Góður fundur um húsnæðismál í Þingeyjarsveit

Framsýn stóð í morgun fyrir fundi með forsvarsmönnum Þingeyjarsveitar og Bjargs íbúðafélags um hugsanlega uppbyggingu á íbúðum á vegum Bjargs í sveitarfélaginu. Íbúðir Bjargs íbúðafélags eru fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og sem hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB í a.m.k. 16 mánuði, sl. 24 mánuði miðað við úthlutun. Fundurinn var virkilega áhugaverður og fullur vilji er til þess meðal aðila að taka málið til frekari skoðunar, það er hvort grundvöllur sé fyrir því að reisa íbúðir í sveitarfélaginu á vegum Bjargs í samráði við sveitarfélagið. Hér er slóðin inn á heimasíðu Bjargs íbúðafélags https://www.bjargibudafelag.is/

Dagskrá stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar

Eins og fram kemur í annarri frétt á heimasíðunni kemur stjórn og trúnaðarráð Framsýnar saman til fundar í næstu viku til að ræða fyrirliggjandi málefni. Stjórn Framsýnar-ung tekur einnig þátt í fundinum. Dagskrá fundarins er nokkuð löng, því má búast við löngum og ströngum fundi komandi miðvikudag.

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Þing SGS 8. – 10. október/kjör fulltrúa

4. Þing ASÍ-UNG 17. október/kjör fulltrúa

5. Fulltrúaráðsfundur AN 24. september/kjör fulltrúa

6. Málefni PCC

7 Atvinnumál á félagssvæðinu

8. Uppbygging á vegum Bjargs íbúðafélags

9. Málefni starfsmanna Náttúruverndarstofnunnar

     a) Starfsumhverfi starfsmanna við Dettifoss

     b) Stofnanasamningur

10. Svört atvinnustarfsemi

11. Sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal

12. Málefni Fiskþurrkunar ÚA á Laugum

13. Framkvæmdir við húsnæði stéttarfélaganna

14. Heimsókn þingmanna til félagsins

15. Dómsmál – VHE

16. Verkefnið í „Góðu lagi“

17. Fundur með forstjóra Icelandair

18. Fundur með starfshópi forsætisráðherra um málefni PCC

19. Málefni Fiskifélagi Íslands

20. Rótarskot-Kynning á starfsemi Framsýnar

21. Bekkir-áletrun

22. Stríðsátök í Palestínu

23. Afmælisfagnaður fræðslusjóðanna SA-SGS

24. Önnur mál

Atvinnumál og komandi þing m.a. til umræðu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar auk stjórnar Framsýnar-ung kemur saman til fundar miðvikudaginn 27. ágúst kl. 17:00.  Að venju eru mörg mál á dagskrá fundarins. Til dæmis má nefna að byggða- og atvinnumál verða til umræðu enda starfsemi PCC í miklu uppnámi. Félagið hefur verið að þrýsta á Bjarg íbúðafélag að reisa íbúðarhúsnæði fyrir tekjulága í sveitarfélögunum Norðurþingi og Þingeyjarsveit. Þá eru þing og ráðstefnur framundan, ganga þarf frá kjöri á fulltrúum á fundina. Um 30 félagsmenn sitja í stjórn og trúnaðarráði Framsýnar. Búast má við líflegum umræðum um málefni fundarins.

Þú tapar réttindum með því að vinna svart

Dæmi eru um að atvinnurekendur hafi snúið sér til Skrifstofu stéttarfélaganna í sumar vegna óánægju með samkeppnisaðila í ferðaþjónustu sem bjóða starfsmönnum að vinna svart komi þeir til starfa hjá þeim. Sérstaklega á þetta við um smærri aðila í ferðaþjónustu sem bjóða upp á gistiþjónustu og eru í samkeppni við þá atvinnurekendur sem virða kjarasamninga og lög. Eðlilega eru þeir afar óánægðir með þennan veruleika enda ekki auðvelt að keppa við svarta atvinnustarfsemi en fyrirtækin hafa verið að missa frá sér starfsmenn sem hafa látið glepjast og ráðið sig til fyrirtækja sem virða ekki almennar leikreglur á vinnumarkaði. Starfsmenn sem gera sér greinilega ekki grein fyrir því, að vinni þeir svart, eru þeir ótryggðir við sín störf. Vissulega á ekki að þurfa að taka fram að það er ólöglegt með öllu að fyrirtæki bjóði starfsmönnum að vinna svart, þeim standi ekki annað til boða.

Skrifstofa stéttarfélaganna hefur hvatt þá fyrirtækjaeigendur í ferðaþjónustu, sem leitað hafa til félaganna, að setja sig í samband við Skattinn og koma ábendingum sínum um svarta atvinnustarfsemi á framfæri við stofnunina enda um lögbrot að ræða sem skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja. Það er það eina sem dugar gagnvart svona óheiðarlegri starfsemi enda Skattinum ætlað að fylgjast með því að einstaklingar sem fyrirtæki greiði skatta til samfélagsins samkvæmt fyrirliggjandi lögum og reglum.

Þá er rétt að taka fram að félagsmenn stéttarfélaganna sem verða uppvísir að því að vinna svart missa réttindi til styrkja hjá félögunum s.s. námsstyrkja og styrkja úr sjúkrasjóðum félaganna. Það á einnig við um almenna þjónustu á vegum félaganna, lögfræðiþjónustu og aðgengi að orlofsíbúðum.

Framsýn kallar eftir fundi með Bjargi íbúðafélagi

Framsýn hefur óskað eftir fundi með forsvarsmönnum Norðurþings, Þingeyjarsveitar og Bjargs um frekari uppbyggingu á öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur á félagssvæðinu sem nær frá Raufarhöfn að Vaðlaheiði. Eins og kunnugt er byggði Bjarg sex íbúða raðhús í samstarfi við Norðurþing fyrr á þessu ári. Slegist var um íbúðirnar þar sem yfir 40 umsóknir bárust um íbúðirnar sex.

Framsýn vill sjá frekari uppbyggingu í Norðurþingi auk þess sem Bjarg komi að því að byggja sambærilegt húsnæði í Þingeyjarsveit. Forsvarsmenn beggja sveitarfélaganna hafa lýst yfir miklum áhuga á samstarfi við Bjarg um uppbyggingu á íbúðarhúsnæði í sveitarfélögunum.

Eins og kunnugt er, þá er Bjarg íbúðafélag sjálfseignarstofnun og rekin án hagnaðarmarkmiða. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norænni fyrirmynd. Fyrstu íbúðir voru afhentar leigutökum á höfuðborgarsvæðinu í júní 2019.

Þess er vænst að fundur aðila um málið verði haldinn á næstu dögum eða vikum, það er í síðasta lagi fyrir næstu mánaðamót. Beiðni um fund var ítrekuð síðast í morgun.

Sumarferð stéttarfélaganna á Flateyjardal

Stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur stóðu fyrir sumarferð á Flateyjardal  laugardaginn 9. ágúst fyrir félagsmenn og gesti þeirra. Ferðin var fullsetin og tókst hún í alla staði mjög vel, þótt veðurútlit hafi verið nokkuð tvísýnt fyrir daginn. Hópurinn lagði upp frá Húsavík í þokusúld og norðan nepju snemma morguns og var í öruggum höndum Andra Rúnarssonar bílstjóra hjá Fjallasýn, sem sá til þess að vel færi um farþega. 

Dumbungurinn í morgunsárið kom ekki að sök, það var sól í hverju hjarta sem auðvitað hafði áhrif enda birti upp þegar leið á morguninn. Í Fnjóskadalnum bættist fararstjórinn, Ósk Helgadóttir í hópinn og leiddi hún gestina um eyðibyggðina nyrst í Fnjóskadal, Flateyjardalsheiði og Flateyjardal og fræddi þá um sitthvað er tengist sögunni og búsetu þar ytra. Á Brettingsstöðum hittum við fyrir Bjart Aðalbjörnsson, ungan Vopnfirðing af kyni Brettinga, sem staddur var heima á ættaróðalinu. Bjartur rölti með okkur yfir í kirkjugarðinn og fór yfir sögu Brettingsstaðakirkju, tengsl byggðarlagana við ysta sæ og flutning kirkjunnar milli lands og eyjar.  Eins og ævinlega í sumarferðum stéttarfélaganna er boðið upp á grill og léttar veitingar og nýtti hópurinn sér frábæra aðstöðu í skála Ferðafélags Húsavíkur að Hofi.  Það voru  Aðalsteinn Árni, Jónas Kristjánsson og Margrét Bjartmars sem stjórnuðu aðgerðum við grillið og sáu til þess að enginn færi svangur heim. Undu menn sér lengi á dalnum fagra við söng og gleði í blíðviðrinu.

Ferðin var afar vel heppnuð og full ástæða er til að þakka Fjallasýn og gestum stéttarfélaganna fyrir ánægjulega ferð sem í alla staði var til mikillar fyrirmyndar. Þá skemmdi ekki fyrir að nokkrir í ferðinni höfðu sterk tengsl til dalsins fagra við Skjálfanda enda komin af fólki sem þar bjó um tíma. Meðfylgjandi eru myndir úr ferðinni.

Skrifstofuhúsnæði stéttarfélaganna málað

Um þessar mundir er unnið að því að mála skrifstofuhúsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík enda mikilvægt að fyrirtæki, félagasamtök og opinberir aðilar viðhaldi sínum eignum með sómasamlegum hætti svo bæjarprýði sé af. Þá var nýlega skipt um útihurðir til að bæta aðgengi viðskiptavinna að skrifstofunni. Í haust verður svo ráðist í að laga glugga á efri hæðinni sem snúa í norður enda orðnir verulega lélegir. Eftir þessar lagfæringar verður skrifstofuhúsnæðið vonandi eins og nýtt og öllum til mikils sóma.

Hús rís við höfnina

Um þessar mundir er verið að reisa myndarlegt iðnaðarhúsnæði á uppfyllingu við höfnina á Húsavík sem er virkilega ánægjulegt. Væntanlega verður svo hafist handa við frekari hafnarframkvæmdir við höfnina á Húsavík á næstu mánuðum/árum. Um þessar mundir stendur yfir útboð vegna Þvergarðsins sem sumir kalla Suðurgarð. Garðurinn kemur til með að lengjast um 50-70 metra til suðurs sem skapar aukin tækifæri í komum skipa til Húsavíkur, ekki síst skemmtiferðaskipa. Lenging garðsins kemur auk þess til með að bæta hafnaraðstæður enn frekar hvað aðra atvinnustarfsemi varðar er tengist góðum hafnaraðstæðum.

Auglýsing – Laus staða matráðs í Stórutjarnaskóla

Matráður í 80-100% stöðu

Helstu viðfangsefni og ábyrgð
– hefur yfirumsjón með starfsemi í eldhúsi og annast almenn eldhússtörf
– annast matseld í samræmi við ráðleggingar landlæknis um mataræði barna í leik- og grunnskólum
– er í samstarfi við matráð Þingeyjarskóla varðandi innkaup matvæla og frágang og geymslu á þeim
– annast tilfallandi önnur störf s.s. í tengslum við fundi, aðrar samkomur og uppbrotsdaga

Hæfnikröfur
– matartækninám
– þarf að hafa góða samskiptahæfni og kappkosta að sýna nemendum og samstarfsfólki virðingu í hvívetna
– þekking/reynsla af daglegum rekstri mötuneytis
– þekking/reynsla af næringarfræði, sérfæði, gæðum og fjölbreytileika matar er nauðsynleg

Stórutjarnaskóli stendur í Ljósavatnsskarði og er samrekinn leik- grunn- og tónlistarskóli með um 45 nemendur frá eins árs til 16 ára aldurs. Öll starfsemi skólans er í sama húsnæði. Skólinn er Grænfánaskóli og Heilsueflandiskóli og er að innleiða teymiskennslu. Lögð er áhersla á að búa nemendum og starfsfólki fjölbreytt leik- náms- og starfsumhverfi sem eflir alhliða heilsu og þroska. Mikið samstarf er milli námshópa innan skólans og er skólinn í góðu samstarfi við nágrannaskóla sína og samfélagið í sveitinni.

Staðan er laus frá og með 15. ágúst 2025.  Umsóknarfrestur er til 11. ágúst 2025.
Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband í síma 4643220/8483547 eða í gegnum netfangið birnada@storutjarnaskoli.is

Umsóknir skulu sendar á netfangið birnada@storutjarnaskoli.is
Umsókninni þarf að fylgja ferilskrá og afrit af leyfisbréfi.

Konur þjóðveganna

Í gegnum tíðina hefur Eimskip rekið mjög öfluga aksturdeild á Húsavík og hafa margir magnaðir bílstjórar starfað hjá fyrirtækinu, nægir þar að nefna höfðingjana Gulla Sveinbjörns og Bjarna Sveins sem hætti fyrir nokkrum árum eftir áratuga akstur flutningabíla milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Eins og kunnugt er, þá er bílstjórastarfið bæði gefandi og krefjandi starf. Lengst af hefur verið um að ræða karlæg störf, en sem betur fer, hefur það verið að breytast á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna, þá hafa væntanlega aldrei verið fleiri konur við störf hjá akstursdeild Eimskips á Húsavík en um þessar mundir. Í dag starfa þrjár konur hjá fyrirtækinu við akstur á stórum og öflugum flutningabílum. Þetta eru þær, Alice, Susanna og Aðalbjörg talið frá vinstri á meðfylgjandi mynd. Til viðbótar má geta þess að Susanna er fyrsta konan sem ráðin er sem bílstjóri á flutningabíla hjá Eimskip á Húsavík. Þekkt er að flutningabílstjórar eru duglegir við að skreyta bílstjóraklefann í sínum anda og þá má oftar en ekki sjá nafn viðkomandi bílstjóra við framrúðuna þegar þeir keyra um þjóðvegi landsins. Ekki er ólíklegt að með tilkomu fleiri kvenna í stéttinni eigi skreytingarnar í bílstjóraklefanum eftir að taka kvenlegum breytingum í anda þess sem situr undir stýri á hverjum tíma.

Endalaust líf við höfnina

Hvalaskoðunarferðir frá Húsavík hafa almennt gengið vel í sumar enda mikið verið um ferðamenn á svæðinu sem sóst hafa eftir því að komast í skoðunarferðir. Meðfylgjandi myndir voru teknar um helgina þegar farþegar voru að ganga um borð í hvalaskoðunarbátinn Vin sem er nýjasti báturinn í flotanum sem siglir með farþega um Skjálfandann en mikið hefur verið um hval og lunda í flóanum í sumar.

Kalla eftir svörum frá Samherja

Framsýn hefur kallað eftir upplýsingum frá Samherja um áform fyrirtækisins varðandi frekari rekstur fiskþurrkunar að Laugum í Reykjadal, um er að ræða fjölmennan vinnustað. Vitað er að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fylgist jafnframt grannt með þróun mála enda miklir hagsmunir í húfi fyrir sveitarfélagið. Eðlilega hafa starfsmenn fyrirtækisins áhyggjur af stöðunni enda störf þeirra undir. Fyrir liggur að auknar kröfur hafa verið gerðar til mengunarvara og vöktunar en vinnslan er á viðkvæmu svæði. Ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar aðgerðir til að bæta úr hvað mengunarvarnir varðar. Framsýn treystir því að Samherji leiti allra leiða til að tryggja reksturinn til framtíðar. Framsýn mun fylgja málinu eftir en starfsemi fyrirtækisins liggur niðri um þessar mundir vegna sumarleyfa starfsmanna.

Örfá sæti laus í smarferðina í Flateyjardal

Vegna forfalla eru örfá sæti laus í sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal, laugardaginn 9. ágúst. Farið verður frá Skrifstofu stéttarfélaganna kl. 09:00. Um er að ræða dagsferð undir leiðsögn Óskar Helgadóttur, sem er svæðinu þar ytra vel kunnug. Ferðin er opin félagsmönnum og gestum þeirra og ætti að vera við flestra hæfi. Þátttökugjaldið er kr. 5.000,-. Menn þurfa sjálfir að nesta sig í ferðina, en grillað verður í ferðinni í boði stéttarfélaganna. Hægt er að skrá sig í ferðina með því að senda póst á netfangið kuti@framsyn.is. Fyrstir koma – fyrstir fá.

Stéttarfélögin

Formaður at­vinnu­vega­nefndar leit við

Sig­ur­jón Þórðar­son, þingmaður Flokks fólks­ins og formaður at­vinnu­vega­nefndar Alþingis leit við hjá formanni Framsýnar í morgun. Eins og fram hefur komið eru blikur á lofti í atvinnumálum Þingeyinga, nú eftir að PCC tók ákvörðun að stöðva framleiðsluna, vonandi tímabundið. Önnur mál voru einnig tekin til umræðu sem varða samfélagið hér á norðausturhorninu.  

Burt með mismunun – ný vefsíða

Mismunun á vinnumarkaði getur átt sér ýmsar ólíkar birtingarmyndir og það getur reynst dýrmætt að vera upplýst/ur um þessar ólíku birtingarmyndir til að geta brugðist við aðstæðum á viðeigandi hátt. Mikilvægt er að muna að mismunun á aldrei að líðast og er þar að auki ólögleg, bæði á vinnumarkaði og í daglegu lífi. Þetta á við um mismunun á grundvelli kyns, kynsþáttar, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, þjóðernisuppruna, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.

Jafnréttisstofa hefur sett inn upplýsingar á íslensku og ensku á heimasíðuna sína þar sem einstaklingar geta kynnt sér nánar hvað felst í banni við mismunun samkvæmt jafnréttislögum ásamt því að geta leitað aðstoðar hjá ráðgjöfum Jafnréttisstofu á einfaldan hátt. Þar má einnig finna upplýsingar um kærunefnd jafnréttismála en hafa ber í huga að hægt er að leita til hennar í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna.

Síðuna má nálgast hér.

Félagsmaður Framsýnar lagði VHE í héraðsdómi

Fyrr á þessu ári leitaði félagsmaður Framsýnar sem starfað hefur hjá VHE í Hafnarfirði til félagsins þar sem honum var sagt upp störfum fyrirvaralaust og gert að yfirgefa vinnustaðinn án launa á uppsagnarfresti. Taldi starfsmaðurinn brotið á sínum kjarasamningsbundnu réttindum. Framsýn tók við boltanum og mótmælti þessum vinnubrögðum fyrirtækisins harðlega. VHE neitaði að verða við kröfu Framsýnar um að greiða starfsmanninum laun á uppsagnarfrestinum, en Framsýn lagði mikla áherslu á að ljúka málinu með sátt. Í ljósi þess að lítið fór fyrir samningsvilja hjá fyrirtækinu óskaði Framsýn eftir aðkomu lögmanns félagsins að málinu. Því miður skilaði það ekki tilætluðum árangri, það er að ljúka málinu, án þess að fara með það fyrir dómstóla. Lögmaðurinn höfðaði því mál á hendur VHE fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Til að gera langa sögu stutta þá vann félagsmaðurinn málið. Fyrirtækinu var gert að greiða honum 1.735.254 krónur í vangreidd laun, 1.200.000 krónur í miskabætur, dráttarvexti og 2.232.000 krónur í málskostnað til Framsýnar. VHE hefði því betur samið strax í stað þess að ráðast í þessa eyðimerkurgöngu með tilheyrandi kostnaði. Rétt er að taka fram að VHE hefur 4 vikur til að ákveða hvort fyrirtækið áfrýi niðurstöðunni til Landsréttar. (Myndin tengist ekki fréttinni)

Launamaður eða verktaki?

Það er mikill munur á því að vera launamaður eða verktaki og mikilvægt að fólk átti sig á í hverju munurinn felst. Sem launamaður ertu með ráðningasamning og safnar réttindum á vinnumarkaði, atvinnurekandinn sér um að greiða af þér skatta og þess háttar og þú ert varinn af lögum sem launamaður. Ef þú ert verktaki ertu í raun að selja þjónustu og þú átt í viðskiptum án þess að njóta réttinda sem launamaður eða ávinna þér slíkt. Því miður er þessu stundum ruglað saman og launamönnum boðið uppá að vera verktakar. 

Þú ert launamaður ef þú vinnur undir verkstjórn annarra og ert í fastri vinnu. 

Þú ert verktaki ef þú gerir samning um einstaka verk sem þú ræður hver vinnur og hvernig. Samið er um greiðslu fyrir verkefnið en þú átt atvinnutækin sjálf/ur og getur ráðið aðra til að sinna verkinu. Þú ert fjárhagslega ábyrg/ur fyrir verkefninu sjálf/ur 

Ef þú ert verktaki

  • Ertu ekki varinn af kjarasamningum þegar kemur að til dæmis lágmarkslaunum
  • Hefurðu ekki uppsagnarfrest
  • Safnarðu ekki orlofi og getur því ekki tekið frí á launum
  • Færðu ekki greitt í veikindum
  • Safnarðu ekki sjálfkrafa í lífeyrissjóð
  • Ertu ekki slysatryggð/ur gegnum atvinnurekendur
  • Þarftu sjálf/ur að skila tryggingagjaldi, mótframlagi í lífeyrissjóð, slysatryggja þig o.s.frv. 

Passaðu uppá réttindi þín! Gerviverktaka er ólögleg og skerðir réttindi almenns launafólks! 

Sjá nánar á heimasíðu ASÍ

Til umhugsunar – Orlof og streita

Við viljum flest taka gott sumarfrí og njótum þess að skipuleggja fríið og láta okkur dreyma.

Það er ómetanlegt að hafa eitthvað að hlakka til, að upplifa nýja hluti, slaka á og njóta okkar á eigin hraða án mikilla skuldbindinga.

Frí hafa jákvæð áharif á heilsu okkar og vellíðan, en svo er spurning hve lengi áhrifin vara eftir að heim er komið.

Hvernig tökum við gott frí þannig að við komum úthvíld og vel upplögð til starfa á nýjan leik?

Sjá nokkur góð ráð á velvirk.is

Ragnar byggir og byggir

Ragnar Hjaltested byggingaverktaki hefur hafið byggingu á íbúðarhúsnæði/fjórbýli á Húsavík og bílskúrum/geymslum. Tvær íbúðir verða með bílskúrum samtals um148 m2 og tvær með góðum geymsluskúrum samtals um 112 m2. Um er að ræða mjög vandaðar og flottar íbúðir. Þegar meðfylgjandi mynd var tekin í gær var verið að reisa bílskúra og geymslur við húsið. Fljótlega verður byrjað á húsinu sjálfu sem verður á tveimur hæðum. Hugur Ragnars stendur til þess að byggja fleiri svona hús enda gangi vel að selja þessar íbúðir. Þess má geta að Ragnar byggði parhús fyrir Þingiðn og Framsýn á síðasta ári sem er vandað  í alla staði og afar vinsælt meðal félagsmanna stéttarfélaganna enda í stanslausri útleigu. 

Fundað með landvörðum

Formaður Framsýnar fundaði í gær með Landvörðum í Vatnajökulsþjóðgarði. Fundurinn fór fram í Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Vel á þriðja tug starfsmanna starfa við landvörslu og tilfallandi störf í Þjóðgarðinum. Fundurinn var ánægjulegur í alla staði en um þessar mundir er unnið að því að endurnýja stofnanasamning Starfsgreinasambands Íslands og Náttúrustofnunnar vegna landvarða. Framsýn á aðild að þeim viðræðum fyrir félagsmenn sem starfa við landvörslu á félagssvæðinu. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar er í samninganefnd SGS og gat því gert starfsmönnum grein fyrir stöðu mála.