íbúðafélagið Bjarg þarf að virka fyrir alla, burt séð frá búsettu. Mikilvægt er að farið verði í sértækar aðgerðir til að bæta úr húsnæðisvanda fólks á landsbyggðinni, á svokölluðum köldum svæðum.
    • Tekjutengingar bóta frá TR vegna lífeyrissjóðsgreiðsla einstaklinga frá lífeyrissjóðum verði teknar til endurskoðunar. Núverandi kerfi er ekki síst óréttlátt fyrir lágtekjufólk.
    • Þátttaka ríkisins í kostnaði fólks í dreifbýlinu sem gert er að sækja þjónustu fjarri heimabyggð vegna hagræðingar hjá ríkisstofnunum verði aukin s.s. í heilbrigðisþjónustu.
  • Málefni öryrkja og eldri félagsmanna:
  • Verkalýðshreyfingin horfi til stöðu öryrkja og aldraðra með það að markmiði að þeim verði tryggðar sambærilegar hækkanir og verða á almenna vinnumarkaðinum. Þessari kröfu þarf að koma skýrt á framfæri við stjórnvöld komi til þess að þeir gefi út yfirlýsingu um beina aðkomu þeirra að kjarasamningsgerðinni.

 

VÍS lokar þjónustuskrifstofum

VÍS hefur ákveðið að loka samanlagt átta skrifstofum í kjölfar endurskipulagningar fyrirtækisins þar sem aukin áherslu verður lögð á á einfaldara fyrirkomulag þjónustu og stafrænar lausnir. Tilkynnt var um skipulagsbreytingarnar fyrir helgina.

Af þeim átta skrifstofum á landsvísu sem verður lokað verða sex sameinaðar öðrum, en tveimur alveg lokað. Samkvæmt upplýsingum frá VÍS sem komið hafa fram í fjölmiðlum hefur þremur starfsmönnum verið sagt upp í kjölfar skipulagsbreytinganna auk þess sem þrettán verktakasamningum var sagt upp. Breytingarnar taka gildi 1. október næstkomandi og verða sameinaðar þjónustuskrifstofur staðsettar á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjavík.

Skrifstofan á Húsavík sameinast skrifstofu VÍS á Akureyri

Fyrir liggur að skrifstofa VÍS á Húsavík verður sameinuð skrifstofu VÍS á Akureyri. Skrifstofur á Akranesi, Borgarnesi og Keflavík sameinast skrifstofu í Reykjavík. Skrifstofa á Reyðarfirði sameinast Egilsstöðum og sameinast skrifstofa á Hvolsvelli skrifstofu á Selfossi. Ekki er annað vitað en að starfsmönnum VÍS á Húsavík verði boðinn áframhaldandi vinna hjá tryggingafélaginu við starfræna þjónustu en í dag starfa þrír starfsmenn hjá félaginu.

Að sögn formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldurssonar, hefði hann viljað sjá VÍS halda uppi sambærilegri þjónustu á Húsavík og verið hefur enda mikill mannauður til staðar hjá tryggingafélaginu á Húsavík. Greinilegt sé að viðskiptavinir séu ekki sáttir við ákvörðun félagsins að loka þjónustuskrifstofunni á Húsavík. Þá vilji hann senda þau skilaboð til stjórnenda VÍS að þeir noti tækifærið, gangi skipulagsbreytingar eftir, og efli starfræna þjónustu við viðskiptavini VÍS á landsvísu með því að horfa til Húsavíkur með aukna þjónustu á því sviði.

 

Aðalbjörn formaður ASÍ-UNG

5. þing ASÍ-UNG var haldið á Hótel Natura Reykjavík síðastliðinn föstudag. Einn af hápunktum þingsins var málþing um hlutverk stéttarfélaga og þær áherslur sem ungt fólk vill sjá í komandi kjarasamningum. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fluttu erindi og tóku svo þátt í pallborðsumræðum ásamt tveimur stjórnarmönnum ASÍ-UNG, þeim Eiríki Þór Theódórssyni og Hafdísi Ernu Ásbjarnardóttur. Miklar umræður sköpuðust varðandi stöðu ungs fólks á vinnumarkaði og er ljóst að fulltrúum finnst að víða megi gera betur til að styrkja stöðu þessa hóps.

Ný stjórn var kosin til starfa þar sem lögð var áhersla á jafna skiptingu út frá kyni, búsetu og félögum. Sjö af níu stjórnarmönnum koma úr röðum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. Þessu er sambandið afar stolt af og ánægjulegt er að sjá unga og krafmikla einstaklinga bjóða fram krafta sína á þessum vettvangi. Ljóst er að ungliðafundir SGS sem haldnir hafa verið árlega frá árinu 2016 hafa skilað auknum áhuga hjá ungum félagsmönnum.

Nýja stjórn ASÍ-UNG skipa:

Aðalstjórn:
Alma Pálmadóttir, Efling
Gundega Jaunlina, Hlíf
Karen Birna Ómarsdóttir, Aldan
Margret Júlía Óladóttir, FVSA
Eiríkur Þór Theodórsson, Stétt Vest
Sindri Már Smárason, Afl
Ástþór Jón Tryggvason, VLFS
Aðalbjörn Jóhannsson, Framsýn
Margrét Arnarsdóttir, FÍR

Varastjórn:
Kristinn Örn Arnarson, Efling
Ólafur Ólafsson, Eining Iðja
Hafdís Erna Ásbjarnardóttir, Einingu Iðja
Birkir Snær Guðjónsson, Afl
Elín Ósk Sigurðardóttir, Stétt Vest

Stjórnin skiptir með sér verkum og kaus sér formann varaformann og ritara.
Formaður ASÍ-UNG er Aðalbjörn Jóhannsson.
Varaformaður er Eiríkur Þór Theodórsson.
Ritari er Alma Pálmadóttir.

 

 

 

 

Helstu hlutverk ASÍ-UNG eru að kynna ungu fólki á vinnumarkaði réttindi þess og skyldur og starfsemi stéttarfélaganna. ASÍ-UNG er málsvari ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar sem og út á við. Jafnframt að tryggja að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun stéttarfélaganna.

Þess má geta að fjórir fulltrúar frá Framsýn sátu þingið. Það er Guðmunda, Heiða og Ásrún. Þar sem Aðalbjörn Jóhannsson var stjórnarmaður í ASÍ-UNG átti hann einnig seturétt á þinginu en hann starfar hjá Sjóböðunum á Húsavík. Ljóst er að ungliðastarf Framsýnar er að skila góðum árangri.

Rýrt innlegg ríkisstjórnar inn í kjaraviðræður

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur gefur ekki tilefni til mikillar bjartsýni í þeim kjaraviðræðum sem í hönd fara, þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda í samskiptum við verkalýðshreyfinguna um aukna áherslu á félagslegan stöðugleika.

ASÍ hefur undanfarin ár gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að þyngja skattbyrði þeirra tekjulægstu stöðugt á sama tíma og þeir tekjuhærri hafa notið skattalækkana. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er reyndar skorið á sjálfvirka skattalækkun hinna ríkari, sem er jákvætt, en það er hins vegar dapurlegt að ríkisstjórnin ríghaldi í það fyrirkomulag að þyngja skattbyrði þeirra verst settu með sjálfvirkum hætti. Verkalýðshreyfingin mun ekki horfa aðgerðarlaus á þessa þróun.

Húsnæðis- og vaxtabætur eru áfram skertar þrátt fyrir þá alvarlegu stöðu sem er á húsnæðismarkaði, sem bitnar verst á þeim sem hafa minnst handa á milli. Það er ánægjulegt að barnabætur hækka skv. frumvarpinu, en á sama tíma er aukið við tekjutengingu á millitekjufólk og jaðarskattar þess hækkaðir með auknum skerðingum. Það eru kaldar kveðjur ríkisstjórnarinnar til ungs fólks sem vill stofna fjölskyldu, koma sér þaki yfir höfuðið og eignast börn.

ASÍ hefur lengi vakið athygli stjórnvalda á því, að þeir sem eru með minnsta menntun eru líklegir til að missa fyrstir vinnuna í fjórðu iðnbyltingunni sem nú bankar á dyrnar. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sér þess engan stað að til standi styðja og styrkja lágtekjufólk svo það fái annað tækifæri til náms, þrátt fyrir mikla umræðu í samráðsferli vinnumarkaðarins við stjórnvöld undanfarna mánuði. Þannig er Fræðslusjóður enn einu sinni sveltur. Kinnroðalaust stillir ríkisstjórnin láglaunafólki með litla menntun í fremstu víglínu andspænis þeim breytingum sem eru yfirvofandi á vinnumarkaði. Hún skilar auðu.

Það má finna ýmislegt jákvætt í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, eins og aukið fé til réttinda launafólks í vinnumarkaðssjóðunum og ýmsa þætti heilbrigðiskerfisins o.fl., en þau atriði sem hér er drepið á eru ekki sæmandi samfélagi sem vill láta kenna sig við velferð og jöfnuð.

 

 

Samþykkt að veita SGS og LÍV samningsumboð fh. Framsýnar

Félagsfundur Framsýnar sem haldinn var síðasta þriðjudag, 18. september, samþykkti að veita Starfsgreinasambandi Íslands umboð til samningagerðar fyrir hönd félagsins vegna kjarasamninga sem félagið á aðild að og losna 31. desember 2018. Um er að ræða kjarasamninga sem Framsýn á aðild að í gegnum Starfsgreinasamband Íslands gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Umboðið nær ekki til sérkjarasamnings Framsýnar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins vegna PCC BakkiSilikon hf.

Þá samþykkti félagsfundurinn einnig að veita Landssambandi íslenskra verslunarmanna samningsumboð vegna kjarasamnings sambandsins og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að.

Framsýn áskilur sér rétt til að afturkalla samningsumboðið telji samninganefnd félagsins ástæðu til þess.

Eins og fram kemur í ályktun fundarins sem fjallað var um á heimasíðunni í gær lögðu fundarmenn mikið upp úr góðu samstarfi við VR í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Þess má geta að formenn VR og Framsýnar hafa ákveðið að hittast í dag og skoða möguleikana á samstarfi í komandi viðræðum við atvinnurekendur.

Formenn VR og Framsýnar munu hittast í Reykjavík í dag og skoða möguleika á samstarfi í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

 

Hvetja til samstöðu með VR í komandi kjaraviðræðum við SA

Framsýn stóð fyrir tveimur fundum um kjaramál í gær. Annars vegar var fundur haldinn á íslensku og hins vegar á ensku. Þetta skipulag var viðhaft til að gefa sem flestum kost á að hafa áhrif á kröfugerð Framsýnar og stefnu félagsins varðandi samstarf við önnur stéttarfélög og landssambönd í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Greinilegt var á fundunum að menn leggja mikið upp úr góðu samstarfi við VR og Eflingu enda öflugustu stéttarfélögin innan Alþýðusambands Íslands hvað stærð varðar. Eftir góðar og málefnalegar umræður samþykkti fundurinn að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

„Félagsfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 18. september 2018, samþykkir að fela stjórn félagsins að leita allra leiða til að sameina aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samstaðan er forsendan fyrir árangri. 

Fram að þessu hefur sambandið verið klofið þegar komið hefur að gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum. Stéttarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa farið fram undir merkjum Flóabandalagsins meðan önnur stéttarfélög innan sambandsins, svo kölluð landsbyggðarfélög, hafa unnið saman í kjaraviðræðum. 

Framsýn stéttarfélag hefur lengi haldið því fram að klofningurinn hafið komið niður á baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum. Láglaunafólk hefur miklar væntingar til næstu kjarasamninga og því er afar mikilvægt að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands myndi breiðfylkingu til sóknar í kjara- og réttindabaráttu félagsmanna.  

Þá hvetur Framsýn stéttarfélag til samstarfs við VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna til að ná þessum markmiðum fram. Takist að sameina slagkraft Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum er það vænlegast til árangurs í þeirri mikilvægu kjarabaráttu sem framundan er.“

(málverk með frétt, Ingvar Þorvaldsson)

 

Nýr forstjóri PCC á Bakka

Jökull Gunnarsson hefur verið ráðinn forstjóri kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka. Hafsteinn Viktorsson lætur af störfum sem forstjóri en sinnir áfram verkefnum fyrir félagið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Jökull hefur starfað sem framleiðslustjóri PCC frá 2016. Hafsteinn hefur á sama tíma verið forstjóri og leitt byggingu og gangsetningu kísilverksmiðjunnar. Í fréttatilkynningunni kemur fram að Hafsteinn starfi áfram fyrir félagið, einkum að verkefnum sem lúta að mögulegri stækkun verksmiðjunnar.

Fyrri ofn verksmiðjunnar var gangsettur 30. apríl og framleiðir nú á fullum afköstum, þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Seinni ofninn var gangsettur um síðustu mánaðarmót.

Félagar í Þingiðn

Miðstjórn Samiðnar verður á Húsavík fimmtudaginn 20. september. Félagsmönnum Þingiðnar er velkomið að koma á fund með þeim kl. 17:00. Kjaramál verða til umræðu og komandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins auk þings Alþýðusambands Íslands sem haldið verður í október.  Félagar látum sjá okkur.

Stjórn Þingiðnar

 

Áríðandi félagsfundur í dag kl. 17:00 um kjaramál

Framsýn boðar til fundar í dag, þeiðjudag, um kjaramál og mótun kröfugerðar. Fundurinn verður í fundarsal stéttarfélaganna og hefst kl. 17:00. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna og hafa þannig áhrif á kröfugerð félagsins. Tillaga liggur fyrir fundinum um að fela Starfsgreinasambandi Íslands og Verslunarmannafélagi Húsavíkur samningsumboð félagsins.

A general meeting about wage- and work related issues

Framsýn labour union invites members to a meeting about wage- and work related issues on Tuesday 18th of September at 20:00 in the unions conference room at Garðarsbraut 26. The meeting is for members who work according to the collective agreements Framsýn has with SA Confederation of Icelandic Enterprise and are working on the general labour market.

Agenda:

  1. The shaping of demands for the comming collective agreements negotiations with SA Confederation of Icelandic Enterprise.
  2. Other issues.

It is important that union members attend the meeting and take part in shaping the demands.

Framsýn labour union.

ASÍ-UNG ályktar um áherslur ungs fólks í aðdraganda kjaraviðræðna

Á nýafstöðnu þingi ASÍ-UNG mátti greina mikinn samhug og baráttuvilja hjá ungu fólki innan verkalýðshreyfingarinnar. Málþing um hlutverk stéttarfélaga og þær áherslur sem ungt fólk vill sjá í komandi kjarasamningum bar einna hæst á þinginu. Framsýn átti þrjá fulltrúa á þinginu sem fór vel fram.

Meðfylgjandi ályktun var samþykkt í lok þingsins en hún sýnir ágætlega hvar áherslur ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar liggja í komandi kjaraviðræðum.

  • Þing ASÍ-UNG ályktar um nauðsyn þess marka skýra stefnu í húsnæðismálum til þess að tryggja ungu fólki húsnæði við hæfi. ASÍ-UNG telur það vera grundvallaratriði að allir hafi möguleika á öruggu búsetuformi sem hentar á viðráðanlegum kjörum.
  • ASÍ-UNG krefst þess að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lágmarkslaun verði skattlaus.

  • ASÍ-UNG krefst þess einnig að aldurstengd launamismunun verði afnumin með öllu enda er hún klárt brot á mannréttindum. Jafnframt gerir ASÍ-UNG kröfu um að ungt fólk eigi sæti við samningaborðið til þess að tryggja hagsmuni þess.

  • ASÍ-UNG leggur ríka áherslu á að vinnueftirlit verði aukið og viðurlög vegna brota á vinnustað verði hert.

  • Þing ASÍ-UNG leggur áherslu á jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Brúa þarf bil milli fæðingarorlofs og leikskóla og auka orlofsrétt vegna vetrarfría í skólum.

 

 

Líða ekki félagsleg undirboð eða brotastarfsemi á vinnumarkaði

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands komu saman til fundar á Akureyri föstudaginn 7. september og tóku sérstaklega fyrir eftirlit með félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Þá hélt Alþýðusamband Íslands málþing á Akureyri um stöðu fólks af erlendum uppruna á vinnumarkaði hér á landi þar sem fjallað var um gróf brot gegn einstaklingum. Formannafundur Starfsgreinasambandsins krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða enda hafa stéttarfélögin takmörkuð úrræði til viðbragða. Eftirfarandi var samþykkt í kjölfar formannafundarins.

Félagsleg undirboð og brotastarfsemi verði ekki liðin á vinnumarkaði

Einn fylgifiska stóraukinnar ferðaþjónustu og byggingaframkvæmda síðustu ár eru aukin félagsleg undirboð á vinnumarkaði og bein misnotkun á fólki sem kemur hingað til lands að vinna. Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands hafa orðið vör við þessa þróun ásamt ótal birtingamynda félagslegra undirboða.

Má þar nefna:

  • Ólöglega sjálfboðaliðastarfsemi
  • Launastuld
  • Ófullnægjandi ráðningasamninga
  • Misnotkun á vinnandi fólki
  • Brot á ákvæðum um hvíldartíma
  • Óviðunandi aðbúnað
  • Misnotkun í tengslum við útleigu íbúðarhúsnæðis í eigu atvinnurekandaFormenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins krefjast þess að stjórnvöld hefji þegar í stað vinnu við úrbætur á sviði eftirlits og lagasetningar og leggist á árarnar með stéttarfélögunum til að uppræta félagsleg undirboð. Það er óþolandi og með öllu ólíðandi að uppsveifla í efnahagslífinu sé að hluta til drifin áfram af misnotkun á vinnandi fólki.Því miður hefur verið misbrestur á þessari samræmingu síðustu misseri og ljóst að flókið getur reynst að samræma svo marga aðila til aðgerða. Nauðsynlegt er að greina hver hefur hvaða heimildir og formgera samráð og samstarf betur. Þá þarf að styrkja stoðir eftirlitsins þannig að fulltrúar viðkomandi stofnana geti einnig haft eftirlit með aðbúnaði og kjörum vegna húsnæðis ef atvinnurekandi er jafnframt leigusali.Þeir atvinnurekendur sem vísvitandi stela launum af starfsfólki standa því einungis frammi fyrir því að þurfa að greiða launin ef upp um þá kemst og viðkomandi starfsmaður krefur þá um launin. Stéttarfélögin gera annars vegar greinarmun á þeim atvinnurekendum sem vegna vanþekkingar greiða rangt og leiðrétta laun gagnvart öllum starfsmönnum eftir athugasemdir og hins vegar þeim atvinnurekendum sem síendurtekið og meðvitað stela launum frá starfsfólki. Hörð refsing verður að fylgja slíku háttalagi.Aðgerðaráætlun gegn mansali: Ein versta mynd félagslegs undirboðs er mansal á vinnumarkaði og hafa stéttarfélögin beðið eftir aðgerðaráætlun síðustu tvö árin. Það er löngu tímabært að stjórnvöld geri það sem til þeirra friðar heyri til að uppræta mansal enda þolinmæði þeirra sem sjá skelfilegar afleiðingar mansals löngu þrotin.
  • Upprætum ólögleg sjálfboðastörf: Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa gert samkomulag um hvað telst til vinnu sem greitt skal fyrir. Bændasamtök Íslands og Starfsgreinasamband Íslands hafa einnig gert með sér svipað samkomulag. Stéttarfélögin hafa ítrekað orðið þess áskynja að atvinnurekendur fara á svig við þennan ramma og lög sem gilda um endurgjald fyrir vinnu. Það er sjálfstætt verkefni að rannsaka sjálfboðastörf hér á landi, sérstaklega í landbúnaði og ferðaþjónustu. Rík áhersla á sjálfboðaliðastörf í þessum atvinnugreinum grafa undan vinnumarkaðnum og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áríðandi er að benda á að sjálfboðaliðar eru oftar en ekki ótryggðir ef eitthvað kemur uppá. Slík brot eru skýr dæmi um félagsleg undirboð sem brýnt er að taka á með fullum þunga og beita sektarákvæðum ef til þarf.
  • Viðbrögð við launaþjófnaði: Að mati SGS er kominn tími til að sérstaklega verði refsað fyrir launaþjófnað með sektargreiðslum. Í dag geta stéttarfélögin einungis gert kröfu um afturvirkar launagreiðslur með dráttarvöxtum.
  • Eftirlit: Samræma þarf og þétta vinnustaðaeftirlit út um allt land. Þegar best hefur til tekist hafa Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóri, lögreglan og stéttarfélögin sameinast um aðgerðir á ákveðnum svæðum og nýtt þau úrræði sem hver og ein stofnun hefur.
  • Að mati formanna Starfsgreinasambands Íslands er ekki nóg að gert. Þörf er á grettistaki af hendi stjórnvalda við að berjast gegn ótal birtingamyndum félagslegra undirboða.

Víða réttað um helgina í Þingeyjarsýslum

Það verður mikið réttað um helgina. Húsvíkingar rétta á laugardaginn kl. 14:00. Á svipuðum tíma verður réttað í Tungugerðisrétt á Tjörnesi og í Skógarétt í Reykjahverfi. Að morgni sunnudags verður svo réttað í Hraunsrétt í Aðaldal og síðar sama dag í Mánarrétt á Tjörnesi. Örugglega verður réttað á fleiri stöðum í Þingeyjarsýslum en að framan greinir.

 

 

Opinn kynningarfundur á Húsavík

Umhverfisstofnun boðar til opins kynningarfundar um niðurstöður eftirlits Umhverfisstofnunar og umhverfisvöktunar hjá PCC BakkiSilicon hf. Fundurinn verður haldinn í sal Framsýnar að Garðarsbraut 26, Húsavík, fimmtudaginn 6. september næstkomandi kl. 17:00.

Dagskrá:

-Guðbjörg Stella Árnadóttir frá Umhverfisstofnun kynnir eftirlit Umhverfisstofnunar.

-Einar Halldórsson frá Umhverfisstofnun kynnir niðurstöður úr eftirliti með PCC á Bakka.

-Elma Sif Einarsdóttir frá PCC kynnir niðurstöður umhverfisvöktunar.

-Erlingur E. Jónasson frá PCC flytur erindi.

Umræður verða að loknum framsöguerindum.

Fundurinn er öllum opinn og eru íbúar og nærsveitamenn hvattir til að mæta.