Sjómannadeild Framsýnar samþykkti á aðalfundi deildarinnar í dag að færa Íþróttafélaginu Völsungi að gjöf sjónvarpstæki í félagsaðstöðuna við íþróttasvæðið á Húsavík. Fyrir liggur að aðstaðan er mikið notuð af ungum sem eldri iðkendum íþrótta á vegum Völsungs. Þá er vinsælt hjá eldri borgurum og almenningi að stunda líkamsrækt á íþróttasvæðinu með aðgengi að félagsaðstöðunni. Það kemur sér því afar vel fyrir alla aldurshópa að aðstaðan sé vel búin tækjum til afþreyingar og heilsubótar. Jónas Halldór Friðriksson framkvæmdastjóri Völsungs er hér með stjórnarmönnum í Sjómannadeild Framsýnar við afhendinguna á gjöfinni í dag.
Völsungur heldur úti mjög öflugu starfi í þágu allra aldurshópa.
Megn óánægja kom fram á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar í dag með ákvörðun stjórnvalda um að falla frá lögum um samsköttun hjóna og sambúðarfólks. Fundurinn samþykkti samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun:
Ályktun -Samsköttun hjóna og sambúðarfólks-
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar, haldinn 29. desember 2025, mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um að falla frá reglum og lögum um samsköttun hjóna og sambúðarfólks.
Þá minnir aðalfundurinn á að sjómannaafslátturinn var tekinn af að fullu árið 2013. Áfram skal haldið, nú skal aftur höggvið í sama knérunn gagnvart sjómönnum.
Aðalfundurinn hvetur samtök sjómanna til að berjast fyrir því að stjórnvöld falli frá boðuðum breytingum á samsköttun hjóna og sambúðarfólks. Annað kemur ekki til greina.
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í dag. Fundurinn var vel sóttur og formannsskipti urðu á fundinum. Jakob Gunnar Hjaltalín gaf ekki kost á sér áfram sem formaður en hann hefur verið formaður deildarinnar í 36 ár. Við tekur Börkur Kjartansson sem er í áhöfn Víkings AK 100. Í tilefni af því að Jakob er að hætta sem formaður, þakkaði Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar honum fyrir afar vel unninn störf í þágu sjómanna og Framsýnar með meðfylgjandi ávarpi auk þess sem honum voru færðar gjafir frá félaginu.
„Á síðasta aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar sem haldinn var 27. desember 2024 gaf núverandi formaður deildarinnar, Jakob Gunnar Hjaltalín, út yfirlýsingu um að þetta væri hans síðasta kjörtímabil sem formaður. Nú væri komið að leiðarlokum eftir skemmtilegan og gefandi tíma sem formaður og því tímabært að finna nýjan og öflugan formann deildarinnar sem tæki við á næsta aðalfundi deildarinnar í desember 2025. Jakob sem lengi var til sjós hefur alla tíð látið sig málefni sjómanna varða. Það er sem trúnaðarmaður um boð í togurum, þá hefur hann gengt stjórnunarstörfum í Framsýn til fjölda ára, trúnaðarstörfum fyrir Sjómannasamband Íslands og setið í stjórn Sjómannadeildar Framsýnar, áður Verkalýðsfélags Húsavíkur í rúmlega þrjá áratugi. Jakob hefur verið formaður deildarinnar í 36 ár, en hann tók við formennsku af Aðalsteini Ólafssyni á aðalfundi deildarinnar í desember 1989.
Til fróðleiks má geta þess að ungur að árum eða um 15 ára aldur réð Kobbi sig á sjó hjá Kristjáni Jónssyni sem þá rak niðursuðuverksmiðju á Akureyri. Verksmiðjan átti þrjá smábáta sem voru um og yfir 10 tonn. Bátarnir voru notaðir til að veiða smásíld til niðursuðu. Veiðiskapurinn kallaðist nótabrúk. Á Akureyri störfuðu svokölluð nótabrúk hér á árum áður og voru þá aðallega notaðar landnætur. Síldin var veidd á grunnsævi. Síðan var hún geymd í svonefndum lásum á Pollinum. Úr lásunum voru síðan tekin úrköst, lítilli nót var kastað inn í lásinn og sá skammtur tekinn, sem hentaði hverju sinni. Afgangurinn var svo geymdur áfram í lásnum. Þetta voru fyrstu kynni Jakobs af veiðiskap sem þótti nokkuð sérstakur og er löngu aflagður í dag.
Eftir tveggja ára veru hjá Kristjáni eða árið 1971 lá leið Jakobs á síðutogara frá Akureyri, Sléttbak EA. Eftir það var hann í nokkur ár á togurum í eigu ÚA, Harðbak EA og Sólbak EA, það er bæði á síðutogurum og eins skuttogurum. Rétt er að geta þess að Jakob kom að því árið 1975 að sækja nýjan glæsilegan skuttogara ÚA, Harðbak EA til Þýskalands sem þótti með glæsilegustu togurum þess tíma. Harðbakur EA var smíðaður á Spáni.
Milli þess að vera á togurum sem gerðir voru út frá Akureyri á þessum tíma réði Jakob sig tímabundið á Kristbjörgu VE árið 1972, en báturinn var gerður út á netaveiðar frá Vestmannaeyjum.
Nú var komið að ákveðnum tímamótum í lífi Jakobs G. Hjaltalíns. Hann hafði kynnst konu sem síðar varð eiginkona hans og bjó hún austan Vaðlaheiðar, það er í Aðaldal. Jakob tók því ekki lengur útstímið út Eyjafjörðinn á togurum í eigu ÚA, þess í stað hélt hann akandi yfir Vaðlaheiðina síðla sumars 1975, sem endaði með því að Jakob og tilvonandi eiginkona settust að á Húsavík. Það er Hólmfríður Arnbjörnsdóttir og eiga þau saman einn uppkominn son.
Hugur Jakobs leitaði aftur til sjós og var hann fljótur að ráða sig til Sigga Valla á Kristbjörgu ÞH. Síðar réði hann sig til Hinriks Þórarinssonar á Jörva ÞH. Bátarnir voru gerðir út á línu og net frá Húsavík.
Haustið 1976 ræður Jakob sig til Höfða hf. sem þá hafði fjárfest í nýjum togara, Júlíusi Havsteen ÞH. Á þeim tíma var mikið atvinnuleysi á Húsavík og kallaði samfélagið eftir byltingu í atvinnumálum svo ekki ætti illa að fara fyrir samfélaginu við Skjálfanda. Það var mikill fengur fyrir Höfða útgerðina að fá mann eins og Jakob til starfa, enda þaulvanur og duglegur sjómaður. Jakob var ráðinn sem bátsmaður. Nokkru síðar fjárfesti Höfði hf. í stærri togara, Kolbeinsey ÞH 10 sem smíðaður var á Akureyri. Við það fluttist Jakob yfir á Kolbeinsey og þar átti hann mörg góð ár, en árið 1996 ákvað hann að segja skilið við sjóinn í bili og réði sig í netagerð Höfða hf.
Þrátt fyrir það var sjómennsku Jakobs ekki alveg lokið, en hann réði sig tímabundið eftir veruna í netagerðinni á nokkra togara og vertíðarbáta, það er á Brim ÞH og Sigurð Jakobsson ÞH sem gerðir voru út frá Húsavík. Rauðanúp ÞH sem gerður var út frá Raufarhöfn og Hjalteyrina EA sem gerð var út frá Akureyri.
Á sínum langa og farsæla sjómannsferli gegndi Jakob flestum störfum um borð, hann var; háseti, netamaður, bátsmaður og matráður ef svo bar undir. Árið 2004 hætti Jakob endanlega til sjós og fékk sér vinnu í landi og er enn að, það er sem fiskvinnslumaður hjá ÚA á Laugum sem sérhæfir sig í fiskþurrkun.
Ég vil nota tækifærið og þakka Jakobi fyrir vel unnin störf í þágu sjómanna á landsvísu og Framsýnar stéttarfélags, það er vel á fjórða áratug. Hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt í gegnum tíðina sem verður seint full þakkað.“
Ávarp Aðalsteins Árna Baldurssonar á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar29. desember 2025.
Jakob fékk hlýjar móttökur á aðalfundinum í dag fyrir störf hans í þágu sjómanna til margra ára. Formaður Framsýnar þakkaði honum fyrir vel unninn störf í þágu sjómanna og Framsýnar en Kobbi hefur setið í stjórn félagsins til margra ára auk þess að vera formaður Sjómannadeildar félagsins.
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar hófst kl. 17:00 í dag og var fundinum að ljúka rétt í þessu. Miklar og góðar umræður urðu á fundinum um málefni sjómanna auk þess sem gengið var frá kjöri á stjórn deildarinnar til eins árs. Eftirtaldir hafa setið í stjórn: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Jakob gaf ekki kost á sér áfram enda verið formaður deildarinnar í 36 ár. Börkur Kjartansson var kjörinn nýr formaður og Gunnar Sævarsson varaformaður. Aðrir í stjórn eru Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson sem og Önundur Kristjánsson sem kemur nýr inn í stjórn deildarinnar. Meðfylgjandi er skýrsla stjórnar sem formaður deildarinnar, Jakob G. Hjaltalín, flutti.
„Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2026.Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2025, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma og málefnum sjómanna.
Fjöldi sjómanna í deildinni: Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um þessar mundir með gjaldfrjálsum sjómönnum er um 80 til 90 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum hafa tekið mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs eða örorku.
Kjaramál: Þann 6. febrúar 2024 skrifuðu SFS og Sjómannasabandið undir kjarasamning en samningar sjómanna höfðu þá verið lausir í nokkur ár. Gildistími samningsins er 10 ár en með uppsagnarákvæði eftir 5 ár og öðru eftir 7 ár. Búið er að uppfæra kjarasamninginn eftir síðustu breytingar og er hann þegar kominn inn á heimasíðu stéttarfélaganna, framsyn.is. Um þessar mundir er verið að prenta kjarasamninginn og verður hann tilbúinn fljótlega eftir áramótin til dreifingar meðal félagsmanna.
Stjórnarmenn og fundir: Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við aðalstjórn félagsins. Stjórn deildarinnar hélt einn formlegan stjórnarfund á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur verið virkur í starfi Sjómannasambandsins á árinu og tekið þátt í fundum og þingum á vegum sambandsins.
Þing SSÍ: 34. þing Sjómannasambands Íslands fór fram á Grand Hótel 30. – 31. október 2025. Jakob Gunnar Hjaltalín var fulltrúi Sjómannadeildar Framsýnar á þinginu sem fór vel fram. Þingið byrjaði á ávarpi Atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínar Friðrikssonar. Í máli hennar kom fram vilji til að vinna betur með sjómönnum að hagsmunamálum þeirra. Meðal annars er áhugi fyrir því að efla Verðlagsstofu skiptaverðs. Aðrir gestir þingsins voru; Finnbjörn A Hermannsson forseti ASÍ, Árni Sverrisson formaður FS og Guðmundur H. Þórarinsson formaður VM. Ný sambandsstjórn var kjörin til næstu fjögurra ára. Þá voru tveir formenn heiðraðir sérstaklega fyrir vel unnin störf í þágu sjómanna, þetta voru þeir, Vignir S. Maríasson frá Verkalýðsfélagi Snæfellinga og Jakob G. Hjaltalín frá Framsýn sem gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir Sjómannasambandið en þeir hafa setið í stjórnum og ráðum á vegum sambandsins til margra ára. Var þeim færður þakklætisvottur fyrir þeirra góðu störf í þágu sjómanna til margra ára. Margar og góðar ályktanir voru samþykktar á þinginu sem eru meðfylgjandi skýrslunni. Í lok þings færðu SSÍ, FS og VM, Slysavarnaskóla sjómanna 25 milljónir að gjöf sem er hlutur félaganna þriggja vegna slita á Fiskifélagi Íslands fyrr á árinu.
Fræðslumál: Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Á árinu sem er að líða fengu 5 félagsmenn innan deildarinnar greiddar kr. 753.752,- í námsstyrki. Um er að ræða fækkun á styrkjum til félagsmanna milli ára en árið 2024 voru greiddar út kr. 1.003.134,- í styrki til 13 félagsmanna vegna starfsmenntunar. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess í gegnum tíðina komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.
Skrifstofa stéttarfélaganna: Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Þá starfa fjórir starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins það er fyrir utan orlofsbyggðina á Illugastöðum þar sem stéttarfélögin sem aðild eiga að orlofsbyggðinni eru með sameiginlega húsverði/umsjónarmenn.
Öflugt starf og upplýsingamál: Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2025, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Þá gengu hátíðarhöldin 1. maí afar vel en þau voru haldin á Fosshótel Húsavík. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Þar sem þetta er í síðasta skiptið sem ég stend hér sem formaður deildarinnar vil ég þakka sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem og liðnum áratugum en ég hef verið formaður deildarinnar vel á fjórða áratug um leið og ég mun með mikilli ánægju afhenda nýjum formanni keflið síðar á fundinum. Takk fyrir mig og takk fyrir traustið í gegnum tíðina. Megi deildin dafna um ókomna tíð, sjómönnum til hagsbóta.“
Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum sem og starfsmenn félaganna óska félagsmönnum og fjölskyldum þeirra sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Megi árið 2026 verða okkur öllum farsælt og gæfuríkt.
Fréttabréf stéttarfélaganna er komið úr prentun. Búið er að koma því í flestar verslanir á félagssvæðinu auk þess sem það er aðgengilegt á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þá geta menn einnig lesið það á heimasíðu stéttarfélaganna, góða skemmtun. https://framsyn.is/wp-content/uploads/2025/12/Frettabref_3.tbl_._des_2025.pdf
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur, sem sýndur var á RÚV í byrjun desember, gerði starfsemi erlendra lífeyrissjóða hér á landi að umfjöllunarefni og þá miklu fjármuni sem slíkir sjóðir hafa af launafólki. Kveikur vísaði m.a. í ályktun sem samþykkt var á þingi Starfsgreinasambandsins nýverið um starfsemi erlendra vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér landi. Þar fordæmdi þingið afdráttarlaust þá ólögmætu markaðssetningu sem slíkir aðilar stunda hér á landi. Sjá frekari uppfjöllun: https://www.sgs.is/frettir/frettir/starfsemi-erlendra-vorsluadila/
Starfsfólkið sem starfar í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 gerði sér dagamun í morgun í tilefni af því að undanfarna daga hefur staðið yfir jólaleikur meðal starfsmanna. Í morgun var komið að því að finna út hver væri leynivinur hvers og eins. Það gekk misvel eins og gengur og gerist en viðburðurinn var virkilega skemmtilegur enda allir starfsmenn ánægðir með gjafirnar og hvernig tiltókst með jólaleikinn sem var jú tilgangurinn.
Það var mikil spenna í loftinu í morgun enda gjafaleikur í gangi. Spenningurinn hjá Millu var svo mikill að hún gat ekki setið:-)Smá metingur í gangi milli vina. Gafst þú mér þessa gjöf? NEI, hver er þá minn leynivinur?????
Framsýn stéttarfélag gaf út ljóðabókina Tvennir tímar árið 2018 í samstarfi við afkomendur Bjargar Pétursdóttur. Bókin hefur fengið mjög góða dóma sbr. nýleg umfjöllun á vefnum „skald.is“ en bókin þykir mikil fengur fyrir íslenska kvennabaráttu og sögu hennar. Í gegnum ljóð Bjargar endurspeglist hróp eða áköll kvenna um rétt þeirra til þess að eiga sér mannsæmandi líf. Sjá frekari umfjöllun:
Fyrirsögn greinarinnar er vísun í heiti á ljóði í ljóðabók Bjargar Pétursdóttur, Tvennir tímar, en Björg var ein af stofnendum Verkakvennafélagsins Vonar sem stofnað var á Húsavík 28. apríl árið 1918. Tvennir tímar var gefin út af Framsýn, stéttarfélagi árið 2018 hundrað árum síðar í samstarfi við afkomendur hennar. Björg sem var fædd á Birningsstöðum í Laxárdal 17. desember árið 1875 var fremst í flokki þeirra húsvísku alþýðukvenna sem komu á fót félagi, fátækra verkakvenna sem sögðu ranglætinu stríð á hendur og börðust fyrir bættum kjörum kvenna, eins og stendur í formála bókarinnar. Það má með sanni segja að hægt sé að líta á þann tíma sem tvenna. Upphaf kvennabaráttunnar hinnar fyrstu. Víða um heim á þessum tíma voru konur farnar að gera kröfur um bætt kjör og verkalýðs- sem og kvenfélög fóru að líta dagsins ljós.
Bókin er mikil fengur fyrir íslensku kvennabaráttuna og sögu hennar. Í gegnum ljóð Bjargar getum við lesið hróp eða áköll kvenna um rétt þeirra til þess að eiga sér mannsæmandi líf. Sjá nánar inn á skald.is: https://skald.is/greinar/475-for-min-til-furdustranda
Bókin „Tvennir tímar“ hefur fengið mjög góða dóma en Framsýn er útgefandi bókarinnar.
Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, sópran stendur fyrir jólatónleikum í Húsavíkurkirkju fimmtudaginn 18. desember ásamt frábærum tónlistarmönnum. Með henni verða Attila Sgebik á píanó og Anna Gunnarsdóttir á þverflautu. Miðaverðið er aðeins kr. 3.500,-. Tónleikarnir standa yfir í klukkutíma. Við mælum með þessum tónleikum. https://www.facebook.com/photo/?fbid=10235160397724147&set=g.1980279532198180
Í samtölum sem forsvarsmenn Framsýnar hafa átt við Jóhann Páll Jóhannsson Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, nú síðast um helgina, hefur verið skorað á ráðherra að flýta skoðun ráðuneytisins á virkjunarkostum í Þingeyjarsýslum. Það sé forsendan fyrir því að hægt verði að hraða atvinnuuppbyggingu á svæðinu öllum til hagsbóta. Ráðherra hefur tekið beiðni félagsins vel.
Einstaklega góð skrifstofa er til leigu í húsnæði Hrunabúðar að Garðarsbraut 26, það er fyrir ofan Skrifstofu stéttarfélaganna. Á hæðinni eru nokkur fyrirtæki og sálfræðiþjónusta með starfsemi. Þar starfar góður hópur starfsmanna. Frekari upplýsingar gefur Aðalsteinn Árni, kuti@framsyn.is
Stjórn Þingiðnar samþykkti nýlega að færa Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum að gjöf kr. 303.000,- til kaupa á tækjum fyrir stofnunina. Upphæðin tekur mið af fjölda félagsmanna í Þingiðn og árgjaldi félagsmanna í Styrktarfélaginu. Gerð var grein fyrir gjöfinni á aðalfundi Styrktarfélagsins sem haldinn var á dögunum. Skráðir félagsmenn í Styrktarfélaginu eru um 350 talsins. Þeim hefur því miður ekki fjölgað sem neinu nemur undanfarin þrjú ár. Þingiðn hvetur íbúa í Þingeyjarsýslum til að ganga í félagið en árgjaldið er aðeins 3.000 krónur. Hægt er að finna skráningareyðublað á Facebook síðu Styrktarfélagsins. Stjórn Þingiðnar ákvað að greiða sem nemur árgjaldinu kr. 3.000 fyrir hvern félagsmann sem eru um þessar mundir 101.
Eins og komið er inn á þessari frétt er mikilvægt að heimamenn, félagasamtök og fyrirtæki á svæðinu standi vörð um þessa mikilvægu stofnun. Það gerum við hvað best með því að gerast félagsmenn í Styrktarfélaginu. Árgjaldið er aðeins kr. 3.000,-. Koma svo!
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags verður haldinn mánudaginn 29. desember 2025 í fundarsal félagsins. Fundurinn hefst kl. 17:00.
Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf
Önnur mál
Mikilvægt er að sjómenn láti sjá sig á fundinum og taki þátt í líflegum umræðum, ekki síst formannskjöri en fyrir liggur að sitjandi formaður, Jakob Gunnar Hjaltalín, gefur ekki kost á sér áfram eftir áratuga þjónustu við sjómenn. Í tilefni af því verður fundurinn óvenju veglegur í ár.
Sjálfstæðisflokkurinn stóð nýlega fyrir opnum fundi á Húsavík um atvinnumál og stöðuna í þjóðfélaginu. Eðlilega fengu atvinnumálin á svæðinu töluverða athygli enda liggur starfsemi PCC á Bakka að mestu niðri. Óvíst er hvort eða hvenær starfsemi hefst á ný á Bakka. Fleiri mál fengu jafnframt athygli svo sem íslenskur landbúnaður og staðan í ferðaþjónustunni nú þegar til stendur að auka verulega álögur á fyrirtæki í ferðaþjónustu með alls konar sköttum á komur ferðamanna. Vegna þessa er ferðaþjónustan í miklu uppnámi, ekki síst er varðar komur skemmtiferða til landsins á komandi ári, jafnvel árum.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var boðið að sitja fundinn og taka þátt í umræðum á fundinum. Hann fór almennum orðum um stöðuna í atvinnumálum á svæðinu s.s. á Bakka. Hann kom einnig inn á þann mikla vanda sem blasir við ferðaþjónustunni og íslenskum landbúnaði. Hvatti hann formann og þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að berjast fyrir tilvist landbúnaðar á Íslandi. Máli sínu til stuðnings afhendi hann formanni Sjálfstæðisflokksins, Guðrúnu Hafsteinsdóttir, Lambadagatal 2026. Höfundur dagatalsins er, Ragnar Þorsteinsson, bóndi í Sýrnesi í Aðaldal. Dagatalið, sem prýtt er myndum af maglitum unglömbum, hefur vakið mikla athygli en megintilgangur útgáfurnar er að breiða út sem víðast fegurð og fjölbreytni íslensku sauðkindarinnar.
Aðalsteinn Árni sagði að um táknræna gjöf væri um að ræða til að minna á mikilvægi landbúnaðar á Íslandi, taldi hann við hæfi að dagatalinu yrði komið fyrir í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins við Austurvöll. Guðrún tók skilaboðunum og gjöfinni vel enda myndirnar í dagatalinu einstaklega glæsilegar. Þakkaði hún fyrir gjöfina um leið og hún hét því að standa vörð um íslenskan landbúnað.
Í nýlegu Bændablaði er fjallað um Lambadagatalið 2026. Höfundur dagatalsins er, Ragnar Þorsteinsson, bóndi í Sýrnesi. Dagatalið er prýtt myndum af maglitum unglömbum, megintilgangur útgáfurnar er að breiða út sem víðast fegurð og fjölbreytni íslensku sauðkindarinnar.
Viðskiptagreining Landsvirkjunar stóð fyrir opnum fundi í Hörpu fimmtudaginn 4. desember um þróun mála hjá álverum og kísilframleiðendum síðustu misseri og hún sett í samhengi við íslenskan raunveruleika og alþjóðamarkaði. Eftir tvö áhugaverð erindi um stöðu mála og horfur var boðið upp á pallborðsumræður þar sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra, Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Íslandi, Kári Marís Guðmundsson fyrrum forstjóri PCC á Bakka og Karl Guðmundsson verkefnastjóri stórfjárfestinga hjá forsætisráðuneytinu sáttu fyrir svörum um fundarefnið. Aðalsteinn Árni Baldursson var að sjálfsögðu á svæðinu til að kynna sér stöðuna og ná tali á þeim sem eru í stöðu til að hafa áhrif á það að starfsemi PCC hefjist á ný á Bakka. Eins og staðan er í dag er það ekki útilokað enda kom fram í samtölum sem formaður Framsýnar átti við ráðherra atvinnumála og verkefnastjóra stórfjárfestinga að stjórnvöld ætluðu sér að gera allt sem þau gætu til að vinna að framgangi málsins með það að markmiði að starfsemi hefjist á Bakka á ný sem fyrst.
Formaður Framsýnar náði samtali við Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra um stöðuna á Bakka og framtíðina hvað varðar starfsemi fyrirtækisins. Hanna fullvissaði formann Framsýnar um að allt yrði gert á vegum stjórnvalda til að liðka fyrir því að starfsemin á Bakka hefjist á ný sem fyrst.
Framsýn hefur ákveðið að leggja mikla vinnu í atvinnumál, ekki síst í ljósi þess að starfsemi PCC liggur niðri. Félagið hefur falið formanni félagsins, Aðalsteini Árna, að fylgja málinu eftir enda hagsmunir félagsins miklir. Liður í því er að eiga gott samstarf við stjórnvöld um framvindu mála. Á fundi Landsvirkjunar í gær notaði hann tækifærið og fundaði óformlega með Karli Guðmundssyni verkefnastjóra stórfjárfestinga hjá forsætisráðuneytinu um málefni PCC. Niðurstaðan var að eiga mjög gott samstarf um verkefnið, það er að starfsemi PCC á Bakka geti hafist aftur af fullum krafti.
Staðan tekin, Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Íslandi, Kári Marís Guðmundsson fyrrum forstjóri PCC á Bakka, Kristín Anna Hreinsdóttir núverandi forstjóri PCC á Bakka og Þórður Magnússon dr. í málmfræðum og ráðgjafi í ofnrekstri hjá PCC eru hér ásamt formanni Framsýnar Aðalsteini Árna Baldurssyni.
Viðskiptagreining Landsvirkjunar stóð fyrir áhugaverðum fundi í Hörpu í gær um þróun mála hjá álverum og kísilframleiðendum á Íslandi í samhengi við íslenskan raunveruleika og alþjóðamarkaði.
Á dögunum funduðu forsvarsmenn Framsýnar og Bakkavíkur um áform fyrirtækisins um að byggja upp landeldi á Bakka við Húsavík. Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bakkavíkur landeldis og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar fóru yfir verkefnið en Framsýn hefur lagt mikla áherslu á að eiga gott samstarf við þá aðila sem sýnt hafa svæðinu áhuga hvað varðar atvinnuuppbyggingu. Bakkavík landeldi ehf., hefur þegar undirritað viljayfirlýsingu vegna lóðar undir hugsanlega landeldisstöð á vegum Bakkavík landeldi ehf. á iðnaðarsvæðinu á Bakka norðan Húsavíkur. Í viljayfirlýsingunni kemur meðal annars fram að Bakkavík landeldi ehf. telur mikil tækifæri fyrir hendi til sjálfbærrar auðlindanýtingar og atvinnusköpunar í Norðurþingi með uppbyggingu landeldisstöðvar fyrir lax á lóðinni. Með því móti verður jafnframt styrkari stoðum skotið undir atvinnulíf og búsetu í Norðurþingi og nágrannabyggðum. Fram hefur komið að um þróunarverkefni sé um að ræða sem taki nokkur ár.
Nýr stofnanasamningur hefur verið undirritaður við Land og Skóg og leysir hann af hólmi eldri samning frá 2022 við Skógræktina. Land og Skógur tók við verkefnum Skógræktarinnar og Landgræðslunnar 1. janúar 2024. Nýi samningurinn gildir fyrir starfsmenn sem áður störfuðu hjá Skógræktinni og Landgræðslunni. Viðræður hófust um miðjan október sl. og fyrir hönd Starfsgreinasambands Íslands sátu í viðræðunefnd þau Aðalsteinn Árni Baldursson, Guðrún Elín Pálsdóttir og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir. Eru þeim færðar kærar þakkir frá SGS fyrir góða og gagnlega vinnu. Nýjan samning er að finna hér.
Uppstillinganefnd Framsýnar fundar stíft um þessar mundir. Hlutverk nefndarinnar er að stilla upp í flestar trúnaðarstöður á vegum Framsýnar fyrir komandi kjörtímabil 2026-2028, það er í stjórnir, ráð og nefndir á vegum félagsins, samtals um 80 félagsmönnum. Þeirri vinnu skal lokið fyrir 31. janúar 2026 og skal hún þá auglýst eftir samþykki stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar. Hér með er skorað á áhugasama að hafa samband við formann nefndarinnar Ósk Helgadóttir vilji menn gefa kost á sér í trúnaðarstörf fyrir félagið sem er bæði gefandi og skemmtilegt starf í alla staði. Það er að taka þátt í að móta kjör félagsmanna og starf félagsins til framtíðar. Netfangið hjá formanni nefndarinnar er okkah@hotmail.com. Einnig er velkomið að hafa samband við formann félagsins, Aðalstein Árna Baldursson kuti@framsyn.is sem veitir frekari upplýsingar. Aðeins þeir sem eru á vinnumarkaði og greiða til Framsýnar eru kjörgengir í embætti innan félagsins. Frestur til að gefa kost á sér er til 14. janúar 2026.