Konur þjóðveganna

Í gegnum tíðina hefur Eimskip rekið mjög öfluga aksturdeild á Húsavík og hafa margir magnaðir bílstjórar starfað hjá fyrirtækinu, nægir þar að nefna höfðingjana Gulla Sveinbjörns og Bjarna Sveins sem hætti fyrir nokkrum árum eftir áratuga akstur flutningabíla milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Eins og kunnugt er, þá er bílstjórastarfið bæði gefandi og krefjandi starf. Lengst af hefur verið um að ræða karlæg störf, en sem betur fer, hefur það verið að breytast á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna, þá hafa væntanlega aldrei verið fleiri konur við störf hjá akstursdeild Eimskips á Húsavík en um þessar mundir. Í dag starfa þrjár konur hjá fyrirtækinu við akstur á stórum og öflugum flutningabílum. Þetta eru þær, Alice, Susanna og Aðalbjörg talið frá vinstri á meðfylgjandi mynd. Til viðbótar má geta þess að Susanna er fyrsta konan sem ráðin er sem bílstjóri á flutningabíla hjá Eimskip á Húsavík. Þekkt er að flutningabílstjórar eru duglegir við að skreyta bílstjóraklefann í sínum anda og þá má oftar en ekki sjá nafn viðkomandi bílstjóra við framrúðuna þegar þeir keyra um þjóðvegi landsins. Ekki er ólíklegt að með tilkomu fleiri kvenna í stéttinni eigi skreytingarnar í bílstjóraklefanum eftir að taka kvenlegum breytingum í anda þess sem situr undir stýri á hverjum tíma.

Endalaust líf við höfnina

Hvalaskoðunarferðir frá Húsavík hafa almennt gengið vel í sumar enda mikið verið um ferðamenn á svæðinu sem sóst hafa eftir því að komast í skoðunarferðir. Meðfylgjandi myndir voru teknar um helgina þegar farþegar voru að ganga um borð í hvalaskoðunarbátinn Vin sem er nýjasti báturinn í flotanum sem siglir með farþega um Skjálfandann en mikið hefur verið um hval og lunda í flóanum í sumar.

Kalla eftir svörum frá Samherja

Framsýn hefur kallað eftir upplýsingum frá Samherja um áform fyrirtækisins varðandi frekari rekstur fiskþurrkunar að Laugum í Reykjadal, um er að ræða fjölmennan vinnustað. Vitað er að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fylgist jafnframt grannt með þróun mála enda miklir hagsmunir í húfi fyrir sveitarfélagið. Eðlilega hafa starfsmenn fyrirtækisins áhyggjur af stöðunni enda störf þeirra undir. Fyrir liggur að auknar kröfur hafa verið gerðar til mengunarvara og vöktunar en vinnslan er á viðkvæmu svæði. Ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar aðgerðir til að bæta úr hvað mengunarvarnir varðar. Framsýn treystir því að Samherji leiti allra leiða til að tryggja reksturinn til framtíðar. Framsýn mun fylgja málinu eftir en starfsemi fyrirtækisins liggur niðri um þessar mundir vegna sumarleyfa starfsmanna.

Örfá sæti laus í smarferðina í Flateyjardal

Vegna forfalla eru örfá sæti laus í sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal, laugardaginn 9. ágúst. Farið verður frá Skrifstofu stéttarfélaganna kl. 09:00. Um er að ræða dagsferð undir leiðsögn Óskar Helgadóttur, sem er svæðinu þar ytra vel kunnug. Ferðin er opin félagsmönnum og gestum þeirra og ætti að vera við flestra hæfi. Þátttökugjaldið er kr. 5.000,-. Menn þurfa sjálfir að nesta sig í ferðina, en grillað verður í ferðinni í boði stéttarfélaganna. Hægt er að skrá sig í ferðina með því að senda póst á netfangið kuti@framsyn.is. Fyrstir koma – fyrstir fá.

Stéttarfélögin

Formaður at­vinnu­vega­nefndar leit við

Sig­ur­jón Þórðar­son, þingmaður Flokks fólks­ins og formaður at­vinnu­vega­nefndar Alþingis leit við hjá formanni Framsýnar í morgun. Eins og fram hefur komið eru blikur á lofti í atvinnumálum Þingeyinga, nú eftir að PCC tók ákvörðun að stöðva framleiðsluna, vonandi tímabundið. Önnur mál voru einnig tekin til umræðu sem varða samfélagið hér á norðausturhorninu.  

Burt með mismunun – ný vefsíða

Mismunun á vinnumarkaði getur átt sér ýmsar ólíkar birtingarmyndir og það getur reynst dýrmætt að vera upplýst/ur um þessar ólíku birtingarmyndir til að geta brugðist við aðstæðum á viðeigandi hátt. Mikilvægt er að muna að mismunun á aldrei að líðast og er þar að auki ólögleg, bæði á vinnumarkaði og í daglegu lífi. Þetta á við um mismunun á grundvelli kyns, kynsþáttar, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, þjóðernisuppruna, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.

Jafnréttisstofa hefur sett inn upplýsingar á íslensku og ensku á heimasíðuna sína þar sem einstaklingar geta kynnt sér nánar hvað felst í banni við mismunun samkvæmt jafnréttislögum ásamt því að geta leitað aðstoðar hjá ráðgjöfum Jafnréttisstofu á einfaldan hátt. Þar má einnig finna upplýsingar um kærunefnd jafnréttismála en hafa ber í huga að hægt er að leita til hennar í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna.

Síðuna má nálgast hér.

Félagsmaður Framsýnar lagði VHE í héraðsdómi

Fyrr á þessu ári leitaði félagsmaður Framsýnar sem starfað hefur hjá VHE í Hafnarfirði til félagsins þar sem honum var sagt upp störfum fyrirvaralaust og gert að yfirgefa vinnustaðinn án launa á uppsagnarfresti. Taldi starfsmaðurinn brotið á sínum kjarasamningsbundnu réttindum. Framsýn tók við boltanum og mótmælti þessum vinnubrögðum fyrirtækisins harðlega. VHE neitaði að verða við kröfu Framsýnar um að greiða starfsmanninum laun á uppsagnarfrestinum, en Framsýn lagði mikla áherslu á að ljúka málinu með sátt. Í ljósi þess að lítið fór fyrir samningsvilja hjá fyrirtækinu óskaði Framsýn eftir aðkomu lögmanns félagsins að málinu. Því miður skilaði það ekki tilætluðum árangri, það er að ljúka málinu, án þess að fara með það fyrir dómstóla. Lögmaðurinn höfðaði því mál á hendur VHE fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Til að gera langa sögu stutta þá vann félagsmaðurinn málið. Fyrirtækinu var gert að greiða honum 1.735.254 krónur í vangreidd laun, 1.200.000 krónur í miskabætur, dráttarvexti og 2.232.000 krónur í málskostnað til Framsýnar. VHE hefði því betur samið strax í stað þess að ráðast í þessa eyðimerkurgöngu með tilheyrandi kostnaði. Rétt er að taka fram að VHE hefur 4 vikur til að ákveða hvort fyrirtækið áfrýi niðurstöðunni til Landsréttar. (Myndin tengist ekki fréttinni)

Launamaður eða verktaki?

Það er mikill munur á því að vera launamaður eða verktaki og mikilvægt að fólk átti sig á í hverju munurinn felst. Sem launamaður ertu með ráðningasamning og safnar réttindum á vinnumarkaði, atvinnurekandinn sér um að greiða af þér skatta og þess háttar og þú ert varinn af lögum sem launamaður. Ef þú ert verktaki ertu í raun að selja þjónustu og þú átt í viðskiptum án þess að njóta réttinda sem launamaður eða ávinna þér slíkt. Því miður er þessu stundum ruglað saman og launamönnum boðið uppá að vera verktakar. 

Þú ert launamaður ef þú vinnur undir verkstjórn annarra og ert í fastri vinnu. 

Þú ert verktaki ef þú gerir samning um einstaka verk sem þú ræður hver vinnur og hvernig. Samið er um greiðslu fyrir verkefnið en þú átt atvinnutækin sjálf/ur og getur ráðið aðra til að sinna verkinu. Þú ert fjárhagslega ábyrg/ur fyrir verkefninu sjálf/ur 

Ef þú ert verktaki

  • Ertu ekki varinn af kjarasamningum þegar kemur að til dæmis lágmarkslaunum
  • Hefurðu ekki uppsagnarfrest
  • Safnarðu ekki orlofi og getur því ekki tekið frí á launum
  • Færðu ekki greitt í veikindum
  • Safnarðu ekki sjálfkrafa í lífeyrissjóð
  • Ertu ekki slysatryggð/ur gegnum atvinnurekendur
  • Þarftu sjálf/ur að skila tryggingagjaldi, mótframlagi í lífeyrissjóð, slysatryggja þig o.s.frv. 

Passaðu uppá réttindi þín! Gerviverktaka er ólögleg og skerðir réttindi almenns launafólks! 

Sjá nánar á heimasíðu ASÍ

Til umhugsunar – Orlof og streita

Við viljum flest taka gott sumarfrí og njótum þess að skipuleggja fríið og láta okkur dreyma.

Það er ómetanlegt að hafa eitthvað að hlakka til, að upplifa nýja hluti, slaka á og njóta okkar á eigin hraða án mikilla skuldbindinga.

Frí hafa jákvæð áharif á heilsu okkar og vellíðan, en svo er spurning hve lengi áhrifin vara eftir að heim er komið.

Hvernig tökum við gott frí þannig að við komum úthvíld og vel upplögð til starfa á nýjan leik?

Sjá nokkur góð ráð á velvirk.is

Ragnar byggir og byggir

Ragnar Hjaltested byggingaverktaki hefur hafið byggingu á íbúðarhúsnæði/fjórbýli á Húsavík og bílskúrum/geymslum. Tvær íbúðir verða með bílskúrum samtals um148 m2 og tvær með góðum geymsluskúrum samtals um 112 m2. Um er að ræða mjög vandaðar og flottar íbúðir. Þegar meðfylgjandi mynd var tekin í gær var verið að reisa bílskúra og geymslur við húsið. Fljótlega verður byrjað á húsinu sjálfu sem verður á tveimur hæðum. Hugur Ragnars stendur til þess að byggja fleiri svona hús enda gangi vel að selja þessar íbúðir. Þess má geta að Ragnar byggði parhús fyrir Þingiðn og Framsýn á síðasta ári sem er vandað  í alla staði og afar vinsælt meðal félagsmanna stéttarfélaganna enda í stanslausri útleigu. 

Fundað með landvörðum

Formaður Framsýnar fundaði í gær með Landvörðum í Vatnajökulsþjóðgarði. Fundurinn fór fram í Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Vel á þriðja tug starfsmanna starfa við landvörslu og tilfallandi störf í Þjóðgarðinum. Fundurinn var ánægjulegur í alla staði en um þessar mundir er unnið að því að endurnýja stofnanasamning Starfsgreinasambands Íslands og Náttúrustofnunnar vegna landvarða. Framsýn á aðild að þeim viðræðum fyrir félagsmenn sem starfa við landvörslu á félagssvæðinu. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar er í samninganefnd SGS og gat því gert starfsmönnum grein fyrir stöðu mála.

Líf við höfnina á Raufarhöfn

Í sumar er von á nokkrum skemmtiferðaskipum til Raufarhafnar sem er afar ánægjulegt enda mikilvægt að efla ferðaþjónustuna á svæðinu sem hefur upp á svo margt að bjóða, ekki síst fallegt bæjarstæði, náttúruperlur og sjálft Heimskautsgerðið. Gunnar Páll Baldursson lánaði okkur þessa mynd sem tekin var nýlega.

„We look for Botnsvatn – we want to find bird – lundi!“

Það er alltaf eitthvað óvænt og skemmtilegt sem gerist á Skrifstofu stéttarfélaganna sem færir starfsmönnum bæði gleði og bros á vör.

Í morgun komu erlendir ferðamenn inn á skrifstofuna og lögðu fram eftirfarandi spurningu;
„We look for Botnsvatn – we want to find bird – lundi!“

Starfsfólkið tók þeim að sjálfsögðu með opnum örmum og skoðaði kortið. Fljótlega kom í ljós að þeir voru óvart á leið í átt að Nettó, ekki að Botnsvatni, sannarlega ekki í átt að heimkynnum lunda. Þegar leiðrétting hafði verið gerð með brosi á vör og útskýringum, kviknaði önnur spurning:

„Swim puffins in lake?“

Varð okkur ljóst að um stóran misskilning væri um að ræða. Við útskýrðum að lundi – okkar ástsæli sjófugl – verpti í bjargbrúnum við sjóinn, ekki við stöðuvötn á norðanverðu landinu. Ferðamennirnir tóku upplýsingunum með jafnaðargeði, þó greinilegt væri að vonbrigðin væru töluverð – þeir höfðu greinilega ímyndað sér lunda synda um Botnsvatn líkt og andapör á Búðaránni.

Að lokum kvöddu þeir með hlýjum kveðjum, myndavélar í hönd og kannski smá von í hjarta – um að rekast á lunda í bænum. Í það minnsta sögðust ferðamennirnir hafa fengið upplýsingar um Lundabyggð við Botnsvatn. Hver veit nema blessað fólkið hafi ekki trúað starfsmönnum stéttarfélaganna og séu nú á leið upp að Botnsvatni til að skoða Lundabyggðina.

Mývatnssveitin er æði

Það vita flestir að Mývatnssveitin er æði ekki síst fyrir sína dásamlegu fegurð, jarðböðin og góða veitingastaði. Þá eru hótel og gististaðir nánast á hverju strái sem njóta mikilla vinsælda. Meðfylgjandi mynd er tekin á veitingastaðnum Fish & Chips í Mývatnssveit á dögunum en þar var löng bið eftir þessum þekkta skyndibita sem er þekktur um heim allan. Það er fiskur með frönskum.

STH semur við FSH

Í dag var gengið frá nýjum stofnanasamningi við Framhaldsskólann á Húsavík, það er fyrir félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur sem starfa við skólann. Samningurinn er aðgengilegur á heimasíðu stéttarfélaganna.

SGS óskar eftir framkvæmdastjóra

Starfsgreinasamband Íslands óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf framkvæmdastjóra. Um er að ræða afar fjölbreytt og krefjandi starf. Til fróðleiks má geta þess að Framsýn á aðild að sambandinu.

Starfssvið:

  • Stjórnun og ábyrgð á daglegum rekstri
  • Stefnumótun og framkvæmd ákvarðana
  • Umsjón með gerð og túlkun kjarasamninga
  • Umsjón með kynningarstarfi, útgáfu og samskiptum við fjölmiðla
  • Skipulagning samráðs og samstarfs aðildarfélaga
  • Samskipti við innlend og erlend aðildarfélög

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun og reynsla sem nýtist í starfi
  • Reynsla af stjórnun og rekstri
  • Reynsla og þekking á málefnum stéttarfélaga og kjarasamningum
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogahæfileikar
  • Hæfni til að miðla upplýsingum í ræðu og riti
  • Góð greiningar- og skipulagshæfni
  • Góð kunnátta í íslensku, ensku og einu norðurlandamáli

Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ og samanstendur af 18 stéttarfélögum verkafólks með um 44 þúsund félagsmenn. Hlutverk sambandsins er að styðja og styrkja aðildarfélögin í þeirra starfi og hagsmunabaráttu félagsmanna þeirra. Skrifstofa sambandsins er í Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík.

Umsóknarfrestur er til og með 13. júlí nk. Umsækjendur eru vinsamlega beðnir um að sækja um hér.

Umsókninni þarf að fylgja ýtarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Fiskifélag Íslands, 1911-2025.

Fiskifélagi Íslands var formlega slitið á aðalfundi félagsins í Reykjavík þann 24. júní síðastliðinn. Fundurinn var haldinn á Hilton Reykjavik Nordica.

Fiskifélagið á sér merka sögu sem er samofin sögu íslensks sjávarútvegs á 20. öld.  Félagið var stofnað 20. febrúar 1911 með það að  markmiðiði  að efla fiskveiðar Íslendinga. Félaginu voru ætluð margþáttuð verkefni; aðfylgjast með tækninýjungum í veiðum og vinnslu, efla vöruvöndun og miðlun þekkingar til sjómanna, landvinnslufólks og almennings; bæta öryggi sjómanna, styrkja efnilega einstaklinga til menntunar, rannsaka fiskistofna og standa almennt vörð um hagsmuni þeirra sem áttu sitt undir sjávarútvegi.

Innan félagsins störfuðu Fiskifélagsdeildir sem staðsettar voru víðsvegar um landið. Deildirnar völdu fulltrúa á Fiskiþing félagsins sem alla jafna stóðu í nokkra daga í senn, en þingin voru mikilvægur þáttur í starfsemi Fiskifélagsins í áratugi. Á þingunum voru rædd málefni sjávarútvegsins og ályktanir samþykktar sem sendar voru stjórnvöldum. Fyrsta Fiskiþingið var haldið 1913.

Eitt af fyrstu verkum félagsins var að álykta um landhelgismál og þörf á varðskipi til að fylgjast með veiðum erlendra togara. Fram að seinna stríði beitti félagið sér í vita- og hafnamálum, kom að stofnun Slysavarnafélags Íslands ásamt Skipstjórafélaginu Öldunni og setti á fót svokölluð mótoristanámskeið sem voru einn veigamesti þátturinn í starfsemi félagsins fyrir stríð. Félagið kom sér upp vélasal og sótti fjöldi manns þessi námskeið um meðferð skipsvéla en félagið kenndi einnig stýrimannafræði og siglingafræði og hélt sjóvinnunámskeið á tímabili. Mótoristanámskeiðin voru á höndum félagsins allt til 1966 þegar þau voru flutt inn í Vélskóla Íslands.

Fiskifélagið bæði réð til sín og styrkti einstaklinga til náms og komu sumir þeirra síðar meir til starfa hjá félaginu. Þetta voru vélfræðingar, fiskifræðingar, fiskiðnaðarfræðingar osfrv. Meðal þeirra var nýútskrifaður fiskifræðingur að nafni Árni Friðriksson.Árni stundaði rannsóknir hjá félaginu 1933 til 1938 þegar atvinnudeild Háskóla Íslands var stofnuð og hann hófþar  störf Fiskifélagið sett einnig á fót Rannsóknastofu Fiskifélagsins sem árið 1965 varð að Rannsóknastofnun Fiskiðnaðarins og enn síðar hluti af Matís.

Árið 1933 flutti Fiskifélagið í eigið húsnæði sem það hafði reist á hornlóð neðst í Arnarhvolstúni (Ingólfsstræti 1).

Á þessum árum var einnig lagður grunnurinn að þeirri starfsemi sem átti eftir að verða ein viðamesta starfsemi félagsins en það var söfnun upplýsinga og gagna fyrir stjórnvöld. Árið 1925 fól Alþingi Fiskifélaginu að safna aflaskýrslum. Félagið gaf út Útveg í áratugi en þar mátti finna tölulegar upplýsingar um sjávarútveginn. Félagið gaf einnig út tímaritið Ægi og fjöldan allan af fræðsluritum og kennslubókum. Á stríðsárunum fékk félagið fleiri opinber verkefni, til að mynda utanumhald á lánveitingum ríkisins til greinarinnar og ýmsum sjóðum sem komið var á fót. Þónokkur fjöldi starfsmanna var því hjá Fiskifélaginu sem sinnti þeim verkefnum.

Fiskifélaginu tókst hins vegar aldrei að verða sú breiðfylking fyrir hagsmuni sjávarútvegsins eins og upphaflegt markmið hafði verið með stofnun þess. Á árunum eftir stríð voru sjómannafélögin mörg, auk útgerðamannafélaga og sölufélaga sem öll störfuðu hvert í sínu lagi að sínum málefnum.

Félagið hélt áfram að halda utan um gögn og skýrslur fyrir hið opinbera og rekstur sjóða. Meðal þeirra verkefna má nefna vinnslu á svörumvið fyrirspurnum frá hinu opinbera,  umsagnir um lagasetningar ogupplýsingar til alþjóðastofnana. Á sjöunda og áttunda áratugnum tók félagið virkan þátt í alþjóðasamstarfi er varðaði sjávarútveginn, fulltrúar þess sátu í íslenskum sendinefndum sem sóttu hafréttarráðstefnur í tengslum við útfærslu lögsögunnar, fundi hjá Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC), Alþjóðahafrannsóknaráðinu og ráðstefnur Mavæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO). Tæknideild var stofnuð innan félagsins sem hélt námskeið um nýjungar í skipasmíðum og veiðarfæratækni, ásamt því að veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi nýsmíðar skipa og starfaði hún við rannsóknir á véla- og tækjabúnaði skipa fram á 10. áratuginn. Á Fiskiþingum á þessum árum var rætt um kunnugleg málefni, m.a. nauðsyn þess að efla haf- og fiskirannsóknir, byggja nýtt rannsóknaskip, auka fullvinnslu afla og mennta fólk til starfa í fiskiðnaði. Deilt var um toglínur, verkefnaleysi síldarbátaflotans eftir hrun síldarinnar svo eitthavð sé talið.

Félagið hélt úti skólaskipi í samstarfi við ráðuneyti og Hafrannsóknastofnun frá 1970. Skipið var notað til kennslu, rannsókna og siglt var með grunnskólabörn út á Faxaflóann allt fram á annan áratug þessarar aldar.

Á áttunda áratugnum voru gerðar viðamiklar breytingar á félaginu en þá voru Fiskifélagsdeildir sameinaðar og þeim fækkað en 12 samtök í sjávarútvegi voru orðin aðildarfélög, hvert með sinn fulltrúa á Fiskiþingi, m.a. LÍÚ, Sjómannasambandið, Vélstjórarfélagið, Farmanna- og fiskimannasambandið, SÍF, SH, Félag skreiðarframleiðanda, tvö félög síldarsaltenda og Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda. Félaginu var skipt í fimm deildir sem allar sinntu ólíkum verkefnum, allt frá söfnun aflaskýrsla, útgáfu, hagspám, birgðaskýrslum, reikningskrifstofu sjávarútvegsins, aflatryggingasjóði og skipatækni. Á þessu áratug beitti Fiskifélagið sér einnig fyrir því að fiskeldi hefðist hér við land og réð til sín sérfræðing á þvi sviði.

Á þessum árum stóðu menn frammi fyrir versnandi ástandi helstu nytjastofna, ekki minnst þorsksins. Á Fiskiþingi 1983 er samþykkt að leggja til við stjórnvöld að veiðum ársins 1984 yrði stjórnað með kvótakerfi. Deilt var um kerfið bæði í aðdraganda þess og eftir að það var innleitt á Fiskiþingum enda aðildarfélög mörg og skoðanir skiptar. Hins vegar var ljóst að grípa þurfti til aðgerða. Fiskifélagið og þing þess höfðu mikil áhrif á stefnu stjórnvalda í þessum málum og fiskveiðistjórnunina sem tekin var upp og er grunnurinn að því kerfi sem við búum við í dag.

Á níunda og sérstaklega tíunda áratugnum tók að fjara undan Fiskifélaginu. Verkefnum þeim sem félagið hafði sinnt var komið fyrir hjá öðrum stofnunum, útgáfu var hætt, Fiskifélagsdeildirnar liðu undir lok og áhrif félagsins á málefni sjávarútvegsins fór þverrandi.Það þótti ekki lengur veraverkefni Fiskiþinga að standa að ályktunum enda félagið ekki álitið lengur samnefnari í hagsmunabaráttu gagnvart stjórnvöldum. Félagið varð að samtökum hagsmunaðila innan sjávarútvegsins og Fiskiþing urðu að málþingum þar sem tekin voru til umfjöllunar ákveðin málefni.

Í lok tíunda áratugarins hætti ríkisvaldið að styrkja   Fiskifélagiðen tekjur félagsins höfðu lengst af komið frá stjórnvöldum. Rætt var um að leggja félagið niður en af því varð ekki og var félaginu fundin ný verkefni sem væru sameiginleg sjávarútveginum sem heild. Í upphafi 21. aldarinnar seldi Fiskifélagið húseign sína að Ingólfsstræti. Verkefni á nýrri öld voru fyrst og fremst á sviði umhverfismála, vottunar, menntunar og ímyndar íslenskra sjávarafurða. Félagið hélt árlega samráðsfundi með stjórnvöldum um málefni sjávarútvegsins á alþjóðavettvangi og vann að  stofnun íslensks umhverfismerkis og rekjanleikamerkis. Síðustu árin hefur félagið verið sameiginlegur samstarfsvettvangur aðildarfélaganna og starfsemin fyrst og fremst snúist um árlegt samráð við stjórnvöld.

Umræður um framtíð félagsins hófust hjá stjórn 2023 og á aðalfundi félagsins sama ár. Þar var samþykkt að slíta félaginu en þó ekki fyrr en samstaða hefði náðst um eignir félagsins. Á aðalfundi 24. júni síðastliðinn lagði stjórn fram tillögu þar sem lagt var til að félaginu yrði slitið og eignum þess skipt á milli aðildarfélags í samræmi við fjölda aðalfundarfulltrúa. Tillagan var samþykkt og félaginu slitið.

Aðildarfélög að Fiskifélagi Íslands voru; Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Félag skipstjórnarmanna og Starfsgreinasamband Íslands. Aðildarfélögin hafa öll gefið út yfirlýsingu um ráðstöfun þeirra fjármuna sem þeim hlotnast við slitin.

Hrefna Karlsdóttir

Fyrrverandi formaður Fiskifélags Íslands.

(Heimild: Hjörtur Gíslason og Jón Hjaltason: Undir straumhvörfum. Saga Fiskifélagsins í hundrað ár 1911-2011. Akureyri 2011.)

Fiskifélagið á sér langa og merka sögu sem er samofin sögu íslensks sjávarútvegs á 20. öld.  Félagið var stofnað 20. febrúar 1911 með það að  markmiðiði  að efla fiskveiðar Íslendinga. Félaginu hefur nú verið formlega slitið. Aðildarfélög voru; Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Félag skipstjórnarmanna og Starfsgreinasamband Íslands. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar hefur um margra ára skeið fyrir stjórnarmaður í Fiskifélaginu fh. Starfsgreinasambands Íslands.

Stjórn Fiskifélagsins er fjölmenn enda kemur hún frá öllum helstu hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Myndin er tekin eftir síðasta aðalfund félagsins á dögunum sem jafnframt var slitafundur.

Áhugasamir fundarmenn hlusta á umræður á fundinum.

Hrefna stjórnarformaður sem er hér lengst til vinstri sleit Fiskifélaginu formlega.

Aðalsteinn Árni var fundarstjóri á fundinum en hann hefur til margra ára verið fenginn til að stjórna aðalfundum Fiskifélagsins.

Leiðtogar framtíðarinnar

Ungliðarnir Ingimar Knútsson og Arnór Elí Víðisson, sem báðir eru virkir í starfi Framsýnar, sátu nýlega námskeið sem ætlað er ungum og upprennandi leiðtogum. Námskeiðið var á vegum Alþýðusambands Íslands í leiðtogahæfni innan verkalýðshreyfingarinnar og nefndist „Ungir Leiðtogar.“ Námskeiðinu var ætlað að undirbúa unga þátttakendur í verkalýðshreyfingunni fyrir störf og leiðtogamennsku innan hreyfingarinnar. 

Námskeiðið var byggt upp sem þrjár lotur, staðlota í höfuðstöðvum ASÍ í Reykjavík þar sem farið var yfir starf verkalýðshreyfingarinnar og hvað það þýðir að vera leiðtogi á þessum vettvangi. 

Lota númer tvö fór fram í gegnum teams í formi fjarfunda þar sem haldið var áfram að fjalla um verkalýðshreyfinguna og undirbúningur fyrir lokalotuna í Belgíu. 

Í Belgíuferðinni var farið í heimsóknir til ETUC, ITUC og EFTA þar sem ungu leiðtogarnir fengu kynningu á helstu áherslumálum verkalýðshreyfingarinnar bæði á evrópskum og alþjóðlegum grundvelli. 

Að sögn Arnórs og Ingimars var námskeiðið í heildina mjög fræðandi og skemmtilegt. Með þeim á námskeiðinu voru ungir leiðtogar frá öðrum aðildarfélögum Alþýðusambandsins eða í heildina 13 þátttakendur. Framsýn þakkar þeim félögum fyrir að hafa tekið þátt í námskeiðinu fh. félagsins enda markmiðið að fá ungt fólk til starfa í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum Framsýnar.

Arnór Elí er trúnaðarmaður hjá Norðurþingi en þessi mynd er tekin eftir að hópur trúnaðarmanna innan stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafði lokið tveggja daga námskeiði, þar á meðal hann. Forsíðumyndin er hins vegar af Ingimari sem starfar sem trúnaðarmaður hjá PCC á Bakka.

Aukin orlofsréttur félagsmanna

Rétt er að minna á breytingar sem urðu á orlofsgreiðslum samkvæmt ákvæðum kjarasamninga þann 1. maí 2024 og 1. maí 2025 sjá nánar í grein 6.1. í ferðaþjónustusamningnum og í grein 4.1 í almenna kjarasamningnum milli SA og SGS. Kjarasamningarnir eru aðgengilegir inn á heimasíðu stéttarfélaganna, framsyn.is

  • Lágmarksorlof eru áfram 24 virkir dagar. Orlofslaun skulu vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem er fyrir dagvinnu eða yfirvinnu.
  • Þessi breyting gildir frá 1. maí 2024: Starfsmaður sem náð hefur 22 ára aldri og starfað hefur í 6 mánuði í sama fyrirtæki skal eiga rétt á orlofi í 25 daga og orlofslaunum sem nema 10,64%.  (Orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025).
  • Þessi breyting gildir frá 1. maí 2024: Starfsmaður sem unnið hefur í 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 26 virka daga og orlofslaunum sem nema 11,11%. (Orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025).
  • Þessi breyting gildir frá 1. maí 2025: Starfsmaður sem unnið hefur í 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 28 virka daga og orlofslaunum sem nema 12,07%. (Orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2026).
  • Með sama hætti öðlast starfsfólk sem unnið hefur 10 ár hjá sama fyrirtæki 30 daga orlofsrétt og 13,04% orlofslaun. Orlofsréttur reiknast frá upphafi næsta orlofsárs eftir að ofangreindum starfstíma er náð.
  • Starfsmaður sem hefur fengið aukinn orlofsrétt vegna starfa í sama fyrirtæki öðlast hann að nýju eftir þrjú ár hjá nýjum atvinnurekanda, enda hafi rétturinn verið staðreyndur.

Vilja sjá frekari uppbyggingu á vegum Bjargs á félagssvæðinu

Framsýn stéttarfélag hefur skrifað Bjargi íbúðafélagi og sveitarfélögunum Norðurþingi og Þingeyjarsveit bréf þar sem óskað er eftir frekara samstarfi hvað varðar uppbyggingu á öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu fyrir félagsmenn stéttarfélaganna í þessum tveimur sveitarfélögum. Eins og kunnugt er, voru nýlega teknar í notkun sex raðhúsaíbúðir á Húsavík en yfir 40 einstaklingar/fjölskyldur sóttu um íbúðirnar sem voru samstarfsverkefni Bjargs og Norðurþings. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er greinilega mikil vöntun á íbúðum sem þessum.

Svo það sé rifjað upp, þá er Bjarg íbúðafélag húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma.

Talsmenn Framsýnar hafa þegar átt samtöl við forsvarsmenn Norðurþings og Þingeyjarsveitar vegna málsins. Þar er mikil vilji til þess að fá Bjarg að frekari uppbyggingu á svæðinu. Hvað það varðar vinnur Framsýn að því að halda fundi á næstu vikum með aðilum málsins til að kanna áhuga þeirra á frekara samstarfi.

Formaður Framsýnar hefur átt samtöl við sveitarstjóra Norðurþings og Þingeyjarsveitar um frekari uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á svæðinu í samstarfi við Bjarg íbúðafélag. Íbúðunum er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Á meðfylgjandi mynd er Aðalsteinn Árni með Katrínu Sigurjóns sveitarstjóra Norðurþings. Forsíðumyndin er hins vegar af sveitarstjóra Þingeyjarsveitar, Ragnheiði Jónu Ingimars og formanni Framsýnar á dögunum þegar málið var til umræðu í stuttu spjalli á Reykjavíkurflugvelli, það er meðan beðið var eftir flugi norður.

Mikil ánægja er með uppbyggingu Bjargs á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Framsýn hafði frumkvæði að þessu samstarfsverkefni sem í alla staði hefur gengið afar vel.

Afar mikivægt er að menn skrái sig hjá Bjargi íbúðafélagi vilji viðkomandi komast í húsnæði á þeirra vegum á næstu árum. Þegar kemur að úthlutun er farið eftir því hvenær menn skráðu sig hjá félaginu með íbúð. Hægt er að nálgast allar upplýsingar inn á heimasíðu Bjargs, bjarg.is