Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundar eftir helgina

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar ásamt stjórn Framsýnar-ung kemur saman til fundar miðvikudaginn 29. október kl. 17:00. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins:

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Málefni PCC
  4. Tillögur starfshóps um atvinnumál á Húsavík
  5. Málefni Slökkviliðs Norðurþings
  6. Gluggaskipti G-26
  7. Kosning uppstillinganefndar
  8. Fræðslustarf félagsins í skólum
  9. Þing SGS
  10. Þing ASÍ-UNG
  11. Þing LÍV
  12. Fulltrúaráðsfundur AN
  13. Formannafundur ASÍ
  14. Stofnasamningar
    1. Land og skógur
    1. Umhverfisstofnun
    1. HSN
  15. Samkomulag við Fjallalamb hf.
  16. Kvennafrídagurinn
  17. Gjöf-setubekkir
  18. Jólafundur stjórnar og trúnaðarráðs
  19. Önnur mál

Tökum þátt í kvennafrídeginum

Fjölmennum á baráttufundi út um allt land á kvennafrídaginn 24. október til að krefjast kjarajafnréttis. Fimmtíu ár eru liðin frá því að konur lögðu fyrst niður störf til að krefjast jafnréttis á Íslandi, en enn er verk að vinna. Framsýn stendur að baráttufundi ásamt fleirum sem haldinn verður í Félagsheimilinu Breiðumýri næstkomandi föstudag. Samkoman hefst kl. 14:00. https://framsyn.is/2025/10/02/samstodufundur-ad-breidumyri/

ASÍ átelur ríkistjórnina fyrir endalausar árásir á réttindi og kjör launafólks

Formannafundur Alþýðusambands Íslands var haldinn í gær, þriðjudag, í Reykjavík. Hörð gagnrýni kom fram á vinnubrögð ríkistjórnarinnar sem gerir í því að gera árásir á velferðarkerfið sem snýr sérstaklega að réttindum og kjörum láglaunafólks. Fundarmenn kröfðust þess að ályktað væri um málið sem var og gert. Sjá ályktun fundarins:

Ályktun um efnahags- og kjaramál

„Formannafundur ASÍ 2025 gagnrýnir harðlega niðurskurðarstefnu og samráðsleysi stjórnvalda og árásir ríkisstjórnarinnar á réttindi og kjör launafólks.

Formannafundur lýsir yfir vaxandi áhyggjum af stöðu efnahags- og kjaramála. Skýr merki eru um kólnun í hagkerfinu, atvinnuleysi fer vaxandi, verðbólga og stýrivextir eru enn óásættanlega háir og ekkert lát virðist vera á hávaxtastefnunni. Helsti drifkraftur verðbólgunnar er enn úrræðaleysi stjórnvalda í húsnæðismálum sem bitnar verst á ungu fólki og tekjulægri heimilum, en einnig gróðasókn fyrirtækja sem hafa ekki haldið aftur af verðhækkunum. Með undirritun stöðugleikasamninganna á vinnumarkaði vorið 2024 axlaði launafólk ríka ábyrgð á því að  stuðla að hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta. Ábyrgðin á verðstöðugleikanum verður ekki sett eingöngu á herðar launafólks. Nú er komið að því að stjórnvöld og fyrirtæki axli sína ábyrgð.

Formannafundur hafnar þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað til að ná markmiðum í ríkisfjármálum en með þeim eru þyngstu byrðarnar lagðar á atvinnulausa, barnafólk, ellilífeyrisþega og heimilin í landinu. Verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt mun það þýða skerðingar á lífeyrisréttindum verkafólks, rýrnun barnabóta og húsnæðisstuðnings, lækkun á framlögum til íslenskukennslu, hærri gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni og veikari atvinnuleysistryggingar nú þegar atvinnuleysi fer vaxandi.

Jafnframt ítrekar fundurinn ákall sitt til ríkisstjórnarinnar um að endurskoða áform sín um niðurfellingu framlags til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða þar til um annað fyrirkomulag hefur verið samið, til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna með fullnægjandi hætti. Verkalýðshreyfingin mun aldrei fallast á að verka- og láglaunafólk verði eitt látið bera byrðarnar af misskiptri örorkubyrði með frekari lækkun á lífeyrisréttindum sínum.“

Íslenskur vinnumarkaður 2025

Áhugaverð skýrsla Alþýðusambands Íslands um vinnumarkaðsmáler komin út. Eins og fyrri ár inniheldur skýrslan ítarlegar greiningar á vinnumarkaðstengdum málefnum en að þessu sinni er atvinnuþátttaka, atvinnuleysi og áhrif umönnunarbyrði á atvinnuþátttöku í sérstökum forgrunni.

Meðal helstu niðurstaða sem lesa má um í skýrslunni auk annarra eru:

  • Ísland er með mestu atvinnuþátttöku innan OECD.
  • Sérstaðan felst í að þátttaka er mikil meðal allra hópa, þ.e. kvenna, ungs fólks, eldra fólks og
    innflytjenda.
  • Atvinnuleysi er lágt og langtímaatvinnuleysi lítið.
  • Samsetning langtímaatvinnulausra eftir aldri, menntun og bakgrunni er svipuð og hjá
    atvinnulausum almennt, enginn hópur er þar í meirihluta.

Íslenskur vinnumarkaður 2025 – skýrsla Alþýðusambands Íslands um vinnumarkaðsmál 

Vel heppnað þing ASÍ-UNG

ASÍ-UNG hélt sitt 11. þing föstudaginn 17. október og var yfirskriftin að þessu sinni „Raddir ungs fólks til áhrifa  – Kraftur til breytinga“. ASÍ-UNG eru samtök ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar sem sér til þess að hagsmunamál ungra Íslendinga á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins. Birta og Sunna voru fulltrúar Framsýnar á þinginu en þær eru báðar í stjórn Framsýnar-ung.

Á þinginu var unnið öflugt málefnastarf þar sem málefni voru valin út frá stefnumótunarstarfi stjórar. Til umræðu voru málefni sem snerta ungt fólk sérstaklega; málefni fjölskyldufólks, húsnæðismál, brotastarfsemi og samgöngumál. Niðurstaða þingsins voru fjórar ályktanir, sem marka stefnu nýrrar stjórnar. Þær má lesa hér á slóðinni: https://vinnan.is/vel-heppnad-thing-asi-ung/

Hækkun vörgjalda leggst þungt á íbúa á landsbyggðinni

Framsýn hefur haft töluverðar áhyggjur af boðuðum hækkunum stjórnvalda á á vörugjöldum jarðefnaeldsneytis- og tengiltvinnbíla. Hækkanirnar komi til með að leggjast þungt á tekjulága og landsbyggðina. Þá má geta þess að þing Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Akureyri í byrjun október fjallaði um málið auk þess að álykta um áform stjórnvalda um stórfelldar hækkanir á vörugjöldum. Á mbl.is má sjá frétt um málið og viðtal við Runólf Ólafsson, formann Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB). Frétt mbl.is er eftirfarandi:

Boðuð hækkun ríkisstjórnarinnar á vörugjöldum jarðefnaeldsneytis- og tengiltvinnbíla mun leggjast þyngst á landsbyggðina og tekjulægra fólk, að mati Runólfs Ólafssonar, formanns Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).

Hann segir að hækkunin muni valda því að nýir eldsneytisbílar hækki um margar milljónir króna og að hún hafi einnig áhrif á verð notaðra bíla.

„Það má gera ráð fyrir því að notaðir eldsneytisbílar og þá sérstaklega tengiltvinnbílar muni hækka í verði, því hækkunin mun sáldrast út á markaðinn,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is. „Tekjuminni fjölskyldur eru á notaða markaðnum og þetta mun koma verr út gagnvart því fólki.“

Frétt af mbl.is

Miklar hækkanir á aðra bíla en rafmagnsbíla

Þyngri bílar algengari úti á landi

Runólfur bendir á að á landsbyggðinni sé algengara að fólk keyri á stærri og þyngri bílum. Því muni hækkun vörugjalda leggjast þyngra á íbúa utan höfuðborgarsvæðisins.

„Á landsbyggðinni eru margir háðir stærri bílum vegna aðstæðna og atvinnu. Þeir munu finna mest fyrir þessu,“ segir hann.

Efast um tekjuaukningu stjórnvalda

Hann segir jafnframt að áform stjórnvalda um að auka tekjur ríkissjóðs um allt að átta milljarða króna með hækkuninni séu óraunhæf.

„Bílaumboðin munu reyna hvað þau geta að flytja inn bíla fyrir áramót áður en vörugjöldin taka gildi,“ segir Runólfur. „Það kann að verða einhver tekjuaukning fram að áramótum en strax á næsta ári mun innflutningur dragast saman.“

Stefnt að hraðari orkuskiptum

Að sögn Runólfs er ljóst að markmið stjórnvalda með hækkuninni sé að flýta orkuskiptum með því að gera önnur ökutæki en rafbíla dýrari.

„Það er greinilega stefna stjórnvalda að fara örar í orkuskipti og það er gert með því að hækka önnur ökutæki en rafbíla. Þetta er þá neyslustýring,“ segir hann.

(Heimild mbl.is)

ASÍ gagnrýnir niðurskurð og óttast aukna verðbólgu

Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð eins og hann birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ítarlegri umsögn ASÍ um fjárlagafrumvarpið.

Niðurskurður

Vakin er í umsögninni athygli á boðuðum „hagræðingaraðgerðum“ samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

• Framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða verður afnumið.

 • Bótatímabil atvinnuleysistrygginga verður stytt um 12 mánuði og reglur um ávinnslu þrengdar.

• Fjárhæðir í barnabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur við barnafjölskyldur rýrnar að raungildi.

• Fjárhæðir í húsnæðis- og vaxtabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur vegna húsaleigu og vaxtakostnaðar rýrnar að raungildi.

 • Sérstakar aðhaldsráðstafanir upp á 3,8 milljarða í heilbrigðiskerfinu og kostnaðarþáttaka sjúklinga verður aukin.

• Lækkun á framlögum til framhaldsfræðslu og íslenskukennslu

Í umsögninni koma fram áhyggjur af horfum í efnahagsþróun og viðsnúningi í efnahagslífinu.  Með stöðugleikasamningunum árið 2024 hafi meginmarkmiðið verið að stuðla að verðstöðugleika og leggja grunn að lækkun vaxta. Þó verðbólga hafi gengið nokkuð niður frá gerð kjarasamninga sé verðbólga og raunvaxtastig enn óásættanlega hátt. Enn séu  það aðstæður á húsnæðismarkaði sem eru megindrifkraftur verðbólgu, hér þurfi stjórnvöld að grípa til aðgerða.

Þar segir:

„Stjórnvöld bera ríka ábyrgð á að stuðla að verðstöðugleika hvort sem er með opinberum fjármálum, hófsemi Í gjaldskrárhækkunum eða tryggja að kerfislægir þættir verði ekki til þess að ýta undir verðbólgu. Þar má nefna miklar hækkanir á raforkuverði til bæði heimila og fyrirtækja. Jafnframt er tilefni til að gagnrýna sveitarfélög fyrir að standa ekki við gefin loforð við gerð kjarasamninga um að halda gjaldskrárhækkunum Í hófi og tryggja framboð byggingarhæfra lóða.“

Skattahækkanir

Fram kemur að umfang lögfestra og ólögfestra skattbreytinga nemi 27,9 milljörðum á árinu 2026. Þar vegi þyngst breyting á veiðigjöldum, breyting á kílómetragjaldi og breyting á heimild til samnýtingar skattþrepa.

Alþýðusambandið hefur áður veitt umsögn og gert margvíslegar athugasemdir um kílómetragjaldið á fyrra löggjafarþingi. ASÍ telur ástæðu til að óttast að kílómetragjaldið ýti undir verðbólgu:

„Stjórnvöld ganga út frá því að olíufélög lækki verð til samræmis við afnám gjalda. Slíkt er ekki fast í hendi, og virðast stjórnvöld ekki hafa nein áform um að fylgja eftir eða vakta hvort það raungerist. Alþýðusambandið hefur að undanförnu fjallað um verðþróun á eldsneyti og bent á að styrking gengis krónunnar og hagfelldara heimsmarkaðsverð hafi ekki komið fram að fullu í lægra smásöluverði á eldsneyti. Í nýlegri greiningu Alþýðusambands Íslands er afnám eldsneytisgjalda sett í samhengi við stöðu samkeppni á eldsneytismarkaði. Í greininni er bent á að heildarkostnaður neytenda geti við breytingarnar hækkað þar sem samkeppni sé ekki að fullu virk á eldsneytismarkaði.“

Sparað með breyttum atvinnuleysistyggingum

Í umsögninni er einnig að finna gagnrýni vegna samráðsleysis í tengslum við breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þar segir:

„Alþýðusambandið tekur undir mikilvægi þess að atvinnuleysistryggingakerfið stuðli að virkni atvinnuleitenda og endurkomu á vinnumarkað en bendir á að Vinnumálastofnun hefur ríkar heimildir til þess að beita virkum vinnumarkaðsaðgerðum, starfrækja vinnumiðlun og stuðla að virkni atvinnuleitenda. Að mati ASÍ hefur of litlum fjármunum verið varið í slík úrræði og of lágt hlutfall atvinnuleitenda að jafnaði staðið til boða þátttaka í úrræðum. Samhliða breytingunum er ekki áformað að auka fjármagn til vinnumarkaðsúrræða, er því um að ræða hreina sparnaðartillögu.“

Umsögn ASÍ í heild má nálgast hér.

Þing ASÍ-UNG stendur yfir í dag

11. þing ASÍ-UNG fer fram í Reykjavík í dag, föstudaginn 17. október 2025. Þingið ber yfirskriftina „Leið ungliða til áhrifa“ og mun dagskrá þingsins taka mið af því auk venjubundinna þingstarfa.

Framsýn er með tvo öfluga fulltrúa á þinginu, það eru þær Sunna Torfadóttir og Birta G. Amlin Sigmarsdóttir.

Dagskrá fyrir 11. þing ASÍ-UNG 2025

  • 12:00   Skráning og hádegisverður
  • 12:30   Þingsetning
  • 12:35   Ávarp – forseti ASÍ
  • 12:45   Kynning á ASÍ-UNG
  • 13:00   Skýrsla stjórnar
  • 13:15   Kynning á málefnavinnu
  • 13:30   Málefnavinna
  • 14:30   Kaffihlé
  • 14:45   Áframhaldandi málefnavinna
  • 15:45   Niðurstöður málefnavinnu kynntar
  • 16:15   Kaffihlé
  • 16:30   Kynning á frambjóðendum*
  • 16:45   Tillögur ef einhverjar eru – Umræður og kosningar
  • 17:15   Samþykktarbreytingar ef einhverjar eru – Umræður og kosningar
  • 17:30   Önnur mál
  • 17:45   Ályktun þings ASÍ-UNG
  • 18:00   Þingslit

*Stjórnarkjör fer fram samhliða þingdagskrá 

Tillögur starfshóps um atvinnumál á Húsavík kynntar rétt í þessu

Forsætisráðherra skipaði fyrr í sumar starfshóp með fulltrúum fimm ráðuneyta vegna stöðunnar sem upp er komin vegna tímabundinnar rekstrarstöðvunar kísilvers PCC á Bakka. Starfshópurinn hafði það hlutverk að kortleggja stöðu atvinnumála á Húsavík og nágrenni vegna tilkynninga um mögulega rekstrarstöðvun kísilvers PCC á Bakka. Starfshópnum var einnig ætlað að koma með tillögur að mögulegum viðbrögðum stjórnvalda til bæði skemmri og lengri tíma með hliðsjón af ólíkum sviðsmyndum. Starfshópurinn skilaði skýrslu frá sér í morgun til ríkistjórnarinnar auk þess að gera fulltrúum Norðurþings, PCC og stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslunnar á fundum fyrir hádegi, fundinum með fulltrúm stéttarfélaganna, Þingiðnar og Framsýnar, lauk rétt fyrir kl. 12:00. Hér má nálgast skýrsluna: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/10/17/Mikil-taekifaeri-til-ad-byggja-upp-starfsemi-a-Bakka/

Þungar áhyggjur af atvinnuástandi á Húsavík

Í ályktun ASÍ sem var að berast er lýst yfir miklum áhyggjum af atvinnuástandinu í Þingeyjarsýslum og skorað á stjórnvöld að koma að málinu af fullum krafti. Framsýn og Þingiðn fagna þessum stuðningi. Ályktunin er eftirfarandi:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum miðvikudaginn 15. október:

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af atvinnuástandi á Húsavík og nágrenni vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka.

Miðstjórn hvetur stjórnvöld til að bregðast við hið fyrst þannig að unnt verði að hefja rekstur fyrirtækisins á ný. Í því efni skiptir mestu að rekstrarumhverfi PCC verði bætt með beinskeyttum aðgerðum.

Miðstjórn leggur áherslu á að stöðvun reksturs PCC má einkum rekja til erfiðleika á mörkuðum og röskunar þeirra vegna tollastríðs. Þá er samkeppnisstaða gagnvart Kína erfið þar sem verkafólk sem engra réttinda nýtur og býr við ömurleg launakjör og aðbúnað framleiðir ódýran kísilmálm í miklu magni.

Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum. Afleidd störf af starfseminni skipta hundruðum.

Lokun verksmiðjunnar, sem er ein hin fullkomnasta í heiminum, er mikið áfall fyrir atvinnulíf á Norðurlandi og alvarlegra áhrifa er þegar tekið að gæta.

Miðstjórn ASÍ ítrekar því ákall sitt til stjórnvalda um að brugðist verði við hið fyrsta þar sem gífurlegir hagsmunir eru í húfi, jafnt fyrir atvinnulíf á Norðurlandi sem þjóðarbúið sjálft.“

Í stöðugu sambandi

Forsvarsmenn Framsýnar og PCC á Bakka eru nánast í daglegu sambandi vegna stöðunnar á Bakka nú þegar starfsemi fyrirtækisins liggur niðri. Markmið aðila er að eiga gott samstarf um málefni verksmiðjunnar og hugsanleg úrræði í fullu samráði við aðra hagsmunaaðila. Hvað það varðar kom Framsýn á fundi með framkvæmdastjóra PCC og forseta Alþýðusambands Íslands á dögunum enda mikilvægt að sambandið sé inn í málinu. Á meðfylgjandi mynd eru Kári M. Guðmundsson forstjóri PCC og Aðalsteinn Ári Baldursson formaður Framsýnar að velta fyrir sér stöðunni en ekkert nýtt er að frétta hvað varðar starfsemi PCC á Bakka.

Hér er ekki töluð vitleysan!

Okkar besti maður, Björgvin Sigurðsson, söngvari Skálmaldar leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna en hann er félagsmaður í Framsýn eins og margir aðrir góðir tónlistarmenn enda best að vera í Framsýn. Þar hitti hann fyrir Alla starfsmann stéttarfélaganna sem er mikill aðdáandi Skálmaldar og þungarokks almennt enda fer hann reglulega á tónleika þar sem bestu þungrokkshljómsveitir heims koma fram. Ekki er ólíklegt að þeir hafi verið að tala um þungarokk í stað þess að tala um verkalýðsmál þegar myndin var tekin. Í það minnsta eru þeir hressir að sjá.

Lokahönd lögð á vel heppnað viðhaldsstopp á Þeistareykjastöð

Rekstrar- og viðhaldsteymi á Mývatnssvæði lagði lokahönd á afréttingu á vél nr. 2 eftir umfangsmikla vélarupptekt. Um er að ræða nákvæmisvinnu þar sem rafali og hverfill eru stilltir saman með mikilli nákvæmni. Staðsetning þarf að vera innan við 3/100 mm bæði í radial og axial áttum.

Slík vinna er lykilatriði í öruggum og áreiðanlegum rekstri og krefst góðs skipulags, reynslu og samstilltrar teymisvinnu. (Frétt- Landvirkjun : Myndir- Stefán Stefánsson)

Byggða- og atvinnumál til umræðu á þingi SGS

Eins og fram hefur komið á síðunni urðu töluverðar umræður um byggða- og atvinnumál á þingi SGS fyrir helgina. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á þinginu:

„10. þing Starfsgreinasambands Íslands skorar á stjórnvöld að standa vörð um landsbyggðina, sem er einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs og samfélags. Landsbyggðin skapar stóran hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar með framleiðslu, útflutningi og nýtingu auðlinda. Gjaldeyristekjur, sem þannig verða til, standa að mestu undir velferðarkerfi Íslendinga. 

Starfsgreinasamband Íslands krefst þess að eðlilegur hlutur af þeim verðmætum sem landsbyggðin skapar skili sér aftur heim í hérað. Verðmætin verði notuð til:

• að gera íbúum á landsbyggðinni kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í mun meira mæli í heimabyggð. Stórfelldar tækniframfarir hafa orðið sem gera fjarlækningar mögulegar hvar sem fólk býr á landinu og tæknina þarf að nýta mun betur en gert er.

• að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag með stórauknum framlögum vegna ferða- og dvalarkostnaðar sjúklinga sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fjarri heimabyggð. Jafnframt verði komið til móts við aðstandendur sem þurfa að fylgja sjúklingum með þátttöku í kostnaði þeirra. Þá er brýnt að komið verði upp aðgengilegu húsnæði fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra sem þurfa að dvelja í nánd við heilbrigðisstofnanir af heilsufarslegum ástæðum, fjarri heimabyggð.

• uppbyggingar og viðhalds vega, flugvalla og annarra samgangna s.s. á sjó. Þá verði ráðist í frekari jarðgangnagerð. Góðar samgöngur eru forsendan fyrir að byggð og gott mannlíf þrífist sem víðast um landið.  

• eflingar félagslegrar þjónustu og atvinnuuppbyggingar í hinum dreifðu byggðum landsins. • að jafna aðgengi fólks að menntun, ekki síst á framhalds- og háskólastigi. 

• að tryggja aðgengi landsbyggðarinnar að opinberri þjónustu, fjarskiptum og raforku á viðráðanlegu verði til húshitunar á köldum svæðum sem og til atvinnurekstrar. Kallað er eftir því að allir landsmenn sitji við sama borð hvað auðlindirnar varðar og greiði sambærilegt verð fyrir rafmagn, heitt og kalt vatn sem og aðra orkugjafa.

Þá er grundvallaratriði að íbúar landsbyggðarinnar njóti sömu lífsgæða og tækifæra og íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Jafnvægi í byggðaþróun er forsenda samstöðu og samfélagslegrar sáttar í landinu. Í því samhengi hefur SGS þungar áhyggjur af fyrirhugaðri upptöku kílómetragjalds á ökutæki. Með breytingunum er vegið að búsetuskilyrðum á landsbyggðinni, álögur á akstur auknar og hætta á að fyrirtæki fleyti hækkunum beint í verðlag á vörur og flutninga. SGS telur ótækt að stjórnvöld ætli sér í blindni að treysta olíufélögum til að afnema gjöld á eldsneyti á móti kílómetragjaldi og hafi engin áform um að tryggja að slíkt raungerist. 

Starfsgreinasamband Íslands minnir á að án sterkrar landsbyggðar veikist bæði efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar. Stjórnvöld verða því að tryggja að arðurinn af auðlindum og útflutningi nýtist öllum landsmönnum, ekki síst þeim samfélögum sem skapa verðmætin.“

Fullur stuðningur SGS við starfsemi PCC á Bakka

Á þingi Starfsgreinasambandsins fyrir helgina urðu miklar umræður um byggða- og atvinnumál. Meðal annars urðu umræður um stöðu PCC sem undanfarna mánuði hefur sagt upp yfir 100 starfsmönnum þar sem starfsemi fyrirtækisins liggur niðri um þessar mundir. Þá hefur einnig komið til uppsagna hjá undirverktökum sem hafa séð um ákveðna verkþætti á vegum PCC. Eftir málefnalegar umræður var eftirfarandi ályktun um stöðu PCC á Bakka samþykkt samhljóða:

„10. þing Starfsgreinasambands Íslands kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málefnum PCC Bakki Silicon hf. við Húsavík.

Afar mikilvægt er að stjórnvöld komi að málinu að fullum krafti með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu. Ákvörðun um að stöðva framleiðsluna byggir ekki síst á erfiðleikum á mörkuðum fyrir kísilmálm og röskunum á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs. Þá bætir fríverslunarsamningur Íslands við Kína ekki samkeppnisstöðu PCC þar sem ódýr kísilmálmur flæðir yfir frá Kína til Evrópu sem unninn er af verkafólki þar sem mannréttindi, launakjör og aðbúnaður verkafólks eru fótum troðin. 

Lokun PCC er þegar farin að hafa veruleg áhrif enda um að ræða fjölmennan vinnustað á Norðurlandi auk þess sem fjöldi undirverktaka hefur treyst á starfsemi fyrirtækisins. Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum, það er fyrir utan afleidd störf sem telja hundruðir starfa til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikla áherslu á að skipta við verslunar- og þjónustuaðila í nærsamfélaginu auk þess að styðja myndarlega við æskulýðs- og íþróttastarfsemi sem er hverju byggðalagi mjög mikilvægt.

Takist ekki að tryggja rekstrarumhverfi PCC, sem er ein fullkomnasta kísilmálmverksmiðja í heiminum, keyrð á grænni orku, mun það hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér fyrir atvinnulífið á Norðurlandi og víðar auk þess sem Ísland verður af gjaldeyristekjum. Því er ekki í boði fyrir íslensk stjórnvöld að sitja aðgerðarlaus hjá, núverandi staða kallar á aðgerðir strax.“

10. þingi Starfsgreinasambandsins lokið

10. þing Starfsgreinasambands Íslands fór fram fyrir helgina en það var haldið á Akureyri. Þing sambandsins eru haldin á tveggja ára fresti. Samþykktar voru sjö ályktanir um byggðamál, starfsemi PCC á Bakka, húsnæðismál, kjaramál, leikskólamál, lífeyrismál og starfsemi erlenda vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér á landi. Allar ályktanir og afgreidd mál þingsins má nálgast á þingvef SGS.

Vilhjálmur Birgisson (Verkalýðsfélagi Akraness) var einn í framboði til formanns SGS og var hann sjálfkjörin í embættið til næstu tveggja ára.

Vilhjálmur þakkaði í ræðu sinni kærlega fyrir það traust sem honum var sýnt til að leiða sambandið til næstu tveggja ára. Þá sagði hann: „hvorki stjórnvöld né atvinnurekendur geta hunsað okkur ef við stöndum saman sem eitt afl. Ég hef setið mörg þingin í áranna rás og hef í raun aldrei fundið fyrir jafnmikilli samstöðu og nú, en samt krafti og það skiptir öllu máli“.

Guðbjörg Kristmundsdóttir (VSFK) var einnig ein í framboði til varaformanns og var sömuleiðis sjálfkjörin. Þá voru sjö í framboði sem aðalmenn í framkvæmdastjórn til tveggja ára og voru eftirtaldir kosnir:

Aðalsteinn Árni Baldursson, Framsýn stéttarfélag

Tryggvi Jóhannsson, Eining-Iðja

Silja Eyrún Steingrímsdóttir, Stéttafélagi Vesturlands

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, AFL starfsgreinafélag

Guðrún Elín Pálsdóttir, Verkalýðsfélagi Suðurlands

Eyþór Þ Árnason, Hlíf

Þórarinn Sverrisson, Aldan

Sem varamenn í framkvæmdastjórn hlutu eftirtaldir kosningu:

Birkir Snær Guðjónsson, AFL starfsgreinafélag

Hörður Guðbrandsson, Verkalýðsfélagi Grindavíkur

Hrund Karlsdóttir, Verkalýðs og sjómannafélag Bolungarvíkur

Sigurey A. Ólafsdóttir, Stéttarfélagið Samstaða

Alma Pálmadóttir, Hlíf

Umræður um byggðamál og lífeyrismál voru áberandi á þinginu. Hvað lífeyrissjóðsmálin varðar eru gríðarlegir miklir hagsmunir í húfi fyrir verkafólk í landinu, þá sérstaklega niðurfelling á opinberu jöfnunarframlagi sem bitnar helst á verkamannasjóðum sem hafa mun hærri örorkubyrði en aðrir lífeyrissjóðir.

Unnið að lagfæringum í fallegu haustveðri

Um þessar mundir er unnið að því að skipta um glugga á norðurhliðinni á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík þar sem önnur fyrirtæki og stofnanir eru einnig til húsa. Það eru smiðirnir kampakátu, Þorvaldur og Bjarni, sem sjá um framkvæmdina en gluggarnir voru orðnir frekar lélegir enda áveðurs. Skrifstofuhúsnæðið var málað í sumar og verður því í góðu standi þegar búið verður að skipta um gluggana á næstu dögum enda afar mikilvægt að halda eigninni vel við á hverjum tíma.

Vilja skipta um íbúð

Stjórn Starfsmannafélags Húsavíkur hefur ákveðið að selja orlofsíbúð félagsins í Sólheimum í Reykjavík og kaupa þess í stað aðra nýlegri íbúð, hugsanlega í Þorrasölum þar sem Þingiðn og Framsýn eiga fyrir sex íbúðir. Aðalfundur félagsins hafði áður ákveðið að ráðast í það að selja íbúðina og kaupa nýja. Samið hefur verið við fasteignasölu um að sjá um söluna.

Skrifað undir í dag

Fulltrúar frá Fjallalambi og Framsýn skrifuðu í dag undir sérkjarasamning vegna sauðfjárslátrunar haustið 2025 sem þegar er hafin á Kópaskeri. Reiknað er með að slátrað verði um 24 til 25 þúsund fjár. Áætlað er að sláturtíðin standi yfir í 6 vikur. Um 60 starfsmenn, sem koma frá nokkrum þjóðlöndum, starfa hjá fyrirtækinu í sláturtíðinni.   

Fulltrúar Framsýnar á leiðinni á þing

10. þing Starfsgreinasambands Íslands fer fram dagana 8.-10. október næstkomandi í Hofi, Akureyri. Þingið hefur æðsta vald í málefnum sambandsins og þar eru lagðar línurnar í kjaramálum og starfsemi sambandsins til næstu tveggja ára. Á þingið í ár mæta alls 135 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum sambandsins. Framsýn á rétt á 7 þingfulltrúum.

Dagskrá þingsins verður með hefðbundnu sniði en öll helstu gögn og upplýsingar um þingið eru aðgengilegar á sérstökum þingvef.