Starfsmönnum verulega brugðið – Framsýn stendur fyrir fundi á mánudaginn

Ljóst er að starfsmönnum Vísis á Húsavík er verulega brugðið eftir fund þeirra með yfirmönnum fyrirtækisins í dag. Þar kom fram að starfsemi fyrirtækisins á Húsavík verði hætt eftir einn mánuð, það er 1. maí. Í kjölfarið verður hafist handa við að rífa niður til flutnings vinnslulínur og annan búnað sem tengist fiskvinnslu í húsinu.  Fyrir fundinn með starfsmönnum í dag funduðu forsvarsmenn Vísis með formanni Framsýnar, Aðalsteini Á. Baldurssyni, og gerðu honum grein fyrir ákvörðun fyrirtækisins að hætta rekstri á Húsavík.

Starfsfólki er verulega brugðið og þegar hafa nokkrir starfsmenn leitað til Framsýnar varðandi sýna stöðu í kjölfar þessara  frétta. Framsýn hefur ákveðið að funda með starfsmönnum næsta mánudag kl. 18:00 í fundarsal félagsins og fara yfir stöðuna. Þá mun stjórn Framsýnar fara yfir málið um helgina enda um verulegt áfall að ræða fyrir starfsmenn Vísis og samfélagið.

Ömurlegur dagur, segir Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar, en í dag var boðað að einum öflugasta vinnustaðnum á Húavík verði lokað eftir einn mánuð. Tæplega 60 starfsmenn starfa við fiskvinnslu hjá Vísi hf.

Auglýsingin um fundinn á mánudaginn með starfsmönnum Vísis.

Deila á