Stjórn Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum kom saman til fundar í gær. Tekin voru fyrir nokkur mál. Umræður urðu um fréttir sem borist hafa um að Húsasmiðjan sé með til skoðunar að fækka verslunum fyrirtækisins á Íslandi, þar á meðal á Húsavík. Í máli stjórnarmanna kom fram að það væri verulega óheppilegt. Sögðust þeir vonast til þess að svo yrði ekki. Þess í stað væri mikilvægt að efla starfsemina á Húsavík. Í máli Aðalsteins Árna starfsmanns félagsins kom fram að hann hefur verið í sambandi við stjórnendur Húsasmiðjunnar um áform fyrirtækisins hvað frekari verslunarrekstur varðar á Húsavík.
Á fundinum urðu einnig umræður um Rekstraráætlun Skrifstofu stéttarfélaganna,
fjármál Þingiðnar og ávöxtun á fjármunum félagsins en gengið hefur verið frá samningum við Íslandsbanka og Sparisjóð Suður Þingeyinga um vaxtakjör á innistæðum félagsins hjá þessum fjármálastofnunum. Að mati stjórnar eru þau ásættanleg miðað við aðstæður í þjóðfélaginu.
Ákveðið var að stefna að því að halda aðalfund félagsins í lok maí en unnið er að því að klára bókhaldið fyrir árið 2020.
Miklar umræður urðu um stöðuna á áætlunarfluginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur með Flugfélaginu Erni. Stjórnarmenn höfðu áhyggjur af stöðunni þar sem ákveðin öfl virðast vinna gegn áframhaldandi flugi til Húsavíkur. Ákveðið var að fylgja málinu eftir og kalla eftir upplýsingum vegna málsins frá yfirvöldum.
Fyrir liggur vegna aðstæðna í þjóðfélaginu að ekki verður hægt að halda hátíðarhöldin á Húsavík í ár á baráttudegi verkafólks 1. maí sem er miður að mati stjórnar.
Hins vegar fagnar stjórnin ákvörðun PCC um að hefja á ný framleiðslu í apríl sem skiptir verulega miklu máli fyrir samfélagið við Skjálfanda.
Þá urðu umræður um heimsókn forsetateymis ASÍ á dögunum til Húsavíkur þar sem fundað var með stjórnum Þingiðnar og Framsýnar um starfsemi Alþýðusambandsins auk þess sem almenn umræða varð um starfsemi og helstu áherslur í starfi Þingiðnar og Framsýnar á þessum undarlegu tímum. Forsetateymið er á ferðinni um landið í sömu erindagjörðum, það er að heyra hljóðið í stjórnum aðildarfélaga sambandsins. Í máli stjórnarmanna sem tóku þátt í fundinum kom fram að þeir hefðu verið ánægðir með fundinn. Meiri skilningur virtist vera á málefnum stéttarfélaganna á landsbyggðinni, væri tekið mið af fyrri fundum með forsvarsmönnum ASÍ. Heimsóknir sem þessar væru gagnslausar með öllu ef forsvarsmenn ASÍ hlustuðu ekki á raddir félagsmanna aðildarfélaga sambandsins.
Það hefur mikið verið byggt á félagssvæði Þingiðnar á síðustu árum, ekki er annað sjá en að uppbygging á svæðinu haldi áfram á komandi árum. Ekki síst þess vegna kallar stjórn Þingiðnar eftir því að Húsasmiðjan efli verslun fyrirtækisins á Húsavík. Málið var til umræðu á stjórnarfundi í gær.