Stofnanasamningur undirritaður

Síðasta föstudag var undirritaður nýr stofnanasamninugur milli stéttarfélaganna á Norðurlandi og Heilbirgðisstofnunar Norðurlands. Eins og kunnugt er voru nokkar heilbrigðisstofnanir sameinaðar undir HSN. Þess vegna þurfi að ráðast í samningagerð milli hlutaðeigandi aðila þar sem hvert og eitt stéttarfélag var áður með samning við stofnun í sínu heimahéraði. Stéttarfélögin Samstaða, Eining-iðja, Aldan og Framsýn komu að gerð samningsins við HSN. Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar stéttarfélaganna og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, (HSN) eftir undirskrift samningsins.

Frambjóðendur á ferð og flugi

Í gær, fimmtudaginn 20. október, komu við hér á Skrifstofu stéttarfélaganna framfjóðendur Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Þeir ræddu málin yfir léttum veitingum og áttu góða stund.
Á meðfylgjandi mynd má sjá þá Tryggva, Kjartan og Loga ásamt Lindu starfsmanni Skrifstofu stéttarfélaganna.

Kraftur í ungliðastarfi Framsýnar

4. þing ASÍ-UNG var haldið í Reykjavík fyrir um mánuði síðan. Þingið var vel sótt og voru tugir fulltrúa ungs launafólks saman komnir til þess að ræða stöðu ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar og eins framtíð ungliðahreyfingar ASÍ. Ný stjórn var kjörin og línur lagðar fyrir komandi starfsár. Í kjölfar þingsins var gögnum safnað saman og frábær, áframhaldandi umræða hefur átt sér stað um stefnu og tilgang ungliðahreyfinga innan ASÍ.

Þingið tók þá ákvörðun að horfa inn á við og reyna að átta sig á hvernig best er að virkja ungt fólk innan hreyfingarinnar. Vandi hefur verið að fá ungt fólk til starfa innan stéttarfélaganna og ungt fólk innan ASÍ hefur upplifað sig með lítið bakland jafningja sinna. Þessu þarf að breyta enda upplifði ungt launafólk að það hefði verið skilið eftir og á það stigið í kjaraviðræðum síðasta árs. Án virkrar þáttöku ungs fólks missir hreyfingin nefnilega bæði vægi og vogarafl í baráttu launafólks. Rödd okkar vantaði við samningaborðið og niðurstaðan var eftir því.

ASÍ-UNG telur að heilt yfir þá þurfi að endurhugsa kynningu og fræðslustarfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Það er áhyggjuefni hvað hreyfingin eldist hratt og að þrátt fyrir mikilvægi hennar þá virðist ungt fólk ekki tengja við hana. Aðferðir til þess að ná til ungs fólks hafa að mörgu leiti ekki fylgt eftir þróun í miðlun og aðferðafræði og nauðsynlegt fyrir aðildarfélög ASÍ að átta sig á alvarleika málsins. Stór hluti af vandanum er vanmat á þörf og vöntun á fjármagni til þess að sinna kynningar- og félagsstarfi ungs fólks innan hreyfingarinnar. Nauðsynlegt er að setja fjármagn í uppbyggingu ungliðastarfs innan ASÍ og aðildarfélaga til þess að tryggja nýliðun, gæði og framkvæmd viðburða, samráðsferðalög milli landshluta og samskipti við sambærileg samtök utan landsteina.

Framsýn er frumkvöðull innan hreyfingarinnar og hefur með því að halda úti virku ungliðaráði sýnt fram á raunverulegan vilja til lausna. Samskipti okkar við stjórn og formann hafa verið félaginu til sóma og það er mikil hvatning til okkar í ungliðaráðinu að finna fyrir þeim metnaði sem félagið sýnir í málefnum ungs fólks. Með þennan metnað í farteskinu er Framsýn-UNG staðráðið í að sjá til þess að félagið verði áfram leiðandi í þeirri hröðu þróun sem þarf að eiga sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar til þess að tryggja henni líf og tilgang næstu árin og áratugina.

Aðalbjörn Jóhannsson,
formaður Framsýnar-UNG og alþjóðaritari stjórnar ASÍ-UNG

Mikilvægt hlutverk trúnarðarmanna

Trúnaðarmenn eru mikilvægir á hverjum vinnustað, bæði fyrir félagsmenn og stéttarfélögin. Starfsgreinasambandið hefur tekið saman upplýsingarefni um trúnaðarmenn á vinnustöðum. Í upplýsingarefninu er farið yfir allt það helsta sem tengist þessum mikilvægu einstaklingum. Upplýsingarefnið, sem einnig má nálgast á pólsku og ensku, má sjá með því að smella hér.

Toggi Sigurjóns gefur út geisladisk

Höfðinginn, Þorgrímur „Toggi“ Sigurjónsson hefur gefið út disk með nokkrum völdum lögum eins og Capri Kararína, Anna í Hlíð, Sem lindin tær og Danny Boy. Þorgrímur er fæddur 9. desember 1933 á Húsavík og hefur lengi haft áhuga fyrir góðri tónlist. Toggi spilar á munnhörpu og Knútur Emil Jónasson á gítar. Arngrímur Arnarson sá um hönnun og uppsetningu á plötuumslaginu. Alls eru 10 lög á geisladisknum sem nefnist Yfir borðið. Toggi sér að mestu sjálfur um söluna á disknum en sagði að menn gætu nálgast hann hjá versluninni Tákn, Toppnum(Gumma rakara) og þá skyldi hann eftir nokkur eintök á Skrifstofu stéttarfélaganna til sölu fyrir áhugasama. Það er full ástæða til að óska Togga og Knúti til hamingju með nýja diskinn um leið og skorað er á fólk að kaupa hann enda vandaður diskur með fallegum lögum.

Gengið frá kjarasamningi við ÖÍ

Framsýn gekk í dag frá kjarasamningi við Öryggismiðstöð Íslands vegna starfsmanna sem starfa á vegum fyrirtækisins á Húsavík. Þess má geta að Öryggismiðstöðin sér um alla gæslu á framkvæmdasvæðinu á Bakka. Á myndinni má sjá tvo starfsmenn skoða nýja samninginn í morgun, það er eftir að skrifað var undir hann. Samningurinn gildir frá 1. maí 2016 sem þýðir að starfsmenn munu fá leiðréttingar á sínum kjörum frá þeim tíma.

Sjómenn veita verkfallsheimild

Kosningu um ótímabundið verkfall hjá sjómönnum sem starfa eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem Framsýn á aðild að lauk kl. 12:00 á hádegi í dag, 17. október. 17 af 18 aðildarfélögum SSÍ samþykku að hefja verkfall á fiskiskipaflotanum kl. 23:00 þann 10. nóvember næstkomandi hafi samningar milli SSÍ og SFS ekki náðst fyrir þann tíma. Sjómannafélag Hafnarfjarðar var eina félagið sem hafnaði verkfalli. Hjá Framsýn tóku 75% sjómanna innan Sjómannadeildar félagsins sem höfðu kjörgengi þátt í atkvæðagreiðslunni. Þar af samþykktu 81% félagsmanna heimild til verkfallsboðunar og 19% greiddu atkvæði gegn verkfallsboðun. Niðurstaðan er skýr, megin þorri félagsmanna er klár í átök þurfi þess með til að knýja á um gerð kjarasamnings. Sjá má heildar niðurstöðurnar inn á www.ssi.is.

(Þorgeir Baldursson tók myndina sem er með þessari frétt)

Brú lífeyrissjóður býður sjóðfélögum óverðtryggð lán

Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga býður nú sjóðfélögum sínum upp á óverðtryggð íbúðarlán, nú með 6,44% breytilegum vöxtum. Sjóðurinn kemur þannig til móts við eftirspurn sjóðfélaga sinna um óverðtryggð lán, en fyrir hefur sjóðurinn eingöngu veitt lán á föstum verðtryggðum vöxtum sem nú eru 3,7%.
Stjórn sjóðsins skrifaði undir nýjar lánareglur þar sem aukið var við lánakosti sjóðfélaga og var hámarks fjárhæð hækkuð upp í 50 milljónir króna, hámarks veðhlutfall hækkað í 75% af markaðsvirði íbúðar þó með þeim skilyrðum að lán sem eru með yfir 65% veðhlutfall verði ekki lengur en til 35 ára og á 1. veðrétti. Einnig var lántökugjald lækkað úr 1% í 0,5% og ekkert lántökugjald tekið við endurfjármögnun á lánum frá sjóðnum sem eru eldri en 12 mánaða. Þá er ekkert uppgreiðslugjald á lánum.
Vextir óverðtryggðu lánanna verða fastir fyrstu 36 mánuðina. Vextirnir verða endurskoðaðir á hálfs árs fresti og geta þá tekið breytingum. Lántakendur geta sótt um að festa vexti aftur að fastvaxtatímabili loknu.
Þessir lánakostir bjóðast öllum þeim sem hafa einhvern tímann greitt iðgjöld til sjóðsins, sem og sjóðfélögum í Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar.

Sjá nánar á heimasíðu Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga: www.lifbru.is

Framsýn semur um afslátt fyrir félagsmenn hjá Icelandair Hotels

Framsýn hefur gengið frá samkomulagi við Icelandair Hotels um afslátt á gistingu í vetur á hótelum sem eru innan keðjunnar. Þau eru; Icelandair Akureyri, Héraði, Klaustri, Vík, Flúðum, Hamri og á Reykjavík Natura. Með þessu samkomulagi er enn verið að auka við þjónustu félagsmanna er viðkemur afþreyingu og orlofi víða um land.
Verðið á eins til tveggja manna standard herbergi án morgunverðar til félagsmanna verður kr. 11.500 til 30. apríl 2017. Fullt verð er kr. 20.300,-. Leyfilegt er að taka með sér börn í herbergi án þess að greiða aukalega ef ekki þarf aukarúm. Velji félagsmenn að fá önnur herbergi s.s. svítur, deluxe eða fjölskylduherbergi greiða þeir aukagjald fyrir það.
Morgunverðurinn er á kr. 2.600 per mann og á kr. 3.000 á Reykjavík Natura.
Stéttarfélagsverðið er aðeins bókanlegt í gegnum síma eða með tölvupósti hjá Icelandair hótelum. Við bókun/innritun þarf að gefa upp kreditkortanúmer sem tryggingu fyrir herbergi. Símanúmerið er  4444000 og netfangið er icehotels@icehotels.is

Áríðandi: Félagsmenn greiða fyrir herbergið á Skrifstofu stéttarfélaganna og framvísa gistiávísun þegar þeir innrita sig á viðkomandi hótel innan Icelandair Hotels.

Skorað er á félagsmenn að hafa samband ef frekari upplýsinga er þörf.

 

Fjölmörg mál á dagskrá stjórnarfundar

Stjórnarfundur verður haldinn í Framsýn miðvikudaginn 19. október kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins.
Dagskrá:
1. Fundargerð síðasta fundar
2. Inntaka nýrra félaga
3. Sameining lífeyrissjóða
4. Uppgjör við G&M
5. Kjarasamningur við ÖÍ
6. Framkvæmdir G-26
7. Þing ASÍ/varafulltrúi-ferðatillögun-tölvur
8. Húsnæðismál-niðurstaða fundar með forseta ASÍ
9. Málefni Skrifstofu stéttarfélaganna
10. Kjaramál sjómanna
11. Boð til forseta Íslands
12. Ferð á vegum SGS til Norðurlandana
13. Pacta-hugsanlegt samstarf
14. Erindi frá SSÍ varðandi fulltrúakjör á þing ASÍ
15. Stofnanasamningur HSN
16. Icelandair Hotels – sérkjör félagsmanna á gistingu
17. Önnur mál

Haustvertíðin hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn

Hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn hefur verið unnið á vöktum við vinnslu á síld og makríl frá því um 27. júlí sl. Reiknað er með því að vertíðinn klárist um 10. október. Eftir það verða tekin stórþrif í nokkra daga og svo byrjað vinnslu á þorsk og ufsa. Það stefnir því í að það verði sama og ekkert stoppað áður en hafin verður bolfiskvinnsla á ný.

Vertíðin hefur gengið vel og virðist vera mikið af bæði makríl og norsk íslenskri síld í hafinu við Ísland. Þegar vinnsla á makríl og síld er í gangi hjá Ísfélaginu er unnið á vöktum allan sólarhringinn og þá meira en tvöfaldast starfsmannafjöldinn. Eru það um 120 manns sem koma að starfseminni á sólarhring. Kemur fólk víða að til starfa og eins eru margir heimamenn sem nýta sér þetta tækifæri til að drýgja tekjurnar.

mynd: Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Ný stjórn ASÍ-UNG

23. september síðastliðinn hélt ASÍ-UNG sitt fjórða ársþing. Ný stjórn var kjörin á þinginu. Framsýn á sinn fulltrúa þar sem er Aðalbjörn Jóhannsson. Nánar má lesa um ársþingin hér.

ASÍ-UNG eru samtök ungs fólks innan stéttarhreyfingarinnar sem sér um að málefni ungs fólks fái athygli frá Alþýðusambandinu. Nánar má lesa um ASÍ-UNG hér.

Nú er hægt að skila inn rafrænum skilagreinum

Skrifstofa stéttarfélaganna býður atvinnurekendum að skila inn rafrænum skilagreinum til stéttarfélaganna. Nýtt kerfi þess efnis hefur verið tekið í notkun. Nánari upplýsingar gefur Jónína Hermannsdóttir á Skrifstofu stéttarfélaganna. Netfangið hjá henni er nina@framsyn.is

Jarmað á Raufarhöfn

Það var bæði jarmað og hlegið á Hrútadeginum á Raufarhöfn sem fram fór síðasta laugardag. Að venju var mikið lagt upp úr deginum sem var hinn skemmtilegasti í alla staði. Veðrið frábært og virkilega góður andi ríkjandi á svæðinu. Þó nokkuð af hrútum voru seldir á staðnum og greiddu kaupendur allt að kr. 62.000 fyrir kosta gripi. Til viðbótar var m.a. boðið upp á veitingar, sölu á minjagripum, kjötmat, smölun með smalahundum og stigvélakast sem Sveinn Aðalsteinsson sigraði en hann keppti fyrir Húsavík og fékk hann pela með vönduðu víni í verðlaun. Logi Bergmann fjölmiðlamaður stjórnaði samkomunni eins og hann hefði aldrei gert annað um daganna. Níels Árni Lund frá Miðtúni var honum til aðstoðar við hrútauppboðið. Sjá myndir:hrutadagur1016-069

hrutadagur1016-035hrutadagur1016-036hrutadagur1016-042hrutadagur1016-044hrutadagur1016-045hrutadagur1016-048hrutadagur1016-053hrutadagur1016-064hrutadagur1016-059hrutadagur1016-068hrutadagur1016-072hrutadagur1016-080hrutadagur1016-040hrutadagur1016-103hrutadagur1016-097

Formaður Framsýnar með erindi í Háskólanum á Akureyri

Flokksráðsfundur Vinstri grænna var haldinn í Háskólanum á Akureyri dagana 30. september til 1. október. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, var fenginn til að vera með erindi um undirboð í íslenskum vinnumarkaði ásamt einum öðrum frummælenda. Í erindi sínu fjallaði Aðalsteinn sérstaklega um ferðaþjónustuna og byggingariðnaðinn. Sérstaklega í þessum tveimur atvinnugreinum hefur verið mikið um kjarasamningsbrot og undirboð. Að loknum erindum frummælenda var opnað fyrir fyrirspurnir frá fundarmönnum. Fjölmargar fyrirspurnir voru lagðar fram sem ræðumenn svöruðu eftir bestu getu.

hrutadagur1016-027

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formaður Framsýnar var gestur á flokksráðsfundi VG sem fram fór á Akureyri fyrir helgina. Önnur stjórnmálasamtök hafa fallast eftir erindi Aðalsteins enda byggst upp mikil þekking á viðfangsefninu á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Þreyttir á Þeistareykjum

Fyrir nokkrum dögum voru starfsmenn stéttarfélaganna á leið á Þeistareyki til að funda með verktökum á svæðinu. Það beið þeirra óvæntur glaðningur skammt frá orkuverinu sem nú er í byggingu. Þar voru á ferðinni nokkrir gangnamenn úr Aðaldal sem voru að safna saman fé sem eftir hafði orðið í fyrri göngum. Óhætt er að segja að þeir hafi verið heppnir með veður en þetta var með eindæmum fallegur dagur.

Eitthvað var þó ekki að falla með þeim þar sem Benedikt Kristjánsson, bóndi á Hólmavaði, hafði á orði að „Allir væru búnir á því, hestar, hundur og menn‟. Starfsmenn stéttarfélaganna töldu þó að ósprungið væri á Hilux-bifreiðinni sem var á staðnum.

Framkvæmdir á Kárhól

Á dögunum heimsótti starfsmaður stéttarfélaganna Kárhól í Reykjadal. Þar er hús í smíðum sem verður norðurljósarannsóknarstöð þegar fram líða stundir.  Þetta er í kringum 300 milljóna króna framkvæmd. Eins og sjá má verður húsið mjög sérstakt í útliti.

Rekstur á rannsóknarstöðinni verður í höndum Aurora Observatory sem er sjálfseignarstofnun.

Húsnæðismál til umræðu á fundi Framsýnar

Framsýn og Þingiðn stóðu fyrir fundi um húsnæðismál á félagssvæðinu en mikil vöntun er á húsnæði, ekki síst leiguhúsnæði á Húsavík. Félagið bauð fulltrúum sveitarfélaga að sitja fundinn sem fram fór í gær ásamt Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ. Aðeins fulltrúar frá Norðurþingi sáu ástæðu til að taka þátt í fundinum frá sveitarfélögum. Góðar umræður urðu um málefni fundarins og tilgang Alþýðusambandsins með stofnun húsnæðissamvinnufélags sem ætlað er að koma að byggingu leiguhúsnæðis fyrir lágtekjufólk ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Því miður virðist sem það verði ekki auðvelt að koma slíku leigukerfi í gang á landsbyggðinni en heimamenn eru staðráðnir í að vinna áfram að málinu enda mikilvægt að takist að hefja uppbyggingu á húsnæði í sveitarfélaginu þar sem þörf er fyrir um 100 nýjar íbúðir á Húsavík þar sem spáð er töluverðri íbúa fjölgun á svæðinu er tengist mikilli atvinnuuppbyggingu á stór Húsavíkursvæðinu.aasi0916-005

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gylfi Arnbjörnsson fór yfir hugmyndir ASÍ með stofnun félags sem ætlað er að koma að byggingu leiguhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu fyrir lágtekjufólk. Svo virðist sem kerfið gangi ekki upp á Húsavík.

aasi0916-021

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sveitarstjóri Norðurþings, Kristján Þór Magnússon og Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar voru meðal þeirra sem tóku þátt í fundinum.