Félagar, greiðum atkvæði

Kæru félagar. Þann 21. desember 2013 var skrifað undir nýja kjarasamninga sem eiga að gilda í eitt ár verði þeir samþykktir í atkvæðagreiðslu sem nú stendur yfir. Miðað er við að kjarasamningurinn gildi frá 1. janúar 2014 til 31. desember 2014. 

Samningsumboð Framsýnar voru hjá Landssambandi íslenskra verslunarmanna vegna skrifstofu og verslunarfólks innan Framsýnar og hjá Starfsgreinasambandi Íslands vegna almennra félagsmanna á vinnumarkaði. Framsýn mótaði kröfugerðir fyrir sína félagsmenn sem komið var á framfæri við Landssamböndin tvö SGS og LÍV. Mikil vinna fór í gang hjá samböndunum við að móta sameiginlega kröfugerð fyrir þau stéttarfélög sem veitt höfðu samböndunum samningsumboð. 

Starfsgreinasamband Íslands lagði fram metnaðarfulla kröfugerð sem Samtök atvinnulífsins höfnuðu að mestu. Kröfugerð Starfsgreinasambandsins miðaðist við að lægstu taxtar verkafólks hækkuðu um kr. 20.000 á mánuði og skattkerfisbreytingar sem voru í farvatninu hjá ríkistjórninni miðuðust við að hækka persónuafsláttinn hjá þeim lægst launuðu til jafns við aðra. 

Því miður brást samstaðan innan Starfsgreinasambandsins þar sem formenn níu félaga voru tilbúnir að gefa eftir upphaflegu kröfuna og samþykkja mun lægri hækkun til sinna félagsmanna eða kr. 8.000 + launaflokkahækkun upp á kr. 1.565 á mánuði. Þá voru þeir einnig tilbúnir að samþykkja með sinni undirskrift að skattalækkanir ríkistjórnarinnar næðu ekki til þeirra lægst launuðu, það er þeirra sem hafa tekjur innan við kr. 250.000 á mánuði. Þess ber að geta að taxtar Starfsgreinasambandsins eru allir á þessu bili, það er frá 192 þúsundum upp í 230 þúsund. 

Þegar ég varð var við brestina hvatti ég menn til að standa saman, þannig væri hægt að ná betri árangri fyrir verkafólk. Eitt félag hefði ekki stöðu eða burði til þess, það væri fyrirfram töpuð barátta. Því miður var undanhaldið slíkt að ég reikna ekki með að þeir hafi hlustað á þessi orð mín. 

Ég skal viðurkenna að mér var stórlega misboðið fyrir hönd þess fólks sem ég starfa fyrir og skrifaði því ekki undir kjarasamninginn frekar en fjórir aðrir formenn. Aðrir tveir formenn tóku ekki þátt í viðræðunum og skrifuðu því ekki undir samninginn. Það var því naumur meirihluti félaga sem skrifaði undir samninginn. 

Mér hefur einnig misboðið málflutningur forseta ASÍ og reyndar Samtaka atvinnulífsins líka sem hamra á því að um sé að ræða samning sem færir þeim lægst launuðu hækkanir umfram þá tekjuhærri. Þvílíkt rugl. Tökum dæmi: 

  • Verkamaður getur, verði samningurinn samþykktur, keypt sér 79 lítra af mjólk fyrir hækkunina sem hann fékk sem gerir tæplega kr. 10.000 á mánuði. Fyrir var þessi einstaklingur með kr. 192.000 í mánaðarlaun.
  • Forseti ASÍ og hans líkir með um 1,2 milljónir í mánaðarlaun hækka um kr. 33.600 á mánuði og geta keypt um 267 lítra af mjólk fyrir hækkunina.
  • Miðlungs launakjör stjórnarmanna í Samtökum atvinnulífsins eru um 3 milljónir á mánuði. Hækkunin færir þeim um kr. 84.000 á mánuði sem gerir þeim kleift að kaupa sér 667 lítra af mjólk. 

Síðan stíga þessir menn fram kinnroðalaust og telja fólki trú um að um sérstaka láglaunaaðgerð sé að ræða. Nei takk. Þá má geta þess að þeir fá sérstaka skattalækkun í desert frá stjórnvöldum á meðan verkafólk með launakjör innan við 250.000 á mánuði fær ekki neitt. 

Framsýn hefur ákveðið að ráðast í fundaherferð þar sem kjarasamningarnir verða kynntir félagsmönnum. Ég vil skora á félagsmenn að mæta á fundina og nýta sér atkvæðisréttinn og koma þannig afstöðu sinni á framfæri.  

Verði kjarasamningurinn samþykktur tekur hann gildi frá og með 1. janúar 2014. Verði hann hins vegar felldur munu fulltrúar Framsýnar halda áfram viðræðum við Samtök atvinnulífsins með það að markmiði að ná betri árangri en náðist í þessum kjarasamningum sem undirritaðir voru í svartasta skammdeginu sem skýrir hugsanlega af hverju ekki tókst betur til.

 Með áramótakveðju

Aðalsteinn Á. Baldursson

Deila á