Myndbrot um mannlífið á Húsavík

Hér má sjá myndbrot frá göngum og réttum sem fram fóru um helgina er frístundabændur og búalið á Húsavík gengu á fjöll og smöluðu fé úr afrétti Húsvíkinga. Þeir bræður Rafnar Orri og Harry Bjarki Gunnarssynir vinna nú að gerð heimildarmyndar um samfélagið á Húsavík þar sem komið verður inn á atvinnumál, menningu, íþróttir og mannlíf á svæðinu.  Þeir gengu á fjöll um helgina og mynduðu frístundabændur á Húsavík við sín störf sem fylgja haustinu, það er göngur og réttir. Um er að ræða dýrmæta heimild sem á eftir að lifa lengi.

Verkefnið er heimildarmynd þar sem rætt verður m.a. við Húsvíkinga sem komið hafa að uppbyggingu samfélagsins síðustu áratugi og séð Húsavík vaxa og dafna í gegnum árin. Samhliða því verða rifjaðir upp helstu atburðir úr sögu bæjarfélagsins með skemmtilegum sögum og heimilislegu spjalli. Stuðst verður við eldra efni, ljósmyndir og gömul skjöl, unnið í samstarfi við Sif Jóhannesdóttir og Safnahúsið á Húsavík.
Verkefnið hófst þann 1. september 2014 og stefnt er að því að frumsýna myndina á bæjarhátíð Húsvíkinga, Mærudögum 2016 enda takist að fjármagna þetta athyglisverða verkefni.  Ef þið eigið í fórum ykkar ljósmyndir eða gamalt myndefni frá Húsavík sem þið viljið leggja til í verkefnið, hafið þá endilega samband: sagahusavikur@gmail.com . Jafnframt ef vilji er til þess að koma að fjármögnun verkefnisins er áhugasömum bent á að hafa samband við Rafnar Orra Gunnarsson í síma 8668902.
Deila á