Samkomulag um hæfniálag

Í gær gengu stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn frá samkomulagi við PCC BakkiSilicon hf. sem byggir á ákvæði í sérkjarasamningi aðila um hæfniálag. Aðalsteinn Árni Baldursson og Rúnar Sigurpálsson undirrituðu samkomulagið fyrir hönd PCC og stéttarfélaganna. Samkvæmt samkomulaginu koma laun starfsmanna til með að taka mið af tveimur þáttum, það er starfsaldri og hæfni. Það er, nú geta starfsmenn sótt sér frekari launahækkanir með því að standast gefnar hæfnikröfur. Hæfnisþrepin verða tvö sem starfsmönnum stendur til boða standist þeir þær kröfur sem gerðar eru til hæfniþrepanna. Hæfnisþrep I gefur 2,5% launahækkun og hæfniþrep II gefur 5% launahækkun á grunnflokk viðkomandi starfsmanns. Við það er miðað að starfsmenn geti náð hæfniþrepunum innan 5 ára frá því að þeir hófu störf hjá fyrirtækinu. Samkomulagið nær til starfsmanna við framleiðslu og viðhald í verksmiðju PCC á Bakka. Mikil vilji er meðal stéttarfélaganna og forsvarsmanna PCC að gera verksmiðjuna á Bakka að góðum vinnustað, liður í því er að huga vel að öryggi, velferð og kjörum starfsmanna.

 

Jólafundur stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar auk starfsmanna félagsins, stjórnar Framsýnar-ung og trúnaðarmanna Framsýnar á vinnustöðum á félagssvæðinu hafa verið boðuð saman til fundar á föstudaginn í fundarsal stéttarfélaganna. Mörg mál eru á dagskrá fundarins.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Annál ársins 2019
  3. Samningur við Flugfélagið Erni
  4. Kjör á trúnaðarmanni í Miðjunni
  5. Ályktun um málefni aldraðra og öryrkja
  6. Staðan í kjaramálum-ríki-sveitarfélög-Landsvirkjum
  7. Formannafundur SGS
  8. Málefni PCC-samkomulag um frammistöðumat
  9. Fulltrúi í Vinnumarkaðsráð N-eystra
  10. Önnur mál

Megn andstaða með sameiningu atvinnuþróunarfélaga

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa lengi komið að starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga ásamt sveitarfélögum og atvinnurekendum í héraðinu. Fyrrgreindir aðilar voru hluthafar í Atvinnuþróunarfélaginu áður en því var breytt í sjálfseignarstofnun ses. Á hverjum tíma hefur stjórnin verið skipuð fulltrúum frá sveitarfélögum og atvinnulífinu, það er stéttarfélögum og atvinnurekendum. Frá fyrstu tíð hefur samstarf þessara aðila verið til mikillar fyrirmyndar og starfsemi Atvinnuþróunarfélagsins verið öflug, svo eftir hefur verið tekið. Markmið félagsins hefur verið að efla byggð og atvinnu í Þingeyjarsýslum í samstarfi við heimamenn.

Nú ber svo við að ákveðið hefur verið að sameina Eyþing, Atvinnuþróunarfélag Eyjarfjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga í ný landshlutasamtök sem ganga undir vinnuheitinu Norðurbrú. Um þetta urðu sveitarstjórnarmenn á félagssvæði Eyþings sammála, fyrir utan Tjörneshrepp sem stóð í lappirnar og lagðist gegn þessari sameiningu. Sama á við um Framsýn stéttarfélag sem lagðist eindregið gegn sameiningunni. Að mati Framsýnar er það ekki heillaspor fyrir Þingeyinga að færa atvinnuþróun og uppbyggingarstarf atvinnumála í nýtt félag á svæðinu til Akureyrar miðað við samsetningu stjórnar. Samkvæmt nýja skipulaginu verða 7 fulltrúar kjörnir í stjórn fyrir nýtt sameinað félag. Fjórir stjórnarmenn koma frá Akureyri/Eyjafirði og þrír úr Þingeyjarsýslum. Þingeyingar verða því í minnihluta auk þess sem Akureyringar kröfðust þess að fá stjórnarformanninn vegna stærðar sveitarfélagsins. Eðlilegast hefði verið að stjórnin skipti sjálf með sér verkum enda um samstarfsvetfang að ræða sem á ekki að byggjast á því hver sé stærstur og mestur.

Til samanburðar má geta þess að Norðurþing beitti aldrei þessu valdi í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga þrátt fyrir að greiða mest til félagsins, heldur var horft til þeirra sem völdust í stjórn á hverjum tíma og stöðu atvinnu- og byggðamála í héraðinu. Í ljósi þess þarf engum að koma á óvart að í flestum tilvikum féll stjórnarformennskan í hlut sveitarstjórnarmanna austan Húsavíkur enda hefur það svæði til fjölda ára fallið undir brothættar byggðir í skilningi Byggðastofnunnar. Að þeim sökum hefur töluverður tími farið í það á vegum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga að sinna austursvæðinu umfram önnur svæði í Þingeyjarsýslum, ekki síst í samstarfi með Byggðastofnun.

Til málamynda er talað um að lögheimili nýrrar stofnunar verði á Húsavík. Athyglisvert er að ekki er talað um að höfuðstöðvarnar verði á Húsavík í samþykktunum heldur lögheimilið eða bréfalúgan eins og einn ágætur maður orðaði það. Nú mun reyna á að sveitarstjórnarmenn í Þingeyjarsýslum fylgi því eftir að Höfuðstöðvarnar verði á Húsavík og þar verði utanumhald um reksturinn, starfsmannahald og framkvæmdastjórinn staðsettur. Það er, meini menn eitthvað með því að svokallað lögheimili verði á Húsavík sem er miðsvæðis á starfssvæði Norðurbrúar. Til viðbótar þarf að tryggja starfseminni rekstrargrundvöll þar sem talað er um að efla starfsemina frekar með sameinuðu félagi með fjórum starfsstöðvum á starfssvæði Eyþings/Norðurbrúar.

Eins og fram kemur í þessari samantekt lagðist Framsýn alfarið gegn sameininguni enda hugmyndin ekki á vetur setjandi að mati félagsins. Framsýn stóð fyrir fundi í stjórn og trúnaðarráði félagsins sem skipað er félagsmönnum úr flestum sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum. Þar kom fram mjög hörð gagnrýni á sameininguna og samþykkti fundurinn að senda frá sér meðfylgjandi yfirlýsingu sem skýrir afstöðu félagsins til þessarar sameiningar. Formaður fylgdi henni eftir á fulltrúaráðsfundi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem haldinn var í Skúlagarði 19. nóvember þar sem sameining þessara þriggja stofnanna var tekin fyrir og samþykkt formlega með meirihluta greiddra atkvæða.

Yfirlýsing
-Vegna fyrirhugaðra breytinga á starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga-

 „Framsýn stéttarfélag leggst alfarið gegn sameiningu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélags Eyfirðinga og Eyþings.

 Fram að þessu hefur verið breið samstaða meðal sveitarfélaga, samtaka atvinnurekanda og stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum um að veita samræmda og þverfaglega ráðgjafaþjónustu tengda atvinnulífi, samfélags- og byggðaþróun í gegnum Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

 Atvinnuþróunarfélagið hefur þurft að takast á við mörg krefjandi verkefni ekki síst vegna þess að hluti af starfssvæðinu er skilgreint sem brothættar byggðir.

 Að mati Framsýnar hefur Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga skilað góðu starfi í þágu samfélagsins. Stjórn félagsins hefur verið skipuð fulltrúum frá sveitarfélögum af öllu svæðinu auk fulltrúum frá atvinnulífinu í Þingeyjarsýslum.

Miðað við fyrirliggjandi tillögur verða verulegar breytingar á starfsemi atvinnuþróunar á starfssvæði Eyþings og aðgengi sveitarfélaga og atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum að stjórnun félagsins verður ekki með sama hætti og verið hefur.

 Framsýn stéttarfélag getur því ekki sætt sig við boðaðar breytingar og leggst því alfarið gegn þeim.“

 

 

 

 

 

 

 

 

Hafa áhyggjur komi til þess að þjónustan verði skert á Grænuvöllum

Foreldrar ungbarna á Húsavík hafa verið í sambandi við Framsýn vegna hugmynda/tillagna Fjölskylduráðs Norðurþings um að aðlögunum á leikskólanum Grænuvöllum verði fækkað niður í tvær á ári í stað fjögurra. Þá hafa foreldrar einnig áhyggjur af því að leikskólagjöldin verði hækkuð enn frekar. Fyrir eru þau verulega há miðað við önnur sveitarfélög á Íslandi.

Varðandi stöðuna er rétt að rifja upp eftirfarandi úr svari Fjölskylduráðs til Framsýnar vegna athugasemda félagsins vegna stöðu leikskólamála á Húsavík fyrr á þessu ári, það er vegna innritunar barna og leikskólagjalda.

„Lögð hefur verið á það mikil áhersla hjá sveitarstjórnarfulltrúum sl. ár að boðið sé upp á að foreldrar geti innritað börn sín í leikskóla 12 mánaða og að skólaganga ungbarna hefjist sem næst þeim degi er börnin verða ársgömul. Þessi þjónusta hefur gengið vel og innritun barna í leikskólum sveitarfélagsins hefur haldist frá 12 mánaða aldri, þrisvar til fjórum sinnum á ári. Engir biðlistar eru á leikskólum Norðurþings.“

„Því er ljóst að fjölskylduráð sem og sveitarstjórn mun yfirfara gjaldskrána gaumgæfilega í haust og velta því fyrir sér hvort hægt sé að finna leiðir til lækkunar álaga á barnafólk með lækkun leikskólagjaldanna án þess að það hafi áhrif á þjónustustig skólanna okkar og það frábæra starf sem leikskólabörnum í sveitarfélaginu er boðið uppá. Verður horft til þessa erindis sem brýningu í þessum efnum því vitanlega vill sveitarstjórn Norðurþings áfram tryggja góða þjónustu en jafnframt að hún sé ekki úr hófi fram kostnaðarsöm fyrir foreldra ungra barna. Það er verðugt markmið.“

 Til viðbótar er tekið fram í sáttmála meirihlutans: „Tryggja úrræði fyrir börn eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur og halda okkur við að inntökualdur leikskólabarna í Norðurþingi verði 12 mánuðir.“

 Það sem veldur foreldrum miklum áhyggjum er að koma ekki börnunum inn á leikskóla við 12 mánaða aldur, í flestum tilfellum er um að ræða einstaklinga sem eru í ráðningarsambandi og ber því að mæta til vinnu eftir að töku fæðingarorlofs lýkur. Dæmi eru um að ungt fólk horfi til þess að þurfa að endurskoða ráðningarsambandið við núverandi atvinnurekendur verði aðgengi að leikskólanum skert frá því sem nú er. Það er mat Framsýnar að sveitarfélagið Norðurþing verði að bregðast við þessum „jákvæða“ vanda þegar í stað, það er að auðvelda foreldrum að koma sínum börnum á leikskóla.

Með bréfi til Norðurþings hefur Framsýn óskað eftir fundi með forsvarsmönnum sveitarfélagsins til að ræða stöðu mála. Með á fundinum verði fulltrúar frá foreldrum ungbarna á Húsavík sem óskuðu formlega eftir aðkomu Framsýnar að málinu.

 

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis með samkomu gegn ofbeldi

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis stóð fyrir samkomu þann 25. nóvember sem markaði upphaf 16 daga baráttu gegn kynbundnu ofbeldi á konum og stúlkum um víða veröld. Ræðumaður dagsins var Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags. Ræðuna má lesa hér í framhaldinu en hún vakti töluverða athygli:

Kæru systur og bræður.

Dagurinn í dag, 25. nóvember er alþjóðlegur dagur gegn kynbundnu ofbeldi. Ofbeldi sem er ein útbreiddasta, þrálátasta og mest tortímandi ógnun við mannréttindi í heiminum og jafnframt skýrasta form mismununar. Víða um heim skipuleggja stjórnvöld og alþjóðleg samtök viðburði á þessum degi í þeim tilgangi að vekja athygli almennings á vandamálinu og þess vegna erum við hér saman komnar.

Hluti af þeirri mannréttindabaráttu sem staðið hefur um aldir er barátta kvenna um allan heim fyrir kvenfrelsi og góðum lífsskilyrðum kvenna og barna. Þótt mannréttindasáttmálar og stjórnarskrár flestra ríkja kveði á um að konur og stúlkur eigi að njóta sömu réttinda og karlmenn, þá er það staðreynd að konur standa hvergi í heiminum alveg jafnfætis karlmönnum.

Daglega heyrum við fréttir af konum sem stíga fram og segja frá því áreiti og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Það á sér stað alla daga og getur tekið á sig ólíkar myndir. Ofbeldi af því tagi er ekki bundið við stéttir, heldur beinist það að konum í öllum lögum samfélagsins.

Rannsóknir hafa sýnt að í samfélögum þar sem konur og stúlkur hafa greiðan aðgang að heilsugæslu, menntun, stjórnmálum og atvinnu ríkir meiri friður, það dregur úr fátækt og ofbeldi og hagvöxtur eykst. Berum við okkur saman við lönd sem við köllum gjarnan „vanþróuð“erum við sennilega að skora nokkuð hátt og ofbeldi er ekki lengur viðurkennd karlmennskuhegðun í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Víst geta íslenskar konur verið þakklátar fyrir það að umskurður kvenna sé ekki viðtekin venja hér á landi, við ekki notaðar sem skiptimynt í þrælasölu, eða okkur haldið á mottunni með því að skvetta sýru í andlit okkar. Hræðilegt athæfi sem við vitum að tíðkast í sumum löndum og fjölmiðlar bera okkur daglegar fréttir af. En það samt ekki þannig að íslenskt samfélag geti fríað sig af ofbeldishegðun. Væri svo, væri til dæmis ekki þörf á starfsemi Kvennaathverfsins og Stígamóta, en starfsemi þeirra dregur ofbeldi karla fram í dagsljósið og styður konur sem hafa orðið fyrir því. Árið 2018 komu 135 konur og 70 börn í Kvennaathvarfið í Reykjavík, auk þess sem 240 konur nýttu sér viðtöl, án þess að dvelja þar. Tölurnar segja samt ekki allt, þetta eru einungis þær konur sem leita sér aðstoðar. Hinar þegja þunnu hljóði. Af hverju ?

Jú, það er skömmin, sektartilfinningin og misbrestir í íslensku réttarfari sem hindra konur í að segja frá glæpum af þessu tagi, sem flestir koma ekki fram í dagsljósið. Það er gert lítið úr veruleika kvennanna og reynslu, myndin skekkt og með því hylmt yfir gerendanum, en ábyrgðin sett yfir á þolandann. Skömmin bítur. 65 prósent nauðgunarmála eru felld niður af ríkissaksóknara.

Við búum við meðvirkt réttarkerfi sem með þessum hætti gefur ákveðið samþykki fyrir því að kynbundið ofbeldi sé órjúfanlegur þáttur í menningu okkar og við konur verðum bara að gera okkar besta til að lifa með því. Við lærum þessa meðvirkni strax í æsku, tileinkum okkur afneitun til að þurfa ekki að takast á við það, þurfa ekki að tala um það. Haltu kjafti, hlýddu og vertu sæt. Þú baðst um þetta! Konur ættu hins vegar að finna sig öruggar í því að segja frá og fordæma þá sem brjóta á rétti þeirra.

Síðustu ár hefur hver kvenfrelsisaldan af annari skollið á ströndum landsins og fært okkur ferska strauma mannréttindabaráttu í öðrum vestrænum löndum. Hreyfingar eins og #Me to, druslugangan, #höfum hátt og fleiri slíkar hafa skekið heiminn og eflt samstöðu kvenna. Það hefur opnað augu kvenna og karla, dregið fram í dagsljósið þann veruleika að konur eru undirskipaðar í valdakerfi þar sem karllæg viðhorf ráða ríkum. Orðið þess valdandi að æ fleiri konur segja frá, þær opna ormagryfjur og afhjúpa „skrýmsli“ í öllum lögum samfélagsins. Jafnt í koti karls sem konungshöllu eru menn sem með hegðun sinni og gerðum hafa eyðilagt líf fjölda kvenna. Í krafti valdsins.

Konur sem ögra ríkjandi valdakerfi mega eiga von á árásum sem einkennast af karlrembu og þær standa frammi fyrir ýmsum hindrunum vilji þær komst til áhrifa. Ein ástæðan fyrir því hversu fáar konur eru leiðtogar og í forystusætum er það sem kallast „skaðleg karlmennska.” Sú hugmyndafræði felur m.a. í sér athugasemdir um útlit og klæðaburð, hundsun, þöggun, launamismunun, hótanir, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi. Sem er óþolandi, því konur og karlar eru jafn hæf til að leiða og vera í forystuhlutverki.

Skaðleg karlmennska byggir tilveru sína á kvenfyrirlitningu. Gott dæmi um slíkt birtist okkur fyrir nákvæmlega ári síðan þegar nokkrir áhrifamenn í þjóðfélaginu sátu á bar á Austurvelli og viðhöfðu þar ósmekkleg ummæli um konur og fatlað fólk. Slík ummæli dæma sig sjálf, segja mest um viðkomandi aðila og verða þeim jafnframt til ævarandi skammar.

Kæru systur. Klaustur er víða. Við erum ekki „húrrandi klikkaðar kuntur”, við erum „hot.“ Það er kannski kominn tími til að hlusta, horfast í augu við ofbeldið sem þrífst í samfélaginu og bregðast við því.

Það er ástæða fyrir því að á íslenskum vinnumarkaði telja 45% kvenna sig hafa orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi og það hlutfall minnkar ekki meðan samfélagið gefur samþykki sitt fyrir því, með því að bregðast ekki við því. Við þurfum að berjast á móti rótgrónu kynjamisrétti sem orsakast af gamaldags viðhorfum og tengdum félagslegum normum og leggja meiri áherslu á forvarnir.

Á meðan kynbundið ofbeldi viðgengst og refsingar eru vægar munu frekari framfarir í jafnréttisbaráttu ekki eiga sér stað. Vöndum okkur, sérstaklega við uppeldi drengjanna okkar. Með því að stuðla að vitundarvakningu öðlumst við skilning á eðli og afleiðingum ofbeldis og með því móti eigum við möguleika á að uppræta það.

Ofbeldi er valdbeiting og kúgun! Við viljum ekki ó – menningu þar sem valdi er misbeitt í þeim tilgangi að niðurlægja og brjóta niður sjálfstraust fólks. Við segjum nei við ofbeldi og bætum þannig samfélagið fyrir okkur öll.

(Meðfylgjandi mynd af Ósk tók Hörður Jónasson)

 

 

 

 

 

 

Kalla eftir umræðu um öryggi gangandi vegfaranda á þjóðvegi 85 við Húsavík

Á stjórnar- og trúnaðarráðsfundi Framsýnar stéttarfélags mánudaginn 18. nóvember 2019 var samþykkt að skrifa Norðurþingi bréf og koma eftirfarandi ábendingum á framfæri við sveitarfélagið:

Í aðalskipulagi Norðurþings er gert ráð fyrir skipulögðu svæði undir iðnað og aðra atvinnustarfsemi á Bakka við Húsavík. Fyrirtækið PCC BakkiSilicon hf. rekur þar í dag öfluga starfsemi með um 150 starfsmönnum. Það er von Framsýnar að heimamönnum takist að laða að frekari atvinnustarfsemi inn á svæðið í sátt og samlyndi við sveitarfélagið og íbúa í Norðurþingi.

Það sem veldur félaginu hins vegar verulegum áhyggjum er að vegna húsnæðiseklu á Húsavík býr þó nokkur hluti starfsmanna í verbúðum/starfsmannabústöðum á Bakka. Oft er um að ræða fólk sem hefur ekki aðgang að bifreiðum. Starfsmenn PCC sem búa við þessar aðstæður þurfa því oft að fara fótgangandi til og frá Bakka, eftir illa upplýstum vegi, til að sækja verslun og þjónustu til Húsavíkur sem skapar töluverða slysahættu.

Framsýn hefur talað fyrir því að PCC komi sér upp ferðum/strætó milli Húsavíkur og Bakka til að tryggja öryggi starfsmanna sem búa í húsnæði á þeirra vegum á Bakka. Því miður hefur fyrirtækið ekki talið sig geta komið til móts við þær kröfur.

Framsýn vill með bréfi þessu vekja athygli Norðurþings á málinu og fara þess á leit við sveitarfélagið að það taki málið upp til umræðu með hagsmunaaðilum, það er að skoðað verði að byggja upplýsta göngubraut frá Húsavík að Bakka eða komið verði á skipulögðum ferðum milli Húsavíkur við iðnaðarsvæðið á Bakka. Fleiri kostir eru einnig í boði sem rétt er að skoða til að tryggja öryggi vegfarenda.

Round Table í heimsókn hjá Framsýn

Round Table er alþjóðlegur félagsskapur ungra manna á aldrinum 20 – 45 ára. Félagar eru úr hinum ýmsu starfsstéttum þjóðfélagsins. Tilgangur Round Table er að sameina unga menn úr mismunandi starfsgreinum til að öðlast betri skilning á þjóðfélaginu og stöðu einstaklingsins innan þess. Að lifa eftir einkunnarorðunum “Í vináttu og samvinnu”. Að auka alþjóðaskilning og vináttu með aðild að Round Table International. Einkunnarorð Round Table eru: Tileinka – Aðlaga – Bæta.

Fundir á vegum RT eru mismunandi en þeim er ýmist blandað saman við skemmtun, heimsóknir, kynningar og í raun allt það sem félögum dettur í hug á hverjum tíma. Á dögunum óskuðu félagar í RT-4 á Húsavík eftir kynningu á starfsemi Framsýnar. Að sjálfsögðu var orðið við þeirri ósk og tók formaður Framsýnar á móti hópnum og gerði líflegum gestum grein fyrir starfsemi stéttarfélaga og svaraði fjölmörgum spurningum. Eftir kynninguna fékk Aðalsteinn Árni fána RT-4 að gjöf. Það var formaður RT-4 á Húsavík, Sveinn Veigar Hreinsson sem afhendi Aðalsteini fánann frá félaginu um leið og hann þakkaði fyrir kynninguna og móttökurnar. Tæplega 30 manns tóku þátt í fundinum.

 

Viðræður við Erni gengu vel – fullur vilji til að halda samstarfinu áfram

Samningaviðræður Framsýnar og Flugfélagsins Ernis sem fram fóru á föstudaginn voru vinsamlegar og fullur vilji er til þess meðal aðila að semja áfram um sérkjör á flugmiðum fyrir félagsmenn Framsýnar og þeirra stéttarfélaga sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna. Viðræðum verður fram haldið í vikunni  eftir að Framsýn hefur yfirfarið tilboð Ernis. Þess má geta að Framsýn er stærsti viðskiptavinur flugfélagsins á Íslandi er viðkemur samningum stéttarfélaga við flugfélagið en stéttarfélögin í þingeyjarsýslum hafa verið að selja um 5000 flugmiða á ári til félagsmanna.

 

 

Dagatöl í boði fyrir félagsmenn, gesti og gangandi

Dagatöl stéttarfélaganna vegna ársins 2020 eru komin út. Hægt er að nálgast þau á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Þá er einnig í boði að senda þau til félagsmanna leiti þeir eftir því. Að þessu sinni lánaði Gaukur Hjartarson stéttarfélögunum glæsilegar myndir á dagatölin. Dagbækur stéttarfélaganna eru svo væntanlegar í hús rétt fyrir jólin.

Dagatölin komin í hús.

 

Soroptimistar segja NEI við ofbeldi.

Við systur í Soroptimistaklúbbi Húsavíkur og nágrennis ætlum standa fyrir látlausri göngu þann 25. nóvember sem markar upphaf 16 daga baráttu gegn kynbundnu ofbeldi á konum og stúlkum um víða veröld:

Mæting við Húsavíkurkirkju kl. 18.00 þar sem séra Sólveig Halla Kristjánsdóttir sóknarprestur segir nokkur orð í upphafi göngu. Gengið verður í gegnum bæinn og upp í Skrúðgarð Húsavíkur og að Kvíabekk sem er lítið fallegt hús sem tilheyrir Skrúðgarðinum. Þar mun Adrienne Denise Davis spila á þverflautu og að því loknu heldur Ósk Helgadóttir varaformaður stéttarfélagsins Framsýnar ræðu dagsins. Kaffi og piparkökur verða í boði fyrir göngufólk.

Kirkjan, umhverfi Kvíabekks og fleiri staðir verða lýstir upp og skreyttir með appelsínugulu sem er litur átaksins

Alþjóðasamband Soroptimista hefur barist gegn kynbundnu ofbeldi í áratugi og er 16 daga vitundarvakningin mjög mikilvæg til að vekja athygli á þessum mannréttindabrotum. Hún á rætur að rekja allt til ársins 1991. Sameinuðu þjóðirnar hafa valið 25. nóvember, dag vitundarvakningar um útrýmingu kynbundins ofbeldis og markar hann jafnframt upphaf 16 daga átaks gegn því. Þessu sérstaka átaki lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, 10. desember sem er jafnframt alþjóðlegur dagur Soroptimista.

Allir velkomnir. Gaman væri ef sem flest göngufólk gæti klæðst eða skreytt sig með appesínugulu og komið með einhver ljós t.d vasaljós, síma, kerti eða kyndla.

Roðagyllum heiminn þann 25. Nóvember.

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis.

 

Stóra úramálið

Einhver sem hefur gist í íbúð 204 í Þorrasölum hefur gleymt þessu úri sem sést á mynd hér að ofan. Úrið er nú statt á Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem eigandinn getur nálgast það.

Desemberuppbótin 2019

Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga ber atvinnurekendum  að greiða starfsfólki sínu desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof. Uppbótin er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Við starfslok á að gera upp áunna desemberuppbót.

Ekki er enn búið að semja við ríki eða sveitarfélögin og því gilda þar sömu upphæðir og í fyrra. Þegar búið verður að semja við ríki og sveitarfélögin þarf að greiða uppbót miðað við það sem samið verður um. Sett verður inn frétt á heimasíðuna með réttum upphæðum um leið og samningar nást.

Almenni markaðurinn – kr. 92.000,-
Þeir sem eru í starfi fyrstu viku í desember eða hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eiga rétt á uppbót eigi síðar en 15. desember. Fullt ársstarf m.v. 45 vikur eða 1.800 klst. á tímabilinu 1. janúar til 31. desember.

Ríkið – ósamið

Kjarasamningar hafa ekki tekist milli ríkisins og Starfsgreinasambandsins og því liggur ekki fyrir hver desemberuppbótin verður í ár. Hins vegar er hefð fyrir því að greiða, við slíkar aðstæður, desemberuppbót fyrra árs sem er kr. 89.000,-. Desemberuppbótin leiðréttist síðar þegar gengið hefur verið frá endanlegum kjarasamningi. Þeir sem eru við störf fyrstu viku nóvember eða hafa starfað í 13 vikur samfellt á árinu skulu fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda desemberuppbót, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs.

Sveitarfélög – ósamið

Kjarasamningar hafa ekki tekist milli sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins og því liggur ekki fyrir hver desemberuppbótin verður í ár. Hins vegar er hefð fyrir því að greiða, við slíkar aðstæður, desemberuppbót fyrra árs sem er kr. 113.000,-. Desemberuppbótin leiðréttist síðar þegar gengið hefur verið frá endanlegum kjarasamningi. Þeir sem starfað hafa frá 1. september skulu fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember. Desemberupphæðin miðast við starfstíma og starfshlutfall. Þeir sem láta af störfum á árinu eiga rétt á desemberuppbót hafi þeir starfað samfellt í 6 mánuði. Greitt er miðað við starfstíma og starfshlutfall og miðast þá tímabilið við 1. janúar til 31. desember.

Meðfylgjandi þessari frétt er mynd af góðu fólki sem lengi kom að stjórnun Verkalýðsfélags Húsavíkur, Kristjáni Ben, Helga Bjarna, Kristjáni Mik, Helgu Gunnars og Kristjáni Ásgeirs.

 

Styrkjum Velferðarsjóð Þingeyinga

Velferðarsjóður Þingeyinga gegnir mikilvægu hlutverki í Þingeyjarsýslum. Það er að styrkja þá sem eiga fjárhagslega erfitt í hinu daglega lífi. Sjóðurinn hefur undarnfarið biðlað til samfélagsins eftir framlögum þar sem þörfin er mikill ekki síst núna þegar jólahátíðin nálgast. Að sjálfsögðu brást Framsýn við erindinu og lagði sjóðnum til kr. 100.000,-. Skorað er á aðra þá sem koma því við að styrkja sjóðinn að gera slíkt hið sama og Framsýn. Stöndum með þeim sem minna mega sín og leggjum mikilvægu verkefni lið. Reiknisnúmer: 1110-05-402610 og kt 600410-0670

 

Viðræður að hefjast við Erni um áframhaldandi samstarf

Nú kl. 11:15 hófust viðræður í Reykjavík milli Framsýnar og Flugfélagsins Ernis um áframhaldandi sérkjör félagsmanna á flugleiðinni Húsavík-Reykjavík. Samkomulagið hefur byggst á því að Framsýn í umboði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hefur verslað ákveðið magn af flugmiðum af flugfélaginu á sérkjörum fyrir félagsmenn stéttarfélaganna. Á síðustu 12 mánuðum hafa um 5.000 flugmiðar verið seldir í gegnum stéttarfélögin til félagsmanna. Almenn ánægja hefur verið með samstarfið og binda stéttarfélögin vonir við að nýr samningur milli aðila verði undirritaður fyrir jól svo sérkjörin haldist áfram á næsta ári. Núverandi samkomulag rennur út um áramótin.

 

Gengið frá kjöri á fulltrúum í samninganefnd SSÍ

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar síðasta mánudag var gengið frá kjöri á fulltrúum félagsins í samninganefnd Sjómannasambands Íslands sem fer með samningsumboð félagsins í komandi kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Samninganefndin verður skipuð fulltrúum frá öllum aðildarfélögum sambandsins. Ákveðið var að Jakob Gunnar Hjaltalín verði aðalmaður í samninganefndinni fh. Sjómannadeildar Framsýnar og Aðalsteinn Árni verði varamaður.

Sjómannadeild Framsýnar hafði áður samþykkt að fela Sjómannasambandinu samningsumboð félagsins. Þá hafði Framsýn einnig áður mótað kröfugerð sjómanna innan Framsýnar sem þegar hefur verið komið á framfæri við Sjómannasamband Íslands.

Sveitarfélög standi við yfirlýsingar og treysti markmið kjarasamninga

Nú þegar fjárhagsáætlanagerð stendur yfir hjá sveitarfélögunum minnir Alþýðusamband Íslands sem og Framsýn stéttarfélag á yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga síðastliðið vor þar sem mælst var til þess að sveitarfélögin tækju þátt í að stuðla að verðstöðugleika með því að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám.

Í yfirlýsingunni beindi Samband íslenskra sveitarfélaga þeim tilmælum til sveitarfélaganna að gjöld á þeirra vegum hækki ekki umfram 2,5% á árinu 2020, og minna ef verðbólga væri lægri, en yfirlýsingin vó þungt í heildarniðurstöðu kjarasamninga.

Sveitarstjórnir ákvarða gjöld fyrir ýmsa þjónustu sveitarfélaganna en þar má m.a. nefna leikskólagjöld, gjöld fyrir frístundaheimili, skólamáltíðir, sundlaugar auk fasteignagjalda en ljóst er að hækkanir á opinberum gjöldum sem þessum minnka ávinning launafólks af kjarasamningum.

Nauðsynlegt að lækka álagningarhlutfall eigi hækkanir á fasteignagjöldum að vera innan við 2,5%
Fasteignagjöld eru í flestum tilfellum reiknuð sem hlutfall af fasteignamati og munu hækkanir á fasteignamati því leiða til hækkana á fasteignagjöldum ef engar breytingar verða gerðar á álagningarhlutfalli sveitarfélaganna.

Breytingar á fasteignamati fyrir næsta ár hafa legið fyrir síðan í sumar og því ljóst hvernig fasteignaskattar munu hækka í hverju sveitarfélagi ef álagningarhlutfallið helst óbreytt. Ef breyting á fasteignamati í 22 hverfum í 16 stærstu sveitarfélögunum er skoðuð, má sjá að í öllum tilfellum nema einu hækkar fasteignamatið milli ára. Þannig lækkar fasteignamatið einungis í miðbæ Reykjavíkur, um 2% í fjölbýli og 1,1% í sérbýli en töluverðar hækkanir má sjá á fasteignamati í öðrum hverfum.

Opinberum aðilum ber að sýna ábyrgð og taka þátt í því að viðhalda verðstöðugleika svo að markmið kjarasamninga um aukinn kaupmátt, lága verðbólgu og lægri vexti nái fram að ganga. Alþýðusambandið ætlast til þess að sveitastjórnir landsins axli þessa ábyrgð í yfirstandandi fjárhagsáætlanagerð og standi við gefnar yfirlýsingar gagnvart launafólki.

ASÍ mun veita sveitarfélögum aðhald og fylgjast náið með gjaldskrárbreytingum á næstu vikum.

 

Fyrstu gestirnir boðnir velkomnir í Furulund

Framsýn stéttarfélag hefur tekið í notkun nýja orlofsíbúð á Akureyri sem er í Furulundi 11 E og hefur þegar verið opnað fyrir útleigu á íbúðinni til félagsmanna sem er í raðhúsi. Fyrstu gestirnir fóru í íbúðina síðasta föstudag. Það fór vel á því að það væri Svava Árnadóttir og fjölskylda frá Raufarhöfn enda Svava verið mikil baráttukona fyrir því að Framsýn eignaðist íbúð á Akureyri fyrir félagsmenn. Við það tækifæri afhendi Ósk Helga varaformaður Framsýnar Svövu blómvönd frá félaginu.

 

Fundað um frammistöðukerfi

Samkvæmt ákvæðum sérkjarasamnings Framsýnar/Þingiðnar og PCC BakkiSilicon hf. er fullur vilji til þess meðal samningsaðila að taka upp hæfnisálag í verksmiðju fyrirtækisins á Bakka. Síðustu vikurnar hefur verið unnið að því að fullmóta launakerfið með það að markmiði að því verði komið á fyrir áramót. Grunnlaun starfsmanna koma til með að byggjast sérstaklega á tveimur þáttum, starfsaldri og hæfni. Starfsaldurshækkanir eru hluti af núgildandi launatöflu. Til viðbótar koma starfsmenn til með að geta sótt um frekari hækkanir enda standist þeir gefnar hæfniskröfur. Hæfnismatið fer fyrst fram eftir eins árs starfsaldur, það er hæfnisþrep 1. Síðar, en þó innan 5 ára frá ráðningu, geta starfsmenn óskað eftir endurskoðun á matinu með það að markmiði að komast í hæfnisþrep 2 sem um leið gefur viðkomandi starfsmanni hærri laun. Stéttarfélögin binda miklar vonir við að hæfnisálagið komi til með að skila starfsmönnum hærri launum og um leið PCC betra starfsfólki og þar með betri afkomu fyrirtækisins.

Starfsmenn PCC hafa undanfarið setið kynningarfundi um málefni verksmiðjunnar og nýja launakerfið sem er í mótun. Þeim hefur verið skipt upp í hópa en um 150 manns vinna hjá fyrirtækinu sem er þegar orðinn einn mikilvægasti vinnustaðurinn á Húsavík en fyrirtækið hóf framleiðslu á síðasta ári.

 

 

 

 

 

Mikki og Toggi komu í kaffi

Það er alltaf líf og fjör á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Daglega koma margir við á skrifstofunni til að leita sér upplýsinga. Tveir góðir komu við í gær, þeir Michael Þórðarson og Þorgrímur Sigurjónsson, sem eru hættir á vinnumarkaði eftir langa starfsæfi. Þeir eru félagsmenn í Framsýn og eru heppnir að vera í stéttarfélagi þar sem menn viðhalda áunnum réttindum þrátt fyrir að vera hættir á vinnumarkaði og greiði því ekki lengur félagsgjald til Framsýnar. Þeir tóku spjall við starfsmenn stéttarfélaganna og lögðu formanni Framsýnar lífsreglurnar.