Ilmurinn er indæll og bragðið eftir því

Hvað er betra en góður ilmur úr reykhúsi á sumardegi? Þegar fulltrúar Framsýnar nálguðust Geiteyjarströnd tók á móti þeim ilmur úr reykhúsinu á staðnum þar sem reyktur er einn besti ef ekki besti silungur á Íslandi. Hægt er að kaupa reyktan silung frá Geiteyjarströnd í öllum helstu matvörubúðum landsins. Helgi Héðinsson sem fer fyrir rekstrinum á staðnum tók á móti gestunum frá Framsýn og fór yfir starfsemina. Á Geiteyjarströnd er rekin myndarleg ferðaþjónusta, reykhús og þá er smá fjárbúskapur á staðnum. Reykhúsið framleiðir úr um 500 til 800 kg af fiski á viku. Þá hefur nýtingin á gistingunni verið mjög góð frá því í byrjun maí og er nánast fullbókað fram í september. Helgi reiknaði með að fjölga starfsmönnum í vetur frá síðasta vetri til að mæta auknum umsvifum í starfseminni á Geiteyjarströnd. Í sumar hafa 8 starfsmenn starfað hjá fyrirtækinu.
Helgi er bjartsýnn á framtíðina og segir að miklir möguleikar felist í ferðaþjónustu á Íslandi verði rétt haldið á spilunum.  Hann vill sjá að ríkið komi með aukið fjármagn til að byggja upp vinsæla ferðamannastaði. Það sé eðlilegt í ljósi þeirra miklu tekna  sem komi inn í gegnum ferðaþjónustuna.
Á Geiteyjarströnd er reyktur silungur og lax sem notið hafa mikilla vinsælda meðal kaupenda enda um úrvalsvöru að ræða.
Að sögn Helga er töluverður áhugi fyrir Norðurljósaferðum í Mývatnsveitina enda speglast saman fallegt umhverfi og norðurljós á himni.
Deila á