Atkvæðagreiðsla um kjarasamning sjómanna að hefjast

Sjómannasamtökin hafa gengið frá nýjum kjarasamningi við Samstök fyrirtækja í sjávarútvegi með gildistíma til 31. desember 2018. Verði samningurinn samþykktur gildir hann frá 1. júní 2016. Sjómannadeild Framsýnar á aðild að samningnum. Á næstu dögum munu sjómenn innan deildarinnar fá kjörgögn í hendur. Væntanlega strax eftir helgina en unnið er að því að ganga frá gögnunum í póst.
Þar með hefst atkvæðagreiðsla um samninginn. Félagsmenn Sjómannadeildar Framsýnar geta kosið á Skrifstofu stéttarfélaganna til kl. 16:00, mánudaginn 8. ágúst. Opið verður alla virka daga frá kl. 08:00 til 16:00.
Rétt er að taka fram að atkvæði verða talin sameiginlega hjá öllum aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands sem að samningnum standa.
Félagsmenn Sjómannadeildar Framsýnar sem búa utan Húsavíkur geta fengið kjörgögn í pósti komist þeir ekki til Húsavíkur að kjósa. Í þeim tilfellum eru félagsmenn beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.
Vakni upp spurningar við lesturinn er velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna. Skorað er á sjómenn sem samningurinn nær til að greiða atkvæði um kjarasamninginn.

Áfram Ísland – hlýjar kveðjur berast víða að

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur árangur Íslands í Evrópumótinu í fótbolta vakið mikla athygli víða um heim. Það er að smáþjóð skuli ná þessum merkilega árangri í knattspyrnuvellinum. Verkalýðsforingjar og starfsmenn stéttarfélaga á Norðurlöndum hafa verið duglegir við að senda starfsmönnum Framsýnar baráttukveðjur, það er fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum. Hér má smá eitt af þessum bréfum sem barst formanni Framsýnar í gærkvöldi frá Ingeborg Vinther sem lengi var í forystu verkafólks í Færeyjum en hefur nú látið af störfum. Full ástæða er til að þakka félögum okkar á Norðurlöndunum fyrir magnaðar kveðjur.
Góði Aðalsteinn,
Nú er langt síðan je havi haft samband við teg.
Fyrst hjartans kvæðir til allir Íslendingar við tí
Flotta úrslitið frá Landsliðinum je var so stolt av ìslandi
og tað sama vóru øll her heima hjá okkum hald áfram Ísland
flott flott eitt spennandi kvøld.
Je og maðurin hava tað gott,nok at gera eru frísk og røsk.
Ì kvøld hava allir Íslendingar tað gott,,fantastisk sum Ìslendska liði
kláraði seg gott.
Hevur tú tað gott og hvussu gongur tað?
Vóni tú skilir tað eg havi skriva,heilsa teimum eg kenni.
Kærar kveðir
Ingeborg Vinther.

 

Fundað um lausn mála

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum halda uppi öflugu vinnustaðaeftirliti sem skilað hefur góðum árangri ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Almennt er ástandið því gott á félagssvæðinu með nokkrum undantekningum. Dæmi er um að bæði innlend og eins erlend fyrirtæki hafi ætlað sér að greiða laun undir lágmarkslaunum á Íslandi. Framsýn hefur verið í sambandi við tvö fyrirtæki í vikunni sem eiga í hlut. Búið er að ná samkomulagi við annað fyrirtækið sem mun virða kjarasamninga og lög á vinnumarkaði. Viðræður standa yfir við hitt fyrirtækið um að laga kjör svo ekki komi til þess að Framsýn kæri fyrirtækið til hlutaðeigandi stjórnsýslustofnana. Góðar líkur eru á að það mál klárist á allra næstu dögum, jafnvel um helgina.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Dæmi eru um að menn fái um kr. 160.000 á mánuði í föst laun eins og þessi launaseðill ber með sér á sama tíma og lágmarkslaun á Íslandi eru um kr. 260.000,-. Það sem er alvarlegra í þessu tiltekna máli er að starfsmenn sem eiga í hlut vinna auk þess töluverða yfirvinnu sem skilar sér ekki inn í launin. Samtals er þessi launaseðill upp á kr. 185.000 með orlofi og ökutækjastyrk vegna kostnaðar sem hann varð fyrir.

Nýr kjarasamningur SFS og Sjómannasambands Íslands

Sjómannasamband Íslands ásamt Farmanna og fiskimannasambandinu hafa skrifað undir nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Samningurinn var undirritaður fyrr í dag, 24. júní. Sjómenn hafa verið kjarasamningslausir í fimm ár. Viðræður hafa staðið allan þann tíma, með hléum. Samningurinn, sem nú fer í kynningu og atkvæðagreiðslu, gildir til ársloka 2018.

Fnjóská lofar góðu

Veiði í Fnjóská fer vel af stað þetta sumarið. Áin var opnuð þann 14. júní og lofar byrjunin góðu, en það er Stangaveiðifélagið Flúðir sem hefur leigt ánna síðustu áratugi af Veiðifélagi Fnjóskár. Í Fnjóská veiðist lax, sjóbleikja og stöku urriði og er veiðin best í neðri hluta árinnar snemmsumars, en um og upp úr miðjum júlí er að jafnaði farið að veiðast á öllum svæðum. Þessa dagana er því aðeins veitt er með 2 stöngum á neðsta svæðinu, meðalþyngdin er mjög góð og stendur nú í 5,6 kg og stærsti laxinn sem komið hefur á land úr Fnjóská þetta árið er 9,6 kg hængur.

Veiðifélag Fnjóskár hefur undanfarna mánuði verið með í smíðum 5 ný veiðihús og verða þau tekin í notkun á næstunni. Húsin standa við Flúðasel sem er rétt sunnan við Böðvarsnes í Fnjóskadal. Aðstaða í nýju húsunum er hin besta, en svefpláss er fyrir fjóra í hverju húsi.

Það er gaman að veiða í Fnjóská segja veiðimenn, en áin ekki allra þar sem hún er oft straumhörð og vatnsmikil. Umhverfi árinnar er afskaplega fallegt og margbreytilegt, og umferð meðfram henni er lítil.

Mikið blíðskaparveður hefur verið í Fnjóskadalnum undanfarnar vikur. Tíðindamaður fréttasíðunnar rakst á ánægjulega veiðimenn í Dalsmynninu á dögunum. Létu þeir vel af sér og nutu góða veðursins og ekki spillti deginum að taka smá baráttu við þann stóra og hafa betur.20160619_205140 20160619_205253

20160619_212307_HDR

Líf og fjör á Þeistareykjum

Á dögunum fóru starfsmenn stéttarfélaganna í eftirlitsferð á Þeistareyki eins og gert er með reglulegu millibili. Auk þess áttu þeir fund með Jónatan Smára Svavarssyni, yfirmanni hjá LNS sögu en hann óskaði eftir fundi til að ræða mál tengd Þeistareykjaverkefninu.
Á Þeistareykjum er mikið um að vera um þessar mundir. Vel á þriðja hundrað manns eru við störf á svæðinu, langflestir starfsmenn ýmissa verktaka á vegum Landsvirkjunar en líka nokkrir starfsmenn á vegum Landsnets. Enn er verið að reysa vinnubúðir fyrir starfsfólkið en reiknað er með því að í júlí næstkomandi verði starfsmannafjöldinn í hámarki.
Eins og annarsstaðar hér norðanlands var með eindæmum gott veður á Þeistareykjum og smelltu starfsmenn stéttarfélaganna nokkrum myndum eins og sjá má hér.

IMG_9957

IMG_0010 IMG_9974  IMG_9982 IMG_9994 IMG_0001

Framsýn mótmælir harðlega lokun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli

Framsýn hefur samþykkt að senda frá sér svohljóðandi ályktun um lokun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Á fundi stjórnar Framsýnar, þar sem málið var til umræðu, kom fram mikil reiði út í Borgarstjórn Reykjavíkur sem virðist upplifa sig sem eyland á Íslandi. Þeim komi velferð fólks ekkert við er viðkemur aðgengi fólks á landsbyggðinni að hátækisjúkrahúsum sem byggð hafa verið í Reykjavík fyrir skattfé landsmanna:

Ályktun um lokun neyðarbrautar í Vatnsmýrinni
„Framsýn, stéttarfélag harmar þá ákvörðun Borgarstjórnar Reykjavíkur að loka eigi NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, svokallaðri neyðarbraut og bendir á að sú ákvörðun muni hafa grafalvarlegar afleiðingar og stefni almannaheill í voða.

Lending á neyðarbrautinni hefur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum tilfellum þar sem um líf eða dauða er að tefla.

Framkvæmd þessi er skerðing á þjónustu við íbúa landsins en Reykjavíkurflugvöllur hefur ávallt gegnt mikilvægu hlutverki í samgöngumálum þjóðarinnar og skapað betra aðgengi að hátæknisjúkrahúsum.

Lokun flugbrautarinnar er ekki einkamál Borgarstjórnar Reykjavíkur. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar sem viðhaldið er með almannafé til handa öllum íbúum þessa lands.“

Takk fyrir ykkar framlag til félagsins

Á aðalfundi Framsýnar gengu fjórir félagar úr stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins. Það voru þau Olga Gísladóttir, Páll Helgason, Kristrún Sigtryggsdóttir og Einar Magnús Einarsson. Við það tækifæri var þeim færð blóm og kærar þakkir fyrir þeirra framlag til félagsins. Olga, Páll og Kristrún hafa um áratugaskeið starfað í þágu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

adalfundurfram0616 158

Olga og Páll voru á aðalfundinum og fengu blóm frá félaginu fyrir vel unninn störf í þágu Framsýnar. Fundarmenn klöppuðu fyrir þeim enda verið góðir samstarfsmenn í gegnum tíðina.

Ungliðar áberandi á aðalfundi Framsýnar

Fulltrúar ungliða innan Framsýnar kynntu fund ungs fólks sem haldinn var á vegum Starfsgreinasambandsins í tengslum við útvíkkaðan formannafund SGS í Grindavík 1.-2. júní 2016. Aðildarfélög SGS voru hvött til þess að senda tvo ungliða af sitt hvoru kyni til setu á fundinum en fulltrúar Framsýnar voru Aðalbjörn Jóhannsson og Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir.

Tilgangur fundarins var annarsvegar að uppfræða og þjálfa ungliða en hinsvegar að útbúa vettvang ungs fólks innan SGS til þess að ræða hlutverk og stöðu sína innan verkalýðshreyfingarinnar. Á fundinum fengu ungliðar þjálfun í samningatækni og menningarvitund, fjölmiðlafærni og almannatengslum, fundarsköpum og fundasiðferði.
Á fundinum var slæm staða ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar rædd og hvernig mætti bæta þar úr. Mikilvægi var lagt á nýjar leiðir til þess að ná til ungs fólks og þá sérstaklega í ljósi þess að aldursbundinn launamismunur er að aukast. Formenn aðildarfélaga voru minntir á að ungt fólk hefði ekki gleymt því hvernig gengið var á þeirra rétt og virðingu við gerð síðustu kjarasamninga og bentu á að ekkert samráð hefði verið haft við ungliða í þeirri vinnu. Úr því þyrfti að bæta og forystu verkalýðshreyfingarinnar treyst til þess að setja málefni ungs fólks í forgang við gerð næstu samninga.

Fulltrúar Framsýnar bentu á að Framsýn stæði framarlega meðal stéttarfélaga þegar aðgengi og félagsstolt ungs fólks væri rætt. Það væri þó alvarlegt misvægi á milli fjölda félagsmanna á aldrinum 16-30 ára annarsvegar og virkrar þátttöku þessa sama hóps í starfi félagsins hinsvegar. Það er mjög slæmt fyrir félagið enda má gera ráð fyrir að þessi aldur telji að minnsta kosti fjórðung félagsmanna. Það mátti ekki sjá á aðalfundi þar sem hlutfall ungs fólks var innan við 5%. Þessu vill félagið breyta og ræddu fulltrúar um nýja nálgun í tengslum við ungt fólk þar sem áhersla yrði lögð á jafningjavirkni í fræðslu og starfi, nútíma margmiðlun yrði beitt af auknum mæli, félagsstarf yrði aukið og ungliðastarf eflt. Ekki væri hægt að draga úr mikilvægi þess að ungt fólk upplifi kjarabaráttu sem persónulega enda yrði hún þá fyrst almenn meðal ungs fólk. Þá skipti einmitt máli að virkja ungt fólk á meðan það væri hluti af félaginu því þrátt fyrir að margt þeirra hverfi síðar meir í önnur félög þá væri ómetanlegur sá skilningur á kjarabaráttu launþega sem sæti eftir. Framsýn var einnig hvatt til þess að efla þátttöku sinna félagsmanna innan ASÍung.

Að lokum hvöttu fulltrúar ungliða innan Framsýnar félagið áfram í sínu hlutverki sem stoltur málsvari ungs fólks á vinnumarkaði. Framsýn ætti að vera í fararbroddi þegar kemur að réttindum og þátttöku ungs fólks, frumkvöðull og leiðandi og tryggja þannig stöðu félagsins sem ein sterkasta hreyfing launþega á landinu næstu ár og áratugi.

adalfundurfram0616 128

Aðabjörn og Sigurbjörg fóru yfir sýn ungs fólks á verkalýðsbaráttu.

Samkomulag ASÍ og SA um hækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði:

Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna hækkar um 3,5% í þremur áföngum til 2018, það er þeirra starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands:

• 1. júlí 2016 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 0,5% stig
• 1. júlí 2017 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
• 1. júlí 2018 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
• Hækkun um 0,5% þann 1. júlí nk. mun renna í samtryggingu sjóðsfélaga
• Frá 1. júlí 2017 getur fólk ráðstafað allt að 2% stigum í bundinn séreignarsparnað
• Frá 1. júlí 2018 getur fólk ráðstafað allt að 3,5% stigum í bundinn séreignarsparnað

Samkvæmt kjarasamningi aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var 21. janúar 2016 hækkar mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð um samtals 3,5% stig á samningstímanum. Hækkunin kemur til framkvæmda í þremur áföngum, 0,5% stig þann 1. júlí 2016, 1,5% stig þann 1. júlí 2017 og um 1,5% stig þann 1. júlí 2018 og nær til þeirra lífeyrissjóða sem starfa á grundvelli kjarasamnings þessara aðila um lífeyrismál frá árinu 1969 og 1995. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs samkvæmt samningi þessum verður þá samtals 15,5% frá 1. júlí 2018, sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekanda.
Samkvæmt samningi aðila frá 21. janúar 2016 verður einstaklingum heimilt að ráðstafa, að hluta eða fullu, auknu framlagi launagreiðanda í bundinn séreignasparnað í stað samtryggingar til að auðvelda launafólki starfslok og auka sveigjanleika.
Atvinnurekendum verður áfram skylt að skila öllu skyldutryggingariðgjaldinu til lífeyrissjóðs viðkomandi launamanns. Sjóðfélagar munu því snúa sér beint til viðkomandi lífeyrissjóðs ef þeir óska eftir því að nýta sér þennan rétt, en lífeyrissjóðir sem starfa á grundvelli kjarasamninga ASÍ og SA munu setja upp sérstakar deildir um þessa bundnu séreign.
Ljóst er að núverandi löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða hefur ekki að geyma ákvæði sem heimilar sjóðsfélögum eða lífeyrissjóðum að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í bundna séreign. Einnig er ljóst að tíminn fram til 1. júlí 2016 er ekki nægur til að lífeyrissjóðirnir geti sett upp gagnsætt og skilvirkt kerfi svo sjóðsfélagar geti tekið upplýsta ákvörðun um að ráðstafa hluta skyldutryggingariðgjalds í bundna séreign og áhrif þeirrar ákvörðunar á samsetningu réttinda sinna.
Því er óhjákvæmilegt annað en að fresta gildistöku heimildar til ráðstöfunar í bundna séreign til 1. júlí 2017 en þá verði launamanni heimilt að ráðstafa allt að 2% stigum í bundna séreign. Frá og með 1. júlí 2018 verði launamanni heimilt að ráðstafa til viðbótar allt að 1,5% stigum til bundinnar séreignar eða samtals allt að 3,5% stigum.
Hækkun framlags atvinnurekenda til lífeyrissjóðs um 0,5% frá og með 1. júlí 2016 verður fyrst um sinn ráðstafað í samtryggingu viðkomandi lífeyrissjóðs þar til valrétturinn tekur gildi frá og með 1. júlí 2017.

Samkomulag ASÍ og SA um framkvæmd á hækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði á grundvelli samnings aðila frá 21. janúar 2016 – dags. 15.6.2016

Allt til fyrirmyndar hjá Garðvík

Starfsmenn Framsýnar áttu ánægjulegan vinnustaðafund með starfsfólki Garðvíkur á dögunum. Eigandi Garðvíkur, Guðmundur Vilhjálmsson, óskaði eftir fundi með fulltrúum Framsýnar til þess að kynna starfsmönnum sínum þau réttindi og skyldur sem þau hafa.

Þetta er gott framtak og þökkum við fyrir okkur. Við bendum eigendum fyrirtækja á starfssvæði Framsýnar að hægt er að bóka fundi sem þennann með því að hafa samband á Skrifstofu stéttarfélaganna.

felagslidar1606 002 felagslidar1606 010 felagslidar1606 007 felagslidar1606 012

Hækkun á endurgreiðslum til félagsmanna úr Fræðslusjóðnum Landsmennt

Ákveðið hefur verið að hækka endurgreiðslur til félagsmanna úr Fræðslusjóðnum Landsmennt frá 1. júlí 2016. Hámark endurgreiðslna til félagsmanna á ári hækkar úr kr. 70.000,- í kr. 75.000.-. Þeir félagsmenn sem nýtta sér ekki réttinn í þrjú ár eiga rétt á þreföldum styrk sem nemur allt að kr. 225.000.-. Breytingin gildir gagnvart námi/námskeiði sem hefst eftir 1.júlí 2016. Með þessari breytingu verður hámark einstaklingsstyrkja Landsmenntar eins og hjá Starfsafli, Sveitamennt, Ríkismennt, Flóamennt og fleiri sambærilegum sjóðum.

Guðni Th. Jóhannesson fundar

Forsetaframbjóðandinn Guðni Th. Jóhannesson hélt framboðsfund í fundarsal Skrifstofu stéttarfélaganna í hádeginu í dag, 14. júní.

Guðni er á ferð um landið um þessar mundir og fljótlega eftir að fundi lauk hélt hann af stað til Dalvíkur þar sem næsti fundur er fyrirhugaður. Siglufjörður tekur svo á móti Guðna í kvöld.

Góð mæting var á fundinn en um 120 manns stútfylltu salinn í hádeginu. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson færði Guðna ritsafnið „Fyrir neðan Bakka og ofan” eftir Þór Indriðason sem fjallar um starfsemi stéttarfélaga í Þingeyjarsýslu, atvinnumál og stjórnmál.

Úr ársskýrslu Framsýnar: Fjárhagsleg afkoma félagsins var mjög góð á árinu 2015.

Rekstrarafgangur var á flestum sjóðum félagsins. Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu um 8% milli rekstrarára. Rekstrarútgjöld félagsins hækkuðu einnig milli ára.

Rekstrartekjur félagsins námu kr. 174.674.441,- sem er aukning um 11,5% milli ára. Rekstrargjöld námu 132.890.938,- sem er aukning um 7,1% milli ára. Þessi hækkun er ekki síst tilkomin vegna hækkunar bóta og styrkja svo og kostnaðar vegna samninga. Fjármagnstekjur námu kr. 49.202.806,-. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 144.730.043,- á móti kr. 124.077.077,- á árinu 2014.

Í árslok 2015 var tekjuafgangur félagsins kr. 84.993.286,- en var kr. 65.635.375,- árið 2014.

Heildareignir félagsins námu kr. 1.639.705.386,- í árslok 2015 samanborið við kr. 1.545.510.950,- í árslok 2014.

Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 41.996.843,-. Önnur aðildarfélög greiddu kr. 6.101.145,- til rekstrarins.

Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Þess ber að geta að skuld Norðurvíkur sem komst í þrot var afskrifuð á árinu 2015 þar sem ekki náðist upp í kröfuna.

Stjórn Framsýnar fundar á fimmtudaginn kl 18:00

Stjórn Framsýnar hefur verið kölluð saman til fundar, fimmtudaginn 16. júní kl. 18:00. Um er að ræða fyrsta fundinn eftir aðalfund en nokkrar breytingar urðu á stjórn félagsins á aðalfundinum. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Fundargerð síðasta fundar
2. Inntaka nýrra félaga
3. Aðalfundur félagsins
4. Vinnustaðaeftirlit
5. Ungliðar-Framsýn UNG
6. Sumarkaffi á Raufarhöfn
7. Ályktun um Reykjavíkurflugvöll
8. Félagsliðafundur
9. Fundur með stjórnanda Samkaupa
10. Framkvæmdir G-26
11. Kjarasamningur um öryggismál
12. Sumarferð stéttarfélaganna
13. Kjör fulltrúa á aðalfund Rifóss hf.
14. Mærudagar-styrkur
15. Erlendir starfsmenn/Bæklingar-fatnaður
16. Önnur mál

Starfsfólk vantar í mötuneyti á Þeistareykjum!

Vegna fjölgunar starfsmanna á Þeistareykjum vantar fólk til starfa í mötuneyti LNS Saga á svæðinu. Um er að ræða öflugt mötuneyti, eitt það besta á svæðinu. Áhugasömum er bent á að hafa samband við yfirmann mötuneytisins Gauta Árnason í síma 8422125 sem veitir frekari upplýsingar.

Úr ársskýrslu Framsýnar: Félagið félagslega mjög sterkt

Eins og fram kemur í skýrslunni stendur stéttarfélagið Framsýn mjög sterkt um þessar mundir og hefur reyndar gert til fjölda ára. Styrkur félagsins kemur ekki síst fram í góðri þjónustu við félagsmenn, góðu aðgengi að sjóðum félagsins, öflugum starfsmenntastyrkjum, gangnamiðum og öðru því sem er í boði á vegum félagsins eins og orlofshúsum, orlofsíbúðum, hótelum og mjög ódýru flugi um Húsavíkurflugvöll. Aðkoma félagsmanna að þessari þjónustu og styrkjum færir félagsmönnum á hverju ári milljóna tugi. Það er góð kjarabót að vera félagsmaður í stéttarfélagi.

Í starfi stéttarfélaga er mikilvægt að sinna góðu upplýsingastreymi til félagsmanna. Framsýn verður ekki sakað um að gera það ekki. Félagið heldur úti heimasíðu og gefur reglulega út Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna um réttindi þeirra og fréttir af starfseminni sem sjaldan eða aldrei hefur verið eins öflug og um þessar mundir.

Hvernig byggja menn upp öflugt stéttarfélag til að ná fram þessum markmiðum? Það gera menn með virkum félagsmönnum, hæfu starfsfólki og öflugri stjórn og trúnaðarmannaráði. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf félagsins á hverjum tíma og gefa allt í starfið. Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring. Þegar þessir þættir spila saman eins og góð hljómsveit verður til öflugt stéttarfélag félagsmönnum og samfélaginu til hagsbóta.

Höfum í huga að það er ekki sjálfgefið að eiga aðild að öflugu stéttarfélagi, einu öflugasta stéttarfélagi innan Starfsgreinasambands Íslands svo vitnað sé í kannanir sem gerðar hafa verið um viðhorf fólks til stéttarfélaga. Til hamingju félagar.

Félagsliðar – hvað er nú það?

Undanfarnar vikur hafa stjórnarkonur í Félagi íslenskra félagsliða, þær Ólöf Bára Sæmundsdóttir og Guðrún Geirsdóttir verið á herferð um landið og boðað til funda með félagsliðum. Í síðustu viku var röðin komin að Húsavík og var fundurinn haldinn í sal stéttarfélaganna á Garðarsbraut 26. Tilgangur kynningarfundanna er að kynna félag íslenskra félagsliða og kanna vilja fólks innan stéttarinnar til að stofna eigið stéttarfélag.
Á fundinum var einnig rætt um menntun félagsliða og nauðsyn þess að gera störf þeirra sýnilegri, en þó að þekking fólks á störfum félagsliða hafi aukist á síðustu árum virðist námið ekki alls staðar metið sem skildi. Ekki er tekið tillit til félagsliða í mönnunarmódelum stofnanna og þar af leiðandi síður auglýst eftir fólki með félagsliðamenntun. Starfsvettvangur félagsliða er reyndar mjög fjölbreyttur en segja má að hann felist að mestu leiti í því að styðja og efla sjálfstæða félagslega virkni, á heilbrigðis- félags- og menntunarsviði, í aðstoð og umönnun, ávallt með vilja og þarfir skjólstæðingsins að leiðarljósi.
Fagmenntun félagsliða á Íslandi hófst árið 1998 með þróunarverkefni Borgarholtsskóla, Félagsmálaráðuneytisins og stéttarfélaga og innan stéttarinnar eru í dag eru um 1000 félagsliðar. Stéttin mætir vaxandi þörf í samfélaginu fyrir sérþekkinguna sem námið veitir og benda má á að samkvæmt greiningu sem Starfsgreinasamband Íslands vann á fræðsluþörf fyrir aðstoðarfólk fatlaðs fólks kemur fram að nám félagsliða uppfyllir þær gæðakröfur sem gerðar eru á Norðurlöndunum um menntun fyrir aðstoðarfólk.
Á fundinum var einnig var rætt um mikilvægi þess að félagsliðar verði löggilt heilbrigðisstétt. Nauðsynlegt er fyrir framgang stéttarinnar að hún fái sömu viðurkenningu og aðrar fagstéttir innan heilbrigðisgeirans og ekki síður fyrir gæði þjónustu við ört vaxandi hóp fólks í þjóðfélaginu sem þarf á aðstoð og umönnun að halda. Kom fram í máli stjórnarkvenna að fulltrúar félagsliða hafi fundað með heilbrigðisráðherra í nóvember 2015, en síðan hafi ekkert af því máli spurst.
Fundurinn tókst í alla staði vel og niðurstaða hans var helst sú að samvinna og samheldni sé það sem mestu máli skiptir í baráttunni fyrir viðurkenningu stéttarinnar og náist að halda henni muni það leiða félagsliðastéttina til áframhaldandi góðra verka.

Eftirfarandi myndir voru teknar á fundi sem Félag íslenskra félagsliða boðaði til á Húsavík fyrir helgina. Nokkrir félagsliðar eru starfandi á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

felagslidar1606 013felagslidar1606 015felagslidar1606 017felagslidar1606 018felagslidar1606 020

Úr ársskýrslu Framsýnar: Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2015 eftir röð:

Samkvæmt ársskýrslu Framsýnar greiddu þessi fyrirtæki og stofnanir mest til félagsins á árinu 2015.

GPG. Seafood ehf.
Sveitarfélagið Norðurþing
Brim hf.
Norðlenska matarborðið ehf.
Ríkisjóður Íslands
Þingeyjarsveit
Hvammur, heimil aldraðra
Norðursigling ehf.
HB Grandi hf.
Eimskip Íslands ehf.

GPG-Seafood greiddi mest allra atvinnurekenda í iðgjöld til Framsýnar eða samtals kr. 11 milljónir árið 2015. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar.

Úr ársskýrslu Framsýnar: Félagsmönnum fjölgar og fjölgar, eru nú 2705

Alls greiddu 2.455 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2015 en greiðandi félagar voru 2.378 árið 2014. Greiðandi félagsmönnum fjölgaði milli ára. Af þeim sem greiddu til félagsins voru 1.237 karlar og 1.218 konur sem skiptast þannig, konur eru 49,6% og karlar 50,4%.

Samkvæmt samþykkt stofnfundar félagsins frá 1. maí 2008 er ekki lengur miðað við sérstakt lágmarksgjald svo menn teljist fullgildir félagsmenn heldur teljast þeir félagsmenn sem greiða til félagsins á hverjum tíma og ganga formlega í félagið.

Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 250, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði.

Þá má geta þess að 431 launagreiðendur greiddu til Framsýnar á síðasta ári og fjölgaði þeim um 30 á milli ára. Árið 2014 greiddu 401 launagreiðendur til félagsins.

Félagsmenn þann 31. desember 2015 voru samtals 2.705.