Allir í leikhús – Leikdeild Eflingar klikkar ekki

Þá er komið að því. Leikdeild Umf. Eflingar frumsýnir leikverkið „Í gegnum tíðina“ 1. mars næstkomandi. Verkið er í leikstjórn Hildar Kristínar Thorstensen. Leikskáldið í Reykjadal, sjálfur Hörður Þór Benónýsson, skrifaði leikritið sem fjallar um líf fjölskyldu á árunum milli ca 1950-1990 og er söngdagskrá með lögum frá þessum tíma fléttað inn í söguna. Já sæll, bara frábært! 

Að sjálfsögðu ætla stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og STH að niðurgreiða miða á sýninguna fyrir félagsmenn á öllum aldri. Félagsmenn fá kr. 1.000,- í afslátt per miða en fullt verð er kr. 3.800,-. En munið, félagsmenn sem vonandi fjölmenna á sýninguna, þurfa að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna áður en þeir fara á sýninguna. Á skrifstofunni fá þeir afsláttarmiða sem þeir framvísa síðan við innganginn þegar þeir greiða fyrir miðann. Ekki flókið, skorum á alla að skella sér á leikritið á Breiðumýri, örugglega frábær kvöldstund.

Vinsamlegur fundur með Samkaupum

Forsvarsmenn Framsýnar og Samkaupa hittust á fundi síðasta mánudag til að ræða verslunarrekstur fyrirtækisins á Húsavík,  umræður urðu reyndar líka um verslun Samkaupa í Mývatnssveit. Fram kom að ekki stendur til að breyta þeirri verslun frá því sem nú er undir merkjum Krambúðar.

Varðandi verslunina Nettó á Húsavík þá gerðu forsvarsmenn Framsýnar grein fyrir umræðu í samfélaginu um óánægju heimamanna með stöðu mála. Töldu þeir mikilvægt að núverandi verslun yrði gerð aðgengilegri með breytingum á uppsetningu verslunarinnar og vöruúrvalið tæki mið af þörfum viðskiptavina á hverjum tíma. Heimafólk kvartaði oft yfir því að það væri skortur á dagvörum í versluninni sem gerði það að verkum að fólk færi í auknum mæli til Akureyrar í verslunarferðir. Þá væru verslunarkeðjur á Akureyri auk þess farnar að bjóða upp á heimsendingaþjónustu til Húsavíkur þar sem þær fyndu fyrir óánægju viðskiptavina Nettó á Húsavík með verslunina.

Samkaup hefur gefið það út að til standi að byggja upp öflugan verslunarkjarna á svæðinu. Framsýn legði mikið upp úr því að áherslur félagsins næðu fram að ganga, öflugur matvörumarkaður væri forsendan fyrir því að önnur verslun þrifist á Húsavík. Að þessum markmiðum væri félagið tilbúið að vinna með Samkaupum og öðrum verslunareigendum á Húsavík og í næsta nágrenni. Þá væri afar mikilvægt að Samkaup skipti við framleiðendur í Þingeyjarsýslum og kæmi jafnframt að því að styrkja samfélagið almennt með framlögum s.s. til æskulýðs, íþrótta og menningarmála.

Forsvarsmenn Samkaupa tóku ábendingum Framsýnar mjög vel. „Verslunarfermetrar að Garðarsbraut 64 eru of fáir og er það stóra áskorun okkar í dag“ segir Gunnar Egill Forstjóri Samkaupa.  Á síðustu árum hafa margir kostir verið skoðaðir á svæðinu með tilliti til fjölgun verslunarfermetra. Má þar nefna að flytja núverandi verslanir á einn stað annarsstaðar í bænum eða byggja við annað hvort Garðarsbraut 5 eða 64. Hafa þessar umleitanir síðustu ára ekki leitt til árangurs og þeim því hætt. Því hafði forstjóri Samkaupa samband við sveitastjóra Norðurþings síðasta haust og óskaði eftir samtali um lóðir sem vænlegt væri að byggja á til framtíðar. Leiddi þetta samtal til þess að nú stendur yfir skipulagsvinna varðandi lóð í landi Húsavíkur við Norðausturveg og stefnt þar að uppbyggingu verslunarkjarna með 1.300 fermetra Nettó verslunar auk annarrar þjónustu.

„Núverandi verslunarrými að Garðarsbraut 64 hefur verið stækkað tvívegis síðustu ár en góð verslun heimamanna og gesta hefur enn á ný gert verslunarrýmið of lítið. Stjórnendur og starfsfólk okkar hefur staðið sig frábærlega á svæðinu við þjónustu við viðskiptavini að mínu mati. En í ljósi stöðunnar munu þau ráðast í í endurskoðun á vöruvali verslunarinnar, breyta uppröðun eins og kostur er og rýmka núverandi rými eins og kostur er þangað til ný verslun getur risið. Samkaup hefur stutt við bakið á mörgum samfélagslegum verkefnum á svæðinu síðustu ár og verslað við heimaaðila eins og kostur er og mun gera það áfram“ segir Gunnar að lokum.

Forsvarsmenn Samkaupa og Framsýnar sammæltust um að vera í góðu sambandi hvað það varðar að efla verslunarrekstur á Húsavík. Framsýn mun fylgja málinu eftir af fullum þunga íbúum til hagsbóta.

Kalla eftir viðbrögðum stjórnvalda strax – flugsamgöngur í verulegri hættu

Komi ekki til kraftaverk verður áætlunarflugi til Húsavíkur hætt um næstu mánaðamót á vegum Flugfélagsins Ernis. Það sem af er vetri hefur flugfélagið fengið tímabundinn ríkisstyrk með fluginu til Húsavíkur sem klárast um næstu mánaðamót. Full ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni. Forsvarsmenn Framsýnar hafa verið í sambandi við stjórnendur flugfélagsins, sveitastjórnarmenn stjórnvöld og þingmenn Norðausturkjördæmis með það að markmiði að mynda breiðfylkingu um áframhaldandi flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ekki þarf að fara mörgum orðum yfir mikilvægi þess fyrir Þingeyinga og alla þá sem treysta þurfa á öruggar flugsamgöngur milli landshluta að fluginu verði viðhaldið.

Framsýn hefur þegar komið áhyggjum sínum á framfæri við þingmenn kjördæmisins og forsvarsmenn ríkistjórnarinnar með meðfylgjandi bréfi:  

Ágætu þingmenn

Flugfélagið Ernir hóf að fljúga til Húsavíkur í apríl 2012. Þá höfðu flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur legið niðri í tæp 12 ár. Frá þeim tíma hafa forsvarsmenn flugfélagsins átt mjög gott samstarf við heimamenn um flugið enda mikilvæg samgönguæð milli landshluta.

Forsvarsmenn fyrirtækja, sveitarfélaga, stéttarfélaga, ríkisstofnana, sem og íbúar hafa kallað eftir öruggum flugsamgöngum inn á svæðið.

Hvað ákall heimamanna varðar um viðunandi samgöngur, hefur Framsýn stéttarfélag nánast frá upphafi komið að því að styrkja flugleiðina Reykjavík-Húsavík með magnkaupum á flugmiðum fyrir sína félagsmenn, sem eru rúmlega þrjú þúsund, auk þess sem félagið hefur komið að markaðssetningu flugfélagsins hvað varðar áætlunarflug til Húsavíkur.

Markmið Framsýnar hefur verið að tryggja flugsamgöngur inn á svæðið og tryggja um leið flugfargjöld á viðráðanlegu verði fyrir félagsmenn, sem margir hverjir hafa lítið á milli handanna. Almennt má segja að mikil ánægja hafi verið meðal félagsmanna Framsýnar og íbúa í Þingeyjarsýslum með frumkvæði félagsins að stuðla að því að tryggja flugsamgöngur í góðu samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Vissulega hefur gefið á móti, en fram að þessu hafa menn komist klakklaust í gegnum brimskaflana hvað áætlunarflugið varðar.

Eins og þingmönnum er vel kunnugt um hefur rekstrargrundvöllur fyrir innanlandsflugi ekki verið upp á marga fiska og því hefur ríkið þurft að koma að því að ríkisstyrkja nokkrar flugleiðir með útboðum eða með sértækum aðgerðum, s.s. til Vestmannaeyja og Húsavíkur. Styrkurinn til Húsavíkur kom til á síðasta ári þegar núverandi eigendur Flugfélagsins Ernis gáfu út að þeir væru að gefast upp á flugi til Húsavíkur nema til kæmi ríkisstuðningur á flugleiðinni, líkt og væri með annað áætlunarflug til smærri staða á Íslandi. Í kjölfarið kom Vegagerðin að því tímabundið að styrkja flugleiðina.

Nú er svo komið að áætlunarflugi til Húsavíkur verður hætt um næstu mánaðamót fáist ekki frekari stuðningur frá ríkinu. Undirritaður fh. Framsýnar hefur fundað með forsvarsmönnum flugfélagsins síðustu daga, þar sem þetta hefur verið staðfest. Fari svo að fluginu verði hætt, sem flest virðist því miður benda til, er um að ræða gríðarlegt reiðarslag fyrir Þingeyinga og alla þá aðra sem eiga erindi inn á svæðið.

Höfum í huga að fjölmargir þurfa að reiða sig á flugið fyrir utan svokallaða hagsmunaaðila sem nefndir eru hér að ofan, það er allur sá fjöldi sem þarf af heilsufarsástæðum að leita lækninga og sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og treystir á öruggar flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Svo ekki sé talað um útgjöldin sem munu stóraukast, ekki síst hjá efnalitlu fólki, hætti áætlunarflugið um mánaðamótin.

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar fimmtudaginn 15. febrúar var formanni félagsins falið að skrifa þingmönnum kjördæmisins bréf þar sem kallað verði eftir stuðningi þeirra við að tryggja áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur. Þess er vænst að þingmenn svari ákalli Þingeyinga og gangi til liðs við heimamenn í þessu mikilvæga í atvinnu- og  byggðamáli.

Fulltrúar Framsýnar eru reiðubúnir að funda með þingmönnum og/eða veita þeim frekari upplýsingar verði eftir því leitað enda mikilvægt að þingmenn séu vel upplýstir um málið.

Húsavík 16. febrúar 2024

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður

The union´s office is closed on 22nd and 23rd of February.

Due to a study and staff tour of the unions’ employees on Thursday and Friday next week, i.e. February 22nd and 23rd, the unions’ office will be closed during this time. Employees will be out of service area during this time. This is not least why it is important that members stop by after the weekend if they have business with the office staff, e.g. regarding renting holiday apartments. We apologize for any inconvenience because of this.

The union´s staff

Sjómenn samþykktu kjarasamninginn

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem undirritaður var þann 6. febrúar, lauk kl. 15:00 í dag. Framsýn á aðild að samningnum fyrir fh. sjómanna innan félagsins.

Á kjörskrá voru 1.104 félagsmenn innan aðildarfélaga Sjómannasambandsins og greiddu 592 atkvæði um samninginn eða 53,62%.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er þessi:

Af þeim sem kusu sögðu 367 já eða 61,99%, 217 sögðu nei eða 36,66% og auðir og ógildir seðlar voru 8 eða 1,35%.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 62,84% já og 37,16% sögðu nei.

Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta. Full ástæða er til að óska sjómönnum til hamingju en þeir hafa verið samningslausir frá árslokum 2019.

Skrifstofa stéttarfélaganna lokuð 22. og 23. febrúar

Vegna náms- og kynnisferðar starfsmanna stéttarfélaganna fimmtudaginn og föstudaginn í næstu viku, það er 22. og 23. febrúar verður Skrifstofa stéttarfélaganna lokuð á þessum tíma. Starfsmenn verða utan þjónustusvæðis á þessum tíma. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að félagsmenn komi við eftir helgina, eigi þeir erindi við starfsmenn skrifstofunnar s.s. vegna leigu á orlofsíbúðum. Beðist er velvirðingar á þessu.

Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna

Funda með Samkaup á mánudaginn

Forsvarsmenn Framsýnar og Samkaupa hafa komið sér saman um að funda á mánudaginn um verslunarrekstur fyrirtækisins á Húsavík og á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum en Samkaup rekur þrjár verslanir á svæðinu. Eins og fram hefur komið hefur verið megn óánægja meðal viðskiptavina með Nettóbúðina á Húsavík. Málið var tekið upp á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar sem haldinn var í janúar. Þar var skorað á forsvarsmenn félagsins að beita sér í málinu, það er að Samkaup taki sig á og komi til móts við viðskiptavini með betri og hagkvæmari verslun. Málið var einnig til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gærkvöldi. Aðilar, það er Samkaup og Framsýn, hafa þegar haldið einn símafund um málið en munu hittast á formlegum fundi á mánudaginn til að ræða málið frekar. Fyrir liggur að Framsýn mun þrýsta á Samkaup að gera betur í verslunarrekstri á Húsavík og sem fyrst verði hafist handa við að byggja upp nýja verslun með góðu aðgengi fyrir viðskiptavini og vöruverði eins og best gerist í stórmörkuðum á Íslandi.

Þingiðn hefur áhyggjur af stöðu kjaramála

Stjórn Þingiðnar kom saman til fundar í vikunni. Tilefnið var ekki síst að ræða stöðuna í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar sem félagið á aðild að enda eitt af aðildarfélögum Samiðnar. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum slitnaði upp úr viðræðum aðila þar sem SA felst ekki á forsenduákvæði verkalýðshreyfingarinnar í fjögra ára samningi. Samningaviðræðurnar eru því í hnút. Samhliða kjaraviðræðunum hafa samningsaðilar átt fundi með stjórnvöldum og samtökum sveitarfélaga um aðkomu þeirra að samningunum.

Hvað önnur mál varðar sem voru til umræðu á fundinum var ákveðið að stefna að aðalfundi félagsins í lok apríl. Ákveðið var að skoða með að breyta merki félagsins og nútímavæða það. Framkvæmdir við íbúð félagsins í Hraunholti ganga vel og samþykkt var að skipta kostnaðinum við kaupin milli orlofs- og sjúkrasjóðs. Samþykkt var að hækka námstyrki til félagsmanna verulega og miða við að hækkanir gildi frá 1. janúar 2024. Golfklúbbur Húsavíkur stendur í miklum framkvæmdum við uppbyggingu starfseminnar á Húsavík. Klúbburinn hefur verið að leita eftir stuðningi úr samfélaginu, þar á meðal frá Þingiðn. Umræður urðu um málið. Stjórnin taldi að vel hefði tekist með hátíðarhöldin 1. maí á síðasta ári sem voru flutt úr höllinni á hótelið. Mælt er með því að hátíðarhöldin í ár verði með svipuðu sniði. Félagið stendur fyrir trúnaðarmannanámskeiði í byrjun mars með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna. Töluverðar umræður urðu um flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem eru í verulegri hættu. Áfram verður barist fyrir því að flugið milli þessara áfangastaði haldi áfram.

Húsavíkurstofa í karphúsinu

Þegar formaður Framsýnar kom í húsnæði ríkissáttasemjara í byrjun síðustu viku var vel tekið á móti honum af Ástráði Haraldssyni ríkissáttasemjara en Aðalsteinn Árni hefur tekið þátt í þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir síðustu vikurnar með hléum milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Tilefnið var ekki síst að sýna formanni Framsýnar ljósmyndir sem teknar voru á Húsavík í byrjun síðustu aldar af húsum og vinnandi verkafólki. Myndunum hefur verið komið fyrir í karphúsinu, það er í einu af þeim herbergjum þar sem kjaraviðræðurnar fara fram. Svo gæti farið að næstu kjarasamningar verði undirritaðir í herberginu góða sem gengur undir nafninu Húsavíkurstofa hjá forsvarsmönnum Framsýnar.

Sumarhús 2024 -opnað fyrir umsóknir

Stéttarfélögin hafa opnað fyrir umsóknir um orlofshús og íbúðir sumarið 2024. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og umsóknareyðublað hér á heimasíðunni. Frestur til að sækja um orlofskosti á vegum félaganna er til 10. apríl 2024. Strax í kjölfarið verður húsunum  úthlutað til félagsmanna. Þá liggur frammi Fréttabréf á Skrifstofu stéttarfélaganna og í öllum helstu verslunum á svæðinu með upplýsingum um orlofskosti stéttarfélaganna, það er allt frá Mývatnssveit til Þórshafnar. Félögin hafa jafnframt áveðið að standa fyrir sumarferð á Langanes um miðjan júní. Ferðin verður auglýst nánar síðar.

Líf og fjör á Öskudaginn

Öskudagurinn á Húsavík hefur sennilega ekki farið framhjá mörgum manninum í bænum fagra við Sjálfanda. Alls konar karakterar, sumir sælir en aðrir all rosalegir, hafa verið vappandi um göturnar í dag með poka í hönd eða á baki. Heilsað hefur verið upp á fyrirtæki og stofnanir um allar trissur og sungið í skiptum fyrir mæru. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem teknar voru á Skrifstofu stéttarfélaganna en fjöldi barna sem og fullorðnir hafa komið við og tekið lagið. Við þökkum kærlega fyrir okkur.

Næstu skref í kjarabaráttu félagsmanna til umræðu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar sem janframt er samninganefnd félagsins kemur saman til fundar á morgun kl. 17:00 í fundarsal félagsins ásamt stjórn Framsýnar-ung. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins en um þrjátíu félagsmenn sitja í þessum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Kjaramál verða án efa fyrirferðarmikil á fundinum enda ósamið er við Samtök atvinnulífsins. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Kjarasamningur sjómanna

4. Staðan í kjaraviðræðum

5. Orlofskostir 2024

6. Varða-rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins

7. Samkaup

8. Tillögur laganefndar

9. Hátíðarhöldin 1. maí

10. Utanlandsferð trúnaðarráðs

11. Flugsamgöngur Hús-Rvk

12. Hraunholt 28

13. ÞÞ-stjórnarkjör

14. Starfsmannaferð

15. Erindi frá Golfklúbbi Húsavíkur

16. Þorrasalir 1-3

17. Útbreiðsla á Fréttabréfinu

18. Bjarg íbúðafélag

19. Önnur mál

Færðu Völsungi æfingavesti

Barna- og unglingaráð Völsungs biðlaði nýlega til Framsýnar um að styrkja kaup á æfingavestum fyrir yngri flokka félagsins í knattspyrnu. Framsýn varð við ósk íþróttafélagsins og færði þeim ný vesti sem að sögn forsvarsmanna koma að góðum notum í yngri flokka starfinu sem er með öflugasta móti um þessar mundir. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, gerði sér ferð út á æfingasvæði Völsungs þar sem ungir iðkendur voru á æfingu undir stjórn Elmars Ö. Guðmundssonar þjálfara og afhendi þeim vestin formlega. Með þeim á hópmyndinni er Aðalsteinn Jóhann Friðriksson yfirþjálfari yngri flokka Völsungs.

Sjómenn innan Framsýnar – Atkvæðagreiðsla er hafin

Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamning SSÍ og SSÍ, sem Framsýn á aðild að fyrir sína sjómenn, er hafin. Hlekkurinn er Atkvæðagreiðsla um kjarasamning sjómanna sem undirritaður var 6. febrúar 2024

Kosningin hófst kl. 12:00 mánudaginn 12. febrúar og lýkur henni föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00. Athugið að hver einstaklingur getur aðeins kosið einu sinni. Því er mikilvægt að sjómenn kynni sér samninginn vel áður en kosið er. Þá er jafnframt afar mikilvægt að sjómenn greiði atkvæði um kjarasamninginn. Hægt er að nálgast samninginn hér á heimasíðunni. Sjómenn innan Framsýnar sem telja sig geta kosið en eru ekki á kjörskrá geta kært sig inn á kjörskrá með því að setja sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Sjómannadeild Framsýnar

Framkvæmdir við Hraunholt ganga vel

Um þessar mundir eru í byggingu tvær orlofs- og sjúkraíbúðir á vegum Framsýnar og Þingiðnar á Húsavík. Áætlað er að þær verði klárar 1. ágúst 2024 og fari þá þegar í útleigu til félagsmanna. Fyrirspurnir eru þegar byrjaðir að berast varðandi íbúðirnar, það er hvenær þær verði klárar í útleigu en eins og fram kemur í fréttinni er áætlað að svo verði með haustinu 2024.

Helstu atriði kjarasamnings sjómanna

Þann 6. febrúar var undirritaður nýr kjarasamningur milli SSÍ og SFS. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu hér á síðunni, undir annarri frétt er samningurinn byggður á samningnum sem felldur var í fyrra en í þessum samningi er tekið tillit til helstu atriða sem voru gagnrýnd í þeim samningi. Kynningu á helstu atriðum samningsins og þeim breytingum sem gerðar voru má sjá sjá hér.

Samninginn í heild sinni má nálgast hér.

Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og hefst á hádegi þann 12. febrúar. Atkvæðagreiðslunni lýkur kl. 15:00 þann 16. febrúar. Athugið að hver einstaklingur getur aðeins kosið einu sinni og því ekki hægt að breyta atkvæðinu eftir að búið er að kjósa. Því er mikilvægt að sjómenn kynni sér samninginn vel áður en þeir kjósa.

Nýr kjarasamningur undirritaður fyrir sjómenn

Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var undirritaður í húsnæði Ríkissáttasemjara á þriðjudaginn. Samningar á milli aðila hafa verið lausir frá árinu 2019. Árið 2023 var nýr kjarasamningur felldur í atkvæðagreiðslu sjómanna. Samningaviðræður um nýjan samning hafa staðið yfir síðustu mánuði. Í þeim viðræðum var lögð mikil áhersla á að taka tillit til þeirra athugasemda og gagnrýni sem fram kom í umræðum um samninginn á síðasta ári og hefur það gengið eftir í helstu atriðum.

Nú að lokinni undirritun verða samningarnir kynntir ítarlega fyrir félagsmönnum og að því loknu hefst rafræn atkvæðagreiðsla 12. febrúar kl. 12:00 og lýkur föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins:
„Við erum núna í þeirri stöðu að vera með kjarasamning í höndunum sem við höfum undirritað og er að fara í atkvæðagreiðslu hjá sjómönnum innan okkar félaga. Að mínu mati er þetta góður samningur og við höfum náð að semja um flest þau atriði sem gagnrýnd voru í samningnum sem var felldur í fyrra. Núna eru sjómenn í góðri stöðu til að samþykkja samning sem verður með binditíma í 5 ár og ég vonast eftir því að samningurinn verði samþykktur“.

Breytingar á binditíma, uppsagnarákvæði og fleiri breytingar
Í nýja samningnum er binditími samningsins styttur verulega eða úr 10 árum í 5 ár. Það felur í sér að sjómenn geta sagt samningnum upp eftir 5 ár og svo aftur eftir 7 ár. Þetta er gundvallarbreyting á samningnum. Önnur mikilvæg breyting er að grein 1.39 í samningnum hefur verið breytt. Tekið er út að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi sem komið getur upp milli aðila vegna ákvæðisins. Í staðinn skipa samningsaðilar hlutlausa óvinhalla nefnd sem hefur það hlutverk. Ef ekki næst samkomulag um nefndarmenn mun Ríkissáttasemjari koma að skipan nefndarmanna. Þá má finna mikilvæga breytingu um ísun yfir kör sem fara í gáma til sölu erlendis og verður sú ísun ekki á hendi skipverja nema í neyðartilvikum, samkvæmt nýjum samningi. Útgerðarmenn eiga að semja við löndunargengi á staðnum um að ísa yfir körin sem fara í gámana, eigi skipverjar frí við löndun skv. kjarasamningi. Ef sjómenn sjá um yfirísun sjálfir í neyðartilfellum fár þeir greidda yfirvinnu fyrir. Í samningunum nú er að finna sambærilegt ákvæði og var í síðasta samningi um að framlag í lífeyrissjóð geti hækkað úr 12,0% í 15,5% en sjómenn hafa þó val um þetta atriði.

Sjómenn fá 400.000 króna eingreiðslu frá útgerðarfyrirtækjum ef samningur verður samþykktur. Þetta er viðbót frá fyrri samningi sem skiptir máli. Kemur til greiðslu 1. mars 2024. Desemberuppbót kemur inn í samninginn þann 15. desember 2028. Miðað verður við 160 lögskráningardaga á ári.

Nánari upplýsingar um kjarasamningana má finna á vefsvæði Sjómannasambandsins og facebooksíðu sambandsins www.ssi.is og https://www.facebook.com/sjomannasamband

Upplýsingar um samningana gefa:
Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri Sjómannasambandsins í síma 892-0175
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambandsins í síma 869-8687

Rétt er að taka fram að sjómönnum innan Framsýnar er velkomið að koma í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna vanti þeim frekari upplýsingar um samninginn.

Framsýn fundar með Samkaup

Framsýn hefur komið á framfæri við Samkaup óánægju heimamanna með þjónustu fyrirtækisins á Húsavík, sérstaklega hvað varðar verslunina Nettó. Krafist er úrbóta þegar í stað. Á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar á dögunum urðu miklar umræður meðal fundarmanna um stöðuna varðandi matvöruverslanir á Húsavík. Skorað var á forsvarsmenn Framsýnar að beita sér í málinu, þar sem staðan væri óviðunandi með öllu. Rétt er að taka skýrt fram að gagnrýnin beinist ekki gagnvart starfsfólki Nettó.

Í kjölfar aðalfundar deildarinnar átti formaður Framsýnar símafund með forstjóra Samkaupa um málið þar sem óánægju heimamanna var komið á framfæri um leið og skorað var á fyrirtækið að taka ábendingum heimamanna alvarlega. Fundurinn var vinsamlegur enda fara hagsmunir beggja aðila saman, það er að efla starfsemi Samkaupa á svæðinu ekki síst í ljósi þess að aðrar verslunarkeðjur hafa ekki sýnt því áhuga að koma inn á svæðið og hefja verslunarrekstur.  Niðurstaða samtalsins var að heyrast aftur um miðjan febrúar.

Heimamenn kalla þegar í stað eftir úrbótum í verslunarrekstri Samkaupa á Húsavík. Kallað er eftir stærri og og öflugri matvörubúð með góðu aðgengi. Þess er vænst að áform Samkaupa um að byggja upp nýtt verslunarhúsnæði verði að veruleika á allra næstu árum. Framsýn hefur þrýst á það í viðræðum við forsvarsmenn Samkaupa.

Þingiðn hækkar námsstyrki

Fræðslusjóður Þingiðnar hefur verið að eflast ár frá ári en hann var stofnaður 2018 af félagsmönnum sem greiða ákveðið framlag til sjóðsins á hverju ári. Þess vegna hefur verið tekin ákvörðun um að hækka styrki úr sjóðnum. Frá og með síðustu áramótum eiga félagsmenn rétt á allt að kr. 130.000,- styrk á ári, þó aldrei meira en 90% af kostnaði við námið. Nýti félagsmenn ekki sjóðinn í þrjú ár hækkar upphæðin í kr. 390.000,-. Jafnframt kemur inn ný regla varðandi tveggja ára rétt. Það er, nýti félagsmenn ekki réttinn í tvo ár eiga þeir rétt á kr. 260.000,- í niðurgreiðslur.

Góð heimsókn til PCC á Bakka

Forsvarsmenn Framsýnar, Aðalsteinn Árni og Aðalsteinn Jóhannes gerðu góða ferð til PCC á Bakka í vikunni. Félagarnir fengu höfðinglegar móttökur. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um starfsemina og heilsa upp á starfsmenn verksmiðjunnar. Um þessar mundir eru um 140 starfsmenn við störf auk þess sem nokkrum verkþáttum hefur verið útvistað til undirverktaka. Það voru þau Gestur Pétursson forstjóri, Steinþór Freyr Þorsteinsson öryggisstjóri, Þórunn Harðardóttir sérfræðingur í öryggis-  og umhverfisteymi og Marella Steinsdóttir mannauðsstjóri sem sáu um kynninguna.

Konur og karlar starfa hjá PCC sem er eitt öflugasta fyrirtækið á félagssvæði stéttarfélaganna. Gestur Péturs forstjóri og Aðalsteinn J. eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna heilsa hér upp á tvo starfsmenn.

Ingimar Knútsson er öflugur maður í alla staði en hann er einn af þremur trúnaðarmönnum PCC.

Steinþór Freyr Þorsteinsson er að sjálfsögðu með merki Völsungs á skjánum en hann á langan og farsælan feril sem knattspyrnumaður áður enn hann kom til starfa hjá PCC. Hefur bæði spilað á Íslandi og eins erlendis auk þess að vera um tíma í íslenska landsliðinu.

Það er mikill mannauður hjá PCC, hér má sjá Kristján Hjaltalín sem undanfarin ár hefur verið á sjó en er nú kominn til starfa á Bakka.

Þórunn og Marella eru báðar í stjórnunarstörfum á Bakka, hér eru þær ásamt formanni Framsýnar í skoðunarferð um verksmiðjuna.