Mikil ásókn í íbúðir á vegum Bjargs á Húsavík

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni hefur Framsýn lengi barist fyrir því að Bjarg íbúðafélag byggði húsnæði á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Framkvæmdir eru þegar hafnar við sex íbúða raðhús að Lyngholti 42-52. Gangi allt eftir verða þær klárar vorið 2025. Til upprifjunar má geta þess að Bjarg er sjálfseignarstofnun rekin án hagnaðarmarkmiða. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norænni fyrirmynd. Félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur hafa aðgengi að þessum íbúðum enda séu þeir fullgildir félagsmenn.

Um þessar mundir er unnið að því að úthluta íbúðunum til umsækjenda. Rúmlega 40 umsóknir bárust um þessar sex íbúðir. Eftirspurn eftir íbúðum sem þessum er greinilega gríðarleg og því þörf á frekari uppbyggingu. Framsýn hefur ákveðið að hefja viðræður við Bjarg um að félagið haldi frekari uppbyggingu áfram á Húsavík í fullu samráði við Norðurþing enda samstarfsverkefni Bjargs og viðkomandi sveitarfélaga þar sem uppbyggingin fer fram.

Húsavík, Lyngholt 42-52 | Bjarg íbúðafélag

Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta

Kvennaráðstefna ASÍ var haldin á Akureyri 14. og15. nóvember undir yfirskriftinni: Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta. Ráðstefnan í ár var tvíþætt, þar sem annarsvegar var unnið að hefðbundinni dagskrá, en hún markaði einnig  upphaf Kvennaárs 2025, sem ASÍ hyggst taka þátt í út í af fullum krafti,  í samstarfi við  36 samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Fyrir hönd Framsýnar sátu Ósk Helgadóttir og Agnieszka Szczodrowska ráðstefnuna, en með þeim í för var  Nele Maria Beitelstein fjölmenningafulltrúi Norðurþings. Var ráðstefnan afar vel heppnuð að þeirra sögn, þótt veðurfarið torveldaði  samgöngur og ráðstefnugestir yrðu færri en í upphafi var áætlað. Þær stöllur stóðu fyrir málstofu á ráðstefnunni, og var yfirskrift hennar: Samfélagið okkar – konur og fjölmenning. Var þar vísað til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa síðustu áratugi, á íbúasamsetningu samfélaga á félagssvæði stéttarfélaganna, sem nær frá Vaðlaheiði í vestri til Raufarhafnar í austri, upplifun þeirra sem koma erlendis frá af dvölinni hér  og hvernig við getum gert fólki sem kemur erlendis frá, betur kleift að aðlagast samfélaginu.

Með þessari frétt látum við fylgja með ræðu varaformanns Framsýnar sem hún flutti á ráðstefnunni. Ósk Helgadóttir var ráðstefnustjóri auk þess að standa að málstofu með Nele og Agnieszku um „Samfélagið okkar – konur og fjölmenningu.“  

Komið þið sælar kæru konur.

Það er mér mikill heiður að fá að standa hér fyrir stafni og mér finnst einstaklega ánægjulegt að sjá ykkur saman komnar hér, konur úr öllum stéttum, alls staðar að. Konur sem, þora, geta og vilja.

Kvennaráðstefnan í ár er tvíþætt. Annarsvegar vinnum við að hefðbundinni dagskrá, sem þegar hefur verið kynnt rækilega fyrir ykkur, en ráðstefnan í ár markar einnig upphaf Kvennaárs 2025, sem ASÍ hyggst taka þátt í út í ystu æsar, í samstarfi við  36 samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. En auðvitað  er einnig markmiðiðið með Kvennaráðstefnunni eins og endranær, að virkja samtakamátt ASÍ-kvenna til að styðja og hvetja konur til áhrifa í hreyfingunni, ásamt því að fræðast, brýna verkalýðshugsjónina og hafa gaman saman.

Og þá hefst lesturinn:

Íslenskar konur tóku sér frí frá störfum til að minna á mikilvægi vinnuframlags síns þann 24. október 1975 og lömuðu með því samfélagið. Það voru verkakonur, verslunarkonur, húsmæður, konur úr öllum stéttum og flokkum alls staðar af á landinu, sem gengu þar í takt og vildu vekja athygli á launamisrétti, á vanmati á störfum kvenna, á skorti á virðingu og valdaleysi kvenna. Þær vildu breyta þeirri samfélagsgerð sem ríkt hafði um aldir, sem var byggð á hugmyndafræði gamla bændasamfélagsins, með konuna sem þjónandi ambátt. 

Vissulega hafa skrefin okkar verið fram á við. Við státum til dæmis af því að á Íslandi sé mesta jafnrétti kynja í veröldinni. En það er ekki nóg og þótt staðan sé verri annarstaðar, þýðir það ekki að við eigum að sætta okkur við þá mismunun sem hér ríkir. Hvorki á grundvelli kyns né annars. Réttur okkar til sömu launa og framlag okkar til samfélagsins er óháð því hvers kyns við erum. Eða ætti að minnsta kosti að vera það. 

Jafnrétti kynja á vinnumarkaði var helsta baráttumál íslenskra kvenna árið 1975, og lögð var áhersla á að vinna þyrfti bug á vanmati á störfum kvenna, launamisrétti og aðgerðarleysi í dagvistunarmálum. Þessi baráttumál eru því miður enn helstu baráttumál okkar. 

 Kynbundinn munur á atvinnutekjum kynja er vitnisburður um það vanmat, því konur voru árið 2023 með 21% lægri atvinnutekjur en karlar. Aðgerðir eins og innleiðing á starfsmati hjá sveitarfélögum og kröfur um jafnlaunavottun hafa dregið úr launamun á undangengnum árum, en þau tæki eru hins vegar ekki fullnægjandi til þess að leiðrétta launamun sem stafar af kynbundinni skiptingu vinnumarkaðar. Að atvinnutekjur kvenna séu lægri en karla má að talsverðum hluta rekja til ólaunaðrar umönnunarábyrgðar sem hvílir á herðum kvenna, en umönnunarábyrgð hér á landi er með því hæsta í Evrópu.

 Alþingi Íslendinga samþykkti  árið 1961 lög um að sömu laun skyldi veita fyrir jafn verðmæt störf. Í lögunum fólst að launajöfnuður ætti að ríkja á Íslandi frá og með árinu 1967. Það hefur ekki tekist, eða hvað?

Stærsta skrefið í áttina að því að útrýma launamun kynjanna er að leiðrétta skakkt verðmætamat mat kvennastarfa, en rannsóknir sýna að kerfisbundið vanmat á svonefndum kvennastörfum leiðir til lægri launa. Þannig er það ekki bara hér á landi, heldur um allan heim og er megin ástæðan fyrir kynbundnum launamun. 

Við höfum byggt upp velferðarkerfið okkar á vanmetnum störfum sem áður þótti sjálfsagt að konur ynnu launalaust. Það eru að mestum hluta konur sem starfa við umönnun barna, sjúkra, fatlaðs og aldraðs fólks og launin þeirra eru eins og allir vita, ekkert sérstaklega til að hrópa húrra fyrir. Ætti ekki öllu heilvita fólki að vera ljós þau verðmæti, sem fólgin eru í þessum störfum ? Og við getum jafnframt spurt hvort að þau störf sem verða til á einkamarkaði, yrðu í raun til án góðra menntastofnanna, án sterkra innviða og öflugrar heilbrigðisþjónustu? Þessu getum við breytt ef áhugi er fyrir hendi.

Það hefur verið látið viðgangast að  atvinnurekendur, og þar með taldir opinberir aðilar, hafi veitt sjálfum sér afslátt við launasetningu ómissandi kvennastétta. Útvistun starfa við ræstingar er nærtækt dæmi um það og með þeirri framkvæmd er láglaunafólk þvingað til að sætta sig við enn verri kjör. Þetta er fólkið sem hangir á horriminni í fyllstu merkingu þess orðs, oftast konur með ótímabundna samninga, með stuttum uppsagnarfresti. Það er ekki bara dapurleg, heldur svipljót samfélagsmynd að fyrirtæki og stofnanir sem sinna börnum og öldruðum skuli telja þessa leið vænlegasta til að ná fram sparnaði í rekstri. Konur sem starfa við ræstingar og umönnun barna fá lægstu launin í íslensku samfélagi og vinnudagar kvenna af erlendum uppruna, sem margar hverjar vinna þessi störf eru lengri og óreglulegri en almennt meðal kvenna á Íslandi. 

Dagvistunarmál voru eitt af stóru málunum sem konur beittu sér fyrir á Kvennafrídaginn 1975. Um það leyti var uppbygging  leikskólakerfis á Íslandi að hefjast og hafði þá tvíþætt markmið – að veita börnum bestu mögulegu uppvaxtarskilyrði og að tryggja báðum foreldrum möguleika til þátttöku á vinnumarkaði. Dagvistunarúrræði eru mikilvægt jafnréttistól og allar breytingar á þeim ber því að skoða sérstaklega vel með tilliti til mismunandi áhrifa á kynin. 

Nýverið hafa nokkur stór sveitarfélög ákveðið að skerða eða nota neikvæða hvata til að stytta dvalartíma barna í leikskólum. Nýjar gjaldskrár fela í sér gjaldfrjálsa sex klukkustunda leikskólavist barns, en á móti hækkar gjald þeirra foreldra sem þurfa á lengri vist barna að halda. Samhliða gjaldskrárbreytingum hefur þjónusta verið skert með fjölgun svokallaðra skráningadaga. Með þessum breytingum eru sveitarfélögin að sögn, annars vegar að bregðast við ófremdarástandi í leikskólum sveitarfélaganna, þar sem mannekla og erfið starfsskilyrði hafa torveldað faglegt leikskólastarf, en jafnframt eru tillögurnar hugsaðar til að auka velferð barna með meiri samveru með foreldrum. 

Breytingarnar endurspegla með engu móti stöðu foreldra á vinnumarkaði, en yfir 90% barna eru í leikskóla meira en sex klukkustundir á dag.Þetta er hrein þjónustuskerðing sem kemur verst niður á konum sem tilheyra hópum sem eru í viðkvæmri og/eða jaðarsettri stöðu í samfélaginu, svo sem vegna uppruna, eru í láglaunastörfum eða búa við krefjandi félagslegar aðstæður. Þetta þýðir einfaldlega að  hluti kvenna minnkar við sig launaða vinnu til að sinna ólaunaðri vinnu innan veggja heimilisins og umönnun fjölskyldumeðlima, en 30 prósent kvenna á íslenskum vinnumarkaði eru í hlutastörfum á móti 12 prósent karla. Langt hlé frá störfum eða lækkað starfshlutfall leiðir ekki aðeins af sér launaskerðingu, heldur hefur veruleg áhrif á tækifæri kvenna til framþróunar á vinnumarkaði og bitnar á lífeyrisréttindum þeirra í framtíðinni.

Það er á  ábyrgð sveitarfélaganna og stjórnvalda að tryggja fjármögnun leikskólakerfisins og viðunandi aðbúnað starfsfólks, sem að langmestu leyti eru konur. Getur verið að orsökin fyrir því að illa gengur að manna leikskólanna, hvort heldur það eru leikskólakennarar, eða almennt starfsfólk, séu vinnuaðstæður og launakjör þessara starfsstétta ? 

Þótt konur hafi sótt fram og kvennabaráttu vaxið fiskur um hrygg á síðustu áratugum er kynjakerfið okkar djúpstætt og endingardrjúgt. Kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi er ljótur blettur á menningu/ómenningu okkar. Það sýnir sig enn þann dag í dag hvernig valdastaða karla, peningar og úrelt gildi karlmennskunnar gefa þeim brenglaða mynd af því sem þeir telja sig eiga skilið og rétt á að fá samkvæmt stöðu sinni, að líkami kvenna (hinnar þjónandi ambátta) sé leikvöllur karla. 

Rannsóknir hafa verið gerðar á umfangi slíkra mála á vinnumarkaði og eru niðurstöðurnar sláandi. Tæplega þriðjungur kvenkyns svarenda svaraði því til að þær hafi orðið fyrir áreitni í vinnunni, sbr. Vísindarannsókn Háskóla Íslands um áfallasögu kvenna.

 ASÍ hóf fyrir nokkrum árum vinnu við að bæta móttöku þolenda kynferðislegrar áreitni/ofbeldi í vinnu og vinnutengdu umhverfi. Það þróaðist yfir í samstarf heildarsamtaka launafólks og Virk, og er Fræðslan  afrakstur þess samstarfs. Hún er í raun viðbragð við #MeToo, því eftir þá sprengingu varð öllum ljóst að það þyrfti að gera enn betur í málaflokknum.

Skipulag Fræðslunnar er í stuttu máli með þeim hætti að starfsfólk stéttarfélaga verður  þjálfað í að taka á móti þolendum kynferðisafbrota, út frá svokallaðri þolendamiðaðri nálgun, með áherslu á réttindi þeirra. Í kjölfarið geta þolendur sótt sálrænan stuðning hjá VIRK. Þolanda er trúað, hann ræður för og ekkert er gert nema með hans samþykki. Þessi aðferð er notuð í samskiptum við þá aðila sem eiga erfiða reynslu að baki og hefur verið brotið á. 

Það er gríðarlega mikilvægt að reyna að fækka tilfellum af kynferðislegrar áreitni og ofbeldi og jafn mikilvægt að þolendum sé mætt að skilningi og að þeir finni að þeir ráði för. 

Fórnarlömb kynferðisofbeldis bera oftast harm sinn í hljóði og veruleiki þeirra er ósanngjarn og ruddalegur. Ein slík frásögn getur valdið hamfarabylgju fjölmiðlaumfjöllunar, þar sem sá sem fyrir ofbeldinu varð fær þau skilaboð frá samfélaginu, beint eða óbeint að hann geti sjálfum sér um kennt ? Afleiðingar kynferðisofbeldis geta sannarlega haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt. Við þurfum að opna augun fyrir vandamálinu í stað þess að grafa það í sandinn. Höfnum því að ofbeldismenning sé sjálfsögð og eðlileg! 

Þegar íslenskar konur gengu út af heimilum sínum, skólum og vinnustöðum og kröfðust einum rómi jafnréttis og breytinga, þann 24.október 1975, heyrði það allur heimurinn. Þær þorðu, þær gátu, þær vildu. Sagt er að daginn þann hafi verið lagður hornsteinn að kvennasamstöðu þvert á pólítískar línur. Við eigum þessum konum mikið að þakka og það er mikilvægt að afrek þeirra gleymist ekki.  Tæpum fimmtíu árum síðar ströglum við enn og berjumst fyrir jafnrétti, sem ætti að vera lýðum ljóst að snýst um lýðræði og mannréttindi. Við höfnum því að vera álitnar vara – eitthvað. Við erum manneskjur og krefjumst þess hver einstaklingur geti þroskað og nýtt hæfileika sína án heftandi hugmynda um hlutverk kynja. Gamla ambáttin er dauð. 

Kæru systur. Við höfum verk að vinna.

Takk fyrir mig.

Píluíþróttin komin til að vera á Húsavík

Píla hefur verið stunduð á Íslandi til fjölda ára og verður sífellt vinsælli enda auðvelt að stunda hana víða. Íþróttin hefur hafið innreið sína af fullum krafti á Húsavík og fyrr á árinu var stofnuð Píludeild Völsungs. Hópur fólks, ungir sem gamlir, hafa þegar skráð sig í deildina og fer ört fjölgandi.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa félagsmenn unnið að því að standsetja aðstöðu í norðurendanum í kjallara Sundlaugar Húsavíkur. Búið er að græja þar fullkomna aðstöðu fyrir deildina sem var opnuð með formlegum hætti í gærkvöldi. Aðstaðan er um 70 fermetrar og fyrsta flokks í alla staði. Búið er að koma upp átta spjöldum með lýsingu og fullkomnum brautum.  Miðað við áhugann er ekki ólíklegt að stækka þurfi húsnæðið enn frekar á komandi árum en vinnan við núverandi aðstöðu hefur verið unnin í sjálfboðavinnu. Það jákvæða við þessa íþróttagrein er að flestir ef ekki allir geta stundað íþróttina. Fjölmörg dæmi eru um að ungt fólk, sem ekki hefur fundið sig í hefðbundnum íþróttagreinunum, hafi fundið sér stað í píluíþróttinni sem er vel.

Góðir styrkir hafa fengist í verkefnið og munar þar mestu um styrk frá Norðurþingi sem lagði deildinni til eina milljón króna til uppbyggingar á nýrri aðstöðu, en húsnæðið er í eigu sveitarfélagsins. Þá styrktu Framsýn og Þingiðn verkefnið með 200.000 kr. framlagi auk þess sem stéttarfélögin hafa samþykkt að félagsmenn sem stunda íþróttina geti notað sinn heilsueflingarstyrk hjá félögunum upp í æfingagjaldið. Sú ákvörðun kemur sér afar vel fyrir félagsmenn Píludeildarinnar sem jafnframt eru félagsmenn í stéttarfélögunum þar sem þeir geta fengið allt að 50% niðurgreiðslu á æfingagjöldum. Með þessari ákvörðun vilja stéttarfélögin halda áfram að gera vel við sína félagsmenn, ekki síst þá sem stunda íþróttir sér til heilsueflingar.

Gjaldþrota pólitík – leggja til skerðingar á lífeyri

Ekki er óalgengt að félagsmenn stéttarfélaga, ekki síst lágtekjufólks, komi óánægju sinni á framfæri við félögin hvað varðar réttindi þeirra á lífeyri við lífeyristöku á eldri árum. Eitt af megin verkefnum stéttarfélaganna hefur verið að efla réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum svo þeir geti átt áhyggjulaust ævikvöld. Vissulega koma því hugmyndir ákveðinna frambjóðenda um að skattleggja iðgjaldið við inngreiðslu í  stað þess að greiða skatt af lífeyri þegar hann kemur til útgreiðslu verulega á óvart. Á sínum tíma var þetta mikið baráttumál verkafólks, það er að iðgjaldið væri ekki skattlagt við inngreiðslu. Full ástæða er til að vara kjósendur við svona málflutningi, það er að skattleggja fólk með þessum hætti.

Í ágætri grein á Vísi sem Finnbjörn A. Hermannsson forseti Alþýðusambands Íslands og Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins skrifa eru þessar glórulausu hugmyndir ákveðinna frambjóðenda til Alþingis skotnar niður en greinin byrjar á þessum orðum:

„Undanfarið hafa ýmsar hugmyndir verið reifaðar um hvernig bæta megi afkomu ríkissjóðs og fjármagna brýn verkefni. Ein þeirra lýtur að því skattleggja iðgjald til lífeyrissjóðanna við inngreiðslu í stað þess að greiða skatt af lífeyri þegar hann kemur til útgreiðslu. Hafa þessar hugmyndir verið kynntar sem einhvers konar töfralausn, fundið fé sem hvorki muni hafa áhrif á afkomu lífeyrisþega né afkomu ríkissjóðs til framtíðar. Það er alrangt. Slíkar hugmyndir væru ekkert minna en afturför lífeyrismála á Íslandi og upptaka á vandamálum sem margar aðrar þjóðir standa frammi fyrir með verulega neikvæðum áhrifum á kjör eldra fólks og útgjöld hins opinbera.“

https://www.visir.is/g/20242649656d/kynslodasattmalann-ma-ekki-rjufa

Styrkja Þingey með kaupum á Neyðarkalli

Formaður og varaformaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni og Ósk voru gestir Björgunarsveitarinnar Þingeyjar í gærkvöldi en sveitin er með aðstöðu við Melgötu í Ljósavatnsskarði. Björgunarsveitin var nýkomin úr útkalli þegar fulltrúar Framsýnar renndu í hlað. Þeim var vel tekið enda enduðu þau með því að kaupa stóran neyðarkall sem er fjáröflunar leið fyrir björgunarsveitirnar innan Landsbjargar. Framsýn hefur áður komið að því að styrkja Þingey sem og aðrar deildir á félagssvæðinu sem nær frá Vaðlaheiði til Raufarhafnar enda gegna björgunarsveitir mikilvægu hlutverki í öryggismálum landsmanna.

Kalla eftir umræðu um sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi

Aðildarfélögum Alþýðusambands Norðurlands hefur borist bréf frá formanni Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni. Þar er þeirri hugmynd varpað fram hvort félögin séu tilbúin í viðræður um að sameinast í eitt öflugt deildskipt stéttarfélag á Norðurlandi. Undir AN falla m.a. stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar. Í dag eru um 18.000 félagsmenn innan aðildarfélaga AN, það er allt frá Blönduósi að Þórshöfn á Langanesi. Fjölmennasta félagið er Eining-Iðja á Akureyri.

Hugmyndin um frekari sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi var til umræðu á stjórnarfundi Framsýnar í byrjun vikunnar. Eftir ágætar umræður um stöðu og framtíðarskipulag stéttarfélaga var ákveðið að boða til fundar eftir áramótin um hvert félagsmenn telja rétt að stefna hvað sameiningu stéttarfélaga varðar. Það er hvort núverandi fyrirkomulag sé það besta en fyrir liggur að Framsýn er eitt af öflugustu stéttarfélögum landsins með um 3.000 félagsmenn eða hvort horfa beri til þess að sameina stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum í eitt félag eða á Norðurlandi.

Framsýn styrkir Blakdeild Völsungs

Framsýn og Blakdeild Völsungs hafa gert með sér samkomulag um að félagið styrki starfsemi deildarinnar næstu tvö árin. Um er að ræða framlengingu á fyrri samningi. Styrkurinn felst í því að Framsýn tekur þátt í búningakaupum á blaklið Völsungs auk þess sem félagið fær auglýsingu á vegg í Íþróttahöllinni á Húsavík. Framsýn hefur lengi verið sterkur bakhjarl æskulýðs- og íþróttastarfs á félagssvæðinu sem eru Þingeyjarsýslur frá Vaðlaheiði að Raufarhöfn.

Góður fundur með KS

Formaður Framsýnar gerði sér ferð á Sauðárkrók fyrir helgina til að funda með stjórnendum KS sem nýlega eignuðust Kjarnafæði/Norðlenska. Fram hefur komið í fjölmiðlum að meginmarkmið viðskiptanna sé að auka hagkvæmni, lækka kostnað við slátrun og úrvinnslu kjötafurða og auka þannig skilvirkni og samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu bændum og neytendum til hagsbóta. Fundur Framsýnar með KS var mjög góður í alla staði, menn skiptust á skoðunum um stöðu og framtíðarhorfur í íslenskum landbúnaði. Þá var farið yfir stöðu afurðastöðvana en Kjarnafæði/Norðlenska rekur öfluga kjötvinnslu og sauðfjársláturhús á Húsavík sem hefur verið í góðu samstarfi við Fjallalamb á Kópaskeri. Framsýn lagði áherslu á að rekstur fyrirtækisins á Húsavík yrði tryggður til framtíðar og þá fælust tækifæri í því að efla Fjallalamb á Kópaskeri með auknu samstarfi aðila.

Vinnustaðaheimsókn í Fjallalamb

Fulltrúar Framsýnar gerðu sér ferð í Fjallalamb í gær. Umræða var tekin um síðustu sláturtíð sem lauk á dögunum og framtíðina en dregið hefur verulega úr starfsemi fyrirtækisins á síðustu árum, samhliða því hefur starfsmönnum fækkað töluvert. Í heildina var slátrað tæplega 22.000 fjár þetta haustið, sem er heldur meira en á síðasta ári. Þess ber að geta að ekki var slátrað á Vopnafirði í haust sem gerði það að verkum að hluta af því sauðfé sem hefur verið slátrað þar var slátrað hjá Fjallalambi og KN á Húsavík. Fyrir sláturtíðina gekk Framsýn frá samkomulagi við fyrirtækið um launakjör starfsmanna með sérstöku samkomulagi. Það er von Framsýnar að það takist að efla starfsemi Fjallalambs á komandi árum með aðkomu fjársterkra aðila að fyrirtækinu.

Stefnir á þing

Þorgrímur Sigmundsson sem skipar annað sætið á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi gaf sér tíma til að setjast niður með formanni Framsýnar í gær  til að ræða málefni kjördæmisins og helstu áherslumál er tengjast ekki síst velferðar,- atvinnu- og byggðamálum. Þorgrímur hefur verið á ferðinni um kjördæmið til að kynna sig og málefni Miðflokksins enda stefnir hann að því að komast á þing. Fundurinn var ánægjulegur og gagnlegur á alla staði fyrir báða aðila. Að sjálfsögðu óskum við Þorgrími velfarnaðar líkt og öðrum frambjóðendum sem eru í kjöri til Alþingis í Norðausturkjördæmi.

Hvar er fjárveitingin í Húsavíkurflugið?

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, kallar eftir skýrum svörum frá þingönnum kjördæmisins varðandi fjárheimildir sem áætlaðar voru í flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Til stóð að áætlunarflug hæfist til þriggja mánaða um næstu mánaðamót. Því miður bendir allt til þess að svo verði ekki vegna áhugaleysis stjórnvalda. Greinin er eftirfarandi:

Hvar er fjárveitingin í Húsavíkurflugið?

Þingeyingar hafa lengi barist fyrir því að áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur verði viðhaldið enda um mikilvæga samgöngubót að ræða, ekki síst fyrir heimamenn, ferðamenn og blómlegt atvinnulíf í Þingeyjarsýslum.

Þann 1. apríl sl. lagðist áætlunarflugið af eftir að Flugfélagið Ernir hafði haldið úti reglulegu flugi til Húsavíkur í nánu samstarfi við hagsmunaaðila frá árinu 2012.  

Frá því í vor hefur verið unnið að því að kalla eftir skilningi stjórnvalda á mikilvægi þess að ríkið komi að fluginu með sambærilegum ríkisstyrkjum og þekkist í dag til annarra áfangastaða víða um land. Hvað það varðar hefur verið leitað eftir stuðningi frá þingmönnum Norðausturkjördæmis, ráðuneytisfólki, Vegagerðinni og Svandísi Svavarsdóttir þáverandi innviðaráðherra sem nýlega lét af störfum.

Ekki síst vegna þrýstings hagsmunaaðila var flug til Vest­manna­eyja og Húsa­víkur boðið út fyrr á þessu ári til þriggja mánaða. Framsýn hefur hins vegar lagt áherslu á að styrkurinn væri á ársgrundvelli með það að markmiði að tryggja öruggar flugsamgöngur milli landshluta, það er Húsavíkur og Reykjavíkur til framtíðar.

Vegagerðin varð ekki við þeirri ósk og bauð flugið aðeins út í þrjá mánuði, það er yfir vetrarmánuðina desember til febrúarloka yfir þriggja ára tímabil, samtals níu mánuði. Á vef Vegagerðarinnar frá því í mars má lesa að fyrirsjáanleiki sé kominn í flug til þessara staða, þannig að áform séu um að fljúga með ríkisstyrk þessa mánuði og það útboðsferli sé komið í gang með það að markmiði að semja um þjónustuna. Takið eftir, semja um þjónustuna sem ekkert hefur orðið úr, mörgum mánuðum síðar hvað Húsavík varðar.

Eftir yfirferð Vegagerðarinnar var ákveðið að semja við Mýflug um áætlunarflugið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Þrátt fyrir að hafa fengið tilboð í áætlunarflugið til Húsavíkur frá sama flugfélagi virðist sem fjármagnið í flugleiðina hafi gjörsamlega gufað upp og tilboðið sé því fallið úr gildi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.

Í svari til Framsýnar kemur fram að Vegagerðin hafi ekki fengið fjárheimild til verkefnisins, aðeins hafi fengist fjármagn fyrir flugleiðina til Vestmannaeyja. Af hverju Vegagerðin bauð flugið út til Húsavíkur án þess að hafa örugga fjárheimild til þess er ekki vitað. Hins vegar virðist sem það sé tregða í kerfinu að standa skil á þeim fjármunum sem voru hugsaðir í Húsavíkurflugið.  Hvað veldur, þetta kallar á svör frá þeim sem eru með málið á sínu forræði. Getur verið að það sé pólitísk andstaða að halda úti áætlunarflugi til Húsavíkur? Í það minnsta er þögn þingmanna kjördæmisins yfirþyrmandi.

Ég vil skora á þingmenn Norðausturskjördæmis að taka málið upp og kalla eftir skýrum svörum, það á ekki síst við um Njál Trausta Friðbertsson formann fjárlaganefndar Alþingis og Ingibjörgu Isaksen fyrsta þingmann kjördæmisins, en Framsóknarflokkurinn stýrir Fjármálaráðuneytinu um þessar mundir sem og Innviðaráðuneytinu sem fara með þessi mál. Hæg eru heimatökin.

Þingmenn kjördæmisins skulda Þingeyingum svar við þessari spurningu, hvað varð um fjárheimildina sem átti að tryggja flugsamgöngur til Húsavíkur í þrjá mánuði á ári í þrjú ár? Svar óskast fyrir komandi kjördag 30. nóvember 2024, en samkvæmt útboði Vegagerðarinnar átti áætlunarflugið að hefjast um næstu mánaðamót.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Sjálfstæðismenn gáfu sér góðan tíma til að fara yfir þjóðmálin með fulltrúm Framsýnar

Jens Garðar Helgason sem skipar fyrsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar kom ásamt fylgdarliði í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir helgina. Með í för voru nokkrir af þeim sem skipa efstu sætin á listanum. Frambjóðendurnir gáfu sér góðan tíma til að ræða við forsvarsmenn Framsýnar um þjóðmálin. Umræður urðu um komandi kosningar og áherslumál Sjálfstæðisflokksins meðan fulltrúar Framsýnar töluðu fyrir bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu, samgöngumálum, atvinnu- og byggðamálum. Að sjálfsögðu var áætlunarflugið milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem reyndar liggur niðri um þessar mundir einnig tekið upp til umræðu. Sjálfstæðismenn óskuðu eftir góðu samstarfi við Framsýn um þau atriði sem betur mega fara í kjördæminu og á landsvísu.

Frambjóðandi VG kynnir sér stöðina

Góður gestur kom við hjá formanni Framsýnar í gær, Jóna Björg Hlöðversdóttir, sem skipar annað sætið á lista VG í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Það er alltaf fagnaðarefni þegar frambjóðendur, þingmenn, ráðherrar og aðrir sem koma að stjórnmálum líta við á Skrifstofu stéttarfélaganna til að kynna sér málin og hvað brennur heitast á forsvarsmönnum stéttarfélaganna sem eru vel tengdir atvinnulífinu og því helsta sem brennur á íbúum í Þingeyjarsýslum. Fundurinn fór vel fram og skiptust þau Aðalsteinn Árni og Jóna Björg á skoðunum um málefni samfélagsins, ekki síst er varðar heilbrigðismál, samgöngumál, atvinnu- og byggðamál. Að sjálfsögðu var staða bænda einnig tekin til umræðu enda hefur Jóna Björg verið mjög virk er viðkemur hagsmunum bænda, ekki síst ungra bænda.

Fólki misboðið yfir gjaldskrárhækkunum OH

Dæmi eru um að viðskiptavinir Orkuveitu Húsavíkur, ekki síst fjölskyldufólk og fólk í viðkvæmri stöðu, hafi sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og krafist þess að Framsýn geri athugasemdir við boðaðar hækkanir á gjaldskrám orkuveitunnar um áramótin. Fólki er greinilega misboðið. Á sama tíma og samið var um hófsamar launahækkanir upp á 3,5% sem koma eiga til framkvæmda um næstu áramót telja forsvarsmenn OH eðlilegt að hækka gjaldskrár fyrirtækisins um 5% til 7,6%. Með bréfi til OH í morgun eru gerðar alvarlegar athugasemdir við boðaðar hækkanir um leið og skorað er á veituna að draga þær til baka.

Orkuveita Húsavíkur ohf.
v/Ketilsbraut
640 Húsavík

Húsavík 1. nóvember 2024

Varðar óhóflegar hækkanir OH
Samkvæmt fundargerð stjórnar Orkuveitu Húsavíkur frá 29. október 2024 kemur fram að meirihluti stjórnar leggur til verulegar hækkanir á gjaldskrám orkuveitunnar milli ára, þrátt fyrir að fyrirtækið standi afar vel um þessar mundir. Talað er um hóflegar hækkanir, sem eru samt sem áður, umtalsvert hærri en boðaðar launahækkanir á almenna vinnumarkaðinum um næstu áramót.

„Í ljósi sterkrar stöðu Orkuveitu Húsavíkur hefur stjórn ákveðið að stilla gjaldskráhækkun í hóf miðað við þróun vísitölu. Meirihluti stjórnar samþykkir að hækka gjaldskrá um 5%.“

Þá er jafnframt tekið fram í fundargerð stjórnar OH:

 „Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að gjaldskrá fyrir kalt vatn og fráveitu fylgi hækkun fasteignagjalda í Norðurþingi og hækki þar með um 7,6% á árinu 2025.“ 

Boðaðar hækkanir OH á gjaldskrám eru langt frá því að vera í takt við samkomulag aðila vinnumarkaðarins og yfirlýsingar stjórnvalda/sveitarfélaga sem fylgdu síðustu kjarasamningum sem undirritaðir voru 7. mars 2024 og tengist m.a. sveitarfélögum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Þar segir:

„Til að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði munu ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna að aðgerðum sem styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.“

Hvað viðkemur hækkunum á gjaldskrám er tekið fram í yfirlýsingu stjórnvalda/sveitarfélaga:

• Til að stuðla að verðstöðugleika munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. 

• Sveitarfélögin lýsa yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.

Til fróðleiks fyrir stjórnendur OH, þá hækka laun almennt um 3,5% um næstu áramót hjá megin þorra launafólks. Ljóst er að boðar gjaldskrárbreytingar OH munu koma afar illa við viðskiptavini orkuveitunnar, ekki síst barnafólk sem nær ekki að dekka þennan kostnaðarauka með launahækkunum 1. janúar 2025.

Viðbrögðin frá viðskiptavinum OH hafa ekki látið á sér standa enda Framsýn borist ábendingar frá reiðum viðskiptavinum orkuveitunnar sem skorað hafa á félagið að vekja athygli á þessum óskiljanlegu hækkunum og krefjast þess að gjaldskrárbreytingarnar verði endurskoðaðar til lækkunar.

Þá virðist sem bókun Byggðaráðs Norðurþings um gjaldskrárbreytingar frá 24. október 2024 hafi algjörlega farið fram hjá stjórn OH sem velur að sniðganga hana.

Bókunin er eftirfarandi:

„Fyrir byggðarráði liggur erindi frá Framsýn stéttarfélagi þar minnt er á að sveitarfélögin virði samkomulagið sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum um aðhald hvað varðar gjaldskrárbreytingar til hækkunar hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Byggðarráð þakkar erindið og telur þær tillögur að gjaldskrám sem nú eru til umræðu vera til samræmis við samkomulag sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum.“

Í ljósi mjög góðrar stöðu Orkuveitu Húsavíkur og yfirlýsinga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem lofa hófsemi í gjaldskrárbreytingum sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu er hér með skorað á stjórn OH að endurskoða þessar óhóflegu og reyndar óskiljanlegu hækkanir á gjaldskrám sem koma eiga til framkvæmda í byrjun árs 2025. Fyrir liggur að hækkanirnar, sem eru langt umfram almennar launahækkanir, munu ekki síst koma einstæðum foreldrum, barnafólki  og fólki í viðkvæmri stöðu afar illa.

Virðingarfyllst
Fh. Framsýnar stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson

Afrit:
Starfsgreinasamband Íslands
Sveitarstjóri Norðurþings

Þingeyjarsveit- Ætla að gæta hófs í gjaldskrárhækkunum

Þingeyjarsveit hefur tekið fyrir erindi Framsýnar um breytingar á gjaldskrám. Eftirfarandi var bókað:

„Lagt fram erindi frá Framsýn stéttarfélagi þar sem þar minnt er á samkomulagið sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum um aðhald hvað varðar gjaldskrárbreytingar til hækkunar hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Framsýn óskar eftir við Þingeyjarsveit að virða áðurnefnt samkomulag.“

Byggðarráð Þingeyjarsveitar þakkar erindið og tekur undir mikilvægi þess að hækka ekki álögur á barnafjölskyldur og viðkvæma hópa. Jafnframt telur byggðarráð að hófs sé gætt í öðrum gjaldskrárhækkunum.

Búa sig undir Kvennaráðstefnu ASÍ 2024

Árleg Kvennaráðstefna ASÍ verður haldin dagana 14. – 15. nóvember nk. á Hótel KEA á Akureyri. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta 

Ráðstefnan er opin félagslega kjörnum fulltrúum stéttarfélaganna og starfskonum hreyfingarinnar.

Markmið Kvennaráðstefnu í ár, eins og endranær, er að virkja samtakamátt ASÍ-kvenna til að styðja og hvetja konur til áhrifa í hreyfingunni, ásamt því að fræðast, brýna verkalýðshugsjónina og hafa gaman saman. Einnig að setja málefni er lúta að velferð, öryggi og réttindum launakvenna rækilega á dagskrá. Helstu jafnréttisáherslur frá 45. þingi eru að leiðrétta skuli vanmat á kvennastörfum, taka skuli enn betur á móti þolendum kynferðislegrar áreitni og ofbeldi í vinnu og vinnutengdu umhverfi og að beina þurfi sjónum að stöðu foreldra og  þrýsta á aðgerðir sem draga úr umönnunarbilinu sem myndast hefur milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þessar sömu áherslur verða til grundvallar á ráðstefnunni. Fyrirkomulag ráðstefnunnar verður með þeim hætti að sérhverju félagi býðst að halda utan um 45 mínútna málstofu um málefni sem á því brennur og er því dagskrá ráðstefnunnar í höndum þátttakenda. Fulltrúar Framsýnar á ráðstefnunni verða Ósk Helgadóttir, Agnieszka Szczodrowska og Nele Marie Beitelstein. Á meðfylgjandi mynd eru þær samankomnar til að undirbúa sig fyrir ráðstefnuna.  

Opið hús í Hraunholtinu

Fjölmargir gerðu sér ferð í Hraunholtið síðasta sunnudag til að skoða nýjar og glæsilegar íbúðir stéttarfélaganna, það er að Hraunholti 26 til 28. Almenn ánægja kom fram hjá gestunum með íbúðirnar sem þegar hafa verið teknar í notkun en þær fóru í leigu í september til félagsmanna. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því, að aðeins hluti félagsmanna Framsýnar og Þingiðnar býr á Húsavík, þess vegna ekki síst eru þessar íbúðir kærkomnar þeim félagsmönnum sem búa fjarri Húsavík. Þá eru þegar dæmi um að félagsmenn á Húsavík, sem eru að taka sýnar íbúðir í gegn, leigi íbúð á vegum stéttarfélaganna meðan þeir standa í framkvæmdum. Sjá myndir frá opnu húsi í Hraunholtinu:

Formaður með fyrirlestur á Laugum

Framsýn og Framhaldsskólinn á Laugum hafa átt gott samstarf um fræðslu er tengist vinnumarkaðinum og starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða fyrir nemendur skólans. Í gær var komið að kynningu fyrir nýnema í skólanum. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, fór yfir tilgang stéttarfélaga og vinnumarkaðinn. Jóna Finndís Jónsdóttir forstöðumaður réttindasviðs Lsj. Stapa fór yfir gagnlegar upplýsingar er tengjast markmiðum lífeyrisjóða. Nemendur Laugaskóla voru áhugasamir og spurðu frummælendur út í hitt og þetta sem tengdist viðfangsefnum dagsins.

Norðurþing ætlar að virða samkomulag aðila vinnumarkaðarins um gjaldskrárbreytingar

Á dögunum sendi Framsýn erindi á Norðurþing varðandi fyrirhugaðar hækkanir á gjaldskrám sveitarfélagsins og fyrirtækja í þeirra eigu. Var sveitarfélagið hvatt til að sína hófsemi og virða samkomulag aðila vinnumarkaðarins, þar á meðal sveitarfélaganna, um hækkanir á gjaldskrám.

Byggðaráð Norðurþings tók erindið fyrir á fundi 24. október og gerði eftirfarandi bókun:

„Fyrir byggðarráði liggur erindi frá Framsýn stéttarfélagi þar minnt er á að sveitarfélögin virði samkomulagið sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum um aðhald hvað varðar gjaldskrárbreytingar til hækkunar hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Byggðarráð þakkar erindið og telur þær tillögur að gjaldskrám sem nú eru til umræðu vera til samræmis við samkomulag sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum.“

Til fróðleiks má geta þess að þetta er tiltekið í yfirlýsingu stjórnvalda:

Gjaldskrárhækkanir ríkisins og sveitarfélaga

• Til að stuðla að verðstöðugleika munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. 

• Sveitarfélögin lýsa yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.

Sjá nánar: https://www.sgs.is/media/2051/yfirlysing-stjornvalda-vegna-kjarasamninga.pdf

Opið hús – Hraunholt 26-28

Framsýn og Þingiðn verða með opið hús í Hraunholti 26-28 sunnudaginn 27. október frá kl. 14:00 til 16:00. Boðið verður upp á kaffi og kleinur. Áhugasömum gefst kostur á að skoða tvær glæsilegar orlofsíbúðir sem þegar hafa verið teknar í notkun fyrir félagsmenn. Sjáumst hress og glöð í hjarta yfir þessum glæsilega áfanga.

Framsýn stéttarfélag
Þingiðn, félag iðnaðarmanna