Í ljósi þess að blikur eru á lofti í atvinnumálum félagsmanna hefur Framsýn ákveðið að boða til félagsfundar um atvinnumál þriðjudaginn 30. september kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Hvað það varðar, nægir að nefna að uppi er mjög alvarleg staða varðandi framtíð PCC á Bakka. Lífeyrismál verða einnig til umræðu í ljósi þess að stjórnvöld hafa boðað að framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða verði afnumið um næstu áramót með tilheyrandi skerðingum fyrir verkafólk. Stjórnvöld eru með þessu að brjóta gegn samkomulagi við verkalýðshreyfinguna, en það átti að tryggja að réttindaávinnsla væri jöfn milli sjóða.
Gestir fundarins verða Kári Marís Guðmundsson framkvæmdastjóri PCC og Jóhann Steinar Jóhannsson framkvæmdastjóri Lsj. Stapa.
Skorað er á félagsmenn að mæta á fundinn enda miklir hagsmunir í húfi. Sýnum samstöðu og mætum á fundinn, nú getur enginn setið hjá. Framsýn stéttarfélag.
Fækkun á komum skemmtiferðaskipa blasir við næstu ár að öllu óbreyttu en bókunum skipa næstu tvö árin til hafna á Íslandi hefur fækkað stórlega frá metárinu 2024. Segja má að hrun hafi orðið á bókunum hjá nokkrum minni höfnum landsins. Þetta kemur fram í minnisblaði Sigurðar Jökuls Ólafssonar, framkvæmdastjóra Cruise Iceland og Morgunblaðiði/mbl.is greinir frá en þessi miðlar hafa fjallað um stöðuna. Skemmtiferðaskip heimsækja tæplega 40 hafnir og áfangastaði á landinu öllu. Örar og skyndilegar breytingar á rekstrarumhverfi skemmtiferðaskipa á Íslandi, allt frá haustmánuðum 2023, hafi valdið óvissu meðal útgerða þeirra skipa sem sækja landið heim. Meðal minni hafna megi segja að fækkun í bókunum fyrir árið 2027 sé hrun. Það megi rekja til afnáms tollfrelsis, nýs innviðagjalds, stutts fyrirvara á gjaldtöku og almennrar óvissu með fyrirkomulag á rekstri farþegaskipa. Hafnir eins og á Siglufirði, Borgarfirði eystri, Djúpavogi og Húsavík sjá fram á allt að 95% fækkun skipakoma.
Eins og fram kemur í fréttinni munu þessar breytingar á gjaldtöku og innviðagjalds hafa veruleg áhrif á skipakomur til Húsavíkur sem er í dag vinsæll áningarstaður skemmtiferðaskipa. Þá hefur Raufarhöfn einnig verið í sókn á félagssvæði Framsýnar en nokkur skemmtiferðaskip komu við á Raufarhöfn í sumar. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af þessari þróun sem tengist ekki síst auknum álögum stjórnvalda á komur skemmtiferðaskipa til landsins. Vitað er að hagsmunaaðilar á Húsavík eru með málið til skoðunar og hvernig best sé að bregðast við aðstæðum sem stefnir í sumarið 2026 er varðar komur skemmtiferðaskipta til Húsavíkur og Raufarhafnar.
Afmælisráðstefna á vegum Áttarinnar var haldin á Grand hótel í Reykjavík síðasta fimmtudag. Tilefnið var 25 ára afmæli starfsmenntasjóðanna s.s. Landsmenntar og 10 ára afmæli Áttarinnar, sameiginlegrar vefgáttar sjóðanna. Ráðstefnan fór vel fram. Meðal ræðumanna var stjórnarformaður Landsmenntar sem jafnframt er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Áhugasamir geta lesið ræðuna hans hér að neðan en hátíðin fór vel fram og var fjölsótt:
Ágætu afmælisgestir
Það er mér sannur heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag á þessum tímamótum þegar starfsmenntamál á íslenskum vinnumarkaði eru til umræðu.
Tilefnið er afmælisfagnaður Áttarinnar sem fagnar nú 10 ára afmæli. Sjálfur kom ég að þessu verkefni á sínum tíma ásamt mörgu öðru góðu fólki sem er hér samankomið til að gleðjast.
Markmiðið með stofnun Áttarinnar var ekki síst að draga úr ákveðnu flækjustigi fyrir fyrirtæki að sækja um styrki fyrir blandaðan hóp starfsmanna með aðild að mismunandi fræðslusjóðum. Áttin er án efa mikilvægur samnefnari og hlekkur í keðjunni til aukinnar starfsmenntunar á íslenskum vinnumarkaði.
Við sem erum hér samankomin vitum að atvinnulífið er langt frá því að vera staðnað. Það þróast hratt – ný tækni, nýjar aðferðir, aukin alþjóðavæðing og breyttar kröfur til starfsfólks og fyrirtækja gera það að verkum að engin atvinnugrein stenst tímans tönn án stöðugrar þróunar. Við þurfum aðlögunarhæfni – við þurfum þekkingu – við þurfum menntun. Starfsmenntun sem drifkraft réttlætis og framfara.
Það hefur oft verið sagt, að okkur sé hollt að horfa reglulega í baksýnisspegilinn og líta yfir farinn veg.
Ég get ekki verið meira sammála. Hugurinn reikar aftur til ársins 2000 þegar aðilar vinnumarkaðarins ásamt stjórnvöldum stóðu sameiginlega að einu mesta framfaraskrefi í sögu vinnumarkaðarins hvað varðar þróun í atvinnulífinu.
Það var með stofnun öflugra fræðslusjóða með sérstökum fjárframlögum sem í fyrstu komu frá Atvinnuleysis-tryggingasjóði, síðar frá fyrirtækjum innan Samtaka atvinnulífsins: Landsmennt, Starfsafl og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks hófu starfsemi og fagna nú um þessar mundir 25 ára afmæli sjóðanna.
Ekki er vitað hvað var í vatninu á þessum tíma en algjör samstaða var innan verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og stjórnarráðsins að hrinda þessu mikilvæga verkefni í gang, það er að efla starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði með sérstökum fjárframlögum til framtíðar.
Í kjölfarið voru fleiri fræðslusjóðir stofnaðir í formlegum kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins sem tengdust aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.
Frá upphafi hafa fræðslusjóðirnir haft sömu markmið: Markmið þeirra var – og er enn – að styðja við bakið á félagsmönnum, fyrirtækjum og stofnunum hvað varðar styrki s.s. til starfsmenntunar og þróunar námsleiða fyrir atvinnulífið.
Það var ekki bara að fræðslusjóðir spryttu upp eins og gorkúlur heldur hófu fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar starfsemi víða um land sem byggðu tilvist sína, ekki síst, á góðu aðgengi að styrkjum til starfsmenntunar frá fræðslusjóðum líkt og er í dag, 25 árum síðar.
Flestir hér inni vita hvar ég stend, sem stjórnarmaður í fræðslusjóði auk þess að vera virkur í starfi fræðslumiðstöðvar norður í landi sem og formaður í blönduðu stéttarfélagi sem aðild á að Starfsgreinasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og Landssambandi íslenskra verslunarmanna, auk þess að vera forstöðumaður félags iðnaðarmanna innan Samiðnar.
Þörfin fyrir sí- og endurmenntun er alls staðar til staðar hjá þessum hópum innan ASÍ sem og hjá fyrirtækjum sem aðild eiga að fræðslusjóðum atvinnulífsins í gegnum sín heildarsamtök.
Í umræðu um menntun í þjóðfélaginu gleymist stundum sá hópur sem heldur uppi stærstum hluta vinnumarkaðarins: starfsfólk í verslunar- og þjónustustörfum, iðnverkafólk, fiskvinnslufólk, bílstjórar, ræstingafólk, sjómenn – og svo mætti lengi telja.
Þetta er fólk sem vinnur almennt langan vinnudag, oft við krefjandi aðstæður, og hefur í mörgum tilvikum ekki haft sömu tækifæri og aðrir til að sækja sér formlega menntun – hvað þá frekara nám. Þegar við tölum um menntun sem rétt allra verðum við að horfa sérstaklega til þessa hóps.
Það er því ekki bara spurning um að bjóða upp á nám. Við verðum að tryggja að aðgengi að námi sé raunverulegt, sérstaklega fyrir þá sem hafa minnst svigrúm – fjárhagslegt, félagslegt eða landfræðilegt. Menntun sem er aðeins í boði fyrir suma er ekki jöfn tækifæri, heldur mismunun.
Við verðum líka að viðurkenna að menntun er ekki alltaf formleg. Þúsundir einstaklinga á íslenskum vinnumarkaði hafa aflað sér mikillar þekkingar og færni í gegnum reynslu, störf og sjálfsnám – oft án þess að sú þekking sé viðurkennd innan hins formlega menntakerfis. Gleymum því ekki að óformleg menntun er verðmæt þekking sem ber að viðurkenna.
Hugsum okkur mann sem hefur unnið í 20 ár við viðhald tækja, án þess að hafa lokið fagprófi. Hann hefur lært í verki, þróað lausnamiðaða hugsun og öðlast færni sem margir nýútskrifaðir tæknimenntaðir einstaklingar myndu dást að. En þegar hann sækir um nýtt starf eða vill hefja nám til að fá viðurkennd réttindi stendur hann frammi fyrir vegg: kerfið sér hann sem ófaglærðan.
Þetta er eitt af mikilvægustu hlutverkum okkar núna: að brúa bilið milli óformlegrar færni og viðurkenndrar menntunar. Það gerum við með öflugu raunfærnimati, hæfnigreiningum, aðgengi að styttri námsleiðum, sveigjanlegum námsformum og ekki síst með stuðningi fræðslu- og starfsmenntasjóða.
Við í verkalýðshreyfingunni höfum ítrekað bent á að virða þurfi alla þekkingu – ekki aðeins þá sem fæst á skólabekk – heldur líka þá sem fólk hefur aflað sér með eigin höndum, með áralangri vinnu, með því að sjá og gera og leysa vandamál í raunveruleikanum.
Hér koma fræðslusjóðirnir sterkt inn. Þeir eru ekki bara tæki til að styrkja fólk til náms, heldur líka verkfæri til að jafna tækifæri – grunnstoðir í jöfnuði á vinnumarkaði.
Þegar fyrstu fræðslusjóðirnir voru stofnaðir af aðilum vinnumarkaðarins var stigið stórt framfaraskref. Þá var viðurkennt að fræðsla væri sameiginlegt hagsmunamál – ekki aðeins einstaklinga heldur líka atvinnurekenda og samfélagsins í heild.
Frá þeim tíma hefur fræðslusjóðum fjölgað og þeir þróast – og orðið mikilvægir burðarásar í atvinnulífinu. Þeir hafa gert þúsundum einstaklinga – oft með lítinn menntunargrunn – kleift að sækja sér fræðslu og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Samhliða hafa mörg fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins staðið fyrir öflugri fræðslu innan sinna veggja. Það hefur verið framkvæmanlegt, ekki síst vegna aðgengis að öflugum fræðslusjóðum og verkfærum sem tengjast uppbyggingu starfsmenntunar.
En við megum ekki staðna. Ef við viljum tryggja raunverulegt jafnrétti þurfum við að efla fræðslusjóði enn frekar. Styrkir þurfa að vera nægilega háir til að standa undir kostnaði – ekki aðeins skólagjöldum, heldur líka ferða- og dvalarkostnaði, jafnvel tekjutapi sem fylgir því að taka sér tíma frá vinnu.
Þegar við skoðum hópana sem standa höllum fæti gagnvart starfsmenntun sjáum við:
Fólk með litla sem enga formlega menntun
Fólk með lágar tekjur og fjölskylduaðstæður sem gera langskólanám óraunhæft
Konur í láglaunastörfum, ekki síst í ferðaþjónustu og í umönnunargeiranum
Starfsfólk í vaktavinnu sem hefur takmarkað svigrúm til náms
Og ekki síst: fólk sem býr á landsbyggðinni
Það má aldrei gleymast að aðgengi að framhaldsnámi er mjög mismunandi eftir landsvæðum. Í mörgum tilvikum þurfa einstaklingar að flytja sig tímabundið frá heimabyggð eða ferðast langar vegalengdir til að sækja nám. Það felur í sér bæði fjárhagslegan kostnað og félagslegar hindranir, sérstaklega fyrir fólk með börn eða fjölskyldubundnar skyldur. Ef við ætlum að tala um jöfn tækifæri verðum við að horfast í augu við þessa staðreynd.
Við Íslendingar börðumst lengi fyrir því að fá handritin heim frá Danmörku. Í dag liggur baráttan ekki þar, hún liggur í því að jafna aðgengi allra Íslendinga að námi eða annarri fræðslu á þeirra forsendum burt séð frá stöðu, efnahag eða búsetu. Kjörorðið er, fræðsluna heim að dyrum.
Þá megum við ekki gleyma því að samvinna atvinnurekenda og stéttarfélaga skiptir hér megin máli– því menntun er sameiginlegur ávinningur. Starfsmaður sem sækir sér aukna starfsmenntun verður hæfari til starfa sem kemur bæði honum og fyrirtækinu sem hann starfar hjá til góða.
Eða eins og Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi formaður Samtaka atvinnulífsins sagði: Við eigum að láta fræðslusjóðina vinna fyrir okkur – þeir eiga ekki að safna upp digrum sjóðum heldur þjóna atvinnulífinu með fjárframlögum til starfsmenntunar.
Hver getur ekki tekið undir þessi heilræði fyrrum formanns SA? Þessi sýn á að vera okkar sameiginlegi vegvísir inn í framtíðina.
Ágætu gestir!
Við erum öll hér vegna þess að okkur er mjög annt um framtíð íslensks atvinnulífs. Við eigum það sameiginlegt – hvort sem við komum frá fyrirtækjum, stéttarfélögum eða fræðsluaðilum víða um land.
Við höfum tækin til að skapa umhverfi þar sem starfsmenntun er raunhæfur kostur fyrir alla – ekki bara þá sem búa vel eða hafa bakland, menntun og fjármagn – heldur líka þá sem standa í eldlínunni á vinnumarkaði alla daga.
Við þurfum að tryggja að menntun sé ekki hindrun – heldur brú. Ekki veggur – heldur leið til framtíðar fyrir okkur öll, óháð stöðu og efnahag. Starfsmenntun er nefnilega lykillinn að jöfnuði, réttlæti og framþróun í íslensku atvinnulífi – okkur öllum til hagsbóta, bæði fyrirtækjum og einstaklingum.
Að lokum vil ég óska okkur öllum til hamingju með tímamótin, nú þegar við fögnum 10 ára afmæli Áttarinnar og 25 ára starfsafmæli fræðslusjóðanna.
Takk fyrir.
Aðalsteinn Árni hefur lengi verið baráttumaður fyrir aukinni menntun í atvinnulífinu. (Mynd Silla Páls)
Félags- og húsnæðismálaráðherra boðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem til stendur að stytta bótatímabilið úr 30 mánuðum niður í 18 mánuði og herða á ávinnsluskilyrðum. Þessi áform endurspeglast einnig í frumvarpi til fjárlaga sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í gær. Áætlað er að þessi skerðing á réttindum launafólks muni skila um sex milljarða króna sparnaði á ári þegar hún verður að fullu innleidd.
Atvinnuþáttaka allra hópa á Íslandi er sú mesta innan OECD og atvinnuleysi er einnig með minnsta móti, þar með talið langtímaatvinnuleysi. Ekki er því að sjá að knýjandi þörf sé á breytingum á atvinnuleysistryggingakerfinu og skerðingu á afkomutryggingu launafólks.
Markmið breytinganna er sagt vera að stuðla að aukinni virkni þeirra sem lenda í langtímaatvinnuleysi en óljóst er með öllu hvernig ná skuli því markmiði með því einu að skerða réttindi og afkomuöryggi launafólks í viðkvæmri stöðu. Réttara er að kalla breytingarnar því nafni sem þær eru, sparnaðartillögur.
Atvinnuleysistryggingar eru vernd gegn afkomumissi
Atvinnuleysistryggingar varða grundvallarakomu launafólks og veita vernd við atvinnumissi. Réttindin koma ekki sjálfkrafa heldur safnast upp í gegnum þátttöku á vinnumarkaði. Breyttur vinnumarkaður, tæknibreytingar og minni festa í ráðningarsamböndum sem draga úr afkomuöryggi launafólks minnka síður en svo þörf fyrir öflugar atvinnuleysistryggingar.
Samið var fyrst um atvinnuleysistryggingar árið 1955 í kjölfar harðra átaka og einhverra lengstu verkfalla sem verið hafa á vinnumarkaði. Í fyrstu var atvinnuleysistryggingasjóður í höndum verkalýðsfélaganna en síðar tóku stjórnvöld yfir sjóðinn og færðu undir Vinnumálastofnun sem einnig tók að sér alla umsýslu vegna hans. Þannig voru það aðilar vinnumarkaðarins sem settu kerfið á fót og hafa breytingar á því hingað til verið gerðar í samráði við þá.
Niðurskurður í dulargervi
Árið 2021 var boðuð endurskoðun á atvinnuleysistryggingalögum og í kjölfarið stofnaði þáverandi félagsmálaráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að endurskoða lögin. Í þeim hópi áttu sæti fulltrúar launafólks ásamt fulltrúum atvinnurekenda og stjórnvalda. Á þeim vettvangi var meðal annars rætt um lengd bótatímabilsins.
Fulltrúar launafólks í starfshópnum lögðu ríka áherslu á að setja þyrfti umræðu um lengd bótatímabilsins í samhengi við þá þjónustu og þau úrræði sem til staðar væru til að aðstoða einstaklinga að komast aftur í starf. Slíkar aðgerðir miða m.a. að því að auðvelda atvinnuleit, tryggja góðar ráðningar, efla færni og getu atvinnuleitenda og tryggja virkni þeirra. OECD hefur einnig lagt áherslu á að atvinnuleysistryggingakerfið þurfi að koma betur til móts við þarfir innflytjenda sem síður hafa tengslanet á vinnumarkaði og þar þurfi úrræði, námskeið og tungumálakennsla að vera betur sniðin að þeirra þörfum.
Fyrir liggur að mun minna er lagt í virk vinnumarkaðsúrræði til að styðja við fólk í atvinnuleit hér á landi en í nágrannalöndunum og ekki er að sjá að áformuð sé stefnubreyting í þeim efnum.
Réttindi launafólks verða varin
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur nú ákveðið að virða að vettugi starf þessarar nefndar aðila vinnumarkaðarins og einhliða ákveðið að stytta atvinnuleysisbótatímabilið og herða ávinnsluskilyrðin. Lagt er til grundvallar að fólk sem missi réttinn til atvinnuleysisbóta finni sér bara nýtt starf. Þetta lýsir hroka og miklu þekkingarleysi á stöðu þeirra einstaklinga sem missa starf sitt og eru án atvinnu til lengri tíma. Fólk sem starfar í árstíðabundnum atvinnugreinum mun lenda í vandræðum og ætla má að ásókn vinnandi fólks í þær greinar dragist enn frekar saman.
Að stjórnvöld taki einhliða ákvörðun um breytingar á grundvallarréttindum vinnandi fólks án samráðs við verkalýðshreyfinguna er nánast fordæmalaust og gengur þvert á eðlileg samskipti stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins. Íslensk verkalýðshreyfing mun ekki sitja hjá og láta þessi vinnubrögð og þá miklu réttindaskerðingu launafólks sem boðuð er óátalin.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 17. september:
„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ítrekar eindregna andstöðu sína við fyrirætlanir stjórnvalda um að fella niður framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða sem hafa mun veruleg áhrif á lífeyrisréttindi í sjóðum verka- og láglaunafólks.
Með þessu rjúfa stjórnvöld einhliða það samkomulag sem gert var við aðila vinnumarkaðarins um jöfnun á örorkubyrði árið 2005 án þess að forsendur þess hafi breyst eða um annað hafi verið samið sem tryggir jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða.
Áformin komu fyrst fram í tíð fyrri ríkisstjórnar og voru sett í samhengi við fjármögnun á endurbótum á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga sem tóku gildi um síðastliðin mánaðarmót. Verka- og láglaunafólki var þannig gert að greiða fyrir löngu tímabærar kjarabætur til örorkulífeyrisþega með lífeyrisréttindum sínum. Núverandi ríkisstjórn heldur sér við þessi áform og bætir um betur með því að áforma skerðingar á réttindum í atvinnuleysistryggingum til að fjármagna það sem út af stendur vegna breytinganna.
Alþýðusamband Íslands mótmælir þessum áformum harðlega og krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði áform sín um niðurfellingu jöfnunarframlagsins þar til um annað fyrirkomulag hefur verið samið til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna með fullnægjandi hætti.
ASÍ mun aldrei fallast á að verka- og láglaunafólk eitt verði látið bera byrðarnar af misskiptri örorkubyrði með frekari lækkun á lífeyrisréttindum sínum í nafni hagræðingar í ríkisrekstri. „
Hermann Aðalsteinsson formaður Skákfélagsins Goðans kom færandi hendi í morgun á Skrifstofu stéttarfélaganna. Tilgangurinn var að færa Framsýn gjöf frá félaginu fyrir stuðninginn í gegnum tíðina en skákfélagið hefur haft aðgengi að fundarsal stéttarfélaganna undir æfingar og skákmót eða eins og segir á heimasíðu skákfélagsins; „Skákfélagið Goðinn hefur hingað til haldið flest öll sín mót og æfingar í fundarsal Framsýnar á Húsavík og vill félagið koma á framfæri sérstökum þökkum til Framsýn stéttarfélags fyrir það. Án þeirrar aðstöðu hefði starf félagsins verið erfitt og alls ekki víst að félagið væri til í dag, ef Framsýn hefði ekki stutt svona vel við bakið á skákfélaginu Goðanum.“
Skáfélagið Goðinn hefur nú gert samkomulag við Norðurþing um afnot af húsnæði svo vitnað sé áfram í heimasíðu félagsins.„Húsnæðið sem Goðinn mun fá til afnota er í kjallaranum í norðurhluta Túns að Miðgarði 4 á Húsavík. Suður hluti hússins er í annarri notkun. Tún hýsti hér á árum áður ma. Bifreiðaeftirlit Ríkisins, sýsluskrifstofu og félagsmiðstöð, en hefur ekki verið í notkun að undanförnu. Aðstaðan er með sér inngang og mjög stórt bílastæði er fyrir utan. Sjálfur salurinn er tæplega 50 fermetrar að stærð en þar fyrir utan er forstofa og salerni og svo er forstofa við innganginn á efri hæðinni. Húsið er komið nokkuð til ára sinna en búið er að gera ýmsar lagfæringar í kjallaranum og sjáum við ekki fram á annað en að aðstaðan muni nýtast okkur vel.“
Björn Snæbjörnsson sem tók við formennsku í Landssambandi eldri borgara í vor leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík í morgun.
Björn þarf vart að kynna en hann er þekktur úr kjarabaráttu bæði sem formaður Einingar- Iðju og Starfsgreinasambandsins og seinni árin sem formaður kjarahóps Félags eldri borgara á Akureyri og formaður kjaranefndar LEB. Að sögn Björns brenna mörg mál á eldri borgurum um þessar mundir en hann var á leiðinni á fund með eldri borgurum á Húsavík í Hlyn sem er þeirra félagsheimili.
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands fordæmir harðlega ákvörðun stjórnvalda um að afnema framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða frá og með næstu áramótum. Með þessari ákvörðun er brotið gegn samkomulagi sem gert var við verkalýðshreyfinguna árið 2005 og átti að tryggja að réttindaávinnsla væri jöfn milli sjóða.
Þessi niðurstaða bitnar sérstaklega á verkamannasjóðum þar sem örorkubyrðin er mest. Þar safnar verkafólk, sem vinnur erfiðisvinnu og stendur undir samfélaginu með líkamlegu átaki, allt að 15% lakari lífeyrisréttindum en sjóðsfélagar annarra lífeyrissjóða – þrátt fyrir að greiða nákvæmlega sama iðgjald. Það er alvarlegt brot á jafnræðisreglu og felur í sér kerfisbundna mismunun á hendur verkafólki.
Verkamannasjóðirnir hafa látið reikna út að það þurfi tæpa 10 milljarða króna í árlegt framlag til jöfnunar á örorkubyrðinni til að þeir standi jafnfætis öðrum lífeyrissjóðum. Í stað þess að tryggja slíkt jafnræði verður 4,6 milljarða framlagið, sem enn var eftir, nú fellt alveg niður.
Stjórnvöld sem kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð geta ekki með trúverðugleika haldið því fram að þau standi vörð um hagsmuni verkafólks ef þau láta slíkt óréttlæti viðgangast. Það er með öllu óásættanlegt að íslenskt verkafólk, sem vinnur erfiðisvinnu alla sína starfsævi, sé sett í verri stöðu en aðrir þegar kemur að lífeyrisréttindum.
Starfsgreinasamband Íslands mun og ætlar ekki að láta þetta miskunnarlausa óréttlæti átölulaust.
Hér má lesa yfirlýsingu ASÍ, BHM, BSRB, Fíh og KÍ:
Í dag birtust í samráðsgátt stjórnvalda áform ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Meðal breytinganna er ákvæði sem ætlað er að auðvelda stjórnendum að reka starfsfólk ríkisins.
Með þessu áformar ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að skerða einhliða réttindi launafólks. Fordæmalaust er að stjórnvöld taki einhliða ákvörðun um breytingar á grundvallarréttindum vinnandi fólks án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Nú bætist þetta við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar af sama toga um skerðingu atvinnuleysistrygginga sem og skerðingu réttinda örorku- og ellilífeyrisþega í lífeyrissjóðum.
Grunnstoð íslenska vinnumarkaðsmódelsins er náið samráð og samskipti aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um öll þau mál er snúa að kjörum launafólks. Þetta módel er undirstaða sterks vinnumarkaðar á Íslandi og velferðarsamfélagsins og er lykilatriði að farsæld þeirra verkefna sem unnin eru á vettvangi ríkisins.
Með þessum áformum afhjúpar ríkisstjórnin þekkingar- og skeytingarleysi sitt á mikilvægi samstarfs við aðila vinnumarkaðarins.
Íslensk verkalýðshreyfing hafnar þessum vinnubrögðum og áformum og mun verjast skerðingum á réttindum launafólks af hörku.
Finnbjörn A Hermannsson forseti ASÍ Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh Magnús Þór Jónsson formaður KÍ Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSR
Fulltrúar frá Framsýn fara reglulega í vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu sem nær yfir sveitarfélögin, Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshrepp. Meðal annars var farið nýlega í heimsókn til starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs sem fellur undir Náttúruverndarstofnun. Við skoðun kom í ljós að ýmsu er ábótavant að mati félagsins er varðar aðbúnað og starfsumhverfi starfsmanna við Dettifoss er tengist eftirliti, þrifum og umsjón með þurrsalernisaðstöðu sem tekin var í notkun sumarið 2021. Við Dettifoss að vestan er salernishús með 14 þurrsalernum enda ekkert vatn til staðar fyrir snyrtingarnar. Um 400.000 ferðamenn koma á hverju ári að Dettifossi, eða um 3.000 – 4.000 manns á hverjum degi yfir háanna tíma.
Framsýn hefur með bréfi til Náttúruverndarstofnunnar krafist þess að gripið verði til aðgerða þegar í stað til að bæta úr ástandinu. Stofnunin hefur brugðist vel við erindinu og fundað með forsvarsmönnum auk þess að kynna úrbótaáætlun er varðar eftirlit, þrif og umsjón með þurrsalerisaðstöðunni við Dettifoss. Framsýn mun fylgja málinu eftir með það að markmiði að starfsmönnum verði tryggt ásættanlegt starfsumhverfi er varðar ekki síst öryggis- og vinnuverndarmál. Þá telur félagið eðlilegt að Vinnueftirlitið og Heilbrigðiseftirlitið komi einnig að málinu.
Til stendur að bora vinnsluholu í Kröflu og niðurrennslisholu á Þeistareykjum. Borinn Sleipnir er væntanlegur norður á næstunni en hann verður notaður við verkið. Þá eru starfsmenn Garðvíkur við störf um þessar mundir en síðustu daga hafa starfsmenn frá fyrirtækinu unnið að því að moka grjóti úr gufuhljóðdeyfi. Það var höfðinginn, Stefán Stefánsson, sem lánaði okkur myndirnar sem eru meðfylgjandi fréttinni fyrir utan myndina af Þeistareykjavirkun en hann starfar hjá Landsvirkjun.
Til stendur að bora á Þeistareykjum og í Kröflu á næstunni.Starfsmenn frá Garðvík við störf í Kröflu, afar öflugir starfsmenn.Stefán keyrir um á þessum öfluga vörubíl og hefur gert það til fjölda ára.
Meðal þeirra sem kynntu sér starfsemi Silfurstjörnunnar voru Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags.
„ Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með þessum framkvæmdum, sem sannarlega hafa skilað sér með margvíslegum hætti inn í þingeyska hagkerfið. Öxarfjörður hentar vel til landeldis, hérna er nóg af heitu og köldu vatni og stutt er í tært Atlantshafið. Silfurstjarnan er burðarásinn í atvinnumálum svæðisins og með þessari stækkun er verið að fjárfesta til framtíðar, sem styrkir atvinnulífið og svæðið allt,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri.
Aðalsteinn Árni Baldursson tekur í sama streng. „ Með þessari stækkun eykst starfsöryggi starfsfólks, sem hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Stækkunin er góð vísbending um að hérna starfar fólk með mikla og góða reynslu af fiskeldi, starfsfólkið er auðvitað lykillinn að farsælli starfsemi. Strjálbýlið á Íslandi á víða í vök að verjast og íbúum hefur fækkað. Þessi stækkun Silfurstjörnunnar styrkir og eflir trú fólks á svæðinu, þannig að ég fagna þessari stækkun mjög,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar.
Fyrirhugaðar breytingar félags- og húsnæðismálaráðherra á atvinnuleysistryggingakerfinu fela í sér að hámarkstími atvinnuleysisbóta verði styttur úr 30 mánuðum niður í 18 mánuði. Þetta er kynnt sem leið til að „hvetja til virkni“, en í reynd er hér um að ræða skerðingu á réttindum sem bitnar á fólki sem stendur höllustum fæti á vinnumarkaði – þeim sem þegar eru í mestri hættu á langtímaatvinnuleysi og félagslegri einangrun.
Það er ekki í fyrsta sinn sem stjórnvöld tala um að bæta þjónustu við atvinnuleitendur samhliða niðurskurði á bótaréttindum. Slíkar yfirlýsingar hafa komið fram áður en reynslan sýnir að þær hafa ekki gengið eftir að fullu. Ráðist hefur verið í lokanir á þjónustuskrifstofum fyrir atvinnuleitendur víða um land s.s. á Húsavík undir yfirskriftinni að draga úr útgjöldum. Á meðan er það fólkið sem þarf á kerfinu að halda sem situr eftir með minna öryggi og færri úrræði. Ef raunverulegur stuðningur á að koma í stað bótanna þarf hann að vera skýrt fjármagnaður og útfærður, ekki aðeins nefndur í áformaskjali.
Eitt helsta réttlætingaratriðið sem nefnt er, er samanburður við hin Norðurlöndin. Þar er bótatíminn víða styttri, og því sé sjálfsagt að Ísland fylgi í kjölfarið. En hvers vegna ætti það að teljast galli að við höfum hingað til boðið betri réttindi en nágrannalöndin? Þvert á móti má segja að það sé styrkleiki íslenska kerfisins að veita fólki betri tryggingu á meðan það leitar sér að vinnu. Í stað þess að miða sig alltaf við lægstu sameiginlegu mörk ættum við að spyrja: hvað þjónar best hag fólks og samfélags til lengri tíma?
Ráðherra leggur áherslu á að sparnaður vegna breytinganna geti numið allt að sex milljörðum króna á ári. En ekkert er sagt um hvað það mun kosta að innleiða ný úrræði og veita þá auknu þjónustu sem lofað er. Reynsla sveitarfélaga bendir jafnframt til að þegar ríkið skerðir bótarétt lendi byrðin að verulegu leyti á félagsþjónustu sveitarfélaga. Þannig er í raun ekki verið að leysa vandann heldur færa hann á annað borð.
Ráðherra áformar einnig að breyta lágmarksskilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta þannig að atvinnuleitandi þurfi að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 12 mánuði á ávinnslutímabili til að teljast tryggður innan kerfisins en í gildandi kerfi er gerð krafa um þátttöku á vinnumarkaði í 3 mánuði. Áætlað er að sú breyting lækki árleg útgjöld um 200 milljónir króna.
Þá má einnig velta því fyrir sér hvort þessi stytting muni í raun stuðla að virkni. Hættan er sú að hópur atvinnuleitenda, sem nú á rétt á bótum í allt að 30 mánuði, verði eftir 18 mánuði án tekna frá atvinnuleysistryggingakerfinu og fái í staðinn félagslegar bætur eða neyðist til að sækja um örorkumat. Slíkt er ekki hvatning heldur hætta á að festa fólk í langvarandi vanvirkni og kerfisbundinni útilokun frá vinnumarkaði. Það er í raun bein hætta á að markmiðin snúist upp í andhverfu sína.
Ráðherra talar um mannúð og mikilvægi þess að grípa fólk fyrr. Það er vissulega rétt að snemmtæk íhlutun skiptir sköpum, en hún verður að byggjast á raunverulegum úrræðum og stuðningi – ekki einhliða niðurskurði á réttindum. Ef stjórnvöld vilja forðast ótímabært örorkumat og efla virkni þá þarf að tryggja að endurhæfing, starfsnám, ráðgjöf og stuðningsúrræði séu aðgengileg og að fullu fjármögnuð. Að öðrum kosti er hættan sú að við sjáum aðeins aukinn kostnað annars staðar í kerfinu, og verra en það: fólk sem missir tengsl við vinnumarkað og samfélag til lengri tíma.
Niðurstaðan er því sú að fyrirhugaðar breytingar fela í sér skerðingu sem fyrst og fremst bitnar á þeim sem síst skyldi. Það er ekki réttlætanlegt að leggja slíkt á viðkvæma hópa undir yfirskini sparnaðar. Viljum við virkilega hvetja fólk til virkni þá verðum við að fjárfesta í raunverulegri þjónustu, menntun og atvinnutækifærum – ekki að stytta þann tíma sem fólk fær til að fóta sig á ný.
Um komandi helgi verða víða göngur og réttir á félagssvæði Framsýnar, m.a. verður réttað í Mývatnssveit, Aðaldal, Reykjahverfi, Húsavík, Tjörnesi, Öxarfirði og í Núpasveit. Heimasíða stéttarfélaganna sendir bændum og búaliði kærar kveðjur með von um að allt gangi vel um helgina enda mikil hátíð framundan þegar réttað verður eftir krefjandi göngur. Meðfylgjandi myndir voru teknar af bændum í Aðaldal sem voru að smala Þeistareykjaland í gær. Þeir munu væntanlega koma til byggða síðdegis á morgun en réttað verður í Hraunsrétt á sunnudaginn.
Hópur formanna stéttarfélaga skrifar 5. september 2025: Greinin er á visi.is
Á morgun, laugardag, er efnt til fjöldafunda víða um land til að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni og krefjast aðgerða til að stöðva þjóðarmorðið sem nú á sér stað í Palestínu. Heildarsamtök launafólks og fjöldi stéttarfélaga standa að fundinum, ásamt fjölmörgum öðrum samtökum. Með fundinum er vonast til að sýna fram á víðtæka samstöðu og krefjast um leið aðgerða til að stöðva blóðbaðið í Palestínu, þar sem almennir borgarar eru ekki aðeins gerðir að hernaðarlegum skotmörkum, heldur líka sveltir í hel. Blaðamenn eru myrtir skipulega til að reyna að draga úr möguleikum almennings til að fá áreiðanlegar upplýsingar um stríðsglæpina og glæpina gegn mannkyni sem eru framdir á hverjum einasta degi.
Alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur ítrekað ályktað um málefni Palestínu og krafist vopnahlés, lausnar gísla, tafarlausrar mannúðaraðstoðar á svæðinu og viðurkenningar á Palestínu sem ríki. Palestína fékk nýverið áheyrnaraðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) að undirlagi verkalýðshreyfingarinnar. Enn fremur hefur verkalýðshreyfingin sett fram kröfu til ILO um að ísraelskum stjórnvöldum sé gert að stöðva réttindabrot gegn palestínsku launafólki og taka á grófum launaþjófnaði sem a.m.k. 200 þúsund Palestínumenn hafa sætt.
Við, sem undir þessa grein ritum og erum í forsvari fyrir stéttarfélög og heildarsamtök launafólks, stöndum með palestínsku launafólki og öllum almenningi í Palestínu. Við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu launafólks sem lætur sig málið varða og við höfnum því að þögn sé ásættanlegur valkostur á tímum þjóðarmorðs.
Við hvetjum félagsfólk íslenskra stéttarfélaga til að taka þátt í samstöðufundum í Reykjavík, Stykkishólmi, á Akureyri, Egilsstöðum, Húsavík og Ísafirði á laugardag kl. 14.
Tími aðgerða er löngu runninn upp.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags
Andri Reyr Haraldsson, formaður Félags íslenskra rafvirkja
Aneta Potrykus, formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar
Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju
Anný Björk Guðmundsdóttir, formaður Félags rafiðnaðarmanna á Suðurlandi
Anton Már Gylfason, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags
Baldvin M. Zariho, formaður Félags háskólakennara
Berglind Kristófersdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, formaður Visku
Eiður Stefánsson, formaður Landssambands ísl. verzlunarmanna og Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni
Eyþór Þ. Árnason, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna
Georg Páll Skúlason, formaður GRAFÍU
Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrenni (VSFK)
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara
Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna
Guðrún Elín Pálsdóttir, formaður Verkalýðsfélags Suðurlands
Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR
Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara
Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar og FIT
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfgreinafélags
Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur
Jakob Tryggvason, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands
Jóhanna Fríður Bjarnadóttir, formaður Póstmannafélags Íslands
Kári Sigurðsson, formaður Sameykis
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM
Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands
Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands
Ólafur Egill Egilsson, formaður Félags leikstjóra á Íslandi
Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS
Pétur Maack Þorsteinsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands
Rafiðnaðarfélag Norðurlands
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands
Sigrún Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum
Sigrún Ólafsdóttir, formaður Félags prófessora við ríkisháskóla
Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands
Sigurður Sigurjónsson, formaður Félag stjórnenda leikskóla
Silja Eyrún Steingrímsdóttir, formaður Stéttarfélags Vesturlands
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
Steinunn Bergmann, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands
Trausti Björgvinsson, formaður Starfsmannafélags Suðurnesja
Unnur Sigmarsdóttir, formaður Starfsmannafélags Vestmannaeyjabæjar
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands
Vignir S. Maríasson, formaður Verkalýðsfélags Snæfellinga
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Verkalýðsfélags Akraness
Þorkell Heiðarsson, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga
Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands
Þóra Leósdóttir, formaður Iðjuþjálfafélags Íslands
Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags
Í tilkynningu frá Samherja kemur fram að á undanförnum misserum hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar í Silfurstjörnunni, landeldisstöð Samherja fiskeldis að Núpsmýri í Öxarfirði. (Meðfylgjandi mynd Samherji)
Framkvæmdum er nú lokið og af því tilefni er áhugasömum boðið að kynna sér starfsemina næstkomandi föstudag 5. september. Húsið opnar klukkan 14:00.
Tæknilega vel búin
„Verklegar framkvæmdir við stækkun Silfurstjörnunnar hófust í byrjun 2022 og hefur stöðin nú verið stækkuð um nær helming. Silfurstjarnan gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífi svæðisins, enda um að ræða stærsta vinnustaðinn fyrir utan sjálft sveitarfélagið. Eftir þessar breytingar telst Silfurstjarnan tæknilega mjög vel búin á allan hátt og það verður ánægjulegt að kynna starfsemina á föstudaginn. Við vonumst því til að sjá sem flesta,“ segir Elvar Steinn Traustason rekstrarstjóri Silfurstjörnunnar.
Fræðsla og veitingar
Dagskráin hefst klukkan 14:30 með kynningu Jóns Kjartans Jónssonar framkvæmdastjóra Samherja fiskeldis. Húsið opnar klukkan 14:00.
Þar á eftir verður gengið um vinnslusvæðið og gestir fræddir um starfsemina.
Léttar veitingar verða á boðstólum og sælkeraréttir úr afurðum landvinnslunnar frá veitingahúsinu RUB23.
Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er formaður Starfsgreinasambands Íslands er harðorður á Facebook er varðar boðaðar breytingar stjórnvalda á lífeyrissjóðakerfinu og skrifar;
Hvernig má það vera að stjórnvöld sem kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð láti þetta viðgangast? Að láta verkafólk í erfiðisvinnu greiða fyrir lagfæringuna á örorkukerfinu? Mikið er það lítilmannlegt.
Stjórnvöld hafa ákveðið að fella niður 10 milljarða framlag sem fimm verkamannalífeyrissjóðir eiga rétt á til jöfnunar á örorkubyrði. Það þýðir ekkert annað en að það verði ellilífeyrisþegar og réttindaávinnsla verkafólks í verkamannalífeyrissjóðum sem bera kostnaðinn við þetta nýja örorkukerfi!
Það er vissulega gott að félagsmálaráðherra hafi náð að láta sólina skína á öryrkja. En hún gerir það með því að skella sólmyrkva yfir ellilífeyrisþega og réttindaávinnslu verkafólks.
Munum það: stór hluti þessarar lagfæringar er fjármagnaður í formi lakari réttinda fyrir ellilífeyrisþega og verkafólk í verkamannalífeyrissjóðum.
Samkvæmt nýjustu tölum greiddi Tryggingastofnun 1,2 milljörðum meira í þessum mánuði en í þeim síðasta. Það jafngildir rúmum 14 milljörðum á ári í aukinn kostnað við nýja örorkukerfið. En af þessum 14 milljörðum hyggjast stjórnvöld láta 10 milljarða koma frá verkafólki og ellilífeyrisþegum í verkamannalífeyrissjóðum, með því að fella niður jöfnunarframlagið. Með öðrum orðum: stærsti hluti lagfæringanna fyrir öryrkja er fjármagnaður með skerðingu á réttindum þeirra sem þegar hafa lakari lífeyri.
Nú þegar eru lífeyrisréttindi í verkamannasjóðunum 15–20% lakari en í sjóðum með litla örorkubyrði. Nú þegar dugar jöfnunarframlag ríkisins, sem nemur 4,6 milljörðum, ekki til. Þegar 10 milljarðarnir hverfa alfarið um næstu áramót verða því enn frekari skerðingar óhjákvæmilegar.
Þessi óréttláta staða bitnar mest á verkafólki sem vinnur erfiðisvinnu – hópi þar sem örorka er margfalt algengari en í öðrum starfshópum. Þeir sem hafa minna í launum, skemmri starfsaldur og lakari lífeyrisréttindi þurfa að bera stærstan hluta kostnaðarins. Það er ekki samtrygging, það er ekki jöfnuður – það er kerfisbundið óréttlæti.
Nú ætla stjórnvöld að frýja sig með því að hefja vinnu við „framtíðarskipulag örorkukerfisins“ innan lífeyrissjóðanna. Verkefni sem getur tekið mörg ár, jafnvel áratugi – og enginn veit hvernig það endar. Því er útilokað að fara í slíka vinnu nema tryggja áframhaldandi framlag til jöfnunar á örorkubyrði.
Er þetta „besta lífeyriskerfi í heimi“? Er þetta „samtrygging“ Nei. Þetta er hvorki réttlæti né jöfnuður – heldur til skammar og rannsóknarefni hvernig stjórnvöld hafa látið þetta óréttlæti viðgangast árum og áratugum saman.
Fyrr í sumar var um 80 starfsmönnum sagt upp hjá PCC á Bakka. Fyrirtækið hefur nú ákveðið í ljósi aðstæðna að segja upp 30 starfsmönnum til viðbótar. Eftir standa um 15 til 20 starfsmenn. Framsýn hefur kallað eftir því að sveitarstjórn Norðurþings kalli þingmenn kjördæmisins til fundar til að ræða stöðuna og framhaldið. Eftir því sem best er vitað verður fundurinn haldinn á allra næstu dögum. Af þeim 150 starfsmönnum sem starfað hafa hjá PCC eru um 130 starfsmenn í Framsýn og Þingiðn. Meðallaunin eru um milljón á mánuði. Ljóst er að staðan er grafalvarleg. Stjórnendur PCC hafa gert í því að upplýsa forsvarsmenn stéttarfélaganna á hverjum tíma um stöðuna, reyndar lagt mikið upp úr því að eiga gott samstarf við félögin sem er vel. Fréttastofa Sýnar fjallaði um málið í hádeginu í dag og talaði m.a. við formann Framsýnar. https://www.visir.is/g/20252770107d/-eg-treysti-thvi-ad-stjorn-vold-vakni-og-hjalpi-okkur-
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundaði síðasta miðvikudag. Mörg áhugaverð mál voru tekin fyrir á fundinum og afgreidd. Þann sama dag átti Guðný I. Grímsdóttir afmæli en hún hefur komið að stjórnarstörfum fyrir Framsýn til fjölda ára auk þess að sækja þing og ráðstefnur á vegum verkalýðshreyfingarinnar í gegnum tíðina í umboði félagsins. Guðný hefur staðið sig framúrskarandi vel í alla staði. Að sjálfsögðu kom hún með afmælistertu með sér á fundinn sem smakkaðist einstaklega vel. Fundarmenn sungu afmælissöng fyrir afmælisbarnið auk þess að þakka vel fyrir veitingarnar.
Fundarmenn sungu fyrir afmælisbarnið sem kom með tertu á fundinn.