11. þing ASÍ-UNG fer fram í Reykjavík í dag, föstudaginn 17. október 2025. Þingið ber yfirskriftina „Leið ungliða til áhrifa“ og mun dagskrá þingsins taka mið af því auk venjubundinna þingstarfa.
Framsýn er með tvo öfluga fulltrúa á þinginu, það eru þær Sunna Torfadóttir og Birta G. Amlin Sigmarsdóttir.
Dagskrá fyrir 11. þing ASÍ-UNG 2025
12:00 Skráning og hádegisverður
12:30 Þingsetning
12:35 Ávarp – forseti ASÍ
12:45 Kynning á ASÍ-UNG
13:00 Skýrsla stjórnar
13:15 Kynning á málefnavinnu
13:30 Málefnavinna
14:30 Kaffihlé
14:45 Áframhaldandi málefnavinna
15:45 Niðurstöður málefnavinnu kynntar
16:15 Kaffihlé
16:30 Kynning á frambjóðendum*
16:45 Tillögur ef einhverjar eru – Umræður og kosningar
17:15 Samþykktarbreytingar ef einhverjar eru – Umræður og kosningar
Forsætisráðherra skipaði fyrr í sumar starfshóp með fulltrúum fimm ráðuneyta vegna stöðunnar sem upp er komin vegna tímabundinnar rekstrarstöðvunar kísilvers PCC á Bakka. Starfshópurinn hafði það hlutverk að kortleggja stöðu atvinnumála á Húsavík og nágrenni vegna tilkynninga um mögulega rekstrarstöðvun kísilvers PCC á Bakka. Starfshópnum var einnig ætlað að koma með tillögur að mögulegum viðbrögðum stjórnvalda til bæði skemmri og lengri tíma með hliðsjón af ólíkum sviðsmyndum. Starfshópurinn skilaði skýrslu frá sér í morgun til ríkistjórnarinnar auk þess að gera fulltrúum Norðurþings, PCC og stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslunnar á fundum fyrir hádegi, fundinum með fulltrúm stéttarfélaganna, Þingiðnar og Framsýnar, lauk rétt fyrir kl. 12:00. Hér má nálgast skýrsluna: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/10/17/Mikil-taekifaeri-til-ad-byggja-upp-starfsemi-a-Bakka/
Í ályktun ASÍ sem var að berast er lýst yfir miklum áhyggjum af atvinnuástandinu í Þingeyjarsýslum og skorað á stjórnvöld að koma að málinu af fullum krafti. Framsýn og Þingiðn fagna þessum stuðningi. Ályktunin er eftirfarandi:
„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum miðvikudaginn 15. október:
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af atvinnuástandi á Húsavík og nágrenni vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka.
Miðstjórn hvetur stjórnvöld til að bregðast við hið fyrst þannig að unnt verði að hefja rekstur fyrirtækisins á ný. Í því efni skiptir mestu að rekstrarumhverfi PCC verði bætt með beinskeyttum aðgerðum.
Miðstjórn leggur áherslu á að stöðvun reksturs PCC má einkum rekja til erfiðleika á mörkuðum og röskunar þeirra vegna tollastríðs. Þá er samkeppnisstaða gagnvart Kína erfið þar sem verkafólk sem engra réttinda nýtur og býr við ömurleg launakjör og aðbúnað framleiðir ódýran kísilmálm í miklu magni.
Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum. Afleidd störf af starfseminni skipta hundruðum.
Lokun verksmiðjunnar, sem er ein hin fullkomnasta í heiminum, er mikið áfall fyrir atvinnulíf á Norðurlandi og alvarlegra áhrifa er þegar tekið að gæta.
Miðstjórn ASÍ ítrekar því ákall sitt til stjórnvalda um að brugðist verði við hið fyrsta þar sem gífurlegir hagsmunir eru í húfi, jafnt fyrir atvinnulíf á Norðurlandi sem þjóðarbúið sjálft.“
Forsvarsmenn Framsýnar og PCC á Bakka eru nánast í daglegu sambandi vegna stöðunnar á Bakka nú þegar starfsemi fyrirtækisins liggur niðri. Markmið aðila er að eiga gott samstarf um málefni verksmiðjunnar og hugsanleg úrræði í fullu samráði við aðra hagsmunaaðila. Hvað það varðar kom Framsýn á fundi með framkvæmdastjóra PCC og forseta Alþýðusambands Íslands á dögunum enda mikilvægt að sambandið sé inn í málinu. Á meðfylgjandi mynd eru Kári M. Guðmundsson forstjóri PCC og Aðalsteinn Ári Baldursson formaður Framsýnar að velta fyrir sér stöðunni en ekkert nýtt er að frétta hvað varðar starfsemi PCC á Bakka.
Okkar besti maður, Björgvin Sigurðsson, söngvari Skálmaldar leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna en hann er félagsmaður í Framsýn eins og margir aðrir góðir tónlistarmenn enda best að vera í Framsýn. Þar hitti hann fyrir Alla starfsmann stéttarfélaganna sem er mikill aðdáandi Skálmaldar og þungarokks almennt enda fer hann reglulega á tónleika þar sem bestu þungrokkshljómsveitir heims koma fram. Ekki er ólíklegt að þeir hafi verið að tala um þungarokk í stað þess að tala um verkalýðsmál þegar myndin var tekin. Í það minnsta eru þeir hressir að sjá.
Rekstrar- og viðhaldsteymi á Mývatnssvæði lagði lokahönd á afréttingu á vél nr. 2 eftir umfangsmikla vélarupptekt. Um er að ræða nákvæmisvinnu þar sem rafali og hverfill eru stilltir saman með mikilli nákvæmni. Staðsetning þarf að vera innan við 3/100 mm bæði í radial og axial áttum.
Slík vinna er lykilatriði í öruggum og áreiðanlegum rekstri og krefst góðs skipulags, reynslu og samstilltrar teymisvinnu. (Frétt- Landvirkjun : Myndir- Stefán Stefánsson)
Eins og fram hefur komið á síðunni urðu töluverðar umræður um byggða- og atvinnumál á þingi SGS fyrir helgina. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á þinginu:
„10. þing Starfsgreinasambands Íslands skorar á stjórnvöld að standa vörð um landsbyggðina, sem er einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs og samfélags. Landsbyggðin skapar stóran hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar með framleiðslu, útflutningi og nýtingu auðlinda. Gjaldeyristekjur, sem þannig verða til, standa að mestu undir velferðarkerfi Íslendinga.
Starfsgreinasamband Íslands krefst þess að eðlilegur hlutur af þeim verðmætum sem landsbyggðin skapar skili sér aftur heim í hérað. Verðmætin verði notuð til:
• að gera íbúum á landsbyggðinni kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í mun meira mæli í heimabyggð. Stórfelldar tækniframfarir hafa orðið sem gera fjarlækningar mögulegar hvar sem fólk býr á landinu og tæknina þarf að nýta mun betur en gert er.
• að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag með stórauknum framlögum vegna ferða- og dvalarkostnaðar sjúklinga sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fjarri heimabyggð. Jafnframt verði komið til móts við aðstandendur sem þurfa að fylgja sjúklingum með þátttöku í kostnaði þeirra. Þá er brýnt að komið verði upp aðgengilegu húsnæði fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra sem þurfa að dvelja í nánd við heilbrigðisstofnanir af heilsufarslegum ástæðum, fjarri heimabyggð.
• uppbyggingar og viðhalds vega, flugvalla og annarra samgangna s.s. á sjó. Þá verði ráðist í frekari jarðgangnagerð. Góðar samgöngur eru forsendan fyrir að byggð og gott mannlíf þrífist sem víðast um landið.
• eflingar félagslegrar þjónustu og atvinnuuppbyggingar í hinum dreifðu byggðum landsins. • að jafna aðgengi fólks að menntun, ekki síst á framhalds- og háskólastigi.
• að tryggja aðgengi landsbyggðarinnar að opinberri þjónustu, fjarskiptum og raforku á viðráðanlegu verði til húshitunar á köldum svæðum sem og til atvinnurekstrar. Kallað er eftir því að allir landsmenn sitji við sama borð hvað auðlindirnar varðar og greiði sambærilegt verð fyrir rafmagn, heitt og kalt vatn sem og aðra orkugjafa.
Þá er grundvallaratriði að íbúar landsbyggðarinnar njóti sömu lífsgæða og tækifæra og íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Jafnvægi í byggðaþróun er forsenda samstöðu og samfélagslegrar sáttar í landinu. Í því samhengi hefur SGS þungar áhyggjur af fyrirhugaðri upptöku kílómetragjalds á ökutæki. Með breytingunum er vegið að búsetuskilyrðum á landsbyggðinni, álögur á akstur auknar og hætta á að fyrirtæki fleyti hækkunum beint í verðlag á vörur og flutninga. SGS telur ótækt að stjórnvöld ætli sér í blindni að treysta olíufélögum til að afnema gjöld á eldsneyti á móti kílómetragjaldi og hafi engin áform um að tryggja að slíkt raungerist.
Starfsgreinasamband Íslands minnir á að án sterkrar landsbyggðar veikist bæði efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar. Stjórnvöld verða því að tryggja að arðurinn af auðlindum og útflutningi nýtist öllum landsmönnum, ekki síst þeim samfélögum sem skapa verðmætin.“
Á þingi Starfsgreinasambandsins fyrir helgina urðu miklar umræður um byggða- og atvinnumál. Meðal annars urðu umræður um stöðu PCC sem undanfarna mánuði hefur sagt upp yfir 100 starfsmönnum þar sem starfsemi fyrirtækisins liggur niðri um þessar mundir. Þá hefur einnig komið til uppsagna hjá undirverktökum sem hafa séð um ákveðna verkþætti á vegum PCC. Eftir málefnalegar umræður var eftirfarandi ályktun um stöðu PCC á Bakka samþykkt samhljóða:
„10. þing Starfsgreinasambands Íslands kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málefnum PCC Bakki Silicon hf. við Húsavík.
Afar mikilvægt er að stjórnvöld komi að málinu að fullum krafti með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu. Ákvörðun um að stöðva framleiðsluna byggir ekki síst á erfiðleikum á mörkuðum fyrir kísilmálm og röskunum á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs. Þá bætir fríverslunarsamningur Íslands við Kína ekki samkeppnisstöðu PCC þar sem ódýr kísilmálmur flæðir yfir frá Kína til Evrópu sem unninn er af verkafólki þar sem mannréttindi, launakjör og aðbúnaður verkafólks eru fótum troðin.
Lokun PCC er þegar farin að hafa veruleg áhrif enda um að ræða fjölmennan vinnustað á Norðurlandi auk þess sem fjöldi undirverktaka hefur treyst á starfsemi fyrirtækisins. Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum, það er fyrir utan afleidd störf sem telja hundruðir starfa til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikla áherslu á að skipta við verslunar- og þjónustuaðila í nærsamfélaginu auk þess að styðja myndarlega við æskulýðs- og íþróttastarfsemi sem er hverju byggðalagi mjög mikilvægt.
Takist ekki að tryggja rekstrarumhverfi PCC, sem er ein fullkomnasta kísilmálmverksmiðja í heiminum, keyrð á grænni orku, mun það hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér fyrir atvinnulífið á Norðurlandi og víðar auk þess sem Ísland verður af gjaldeyristekjum. Því er ekki í boði fyrir íslensk stjórnvöld að sitja aðgerðarlaus hjá, núverandi staða kallar á aðgerðir strax.“
Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar þakkaði þingfulltrúum fyrir stuðninginn varðandi starfsemi PCC á Bakka en þingið samþykkti einhuga ályktun hvað það varðar.
10. þing Starfsgreinasambands Íslands fór fram fyrir helgina en það var haldið á Akureyri. Þing sambandsins eru haldin á tveggja ára fresti. Samþykktar voru sjö ályktanir um byggðamál, starfsemi PCC á Bakka, húsnæðismál, kjaramál, leikskólamál, lífeyrismál og starfsemi erlenda vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér á landi. Allar ályktanir og afgreidd mál þingsins má nálgast á þingvef SGS.
Vilhjálmur Birgisson (Verkalýðsfélagi Akraness) var einn í framboði til formanns SGS og var hann sjálfkjörin í embættið til næstu tveggja ára.
Vilhjálmur þakkaði í ræðu sinni kærlega fyrir það traust sem honum var sýnt til að leiða sambandið til næstu tveggja ára. Þá sagði hann: „hvorki stjórnvöld né atvinnurekendur geta hunsað okkur ef við stöndum saman sem eitt afl. Ég hef setið mörg þingin í áranna rás og hef í raun aldrei fundið fyrir jafnmikilli samstöðu og nú, en samt krafti og það skiptir öllu máli“.
Guðbjörg Kristmundsdóttir (VSFK) var einnig ein í framboði til varaformanns og var sömuleiðis sjálfkjörin. Þá voru sjö í framboði sem aðalmenn í framkvæmdastjórn til tveggja ára og voru eftirtaldir kosnir:
Aðalsteinn Árni Baldursson, Framsýn stéttarfélag
Tryggvi Jóhannsson, Eining-Iðja
Silja Eyrún Steingrímsdóttir, Stéttafélagi Vesturlands
Sem varamenn í framkvæmdastjórn hlutu eftirtaldir kosningu:
Birkir Snær Guðjónsson, AFL starfsgreinafélag
Hörður Guðbrandsson, Verkalýðsfélagi Grindavíkur
Hrund Karlsdóttir, Verkalýðs og sjómannafélag Bolungarvíkur
Sigurey A. Ólafsdóttir, Stéttarfélagið Samstaða
Alma Pálmadóttir, Hlíf
Umræður um byggðamál og lífeyrismál voru áberandi á þinginu. Hvað lífeyrissjóðsmálin varðar eru gríðarlegir miklir hagsmunir í húfi fyrir verkafólk í landinu, þá sérstaklega niðurfelling á opinberu jöfnunarframlagi sem bitnar helst á verkamannasjóðum sem hafa mun hærri örorkubyrði en aðrir lífeyrissjóðir.
Um þessar mundir er unnið að því að skipta um glugga á norðurhliðinni á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík þar sem önnur fyrirtæki og stofnanir eru einnig til húsa. Það eru smiðirnir kampakátu, Þorvaldur og Bjarni, sem sjá um framkvæmdina en gluggarnir voru orðnir frekar lélegir enda áveðurs. Skrifstofuhúsnæðið var málað í sumar og verður því í góðu standi þegar búið verður að skipta um gluggana á næstu dögum enda afar mikilvægt að halda eigninni vel við á hverjum tíma.
Það stendur mikið til, þegar er búið að mála Skrifstofu stéttarfélaganna og nú er verið að skipta um glugga á efri hæðinni. Verkið klárast í næstu viku enda verði veðrið áfram gott.
Stjórn Starfsmannafélags Húsavíkur hefur ákveðið að selja orlofsíbúð félagsins í Sólheimum í Reykjavík og kaupa þess í stað aðra nýlegri íbúð, hugsanlega í Þorrasölum þar sem Þingiðn og Framsýn eiga fyrir sex íbúðir. Aðalfundur félagsins hafði áður ákveðið að ráðast í það að selja íbúðina og kaupa nýja. Samið hefur verið við fasteignasölu um að sjá um söluna.
Fulltrúar frá Fjallalambi og Framsýn skrifuðu í dag undir sérkjarasamning vegna sauðfjárslátrunar haustið 2025 sem þegar er hafin á Kópaskeri. Reiknað er með að slátrað verði um 24 til 25 þúsund fjár. Áætlað er að sláturtíðin standi yfir í 6 vikur. Um 60 starfsmenn, sem koma frá nokkrum þjóðlöndum, starfa hjá fyrirtækinu í sláturtíðinni.
Sláturtíðin á Kópaskeri gengur vel, meðfylgjandi er mynd úr myndasafni Framsýnar.Björn Víkingur frá Fjallalambi og Aðalsteinn Árni frá Framsýn undirrituðu samninginn í morgun á Kópaskeri.
10. þing Starfsgreinasambands Íslands fer fram dagana 8.-10. október næstkomandi í Hofi, Akureyri. Þingið hefur æðsta vald í málefnum sambandsins og þar eru lagðar línurnar í kjaramálum og starfsemi sambandsins til næstu tveggja ára. Á þingið í ár mæta alls 135 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum sambandsins. Framsýn á rétt á 7 þingfulltrúum.
Dagskrá þingsins verður með hefðbundnu sniði en öll helstu gögn og upplýsingar um þingið eru aðgengilegar á sérstökum þingvef.
Nýlega fagnaði Áttin 10 ára afmæli en vefgáttinni er ætlað að taka á móti umsóknum fyrirtækja um fræðslustyrki og koma þeim áfram til úrvinnslu hjá viðkomandi starfsmenntasjóðum sem tengjast Áttinni en átta fræðslusjóðir eiga aðild að vefgáttinni. Afmælishátíðin var ekki aðeins tímamót heldur einnig áminning um mikilvægi starfsmenntunar á íslenskum vinnumarkaði. Á sama tíma er þess minnst að fræðslusjóðirnir – sem hafa markað djúp spor í íslenskt atvinnulíf – eru nú 25 ára. Þessi tvöföldu tímamót gefa tilefni til að staldra við, horfa til baka og spyrja: hvert stefnum við næst?
Sameiginleg framtíðarsýn Árið 2000 tóku aðilar vinnumarkaðarins ásamt stjórnvöldum sameiginlegt skref sem hefur haft langvarandi áhrif. Með stofnun öflugra fræðslusjóða var lagður grunnur að kerfi sem gerir starfsfólki og fyrirtækjum kleift að fjárfesta í sí- og endurmenntun. Landsmennt, Starfsafl og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks hófu starfsemi á þessum tíma og hafa síðan veitt þúsundum einstaklinga og fjölda fyrirtækja aðgang að styrkjum til náms. Nokkru síðar urðu til fleiri fræðslusjóðir með sama hlutverk fyrir starfsmenn sveitarfélaga og ríkisstofnana innan Starfsgreinasambands Íslands enda menntun starfsmanna sameiginlegt hagsmunamál samningsaðila.
Jöfnuður í verki Það er auðvelt að tala um jöfn tækifæri en erfiðara að tryggja þau í framkvæmd. Stór hluti íslensks vinnumarkaðar byggist á störfum sem ekki krefjast formlegrar menntunar: verslunar- og þjónustustörf, iðnverkastörf, fiskvinnslustörf og störf við ræstingar. Þetta er fólk sem vinnur oft langan vinnudag við krefjandi aðstæður og hefur takmarkað svigrúm til náms. Ef menntun er aðeins aðgengileg þeim sem búa vel efnahagslega eða landfræðilega er hún ekki tæki til jafnréttis heldur mismununar. Þess vegna skipta fræðslusjóðirnir svo miklu máli – þeir jafna stöðuna. Þeir gera fólki kleift að stíga skrefið inn í nám sem annars væri utan seilingar.
Óformleg menntun þarf viðurkenningu Íslenskur vinnumarkaður er fullur af starfsfólki sem hefur byggt upp mikla færni í gegnum reynslu og sjálfsnám. Almennur starfsmaður sem hefur unnið í tvo áratugi við viðhald tækja hefur öðlast þekkingu sem oft stenst samanburð við formlegt nám. En kerfið skilgreinir hann sem ófaglærðan. Þetta er bil sem þarf að brúa. Lausnin liggur í raunfærnimati, hæfnigreiningum og sveigjanlegum námsleiðum sem taka mið af raunverulegri reynslu og getu fólks. Hér gegna fræðslusjóðirnir lykilhlutverki með því að styðja við námskeið, styttri námsleiðir og sérsniðin úrræði sem virða og viðurkenna þá þekkingu sem aflað hefur verið í starfi.
Landfræðilegar hindranir Það er ekki nóg að bjóða upp á nám – það þarf líka að tryggja raunverulegt aðgengi að því. Fyrir marga á landsbyggðinni felur nám í sér mikinn kostnað og félagslegar hindranir. Að flytja tímabundið frá heimabyggð eða ferðast langar vegalengdir er ekki raunhæfur kostur fyrir fólk með fjölskyldu. Ef við ætlum að tala um jöfn tækifæri verðum við að horfa til þessa hóps. Markmiðið hlýtur að vera: fræðsluna heim að dyrum.
Lykillinn að framtíðinni Við stöndum á tímamótum. Ef tryggja á raunverulegt jafnrétti í starfsmenntun þarf að efla fræðslusjóðina enn frekar. Styrkir verða að ná að standa undir ekki aðeins skólagjöldum heldur líka ferðakostnaði og tekjutapi sem fylgir því að taka sér tíma frá vinnu. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem standa höllum fæti: fólk með litla formlega menntun, fólk með lágar tekjur, konur í láglaunastörfum og íbúa landsbyggðarinnar. Á Íslandi hefur menntun lengi verið talin lykill að framþróun. Nú er kominn tími til að tryggja að þessi lykill passi fyrir alla. Starfsmenntun á ekki að vera hindrun heldur brú – leið til framtíðar óháð efnahag eða búsetu. Hún er lykillinn að jöfnuði, réttlæti og framþróun – okkur öllum til hagsbóta. Við fögnum nú 10 ára afmæli Áttarinnar og 25 ára afmæli fræðslusjóðanna. Tímamótin minna okkur á að sagan er aðeins upphafið – framtíðin ræðst af því hvort við nýtum tækin sem við höfum til að skapa raunveruleg jöfn tækifæri fyrir alla á íslenskum vinnumarkaði. Þangað eigum við að stefna.
Aðalsteinn Árni Baldursson
(Höfundur er formaður Framsýnar stéttarfélags og stjórnarformaður Fræðslusjóðsins Landsmenntar)
Framsýn stéttarfélag stóð fyrir félagsfundi í gær um atvinnumál og stöðuna hjá PCC á Bakka sem er mjög alvarleg um þessar mundir. Þá voru lífeyrismál einnig til umræðu enda hefur almennt verkafólk áhyggjur af boðuðum skerðingum stjórnvalda á réttindum fólks í almennu lífeyrissjóðunum. Fundurinn var fjölmennur og greinilegt var að fundarmenn höfðu miklar áhyggjur af stöðunni á Bakka en sérstakir gestir fundarins voru Kári Marís Guðmundsson framkvæmdastjóri PCC og Jóhann Steinar Jóhannsson framkvæmdastjóri Lsj. Stapa. Eftir miklar og góðar umræður um málefni fundarins var samþykkt að álykta um atvinnu- og lífeyrismál. Meðfylgjandi ályktanirnar með fréttinni voru samþykktar samhljóða í lok fundar.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, fór yfir ástandið í atvinnumálum á svæðinu sem hann sagði skelfilegt enda kæmi ekki til þess að PCC næði að hefja aftur starfsemi á næstu mánuðum. Þá fór hann yfir hugmyndir stjórnvalda um að ráðast að lífeyrisréttindum verkafólks auk þess að gera grein fyrir ályktunum fundarins sem voru samþykktar samhljóða eftir umræður.
Ályktun Um málefni PCC á Bakka
„Félagsfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 30. september 2025, lýsir yfir þungum áhyggjum af atvinnumálum á félagssvæðinu í ljósi þess að PCC á Bakka hefur sagt upp flestum starfsmönnum fyrirtækisins.
Framsýn kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málinu þegar í stað með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu.
Ákvörðun um að stöðva framleiðsluna byggir ekki síst á erfiðleikum á mörkuðum fyrir kísilmálm og raskana á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs. Þá bætir fríverslunarsamningur Íslands við Kína ekki samkeppnisstöðu PCC við innfluttan málm til frekari vinnslu á Íslandi.
Áhrifin af lokun PCC eru þegar farin að hafa veruleg áhrif enda um að ræða fjölmennan vinnustað auk þess sem fjöldi undirverktaka hefur treyst á starfsemi fyrirtækisins. Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum, það er fyrir utan afleidd störf sem telja tugi starfa til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikla áherslu á að skipta við verslunar- og þjónustuaðila í nærsamfélaginu auk þess að styðja myndarlega við æskulýðs- og íþróttastarfsemi á Húsavík. Á árinu 2024 varði fyrirtækið 3,7 milljörðum króna í laun, gjöld, skatta og kaup á þjónustu á svæðinu.
Fyrir liggur að rekstrarörðuleikar PCC koma til með að hafa víðtæk áhrif á getu sveitarfélagsins Norðurþings til að standa undir sínum lögbundnu skyldum gangvart íbúum vegna minnkandi tekna af starfsemi fyrirtækisins er tengist ekki síst útsvarstekjum starfsmanna, fasteigna- og hafnargjöldum.
Að mati Framsýnar stéttarfélags kemur ekkert annað til greina en að hlutaðeigandi aðilar sem tengjast starfseminni á Bakka s.s. eigendur PCC, stjórnvöld, stjórnendur Norðurþings, Landsvirkjun, Landsnet og stéttarfélög starfsmanna myndi breiðfylkingu um að tryggja frekari starfsemi PCC á Bakka til framtíðar öllum til hagsbóta. Stéttarfélögin eru reiðubúin í slíka vinnu enda miklir hagsmunir í húfi.“
Kári Marís Guðmundsson framkvæmdastjóri PCC fór yfir stöðuna hjá fyrirtækinu og svaraði fyrirspurnum fundarmanna sem höfðu miklar áhyggjur af stöðu mála enda PCC afar mikilvægt fyrir samfélagið.
Ályktun Um aðför stjórnvalda að lífeyrissjóðakerfinu
„Félagsfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 30. september 2025, fordæmir aðför stjórnvalda að lífeyrisréttindum verkafólks með því að afnema framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða frá og með næstu áramótum. Með þessu eru stjórnvöld að brjóta gegn samkomulagi við verkalýðshreyfinguna frá árinu 2005 sem byggir á því að tryggja að réttindaávinnsla sjóðfélaga verði jöfn milli sjóða.
Afnám á jöfnunarframlaginu bitnar sérstaklega á lífeyrissjóðum láglaunafólks þar sem örorkubyrðin er mest. Fólk í erfiðisvinnu, safnar allt að 15% lakari lífeyrisréttindum en sjóðsfélagar annarra lífeyrissjóða, þrátt fyrir að greiða sama iðgjald samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.
Um er að ræða alvarlegt brot á jafnræði enda felur afnámið í sér kerfisbundna mismunun á hendur verkafólki. Slíkt kemur aldrei til greina, auk þess sem það er með öllu óásættanlegt að íslenskt verkafólk sé sett í verri stöðu en aðrir þegar kemur að lífeyrisréttindum.“
Jóhann Steinar Jóhannsson framkvæmdastjóri Lsj. Stapa flutti fróðlegt erindi um fyrirhugaðar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu sem verkalýðshreyfingin hefur sagt aðför stjórnvalda að lífeyrisréttindum verkafólks en til stendur að afnema framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða frá og með næstu áramótum. .Fundarmenn voru virkir í umræðum um málefni fundarins, setið var í flestum sætum á fundinum.
Á félagsfundi Framsýnar í gær þegar málefni PCC voru til umræðu og atvinnumál almennt á félagssvæðinu voru lesnar upp tvær kveðjur frá stéttarfélögum innan Starfsgreinasambands Íslands, það er annars vegar frá Verkalýðsfélagi Akraness og hins vegar frá Drífanda stéttarfélagi í Vestmannaeyjum. Fundarmenn sáu ástæðu til að klappa fyrir stéttarfélögunum sem vildu með þessu sýna samstöðu með Framsýn sem hefur gert allt til að verja hagsmuni starfsmanna og þar með samfélagið við Skjálfanda. Framsýn vill nota tækifærið og þakka félögunum fyrir kveðjurnar sem það kann vel að meta.
Fundinum barst falleg kveðja frá Vilhjálmi Birgissyni formanni VA
Kæru félagar í Framsýn,
Verkalýðsfélag Akraness vill með þessum orðum lýsa yfir samstöðu með ykkur í þeirri erfiðu stöðu sem komin er upp vegna uppsagna starfsmanna PCC á Bakka. Við deilum með ykkur djúpum áhyggjum af afleiðingum þessarar ákvörðunar – bæði fyrir fjölmörg störf í nærsamfélaginu og fyrir getu sveitarfélagsins Norðurþings til að sinna sínum lögbundnu skyldum.
Við vitum vel hversu mikilvægt það er fyrir byggðir landsins að hafa öflug gjaldeyrisskapandi fyrirtæki innan sinna svæða. Hér á Akranesi höfum við sjálf séð með eigin augum hve stóran þátt stóriðjan á Grundartanga hefur í því að skapa atvinnuöryggi, gjaldeyristekjur og byggðafestu á Vesturlandi. Reynslan þaðan sýnir svart á hvítu að öflug starfsemi slíkra fyrirtækja er burðarás í atvinnulífi landsbyggðarinnar og samfélaginu öllu. Þess vegna er brýnt að stjórnvöld og Alþingi standi vörð um landsbyggðina. Það verður að vera öllum ljóst að raunverulegar gjaldeyristekjur þjóðarinnar verða til vítt og breitt um landið – ekki síst í byggðum eins og ykkar.
Við fögnum því að Framsýn hafi tekið skýra afstöðu og kallað eftir aðkomu stjórnvalda til að tryggja áframhaldandi starfsemi PCC á Bakka. Ályktun félagsfundar Framsýnar stéttarfélags undirstrikar vel þá ábyrgð sem hvílir á bæði eigendum fyrirtækisins, stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum að mynda breiðfylkingu til að leita lausna þar sem hagsmunir starfsmanna og samfélagsins verða hafðir að leiðarljósi.
Verkalýðsfélag Akraness styður ykkur heilshugar í þessari baráttu og er tilbúið að leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu sem framundan er. Sameinuð getum við þrýst á um að raunhæfar aðgerðir verði gripnar sem tryggi störf, byggðafestu og réttláta skiptingu þeirra verðmæta sem fyrirtækin skapa í samfélaginu.
Með bestu kveðju,
Vilhjálmur Birgisson
formaður
Góður stuðningur barst frá formanni Drífanda, Arnari Hjaltalín, inn á fundinn sem fundarmenn kunnu vel að meta.
Sæll Aðalsteinn
Hugur okkar í Vestmannaeyjum er hjá félögum okkar á Húsavík. Þessar uppsagnir eru reiðarslag fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem urðu fyrir þeim.
Við sem búum á landsbyggðinni vitum að hvert einasta starf er verðmætt ekki bara fyrir þá sem vinna þau heldur einnig fyrir allt nærsamfélagið.
Við höfðum samband við þig er fréttirnar bárust og það stendur enn það sem við sögðum þá: Ekki hika við að hafa samband ef það er eitthvað sem við getum gert til að aðstoða ykkur í baráttunni. Baráttunni við að halda störfunum í byggðarlaginu og til tryggja afkomu fjölskyldna ykkar og samfélagsins fyrir norðan.
Barátta ykkar er barátta okkar allra.
Skilaðu kveðjum frá okkur á fundinn, hugur okkar er hjá ykkur.
Við hittumst að Breiðumýri föstudaginn 24. október.
Tímasetning: kl. 14.00 – 15.30.
Nánari dagskrá kemur síðar.
Kvenfélagasamband Suður Þingeyinga, Framsýn stéttarfélag, Búnaðarsamband Suður -Þingeyinga, Kennarasamband Íslands, Héraðssamband Þingeyinga og Hinseginfélag Þingeyinga.
Framsýn stendur fyrir félagsfundi um atvinnu- og lífeyrismál þriðjudaginn 30. september kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Hvað það varðar, nægir að nefna að uppi er mjög alvarleg staða varðandi framtíð PCC á Bakka. Lífeyrismál verða einnig til umræðu í ljósi þess að stjórnvöld hafa boðað að framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða verði afnumið um næstu áramót með tilheyrandi skerðingum fyrir verkafólk.
Gestir fundarins verða Kári Marís Guðmundsson framkvæmdastjóri PCC og Jóhann Steinar Jóhannsson framkvæmdastjóri Lsj. Stapa.
Skorað er á félagsmenn að mæta á fundinn enda miklir hagsmunir í húfi. Sýnum samstöðu og mætum á fundinn, nú getur enginn setið hjá. Framsýn stéttarfélag.
Fulltrúaráðsfundur Alþýðusambands Norðurlands var haldinn miðvikudaginn 24. september að Illugastöðum í Fnjóskadal. Fulltrúaráðsfundur er haldinn þau ár sem þing sambandsins eru ekki haldin. AN er samband aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands á Norðurlandi sem nær frá Blönduósi að Þórshöfn á Langanesi. Formaður þess er, Ósk Helgadóttir, sem jafnframt er varaformaður Framsýnar. Mörg mjög áhugaverð erindi voru flutt á fundinum auk þess sem töluverðar umræður urðu um málefni fundarins og ASÍ.
Dagskráin var svona:
Farsæld barna SSNV: Þorleifur Kr. Níelsson verkefnastjóri Farsældar
Jafnréttisbarátta á tímamótum. Er þetta ekki bara komið?: Bryndís Elfa Valdimarsdóttir sérfræðingur Jafnréttisstofu
Ég er bara svona: Sesselja Barðdal framkvæmdastýra Driftar
Fyrirhuguð uppbygging Háskólasamstæðu í Skagafirði: Hólmfríður Sveinsdóttir rektor Háskólans á Hólum
Fræðasetur um forystufé: Daníel Hansen forstöðumaður kynnir starfsemi setursins
Staða orlofsbyggðarinnar: Tryggvi Jóhannsson formaður orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum
Eftir framsögur frummælenda og umræður var fundurinn þó ekki búinn þar sem óskað var eftir umræðum um starfsemi ASÍ er snúa að málefnum félagsmanna aðildarfélaga sambandsins á landsbyggðinni. Voru fundarmenn sammála um að sambandið mæti huga betur að málefnum landsbyggðarinnar og þar með félagsmanna. Staðan í dag væri óásættanleg með öllu. Veltu fundarmenn því fyrir sér hvernig best væri að bregðast við óánægju fundarmanna með stöðuna. Ekki er ólíklegt að stjórn sambandsins fylgi málinu eftir og taki málið fyrir á næsta fundi stjórnar.
Fulltrúar frá aðildarfélögum AN funduðu á Illugastöðum í vikunni.Mörg áhugaverð erindi voru flutt á fundinum. Hér er Sesselja Barðdal framkvæmdastýra Driftar að messa yfir fundarmönnum.Ábyrgur fundarstjóri, Tryggvi Jóhannsson, sem jafnframt er formaður Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum fór yfir starfsemi orlofsbyggðarinnar.Ósk Helgadóttir formaður AN hélt utan um fulltrúaráðsfundinn og gerði það með miklum stæl.
Hægt er að fá gefins eldavél hjá Framsýn sem hefur verið í bústað félagsins á Illugastöðum um árabil. Um er að ræða góða gamla vél ef einhver þarf á slíkri eldavél að halda t.d. í bílskúrinn. Áhugasömum er velkomið að hafa samband við Aðalstein Árna, kuti@framsyn.is.