Verið velkomin í sveitina

Jón Óskar Pétursson nýráðinn sveitarstjóri Skútustaðahrepps tók á móti fulltrúum Framsýnar sem gerðu sér ferð til að funda með nýja sveitarstjóranum. Hann sagði heimsóknina nokkuð merkilega þar sem fulltrúar Framsýnar væru fyrstir til að heimsækja hann formlega í nýju embætti. Jón Óskar gerði grein fyrir sínum störfum í gegnum tíðina og helstu áherslumálum í byggða- og atvinnumálum á svæðinu. Umhverfismál voru einnig til umræðu enda skipta þau Mývetninga miklu máli auk þess sem Jón Óskar kom á framfæri ágætum ábendingum til Framsýnar varðandi áherslur félagsins í málefnum félagsmanna í hinum dreifðu byggðum. Formaður Framsýnar sagðist leggja mikið upp úr góðu samstarfi stéttarfélaganna við sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum um málefni héraðsins sem væru til framfara fyrir íbúa þess. Félagið hefði tekið málið upp við aðra sveitarstjóra á félagssvæði Framsýnar. Jón Óskar tók undir með formanni og varaformanni Framsýnar sem var með í för og sagði það farsælast fyrir alla.
Jón Óskar og Aðalsteinn formaður Framsýnar fara yfir málin. Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar tók einnig þátt í fundinum.
Deila á