Heimsókn í Framhaldsskólann á Laugum

Forsvarsmenn Framsýnar og Lsj. Stapa voru beðnir um að vera með almenna fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða fyrir nemendur Framhaldsskólans á Laugum. Fræðslan fór fram í mötuneyti skólans í gær. Nemendur voru mjög áhugasamir um viðfangsefni dagsins. Þá voru lagðar nokkrar spurningar fyrir nemendur í lok fræðslunnar sem þeir svöruðu samviskusamlega auk þess sem nemendum var ætlað að vinna verkefni eftir fyrirlesturinn um starfsemi Framsýnar.

Skrifað undir stofnanasamning við Náttúruverndarstofnun

í síðustu viku undirrituðu fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands undir nýjan stofnanasamning við Náttúruverndarstofnun og Þjóðgarðinn á Þingvöllum og leysir hann af hólmi eldri samning milli SGS og Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Náttúruverndarstofnun varð til 1. janúar 2025 og tók þá við verkefnum sem snúa að náttúruvernd, lífríkis- og veiðistjórnun frá Umhverfisstofnun og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs.

Viðræður aðila um nýjan stofnanasamning hafa staðið yfir frá því í mars á þessu ári. Fyrir hönd Starfsgreinasambandsins sátu í viðræðunefnd þau Aðalsteinn Árni Baldursson, Guðrún Elín Pálsdóttir, Halldóra Sveinsdóttir og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, auk fulltrúa frá Landvarðafélaginu.

Á meðfylgjandi mynd eru hressir starfsmenn Náttúruverndarstofnunnar sem eru með starfsstöð í Glúfrastofu í Kelduhverfi.

Nýjan samning er að finna hér.

Til hamingju Framhaldsskólinn á Laugum

Haldið var upp á 100 ára afmæli Framhaldsskólans á Laugum í Þingeyjarsveit á laugardaginn frá morgni til kvölds. Hátíðin var glæsileg í alla staði. Ekki er ólíklegt að um 1000 gestir hafi verið á svæðinu sem er frábært enda bera margir hlýjar taugar til Laugaskóla. Boðið var upp á metnaðarfulla hátíðardagskrá af því tilefni. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum óska Framhaldsskólanum á Laugum til hamingju með afmælið.

Fjölmennur samstöðufundur á Breiðumýri

Í tilefni dagsins stóðu nokkur félagasamtök fyrir samstöðufundi kl. 14:00 í Félagsheimilinu Breiðumýri. Fullt hús og boðið var upp á magnaða dagskrá með söng með fróðlegu efni í bland. Framsýn var meðal þeirra félagasamtaka sem stóðu að samkomunni sem tókst í alla staði afar vel enda einstaklega vel skipulögð og þeim sem að henni stóðu til mikils sóma. ÁFRAM KONUR!

Falleg og notaleg stund á Stangarbakkanum

Á aðalfundi Framsýnar í vor var ákveðið að minnast kvennaársins 2025 með gjöf á 5 sætisbekkjum sem komið yrði fyrir í núverandi og þáverandi sjávarbyggðum á félagssvæðinu. Það var við hæfi að fyrsti bekkurinn væri vígður formlega á Kvennafrídaginn en bekknum var komið fyrir á Stangarbakkanum í morgun og fór vígslan fram kl. 11:00. Fjöldi fólks lagði leið sína á viðburðinn en um 60 konur voru við vígsluna en þær höfðu flestar fyrr um morguninn lagt niður störf í Borgarhólsskóla. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, fór nokkrum orðum um gjöfina og sagði að bekkirnir væru gefnir í tilefni Kvenréttindadagsins þann 19. júní, af virðingu við konur sem misst hefðu ástvini sína í greipar Ægis. Hann sagði jafnframt yndislegt að sjá þann fjölda sem væri samankominn til þessarar samverustundar. Því næst flutti Ósk Helgadóttir varaformaður stutt ávarp sem er svohljóðandi:

„Framsýn stéttarfélag hefur samþykkt að festa kaup á nokkrum sætisbekkjum á kvennaárinu 2025 sem komið verður fyrir í sjávarbyggðum á félagssvæðinu, Húsavík, Raufarhöfn og Kópaskeri. Bekkjum verður jafnframt komið fyrir í Flatey og við Tungulendingu á Tjörnesi, en þaðan var rekin blómleg útgerð og fiskvinnsla á sínum tíma. Bekkirnir eru gefnir í tilefni Kvenréttindadagsins þann 19. júní, af virðingu við konur sem misst hafa ástvini sína í greipar Ægis.

Bekkirnir verða staðsettir við sjávarsíðuna í fullu samráði við viðkomandi sveitarfélög sem tóku hugmyndinni vel auk þess að bjóðast til að koma bekkjunum fyrir. Félag Húseigenda í Flatey bauðst til að koma fyrir bekk í eyjunni fögru á Skjálfanda fyrir hönd Framsýnar. Fyrir það ber að þakka. Í heildina er um að ræða 5 vandaða bekki. Það er von Framsýnar að bekkirnir verði öllum þeim sem þá nota, til blessunar og góðrar hvíldar á göngunni.

Þegar talað er um að hafið gefi og hafið taki, liggur í þeim orðum sannleikurinn um að þrátt fyrir að hafið færi okkur vissulega gæfu og velferð, þá geti að sama skapi fylgt því miklar fórnir. Þeir sem alist hafa upp við sjávarsíðuna vita að það þarf sterk bein, kjark og þor til að sækja sjóinn þar sem veður geta oft verið válynd.

Við þekkjum öll frásagnir af hetjum hafsins sem lent hafa í sjávarháska og margar bækur hafa verið skrifaðar um æðruleysi sjómanna í glímutökum við óblíð náttúruöfl á ögurstundu. Ekki höfðu allir betur í þeim átökum og fylla þeir látnu flokk hinna fjölmörgu íslensku sjómanna sem týnt hafa lífi við krefjandi störf. Minning þeirra verðskuldar virðingu.

Það gleymist hins vegar oft að bak við hvern sjómann stendur kona, sem staðið hefur við hlið hans, eiginkona, móðir, dóttir eða systir. Sögur þeirra kvenna sem séð hafa á eftir ástvinum sínum í hafið hafa ekki oft verið skrifaðar, enda reynsluheimur venjulegra kvenna að margra áliti ekki til þess fallinn að vera færður í letur. Þessar „venjulegu konur“ hafa háð lífsbaráttuna á landi, sinnt þeim mikilvægu verkum sem þar hefur þurft að vinna, verið stoð og stytta sjómannsins, fjölskyldunnar og heimilisins.

Höfum jafnframt í huga að konur þurftu oft á tíðum að vaka langar og þungbærar nætur með ugg í brjósti, vitandi af eiginmönnum sínum, sonum, feðrum og bræðrum úti á sjó í vonskuveðri. Margar þeirra hafa síðan staðið frammi fyrir því að það sem þær óttuðust mest að gæti gerst, varð einn daginn helkaldur veruleiki þar sem menn skiluðu sér ekki heim af sjónum.

Ónefndum hetjum hversdagsins sem fer svo litlum sögum af, hafa ekki verið reistir sérstakir bautasteinar eða minnismerki eins og títt er um íslenska merkismenn. Þær sátu eftir með óvissuna um framtíðina, óttann og einmanaleikann en börðust áfram í gegnum lífsins ólgusjó. Það er okkar að halda minningu þeirra á lofti um ókomna tíð.“

Fullur salur af konum í baráttuhug

Konur og kvár komu saman í morgun í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík þar sem boðið var um á veglega dagskrá í tilefni dagsins. Mikil baráttuandi var á fundinum enda stendur yfir Kvennaverkfall nú þegar 50 ár eru frá því fyrsta, 1975. Kvennaverkfallið stendur yfir í dag og hafa fjölbreyttir viðburðir verið skipulagðir af aðstandendum verkfallsins frá morgni til kvölds víða um land. Hér norðan heiða, er varðar félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, verður hápunktar dagsins samkoma sem boðað hefur verið til í Félagsheimilinu Breiðumýri kl. 14:00 í dag. Skorað er á konur og kvár að mæta á viðburðinn til stuðnings baráttumálum þessara hópa. 

Skert þjónusta á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag

Í tilefni dagsins verður verulega skert þjónusta á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag. Lokað verður frá kl. 11:00 til 12:00 og svo aftur frá kl. 13:30 til 16:00 vegna kvennafrídagsins og viðburðar sem verður á Stangarbakkanum kl. 11:00 þegar sætisbekkur verður vígður sérstaklega í tilefni af kvennaárinu 2025. Þá skorum við á fólk að gera sér ferð í Breiðumýri og taka þátt baráttusamkomu sem byrjar kl. 14:00.

Bekkir afhentir af virðingu við konur sem misst hafa ástvini sína í greipar Ægis

Framsýn stéttarfélag hefur samþykkt að festa kaup á sætisbekkjum á kvennaárinu 2025 sem komið verður fyrir í sjávarbyggðum á félagssvæðinu, Húsavík, Raufarhöfn og Kópaskeri. Bekkjum verður jafnframt komið fyrir í Flatey og við Tungulendingu á Tjörnesi, en þaðan var rekin blómleg útgerð og fiskvinnsla á sínum tíma. Bekkirnir eru gefnir í tilefni Kvenréttindadagsins þann 19. júní, af virðingu við konur sem misst hafa ástvini sína í greipar Ægis og verður komið fyrir við sjávarsíðuna á þessum stöðum á næstu dögum og vikum í fullu samráði við viðkomandi sveitarfélög. Í heildina er um að ræða 5 sætisbekki. Fyrsti bekkurinn verður afhentur á Kvennafrídaginn, það er á morgun, föstudag kl. 11:00. Sætisbekknum verður komið fyrir á Stangarbakkanum á Húsavík norðan við verslunina Nettó. Að sjálfsögðu eru öll velkomin á athöfnina, reyndar væri ánægjulegt að sjá sem flesta.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundar eftir helgina

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar ásamt stjórn Framsýnar-ung kemur saman til fundar miðvikudaginn 29. október kl. 17:00. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins:

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Málefni PCC
  4. Tillögur starfshóps um atvinnumál á Húsavík
  5. Málefni Slökkviliðs Norðurþings
  6. Gluggaskipti G-26
  7. Kosning uppstillinganefndar
  8. Fræðslustarf félagsins í skólum
  9. Þing SGS
  10. Þing ASÍ-UNG
  11. Þing LÍV
  12. Fulltrúaráðsfundur AN
  13. Formannafundur ASÍ
  14. Stofnasamningar
    1. Land og skógur
    1. Umhverfisstofnun
    1. HSN
  15. Samkomulag við Fjallalamb hf.
  16. Kvennafrídagurinn
  17. Gjöf-setubekkir
  18. Jólafundur stjórnar og trúnaðarráðs
  19. Önnur mál

Tökum þátt í kvennafrídeginum

Fjölmennum á baráttufundi út um allt land á kvennafrídaginn 24. október til að krefjast kjarajafnréttis. Fimmtíu ár eru liðin frá því að konur lögðu fyrst niður störf til að krefjast jafnréttis á Íslandi, en enn er verk að vinna. Framsýn stendur að baráttufundi ásamt fleirum sem haldinn verður í Félagsheimilinu Breiðumýri næstkomandi föstudag. Samkoman hefst kl. 14:00. https://framsyn.is/2025/10/02/samstodufundur-ad-breidumyri/

ASÍ átelur ríkistjórnina fyrir endalausar árásir á réttindi og kjör launafólks

Formannafundur Alþýðusambands Íslands var haldinn í gær, þriðjudag, í Reykjavík. Hörð gagnrýni kom fram á vinnubrögð ríkistjórnarinnar sem gerir í því að gera árásir á velferðarkerfið sem snýr sérstaklega að réttindum og kjörum láglaunafólks. Fundarmenn kröfðust þess að ályktað væri um málið sem var og gert. Sjá ályktun fundarins:

Ályktun um efnahags- og kjaramál

„Formannafundur ASÍ 2025 gagnrýnir harðlega niðurskurðarstefnu og samráðsleysi stjórnvalda og árásir ríkisstjórnarinnar á réttindi og kjör launafólks.

Formannafundur lýsir yfir vaxandi áhyggjum af stöðu efnahags- og kjaramála. Skýr merki eru um kólnun í hagkerfinu, atvinnuleysi fer vaxandi, verðbólga og stýrivextir eru enn óásættanlega háir og ekkert lát virðist vera á hávaxtastefnunni. Helsti drifkraftur verðbólgunnar er enn úrræðaleysi stjórnvalda í húsnæðismálum sem bitnar verst á ungu fólki og tekjulægri heimilum, en einnig gróðasókn fyrirtækja sem hafa ekki haldið aftur af verðhækkunum. Með undirritun stöðugleikasamninganna á vinnumarkaði vorið 2024 axlaði launafólk ríka ábyrgð á því að  stuðla að hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta. Ábyrgðin á verðstöðugleikanum verður ekki sett eingöngu á herðar launafólks. Nú er komið að því að stjórnvöld og fyrirtæki axli sína ábyrgð.

Formannafundur hafnar þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað til að ná markmiðum í ríkisfjármálum en með þeim eru þyngstu byrðarnar lagðar á atvinnulausa, barnafólk, ellilífeyrisþega og heimilin í landinu. Verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt mun það þýða skerðingar á lífeyrisréttindum verkafólks, rýrnun barnabóta og húsnæðisstuðnings, lækkun á framlögum til íslenskukennslu, hærri gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni og veikari atvinnuleysistryggingar nú þegar atvinnuleysi fer vaxandi.

Jafnframt ítrekar fundurinn ákall sitt til ríkisstjórnarinnar um að endurskoða áform sín um niðurfellingu framlags til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða þar til um annað fyrirkomulag hefur verið samið, til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna með fullnægjandi hætti. Verkalýðshreyfingin mun aldrei fallast á að verka- og láglaunafólk verði eitt látið bera byrðarnar af misskiptri örorkubyrði með frekari lækkun á lífeyrisréttindum sínum.“

Íslenskur vinnumarkaður 2025

Áhugaverð skýrsla Alþýðusambands Íslands um vinnumarkaðsmáler komin út. Eins og fyrri ár inniheldur skýrslan ítarlegar greiningar á vinnumarkaðstengdum málefnum en að þessu sinni er atvinnuþátttaka, atvinnuleysi og áhrif umönnunarbyrði á atvinnuþátttöku í sérstökum forgrunni.

Meðal helstu niðurstaða sem lesa má um í skýrslunni auk annarra eru:

  • Ísland er með mestu atvinnuþátttöku innan OECD.
  • Sérstaðan felst í að þátttaka er mikil meðal allra hópa, þ.e. kvenna, ungs fólks, eldra fólks og
    innflytjenda.
  • Atvinnuleysi er lágt og langtímaatvinnuleysi lítið.
  • Samsetning langtímaatvinnulausra eftir aldri, menntun og bakgrunni er svipuð og hjá
    atvinnulausum almennt, enginn hópur er þar í meirihluta.

Íslenskur vinnumarkaður 2025 – skýrsla Alþýðusambands Íslands um vinnumarkaðsmál 

Vel heppnað þing ASÍ-UNG

ASÍ-UNG hélt sitt 11. þing föstudaginn 17. október og var yfirskriftin að þessu sinni „Raddir ungs fólks til áhrifa  – Kraftur til breytinga“. ASÍ-UNG eru samtök ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar sem sér til þess að hagsmunamál ungra Íslendinga á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins. Birta og Sunna voru fulltrúar Framsýnar á þinginu en þær eru báðar í stjórn Framsýnar-ung.

Á þinginu var unnið öflugt málefnastarf þar sem málefni voru valin út frá stefnumótunarstarfi stjórar. Til umræðu voru málefni sem snerta ungt fólk sérstaklega; málefni fjölskyldufólks, húsnæðismál, brotastarfsemi og samgöngumál. Niðurstaða þingsins voru fjórar ályktanir, sem marka stefnu nýrrar stjórnar. Þær má lesa hér á slóðinni: https://vinnan.is/vel-heppnad-thing-asi-ung/

Hækkun vörgjalda leggst þungt á íbúa á landsbyggðinni

Framsýn hefur haft töluverðar áhyggjur af boðuðum hækkunum stjórnvalda á á vörugjöldum jarðefnaeldsneytis- og tengiltvinnbíla. Hækkanirnar komi til með að leggjast þungt á tekjulága og landsbyggðina. Þá má geta þess að þing Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Akureyri í byrjun október fjallaði um málið auk þess að álykta um áform stjórnvalda um stórfelldar hækkanir á vörugjöldum. Á mbl.is má sjá frétt um málið og viðtal við Runólf Ólafsson, formann Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB). Frétt mbl.is er eftirfarandi:

Boðuð hækkun ríkisstjórnarinnar á vörugjöldum jarðefnaeldsneytis- og tengiltvinnbíla mun leggjast þyngst á landsbyggðina og tekjulægra fólk, að mati Runólfs Ólafssonar, formanns Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).

Hann segir að hækkunin muni valda því að nýir eldsneytisbílar hækki um margar milljónir króna og að hún hafi einnig áhrif á verð notaðra bíla.

„Það má gera ráð fyrir því að notaðir eldsneytisbílar og þá sérstaklega tengiltvinnbílar muni hækka í verði, því hækkunin mun sáldrast út á markaðinn,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is. „Tekjuminni fjölskyldur eru á notaða markaðnum og þetta mun koma verr út gagnvart því fólki.“

Frétt af mbl.is

Miklar hækkanir á aðra bíla en rafmagnsbíla

Þyngri bílar algengari úti á landi

Runólfur bendir á að á landsbyggðinni sé algengara að fólk keyri á stærri og þyngri bílum. Því muni hækkun vörugjalda leggjast þyngra á íbúa utan höfuðborgarsvæðisins.

„Á landsbyggðinni eru margir háðir stærri bílum vegna aðstæðna og atvinnu. Þeir munu finna mest fyrir þessu,“ segir hann.

Efast um tekjuaukningu stjórnvalda

Hann segir jafnframt að áform stjórnvalda um að auka tekjur ríkissjóðs um allt að átta milljarða króna með hækkuninni séu óraunhæf.

„Bílaumboðin munu reyna hvað þau geta að flytja inn bíla fyrir áramót áður en vörugjöldin taka gildi,“ segir Runólfur. „Það kann að verða einhver tekjuaukning fram að áramótum en strax á næsta ári mun innflutningur dragast saman.“

Stefnt að hraðari orkuskiptum

Að sögn Runólfs er ljóst að markmið stjórnvalda með hækkuninni sé að flýta orkuskiptum með því að gera önnur ökutæki en rafbíla dýrari.

„Það er greinilega stefna stjórnvalda að fara örar í orkuskipti og það er gert með því að hækka önnur ökutæki en rafbíla. Þetta er þá neyslustýring,“ segir hann.

(Heimild mbl.is)

ASÍ gagnrýnir niðurskurð og óttast aukna verðbólgu

Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð eins og hann birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ítarlegri umsögn ASÍ um fjárlagafrumvarpið.

Niðurskurður

Vakin er í umsögninni athygli á boðuðum „hagræðingaraðgerðum“ samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

• Framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða verður afnumið.

 • Bótatímabil atvinnuleysistrygginga verður stytt um 12 mánuði og reglur um ávinnslu þrengdar.

• Fjárhæðir í barnabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur við barnafjölskyldur rýrnar að raungildi.

• Fjárhæðir í húsnæðis- og vaxtabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur vegna húsaleigu og vaxtakostnaðar rýrnar að raungildi.

 • Sérstakar aðhaldsráðstafanir upp á 3,8 milljarða í heilbrigðiskerfinu og kostnaðarþáttaka sjúklinga verður aukin.

• Lækkun á framlögum til framhaldsfræðslu og íslenskukennslu

Í umsögninni koma fram áhyggjur af horfum í efnahagsþróun og viðsnúningi í efnahagslífinu.  Með stöðugleikasamningunum árið 2024 hafi meginmarkmiðið verið að stuðla að verðstöðugleika og leggja grunn að lækkun vaxta. Þó verðbólga hafi gengið nokkuð niður frá gerð kjarasamninga sé verðbólga og raunvaxtastig enn óásættanlega hátt. Enn séu  það aðstæður á húsnæðismarkaði sem eru megindrifkraftur verðbólgu, hér þurfi stjórnvöld að grípa til aðgerða.

Þar segir:

„Stjórnvöld bera ríka ábyrgð á að stuðla að verðstöðugleika hvort sem er með opinberum fjármálum, hófsemi Í gjaldskrárhækkunum eða tryggja að kerfislægir þættir verði ekki til þess að ýta undir verðbólgu. Þar má nefna miklar hækkanir á raforkuverði til bæði heimila og fyrirtækja. Jafnframt er tilefni til að gagnrýna sveitarfélög fyrir að standa ekki við gefin loforð við gerð kjarasamninga um að halda gjaldskrárhækkunum Í hófi og tryggja framboð byggingarhæfra lóða.“

Skattahækkanir

Fram kemur að umfang lögfestra og ólögfestra skattbreytinga nemi 27,9 milljörðum á árinu 2026. Þar vegi þyngst breyting á veiðigjöldum, breyting á kílómetragjaldi og breyting á heimild til samnýtingar skattþrepa.

Alþýðusambandið hefur áður veitt umsögn og gert margvíslegar athugasemdir um kílómetragjaldið á fyrra löggjafarþingi. ASÍ telur ástæðu til að óttast að kílómetragjaldið ýti undir verðbólgu:

„Stjórnvöld ganga út frá því að olíufélög lækki verð til samræmis við afnám gjalda. Slíkt er ekki fast í hendi, og virðast stjórnvöld ekki hafa nein áform um að fylgja eftir eða vakta hvort það raungerist. Alþýðusambandið hefur að undanförnu fjallað um verðþróun á eldsneyti og bent á að styrking gengis krónunnar og hagfelldara heimsmarkaðsverð hafi ekki komið fram að fullu í lægra smásöluverði á eldsneyti. Í nýlegri greiningu Alþýðusambands Íslands er afnám eldsneytisgjalda sett í samhengi við stöðu samkeppni á eldsneytismarkaði. Í greininni er bent á að heildarkostnaður neytenda geti við breytingarnar hækkað þar sem samkeppni sé ekki að fullu virk á eldsneytismarkaði.“

Sparað með breyttum atvinnuleysistyggingum

Í umsögninni er einnig að finna gagnrýni vegna samráðsleysis í tengslum við breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þar segir:

„Alþýðusambandið tekur undir mikilvægi þess að atvinnuleysistryggingakerfið stuðli að virkni atvinnuleitenda og endurkomu á vinnumarkað en bendir á að Vinnumálastofnun hefur ríkar heimildir til þess að beita virkum vinnumarkaðsaðgerðum, starfrækja vinnumiðlun og stuðla að virkni atvinnuleitenda. Að mati ASÍ hefur of litlum fjármunum verið varið í slík úrræði og of lágt hlutfall atvinnuleitenda að jafnaði staðið til boða þátttaka í úrræðum. Samhliða breytingunum er ekki áformað að auka fjármagn til vinnumarkaðsúrræða, er því um að ræða hreina sparnaðartillögu.“

Umsögn ASÍ í heild má nálgast hér.

Þing ASÍ-UNG stendur yfir í dag

11. þing ASÍ-UNG fer fram í Reykjavík í dag, föstudaginn 17. október 2025. Þingið ber yfirskriftina „Leið ungliða til áhrifa“ og mun dagskrá þingsins taka mið af því auk venjubundinna þingstarfa.

Framsýn er með tvo öfluga fulltrúa á þinginu, það eru þær Sunna Torfadóttir og Birta G. Amlin Sigmarsdóttir.

Dagskrá fyrir 11. þing ASÍ-UNG 2025

  • 12:00   Skráning og hádegisverður
  • 12:30   Þingsetning
  • 12:35   Ávarp – forseti ASÍ
  • 12:45   Kynning á ASÍ-UNG
  • 13:00   Skýrsla stjórnar
  • 13:15   Kynning á málefnavinnu
  • 13:30   Málefnavinna
  • 14:30   Kaffihlé
  • 14:45   Áframhaldandi málefnavinna
  • 15:45   Niðurstöður málefnavinnu kynntar
  • 16:15   Kaffihlé
  • 16:30   Kynning á frambjóðendum*
  • 16:45   Tillögur ef einhverjar eru – Umræður og kosningar
  • 17:15   Samþykktarbreytingar ef einhverjar eru – Umræður og kosningar
  • 17:30   Önnur mál
  • 17:45   Ályktun þings ASÍ-UNG
  • 18:00   Þingslit

*Stjórnarkjör fer fram samhliða þingdagskrá 

Tillögur starfshóps um atvinnumál á Húsavík kynntar rétt í þessu

Forsætisráðherra skipaði fyrr í sumar starfshóp með fulltrúum fimm ráðuneyta vegna stöðunnar sem upp er komin vegna tímabundinnar rekstrarstöðvunar kísilvers PCC á Bakka. Starfshópurinn hafði það hlutverk að kortleggja stöðu atvinnumála á Húsavík og nágrenni vegna tilkynninga um mögulega rekstrarstöðvun kísilvers PCC á Bakka. Starfshópnum var einnig ætlað að koma með tillögur að mögulegum viðbrögðum stjórnvalda til bæði skemmri og lengri tíma með hliðsjón af ólíkum sviðsmyndum. Starfshópurinn skilaði skýrslu frá sér í morgun til ríkistjórnarinnar auk þess að gera fulltrúum Norðurþings, PCC og stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslunnar á fundum fyrir hádegi, fundinum með fulltrúm stéttarfélaganna, Þingiðnar og Framsýnar, lauk rétt fyrir kl. 12:00. Hér má nálgast skýrsluna: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/10/17/Mikil-taekifaeri-til-ad-byggja-upp-starfsemi-a-Bakka/

Þungar áhyggjur af atvinnuástandi á Húsavík

Í ályktun ASÍ sem var að berast er lýst yfir miklum áhyggjum af atvinnuástandinu í Þingeyjarsýslum og skorað á stjórnvöld að koma að málinu af fullum krafti. Framsýn og Þingiðn fagna þessum stuðningi. Ályktunin er eftirfarandi:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum miðvikudaginn 15. október:

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af atvinnuástandi á Húsavík og nágrenni vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka.

Miðstjórn hvetur stjórnvöld til að bregðast við hið fyrst þannig að unnt verði að hefja rekstur fyrirtækisins á ný. Í því efni skiptir mestu að rekstrarumhverfi PCC verði bætt með beinskeyttum aðgerðum.

Miðstjórn leggur áherslu á að stöðvun reksturs PCC má einkum rekja til erfiðleika á mörkuðum og röskunar þeirra vegna tollastríðs. Þá er samkeppnisstaða gagnvart Kína erfið þar sem verkafólk sem engra réttinda nýtur og býr við ömurleg launakjör og aðbúnað framleiðir ódýran kísilmálm í miklu magni.

Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum. Afleidd störf af starfseminni skipta hundruðum.

Lokun verksmiðjunnar, sem er ein hin fullkomnasta í heiminum, er mikið áfall fyrir atvinnulíf á Norðurlandi og alvarlegra áhrifa er þegar tekið að gæta.

Miðstjórn ASÍ ítrekar því ákall sitt til stjórnvalda um að brugðist verði við hið fyrsta þar sem gífurlegir hagsmunir eru í húfi, jafnt fyrir atvinnulíf á Norðurlandi sem þjóðarbúið sjálft.“

Í stöðugu sambandi

Forsvarsmenn Framsýnar og PCC á Bakka eru nánast í daglegu sambandi vegna stöðunnar á Bakka nú þegar starfsemi fyrirtækisins liggur niðri. Markmið aðila er að eiga gott samstarf um málefni verksmiðjunnar og hugsanleg úrræði í fullu samráði við aðra hagsmunaaðila. Hvað það varðar kom Framsýn á fundi með framkvæmdastjóra PCC og forseta Alþýðusambands Íslands á dögunum enda mikilvægt að sambandið sé inn í málinu. Á meðfylgjandi mynd eru Kári M. Guðmundsson forstjóri PCC og Aðalsteinn Ári Baldursson formaður Framsýnar að velta fyrir sér stöðunni en ekkert nýtt er að frétta hvað varðar starfsemi PCC á Bakka.

Hér er ekki töluð vitleysan!

Okkar besti maður, Björgvin Sigurðsson, söngvari Skálmaldar leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna en hann er félagsmaður í Framsýn eins og margir aðrir góðir tónlistarmenn enda best að vera í Framsýn. Þar hitti hann fyrir Alla starfsmann stéttarfélaganna sem er mikill aðdáandi Skálmaldar og þungarokks almennt enda fer hann reglulega á tónleika þar sem bestu þungrokkshljómsveitir heims koma fram. Ekki er ólíklegt að þeir hafi verið að tala um þungarokk í stað þess að tala um verkalýðsmál þegar myndin var tekin. Í það minnsta eru þeir hressir að sjá.