Ræða formanns Framsýnar 1.maí 2014

Þess hefur verið óskað að ræða formanns Framsýnar verði birt á heimasíðunni, ekki bara á myndbandi, og að sjálfsögðu verður orðið við þeirri beiðni.

Ágætu félagar! 

Slagorð dagsins er, Samfélag fyrir alla. Þess vegna er eðlilegt að velta upp nokkrum spurningum er varða jafna stöðu fólks til þátttöku í þjóðfélaginu á sínum forsendum. Hvernig þjóðfélag viljum við byggja upp á Íslandi? Viljum við samfélag þar sem sérgæskan ríður ekki við einteyming eða viljum við samfélag þar sem jöfnuður ríkir og almenn velferð, þar sem fjölskyldan er sett í fyrirrúm og þar sem verkafólk, öryrkjar og aldraðir geta notið lífsins til jafns við aðra? Það er full ástæða til að spyrja sig þessara spurninga þar sem samfélagið hefur verið að þróast burt frá þjóðfélagi samhjálpar yfir í þjóðfélag sérgæskunnar og græðginnar. Þar bera stjórnvöld mikla ábyrgð þar sem Alþingi íslendinga setur lög og reglur á hverjum tíma sem þegnum landsins er ætlað að virða og fara eftir. Batamerki eftir hrunið eru því miður ekki sjáanleg, sama siðleysið er við líði sbr. nýleg skýrsla um sparisjóðina og þá höktir úrræðalaus ríkistjórn á leiksviði Alþingis sem virðist áhugasamari um að auka ójöfnuðinn í landinu í stað þess að sporna gegn honum. Þar er ég sérstaklega að horfa til skattkerfisbreytinga sem gerðar voru samhliða síðustu kjarasamningum í desember þar sem láglaunafólkið var skilið eftir. Þá hefur ríkistjórnin ekki staðið við að afgreiða frumvarp fjármálaráðherra um gjaldskrárlækkanir sem fela m.a. í sér lækkun á bensín- og olíugjaldi. Lækkunin var liður í að liðka fyrir gerð kjarasamninga og stuðla að stöðugra verðlagi. Hins vegar vafðist ekki fyrir ríkistjórninni að fella niður auðlegðarskattinn og skatt á ferðaþjónustuna. Frekari skattalækkanir eru boðaðar, það er að tekið verði upp eitt skattþrep á kjörtímabilinu sem gagnast sérstaklega þeim tekjuhærri. Verkalýðshreyfingin hefur hér mikilvægu hlutverki að gegna, það er varðstaða um velferðina fyrir alla, ekki fáa útvalda. 

Ágæta samkoma!

Það verður ekki annað sagt en að veturinn hafi verið stormasamur þegar horft er til þeirrar umræðu sem verið hefur um kjaramál. Starfsgreinasamband Íslands blés í herlúðra á þingi sambandsins í október. Þingið fordæmdi tillögur ríkistjórnarinnar um breytingar á skattkerfinu þar sem þær næðu ekki til þeirra tekjulægstu, láglaunastefnan var gagnrýnt harðlega og þá var ályktað um að barist yrði af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munaði í komandi kjarasamningum. Já, menn börðu sér á brjóst, það var mikill baráttuandi á þinginu og menn samþykktu metnaðarfulla kröfugerð. Því miður guggnuðu menn á því að fylgja henni eftir.   Starfsgreinasambandið og önnur aðildarsambönd Alþýðusambands Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning 21. desember 2013. Formaður Framsýnar skrifaði ekki undir samninginn ásamt fjórum öðrum formönnum. Kjarasamningurinn hljóðaði upp á 2,8% almenna launahækkun sem var langt undir markmiðum sambandsins. Þá náðu boðaðar skattalækkanir stjórnvalda ekki til þeirra lægst launuðu.  Eftir undirskriftina og Vöffluátið mikla í Karphúsinu byrjuðu hörð skoðanaskipti um kjarasamninginn. Formennirnir sem neituðu að skrifa undir samninginn voru kallaðir lýðskrumarar af elítu ASÍ. Áróðurinn hélt áfram og talsmenn samningsins voru fljótir að setja niðurstöðuna upp í exel skjal. Þeir sögðu aðeins 5% félagsmanna innan Alþýðusambandsins vera óánægða með samninginn. Framhaldið þekkja menn, kjarasamningurinn var víðast hvar kolfelldur. Niðurstaðan olli miklum vonbrigðum hjá þeim formönnum sem höfðu mælt með samþykkt samningsins þrátt fyrir magurt innihald hans. Reiðinni var ekki síst beint að þeim formönnum sem mæltu gegn samþykkt samnings, sérstaklega formönnum Framsýnar og Verkalýðsfélags Akraness. Þeim var jafnframt meinað að taka þátt í bandalagi annarra félaga innan Starfsgreinsambandsins sem felldu samninganna, við gerð á nýjum samningi. Eftir stuttar viðræður var skrifað undir sáttatillögu ríkissáttasemjara 21. febrúar 2014 sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Alþýðusambands Íslands, þó með einni undantekningu. Sáttatillaga ríkissáttasemjara fól í sér hækkanir umfram samninginn sem var felldur. Það ber sérstaklega að þakka þeim formönnum sem stóðu uppréttir og neituðu að skrifa undir kjarasamninginn í desember að þessi árangur náðist. Þessi atburðarrás er um margt mjög merkileg og fer væntanlega í sögubækurnar. Ekki síst vakti athygli hvað hún var harðvítug og þá blönduðu þjóðþekktir menn, ekki síst úr fræðasamfélaginu, sér inn í umræðuna og gagnrýndu samninginn. Á móti skrifuðu ritstjórar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins leiðara gegn hækkun lægstu launa til verkafólks, það væri ekkert að sækja. Þannig tóku þeir undir skoðanir forystu Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins sem töluðu mjög fyrir samþykkt samningsins. Það gerðu einstakir ráðherrar líka. Þessir aðilar töldu 2,8% launahækkun til verkafólks og fiskvinnslufólks ríflega þrátt fyrir methagnað í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum á liðnum árum. Það sama á ekki við um ríkisjóð sem stendur höllum fæti.  Í ljósi þessara staðreynda er nokkuð merkilegt að lesa nýlega forystugrein í Fréttablaðinu þar sem talað er fyrir hækkun til framhaldsskóla-kennara upp á 29% sem greiða á úr  tómum ríkiskassa. Sömu aðilar skrifa, að ekkert sé að sækja til fyrirtækja sem skila árlega milljörðum í hagnað. Greinilegt er að ákveðin öfl í þjóðfélaginu vilja viðhalda fátækt í landinu með lélegum launum og við því þarf að sporna. Ég virði mjög kjarabaráttu kennara sem sóttu fram kjarabætur með verkföllum og sterkri forystu. Ég vildi óska þess að Alþýðusambandið hefði jafn sterka sveit samningamanna og kennarar. Þá væru laun verkafólks ekki um  200.000 krónur á mánuði og þá væri heldur ekki til umræðu frumvarp á Alþingi um að setja lög um lágmarkslaun á Íslandi. Það verður einnig forvitnilegt að fylgjast með kjarabaráttu annarra stétta á næstu vikum og mánuðum, stétta sem hafa hafnað 2,8% launahækkun ASÍ og SA og boða verkföll til að knýja á um leiðréttingu á sínum kjörum. Það er ófriður í kortunum. Ég vil senda sterk skilaboð út í samfélagið. Það þarf ekki að vefjast fyrir forystumönnum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að forsendur kjarasamnings frá 21. desember 2013 séu brostnar. Hættið að halda öðru fram og takist á við veruleikann.

 Ágæta félagar!  

Það er alveg ljóst að traust þarf að ríkja meðal launþega og atvinnurekenda um heildstæða launastefnu á jafnréttisgrundvelli. Þá er traust milli verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda um stöðugleika í þjóðfélaginu forsenda árangurs. Stöðugleiki er í raun besta kjarabótin og uppskriftin að jöfnuði í þjóðfélaginu. Þetta er í raun mín framtíðarsýn. Því miður fyrir íslenska þjóð hefur ekki tekist að varða þessa leið, ekki vegna þess að verkafólk hafi ekki sýnt ábyrgð í gegnum tíðina þegar komið hefur að kjarasamningsgerð. Ábyrgðarleysið er annars staðar. Verkalýðshreyfingin þarf einnig að átta sig á því að traust þarf að ríkja milli félagsmanna og þeirra sem veljast til forystu á hverjum tíma. Þess vegna á forystan að standa við gefnar yfirlýsingar sem hún hefur viðhaft um ójöfnuð, óréttlæti og gengdarlausar hækkanir til ákveðna hópa í þjóðfélaginu á síðustu misserum og krefjast þess sama fyrir sína umbjóðendur. Að öðrum kosti eru menn ekki að vinna vinnuna sína. Við slíkar aðstæður tel ég rétt að skipta nýju liði inn á völlinn til að hreinsa til og sækja fram á nýjan leik með fersku og ungu blóði. 

Ágætu félagar og samstarfsfólk! 

Það eru mörg tímamótin sem við göngum í gegnum. Um þessar mundir fagnar sá sem hér stendur 20 ára starfsafmæli sem formaður í stéttarfélagi en ég var fyrst kjörinn formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur árið 1994 eftir að hafa starfað í tvö ár á Skrifstofu stéttarfélaganna. Því miður ber skugga á þetta starfsafmæli þar sem Vísir hf. hefur ákveðið að hætta fiskvinnslu á Húsavík frá deginum í dag, 1. maí. Við það missa um 60 starfsmenn vinnunna sem er hreint út sagt ömurlegt svo ekki sé meira sagt og er efni í langa ljóta ræðu. Ég hef áður spurt út í samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í sjávarútvegi sem ráða yfir kvótanum, sameign þjóðarinnar. Ég kalla eftir breytingum á kvótakerfinu sem koma í veg fyrir svona gjörning.  Þetta á ekki að viðgangast. Framsýn hefur þegar ráðið lögfræðinga til að skoða réttarstöðu starfsmanna Vísis við þessi starfslok sem félagið telur bæði ámælisverð og eins ólögleg. Eins og ég nefndi hef ég gengt formennsku í 20 ár. Aðkoma mín að verkalýðsmálum á sér þó mun lengri sögu en ég var  kjörin til trúnaðarstarfa fyrir Verkalýðsfélag Húsavíkur 6. nóvember 1981, þá sem  trúnaðarmaður starfsmanna hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur. Þessi góði tími mótaði mig til lífstíðar. Fiskiðjusamlagið var stór vinnustaður, þar var alltaf mjög góður starfsandi og þar voru allir jafnir, óháð aldri og starfsgetu sem vissulega var misjöfn. Þar höfðu menn einnig sterkar skoðanir á þjóðfélags- og verkalýðsmálum. Þau 20 ár sem ég hef gegnt formennsku í stéttarfélagi hefur verið mjög gefandi tími enda ákveðin forréttindi að hafa lifibrauð af því að starfa við sitt áhugamál, það er verkalýðs- og velferðarmál. Vissulega er þetta ekki auðvelt starf og flestir vinnudagar eru langir og strangir. Það hefði komið sér vel að vera menntaður, sálfræðingur, hagfræðingur og félagsfræðingur, störfin eru það fjölbreytt og krefjandi. En þetta er mikil áskorun sem ég er tilbúinn að takast á við meðan heilsan leyfir, áhuginn er til staðar og félagsmenn treysta mér til þess. Svo ekki sé talað um allt það frábæra fólk sem er í trúnaðarstörfum fyrir félagið, það er ómetanlegur fjársjóður. Eftirfarandi málsgrein má finna í blaðinu Verkamanninum frá árinu 1961 þegar málefni Verkamannafélags Húsavíkur voru til umfjöllunar: „Félagið hefur jafnan haft á að skipa hæfum og góðum mönnum til forystustarfa. Þeir hafa borið merki félagsins hátt en þó með gætni og því hefur vel farið.“ Tilvitnun lýkur. Að mínu mati á þessi setning ekki síður við í dag, það er hvað varðar mitt samstarfsfólk þessi 20 ár sem ég hef verið formaður, hins vegar læt ég öðrum eftir að dæma mín eigin verk. Starf stéttarfélaga hefur breyst verulega í gegnum áratugina. Rauði þráðurinn er þó sá sami og stofnað var til í upphafi, það er velferð félagsmanna. Í dag stöndum við ekki og bræðum mör til að selja félagsmönnum á hagstæðu verði eins og stjórnarmenn í Verkamannafélagi Húsavíkur gerðu árið 1915. Þá keypti félagið mör fyrir 200 krónur, bræddi hann og seldi félagsmönnum tólg. Félagið útvegaði félagsmönnum einnig hey, skóleður, kartöflur, kol, smjörlíki og niðursoðna mjólk svo eitthvað sé nefnd. Félagið réðst einnig í svarðartekju og skógarhögg til eldsneytis þegar erfiðast var um eldsneytisútveganir fyrir félagsmenn Verkamannafélags Húsavíkur. Í dag erum við ekki að takast á við verkefni sem þessi. Verkefnin eru til staðar en í öðru formi. Með árunum höfum við byggt upp öflugt starf sem byggir á sterkri liðsheild félagsmanna, aðgengi þeirra að sterkum sjóðum í veikindum, orlofshúsum, starfsmenntasjóðum, verðlagseftirliti, samningagerð og almennri þjónustu s.s. lögfræðiþjónustu. En kjarabótina má sækja víðar eins og dæmin sanna. Í gær gengum við til dæmis frá áframhaldandi samningi við Flugfélagið Erni um sérstök afsláttarkjör fyrir félagsmenn til 1. maí 2015. Í dag seljum við ekki tólg, við seljum flugmiða. Samningurinn tryggir félagsmönnum áfram flugfargjald fyrir kr. 7500 á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík með smá hækkun næsta vetur. Full ástæða er til að gleðjast yfir nýja samningnum. Frá því að við fórum að selja flugmiðana í nóvember 2013 höfum við sparað félagsmönnum um 7 milljónir króna sem er góð kjarabót. Ég nefni þetta sem dæmi um það sem við erum að fást við í daglegum störfum, félagsmönnum til hagsbóta. Ég vil að lokum þakka fyrir þann tíma sem ég hef fengið að gegna formennsku í Framsýn, áður Verkalýðsfélagi Húsavíkur. Félagið stendur sterkt og hefur alla burði til að vera áfram leiðandi afl í verkalýðsbaráttu á Íslandi. Hafið kærar þakkir fyrir. Takk fyrir!Aðalsteinn Á. Baldursson var með hátíðarræðuna 1. maí 2014.

 

 

Deila á