Fundað með fulltrúm ASÍ

Forseti ASÍ ásamt fylgdarliði funduðu með fulltrúm Framsýnar fyrir helgina á Húsavík. Umræðuefnið var væntanlegt þing sambandsins í október. Fulltrúar frá Þingiðn, Framsýn og Verkalýðsfélagi Þórshafnar sátu fundinn með gestunum frá Alþýðusambandinu. Á fundinum var Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ spurður út í það hvort hann ætlaði að gefa kost á sér sem forseti sambandsins. Hann var ekki klár að svara þeirri spurningu á þessari stundu. Hann væri að íhuga það hvað hann gerði varðandi það hvort hann gæfi kost á sér eða ekki.

Lagnir lagaðar í Furulundi

Undanfarið hefur verið unnið að því að laga hitalagnir í orlofsíbúð Framsýnar í Furulundi á Akureyri. Verkið hefur gengið vel og nú þegar eru komnir leigjendur í íbúðina eftir breytingarnar. Gömlu lagnirnar voru löngu komnar á tíma og því var ekki hægt að bíða með það lengur að skipta þeim út.

Ræstingarauki um næstu mánaðarmót

Í kjarasamningi SGS og SA, sem undirritaður var í mars síðastliðnum, var samið um svokallaðan ræstingarauka fyrir starfsfólk í ræstingum. Þetta þýðir að ræstingarfólk fær sérstaka viðbótargreiðslu með launum fyrir ágúst sem greidd verða út um næstu mánaðamót. 

Ræstingaraukinn skal greiddur út mánaðarlega og reiknast hann í hlutfalli við starfshlutfall, en fyrir fullt starf er hann 19.500 kr. á mánuði. Hafa ber í huga að ræstingaraukinn er ekki hluti af grunnlaunum og myndar þar af leiðandi ekki stofn fyrir yfirvinnu og aðrar álagsgreiðslur. Í reiknivél SGS geta félagsmenn séð hvernig ræstingaraukinn sem og aðrar kjarasamningsbundar hækkanir í kjarasamningi SGS og SA koma til með að líta út m.v. sínar forsendur.

Félagsmenn í aðildarfélögum SGS sem starfa við ræstingar á almennum vinnumarkaði eru hvattir til að skoða launaseðla sína vel um næstu mánaðarmót og ganga úr skugga um að greiðslan hafi skilað sér.

Sameiginleg yfirlýsing Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög Alþýðusambands Íslands tóku höndum saman fyrr á árinu þegar gerðir voru langtímakjarasamningar, samningar sem auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu.

Samningsaðilar voru sammála um að meginmarkmið samninganna væru að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi sem komið hefur hart niður á bæði heimilum og fyrirtækjum.    

Ársverðbólga fyrir ári síðan mældist 7,7% og án húsnæðisliðarins 7,6% – í síðustu mælingu Hagstofu Íslands mældist ársverðbólgan 6,3% og án húsnæðisliðarins 4,2%.

Mikilvægum árangri hefur verið náð en báðir aðilar árétta að allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitafélög þurfi áfram að leggjast á eitt til þess að ná áðurnefndum markmiðum.

Um þessar mundir eru augljós merki í atvinnulífinu um að hagkerfið sé að kólna og útlit er fyrir að hagvöxtur verði undir 1% á árinu.  Háir raunvextir eru íþyngjandi fyrir skuldsett heimili, standa fjárfestingu í framtíðar verðmætasköpun fyrir þrifum og draga úr þrótti á íslenskum hlutabréfamarkaði.  Það er því mikilvægt að Seðlabankinn sé framsýnn í sínum ákvörðunum þegar kemur að ákvörðun um stýrivexti. 

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands leggja auk þess áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélög tryggi nægt framboð af fjölbreyttum og hagkvæmum lóðum, svo tryggt verði að framboð á húsnæðismarkaði sé í takt við eftirspurn. Jafnvægi á húsnæðismarkaði er forsenda efnahagslegs stöðugleika. 

Mikið átak þurfti til að tryggja fjögurra ára kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í því augnamiði að stuðla að stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir fyrirtæki og heimili. Í ljósi þess að loforð yfirvalda um aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru hluti forsenduákvæða samninganna leggja samningsaðilar áherslu á að staðið sé við gefin loforð.

Framlag í Félagsmannasjóð STH hækkar

Fundur var haldinn í Samráðsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB þann 17. júlí 2024.

Samráðsnefndin er sammála um að gr. 13.10 í kjarasamningi aðila breytist svo frá 1. apríl 2024.

Félagsmannasjóður:

Launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í Félagsmannasjóð sem nemur 2,2% af heildarlaunum starfsmanna. Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram 1. febrúar ár hvert samkvæmt stofnskrá sjóðsins.

Greinin gildir ekki um þá starfsmenn er njóta styrkja samkvæmt gr. 13.6.1. í kjarasamningi aðila.

Breyting þessi nær m.a. til félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur.

Bæklingar í boði fyrir félagsmenn

Framsýn hefur látið útbúa bæklinga á ensku og íslensku með helstu réttindum félagsmanna sem starfa í ferðaþjónustu. Bæklingarnir hafa verið uppfærðir og eru komnir úr prentun. Hægt að er nálgast þá á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Framsýn kallar eftir efndum á loforðum sveitarfélaga

Að gefnu tilefni vill Framsýn stéttarfélag minna sveitarstjórnarfólk á félagssvæðinu á yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga sem undirritaðir voru í mars sl.

Í yfirlýsingu er skýrt kveðið á um að sveitarfélögin lýsa yfir fullum vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og þær verði endurskoðar hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.

Skýrara verður það ekki og Framsýn trúir því ekki að sveitafélögin, sem aðild eiga að kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands ísl. sveitarfélaga, vogi sér að svíkja launafólk með því að standa ekki við gefin loforð.

Þá er rétt að geta þess að kjarasamningurinn gekk út á að semja til langstíma með hófstilltum hætti til ná niður verðbólgunni og skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun. Þessi leið sparar sveitarfélögum landsins marga milljarða í launakostnað og því lágmark að sveitarfélögin standi við sín loforð um aðhald í gjaldskrárhækkunum.

Opnað fyrir útleigu í Hraunholtinu

Frá og með 1. september 2024 geta félagsmenn bókað íbúðir Framsýnar og Þingiðnar í Hraunholtinu á Húsavík. Um er að ræða tvær rúmlega 100 fm2  glæsilegar íbúðir með öllum nútíma þægindum. Sjá frekar inn á orlofsvef stéttarfélaganna; framsyn.is. Varðandi frekari upplýsingar er velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Stjórn Framsýnar fundar eftir helgina

Stjórn Framsýnar mun koma saman til fundar næstkomandi þriðjudag kl. 17:00, til fyrsta fundar eftir sumarleyfi. Helstu málefni fundarins verða kjara- og atvinnumál auk þess sem komandi þing í haust á vegum verkalýðshreyfingarinnar verða til umræðu. Alls sitja 13 félagsmenn í stjórn og varastjórn félagsins. Auk þeirra er stjórn Framsýnar ung að venju boðið að sitja fundinn en 4 félagsmenn eru í stjórn Framsýnar ung.

Atvinnurekendur athugið – Aukin orlofsréttindi starfsmanna

Við gerð síðustu kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum voru orlofsréttindi félagsfólks aukin. Það er í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Frá og með 1. maí 2024 breytist ávinnsla orlofs, þ.e. orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025. Eftir 22 ára aldur og 6 mánuði í fyrirtæki er orlof 25 dagar og orlofslaun 10,64%. Eftir 5 ár í fyrirtæki er orlof 26 dagar og orlofslaun 11,11%.

Frá og með 1. maí 2025 breytist ávinnsla orlofs, þ.e. orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2026. Eftir 5 ár í fyrirtæki er orlof 28 dagar og orlofslaun 12,07%

Síðan gildir eldri reglan áfram, það er starfsmenn sem starfað hafa í sama fyrirtæki í 10 ár eiga 30 daga orlofsrétt og 13,04% orlofslaun.

Hér má sjá nánari upplýsingar um breytingar á áður gildandi kjarasamningi er varðar orlofið og önnur atriði samningsins.

www.sgs.is/media/2052/glaerukynning-sgs-um-nyjan-kjarasamning-sgs-og-sa.pdf

Gleðilega Mærudaga

Heimasíða stéttarfélaganna óskar landsmönnum öllum gleðilegra Mærudaga sem eru við það að hefjast á Húsavík, bara gaman. Bein útsetning frá Mærudögum verður í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins, það er í kvöld.

Góðir námsstyrkir í boði fyrir félagsmenn

Við gerum betur og betur við okkar félagsmenn. Aðild Framsýnar að fræðslusjóðum í gegnum kjarasamninga, Landsmennt, Sjómennt, Sveitamennt, Ríkismennt og fræðslusjóði verslunarmanna gerir félaginu þetta kleift.

Þannig er leitast við að mæta þörfum þeirra félagsmanna sem vilja bæta þekkingu, ná í aukin réttindi og mæta morgundeginum með þá hæfni sem nauðsynleg er.

Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu tvö ár eiga rétt á styrk allt að kr. 260.000,-  eða síðustu þrjú ár eiga rétt á allt að kr. 390.000,-  fyrir eitt samfellt nám eða námskeið samkvæmt nánari reglum sjóðanna sem eru reyndar aðeins mismunandi. Tveggja ára reglan kom ný inn um síðustu áramót. Uppsafnaður réttur skerðist ekki hafi félagsmaður fengið styrk undir kr. 50.000,- á tíma uppsöfnunar. Sá styrkur kemur þó til frádráttar fullum rétti.

Almennt er endurgreiðsluhlutfallið 90% af námskeiðsgjaldinu, þó að hámarki kr. 130.000.- á ári. Til viðbótar má geta þess að fullgildir félagsmenn Framsýnar eiga rétt á extra styrk kr. 130.000,-. stundi þeir kostnaðarsamt nám. Já, það er best að vera í Framsýn sem veitir hærri námsstyrki en önnur sambærileg stéttarfélög.

Styttist í útleigu – Hraunholtið klárt í ágúst

Um þessar mundir eru í byggingu tvær glæsilegar orlofs- og sjúkraíbúðir á vegum Framsýnar og Þingiðnar á Húsavík. Áætlað er að þær verði klárar í byrjun næsta mánaðar og fari í útleigu til félagsmanna í síðasta lagi 1. september. Fyrirspurnir eru þegar byrjaðir að berast varðandi íbúðirnar, það er hvenær þær verði klárar í útleigu en eins og fram kemur í fréttinni er áætlað að svo verði 1. september 2024. Um er að ræða góða viðbót við orlofseignir félaganna í Reykjavík, Kópavogi og Akureyri. Þá á Framsýn tvö orlofshús, annars vegar í Dranghólaskógi í Öxarfirði og hins vegar á Illugastöðum í Fnjóskadal.

Andrea Fáfnis Ólafs og Viðar Breiðfjörð með samsýningu  á Mærudögum

Andrea Fáfnis Ólafs og Viðar Breiðfjörð halda samsýningu í Hlyn við Garðarsbraut yfir Mærudagana. Listamennirnir eiga bæði ættir og barnæsku að rekja til Húsavíkur. Þau héldu samsýningu í Vestmannaeyjum á Sjómannadaginn og þá var ákveðið að sýna líka á Húsavík á Mærudögum. 

Listsköpunin kom í kjölfarið á miklu ölduróti lífsins og því kalla þau samsýninguna ÖLDURÓT. Þau eru sammála um að listsköpunin veki með þeim mikla hamingju og sálarró sem þau miðla áfram á strigann og vonast til að skili sér áfram til þeirra sem á horfa. Viðar sækir innblástur í náttúruna og mannfólkið á meðan Andrea sækir innblástur frá ýmsum viðfangsefnum, eigin hugarheimi og umhverfi. Hugarheimurinn og tengingin við sköpunarbylgjulengdina er gríðarstór gnægtarbrunnur fyrir hið listræna sköpunarflæði. Andrea er einstaklega heilluð af ýmsum listamönnum frá Bauhaus tímabilinu á fyrri part síðustu aldar. Frumkvæðið og krafturinn sem einkenndi Bauhaus hreyfinguna breytti því hvernig fólk leit á listsköpun. Á þeim tíma urðu til frumkvöðlar í bæði geometríunni og abstraktlistinni.

Bæði náttúran og geómetrían bera með sér ákveðið tímaleysi og mætti því segja að listaverk þeirra Andreu og Viðars séu sígild og tímalaus. Andrea tekur fram að hún hefur líka virkilega gaman að því að mála einhvers konar kosmísk ferðalög, eins konar leik að hreyfingu, litum og bylgjum sem leika við augu áhorfandans þannig að ímyndunaraflið fari á flug og veki spurningar. Einnig laumar hún stundum tilvísunum frá fornum menningarheimum í verkin. 

Sýningin opnar á laugardaginn 27. júlí kl. 14:00 og bjóða þau Húsvíkinga og aðra gesti Mærudaga velkomna.

Kjarasamningur við SÍS 2024-2028 samþykktur

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá 17 aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands, vegna nýs kjarasamnings SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var 3. júlí síðastliðinn. Framsýn á aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna SGS stóð yfir dagana 5.-15. júlí. Á kjörskrá voru 3972 manns og var kjörsókn 17,45%. Já sögðu 84,27%, nei sögðu 10,39% og 5,34% tóku ekki afstöðu. Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 17 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum.

Kjarasamningur SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga 2024-2028

Laus bústaður í Mörk í Grímsnesi

Vegna forfalla er inn okkar besti sumarbústaður í Mörk í Grímsnesi laus í næstu viku. Það er frá komandi föstudegi 26. júlí til 2. ágúst. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um bústaðinn inn á heimasíðu stéttarfélaganna. Áhugasamir hafi samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Staðan tekin – forsvarsmenn KN og Framsýnar funduðu

Framsýn óskaði nýlega eftir fundi með stjórnendum Kjarnafæðis Norðlenska vegna sameiningar fyrirtækisins við KS. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska, stærsta kjötvinnslufyrirtækis landsins, samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á fyrirtækinu. Kaupin eru möguleg vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í vor þar sem kjötafurðastöðvar voru undanþegnar samkeppnislögum og fengu heimild til að sameinast. Hópur félagsmanna Framsýnar starfar hjá KN. Stjórnendur KN urðu við ákalli Framsýnar um fund og funduðu með formanni félagssins í gær. Þar skiptust menn á skoðunum um sameininguna og framtíðaráform fyrirtækisins. Ekki var annað að heyra en að starfstöð fyrirtækisins á Húsavík stæði sterk við sameininguna.

Krefjast fundar með stjórnendum KN þegar í stað

Framsýn óskaði í gærkvöldi eftir fundi með stjórnendum Kjarnafæðis Norðlenska þegar í stað. Þess er vænst fundurinn geti farið fram í vikunni. Fram hefur komið í fjölmiðlum að hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska, stærsta kjötvinnslufyrirtækis landsins, hafa samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á fyrirtækinu. Kaupin eru möguleg vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í vor þar sem kjötafurðastöðvar voru undanþegnar samkeppnislögum og fengu heimild til að sameinast. Hópur félagsmanna Framsýnar starfar hjá KN. Hafa þeir snúið sér til félagsins enda hafa þeir töluverðar áhyggjur af stöðunni og sínu starfsöryggi. Þá er það ámælisvert að starfsmenn skuli fyrst frétta af kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á fyrirtækinu í fjölmiðlum. Til skoðunar er einnig að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Kaupfélags Skagfirðinga enda um að ræða mikið hagmunamál fyrir félagsmenn Framsýnar, bændur  og samfélagið allt í Þingeyjarsýslum.