Bullandi óánægja með sameiningu atvinnuþróunarfélaga

Sameining Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga(AÞ), Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Eyþings í eitt félag voru til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gær. Stjórn og trúnaðarráð samanstendur af félagsmönnum Framsýnar í Þingeyjarsýslum. Innan Framsýnar eru hátt í 4.000 félagsmenn.

Fram kom megn óánægja með  sameiningu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Eyþings. Reyndar urðu mjög heitar umræður undir þessum lið. Menn voru sammála um að þetta væru mikil mistök að hálfu þeirra sem hefðu keyrt þetta mál í gegn, ekki síst sveitarstjórnarmanna í Þingeyjarsýslum. Sameinað félag nefnist; Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE).

Fram að þessu hefur stjórn AÞ verið skipuð fulltrúum sveitarfélaga, atvinnurekanda og stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum. Samstarf þessara aðila að atvinnumálum í héraðinu hefur verið til mikils sóma svo eftir hefur verið tekið. Nú ber svo við að tekin hefur verið ákvörðun um að sameina þessar þrjár stofnanir í SSNE. Ný stjórn verður skipuð fjórum sveitarstjórnarnarmönnum úr Eyjafirði og þremur úr Þingeyjarsýslum. Akureyringar kröfðust þess að fá stjórnarformanninn auk þess sem Eyfirðingar verða í meirihluta í stjórn og þá verður framkvæmdastjórinn með aðsetur á Akureyri. Ekki er gert ráð fyrir aðkomu stéttarfélaga eða atvinnurekanda að nýrri stjórn SSNE.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, sem situr í stjórn AÞ fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum sagðist hafa lagt fram yfirlýsingu á stjórnarfundi AÞ í gær þar sem honum væri verulega misboðið, sameiningin væri ekki skref fram á við til að efla atvinnulíf, mannlíf eða búsetuskilyrði í Þingeyjarsýslum. Þar hefði hann gert grein fyrir andstöðu sinni og Framsýnar út í sameininguna. Þá sagði hann að ýmsir sveitarstjórnarmenn í Þingeyjarsýslum væru búnir að átta sig á því að sameiningin hefði þróast í aðra átt en þeir hefðu ætlað í upphafi. Þeir væru verlega ósáttir við það og komið því vel á framfæri við hann. Í upphafi hafi verið talað um að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík. Nú væri ekki lengur talað um það og allir starfsmenn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hefðu fengið uppsagnarbréf. Framtíð þeirra hjá AÞ væri því óljós.

Yfirlýsing

Lögð fram á stjórnarfundi í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga 29. janúar 2020.

Undirritaður, stjórnarmaður í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, gerir alvarlegar athugasemdir við sameiningu félagsins við Eyþing og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar undir nafninu; Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Aðvörunarorð sem undirritaður hefur viðhaft í aðdraganda sameiningar hafa því miður flest ef ekki öll gengið eftir. Til viðbótar hefur verið illa haldið á málinu frá upphafi.

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur í gegnum tíðina gengt mikilvægu hlutverki í Þingeyjarsýslum. Tilgangur félagsins hefur verið að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á starfssvæðinu og veita samræmda og þverfaglega ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnulífi, samfélags- og byggðaþróun. Markmið félagsins hefur auk þess verið að stuðla að jákvæðri þróun atvinnumála, bæta almenn búsetuskilyrði á starfssvæðinu og auka nýsköpun og arðsemi í atvinnulífinu.

Þá hefur félagið komið að margvíslegum verkefnum s.s. verkefninu „Brothættar byggðir“ sem hófst árið 2014 á vegum Byggðastofnunar. Markmiðið með verkefninu hefur verið að styðja við byggð og stöðva fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum á Íslandi s.s. í Öxarfirði, Raufarhöfn og Bakkafirði. Hvað verkefnið varðar hefur Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga verið í forystuhlutverki í héraðinu og unnið náið með Byggðastofnun, íbúum og hagsmunaaðilum á viðkomandi svæðum.

Frá fyrstu tíð hefur verið kappkostað að stjórn Atvinnuþróunarfélagsins á hverjum tíma endurspegli skoðanir og hagsmunni sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum. Stjórnin hefur verið skipuð fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að félaginu auk fulltrúa frá atvinnurekendum (SANA) og stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum. Í gegnum tíðina hefur samstarf þessara aðila verið til mikillar fyrirmyndar er viðkemur hagsmunum fyrirtækja, stofnana og íbúa á svæðinu, það er verið á jafnréttisgrundvelli. Reyndar verið ákveðin fyrirmynd þar sem fulltrúar atvinnulífsins hafa auk sveitarstjórnarmanna átt fast sæti í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Þrátt fyrir stærð Norðurþings hefur sveitarfélagið ekki gert kröfu um stjórnarformennsku í félaginu.

Nú ber svo við að pólitíkin hefur ákveðið að rústa þessu samstarfi með því að leggja af starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og sameina það Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Eyþingi. Allir starfsmenn Atvinnuþróunarfélagsins hafa fengið uppsagnarbréf og vita því lítið um sína framtíð.

Kjörin hefur verið sjö manna stjórn skipuð sveitarstjórnarmönnum, það er fjórum fulltrúum frá sveitarfélögum við Eyjafjörð og þremur frá sveitarfélögum úr Þingeyjarsýslum. Til að tryggja vægi Akureyrar gerði sveitarfélagið kröfu um að stjórnarformaðurinn komi ávallt frá Akureyri auk þess sem sveitarfélagið verði með tvo stjórnarmenn til að tryggja stöðu sína enn frekar. Í nýrri stjórn er ekki gert ráð fyrir aðkomu fulltrúa frá atvinnulífinu. Þannig flyst valdið sem var til staðar hjá sveitarstjórnarmönnum og aðilum vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum í atvinnumálum vestur um til Akureyrar.

Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið á aukaaðalfundi Eyþings 9. apríl 2019 að starfsstöðin á Húsavík yrði jafnframt aðalskrifstofa félagsins fyrir sameinað félag virðist sem það ætli ekki að ganga eftir þar sem í endanlegum samþykktum félagsins er talað um að varnarþing félagsins verði á Húsavík. Ekki er lengur talað um að aðalskrifstofa félagsins verði á Húsavík, hvað þá að framkvæmdastjórinn hafi fasta viðveru þar.

Þá vekur athygli að Capacent sem var falið að koma að ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra taldi ekki ástæðu til að auglýsa á starfsvæði Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga eftir framkvæmdastjóra fyrir nýtt sameinað félag á Norðurlandi. Þess í stað var auglýst í miðlum á Akureyri. Eftir að undirritaður gerði athugasemd við auglýsinguna var honum þakkað fyrir ábendinguna s.br. eftirfarandi svar; „Takk fyrir ábendinguna, mjög góður punktur. Auglýsingin mun á næstunni birtast í Skránni.“

 Fyrir liggur að búið er að ráða framkvæmdastjóra fyrir sameinað félag og vil ég nota tækifærið og óska honum velfarnaðar í starfi um leið og ég gagnrýni stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra harðlega fyrir að sniðganga Reinhard Reynisson framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem var meðal umsækjanda.

Reinhard hefur langa og viðtæka reynslu á sviði atvinnuþróunar og starfsemi sveitarfélaga enda fyrrverandi sveitarstjóri og sveitarstjórnarmaður. Þá hefur hann gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ýmsa aðila og samtök er viðkoma málefnum sem koma til með að falla undir frekari atvinnuþróun og starfsemi sveitarfélaga á Norðurlandi eysta.

Stjórn SSNE skuldar stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga rökstuðning fyrir þessari ákvörðun að horfa fram hjá ráðningu Reinhards Reynisonar í starf framkvæmdastjóra.

Að lokum vill undirritaður lýsa yfir fullum stuðningi við störf  Reinhards Reynisonar í þágu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um leið og honum eru þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins sem framkvæmdastjóri og fyrir ánægjulegt samstarf að málefnum félagsins í gegnum tíðina.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
fulltrúi stéttarfélaganna í stjórn AÞ

 

 

Deila á