Hækkanir 1. janúar á kauptöxtum og öðrum mánaðarlaunum sem ekki taka mið af kauptöxtum

Kjarasamningsbundnar launahækkanir tóku í gildi þann 1. janúar 2022. Við hvetjum félagsmenn eins og alltaf að skoða vel launaseðilinn um mánaðarmótin.

Búið er að uppfæra kauptaxta sem má finna undir https://www.framsyn.is/kaup-og-kjor/ ásamt eldri kauptöxtum.

Starfsfólk á almennum vinnumarkaði: (kjarasamningur SGS og SA)
Kauptaxtar á almenna markaðinum hækkuðu um kr. 25.000-,
Almenn mánaðarlaun fyrir fullt starf hækkuðu um kr. 17.250.
Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækkuðu um 2,5% á sömu dagsetningu.

Einnig hækkuðu lágmarkstekjur fyrir fullt starf og verða 368.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf frá 1. janúar 2022.

Starfsfólk sveitarfélaga: (kjarasamningar SGS og Launanefndar sveitarfélaga). Kauptaxtar hjá sveitarfélögunum hækkuðu um kr. 25.000-.

Sóttvarnir

Tíu manna samkomutakmarkanir taka gildi á miðnætti og hefur það áhrif á okkur flest. Nú eru að verða tvö ár af faraldrinum og langtímaafleiðingar farnar að segja til sín. Fjöldi fólks hefur misst vinnu tímabundið eða jafnvel til lengri tíma. Margir hafa gengið á lífeyrissparnað sinn og eigið fé til að brúa hið fjárhagslega bil eða jafnvel þurft að steypa sér í skuldir. Fólk sem vinnur við að liðsinna viðkvæmum einstaklingum hefur þurft að lifa við harðari sóttvarnir til að stofna ekki skjólstæðingum sínum í hættu. Fólk í framlínunni hefur verið undir ómanneskjulegu álagi í allt of langan tíma í velferðarkerfi sem víða er undirmannað. Skólar á öllum skólastigum hafa ítrekað breytt starfsemi sinni og innleitt nýja kennsluhætti til að geta haldið menntun barna gangandi í gegnum heimsfaraldur. Vinnandi fólk hefur komið til móts við atvinnurekendur og vinnustaði með sóttvörnum, breytingu á vinnutilhögun, skipulagi orlofs og jafnvel grundvallarbreytingu á störfum. Við höfum almennt öll lagt okkar af mörkum til að samfélagið og atvinnulífið geti gengið áfram. 

Ein mikilvægasta ákvörðunin sem tekin hefur verið er að greiða laun í sóttkví þannig að það sé ekki fjárhagsleg spurning fyrir atvinnurekendur eða launafólk hvort fylgja eigi sóttvarnarlögum. Að auki var boðið uppá hlutabótaleið þannig að ráðningasamband myndi haldast þótt nauðsynlegt væri að draga tímabundið saman seglin. Flestar þessara aðgerða hafa tekist vel en það er ekki þar með sagt að fyrirtæki eigi heimtingu á ríkisstuðningi við þessar aðstæður. Fjöldi fyrirtækja hefur staðið ástandið vel af sér og eru jafnvel stöndugri í dag en fyrir tveimur árum síðan. Það er því ekki sanngjarnt að fyrirtæki fái skilyrðislausan stuðning úr okkar sameiginlegu sjóðum á þessum tímum og að innleiddar séu almennar aðgerðir sem gagnast jafnt þeim sem maka krókinn og hinum sem komast varla lífs af. Það er líka lágmark að þau fyrirtæki sem njóta stuðnings undirgangist skilyrði um að greiða ekki arð, eiga ekki aflandsfélög, kaupa ekki eigin hlutabréf eða stunda aðrar leiðir til að tryggja gróða fyrir hina fáu.  

Borið hefur á því að fyrirtæki óska eftir fólki í vinnu aftur þó það sé í sóttkví. Sóttvarnaryfirvöld hafa veitt undanþágur frá sóttkví að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og nú nýverið var reglum um  sóttkví fyrir þríbólusetta einstaklinga breytt. 

ASÍ hefur borist fjöldi fyrirspurna vegna framferði atvinnurekenda gagnvart starfsfólki sínu í tengslum við sóttkví og bólusetningar. Því skal eftirfarandi áréttað: Atvinnurekendur eiga ekki heimtingu á upplýsingum um heilsufar eða bólusetningar starfsfólks nema í undantekningartilvikum þar sem starfsfólk vinnur til dæmis með viðkvæmum hópum. Atvinnurekendur geta ekki krafið fólk um að undirgangast bólusetningar eða farið fram á skýringar á því hvers vegna fólk er skikkað í sóttkví af sóttvarnaryfirvöldum. Ef launamanneskjan er í sóttkví, þá er hún í sóttkví og það ber atvinnurekanda að virða. Allt valdboð eða skipanir verða einungis til þess að samstaða um sóttvarnir brestur. Við höfum hingað til staðið saman um sóttvarnir og aðrar aðgerðir til að halda samfélaginu gangandi á erfiðum tímum. Höldum því áfram. 

Förum vel með okkur!  

Góða helgi, 

Drífa Snædal forseti ASÍ

Samspil sóttkvíar og orlofs

Umræða um réttindi starfsfólks þegar kemur að samspili sóttkvíar og orlofs hefur verið sérstaklega áberandi undanfarið en samkvæmt tölulegum upplýsingum frá 12. janúar sættu 10.063 sóttkví. Brot gegn sóttkví geta varðað refsingu sbr. 19. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.

Ljóst er að þeim sem gert er að sæta sóttkví skv. fyrirmælum yfirvalda hafa takmarkað athafnafrelsi. Þegar litið er til orlofs þá er ekki endilega verið að meta óvinnufærni heldur huglægt mat á því hvort viðkomandi geti notið orlofs skv. túlkun Hæstaréttar á 6. gr. orlofslaga nr. 30/1987 í máli nr. 56/2013. Telja verður því að þeir sem sæta sóttkví og innilokun vegna ætlaðs sjúkdóms, sem leiðir til þess að viðkomandi þurfi að einangra sig geti ekki notið orlofs að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem sett eru í kjarasamningum. Þar af leiðandi á launamaður rétt á því að sóttkví hafi ekki áhrif á orlofstöku sína.

Heimildir sóttar af vinnuréttarvef ASÍ.

Nýir kauptaxtar komnir á vefinn

Nýir kauptaxtar fyrir þá sem starfa á almenna markaðinum, hjá ríki og sveitarfélögum eru komnir á vefinn og má nálgast hér. Kauptaxtarnir gilda frá 1. janúar til 31. desember 2022 hjá starfsfólki á almenna markaðinum og sveitarfélögum en frá 1. janúar 2022 til 31. mars 2023 hjá ríkisstarfsmönnum.

Nýja kauptaxta má nálgast hér.

Stafsmenn sveitarfélaga- Félagsmannasjóður

Allir félagsmenn Framsýnar sem störfuðu hjá sveitarfélagi á tímabilinu frá 1. febrúar 2021 til 31. desember 2021 eiga að fá greitt úr félagsmannasjóði 1. febrúar nk. Sjóðurinn er vistaður hjá Starfsgreinasambandi Íslands og er 1,5% af heildarlaunum viðkomandi starfsmanna.

Til að hægt sé að tryggja að greiðsla úr sjóðnum berist þarf að skrá reikningsupplýsingar á eftirfarandi slóð og senda Starfsgreinasambandi Íslands. Félagsmannasjóður – Starfsgreinasamband Íslands (sgs.is)

Starfsmannafélag Húsavíkur
Aðildarfélög inna BSRB sem semja fyrir starfsmenn sveitarfélaga, sömdu um Kötlu félagsmannasjóð í kjarasamningum aðildarfélaganna og Sambands Íslenskra sveitarfélaga  í mars 2020, með gildistíma frá 1. janúar 2020 til 31. mars 2023. Aðild að sjóðnum eiga einnig eftir atvikum félagsmenn sem starfa hjá tengdum aðilum s.s. Hjallastefnu, á hjúkrunarheimilum og þeim sem eru með sama ákvæði í kjarasamningi Sambandsins og aðildarfélaganna

Tekjur sjóðsins árið 2021 voru 1,24% af heildarlaunum þeirra starfsmanna sem aðild eiga að sjóðnum

Aðildarfélög að Kötlu félagsmannasjóði eru öll bæjarstarfsmannafélög BSRB, þar á meðal Starfsmannafélag Húsavíkur sjá nánar

Hlutverk sjóðsins er m.a. að auka tækifæri sjóðsfélaga til starfsþróunar, m.a. með því að sækja sér fræðslu og endurmenntun og með því að sækja ráðstefnur, þing og námskeið til þess að þróa sína starfshæfni. Rétt er að taka fram að félagsmenn Starfsmannafélagsins sem ráðnir eru inn á forsendum háskólamenntunar geta hugsanlega ekki átt rétt á greiðslum úr Kötlu þar sem greitt er af þeim í annan sjóð, Vísindasjóð.

Skorað er á félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur að sækja um sinn rétt hjá sjóðnum sem fyrst fyrir árið 2021. Það gera menn með því að fara inn á  https://katla.bsrb.is/

Tillaga Kjörnefndar Þingiðnar um félaga í stjórnir, ráð og nefndir á vegum félagsins fyrir næsta kjörtímabil klár

Kjörnefnd Þingiðnar kom saman í gær til að ganga frá tillögu um félagsmenn í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Þingiðnar fyrir kjörtímabilið 2022 til 2024. Eftir umræður var gengið frá félögum í trúnaðarstöður og fylgir tillaga kjörnefndar hér með:

Auglýsing um kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum kjörtímabilið 2022-2024.

Aðalstjórn:

Jónas Kristjánsson                          Formaður                        Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Vigfús Þór Leifsson                         Varaformaður                  Norðurvík ehf.

Hólmgeir Rúnar Hreinsson          Ritari                               Trésmiðjan Rein ehf.

Þórður Aðalsteinsson                    Gjaldkeri                          Trésmiðjan Rein ehf.

Jónas Hallgrímsson                       Meðstjórnandi                 Trésmiðjan Rein ehf.

Aðalstjórn er jafnframt stjórn sjúkra-, orlofs- og vinnudeilusjóðs

Varastjórn:                                        Vinnustaður:    

Gunnólfur Sveinsson                     Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Gunnar Sigurðsson                         Eimskip hf.

Daníel Jónsson                                 Curio ehf.

Hörður Ingi Helenuson                 Fagmál ehf.

Trúnaðarmannaráð:

Sigurjón Sigurðsson                     Norðurvík ehf

Kristján G. Þorsteinsson                Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Andri Rúnarsson                           Fjallasýn ehf.

Kristinn Jóhann Lund                    Trésmiðjan Rein ehf.

Rafnar Berg Agnarsson                 PCC Bakki

Bjarni Björgvinsson                       Norðurvík ehf.

Varatrúnaðarmannaráð:

Sveinbjörn Árni Lund                     Curio ehf.

Kristján Gíslason                           Norðlenska ehf.

Sigurður Sigurjónsson                   Bifreiðaskoðun Íslands ehf.

Bjarni Gunnarsson                        Curio ehf.

Skoðunarmenn ársreikninga:                              Kjörstjórn:

Kristján Gíslason                                                    Þorvaldur Ingi Björnsson

Arnþór Haukur Birgisson                                       Vigfús Þór Leifsson

Varamaður:                                                             Varamenn:

Steingrímur Hallur Lund                                         Andri Rúnarsson/Sigmundur Friðrik Jónasson

Kjörnefnd:                                                               Fulltrúi félagsins 1. maí nefnd stéttarfélaganna:

Davíð Þórólfsson                                                    Jónas Kristjánsson

Gunnólfur Sveinsson

Kristján Gíslason

Heimilt er hverjum fullgildum félaga að koma með breytingartillögur um félagsmenn í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan í trúnaðarstöður næsta kjörtímabil. Breytingatillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 10% fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 20% félagsmanna. Skylt er að koma breytingartillögum til skrifstofu félagsins að Garðarsbraut 26, 640 Húsavík, fyrir 1. mars 2022.

Athygli er vakin á því að samkvæmt 10. gr. félagslaga c-lið eru félagsmenn skuldbundnir til að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið, nema einhver sú ástæða hamli, sem félagsfundur tekur gilda. Enginn getur, nema af frambornum ástæðum sem félagsfundur tekur gilda, skorast undan að taka kosningu í stjórn eða útnefningu til annarra starfa í þágu félagsins. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem verið hefur þrjú ár samfellt í stjórn félagsins, skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma. Sama gildir um önnur trúnaðarstörf í þágu félagsins.

Kjörnefnd Þingiðnar

Dagatöl í boði – auka prentun

Dagatöl stéttarfélaganna kláruðust um áramótin enda greinilega mjög vinsæl. Vegna fjölda áskorana höfum við nú látið prenta fleiri eintök. Félagsmönnum sem og öðrum áhugasömum stendur til boða að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna eftir helgina og fá gefins dagatöl vegna ársins 2022. Að þessu sinni eru myndirnar sem prýða dagatölin eftir áhugaljósmyndarana Gauk Hjartarson og Hafþór Hreiðarsson. Minnisbækur eru einnig í boði fyrir þá sem vilja.