Píeta samtökin hefja starfsemi á Húsavík 

Í dag, fimmtudaginn 17. ágúst, var formleg opnun á „Píetaskjóli“ á Húsavík. Píeta samtökin hafa aðstöðu í Stjórnsýsluhúsinu á Ketilsbraut 7-9 og taka viðtölin þar í fallegu viðtalsherbergi sem samtökin hafa aðgengi að. 

Í móttökunni voru til staðar fulltrúar frá Píeta samtökunum, sveitarstjóri Húsavíkur Katrín Sigurjónsdóttir og ýmsir aðrir fulltrúar úr stjórnsýslu bæjarins og félagasamtökum s.s. stéttarfélögunum. Gunnhildur Ólafsdóttir fagstjóri Píeta samtakanna flutti kynningu á starfsemi Píeta og veitti Tónasmiðjunni viðurkenningu fyrir flott starf í þágu samtakanna á Húsavík. Karen Elsu Bjarnadóttir sálfræðingur Píeta og sveitastjóri Húsavíkur Katrín Sigurjónsdóttir klipptu á gulan borða í tilefni opnunarinnar. 

Píeta samtökin bjóða upp á meðferð fyrir einstaklinga með sjálfsvígshugsarnir, eru með sjálfskaða og/eða eru í sjálfsvígshættu. Einnig bjóða Píeta samtökin upp á viðtöl fyrir aðstandendur fólks í hættu og aðstandendur sem hafa misst.

Eftir opnun Píeta árið 2018 hefur eftirspurn eftir þjónustu samtakanna aukist gríðarlega. 

Opnun Píeta á Húsavík er liður í því að breiða út þjónustu samtakanna eins og unnt er. Píeta samtökin veita fyrstu hjálp, aðgengilega þjónustu, stuðning og meðferð fyrir þá sem eru í sjálfsvígshættu og brú í úrræði fyrir aðra. 

Þjónustan er með öllu gjaldfrjáls og stendur til boða öllum þeim sem hafa náð átján ára aldri.

Píeta síminn er opinn allan sólarhringinn og hægt er að bóka viðtöl í síma 552-2218 alla virka daga milli 09:00 – 16:00. 

Það er alltaf von. 

Miðstjórn ASÍ ályktar um málefni flóttafólks

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar stefnu stjórnvalda að flóttafólk í sérstaklega berskjaldaðri stöðu, eins og t.d. þolendur mansals, sé sent út á götuna, svipt allri þjónustu og ekki gefinn kostur á að sjá sér farborða í íslensku samfélagi.

Með því að útiloka flóttafólk frá samfélagslegri þjónustu eykst hætta á að viðkomandi sæti misneytingu sökum jaðarsetningar og allsleysis. Algjörri útskúfun úr samfélagi manna fylgja margvíslegar aðrar hættur og ógnir við líf og velferð þeirra sem lögin segja verðskulda svo ómannúðlega meðferð.

Miðstjórn minnir á að umrætt flóttafólk hefur iðulega dvalið árum saman hér á landi þar sem kerfi ríkisvaldsins hafa ekki ráðið við að tryggja eðlilegan málsmeðferðarhraða né sjá til þess að til staðar sé öruggur móttökustaður. Með því móti hefur íslenska ríkið tekið á sig ábyrgð á lífi og velferð þessa fólks og frá þeirri ábyrgð getur ríkisvaldið ekki hlaupist nú.

Verkalýðshreyfingin sem stærsta mannréttindahreyfing í heimi getur ekki setið hjá í málum sem þessu. Miðstjórn ASÍ skorar á stjórnvöld að standa undir ábyrgð sinni og taka á þeim áskorunum sem við blasa í málaflokknum með mannúð og mildi að leiðarljósi.

Sjá nánar https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/alyktun-midstjornar-um-flottafolk-sem-svipt-hefur-verid-husnaedi-og-framfaerslu/

Skrifstofa stéttarfélaganna – gefandi starf í boði

Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík óskar eftir að ráða öflugan einstakling í almenn skrifstofustörf. Um er að ræða afar fjölbreytt og krefjandi starf í góðum starfsmannahóp. Kjör taka mið af menntun, reynslu og kjarasamningi Landssambands ísl. verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst eða eftir samkomulagi.

Starfssvið:

  • Móttaka viðskiptavina
  • Umsjón með orlofsíbúðum og orlofskostum á vegum stéttarfélaganna
  • Umsjón með sölu á flugmiðum
  • Túlkun kjarasamninga með öðrum starfsmönnum
  • Upplýsingagjöf varðandi réttindi félagsmanna úr sjóðum félagsins
  • Aðstoð við skráningu iðgjalda og annara styrkja
  • Innkaup á vörum fyrir Skrifstofu stéttarfélaganna

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun og reynsla á vinnumarkaði sem nýtist í starfi
  • Áhugi fyrir verkalýðsmálum
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogahæfileikar
  • Hæfni til að miðla upplýsingum
  • Góð kunnátta í íslensku og ensku
  • Góð tölvukunnátta

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur eru með öflugri stéttarfélögum landsins.

Umsóknarfrestur er til og með 28. ágúst n.k.

Umsækjendur eru vinsamlegast beðnir að sækja um starfið með því að senda umsókn á netfangið kuti@framsyn.is eða með því að koma upplýsingum á Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26, Húsavík. Forstöðumaður, Aðalsteinn Árni Baldursson, gefur frekari upplýsingar um starfið.  Umsókninni þarf að fylgja upplýsingar fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að sinna starfinu. Um er að ræða fullt starf.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir en það er í höndum Fulltrúaráðs stéttarfélaganna.

Skrifstofa stéttarfélaganna

Kristján Ingi skiptir um starf

Kristján Ingi Jónsson sem starfað hefur sem þjónustufulltrúi á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík hefur ráðið sig til starfa hjá Slökkviliði Norðurþings.

Kristján Ingi hefur lengi komið að starfi er tengist almannaþjónustu. Sem dæmi má nefna að hann er formaður björgunarsveitarinnar Núpa og sat í stjórn Öxarfjarðardeildar Rauða kross Íslands til margra ára. Í dag situr hann í Neyðarvarnanefnd Rauða krossins í Þingeyjarsýslum auk þess að vera á útkallsskrá hjá slökkviliði Norðurþings. Þá kláraði hann grunnnám í sjúkraflutningum frá Sjúkraflutningaskólanum árið 2018. Hann hefur nú ákveðið að sölsa um og taka við starfi sem er á hans áhugasviði enda með mikla reynslu á þessu sviði. Kristján mun hefja störf hjá slökkviliðinu 1. nóvember nk.

Kristján Ingi hefur verið góður liðsmaður á Skrifstofu stéttarfélaganna og fallið vel inn í starfsmannahópinn. Á næstu dögum verður auglýst eftir nýjum starfsmanni í stað Kristjáns Inga á Skrifstofu stéttarfélaganna. Í boði er áhugavert og krefjandi starf með heimsins besta samstarfsfólki.

Veggur veitingahús vaxandi veitingastaður

Fulltrúar frá Framsýn fóru í hefðbundið vinnustaðaeftirlit í dag í Kelduhverfi og komu þeir víða við. Veggur veitingahús sem er við Dettifossveg í Kelduhverfi, við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs og hinn svokallaða Demantshring var m.a. heimsótt. Náttúran umhverfis staðinn státar af mikilli fegurð og eru nokkrar af helstu náttúruperlum landsins á svæðinu, til dæmis Ásbyrgi, Vesturdalur, Hólmatungur og Dettifoss. Staðurinn býður upp á spennandi rétti úr héraði sem gestir geta snætt í björtum og fallegum veitingasal með stórkostlegu útsýni yfir Kelduhverfi. Megin uppistaða matseðils Veggs veitingahúss er úr héraði og nærumhverfinu, enda vilja eigendur stuðla að minna kolefnisspori en ella og leitast við að færa söluna nær uppruna sínum. Í samtölum við eigendur og starfsmenn voru þeir almennt ánægðir með sumarið, fjölmargir ferðamenn hefðu komið við og notið veitinga um náttúrunnar.

Víða vantar fólk til starfa

Fulltrúar frá Framsýn voru á ferðinni í Kelduhverfi í dag. Að sjálfsögðu var komið við í Ásbyrgi þar sem rekin er myndarleg verslun og þjónusta við ferðamenn. Eins og víða í Þingeyjarsýslum vantar fólk til starfa. Fram kom hjá verslunarstjóranum í Ásbyrgi að þau væru að leita að starfsmönnum sem gætu byrjað um 6. september. Hafi menn áhuga eru viðkomandi aðilar beðnir um að hafa samband við Ísak verslunarstjóra í síma 54652260.  

Lausar stöður leikskólum Þingeyjarsveitar í Barnaborg og Krílabæ

Þingeyjarskóli í Aðaldal er með um 100 nemendur á leik- og grunnskólaaldri, þar af rúmlega 30 leikskólanemendur á tveimur starfsstöðvum.


Við Þingeyjarskóla eru lausar stöður frá 1. ágúst 2023:
– Stuðningsfulltrúa við leikskóladeildina Barnaborg í 80-100% starf.
– Leikskólakennara/leikskólastarfsmanni við leikskóladeildina Barnaborg á Hafralæk í 100% starf.
– Leikskólakennara við leikskóladeildina Krílabæ á Laugum í 60-80% starf.

Möguleiki er á húsnæði á staðnum. Nánari upplýsingar veitir Jóhann Rúnar Pálsson skólastjóri í síma 4643580 /8990702 eða í gegnum netfangið johannrunar@thingeyjarskoli.is

Laus staða Matráðs í Reykjahlíðarskóla | Þingeyjarsveit (thingeyjarsveit.is)

Lausar stöður leikskólum Þingeyjarsveitar í Barnaborg og Krílabæ | Þingeyjarsveit (thingeyjarsveit.is)

Mærudags getraun – alltaf stutt í grínið

Heimasíða stéttarfélaganna býður lesendum upp á skemmtilega getraun sem tengist Mærudögum. Vegleg verðlaun eru  í boði s.s. ferðatöskur, jakkar/peysur og húfur með merki félaganna. Það eina sem þú þarft að gera er að finna út hvar þessi bekkur er staðsettur á Húsavík og mynda hann með símanum þínum og senda hana síðan á netfangið kuti@framsyn.is. Einnig er í boði að koma með myndina í símanum á Skrifstofu stéttarfélaganna á opnunartíma. Veitt verða verðlaun fyrir bestu myndina, frumlegustu myndina og fyrstu myndina sem berst í hús. Ekki er verra að þáttakendur séu sjálfir á myndinni með bekknum eða vinir eða vandamenn. Þessi stórmerkilegi bekkur stendur við malarveg, sem áður var fjölfarinn milli landshluta. Í dag stendur þekkt fjárbú á Húsavík við veginn sem er í dag afleggjari frá nýlegum vegi sem tengir Húsavík betur við Mývatnssveitina og skíðasvæðið í Reyðarárhnjúk. Skilafrestur er til kl: 17:00 á laugardaginn. Úrslitin verða tilkynnt á heimasíðunni strax í kjölfarið. Koma svo!

Hvar er þessi bekkur, vegleg verðlaun í boði????

Skrifað undir samkomulag í morgun

Fyrr á árinu samdi Hvammur heimili aldraðra á Húsavík við Heilbrigðisráðuneytið um að Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) taki yfir rekstur hjúkrunar og dvalarrýma í Hvammi. Heilbrigðisstofnun Norðurlands og þar áður Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hafa verið með samning um stjórnun og hjúkrunarþjónustu á heimilinu frá árinu 2011.  Mikil samlegð hefur verið í þessum rekstri og fagleg þjónusta hefur verið stórbætt undafarin ár samfara aukningu í fjölda hjúkrunarrýma. Þessi breyting er eðlilegt framhald af þessu farsæla samstarfi.

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir viðræður milli HSN og Framsýnar um flutning starfsmanna milli stofnana hvað kjör og önnur réttindi varðar. Í morgun var komið að því að undirrita samkomulag milli aðila sem tryggir starfsmönnum óbreytt kjör við yfirtöku HSN á rekstri hjúkrunar og dvalarrýma í Hvammi. Samkomulagið nær til um þrjátíu starfsmanna. Það voru þeir Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sem skrifuðu undir samkomulagið.

Byggðaráð Norðurþings tekur undir með Framsýn

Byggðaráð Norðurþings fjallaði nýlega um ákvörðun Vinnumálastofnunar  um að loka þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík í byrjun júlímánaðar. Framsýn hafði áður mótmælt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Niðurstaða Norðurþings: „Byggðarráð mótmælir þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að loka þjónustuskrifstofu sinni á Húsavík sem hefur verið þar endurgjaldslaust í húsnæði stéttarfélagsins. Ráðið hvetur stofnunina til að endurskoða ákvörðun sína hið fyrsta.“

Framsýn boðar til fundar með starfsmönnum Hvamms

Eins og áður hefur komið fram er unnið að því að HSN taki endanlega yfir rekstur Hvamms. Við það flytjast starfsmenn Hvamms milli stofnana og munu framvegis taka kjör eftir kjarasamningi SGS/Framsýnar og fjármálaráðherra fh. ríkisjóðs. Fram að þessu hafa starfsmenn starfað eftir kjarasamningi sveitarfélaganna og SGS/Framsýnar. Framsýn hefur boðað til fundar með starfsmönnum Hvamms næstkomandi mánudag, 17. júlí kl. 16:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Tilefni fundarins er að fara yfir réttindi og kjör starfsmanna við yfirfærsluna á HSN. Þess er vænst að starfsmenn fjölmenni á fundinn en Framsýn hefur átt í viðræðum við HSN undanfarna mánuði um yfirfærsluna ásamt trúnaðarmönnum starfsmanna með það að markmiði að tryggja stöðu starfsmanna við flutninginn milli kjarasamninga.

Mikilvægt að flokka rusl í Þorrasölum

Kópavogsbær hefur innleitt nýtt flokkunarkerfi sem samanstendur af fjórum flokkum, lífrænn úrgangur, plast, pappi og almennur úrgangur. Uppi á bílaplaninu eru þrjár rennur og eru þær nú merktar plast, pappi og almennur úrgangur.  Lífrænn úrgangur fer svo í tunnurnar í sorpgeymslu sem eru jarðhæðinni. Hurðin að geymslunni snýr að blokkinni við hliðina og er ólæst. Hurðin er hægra megin við akstursdyrnar inn í bílakjallarann. Þangað þurfa menn að fara með lífrænan úrgang. Pokar fyrir lífrænan úrgang eru í anddyrinu á 1. hæð og verður komið fyrir í íbúðum stéttarfélaganna. Þar verður einnig komið fyrir betri flokkunarílátum. Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, leggja mikið upp úr því að félagsmenn sem leigja íbúðir stéttarfélaganna gangi vel um og flokki allt rusl sem fellur til meðan þeir dvelja í íbúðum félaganna. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Tunnum fyrir lífrænan úrgang hefur verið komið fyrir í sorpgeymslunni.

Heildartekjur einstaklinga 8,4 milljónir árið 2022

Hagstofan hefur tekið saman áhugaverðar upplýsingar um heildartekjur einstaklinga árið 2022 sem nálgast má á heimasíðu stofnunarinnar https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/laun-og-tekjur/tekjur-skattframtol-2022/

Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru tæpar 8,4 milljónir króna að meðaltali árið 2022, eða rétt tæpar 700 þúsund krónur á mánuði. Það er um 9% hækkun frá fyrra ári, sé horft til verðlagsleiðréttingar var raunhækkunin um 0,6%. Miðgildi heildartekna var um 6,6 milljónir króna á ári, sem sýnir að helmingur einstaklinga var með heildartekjur undir 554 þúsund krónum á mánuði. Hækkun miðgildis heildartekna var 10,7%, en með tilliti til raunhækkunar var hækkunin 2,2%. Miðgildi heildartekna var hæst í Garðabæ, eða tæpar 7,9 milljónir og rúmar 7,8 milljónir króna á Seltjarnanesi, tæpar 7,4 milljónir króna í Fjarðarbyggð, 7,3 milljónir í Kópavogi og í Reykjavík rúmlega 6,9 milljónir króna. Fjórtán sveitarfélög höfðu miðgildi heildartekna undir 6 milljónum króna og eitt var undir 5 milljónum króna. Norðurþing skorar nokkuð hátt á landsvísu, þar eru árstekjur einstaklinga/miðgildi tæplega 6,7 milljónir. Sé miðað við Norðurland eru heildartekjur einstaklinga á Norðurlandi þær hæstu meðal íbúa Norðurþings. Tvö önnur sveitarfélög eru á félagssvæði stéttarfélaganna á Húsavík, það er annars vegar Þingeyjarsveit þar sem miðgildið er um 5,9 milljónir og Tjörneshreppur þar sem miðgildið er um 5,1 milljón á ársgrundvelli.    

Framsýn mótmælir skertri þjónustu

Vinnumálastofnun hefur ákveðið að loka fyrir þjónustu við atvinnuleitendur á Húsavík. Vinnumálastofnun heyrir undir félagsmálaráðuneytið og fer m.a. með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu og daglega afgreiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs,  Fæðingarorlofssjóðs, Ábyrgðarsjóðs launa auk fjölmargra annara vinnumarkaðstengdra verkefna.  Í tilkynningu kemur fram að þjónustuskrifstofu stofnunarinnar verði lokað frá 3. júlí 2023. Atvinnuleitendum og atvinnurekendum er bent á að hafa samband við þjónustuskrifstofuna á Akureyri. Í október 2020 óskaði Framsýn eftir samstarfi við Vinnumálstofnun sem byggði á því að stéttarfélögin legðu til aðstöðu fyrir starfsmann stofnunarinnar á Skrifstofu stéttarfélaganna endurgjaldslaust og Vinnumálastofnun bæri ábyrgð á starfsmanninnum og greiddi honum laun sem stofnunin samþykkti. Frá þeim tíma hefur starfsmaðurinn verið við störf á Húsavík auk þess að gegna störfum á Akureyri með starfinu á Húsavík. Hér á árum áður hélt stofnunin úti þjónustu á Húsavík sem síðar lagðist af. Að frumkvæði Framsýnar opnaði Vinnumálastofnun aftur formlega skrifstofu á Húsavík í október 2020 eins og fram kemur í fréttinni sem nú hefur verið samþykkt að leggja af sem eru mikil vonbrigði. Stjórn Framsýnar hefur samþykkt að fela formanni félagsins að hafa samband við Vinnumálastofnun og gera alvarlegar athugasemdir við ákvörðunina um að leggja af þjónustu á Húsavík við atvinnuleitendur, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Eðlilegra hefði verið að efla starfsemina í Þingeyjarsýslum og auka jafnframt vinnustaðaeftirlit með öðrum hagsmunaaðilum sem koma að þessum málum enda atvinnulífið í mikilli sókn á Norðausturhorninu.  

Upplýsingafundur haldinn með starfsmönnum Norðursiglingar

Starfsfólk Norðursiglingar kom saman í gær til að fræðast um kjarasamninga, lög og reglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði, starfsemi stéttarfélaga og réttindi þeirra hjá Framsýn og lífeyrissjóðum. Fundurinn var haldinn af frumkvæði trúnaðarmanns starfsmanna, Alberto Delmalo. Mjög góð mæting var á fundinn og voru fundarmenn mjög ánægðir í fundarlok með upplýsingarnar sem þeir fengu á fundinum enda starfsmenn með mismunandi reynslu á íslenskum vinnumarkaði. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var á fundinum og svaraði fyrirspurnum fundarmanna.