Carbfix boðaði til íbúafundar á Húsavík gær. Tilgangur fundarins var að kynna áform fyrirtækisins um uppbyggingu og rekstur athafnasvæðis til móttöku, niðurdælingar og bindingar CO₂ við Húsavík. Sameiginleg yfirlýsing Carbfix og Norðurþings um uppbyggingu Codastövar á Bakka við Húsavík var samþykkt á fundi sveitarstjórnar undir lok síðasta mánaðar.
Frummælendur á fundinum voru:
-Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Norðurþingi
-Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar
-Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix
Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar var beðinn um að halda utan um fundinn sem fundarstjóri. Fundargestir voru hátt í tvö hundruð, það er í sal og á netinu en fundinum var streymt. Eftir góðar kynningar á verkefninu var opnað fyrir fyrirspurnir. Fjölmargir fundarmenn lögðu fram spurningar sem forsvarsmenn verkefnisins leituðust við að svara eftir bestu getu. Ekki var annað að heyra á fundargestum en að þeir hefðu verið mjög ánægðir með fundinn og færu út af fundinum miklu fróðari um verkefnið.
