Söguskoðun – tekist á í kosningum formanns

Meðfylgjandi frétt er úr Morgunblaðinu frá 26. október 1996 en þá fór þing Verkamannasambands Íslands fram í Reykjavík. Á þinginu var tekist á um formann í Fiskvinnsludeild sambandsins en skorað var á Aðalstein formann Verkalýðsfélags Húsavíkur á þeim tíma að fara á móti tillögu stjórnar sem hann og gerði.

Fiskvinnsludeild VMSÍ

Aðalsteinn Á. Baldursson formaður

TEKIST var á í kosningum formanns og stjórnar fiskvinnsludeildar Verkamannasambands Íslands á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í upphafi þings VMSÍ. Karitas Pálsdóttir, fráfarandi formaður, gaf ekki kost á sér til endurkjörs og gerði fráfarandi stjórn tillögu um að Elsa Valgeirsdóttir, formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum, yrði kjörin formaður í hennar stað. Á þinginu var hins vegar skorað á Aðalstein Á. Baldursson, formann Verkalýðsfélags Húsavíkur, að bjóða sig fram gegn Elsu og varð hann við því. Var þá gengið til kosninga sem lyktaði með því að Aðalsteinn var kjörinn formaður fiskvinnsludeildarinnar með 52 atkvæðum en Elsa hlaut 18 atkvæði. Einnig urðu nokkrar breytingar á stjórn fiskvinnsludeildarinnar.
Aðalsteinn er hér á árum áður með félaga sínum Hallgrími Guðmundssyni en þeir störfuðu lengi saman hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur. Aðalsteinn hóf afskipti sín af verkalýðsmálum þegar hann starfaði þar eða árið 1981 en þá var hann kjörinn trúnaðarmaður starfsmanna. Aðalsteinn hefur því verið viðloðandi verkalýðsmál lengur en margir aðrir eða í 30 ár.

Deila á