Samráðsfundur um málefni starfsmanna PCC

Forsvarsmenn Framsýnar funduðu í morgun með fulltrúum PCC um málefni framleiðslustarfsmanna og annarra starfsmanna fyrirtækisins í hliðarstörfum. Unnið er að því að gera breytingar á vinnutíma starfsmanna, það er að áfram verði unnið á 12 tíma vöktum við framleiðsluna á sólahringsvöktum þegar framleiðslan fer aftur á stað í apríl, það er ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir. Jafnframt verði starfsmönnum boðið að ráða sig á dagvaktir og/eða í dagvinnu sem yrði mikið framfaraspor og auðveldaði um leið fleirum að sækja vinnu á Bakka, ekki síst heimamönnum.

Reiknað er með að ráða þurfi um 50 til 60 starfsmenn til starfa á næstu mánuðum. Framsýn hefur allt frá upphafi lagt mikið upp úr því að starfsmenn PCC hefðu val um það að ráða sig á sólahringsvaktir, dagvaktir og/eða í dagvinnu. PCC hefur tekið þeim hugmyndum afar vel og hafa unnið að því fylgja þeim eftir enda gæti það einnig hentað starfsemi fyrirtækis vel. Fundurinn í morgun snerist meðal annars um það að hrinda þessum breytingum í framkvæmt enda stjórnendur fyrirtækisins opnir fyrir breytingum á núverandi vinnutíma starfsmanna. Til viðbótar má geta þess að áhugi er meðal aðila að gera breytingar á núverandi bónuskerfi og ákvæðum um hæfniramma sem varðar framgang starfsmanna í starfi. Þeirri vinnu verður framhaldið á næstu vikum.  Að venju var fundurinn í morgun vinsamlegur enda markmið beggja aðila að eiga gott samstarf um málefni starfsmanna og fyrirtækisins.

Það var vetrarlegt út á Bakka í morgun þegar viðræður Framsýnar og forsvarsmanna PCC fóru fram.

VÞ óskar eftir áframhaldandi samstarfi

Framsýn og Verkalýðsfélag Þórshafnar hafa um árabil átt gott samstarf um verkalýðsmál. Vegna endurskipulagningar á starfi Framsýnar sagði félagið upp samstarfssamningi við VÞ á síðasta ári. Í kjölfarið óskaði VÞ eftir viðræðum við Framsýn um áframhaldandi samstarf félaganna er viðkemur þjónustu við starfsmenn og félagsmenn innan Verkalýðsfélags Þórshafnar. Þjónustan hefur einnig falist í því að veita stofnunum og fyrirtækjum á Þórshöfn ákveðna ráðgjöf er tengist ákvæðum kjarasamninga á hverjum tíma. Fulltrúar frá stéttarfélögunum funduðu á dögunum þar sem ákveðið var að skoða frekara samstarf með gerð þjónustusamnings milli aðila. Meðfylgjandi þessari frétt er mynd af hressum félagsmönnum innan Verkalýðsfélags Þórshafnar.

Veikindadagar teljast í vinnudögum – ekki almanaksdögum

Á síðustu árum hefur ítrekað komið til ágreinings milli aðildarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA) um hvernig telja skuli veikindadaga. SA hefur haldið því fram að telja skuli almanaksdaga í forföllum en ASÍ haldið því fram að einungis skuli telja þá daga sem launamaður hefði að óbreyttu átt að vinna. Félagsdómur staðfesti túlkun ASÍ með dómi sínum þann 17. desember sl. í máli Verkalýðsfélags Snæfellinga gegn Íslandshótelum.

Deilan hefur aðallega lotið að því hvernig telja skuli úttekt veikindadaga á fyrsta starfsári þ.e. þegar starfsmenn ávinna sér tvo daga fyrir hvern unnin mánuð. Niðurstaða Félagsdóms var mjög afgerandi og þar segir að leggja verði til grundvallar „… að starfsmaður á fyrsta starfsári taki aðeins út veikindarétt sinn þá daga sem hann hefði að óbreyttu átt að vera að vinna, það er þegar hann hefur forfallast, en ekki þegar hann átti að vera í fríi.

Fyrir Félagsdómi var deilt um fleira. Atvik málsins voru þau að starfsmaður hafði samið um að taka sitt fulla starf út með því að vinna lengri vinnudaga og eiga því fleiri frídaga á móti. Í þeim tilvikum segir Félagsdómur að atvinnurekanda geti verið „… heimilt að telja forföll í klukkustundum og draga þær frá áunnum veikindarétti í klukkustundum.“ Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hér er Félagsdómur ekki að tala um talningu yfirvinnustunda í ávinnslu eða úttekt, heldur einungis þær stundir sem færðar eru skv. heimild í kjarasamningum. Starfsmaður sem t.d. skilar 100% starfi á 4 dögum í stað fimm, ávinnur sér áfram 2 daga fyrir hvern unnin mánuð en þegar að úttekt kemur kann að vera eðlilegt, veikist hann í heila viku, að telja hann taka út 5 veikindadaga en ekki 4. Dómurinn breytir hins vegar engu fyrir hlutavinnustarfsmann sem vinnur t.d. 4 daga í viku (80%). Í hans tilviki myndi úttektin áfram vera 4 dagar en ekki fimm.

Um talningu veikindadaga og dóminn er nánar fjallað á Vinnuréttarvef ASÍ.

Rétt er að íteka að hér er verið að tala um veikindarétt á almenna vinnumarkaðinum enn ekki hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga.

Umdeild einkavæðing á óvissutímum

Greinargerð sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um áformaða sölu Íslandsbanka

Röksemdir og skýringar skortir fyrir þeirri ákvörðun að hefja söluferli vegna Íslandsbanka á miklum óvissutímum. Enn er óljóst hversu stóran hlut stendur til að selja og ekki er skýrt til hvaða verkefna áformað er að nýta fjármunina sem fást fyrir sölu á bankanum. Þá veldur fyrri reynsla af einkavæðingu fjármálastofnana á Íslandi tortryggni og því sérstaklega mikilvægt að ítarleg samfélagsleg umræða skapist um kosti og galla slíkrar ráðstöfunar.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri greinargerð sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um efnahagsleg áhrif COVID-faraldursins sem birt er í dag. Hópurinn hóf störf um miðjan september og hefur frá þeim tíma sent reglulega frá sér skýrslur um áhrif COVID-kreppunnar.

Auk megin niðurstöðu hópsins að skýringar og röksemdir skorti fyrir þeirri ákvörðun að hefja sölu bankans eru fjölmargar efnislegar athugasemdir gerðar við fyrirhugaða sölu. Vakin er athygli á því að aðstæður séu nú allt aðrar en þegar boðað var í stjórnarsáttmála árið 2017 að hlutur ríkisins í fjármálakerfinu yrði minnkaður. Óvissa vegna COVID-faraldursins sé enn í algleymingi og upprisa ferðaþjónustu muni að öllum líkindum tefjast með tilheyrandi óvissa fyrir íslenskt efnahagslíf og bankakerfið þar með.

Hópurinn gerir athugasemdir við þann hraða sem einkennir ferlið og telur röksemdir fyrir sölu eins og þær hafa verið kynntar af hálfu Bankasýslu ríkisins og stjórnvalda ófullnægjandi. Ástæða söluferlisins virðist öðru fremur vera að standa við gefin fyrirheit í stjórnarsáttmála og hraðinn skýrast af komandi Alþingiskosningum. Slíkar röksemdir nægja ekki til að einkavæða banka.

Skiptaverð til sjómanna lækkar í janúar 2021

Vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði á gasolíu lækkar skiptaverð til sjómanna í janúar 2021 frá því sem það var í desember 2020.

Skiptaverð í viðskiptum milli skyldra aðila fer úr 72,5% í 70,5% af verðmæti aflans.

Skiptaverð í viðskiptum milli óskyldra aðila fer úr 72,0% í 70,0% af verðmæti aflans.

Þegar afli er frystur um borð verður skiptaverðið 72,0% af FOB verðmæti aflans og 66,5% af CIF verðmæti aflans.

Þegar rækja er unnin um borð verður skiptaverðið 69,0% af FOB verðmæti aflans og 63,5% af CIF verðmæti aflans.

Skiptaverð þegar siglt er með aflann til sölu erlendis er óháð olíuverði og er því óbreytt. Þegar siglt er með uppsjávarfisk er skiptaverðið 70% af söluverðmæti aflans erlendis.

Þegar siglt er með botnfisk til sölu erlendis er skiptaverðið 66,0% af söluverðmæti aflans.

Verða þorrablót í ár?

Væntanlega eru ekki miklar líkur á því að hægt verði að halda Þorrablót á komandi vikum vegna sóttvarnarreglna. Þorrablót er íslensk veisla sem haldin er á þorra með þjóðlegum mat, drykk og siðum. Þorrablót á uppruna sinn, eða endurvakningu, að rekja til 19. aldar en þó er minnst á þorrablót í fornum heimildum. Í gegnum tíðina hefur mönnum almennt tekist að halda Þorrablót í byrjun árs en vegna fordæmalausra aðstæðna eru blótin í uppnámi í ár. Til gamans fylgir hér með mynd af stórbónda sem var að gera sig kláran á Þorrablót sem fellur niður vegna aðstæðna sem þarf ekki að taka frekar fram. Væntanlega munu margir bregðast við stöðunni með því að halda fámenn heima Þorrablót. Skál fyrir því inn í helgina.

Félagsmenn, er hægt að hafna þessu tilboði?

Starfsmiðuð fjarnámskeið NTV, sem eru að fullu fjármögnuð af starfsmenntasjóðum hefjast að nýju í byrjun febrúarmánaðar.

Í boði verða sömu námskeið og kennd voru í nóvembermánuði sl. fyrir félagsmenn Framsýnar.

Gerður hefur verið samningur milli NTV skólans og starfsmenntasjóðanna Landsmennt, Sjómennt, Sveitamennt og Ríkismennt um að bjóða félagsmönnum Framsýnar upp á fulla fjármögnun á 6 námskeiðum/námsleiðum sem allt eru starfsþróunarmiðuð og verkefnadrifin. 

Öll námskeiðin (námsefni, verkefnavinna, verkefnaskil og samskipti) eru inni á nemendaumhverfi NTV skólans í gegnum nettengingu. Stefnt er að því að námskeiðin hefjist í febrúar. 

Nánari upplýsingar um námskeiðin má finn á http://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid 

Framkvæmd við skráningu á námskeiðin verður með sama sniði og var sl. haust.

Einstaklingar skrá sig hjá NTV skólanum og mun skólinn senda reikninga beint á skrifstofu fræðslusjóðanna. Skráning: http://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags 

Námskeiðin sem um ræðir eru:
Bókhald Grunnur – 8 vikur (120 kes.)
Digital marketing – 7 vikur (112 kes.)
Frá hugmynd að eigin rekstri – 5 vikur (75 kes.)
App og vefhönnun – 6 vikur (90 kes.)
Vefsíðugerð í WordPress – 4 vikur

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar

Áður frestaður aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar verður haldinn föstudaginn 22. janúar 2021 kl. 17:00 í fundarsal félagsins.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Önnur mál

Að venju verður boðið upp á hefðbundnar veitingar á fundinum.

Stjórn Sjómannadeildar Framsýnar

Áríðandi – starfsmenn sveitarfélaga

Allir félagsmenn Framsýnar sem starfa eða störfuðu hjá sveitarfélagi á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til 31. desember 2020 eiga að fá greitt eingreiðslu úr félagsmannasjóði 1. febrúar nk. 

Til að hægt sé að tryggja að greiðsla úr sjóðnum berist vinsamlegast fyllið út þetta rafræna eyðublað

Í núgildandi kjarasamningi við sveitarfélögin var samið um og stofnaður sérstakur félagsmannasjóður. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er greitt úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. 

Í fyrri frétt um málið á heimasíðu Framsýnar voru starfsmenn sveitarfélaga beðnir um að koma þessum upplýsingum á Skrifstofu stéttarfélaganna svo hægt yrði að greiða eingreiðsluna til starfsmanna sveitarfélaga. Starfsmenn geta valið um það eða sent umbeðnar upplýsingar beint á Starfsgreinasamband Íslands sem sér um útgreiðsluna með því að fara inn á tengilinn hér að ofan; þetta rafræna eyðublað. Frekari upplýsingar um málið eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Hefja starfið af miklum krafti

Stjórn og varastjórn Framsýnar kemur saman til fundar næstkomandi mánudag kl. 17:00. Að venju verður stjórn Framsýnar-ung boðuð á fundinn. Hefð er fyrir því innan félagsins að boða varamenn stjórnar félagsins og stjórn Framsýnar-ung á alla stjórnarfundi. Þannig er tryggt gott lýðræði í félaginu sem mörg önnur félagasamtök mættu taka sér til fyrirmyndar. Dagskrá fundarins er nokkuð löng að venju.

Stjórnarfundur í Framsýn mánudaginn 18. janúar 2021

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Aðalfundur Sjómannadeildar félagsins

4. Ávöxtun fjármuna félagsins

5. Skuldastaða fyrirtækja

6. Samkomulag vegna VHE

7. Heimild formanns 2021

8. Stofnanasamningar

9. Vinnutímabreytingar/ ríki-sveitarfélög

10. Kjörtímabil stjórnar og trúnaðarráðs

11. Orlofsmál 2021

12. Viðgerðir á Þorrasölum 1-3/íbúð 201

13. Starfsmannamál

14. Trúnaðarmannanámskeið

15. Samstarf við Verkalýðsfélag Þórshafnar

16. Formannafundur SGS

17. Félagsmannasjóður

18. Atvinnuleysi á félagssvæðinu

19. Samstarf fræðslusjóða innan SGS og LÍV

20. Önnur mál

Áríðandi skilaboð til starfsmanna sveitarfélaga

Í síðustu kjarasamningum var samið um Félagsmannasjóð. Þetta ákvæði nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum.

Sveitarfélögin greiða mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna Framsýnar.

Við þetta öðlast starfsmenn rétt á eingreiðslu sem tekur mið af launum þeirra og starfstíma frá 1. febrúar til 31. desember ár hvert. Greiðslan fyrir árið 2020 á að berast starfsmönnum þann 1. febrúar næstkomandi.

Forsendan fyrir því að hægt verði að greiða út úr sjóðnum er að Framsýn hafi kennitölur, bankaupplýsingar og netföng starfsmanna.

Þess vegna er afar mikilvægt að starfsmenn sveitarfélaga sendi þessar upplýsingar sem fyrst á netfangið linda@framsyn.is  svo hægt verði að greiða starfsmönnum. Þá er einnig hægt að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og ganga frá þessum málum þar.

Frekari upplýsingar um Félagsmannasjóðinn er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Framsýn stéttarfélag

Launahækkanir um áramót

Þann 1. janúar 2021 hækkuðu laun og launatengdir liðir skv. núgildandi kjarasamningum sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn. Það sama á við um félagsmenn Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur.

Starfsfólk á almennum vinnumarkaði:
1. janúar 2021 hækkuðu kauptaxtar hjá verslunarmönnum og almennu starfsfólki á vinnumarkaði um kr. 24.000 á mánuði m.v. fullt starf. Frá sama tíma tekur ný launatafla gildi hjá iðnaðarmönnum. Almenn hækkun (laun þeirra sem eru með umsamin laun umfram lágmarktaxta) hækkuðu um kr. 15.750 á mánuði.

Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækkuðu um 2,5% á sömu dagsetningu.

Lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf er nú 351.000 krónur á mánuði.

Almenni kjarasamningurinn og starfsfólk í ferðaþjónustu:

https://www.sgs.is/media/1852/taxtar_sa_1-jan-31-des-2021.pdf

Starfsfólk sveitarfélaga:
1. janúar 2021 hækkuðu kauptaxtar hjá sveitarfélögunum um kr. 24.000. 

Starfsfólk sveitarfélaga:

https://www.sgs.is/media/1850/taxtar_sveitarfelog_1-jan-31-des-2021.pdf

Starfsfólk ríkisins:
Ný launatafla tók gildi hjá ríkinu 1. janúar 2021 sem byggir á álags- og launaflokkum í stað bara launaflokka. Unnið er að því að endurnýja stofnanasamninga við stofnanir ríkisins og varpa starfsmönnum inn í nýja töflu.

Starfsfólk ríkisstofnana:

https://www.sgs.is/media/1851/taxtar_riki_1-jan-31-des-2021.pdf

Starfsmenn PCC:

Starfsmenn PCC, það er almennir starfsmenn, skrifstofufólk og iðnaðarmenn fá sambærilegar launahækkanir og starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum og aðrir iðnarmenn innan Samiðnar sem Þingiðn á aðild að.

Aðrir hópar:

Hjá þeim hópum félagsmanna sem ósamið er fyrir koma launahækkanir ekki til framkvæmda, það á sérstaklega við um sjómenn.

Trúnaðarmannanámskeið í apríl

Því miður hefur ekki tekist að halda trúnaðarmannanámskeið á vegum stéttarfélaganna undanfarna mánuði sem tengist Covid 19. Nú ætlum við að blása veiruna í burtu og blása námskeiðið á dagana 19. – 20. apríl nk. enda hafi okkur tekist að berja niður veiruna og heilbrigðisyfirvöld hafi heimilað að menn geti staðið fyrir námskeiðum sem þessum. Skorað er á trúnaðarmenn að skrá sig sem fyrst. Það gera menn með því að fara inn á heimasíðu MFA eins og áður. Nánar um það síðar. Koma svo!

Stofnanasamningur klár við FSH

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður milli Framsýnar og Framhaldsskólans á Húsavík um endurnýjun á stofnanasamningi sem er hluti af aðalkjarasamningi aðila. Viðræður hafa gengið vel og var samningurinn klár í lok desember. Vegna jólafría starfsmanna var gengið frá honum formlega í gær með undirskrift. Á meðfylgjandi mynd má sjá Valgerði Gunnars skólameistara og fulltrúa Framsýnar, þær Guðrúnu, Önnu og Alexíu, sem gengu endanlega frá samningnum í gær. Á myndina vantar formann Framsýnar, Aðalstein Árna, sem kom að samningagerðinni með starfsmönnum skólans innan Framsýnar og skólameistara. Eftir fráganginn á samningnum í gær fékk formaður Framsýnar kynnisferð um skólahúsnæðið en töluverðar framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarið við lagfæringar á skólanum bæði  innan- og utanhúss. Afar ánægjulegt er að sjá hvað búið er að gera mikið varðandi endurbætur á húsnæðinu. Öll aðstaða kennara og annarra starfsmanna skólans sem og nemenda er orðin til mikillar fyrirmyndar. Vonandi tekst að fjölga nemendum enn frekar á komandi skólaárum, ekki síst þar sem skólaumhverfið er orðið til mikillar fyrirmyndar og því ætti að vera eftirsóknarvert að stunda nám við FSH.

Um 68 milljónir úr sjúkrasjóði til félagsmanna á árinu 2020

Stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar kom saman til fundar fyrir áramótin til að úthluta úr sjóðnum til félagsmanna vegna umsókna um styrkveitingar fyrir desember.  Samtals fengu félagsmenn greiddar um 7,7 milljónir í styrki fyrir síðasta mánuð ársins. Stjórnin kemur saman mánaðarlega og tekur fyrir umsóknir félagsmanna um sjúkaradagpeninga vegna veikinda og annarra styrkja s.s. vegna sálfræðikostnaðar, líkamsræktar og sjúkraþjálfunar. Í heildina fengu félagsmenn Framsýnar greiddar um 68 milljónir í styrki á árinu 2020 sem er í hærra lagi sé tekið mið af meðaltals styrkveitingum síðustu ára. Sem betur fer er Framsýn fjárhagslega sterkt stéttarfélag og hefur því burði til að styðja vel við bakið á félagsmönnum í þeirra veikindum og heilsurækt.  

Stjórn Framsýnar í stuði – kom færandi hendi með staðgengil

Innan Framsýnar er mikið lagt upp úr líflegu og skemmtilegu félgsstarfi, en fjöldi félagsmanna gegnir trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélagið. En þrátt fyrir alvöruna sem gjarnan fylgir daglegum störfum stéttarfélaga, er nauðsynlegt að missa ekki sjónar á spaugilegu þáttunum  í tilverunni.

Það er reyndar sagt er að öllu gamni fylgi nokkur alvara. Í aðdraganda jóla kom varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir færandi hendi á Skrifstofu stéttarfélaganna með sendingu frá stjórn og trúnaðarráði félagsins. Hún hafði meðferðis eftirlíkingu af formanninum og lét þau orð falla að nú væri komið að því að hann tæki sér frí. Staðgengill formanns hefur fengið nafnið Frímann, en þrátt fyrir grínið sem tilurð hans fylgir, er hann fyrst og fremst ætlaður sem ábending til Aðalsteins Árna, um að honum sem öðrum launþegum sé ætlað að taka sitt lögbundna sumarfrí.  Mikið álag hefur verið á starfsfólki skrifstofunnar undanfarna mánuði og því lítið um frí hjá formanninum.

Athygli vekur hvað þeir eru líkir, Aðalsteinn Árni og Frímann sem ætlað er að leysa formanninn af hólmi meðan hann tekur ótekið sumarleyfi.

Heilsað upp á starfsmenn Ernis

Á dögunum færðu stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum starfsmönnum Flugfélagsins Ernis smá glaðning, það er konfekt eins og það gerist best. Stéttarfélögin hafa í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf við stjórnendur flugfélagsins varðandi flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið hefur gert það að verkum að stéttarfélögin hafa getað boðið félagsmönnum upp á ódýr flugfargjöld á flugleiðinni Reykjavík-Húsavík. Vonandi verður svo áfram á komandi árum enda afar mikilvægt að öruggar flugsamgöngur séu milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Gunna og Lilja klikka ekki enda báðar öflugar konur sem taka ávallt vel á móti farþegum á vegum Flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli.

Framsýn greiddi rétt um 19 milljónir í námsstyrki á árinu sem er að líða

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fengu félagsmenn Framsýnar rétt um 19 milljónir í námsstyrki á árinu 2020 sem er svipuð upphæð milli ára þar sem greiðslurnar námu um 18 milljónum árið á undan. Aðgengi félagsmanna að fræðslusjóðum sem Framsýn á aðild að í gegnum kjarasamninga veitir félagsmönnum þessa góðu styrki. Fullgildir félagsmenn eiga rétt á 130.000 króna styrk á hverju ári. Geymdur þriggja ára réttur getur numið allt að 390.000 krónum. Stundi félagsmenn kostnaðarsamt nám og klári sinn kjarasamningsbundna námsstyrk kemur Fræðslusjóður Framsýnar til aðstoðar með allt að 100.000 króna auka framlagi. Það er ekki bara gott að búa í Kópavogi, það er líka gott að vera félagsmaður í Framsýn stéttarfélagi.

Skemmtiferðaskip streyma til Húsavíkur – stefnir í met

Ef marka má boðaðar komur skemmtiferðaskipa til Húsavíkur næsta sumar er að lifna verulega yfir ferðaþjónustunni eftir erfiða tíma á árinu sem er að líða. Samkvæmt heimildum heimasíðu stéttarfélaganna hafa aldrei fleiri komur skemmtiferðaskipa verið bókaðar til Húsavíkur eins og sumarið 2021 eða 54 komur skemmtiferðaskipa. Til samanburðar má geta þess að 46 komur skemmtiferðaskipa voru skráðar til Húsavíkur sumarið 2020. Ekkert varð hins vegar úr því að þau kæmu vegna heimsfaraldursins. Eins og fram kemur í fréttinni eru 54 komur skemmtiferðaskipa bókaðar til Húsavíkur í sumar og þegar hafa verið bókaðar 33 komur skipa til Húsavíkur sumarið 2022 sem án efa á eftir að fjölga umtalsvert þegar fram líða stundir. Að sjálfsögðu eru heimsóknir skemmtiferðaskipa háðar því að takist að vinna á kórónuveikinni og menn geti farið að ferðast aftur frjálsir um heiminn eins og var fyrir heimsfaraldurinn. Vissulega eru þetta góðar fréttir enda gangi þessar áætlanir eftir og mönnum takist að vinna á kórónuveikinni öllum til hagsbóta með aðgæslu og nýja bóluefninu við veirunni sem þegar er komið í umferð, þar á meðal á Íslandi. Í það minnsta skulum við vera jákvæð fyrir því að þetta raungerist.

Þórir Örn Gunnarsson hafnarvörður á Húsavík er klár að taka á móti skemmtiferðaskipum næsta sumar enda verði ástandið í heiminum orðið eins og það var fyrir Covid-19.

Gunnar leit við hjá formanni Framsýnar

Gunn­ar Gísla­son fram­kvæmd­ar­stjóri sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­is­ins GPG Seafood á Húsa­vík, heilsaði upp á formann Framsýnar fyrir jólahátíðina. Hann tók við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins 1. sept­em­ber af Páli Kristjánssyni.

Gunn­ar starfaði áður á fjár­mála­markaði við fjár­mögn­un sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja bæði á Íslandi og er­lend­is. Þá hef­ur hann einnig starfað fyr­ir Sam­skip í Bremen og Sölu­miðstöð hraðfrystihús­anna, einnig þekkt sem Icelandic Group, við sölu sjáv­ar­af­urða.

Gunn­ar er með MBA gráðu frá Há­skóla Reykja­vík­ur, BSc í út­flutn­ings­markaðsfræði frá Tækni­skóla Íslands og er lög­gilt­ur verðbréfamiðlari.

GPG Sea­food hef­ur höfuðstöðvar á Húsa­vík en jafn­framt starf­semi á Raufar­höfn og Bakkafirði. Fé­lagið ger­ir út fjóra báta og eru áhersl­un­ar í fram­leiðslunni salt­fisk­vinnsla, fiskþurrk­un, hrogna­vinnsla og fryst­ing upp­sjáv­ar­fisks. Fé­lagið er í eigu Gunn­laugs Karls Hreins­son­ar sem jafn­framt er stjórn­ar­formaður fé­lags­ins.

GPG Seafood/GPG-Fiskverkun er með öflugri fyrirtækjum á félagssvæði Framsýnar. Eins og áður hefur komið fram hefur fyrirtækið nýlega fjárfest í tveimur nýjum og öflugum fiskiskipum sem eru væntanleg norður til Húsavíkur/Raufarhafnar á nýju ári. Gunnar lagði áherslu á að fyrirtækið vildi eiga gott samstarf við Framsýn auk þess sem hann fór yfir helstu áherslur fyrirtækisins í rekstri og starfsmannamálum. Þess má geta að Framsýn hefur í gegnum tíðina átt gott samstarf við stjórnendur GPG á hverjum tíma.