Ársfundur Virk 2014 í Þingeyjarsýslum

Mánudaginn 7. apríl s.l. var haldinn á Húsavík, aðal- og kynningarfundur fyrir Virk – starfsendurhæfingarsjóð í Þingeyjarsýslu.

Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður af aðilum vinnumarkaðarins, stéttarfélögunum,  Samtökum atvinnulífsins, Sveitarfélögunum og Ríkinu. Starfsemin hófst á árinu 2008. Markmið VIRK er að draga markvisst úr líkum á því að einstaklingar  hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku.

Á fundinum kynntu Ágúst Sigurður Óskarsson ráðgjafi Virk á svæðinu og Þorsteinn Sveinsson félagsráðgjafi og sérfræðingur Virk, stöðu og verkefni Virk, árangur af starfinu og áframhaldandi þróun á starfsemi og þjónustu Virk.

Starfið fellst m.a. í persónulegri ráðgjöf og hvatningu til einstaklinga í starfsendurhæfingu, samvinnu um gerð einstaklingsbundinnar áætlunar til að bæta heilsu og styrkja starfshæfni, kaup á starfsendurhæfingarúrræðum, samvinnu við stéttarfélög, launagreiðendur, heilbrigðisstarfsmenn og aðra sem koma að endurhæfingu og stuðningi við einstaklinga inn í starf að nýju.

Á máli Ágústs, Þorsteins og fulltrúa á fundinum kom fram að mikil ánægja er með þjónustu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu og mælingar sem gerðar eru á starfinu, benda til að flestir fái stuðning til að fara í starf að nýju. Um þriðjungur einstaklinga sækir þjónustuna að höfðu samráði við sína heimilislækna eða aðra sérfræðilækna og um þriðjungur ákveður sjálfur að sækja þjónustuna. Algengustu hindranir til starfa hjá þeim sem sækja þjónustu Virk eru vegna stoðkerfissjúkdóma (42%) og geðrænna sjúkdóma (32%). Um 65% af þeim sem útskrifast hafa farið til fyrri starfa, í aðlagað starf eða fundið nýtt starf við hæfi og hafa því framfærslu af eigin atvinnuþátttöku. Þessi niðurstaða er afar jákvæð fyrir þá einstaklinga sem sótt hafa þjónustu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs. 

Allar nánari upplýsingar um starfsemi og þjónustu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er hægt að nálgast á heimasíðunni www.virk.is og hjá Ágúst Sigurði Óskarssyni ráðgjafa Virk í Þingeyjarsýslum, sem starfar á skrifstofu stéttarfélaganna.

 Farið yfir starfsemina hjá Virk. Sambærilegur fundur var haldinn á Þórshöfn síðasta miðvikudag.

Deila á