Fjörugur aðalfundur sjómanna

Þann 27. desember var aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar haldinn í fundarsal stéttarfélaganna. Fundurinn var að venju líflegur og málefnalegur. Formaður deildarinnar fór yfir skýrslu stjórnar og þá var kosið í stjórn deildarinnar fyrir starfsárið 2025. Kosningu hlutu: Jakob Gunnar Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur.

Á fundinum urðu jafnframt umræður um kvótamál, kjaramál sjómanna, strandveiðikerfið og síðustu Alþingiskosningar. Þá var tekin fyrir tillaga sem var til afgreiðslu á fundinum um að breyta formi aðalfunda deildarinnar, það er að hætta með sérstaka aðalfundi. Þess í stað verði gert grein fyrir starfsemi deildarinnar á reglulegum aðalfundi Framsýnar sem haldinn er í apríl/maí ár hvert. Tillagan var ekki tekin til afgreiðslu þar sem fundarmenn vildu halda í núverandi fyrirkomulag, það er að funda sérstaklega um sín mál.

Hér að neðan má lesa það helsta sem fram kom í skýrslu stjórnar sem formaður deildarinnar, Jakob G. Hjaltalín, gerði grein fyrir:

Ágætu sjómenn! Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2025.  Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2024, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma og málefnum sjómanna. 

Fjöldi sjómanna í deildinni:
Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um þessar mundir með gjaldfrjálsum sjómönnum er um 90 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum hafa tekið mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs eða örorku.

Kjaramál:
Þann 6. febrúar 2024 skrifuðu SFS og Sjómannasabandið undir kjarasamning en samningar sjómanna höfðu þá verið lausir í nokkur ár. Gildistími samningsins er 10 ár en með uppsagnarákvæði eftir 5 ár og öðru eftir 7 ár. Með samningnum eru lífeyrisréttindi sjómanna 15,5% eins og annarra landsmanna, veikindaréttur er styrktur og taka ákvæði veikindaréttar nú í fyrsta sinn fullt tillit til mismunandi launakerfa sjómanna – s.s. mismunandi  skiptimannakerfa.  Er þá sjómönnum í skiptimannakerfi með 50% hlut á móti makker,  tryggð óbreytt laun í allt að 4 mánuði í veikinda-og slysatilfellum.  Í flestum tilfellum hingað til hafa menn fengið 50% laun í tvo mánuði og síðan kauptryggingu. Sjómenn fá eftirleiðis desemberuppbót eins og aðrir launþegar.  Við undirritun samningsins fengu sjómenn eingreiðslu að upphæð 400.000 kr. og er það „fyrirframgreidd desemberuppbót“ næstu fjögurra ára því desemberuppbót verður fyrst greidd 2028 og svo eftirleiðis. Á kjörskrá um kjarasamninginn voru 1.104 sjómenn innan aðildarfélaga SSÍ. Atkvæði greiddu 592 eða 54% þeirra sem voru á kjörskrá.  Af þeim sem kusu sögðu 367 já eða 62%, 217 sögðu nei eða 37% og auðir og ógildir seðlar voru 8 eða 1%. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 62,84% já og 37,16% sögðu nei. Samningurinn var því samþykktur, sem þýðir að vonandi verður friður á vinnumarkaði hvað sjómenn varðar næstu árin.

Hvalaskoðun – kjarasamningar:
Sjómannadeild Framsýnar kláraði viðræður við Samtök atvinnulífsins 26. mars 2024 með undirskrift kjarasamnings fyrir starfsmenn hvalaskoðunarbáta. Um er að ræða langtímasamning en gildistími samningsins er frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.

Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við aðalstjórn félagsins. Formaður deildarinnar hefur verið virkur í starfi Sjómannasambandsins á árinu og tekið þátt í fundum á vegum sambandsins.

Formannafundur SSÍ:
Sjómannasamband Íslands stóð fyrir formannafundi á Hótel Stykkishólmi í byrjun nóvember, það er frá 1. til 2. nóvember. Jakob Gunnar Hjaltalín og Börkur Kjartansson voru fulltrúar deildarinnar á fundinum. Aðal málefni fundarins voru kjaramál, skýrsla um meðallaun sjómanna og skipulagsmál.

Fræðslumál:
Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Á árinu sem er að líða fengu 13 félagsmenn innan deildarinnar greiddar kr. 1.003.134,- í námsstyrki. Um er að ræða verulega hækkun á styrkjum til félagsmanna milli ára en árið 2023 voru greiddar út kr. 194.173,- í styrki vegna starfsmenntunar.

Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess í gegnum tíðina komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.

Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru fimm starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins.

Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2024, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hátíðarhöldin 1. maí gengu afar vel og þá tók félagið í notkun nýja orlofsíbúð í Hraunholtinu á Húsavík. Glæsileg íbúð sem þegar er komin í útleigu. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað Fréttabréfið og heimasíðuna varðar væri áhugavert að sjómenn sendi inn myndir og jafnvel fréttir af lífinu um borð til birtingar í miðlum Framsýnar. Það yrði vel þegið. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.

Viðsjárverð þróun í leikskólamálum

Á fundi formanna SGS þann 10. desember síðastliðinn var m.a. umræða um þá þróun sem orðið hefur í leikskólamálum víða um land, þar sem daglegur vistunartími er styttur í 6 klukkustundir en gjald fyrir dvalartíma umfram þann tíma er hækkað verulega. Í tilefni þess sendi fundurinn frá sér eftirfarandi ályktun en þess má geta að Framsýn á aðild að SGS.

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands varar við þeirri þróun sem orðið hefur í leikskólamálum víða um land, þar sem daglegur vistunartími er styttur í 6 klukkustundir en gjald fyrir dvalartíma umfram þann tíma er hækkað verulega. Einnig hefur svokölluðum skráningardögum fjölgað, þ.e.a.s. dögum sem ekki eru innifaldir í föstu mánaðargjaldi og greiða þarf sérstaklega fyrir.

Þeir foreldrar, sem vinnu sinnar vegna hafa ekki tök á því að stytta vistunartíma barna sinna, greiða eftir breytingarnar mun hærra gjald en áður svo nemur tugum prósenta. Bitnar þetta helst á tekjulágum foreldrum með lítið stuðningsnet og lítinn sveigjanleika í starfi.

Þótt sveigjanleiki hafi aukist hjá þeim hluta vinnumarkaðarins sem nýtur styttingu vinnuvikunnar, hefur stærstur hluti félagsmanna aðildarfélaga SGS alls enga styttingu fengið – vinnur ennþá 40 stunda vinnuviku og hefur ekki tök á að vinna að heiman hluta úr degi eða sækja börn fyrr á leikskólann. Þessi staðreynd virðist hafa farið fram hjá þeim sem stýra leikskólamálum.

Þangað til stytting vinnuvikunnar hefur verið innleidd hjá vinnumarkaðinum í heild sinni er þessi viðsjárverða þróun algerlega ótímabær. Hún mun draga úr ráðstöfunartekjum tekjulægstu heimilanna, auka ójöfnuð, grafa undan atvinnuþátttöku og er dýrkeypt bakslag í jafnréttisbaráttunni sem þó á enn langt í land.

Formannafundur Starfsgreinasamband Íslands krefst þess að sveitarfélög leiti annarra leiða til að leysa mönnunarvanda leikskólanna, þessi leið er of dýru verði keypt.

Ályktun um leikskólamál (PDF)

Minnisbækur og dagatöl eru komin í hús

Minnisbækur stéttarfélaganna eru komnar á Skrifstofu stéttarfélaganna. Það á einnig við um dagatölin 2025. Endilega komið við og fáið ykkur dagbók og dagatal. Við munum síðan gera okkur ferð í sveitirnar eftir helgina og færa þeim sem það vilja dagbækur og dagatöl.

Grín og gaman hjá starfsmönnum og mökum

Starfsmenn Skrifstofu stéttarfélaganna ásamt mökum komu saman í aðstöðu Píludeildar Völsungs eina kvöldstund í desember. Aðstaðan er öll hin glæsilegasta en hún var nýlega tekin í notkun. Tilgangurinn var að hafa gaman og fá fræðslu um íþróttina en Guðmundur Kristjánsson og félagar úr deildinni tóku vel á móti gestunum frá stéttarfélögunum. Eftir góðar móttökur og fræðslu kepptu starfsmenn og makar innbyrðis um titilinn Pílumeistari ársins. Við látum myndirnar tala sínu máli:

Síðasti stjórnarfundur ársins hjá Þingiðn

Stjórn Þingiðnar kom saman til síðasta fundar ársins á dögunum. Fjölmörg mál voru tekin fyrir s.s. sameining stéttarfélaga, orlofshús félagsins í Hraunholti, skuldastaða fyrirtækja gagnvart félaginu, uppbygging íbúðafélagsins Bjargs á Húsavík og síðast en ekki síst flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Eftir fundinn var boðið upp á kvöldverð enda lokafundur ársins. Sésrtakur gestur fundarins var Vigfús Þór Leifsson sem lét af störfum sem stjórnarmaður á síðasta aðalfundi félagsins eftir áratuga stjórnarsetu.

Fréttabréfið komið úr prentun

Fréttabréf stéttarfélaganna er komið úr prentun. Hægt er að nálgast bréfið í flestum matvörubúðum á félagssvæðinu auk þess sem það liggur frammi á Skrifstofu stéttarfélaganna. Til viðbótar má geta þess að áhugasamir geta skoðað það á heimasíðunni; framsyn.is.

https://framsyn.is/wp-content/uploads/2024/11/Frettabref_3.tbl_._desember_2024.pdf

Þá er rétt að geta þess að dagatöl og minnisbækur ættu að vera í boði fyrir félagsmenn um næstu helgi, það er í síðasta lagi eftir helgina.

Framsýn ályktar og varar við gervistéttarfélaginu „Virðingu”

Stjórn Framsýnar samþykkti í dag að senda frá sér ályktun um nýstofnað gervistéttarfélag, „Virðingu.“ Ályktunin er svohljóðandi:

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar tekur heilshugar undir ályktun Alþýðusambands Íslands er viðkemur „Virðingu” sem stofnað hefur verið sem stéttarfélag án þess að uppfylla grundvallarskilyrði sem um slík félög gilda. Framsýn skorar á starfsfólk í veitingageiranum að halda sig fjarri félaginu og taka ekki þátt í starfsemi sem miðar að því einu að skerða kjör og grafa undan réttindum sem áunnist hafa með áratuga baráttu.

Gervistéttarfélagið „Virðing” fellur undir þá skilgreiningu sem notuð er um svonefnd „ gul stéttarfélög- teikara”. Þar er átt við félög sem atvinnurekendur eiga frumkvæði að stofna og stýra og  gera þannig í reynd kjarasamninga  við sjálfa sig enda í það minnsta tveir stjórnarmenn „Virðingar” sem koma beint að rekstri veitingastaða sem eigendur eða stjórnarmenn.

Framsýn beinir þeim tilmælum til allra heiðvirðra atvinnurekenda að hafna afdráttarlaust markmiðum og aðferðarfræði veitingamanna á vettvangi SVEIT og „Virðingar” sem grafa undan réttindum launafólks til þess eins að skapa sjálfum sér betri samkeppnisaðstöðu gagnvart þeim sem löglega standa að rekstri fyrirtækja sinna.

Framsýn vekur athygli á að kjarasamningur „Virðingar” við SVEIT felur í sér augljósan ásetning um að skerða verulega kjör og réttindi starfsfólks í veitingageiranum. Það á við um lengingu dagvinnutíma, lækkun vaktaálags, niðurfærslu orlofsréttinda, skertan veikindarétt og fleira. Að auki uppfyllir „Virðing” ekki ýmsar lögbundnar skyldur sínar gagnvart félagsmönnum m.a.  er varðar rekstur sjúkrasjóðs og fræðslusjóðs sem skiptir verkafólki verulega miklu máli.

Framsýn kallar eftir skilyrðislausri samstöðu með launafólki í veitingageiranum. Félagið lýsir yfir stuðningi við réttindabaráttu þess og við gerð raunverulegra kjarasamninga í stað skipulegrar viðleitni til að níðast á láglaunafólki, ekki síst innflytjendum og ungmennum. Árásum sem þessum verður mætt af mikilli hörku um leið og Framsýn skorar á SVEIT að gefa upp hvaða veitingastaðir hafa boðað að taka upp kjarasamning „Van-Virðingar“ svo almennir borgarar geti sniðgengið slíka staði.

Til skoðunar að selja Asparfell

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar hefur ákveðið að setja íbúð félagsins í Asparfelli 8 á söluskrá. Á móti verði skoðað að bæta við íbúð í Þorrasölum í Kópavogi. Gangi þetta eftir verður Framsýn með allar sýnar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í Þorrasölum en mikil ánægja hefur verið meðal félagsmanna með íbúðirnar. Töluvert hagræði, er auk þess fólgið í því, að hafa allar íbúðirnar á sama stað.

Flug til Húsavíkur styrkt

Samið hefur verið við flugfélagið Norlandair um að fljúga fjórar flugferðir í viku milli Húsavíkur og Reykjavíkur á tímabilinu 16. desember 2024 til 15. mars 2025.   Unnið er að undirbúningi en nánari upplýsingar verður hægt að finna á heimasíðu flugfélagsins innan skamms. 

Flugleiðin er styrkt til að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugleiðinni á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu.

Aðalfundur Sjómannadeildar 2024

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags verður haldinn föstudaginn 27. desember 2024 í fundarsal félagsins. Fundurinn hefst kl. 17:00.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Kjaramál
  3. Önnur mál

Boðið verður upp á hefðbundnar veitingar og  óvæntan glaðning. Mikilvægt er að sjómenn láti sjá sig á fundinum og taki þátt í líflegum umræðum.

Stjórn deildarinnar

Dómnefnd að störfum

Sérstök dómnefnd var fengin til að velja fallegar myndir á dagtöl stéttarfélaganna vegna ársins 2025. Þetta eru þær Elín, Emilía og Gunnhildur. Eftir smá slagsmál komust þær að niðurstöðu og völdu sjö fallegar myndir. Dagatölin verða prentuð í næstu viku.

Vegagerðin með verðkönnun á flugi til Húsavíkur

Forsvarsmenn Framsýnar hafa undanfarið verið í sambandi við Vegagerðina varðandi flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Vitað er að Vegagerðin bauð flugið út í mars 2024, það er til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Eitt tilboð barst í flugleiðina til Húsavíkur sem var ekki tekið. Tilboði Mýflugs í flugið til Vestmannaeyja var hins vegar tekið.

Framsýn fékk það staðfest í dag að Vegagerðin hefði sent út síðasta föstudag, 22. nóvember 2024, verðkönnun fyrir flug til Húsavíkur á tímabilinu 16. desember 2024 til 15. mars 2025.

Frestur flugrekenda til að senda inn verðtilboð er til kl. 12:00 fimmtudaginn 28. nóvember 2024. Óskað hefur verið eftir tilboði í flug með farþega og vörur á flugleiðinni Reykjavík – Húsavík – Reykjavík,  fjórar flugferðir fram og til baka á viku.

Virkilega skemmtilegur fundur

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar ásamt trúnaðarmönnum félagsins á vinnustöðum, starfsmönnum félagsins og stjórn Framsýnar-ung komu saman í gær í fundarsal stéttarfélaganna. Hefð er fyrir því að klára árið í starfi félagsins með sérstökum jólafundi. Þannig vill Framsýn þakka öllum þeim fjölmörgu félagsmönnum sem koma að störfum fyrir félagið fyrir framlag þeirra í þágu félagsins sem er ómetanlegt. Mætingin í gær var mjög góð enda leiðist engum á jólafundinum þar sem boðið er upp á góðar veitingar og heimatilbúin skemmtiatriði. Við látum myndirnar tala sínu máli:

Guðný Ingibjörg, jólasveinn ársins 2024

Guðný Ingibjörg Grímsdóttir var valin „Jólasveinn ársins 2024“ á lokafundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á árinu. Trúnaðarmönnum á vinnustöðum, starfsmönnum stéttarfélaganna og stjórn Framsýnar-ung var einnig boðið að sitja fundinn sem fram fór föstudaginn 22. nóvember. Fundarmönnum bauðst að kjósa þann félagsmann sem þykir hafa skarað fram úr í starfi Framsýnar á árinu.  Titilinn „Jólasveinn ársins 2024“ hlaut Guðný Ingibjörg Grímsdóttir fyrir hennar mikla og óeigingjarna starf í þágu félagsins, reyndar til margra ára. Henni hafa verið falið mörg trúnaðarstörf á vegum Framsýnar og er í dag í aðalstjórn félagsins auk þess sem hún hefur um árabil verið trúnaðarmaður starfsmanna ÚA fiskþurrkun á Laugum í Reykjadal. Framsýn óskar Guðnýju til hamingju með titilinn um leið og henni eru þökkuð frábær störf í þágu félagsins. Ásgerður Heba Aðalsteinsdóttir trúnaðarmaður starfsmanna í Borgarhólsskóla er með Guðnýju á myndinni en hún hélt utan um kosninguna með formanni félagsins.

Miðstjórn ASÍ fordæmir  vaxtahækkun Íslandsbanka 

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) fordæmir þá ákvörðun Íslandsbanka að hækka vexti á verðtryggðum lánum á sama tíma og verðbólga gengur niður og vonir vakna um að hagur almennings taki að batna. Þessi viðbrögð við löngu tímabærri lækkun stýrivaxta Seðlabankans jafngilda því að stjórnendur Íslandsbanka hafi kastað blautri og illa þefjandi tusku sinni beint í andlit landsmanna. 

Miðstjórn telur óboðlegt með öllu að stjórnendur Íslandsbanka skuli nánast á sömu mínútu og tilkynnt var um 0,50 prósentustiga  lækkun stýrivaxta Seðlabankans greina frá því að breytilegir verðtryggðir vextir hækki um 0,30 prósentustig. Þessi gjörningur er enn ein sönnun þess hvernig fjármálavaldið ætlar ekki að missa mínútu úr við að mergsjúga fólkið í landinu.  

Vakin skal athygli á að með hækkuninni, miðvikudaginn 20. nóvember, hefur Íslandsbanki hækkað breytilega verðtryggða vexti um 0,80 prósentustig á síðustu 60 dögum. Mjög margir lántakendur sem trúðu gaspri stjórnmálamanna um efnahagslegan stöðugleika hafa staðið og standa nú frammi fyrir því að fastir vextir eru að losna. Flestir neyðast til að endurfjármagna lánin með verðtryggðum lánum. Þannig  hefur íslenskum lántakendum skipulega verið „smalað“ yfir í hið verðtryggða lánaform til að gefa bönkum færi á frekari vaxtahækkunum. Á sama tíma fækkar þeim sem greiða af óverðtryggðum lánum sínum. Þá vexti lækkar því Íslandsbanki.  

Miðstjórn ASÍ telur með öllu óásættanlegt að nú þegar launafólk hefur sýnt ábyrgð við gerð kjarasamninga og árangur er tekinn að sjást að fjármálastofnanir nýti tækifærið og hækki verðtryggða vexti með það að markmiði að viðhalda óeðlilegri arðsemi á fákeppnismarkaði. Nú þegar hefur almenningur þurft að horfa upp á bankana stinga lækkun bankaskatts í vasa eigenda frekar en að skila ábatanum til neytenda. Ósvífnin er fullkomnuð þegar bönkum er falið að innheimta ábata kjarasamninga í krafti einokunar.  

Miðstjórn Alþýðusambandsins telur að launafólk fái ekki þolað lengur það siðleysi sem fær þrifist óáreitt innan íslenska bankakerfisins. Á þessum „markaði“ ríkir gjörspillt fákeppni sem einkennist af ógegnsæi og  græðgi.“ 

Mikil ásókn í íbúðir á vegum Bjargs á Húsavík

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni hefur Framsýn lengi barist fyrir því að Bjarg íbúðafélag byggði húsnæði á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Framkvæmdir eru þegar hafnar við sex íbúða raðhús að Lyngholti 42-52. Gangi allt eftir verða þær klárar vorið 2025. Til upprifjunar má geta þess að Bjarg er sjálfseignarstofnun rekin án hagnaðarmarkmiða. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norænni fyrirmynd. Félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur hafa aðgengi að þessum íbúðum enda séu þeir fullgildir félagsmenn.

Um þessar mundir er unnið að því að úthluta íbúðunum til umsækjenda. Rúmlega 40 umsóknir bárust um þessar sex íbúðir. Eftirspurn eftir íbúðum sem þessum er greinilega gríðarleg og því þörf á frekari uppbyggingu. Framsýn hefur ákveðið að hefja viðræður við Bjarg um að félagið haldi frekari uppbyggingu áfram á Húsavík í fullu samráði við Norðurþing enda samstarfsverkefni Bjargs og viðkomandi sveitarfélaga þar sem uppbyggingin fer fram.

Húsavík, Lyngholt 42-52 | Bjarg íbúðafélag