Fjölmenn hátíðarhöld stéttarfélagsanna, Þingiðnar, Framsýnar og STH fóru vel fram. Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru á hátíðarhöldunum í gær sem fram fóru á Fosshótel Húsavík:














Fjölmenn hátíðarhöld stéttarfélagsanna, Þingiðnar, Framsýnar og STH fóru vel fram. Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru á hátíðarhöldunum í gær sem fram fóru á Fosshótel Húsavík:
Samtök atvinnulífsins stóðu fyrir fundi í Hofi á Akureyri í byrjun vikunnar. Megin viðfangsefni fundarins var að taka til umræðu nýgerða kjarasamninga. Það er hvernig aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld sjá fyrir sér hvernig Stöðuleikasamningnum verður fylgt best eftir þar sem stöðugleiki kemur ekki af sjálfu sér.
Til að ræða þetta í pallborðsumræðum voru Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags og Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu DMI og varaformaður SA þátttakendur í pallborðinu undir stjórn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa og Vilborg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Bravo ehf. og kaupmaður í Centró á Akureyri, voru auk þess með hugvekjur um stöðu mála á vinnuarkaði og framtíðarsýn.
Fundurinn var í alla staði áhugaverður og var formaður Framsýnar ánægður með fundinn. Líflegar umræður urðu um viðfangsefnið.
Á fjölmennum hátíðarhöldunum á Húsavík í dag í tilefni af 1. maí var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar heiðraður sérstaklega fyrir vel unninn störf í þágu félagsmanna Framsýnar og samfélagsins alls en hann hefur verið mjög áberandi í umræðunni um verkalýðsmál í þrjá til fjóra áratugi. Var hann sæmdur gullmerki félagsins fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins. Hátíðargestir stóðu upp og klöppuðu fyrir honum vel og lengi. Hér má lesa ávarp varaformanns félagsins:
Um þessar mundir eru liðin 30 ár frá því að Aðalsteinn Árni Baldursson var kjörinn formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur. Í tilefni þeirra tímamóta ákvað stjórn og trúnaðarráð Framsýnar að sæma hann gullmerki félagsins fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins. Því bætist Aðalsteinn Árni nú í hóp þeirra sem þegar hafa hlotið æðstu viðurkenningu fyrir störf sín í þágu félagsins, sem formenn eða varaformenn. Frá árinu 1996 hafa fjórir einstaklingar hlotið þessa viðurkenningu. Þau eru Helgi Bjarnason, Kristján Ásgeirsson, Kristbjörg Sigurðardóttir og Ósk Helgadóttir.
Aðalsteinn Árni var alinn upp á Rauða torginu hér í bæ, um og eftir miðja síðustu öld, meðan enn voru þeir tímar að allir komu öllum við og sterk samkennd ríkti í samfélaginu. Hann er verkalýðsleiðtogi af gamla skólanum, félagshyggjumaður sem lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi og hefur til að bera ríka réttlætiskennd. Hann er bóngóður og greiðvikinn, ávallt boðinn og búinn að rétta fram hjálpandi hönd og vill hvers manns vanda leysa. Sjálfur segir Aðalsteinn Árni að karlarnir í Aðgerðinni hafi mótað sig. Árin þar hafi verið honum mikilvægur þroskatími, en hann starfaði hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur í rúman áratug áður en hann hóf störf á Skrifstofu stéttarfélaganna.
Fyrstu afskipti Aðalsteins Árna af verkalýðsmálum hófust árið 1981 er áðurnefndir vinnufélagar kusu hann sem trúnaðarmann sinn og kannski má segja að þá hafi verkalýðsboltinn byrjað að rúlla. Hann var kjörinn í stjórn Verkalýðsfélags Húsavíkur árið 1986, kjörinn varaformaður félagsins árið 1991, en tók síðan við formannstaumunum árið 1994. Því starfi gegndi hann til ársins 2008, eða þar til félagið sameinaðist Verslunarmannafélagi Húsavíkur, undir merkjum Framsýnar stéttarfélags. Áður hafði hann leitt sameiningu Verkalýðsfélags Raufarhafnar og Öxarfjarðar við Verkalýðsfélag Húsavíkur. Hann hefur haldið um stjórnartauma Framsýnar frá upphafi, auk þess að gegna starfi forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna.
Félaginu hefur Aðalsteinn Árni stjórnað af festu í góðu samráði við samferðafólk í stjórn og trúnaðarráði á hverjum tíma, með öflugt starfsfólk skrifstofunnar sér við hlið. Hann hefur setið í ótal nefndum, ráðum og stjórnum fyrir félagið og sinnt að auki margvíslegum trúnaðarstörfum innan verkalýðshreyfingarinnar, bæði hér heima og eins erlendis.
Aðalsteinn Árni er vel að því kominn að vera heiðraður með þessum hætti. Hann hefur notið mikillar virðingar fyrir störf sín í þágu Framsýnar og ávallt verið reiðubúinn að vinna þau verk sem þurft hefur að skila í þágu félagsmanna á hverjum tíma. Hann er forkur til vinnu, duglegur og fylginn sér, kemur fram sem jafningi allra, en segir mönnum líka hiklaust til syndanna ef með þarf. En er að sama skapi einlægur og góður félagi og góður vinur ef á reynir.
Á þeim 30 árum sem liðin eru frá því að Aðalsteinn Árni tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Húsavíkur hefur viðfangsefnum íslenskrar verkalýðshreyfingar fjölgað og allt starf stéttarfélaganna orðið faglegra í eðli sínu, jafnvel sérfræðilegt í sumum tilvikum. Og þau eru orðin ærið mörg verkefnin sem búfræðingurinn Aðalsteinn Árni hefur fengið inn á sitt borð, sum auðleyst, en önnur meira krefjandi og hafa jafnvel tekið á. Hann býr því yfir víðtækri reynslu og þekkingu og þau verkefni sem hann hefur tekist á við í gegnum árin hafa reynst honum gott veganesti í starfi, sem er allt í senn vinnan hans, lífsstíll og hugsjón.
Við minnumst í dag að liðin eru 60 ár frá því að Verkamannafélag Húsavíkur og Verkakvennafélagið Von gengu í eina sæng. Félögin tvö áttu það sammerkt að hafa fleiri mál á stefnuskrám en eingöngu málefni tengd kaupi og kjörum félagsmanna, því þar á bæ beitti forsvarsfólk félaganna sér ekki síður fyrir ýmsum umbótamálum sem vörðuðu hag alls almennings. Þau gerðu sér grein fyrir að styrkleiki samfélagsins fælist ekki síst í því fólki sem er annt um samfélagið sitt og hversu reiðubúið það er að láta gott af sér leiða. Fólk sem hefur slíkar hugsjónir til að bera er hverju samfélagi dýrmætt.
Aðalsteinn Árni hefur stýrt félaginu í sömu átt og fyrirrennarar hans. Hann hefur látið til sín taka í opinberri umræðu og verið óþreytandi við að berjast fyrir málefnum landsbyggðarinnar og beitt sér á margvíslegan hátt í hinum ýmsu samfélagsmálum. Að öðrum ólöstuðum er hann kjölfestan í félaginu okkar og til hans er leitað úr samfélaginu öllu.
Aðalsteinn Árni Baldursson. Hafðu innilegar þakkir fyrir mikilvægt og afar óeigingjarnt starf í þágu félagsmanna Framsýnar og þar með samfélagsins alls. Þú hefur unnið þitt starf af árvekni og ódrepandi eljusemi og vonandi fáum við sem allra lengst að njóta þinna krafta. Takk fyrir allt.
Þess ber að geta að gullmerki Framsýnar er unnið af Kristínu Petru Guðmundsdóttur gullsmið. Það er gert eftir upprunalegu merki félagsins, sem hannað var af grafískum hönnuði, Bjarka Lúðvíkssyni, og tekið upp við sameiningu Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis og Verslunarmannafélags Húsavíkur undir nafninu Framsýn stéttarfélag árið 2008.
Ósk Helgadóttir
Nú kl. 14:00 hófust hátíðarhöld á Húsavík í tilefni af 1. maí. Mikið fjölmenni er samankomið á Fosshótel Húsavík þar sem hátíðarhöldin fara fram. Boðið er upp á magnaða dagskrá, tónlist, barátturæður og kaffihlaðborð. Hér má lesa hátíðarræðu formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna, sem er ekki hefðbundin í ár þar sem hann fagnar 30 ára starfsafmæli. Hér má lesa ræðuna:
Ágæta samkoma!
Það er laugardagsmorgun og það er landburður af fiski. Árið er 1979.
Dagurinn er tekinn snemma og allir sem vettlingi geta valdið eru á leið niður að höfn til starfa í Aðgerðinni, deild innan Fiskiðjusamlags Húsavíkur.
Ingvar í Bókabúðinni fagnar, sem og aðrir kaupmenn. Þeir vita sem er, að verslun eykst í bænum þegar fiskast vel.
Nágrannar mínir, Eysteinn og Heiða, bjóða mér góðan daginn um leið og þau setjast upp í bílinn á Iðavöllunum.
Reyndar tók það yfirleitt töluverðan tíma fyrir þau að koma sér niður í fjöru enda Eysteinn langt frá því að vera þekktur ökuníðingur. Hann þótti reyndar fara mjög rólega og rúmlega það.
Utar í götunni má sjá aftan á þá bræður, Dóra og Stjána Hákonar rölta til vinnu. Stjáni var ekki glaður í bragði, enda hafði ÍA tapað fótboltaleik, kvöldinu áður, en hann var mikill Skagamaður.
Dóri skildi hins vegar ekkert í því hvað bróðir hans væri viðkvæmur fyrir fótbolta og brosti í kampinn. Að hans mati skipti það engu einasta máli hvort ÍA hefði farið með sigur að hólmi, eða ekki. Undir það tóku hjónakornin Guðný og Óli Bjarna á Sólvöllunum, sem sögðust reyndar ekkert vit hafa á fótbolta.
Liðið á Torginu, sem er bæjarhluti á Húsavík, hélt áfram að safnast saman á leið sinni til vinnu og hópurinn þéttist. Reyndar höfðu Siggi Steini og Dilli farið fyrr um morguninn, enda báðir sjómenn, en algengt var að bátar, stórir sem smáir, létu úr höfn eldsnemma á morgnanna. Pabbi tilheyrði þessum hópi sem fór snemma, enda þurfti hann að gera allt klárt fyrir daginn í fiskimjölsverksmiðjunni, þar sem þrærnar voru yfirfullar af fiskúrgangi.
Kristjana og Bjössi Þorkels sem bjuggu á Reykjaheiðarveginum kinkuðu kolli og gengið af Brávöllunum kom stormandi að venju.
Fyrir hópnum fór Þráinn Kristjánsson, barnmargur maður. Í humátt á eftir honum komu þrír af sonum hans, þeir Siffi, Lilli og Goði, allt hörkuduglegir ungir menn.
Fyrir aftan þá glitti í kratann, Dóra Þorgríms, sem veifaði Alþýðublaðinu með bros á vör, enda Alþýðuflokkurinn komið vel út úr nýlegri skoðanakönnun.
Hann hvatti okkur ungu mennina til að setja X við A í næstu kosningum. Já menn voru pólitískir á þessum árum, vissulega voru þeir flestir sannir vinstrimenn, kratar eða kommar, sem unnu fyrir neðan Bakkann.
Máni í Tungu verður á vegi okkar, hálf þreytulegur. Sagði hann kartöflurnar í garðinum hafa haldið fyrir sér vöku þá um nóttina og hann því lítið sem ekkert sofið. Þær þroskuðust svo hratt. „Það brakar og brestur í jarðveginum þegar þessir rosalegu boltar eru að ryðja frá sér moldinni með hávaða og látum“ sagði Máni íbygginn á svip.
Jónas og Hulda bjóða okkur góðan daginn um leið og við göngum fram hjá Árholti.
Já það lífgaði upp á tilveruna að hlýða á ýkjusögurnar hjá Mána í Tungu enda bjó hann yfir mikilli frásagnargáfu, þessi mikli meistari.
Þegar komið var yfir Garðarsbrautina við Hrunabúð, verslun kaupfélagsins, hélt verkafólkið áfram að streyma frá öðrum götum bæjarins, sjómenn, beitningamenn og fiskvinnslufólk gengu í takt. Lífsbjörgin var sjórinn og það sem hann gaf.
Á þessum tíma unnu flestir fyrir neðan Bakkann. Bjarney í Múla veifar unga manninum og spyr hvað sé að frétta, hvort þetta sé fyrsti dagurinn í vinnu eftir búfræðinámið á Hvanneyri.
Áður en ég næ að svara konunni með þykku gleraugun tekur Geiri í Ásgarði af mér orðið og fer að lýsa frétt sem hann hafði heyrt í útvarpinu fyrr um morguninn sem enginn annar kannaðist við að hafa heyrt. Er hann sakaður um að fara ekki rétt með. Geiri var fljótur til svara, hann skildi það vel að aðrir hefðu ekki heyrt sömu fréttina og hann, sem varðaði alla heimsbyggðina, enda ætti hann öðruvísi útvarp en aðrir. Hans útvarp væri nefnilega rússneskt og það flytti öðruvísi og ábyrgari fréttir.
Menn hristu höfuðið yfir þessum útskýringum Geira í Ásgarði. Þetta væri kallað að hagræða sannleikanum. Geiri gerði lítið fyrir það og hélt göngu sinni áfram með bros á vör, enda náð að hækka blóðþrýstinginn hjá nokkrum í hópnum.
Áfram var haldið niður í Aðgerð og Ívar Geirs, Palli Helga, Hjalli Geira, Doddi Kobbi, Hallgrímur Guðmunds og Torfi Sig. bætast í hópinn á lokametrunum. Við tekur langur og strangur vinnudagur undir stjórn Alla Þorgríms verkstjóra.
Já, það var ómetanlegt að verða samferða öllu þessu frábæra og yndislega fólki, sem mörg hver þurftu að hafa verulega mikið fyrir lífinu á þessum árum.
Það sem er fallegt við þennan tíma er að það voru allir jafnir sem störfuðu í Aðgerðinni, það hjálpuðust allir að.
Vissulega voru ekki allir heilsuhraustir og sumir reyndar með skerta starfsorku. Það skipti bara engu máli, við litum á okkur sem jafningja og léttum undir hver með öðrum. Vinnustaðamenningin var einstök.
Ég skal fúslega viðurkenna að ég sakna þessa tíma þegar ég horfi yfir farinn veg.
Óhætt er að segja að þessi tími hafi mótað mig til lífstíðar þar sem grunnurinn að ævistarfinu var lagður. Annars stæði ég ekki hér í dag, þetta löngu síðar, sem formaður í stéttarfélagi.
Vinnufélagarnir kusu mig sem trúnaðarmann árið 1981, þegar ég var tvítugur að aldri auk þess að hvetja mig til þess að taka að mér formennsku í Verkalýðsfélagi Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags þann 3. maí 1994.
Fyrir þennan mikla og góða stuðning er ég þakklátur nú þegar ég fagna 30 ára formennsku. Þetta hefur verið langur og strangur tími sem hefur gefið mér mikið.
Þegar ég tók við félaginu árið 1994 lofaði ég fráfarandi formanni Verkalýðsfélags Húsavíkur, Helga Bjarnasyni, að viðhalda hátíðarhöldunum 1. maí. Blessuð sé minning hans.
Helgi hafði ákveðnar áhyggjur af því að ungir menn eins og ég hefðu ekki sama skilning á mikilvægi dagsins eins og þeir sem eldri væru.
Síðan þá hef ég reynt að fylgja eftir vegvísi félaga Helga með mínu frábæra samstarfsfólki sem sannast með þessum glæsilegu hátíðarhöldum.
Ég veit að Helgi Bjarnason er með okkur í anda hér í dag og upplifir stemninguna sem fylgir baráttudegi verkafólks. Það svífur baráttuandi yfir hátíðinni.
Ágætu félagar
Á undanförnum áratugum hefur margt áunnist í réttindabaráttu verkafólks. Þökk sé, ekki síst, öflugu starfi Alþýðusambands Íslands og annarra samtaka s.s. BSRB.
Að baki þeim er fjölmennur hópur launþega sem telur vel á annað hundrað þúsund félagsmenn.
Meðal þeirra eru einstaklingar sem gegna mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna, það er, með þátttöku þeirra í nefndum, stjórnum og ráðum. Án þeirra væri ekki hægt að halda úti öflugri hreyfingu verkafólks.
Ég er ekki endilega viss um að allir geri sér grein fyrir mikilvægi stéttarfélaga og hlutverki þeirra. Hugsanlega mættu félögin standa sig betur hvað kynningarstarfsemi varðar.
Við sem störfum á Skrifstofu stéttarfélaganna efumst ekki einn einasta dag um þýðingu stéttarfélaga enda stoppar ekki síminn og þá eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar.
Flestar fyrirspurnirnar snúast um kjara- og réttindamál auk fyrirspurna um sjúkra- og orlofsíbúðir á vegum félaganna. Einnig hefur færst í vöxt að fólk leiti til okkar með sín persónulegu mál, sem tengjast ekki endilega störfum þeirra á vinnumarkaði. Fólki finnst gott að leita til okkar.
Það þarf enginn að efast um mikilvægi stéttarfélaga. Sem dæmi nefni ég að Framsýn greiddi félagsmönnum á síðasta ári tæplega 100 milljónir í styrki vegna veikinda, launataps eða annara þátta sem snúa að heilsufari félagsmanna. Þá fengu þeir um 24 milljónir í námsstyrki, svo eitthvað sé nefnt.
Allt frá upphafi hefur stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum verið umhugað um velferð fólks enda eitt af aðalhlutverkum félaganna að styðja vel við nærsamfélagið.
Þau hafa jafnframt stutt við mörg áhugaverð verkefni í gegnum tíðina sem snúa ekki síst að atvinnu- og byggðamálum, stuðningi við menningu- og listir svo ekki sé talað um æskulýðs- og íþróttastarf í Þingeyjarsýslum.
Því verður ekki neitað að Framsýn hefur verið mjög svo áberandi í samfélaginu.
Flestir þekkja auk þess baráttu félagsins fyrir mörgum framfaramálum s.s. flugsamgöngum milli Húsavíkur og Reykjavíkur, samgöngumálum, atvinnu- og byggðamálum, uppbyggingu íbúða fyrir lágtekjufólk og betri matvöruverslun á Húsavík. Verkefnin eru reyndar endalaus.
Höfum í huga; „Það er sælla að gefa en þiggja“. Segja má að stéttarfélögin hafi haft þetta að leiðarljósi í gegnum tíðina enda oft gefið veglegar gjafir til samfélagsins.
Upp í hugann kemur þegar konur í Verkakvennafélaginu Von hér á Húsavík samþykktu einróma að leggja fram kr. 5000, sem var töluverð upphæð á þeim tíma, til kaupa á hjartalínuritstæki sem sárvantaði á Sjúkrahúsið á Húsavík um miðja síðustu öld.
Verði sambærileg tillaga þess efnis samþykkt á aðalfundi Framsýnar næstkomandi föstudag er ætlunin að félagið færi Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum að gjöf, fullkomið hjartaskoðunartæki sem hefur ekki verið til staðar hér á Húsavík. Um er að ræða algjöra byltingu hvað varðar þjónustu við þá fjölmörgu sem þurfa á slíkri þjónustu að halda á hverjum tíma, en búið er að ráða hjartalækni í hlutastarf hjá HSN, það er hann kemur reglulega til Húsavíkur.
Forsendan fyrir því að hann geti starfað á þessu starfssvæði er að hann hafi aðgengi að tæki sem þessu. Gjöfin sparar auk þess sjúklingum bæði vinnutap og eins dvalar- og ferðakostnað þar sem þjónusta sem þessi hefur ekki áður verið í boði í heimabyggð, þess í stað hafa menn þurft að sækja þjónustuna um langan veg með tilheyrandi óþægindum.
Að sjálfsögðu eykur hjartaskoðunartækið líka öryggi þeirra sem þurfa á því að halda enda helsti tilgangurinn með gjöfinni.
Í heildina er andvirði gjafarinnar um 15. milljónir en hluti hennar mun renna til kaupa á öðrum smærri tækjum sem sárvantar á sjúkrahúsið á Húsavík, í endurhæfinguna á Hvammi og á starfsstöðvar HSN í Mývatnssveit, Kópaskeri og á Raufarhöfn.
Tilefnið er tvíþætt, 60 afmæli Verkalýðsfélags Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags og vilji félagsins til að efla okkar nærsamfélag í Þingeyjarsýslum, okkur öllum til hagsbóta.
Ágætu félagar
Að lokum þetta, til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag verkafólks!
Þrátt fyrir að 1. maí sé alþjóðlegur baráttudagur er mikilvægt að hafa í huga að allir dagar eru baráttudagar, ekki bara 1. maí.
Við sem störfum í verkalýðshreyfingunni í umboði félagsmanna upplifum þetta í okkar daglegu störfum fyrir hreyfinguna. Baráttan er endalaus.
Takk fyrir að umbera mig í 30 ár, takk fyrir að treysta mér til að stýra einu öflugasta stéttarfélagi á Íslandi í þrjá áratugi, sem er ekki sjálfgefið. Megi okkur öllum vegna vel á komandi mánuðum og árum. Góðar stundir.
Formaður Framsýnar Aðalsteinn Árni Baldursson og forstjóri Samkaupa Gunnar Egill Sigurðsson hittust á óformlegum fundi á Akureyri í gær en þeir voru báðir staddir á fundi á vegum Samtaka atvinnulífsins í Hofi um nýgerða kjarasamninga og mikilvægi stöðuleika í efnahagslífinu. Samkaup hefur gefið það út að til standi að byggja upp öflugan verslunarkjarna á Húsavík. Staðsetningin liggur ekki fyrir. Aðalsteinn ítrekaði mikilvægi þess að haldið yrði áfram með málið enda mikil þörf á stórmarkaði á svæðinu. Framsýn mun halda málinu vakandi þar til nýr markaður rís á Húsavík.
Stéttarfélögin bjóða gestum og gangandi upp á metnaðarfulla dagskrá á Fosshótel Húsavík 1. maí. Hátíðarhöldin byrja kl.14:00. Boðið verður upp á kaffihlaðborð af bestu gerð frá hótelinu, hátíðarræðu, auk þess sem heimamenn í bland við góða gesti munu sjá um að skemmta gestum með mögnuðum tónlistaratriðum. Gaman saman.
Það er alltaf til mikillar fyrirmyndar þegar forsvarsmenn fyrirtækja óska eftir kynningum fyrir starfsmenn á kjarasamningum og reglum sem gilda á vinnumarkaði. Nýlega óskuðu forsvarsmenn hótelsins Berjaya Mývatn eftir kynningu frá Framsýn. Starfsmenn stéttarfélaganna brugðust við og heilsuðu upp á starfsmenn hótelsins fyrir helgina sem voru hressir og ánægðir með komandi vertíð en búist er við fjölmörgum ferðamönnum í sumar. Kynningin fór vel fram og lögðu starfsmenn fjölmargar fyrirspurnir fyrir gestina frá Framsýn. Þá notuðu starfsmenn tækifærið og kusu sér trúnaðarmann. Kosningu hlaut Örn en hann gegnir stöðu húsvarðar á hótelinu. Við bjóðum hann velkomin í stóran hóp trúnaðarmanna innan Framsýnar.
Starfsfólk sem verður fyrir slysi við vinnu skal tilkynna það vinnuveitanda eða stjórnanda eins fljótt og hægt er.
Það er á ábyrgð vinnuveitanda að tilkynna Vinnueftirlitinu um vinnuslys innan sjö daga ef hinn slasaði verður óvinnufær í einn eða fleiri daga umfram daginn sem slysið varð, líkur eru á að hinn slasaði hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni eða hinn slasaði lætur lífið. Tilkynning til Vinnueftirlits er afar áríðandi svo upplýsingar liggi fyrir um slysið.
Það er líka á ábyrgð vinnuveitanda að tilkynna Sjúkratryggingum Íslands tafarlaust um vinnuslys, sem ætla má að sé bótaskylt samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Hinn slasaði starfsmaður getur þó líka tilkynnt stofnuninni um slysið sjálfur og svo er það á ábyrgð hans sjálfs að fylgja því eftir að tilkynningarskyldunni sé fullnægt. Vanræki vinnuveitandi tilkynningarskyldu sína til Sjúkratrygginga Íslands getur starfsmaður t.d. leitað til lögreglu. Það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef tilkynningarskyldu til Sjúkratrygginga Íslands er ekki sinnt og það jafnvel varðað missi bótaréttar ef slysið er ekki tilkynnt innan árs frá slysdegi.
Að lokum er nauðsynlegt að tilkynna slysið til vátryggingafélags vinnuveitanda, enda getur verið til staðar réttur til bóta úr launþegaslysatryggingu vinnuveitanda og stundum ábyrgðartryggingu hans. Sá sem á rétt til bóta, hinn slasaði starfsmaður, getur glatað þeim rétti ef ekki er gerð krafa um bætur til tryggifélagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á. Upphaf þess tímamark getur verið matskennt og er oft ekki löngu eftir slysið sjálft.
Þá getur einnig skipt máli að starfsmenn hafi leitað til læknis sem fyrst eftir slys til að tryggja sér sönnun um áverka sína.
Í ljósi alls framangreinds ráðleggur Framsýn félagsmönnum sínum eindregið að ganga úr skugga um það sjálfir að öll vinnuslys séu tilkynnt A. Vinnueftirliti, B. Sjúkratryggingum Íslands og C. vátryggingafélagi vinnuveitanda tafarlaust, auk þess að D. leita til læknis til að fá skráðar upplýsingar fyrir áverkavottorð. Komi til þess að slys hafi ekki varanlegar afleiðingar og engin þörf verði á að krefja um bætur þarf ekki að aðhafast frekar. En verði um tjón að ræða skiptir öllu máli að rétt sé staðið að þessum tilkynningum frá upphafi.
Mál vegna vinnuslysa geta verið flókin og eru starfsmenn Framsýnar ávallt tilbúnir til að ráðleggja félagsmönnum og aðstoða þá ef eitthvað kemur upp á. Starfsmenn Framsýnar hafa jafnframt beinan aðgang að lögmanni félagsins, komi upp flókin tilvik sem þarfnast frekari skoðunar.
Fulltrúar frá PCC og Samtökum atvinnulífsins hittust á samningafundi í gær á Húsavík með fulltrúum Þingiðnar og Framsýnar. Viðræðurnar gengu vel og eru vonir bundar við að þær klárist fyrir næstu mánaðamót.
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær. Mörg mikilvæg mál voru til umræðu á fundinum m.a. samgöngumál. Ákveðið var að hvetja Vegagerðina og stjórnvöld til að styðja við áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll auk þess styðja betur við Loftbrúna sem skiptir íbúa á landsbyggðinni verulega miklu máli. Fjölga þarf ferðum sem menn geta nýtt sér á þessum sérstöku kjörum.
Ályktun
-Um samgöngumál-
„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar skorar á Vegagerðina að tryggja áætlunarflug til Húsavíkur með sambærilegum hætti og er í dag til smærri áfangastaða á Íslandi.
Það var mikið áfall fyrir íbúa í Þingeyjarsýslum og alla þá sem ferðast þurfa um flugvöllinn þegar áætlunarflugi til Húsavíkur var hætt 1. apríl sl.
Samgöngur sem þessar eru ekki síst mikilvægar fyrir alla þá sem þurfa að ferðast milli landshluta vegna veikinda, vinnu eða annarra brýnna hluta. Því miður virðist sem það skorti pólitískan vilja til að halda uppi áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem er verulega miður.
Framsýn treystir því að nýr innviðaráðherra taki á málinu og komi að því að bæta úr þessu neyðarástandi. Þá óttast Framsýn að sjúkraflug um Húsavíkurflugvöll sé í mikilli hættu, verði dregið úr þjónustu við völlinn.
Í ljósi þess hvað flugsamgöngur eru mikilvægar landsmönnum telur Framsýn jafnframt brýnt að afsláttarferðum í gegnum Loftbrúna verði fjölgað, ekki síst þegar horft er til þess að láglaunafólk sem þarf að sækja þjónustu á höfuðborgarsvæðið hefur ekki efni á því að fljúga innanlands vegna kostnaðar. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að búsetuskilyrði í landinu verði jöfnuð.“
Hér með er boðað til aðalfundar Framsýnar stéttarfélags föstudaginn 3. maí kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík.
Dagskrá:
1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Félagaskrá
b) Skýrsla stjórnar
c) Ársreikningar
d) Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
e) Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
f) Kosning löggilts endurskoðanda/endurskoðunarskrifstofu
g) Lagabreytingar
h) Ákvörðun árgjaldaLaun aðalstjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og stjórna innan félagsins
i) Laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og stjórna innan félagsins
2. Heiðrun félagsmanna fyrir vel unnin störf í þágu félagsins
3. Tillaga um hækkanir á styrkjum til félagsmanna
4. Tillaga um tækjakaup fyrir HSN/Hvamm
5. Önnur mál
Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
„Tillögur stjórnar, trúnaðarráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.“
Gestum verður boðið upp á góðar veitingar og þá fá allir fundargestir smá gjöf frá félaginu. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Þannig leggjum við okkar að mörkum til að gera félagið enn öflugra í þágu félagsmanna.
Framsýn stéttarfélag
Eftir helgina hefjast viðræður við PCC um endurskoðun á gildandi kjarasamningi aðila, reyndar rann kjarasamningurinn út 31. janúar sl. Þess er vænst að kjaraviðræðurnar klárist í næstu viku eða í síðasta lagi fyrir næstu mánaðamót. Á meðfylgjandi mynd, sem var tekin í dag, er formaður Framsýnar að ganga endanlega frá kröfugerð félagsins með trúnaðarmanni starfsmanna Ingimari Knútssyni. Á myndina vantar Tomasz Mayewski sem tók þátt í undirbúningsfundinum en hann er líkt og Ingimar trúnaðarmaður starfsmanna. Kröfugerð starfsmanna er klár.
Aðalfundur Þingiðnar verður haldinn mánudaginn 29. apríl kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Auk almennra fundarstarfa verða umræður um nýtt félagsmerki, það er hvort taka eigi upp nýtt merki fyrir félagið. Áríðandi er að félagsmenn fjölmenni á fundinn. Boðið verður upp á hefðbundnar veitingar.
Dagskrá:
Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.
Þingiðn, félag iðnaðarmanna
Kór eldri borgara á Húsavík „ Sólseturskórinn „ leitaði nýlega til Framsýnar með beiðni um stuðning. Kórinn hefur starfað um langt árabil og starfsemi hans verið mörgum kórfélögum mikils virði og gefið margar ánægjustundir. Kórfélagar eru flestir úr Norðurþingi en einnig eru þó nokkrir félagar úr Þingeyjarsveit. Vissulega reyndist Covid kórnum erfitt. Núverandi markmið forsvarsmanna kórsins er að efla kórinn. Meðal annars með því að taka þátt í kóramóti eldri borgara í vor auk fleiri viðburða sem eru til skoðunar. Framsýn hefur ákveðið að styrkja kórinn um kr. 100.000,- um leið og félagið skorar á fyrirtæki, stofnanir og önnur félagasamtök að styðja við bakið á þessu merkilega starfi.
Vegna áskorunar Sambands íslenskra sveitarfélaga um að gjaldskrár er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu hækki ekki umfram 3,5% á þessu ári voru gjaldskrárlækkanir samþykktar á fundi sveitarstjórnar þann 21. mars. Gjaldskrár sveitarfélagsins hækkuðu um 7.5% um áramót en sveitarstjórn gaf það út í janúar að hún væri reiðubúin að endurskoða og lækka gjaldskrár og styðja þannig við þjóðarsátt, sjá hér.
Bókun sveitarstjórnar frá 21. mars:
„Sveitarstjórn fagnar nýgerðum kjarasamningum og samþykkir tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga um lækkun gjaldskráa sem varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Eftirtaldar gjaldskrár verða lækkaðar: Gjaldskrá leikskóla Þingeyjarsveitar, tónlistarskóla, heimaþjónustu og hádegisverður eldri borgara.
Rétt er að geta þess að í Þingeyjarsveit eru skólamáltíðir í leik- og grunnskóla gjaldfrjálsar og verða það áfram. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að uppfæra áðurnefndar gjaldskrár í samræmi við tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga og taka nýjar gjaldskrár gildi þann 1. apríl nk.“
Þessir flokkar hafa nú verið lækkaðir svo hækkunin nemur 3.5% frá fyrra ári, ekki 7.5%.
Framsýn fagnar þessu framtaki Þingeyjarsveitar sem er í anda félagsins sem áður hafði farið þess á leit við Þingeyjarsveit og önnur sveitarfélög í Þingeyjarsveitum að endurskoða gjaldskrárhækkanirnar.
Ársfundur Lsj. Stapa verður haldinn í Menningarhúsinu Hofi fimmtudaginn 2. maí kl. 14:00. Framsýn stéttarfélag á rétt á 15 fulltrúum á fundinn. Framsýn leitar að fulltrúum til að fara á fundinn. Skilyrði er að viðkomandi sé félagsmaður í Framsýn og sjóðfélagi í Lsj. Stapa. Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við formann Framsýnar Aðalstein Árna fyrir kl. 17:00, mánudaginn 15. apríl sem veitir jafnframt frekari upplýsingar.
Trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar mánudaginn 15. apríl kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Að venju eru fjölmörg mál á dagskrá fundarins s.s. kjaramál, hátíðarhöldin 1. maí og aðalfundur félagsins sem væntanlega verður haldinn fösstudaginn 3. maí nk. Dagskráin er eftirfarandi:
Dagskrá:
1. Fundargerð síðasta fundar
2. Inntaka nýrra félaga
3. Aðalfundur félagsins
a) Tímasetning
b) Tillögur fundarins
c) Styrkur til HSN/Hvamms
d) Hækkun styrkja til félagsmanna
e) Veitingar á fundinum
4. Flugsamgöngur Hús-Rvk
5. Hátíðarhöldin 1. maí
6. Kjarasamningur um hvalaskoðun (afgreiðsla)
9. Staða kjaraviðræðna við PCC
10. Erindi til ríkissáttasemjara
11. Náms- og kynnisferð trúnaðarráðs
12. Ársfundur Lsj. Stapa
13. Búvörusamningurinn
14. Sumarferð stéttarfélaganna
15. Önnur mál
Byggðaráð Norðurþings væntir þess að útboð Vegagerðarinnar á áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur feli í sér þann sveiganleika að framlag Vegagerðarinnar verði sex mánuðir yfir vetrartímann. Vegagerðin hefur ákveðið að einungis verði flogið á þessari leið yfir vetrarmánuðina, frá desember til loka febrúar.
,,Fyrir byggðarráði liggur áskorun vegna ákvörðunar Vegagerðarinnar um að flug til Húsavíkur verði boðið út fyrir næsta vetur en þá aðeins yfir vetrarmánuðina, frá desember til febrúarloka.
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sat fundinn undir þessum lið.
Byggðarráð þakkar Aðalsteini Árna fyrir komuna á fundinn.
„Fyrir liggur að Vegagerð ríkisins hyggst ekki endurnýja samning um framlag til innanlandsflugs til Húsavíkur til eins mánaðar. Einnig liggur fyrir að flugfélagið Ernir hyggst skila inn flugrektrarleyfi sínu.
Í bókun byggðaráðs kemur fram að unnið sé að útboði á flugi til Húsavíkur yfir erfiðustu vetrarmánuðina. Ráðið væntir þess að útboðið feli í sér þann sveigjanleika að framlag Vegagerðarinnar verði sex mánuðir yfir vetrartímann. Innviðaráðuneyti og Vegagerð var í samtali við heimafólk um tíðni áætlunarflugs sem nyti framlags hins opinbera en tilkynnir einhliða að áætlunarflug verði aðeins styrkt yfir erfiðustu mánuðina eða í þrjá mánuði, desember, janúar og febrúar. Til að mæta forsendum áætlunarflug á markaðslegum forsendum yfir sumartímann þarf að lengja það tímabil sem um ræðir. Sömuleiðis hvetur ráðið flugrekstraraðila til að halda áætlunarflugi yfir sumartímann.
Byggðarráð fól sveitarstjóra að óska eftir fundi með innviðaráðherra um málið hið fyrsta.
Í dag, 5. apríl 2024 eru 60 ár liðin frá stofnun Verkalýðsfélags Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags. Verkalýðsfélagið varð til þegar Verkamannafélag Húsavíkur og Verkakvennafélagið Von sameinuðust vorið 1964. Fyrsti formaður félagsins var Sveinn Júlíusson. Félagssvæði þess í dag er Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur.
Framsýn er aðili að Starfsgreinsambandi Íslands, Landssambandi ísl. Verslunarmanna, Sjómannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Norðurlands og Alþýðusambandi Íslands. Þá starfar félagið í nánu samstarfi við önnur stéttarfélög í Þingeyjarsýslum sem reka m.a. öfluga þjónustu á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.
Við stofnun félagsins voru tæplega þrjú hundruð félagsmenn í félaginu en nú eru þeir á fjórða þúsund. Núverandi formaður félagsins er Aðalsteinn Á. Baldursson.
Félagið mun að venju standa fyrir veglegum hátíðarhöldum 1. maí á Fosshótel Húsavík þar sem boðið verður upp á veglegt afmælisboð í samstarfi við önnur stéttarfélög á svæðinu, þar sem þessum tímamótum verður jafnframt gerð góð skil. Þá verður aðalfundur félagsins með glæsilegasta móti en hann verður væntanlega haldinn föstudaginn 3. maí. Sá fundur verður auglýstur nánar síðar.
Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins framkvæmir árlega kannanir meðal launafólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB með það að markmiði að varpa ljósi á lífskjör launafólks á Íslandi þar með talið fjárhagsstöðu og heilsu. Könnunin var lögð fyrir nú í janúar og óskaði Framsýn eftir að staða félagsfólks þeirra yrði greind sérstaklega.
Samkvæmt könnuninni er fjárhagsstaða félagsfólks Framsýnar á heildina litið betri en annars félagsfólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Hærra hlutfall félaga í Framsýn eiga mjög auðvelt, auðvelt eða nokkuð auðvelt með að ná endum saman (66% á móti 57%), geta mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar (67% á móti 51%) og metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun betri en fyrir ári síðan (42% á móti 24%). Einnig er lægra hlutfall félagsfólks Framsýnar sem býr við efnislegan eða verulegan efnislegan skort sem mælir fátækt en það á við um 5% félagsfólks (á móti 11%) og einnig hafði lægra hlutfall þurft fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi eða hjálparsamtökum.
Talsvert mikill munur kom fram á aðstöðu foreldra innan Framsýnar í samanburði við foreldra í öðrum stéttarfélögum. Foreldrar voru spurðir hvort að fjárskortur á síðastliðnu ári hefði komið í veg fyrir að þeir gætu greitt fyrir grunnþætti fyrir börnin sín. Niðurstöður könnunarinnar sýna að lægra hlutfall foreldra í Framsýn en foreldra í öðrum stéttarfélögum innan ASÍ og BSRB höfðu ekki efni á að greiða kostnað vegna viðburða tengdu skólastarfi (5% á móti 7%), félagslífs barna (5% á móti 16%), nauðsynlegan fatnað (6% á móti 15%) og næringarríkan mat fyrir börnin sín (5% á móti 15%).
Auk þess sem fjárhagsstaða félagsfólks Framsýnar mælist almennt betri leiddi könnunin auk þess í ljós að lægra hlutfall Framsýnarfólk býr við slæma andlega heilsu (27% á móti 35%). Mjög ólíkt mynstur kom fram þegar líkamleg heilsa var skoðuð en nokkuð hærra hlutfall félagsfólks Framsýnar metur líkamlegt heilsufar sitt frekar eða mjög slæmt (27% á móti 18%).
Samantekt þessa gerði Kristín Heba Gísladóttir framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Hér er hægt að skoða skýrsluna:
Hér er heimasíða Vörðu.