Af óviðráðanlegum ástæðum verður ekki hægt að greiða bætur og styrki úr sjúkrasjóði Framsýnar og Þingiðnar í lok mánaðarins. Það verður hins vegar gert mánudaginn 2. september. Beðist er velvirðingar á því.

Af óviðráðanlegum ástæðum verður ekki hægt að greiða bætur og styrki úr sjúkrasjóði Framsýnar og Þingiðnar í lok mánaðarins. Það verður hins vegar gert mánudaginn 2. september. Beðist er velvirðingar á því.
Frá og með 1. september 2024 geta félagsmenn bókað íbúðir Framsýnar og Þingiðnar í Hraunholtinu á Húsavík. Um er að ræða tvær rúmlega 100 fm2 glæsilegar íbúðir með öllum nútíma þægindum. Sjá frekar inn á orlofsvef stéttarfélaganna; framsyn.is. Varðandi frekari upplýsingar er velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.
Stjórn Framsýnar mun koma saman til fundar næstkomandi þriðjudag kl. 17:00, til fyrsta fundar eftir sumarleyfi. Helstu málefni fundarins verða kjara- og atvinnumál auk þess sem komandi þing í haust á vegum verkalýðshreyfingarinnar verða til umræðu. Alls sitja 13 félagsmenn í stjórn og varastjórn félagsins. Auk þeirra er stjórn Framsýnar ung að venju boðið að sitja fundinn en 4 félagsmenn eru í stjórn Framsýnar ung.
Við gerð síðustu kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum voru orlofsréttindi félagsfólks aukin. Það er í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.
Frá og með 1. maí 2024 breytist ávinnsla orlofs, þ.e. orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025. Eftir 22 ára aldur og 6 mánuði í fyrirtæki er orlof 25 dagar og orlofslaun 10,64%. Eftir 5 ár í fyrirtæki er orlof 26 dagar og orlofslaun 11,11%.
Frá og með 1. maí 2025 breytist ávinnsla orlofs, þ.e. orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2026. Eftir 5 ár í fyrirtæki er orlof 28 dagar og orlofslaun 12,07%
Síðan gildir eldri reglan áfram, það er starfsmenn sem starfað hafa í sama fyrirtæki í 10 ár eiga 30 daga orlofsrétt og 13,04% orlofslaun.
Hér má sjá nánari upplýsingar um breytingar á áður gildandi kjarasamningi er varðar orlofið og önnur atriði samningsins.
www.sgs.is/media/2052/glaerukynning-sgs-um-nyjan-kjarasamning-sgs-og-sa.pdf
Fyrir nokkrum dögum var þetta reiðhjól skilið eftir við Skrifstofu stéttarfélaganna. Ef þú átt hjólið, væri ekki úr vegi að nálgast það hjá okkur sem fyrst.
Heimasíða stéttarfélaganna óskar landsmönnum öllum gleðilegra Mærudaga sem eru við það að hefjast á Húsavík, bara gaman. Bein útsetning frá Mærudögum verður í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins, það er í kvöld.
Við gerum betur og betur við okkar félagsmenn. Aðild Framsýnar að fræðslusjóðum í gegnum kjarasamninga, Landsmennt, Sjómennt, Sveitamennt, Ríkismennt og fræðslusjóði verslunarmanna gerir félaginu þetta kleift.
Þannig er leitast við að mæta þörfum þeirra félagsmanna sem vilja bæta þekkingu, ná í aukin réttindi og mæta morgundeginum með þá hæfni sem nauðsynleg er.
Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu tvö ár eiga rétt á styrk allt að kr. 260.000,- eða síðustu þrjú ár eiga rétt á allt að kr. 390.000,- fyrir eitt samfellt nám eða námskeið samkvæmt nánari reglum sjóðanna sem eru reyndar aðeins mismunandi. Tveggja ára reglan kom ný inn um síðustu áramót. Uppsafnaður réttur skerðist ekki hafi félagsmaður fengið styrk undir kr. 50.000,- á tíma uppsöfnunar. Sá styrkur kemur þó til frádráttar fullum rétti.
Almennt er endurgreiðsluhlutfallið 90% af námskeiðsgjaldinu, þó að hámarki kr. 130.000.- á ári. Til viðbótar má geta þess að fullgildir félagsmenn Framsýnar eiga rétt á extra styrk kr. 130.000,-. stundi þeir kostnaðarsamt nám. Já, það er best að vera í Framsýn sem veitir hærri námsstyrki en önnur sambærileg stéttarfélög.
Um þessar mundir eru í byggingu tvær glæsilegar orlofs- og sjúkraíbúðir á vegum Framsýnar og Þingiðnar á Húsavík. Áætlað er að þær verði klárar í byrjun næsta mánaðar og fari í útleigu til félagsmanna í síðasta lagi 1. september. Fyrirspurnir eru þegar byrjaðir að berast varðandi íbúðirnar, það er hvenær þær verði klárar í útleigu en eins og fram kemur í fréttinni er áætlað að svo verði 1. september 2024. Um er að ræða góða viðbót við orlofseignir félaganna í Reykjavík, Kópavogi og Akureyri. Þá á Framsýn tvö orlofshús, annars vegar í Dranghólaskógi í Öxarfirði og hins vegar á Illugastöðum í Fnjóskadal.
Andrea Fáfnis Ólafs og Viðar Breiðfjörð halda samsýningu í Hlyn við Garðarsbraut yfir Mærudagana. Listamennirnir eiga bæði ættir og barnæsku að rekja til Húsavíkur. Þau héldu samsýningu í Vestmannaeyjum á Sjómannadaginn og þá var ákveðið að sýna líka á Húsavík á Mærudögum.
Listsköpunin kom í kjölfarið á miklu ölduróti lífsins og því kalla þau samsýninguna ÖLDURÓT. Þau eru sammála um að listsköpunin veki með þeim mikla hamingju og sálarró sem þau miðla áfram á strigann og vonast til að skili sér áfram til þeirra sem á horfa. Viðar sækir innblástur í náttúruna og mannfólkið á meðan Andrea sækir innblástur frá ýmsum viðfangsefnum, eigin hugarheimi og umhverfi. Hugarheimurinn og tengingin við sköpunarbylgjulengdina er gríðarstór gnægtarbrunnur fyrir hið listræna sköpunarflæði. Andrea er einstaklega heilluð af ýmsum listamönnum frá Bauhaus tímabilinu á fyrri part síðustu aldar. Frumkvæðið og krafturinn sem einkenndi Bauhaus hreyfinguna breytti því hvernig fólk leit á listsköpun. Á þeim tíma urðu til frumkvöðlar í bæði geometríunni og abstraktlistinni.
Bæði náttúran og geómetrían bera með sér ákveðið tímaleysi og mætti því segja að listaverk þeirra Andreu og Viðars séu sígild og tímalaus. Andrea tekur fram að hún hefur líka virkilega gaman að því að mála einhvers konar kosmísk ferðalög, eins konar leik að hreyfingu, litum og bylgjum sem leika við augu áhorfandans þannig að ímyndunaraflið fari á flug og veki spurningar. Einnig laumar hún stundum tilvísunum frá fornum menningarheimum í verkin.
Sýningin opnar á laugardaginn 27. júlí kl. 14:00 og bjóða þau Húsvíkinga og aðra gesti Mærudaga velkomna.
Atkvæðagreiðslu er lokið hjá 17 aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands, vegna nýs kjarasamnings SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var 3. júlí síðastliðinn. Framsýn á aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna SGS stóð yfir dagana 5.-15. júlí. Á kjörskrá voru 3972 manns og var kjörsókn 17,45%. Já sögðu 84,27%, nei sögðu 10,39% og 5,34% tóku ekki afstöðu. Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 17 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum.
Kjarasamningur SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga 2024-2028
Vegna forfalla er inn okkar besti sumarbústaður í Mörk í Grímsnesi laus í næstu viku. Það er frá komandi föstudegi 26. júlí til 2. ágúst. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um bústaðinn inn á heimasíðu stéttarfélaganna. Áhugasamir hafi samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.
Framsýn óskaði nýlega eftir fundi með stjórnendum Kjarnafæðis Norðlenska vegna sameiningar fyrirtækisins við KS. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska, stærsta kjötvinnslufyrirtækis landsins, samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á fyrirtækinu. Kaupin eru möguleg vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í vor þar sem kjötafurðastöðvar voru undanþegnar samkeppnislögum og fengu heimild til að sameinast. Hópur félagsmanna Framsýnar starfar hjá KN. Stjórnendur KN urðu við ákalli Framsýnar um fund og funduðu með formanni félagssins í gær. Þar skiptust menn á skoðunum um sameininguna og framtíðaráform fyrirtækisins. Ekki var annað að heyra en að starfstöð fyrirtækisins á Húsavík stæði sterk við sameininguna.
Framsýn óskaði í gærkvöldi eftir fundi með stjórnendum Kjarnafæðis Norðlenska þegar í stað. Þess er vænst fundurinn geti farið fram í vikunni. Fram hefur komið í fjölmiðlum að hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska, stærsta kjötvinnslufyrirtækis landsins, hafa samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á fyrirtækinu. Kaupin eru möguleg vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í vor þar sem kjötafurðastöðvar voru undanþegnar samkeppnislögum og fengu heimild til að sameinast. Hópur félagsmanna Framsýnar starfar hjá KN. Hafa þeir snúið sér til félagsins enda hafa þeir töluverðar áhyggjur af stöðunni og sínu starfsöryggi. Þá er það ámælisvert að starfsmenn skuli fyrst frétta af kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á fyrirtækinu í fjölmiðlum. Til skoðunar er einnig að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Kaupfélags Skagfirðinga enda um að ræða mikið hagmunamál fyrir félagsmenn Framsýnar, bændur og samfélagið allt í Þingeyjarsýslum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leit við hjá formanni Framsýnar í gær en hún var á ferðinni hér fyrir norðan. Aðalsteinn Árni var mjög ánægður með heimsóknina og sagði að þau hefðu skipst á skoðunum um þjóðmálin og málefni er tengjast vinnumarkaðinum. Hann sagði að það væri full ástæða til að hæla Áslaugu Örnu fyrir að gefa sér tíma til að líta við en heimsóknin var að hennar frumkvæði.
Atkvæðagreiðslu er lokið hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands, vegna nýs kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem undirritaður var 25. júní síðastliðinn. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna stóð yfir dagana 1.-8. júlí.
Á kjörskrá voru 1.309 manns og var kjörsókn 22,84%. Já sögðu 87,96%, nei sögðu 7,69% og 4,35% tóku ekki afstöðu.
Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 18 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum, þar á meðal hjá félagsmönnum Framsýnar sem starfa hjá ríkinu. Félagar, innilega til hamingju með nýjan kjarasamning!
Þurfum að losna við góða og lítið notaða iðnaðaruppþvottavél í góðu standi. Gerðin er COMENDA RF 324. Fæst fyrir lítið. Frekari upplýsingar gefur Alli eða Kúti á Skrifstofu stéttarfélaganna.
Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefst í dag kl. 12:00. Með því að fara inn á þessa kosningslóð geta félagsmenn Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum greitt atkvæði. Miðað er við þá sem voru í vinnu hjá sveitarfélögunum, Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Tjörneshrepp í apríl/maí.
Kosningaslóðin: https://kjosa.vottun.is/home/vote/501?lang=IS
Hægt er nálgast allar helstu upplýsingar um samninginn á upplýsingasíðu um samninginn sem nú er komin í loftið: https://www.sgs.is/kjaramal/kjarasamningar/kjarasamningur-vid-sveitarfelogin-2024-2028/
Rafræna atkvæðagreiðslan stendur til kl. 09:00 mánudaginn 15. júlí og verða niðurstöðurnar kynntar sama dag. Um er að ræða sameiginlega kosningu meðal aðildarfélaga SGS, það er þeirra félaga sem skrifuðu undir kjarasamninginn við Samband ísl. sveitarfélaga.
Atkvæðagreiðslu er lokið um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Landsvirkjunar sem undirritaður var 25. júní síðastliðinn. Samningurinn nær til félagsmanna innan aðildarfélaga SGS, þar á meðal félagsmanna Framsýnar, sem starfa hjá Landsvirkjun vítt og breitt um landið og vinna við rekstur, viðhald og aðra þjónustu í dreifikerfum og aflstöðvum sem eru í rekstri.
Á kjörskrá voru 16 manns. Atkvæði greiddu 9, eða 56,25%, og var samningurinn samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Nýjan samning má nálgast hér.
Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og ríkisins sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn hófst kl. 12:00 í dag. Meðfylgjandi er kosningaslóðin sem viðkomandi félagsmenn geta notað til að kjósa.
Kosningaslóðin: https://kjosa.vottun.is/home/vote/500?lang=IS
Hér er hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um samninginn á upplýsingasíðu um samninginn.
Rafræna atkvæðagreiðslan stendur til kl. 09:00 mánudaginn 8. júlí. Afar mikilvægt er að félagsmenn Framsýnar kjósi um samninginn.
Fréttabréf stéttarfélaganna kom út í morgun fullt af efni og því verulega efnismikið. Fjallað er um starfsemi stéttarfélaganna og þá er viðtal við formann Framsýnar sem fagnar um þessar mundir 30 ára formennsku í Framsýn. Auk þess hefur hann verið forstöðumaður Skrifstofu stéttarfélaganna í þrjá áratugi. Blaðið er komið í allar helstu verslanir á Húsavík, eftir helgina verður það aðgengilegt í verslunum utan Húsavíkur og á Skrifstofu stéttarfélaganna.