„Snjallkistan“ , ýtir undir tækimennt og stafræna færni í grunnskólum

Framsýn veitir árlega fjölmarga styrki til verðugra verkefna inn á félagssvæðið, með beinum eða óbeinum hætti. Með því móti styður félagið við margs konar starfsemi á svæðinu og styrkir þannig stoðir samfélagsins. Styrkir þessir eru veittir  til menningarmála, menntunar og íþróttastarfs svo fátt eitt sé talið. Það er gaman að segja frá því, að eitt af þeim verkefnum sem félagið studdi við á síðasta ári var samstarfsverkefni  Þekkingarnets Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, sem gengur undir nafninu „Þingeyska Snjallkiskan.“ Snjallkistan góða ferðast á milli skóla á vinnusvæði Þ.Þ. samkvæmt samkomulagi, en hún er hlaðin ýmsum forvitnilegum kennslugögnum. Gögnin eiga það sammerkt að vera ætluð til að örva og kenna forritun, kóðun, rafmagnsfræði, rýmisgreind ofl. sem allt byggir undir færni barna, viðheldur eðlislægri forvitni þeirra og frumkvöðlahæfileikum. Einnig er í kistunni góðu að finna vinylskera og hitapressu, þar sem hægt er að búa til vegglímmiða, stensla, fatamerkingar o.fl. sem hugmyndaflugið leyfir. Börnin í Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit hafa undanfarið notið góðs af þessum nýstárlegu kennslugögnum og kunnað vel að meta þau. Það er líka nauðsynlegt að byrja snemma að vekja áhuga barna á tækni og kenna þeim fyrstu skef forritunar á nútímalegan máta. Óhætt er að segja að verkefni sem „Snjallkistan“ , sem ætluð eru til þess að ýta undir tækimennt og stafræna færni í grunnskólum á svæðinu, séu mikilvægt byggðamál, því framtíðin er barnanna og hún mun byggja á tækni, tæknilæsi og þekkingu. Meðfylgjandi eru myndir úr Stórutjarnaskóla sem Ósk Helgadóttir tók.

Deila á