Setið og samið við nýja stofnun

Ný stofnun, Náttúruverndarstofnun, hefur tekið við verkefnum sem snúa að náttúruvernd, lífríkis- og veiðistjórnun hjá Umhverfisstofnun og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Stofnunin fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Þá sinnir stofnunin samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar og eftirliti á ofangreindum sviðum.

Starfsgreinasamband Íslands hefur fram að þessu verið með sameiginlegan stofnanasamning við Vatnajökulsþjóðgarð og Umhverfisstofnun. Vinna er hafin við að aðlaga samninginn að nýrri stofnun, Náttúruverndarstofnun. Á meðfylgjandi mynd má sjá formann Framsýnar, Aðalstein Árna og Hjördísi formann Afls, starfsgreinafélags undirbúa viðræður við stjórnendur Náttúruverndarstofnunnar. Með þeim á myndinni er Björg Bjarnadóttir framkvæmdastjóri SGS sem heldur utan um verkefnið fh. aðildarfélaga sambandsins sem aðild eiga að samningnum. Hvað Framsýn varðar starfa landverðir á vegum Náttúruverndarstofnunar víða á félagssvæðinu. Þar á meðal í Mývatnssveit og í Ásbyrgi.

Konur í nýju landi

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, í samstarfi við Norðurþing og Alþýðusamband Íslands stóðu fyrir opinni málstofu og pallborðsumræðum á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, laugardaginn 8. mars. Samkoman fór fram í Golfskálanum á Húsavík og var fjölsótt. Sjónum var beint að framlagi kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags og stöðu þeirra hér á landi. Yfirskrift málstofunnar var „Konur í nýju landi – okkar konur“. Meðal þeirra sem voru með erindi voru Guðrún Margrét Guðmundsdóttir jafnréttisfulltrúi hjá Alþýðusambandi Íslands, Agnieszka Szczodrowska starfsmaður Stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, Aneta Potrykus formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar og Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar sem jafnframt fór fyrir skipulagningu málstofunnar fh. Framsýnar stéttarfélags. Þá tóku Nele Marie Beitelstein fjölmenningafulltrúi Norðurþings, Aleksandra Leonardsdóttir sérfræðingur ASÍ í fræðslu og inngildingu, Fanný Cloé, íslenskukennari fyrir innflytjendur, Christin Irma Schröder verkefnastjóri hjá PCC og Sylwia Gręda, lögfræðingur og aðstoðarmaður daglegs reksturs hjá Norðursiglingu þátt í pallborðsumræðum. Huld Aðalbjarnardóttir lífsþjálfi hélt utan um málstofuna sem var öllum til mikils sóma.

Skipulagsslys í Garðabæ

Formaður Framsýnar skrifaði nýlega grein á visi.is um skipulagsmál í Garðabæ. Aðalsteinn Árni er ekki einungis formaður Framsýnar heldur er hann einnig formaður Húsfélagsins í Þorrasölum 1-3 þar sem félagið á sjúkra- og orlofsíbúðir. Veruleg óánægja er meðal íbúa í fjölbýlishúsunum í Þorrasölum með fyrirhugaðar vegaframkvæmdir í bakgarðinum við fjölbýlishúsin. Í greininni gerir Aðalsteinn  grein fyrir afstöðu íbúanna í Þorrasölum og krefst þess að tillit verði tekið til íbúðaeigenda. Annað komi ekki til greina.

https://www.visir.is/g/20252697012d/skipulagsslys-i-gardabae

Fullt af störfum í boði hjá Þingeyjarsveit

Þingeyjarsveit sem er vaxandi sveitarfélag leitar að starfsmönnum til starfa. Um er að ræða mörg spennandi störf. Hér má fræðast betur um störfin sem eru í boði í þessu frábæra sveitarfélagi.

Sumarstörf í íþróttamiðstöðvum Þingeyjarsveitar
Íþróttamiðstöðvar Þingeyjarsveitar óska eftir sumarstarfsfólki til starfa frá byrjun júní 2025. Umsækjendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri, vera með ríka þjónustulund og samskiptahæfileika. Nauðsynlegt er að hafa frumkvæði, vera sjálfstæður í vinnubrögðum og hafa kunnáttu í skyndihjálp. Hreint sakarvottorð er skilyrði. Reynsla af afgreiðslustörfum, gæslu og þrifum er kostur.

Sundlaugin á Laugum
Auglýst er eftir fólki til að sinna sundlaugarvarðarstarfi í tímavinnu. Um er að ræða gæslu á sundlaugarsvæði, vöktun og þrif. Nauðsynlegt er að standast sundpróf laugarvarða skv. reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Nánari upplýsingar um starfið veitir Magnús Már, magnus@thingeyjarsveit.is

Íþróttamiðstöðin í Reykjahlíð
Auglýst er eftir sumarstarfsmanni í 100% starf. Starfið felur í sér afgreiðslustörf, gæslu, þrif og annað sem til fellur. Nánari upplýsingar um starfið veitir Ásta Price, asta.price@thingeyjarsveit.is
Laun eru greidd skv. kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag. Umsóknarfrestur er til 25. mars 2025.
Umsóknum ásamt ferilskrá og sakavottorði skal skila á skrifstofu Þingeyjarsveitar eða á netfangið umsokn@thingeyjarsveit.is.

Starf í heimaþjónustu í Bárðardal og Kinn
Um er að ræða u.þ.b. 5 – 6 tíma í viku (einn dag) eins og er við þjónustu á heimilum í Bárðardal, við Ljósavatn og í Kaldakinn. Mikill sveigjanleiki í vinnutíma.
Félagsleg heimaþjónusta felur í sér margskonar aðstoð við einstaklinga á heimilum sínum sem geta ekki hjálparlaust sinnt daglegum verkefnum vegna öldrunar, veikinda, álags eða fötlunar. Áhersla er lögð á persónulega þjónustu þar sem samskipti og virðing eru höfð í fyrirrúmi. Þrif, aðstoð við þrif og önnur heimilisstörf er stórt verkefni í heimaþjónustu en einnig er um að ræða verkefni tengd félagslegum stuðningi og önnur aðstoð og stuðningur. Starfsmaður í heimaþjónustu þarf að vera hvetjandi og jafnframt sýna umburðarlyndi og skilning á aðstæðum þjónustuþega.

Hæfniskröfur:

  • Framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum, jákvæðni, frumkvæði, sveigjanleiki og geta til að vinna sjálfstætt
  • Áhugi og/eða reynsla af að starfa með öldruðum
  • Almenn kunnátta við þrif og önnur heimilisstörf
  • Stundvísi, heiðarleiki og góð kunnátta í íslensku
  • Umsækjendur verða að hafa náð 18 ára aldri, hafi gild ökuréttindi og bíl til umráða

Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og hlutaðeigandi stéttarfélags. Gerð er krafa um hreint sakarvottorð.
Umsóknarfrestur er til og með 24. mars 2025.
Umsóknir skal senda í tölvupósti til sviðsstjóra fjölskyldusviðs Þingeyjarsveitar: asta.flosadottir@thingeyjarsveit.is

Nánari upplýsingar um starfið veitir Ásta F. Flosadóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs í síma 512 1800 eða á netfangið asta.flosadottir@thingeyjarsveit.is

Flokksstjóri vinnuskóla 
Starfið felst m.a. í því að stjórna starfi nemenda vinnuskólans, leiðbeina nemendum og fræða þá um rétt vinnubrögð og verkþætti í starfinu í samráði við verkstjóra áhaldahúss. Sinna verkefnum við hreinsun á umhverfi og almennum garðyrkjustörfum. Flokksstjóri vinnur auk þess markvisst að því að efla liðsheild og góða líðan nemenda. 

Hæfniskröfur:  

  • Vera góð fyrirmynd 
  •  Stundvísi og vinnusemi 
  • Sjálfstæði og frumkvæði í starfi.  

Bílpróf er skilyrði og viðkomandi þarf að hafa hreint sakavottorð. 
Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Æskilegt  er að viðkomandi geti hafið störf eigi síðar en 1. júní eða eftir samkomulagi.
Umsóknarfrestur er til og með 20. mars 2025.    
Nánari upplýsingar um starfi veitir Ásta F. Flosadóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs: asta.flosadottir@thingeyjarsveit.is eða í síma 512-1800.
Umsóknum ásamt ferilsskrá skal skila á netfangið umsokn@thingeyjarsveit.is  

Öll kyn eru hvött til þess að sækja um. Þingeyjarsveit áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. 

Sumarstarf í Þjónustumiðstöð Þingeyjarsveitar
Í starfinu felst m.a. sláttur opinna svæða og umhirða lóða stofnanna, viðhald og eftirlit með eignum sveitarfélagsins, ásamt öðrum störfum sem falla undir verksvið Þjónustumiðstöðvar.  

Menntunar- og hæfniskröfur : 

  • Iðnmenntun sem nýtist í starfi er kostur  
  • Reynsla af sambærilegu starfi er kostur 
  • Þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum er skilyrði   
  • Sjálfstæð og öguð vinnubrögð   
  • Geta til að vinna í teymi 
  • Ökuréttindi eru skilyrði  
  • Vinnuvélaréttindi eru æskileg  
  • Aukin ökuréttindi eru kostur  
  • Íslenskukunnátta 

Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Æskilegt  er að viðkomandi geti hafið störf eigi síðar en 1. júní eða eftir samkomulagi.   

Nánari upplýsingar gefur Ingimar Ingimarsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Þingeyjarsveitar í síma 512-1800 eða í tölvupósti ingimar@thingeyjarsveit.is    

Umsóknarfrestur er til og með 20. mars og skal senda umsóknir á umsokn@thingeyjarsveit.is ásamt ferilskrá og kynningarbréfi. 

Öll kyn eru hvött til þess að sækja um. Þingeyjarsveit áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. 

Aðstoð í eldhúsi Þingeyjarskóla
Við óskum eftir að ráða starfsfólk í mötuneyti Þingeyjarskóla. Um er að ræða tvær stöður:
• 80% starfshlutfall.
• 65% starfshlutfall.
Ráðið er í stöðurnar frá 1. apríl n.k. eða eftir nánara samkomulagi.

Helstu verkefni
• Vinnur undir leiðsögn yfirmatráðs.
• Þátttaka í matseld fyrir nemendur og starfsfólk Þingeyjarskóla.
• Sér um að matur sé samkvæmt lýðheilsumarkmiðum, hollur, fjölbreyttur og snyrtilega framborinn.
• Frágangur og þrif í eldhúsi og matsal.

Menntunar- og hæfniskröfur
• Menntun og reynsla sem nýtist í starfi er kostur.
• Skipulagshæfni, snyrtimennska og sjálfstæði í vinnubrögðum.
• Hæfni í mannlegum samskipum og frumkvæði í starfi.
• Stundvísi og áreiðanleiki.

Þingeyjarskóli er samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli með um 100 nemendur. Lögð er áhersla á samvinnu og sameiginlega ábyrgð starfsmanna á verkefnum skólans. Áhugasamir einstaklingar, án tilliti til kyns, eru hvattir til að sækja um.
Umsóknarfrestur er til og með 17. mars og skulu umsóknir berast á netfangið lilja@thingskoli.is

Frekari upplýsingar veitir Lilja Friðriksdóttir, skólastjóri Þingeyjarskóla, í gegnum tölvupóst lilja@thingskoli.is og í síma 464-3580/847-2372. 

Heidelberg með kynningu fyrir Framsýn

Í byrjun síðasta mánaðar fengu forsvarsmenn Framsýnar kynningu á starfsemi Heidelberg á Íslandi en fyrirtækið er með til skoðunar að skoða kosti þess og galla að koma upp starfsemi sinni á Húsavík. Fyrirtækið hefur verið í nánu sambandi við byggðarráð Norðurþings vegna málsins. Fyrirtækið vill koma upp framleiðslu á möluðu móbergi til útflutnings og íblöndunar við sement fáist til þess tilskilin leyfi. Tilgangurinn með verkefninu er ekki síst að stuðla að því minnka verulega kolefnisspor sementsframleiðslu. Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu málsins en mikill áhugi er fyrir því að efla atvinnustarfsemi á Húsavík enda búum við vel hvað varðar náttúruauðlindir.

Takk fyrir ánægjulegar heimsóknir

Öskudagurinn hefur farið vel fram í góðu veðri á Húsavík. Eftir að frí var gefið í Borgarhólsskóla um hádegi hafa nemendur og yngri börn verið á ferðinni í bænum. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna þakka öllum þeim sem lögðu leið sína til þeirra í dag fyrir komuna. Besti dagur ársins og bestu gestirnir.  

Fulltrúar frá Carbfix litu við hjá stéttarfélögunum

Nýlega samþykkti Sveitarstjórn Norðurþings samhljóða viljayfirlýsingu um samstarf við Carbfix varðandi uppbyggingu og rekstur athafnasvæðis til móttöku, niðurdælingar, og bindingar CO2 á Bakka við Húsavík. Carbfix er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur.

Í viljayfirlýsingunni kemur m.a. fram að aðilar lýsa yfir áhuga á að móttökustöð Carbfix um niðurdælingu og bindingu á CO2 verði byggð upp á Bakka. Verkefnið felli vel að nýrri umhverfis- og loftslagsstefnu sveitarfélagsins, hringrásarhagkerfinu og þeirri hugmyndafræði sem hefur verið mótuð af samfélaginu um Grænan iðngarð á Bakka.

Carbfix kynnti verkefnið fyrir byggðarráði Norðurþings, Framsýn og hagaðilum á Húsavík. Að mati forsvarsmanna stéttarfélagana er um áhugavert verkefni að ræða sem full ástæða sé að skoða áfram með jákvæðum huga. Þá má geta þess að töluverður fjöldi starfa fylgir svona starfsemi.

Til fróðleiks má geta þess að Carbfix hf. vinnur að þróun og uppbyggingu móttökustöðva á Íslandi fyrir koldíoxíð (CO2) sem verður varanlega bundið í berg með Carbfix tækninni. Sjá heimasíðu: https://www.carbfix.com/

Virði strandveiða

Töluverð umræða hefur verið um mikilvægi strandveiða fyrir byggðalög landsins, ekki síst eftir að núverandi ríkistjórn boðaði breytingar á kerfinu sem byggja á því að efla strandveiðikerfið. Eins og gefur að skilja eru mjög skiptar skoðanir um gagnsemi og mikilvægi strandveiða meðal þjóðarinnar. Sjómannadeild Framsýnar samþykkti á dögunum að kalla eftir upplýsingum frá Norðurþingi á mikilvægi strandveiða fyrir sveitarfélagið enda liggi upplýsingar þess efnis fyrir. Kallað er eftir fjölda báta sem stunduðu strandveiðar frá Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn árið 2024, heildar aflamagni og hvort vitað sé hversu stór hluti aflans af strandveiðibátunum fór til vinnslu hjá fiskvinnslufyrirtækjum í sveitarfélaginu.

Uppbygging á Þórshöfn

Það er alltaf ánægjulegt að koma til Þórshafnar á Langanesi. Formaður Framsýnar gerði sér ferð austur fyrir helgina  til að heimsækja formann Verkalýðsfélags Þórshafnar auk þess að spjalla við félagsmenn VÞ sem urðu á vegi hans. Að sjálfsögðu var tekið hús á Birni L. Lárussyni sveitarstjóra og hans ágæta samstarfsfólki á skrifstofu Langanesbyggðar sem ekki er skoðanalaust. Ánægjulegt er að sjá að uppbygging Ísfélagsins heldur áfram á Þórshöfn en þar er verið að byggja stóra frystigeymslu við höfnina sem ætlað er að bæta alla aðstöðu fyrirtækisins á staðnum. Bygg­ing henn­ar er nú kom­in vel á veg ásamt tengi­bygg­ingu sem er rúm­ir 600 fer­metr­ar. Byrjað er að reisa stál­grind húss­ins sem er um 17 metra há. Að grunn­fleti er frystigeymslan um 2.070 fer­metrar. Já, það er allt að gerast á Þórshöfn.

Konur í nýju landi  – Málþing 8. mars

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, í samstarfi við Norðurþing og Alþýðusamband Íslands munu standa fyrir opinni málstofu og pallborðsumræðum á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, laugardaginn 8. mars. Yfirskriftin er; „Konur í nýju landi – okkar konur.“ Þar verður sjónum beint að framlagi kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags og stöðu þeirra hér á landi. Málstofan mun fara fram í Golfskálanum á Katlavelli, Húsavík og standa frá kl.11.00 -14.00. Boðið verður uppá súpu og brauð í hádeginu. Málstofustjóri og stjórnandi pallborðsumræðna verður Huld Aðalbjarnardóttir lífsþjálfi.

Dagskrá málstofu: 

11:00  Opnunarávarp
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir jafnréttisfulltrúi ASÍ

11:15 Samfélagið okkar – í allra þágu
Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar

11: 30 Fyrstu skrefin á Raufarhöfn
Agnieszka Szczodrowska túlkur og starfsmaður Stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

11: 45 Íslenska er lykill – líka með hreim
Aneta Potrykus formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar

12:00 Matarhlé

12:30 Pallborðsumræður
Nele Marie Beitelstein fjölmenningafulltrúi Norðurþings, Aleksandra Leonardsdóttir sérfræðingur ASÍ í fræðslu og inngildingu, Fanný Cloé, íslenskukennari fyrir innflytjendur, Christin Irma Schröder verkefnastjóri hjá PCC, Sylwia Gręda, lögfræðingur, aðstoðarmaður daglegs reksturs hjá North Sailing.

Viðburðurinn fer fram á íslensku og ensku – The event will be in both Icelandic and English

Framsýn stéttarfélag
Þingiðn
Starfsmannafélag Húsavíkur    

Women in a new country  -our women- 8. mars

The trade unions in Þingeyjarsýsla, in collaboration with Norðurþing and the Icelandic Confederation of Labour (ASÍ), will host an open seminar and panel discussion on International Women’s Day, Saturday 8 March. The focus will be on the contribution of women of foreign origin to Icelandic society and their position in Iceland. The seminar will take place in the Golf Pavilion at Katlavellir, Húsavík and last from 11.00 -14.00. Soup and bread will be served for lunch. The moderator and moderator of the panel discussions will be Huld Aðalbjarnardóttir, life coach.

Seminar agenda: 

11:00  Opening remarks
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, Equal Rights Officer

11:15   Our community – for the benefit of all
Ósk Helgadóttir, vice chairman of Framsýn

11:30 First steps in Raufarhöfn
Agnieszka Szczodrowska, interpreter and employee of the unions in Þingeyjarsýsla.

11:45  Icelandic is a key – also with an accent
Aneta Potrykus, chairman of the Þórshöfn Labour Union

12:00 Lunch break

12:30 Panel discussion
Nele Marie Beitelstein, multicultural representative at Norðurþing, Aleksandra Leonardsdóttir, ASÍ’s specialist in education and inclusion, Fanný Cloé, Icelandic teacher for immigrants, Christin Irma Schröder, project manager at PCC, Sylwia Gręda, Lawyer, Daily Operations Assistant in North Sailing.   

Viðburðurinn fer fram á íslensku og ensku – The event will be in both Icelandic and English.

  

Málþing um stöðu erlendra kvenna á íslenskum vinnumarkaði

Á Kvennaári 2025 verður efnt til a.m.k. tveggja viðburða sem verða  tileinkaðir konum af erlendum uppruna innan verkalýðshreyfingarinnar. Fyrri viðburðurinn verður í höndum stéttarfélaganna  í Þingeyjarsýslum, sem munu í samstarfi við Norðurþing og ASÍ standa fyrir opinni málstofu og pallborðsumræðum á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, laugardaginn 8. mars. Þar verður sjónum beint að framlagi kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags og stöðu þeirra hér á landi. Málstofan mun fara fram í Golfskálanum á Katlavelli, Húsavík og standa frá 11:00 -14:00. Boðið verður upp á súpu og brauð í hádeginu. Vonandi sjá sem flestir sér fært að koma og taka þátt í uppbyggjandi samræðum um upplifun erlendra kvenna á íslenskum vinnumarkaði.

Allt að gerast – bílalest á leið norður

Eins og áður hefur komið fram á heimasíðu stéttarfélaganna hefur Bjarg íbúðafélag unnið að því að byggja sex íbúða raðhús að Lyngholti 42-52 á Húsavík. Grunnurinn er klár og á næstu dögum mun bílalest leggja af stað frá Selfossi með einingarnar til Húsavíkur enda haldist veðrið áfram í lagi. Húsboxin eru 12 talsins eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Að utan eru þau að mestu klár og að innan er búið að parketleggja að stórum hluta og verið að setja upp innréttingar og klára baðherbergin. Gangi allt eftir verða íbúðirnar tilbúnar til afhendingar með vorinu, Framsýn hefur reyndar ekki fengið það staðfest endanlega en fulltrúar frá Bjargi eru væntanlegir norður á næstu vikum til að ganga frá samningum við þá sem þegar hafa fengið úthlutað þessum íbúðum. Rúmlega 40 umsækjendur voru um þessar sex íbúðir. Greinilegt er að mikil þörf er fyrir frekari uppbyggingu á Húsavík sem Framsýn mun fylgja eftir í góðu samstafi við Norðurþing og Bjarg.

Um er að ræða sérbýli með litlum garði og allar íbúðir með tveimur bílastæðum. Allar íbúðirnar eru 4ra herbergja (3 svefnherbergi). Íbúðirnar eru ætlaðar fyrir félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur sem eru á leigumarkaði og standast þær reglur sem gilda um úthlutun íbúðanna. Þá hafa félagsmenn innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem búa utan félagssvæðið stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum einnig aðgengi að íbúðunum. Full ástæða er til að fagna þessum áfanga. Norðurþing kemur að þessu verkefni með Bjargi íbúðafélagi. Hægt að lesa frekar um starfsemi Bjargs íbúðafélags á heimasíðu félagsins: https://www.bjargibudafelag.is/.

Bjarg er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Fyrstu íbúðir voru afhentar leigutökum í júní 2019 á höfuðborgarsvæðinu. Framsýn hefur lengi barist fyrir því að Bjarg komi að því að byggja leiguhúsnæði fyrir tekjulága á Húsavík og víðar á félagssvæðinu enda sé grundvöllur fyrir því. Það er í fullu samstarfi við sveitarfélögin og verkalýðsfélögin í Þingeyjarsýslum. Það verður því afskaplega gleðilegt þegar nýju íbúðirnar verða teknar í notkun síðar á árinu, vonandi í sumarbyrjun.

Andlistlyfting

Þessa dagana er unnið að því að setja upp nýjar hurðir við aðalinnganginn inn á Skrifstofu stéttarfélaganna og hjá Sparisjóðnum og Sjóvá sem eru í sama húsi. Markmiðið er að bæta aðkomuna fyrir viðskiptavini. Það eru þeir Gergely og Kristján Eggertsson sem hafa komið að verkinu auk þess sem Ólafur Emilsson hefur verið ómissandi enda góður verkmaður. Reiknað er með að verkinu ljúki að mestu síðar í dag.  

Kveðjuorð – Helga Gunnarsdóttir

Helga Gunnarsdóttir lést þann 9. febrúar sl. á Heilbrigðisstofnun Norðurlands Húsavík. Útförin fór fram frá Húsavíkurkirkju í dag kl. 14:00.

Helga var fædd á Húsavík 16. október 1935 og hefði því orðið níræð í haust hefði hún lifað. Helga tók snemma til hendinni líkt og önnur ungmenni í þorpinu við Skjálfanda, sérstaklega fyrir neðan bakkann þar sem ávallt var líf og fjör, enda lífæð þorpsins. Það var alltaf þörf fyrir ungar og duglegar hendur í beitningaskúrunum, í síld og við almenna fiskvinnslu sem síðar átti eftir að verða hennar ævistarf, en hún starfaði lengst af sem fiskvinnslukona hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur. Á unglingsárum stundaði hún nám við Húsmæðraskólann að Laugalandi í Eyjafirði auk þess að fara á vertíð í Sandgerði þar sem hún kynntist eiginmanni sínum, öðlingsmanninnum, Bjarna Siguróla Jakobssyni, sem flutti síðar með henni til Húsavíkur þar sem þau hófu búskap.

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem ungur maður á vinnumarkaði kynntist ég Helgu Gunnars. Við unnum þá bæði hjá Fiskiðjusamlaginu, hún í hraðinu við að snyrta fisk og ég í aðgerðinni við hefðbundin fiskvinnslustörf. Þrátt fyrir að hún væri töluvert eldri en ég náðum við vel saman, enda með svipuð áhugamál og brennandi áhuga á verkalýðsmálum. Eftir að ég var kosinn trúnaðarmaður starfsmanna í aðgerðinni rúmlega tvítugur leitaði ég oft til hennar eftir ráðgjöf, það var alltaf ánægjulegt að leita til Helgu Gunnars. Það var gott fyrir ungan óreyndan trúnaðarmann að leita eftir hennar ráðgjöf, enda var hún afar vel inn í öllu sem laut að verkalýðsmálum. Hún veitti mér góð ráð, jafnvel eftir að hún hætti formlegum störfum í þágu Verkalýðsfélagsins.

Helga var mjög virk í starfi Verkalýðsfélags Húsavíkur á sínum tíma, góður félagi. Hún var í aðalstjórn félagsins frá árinu 1983 til 1990. Á þeim tíma gegndi hún stöðu gjaldkera innan félagsins. Hún steig til hliðar á aðalfundi Verkalýðsfélagsins árið 1991 þegar ákveðin kynslóðaskipti urðu í stjórn félagsins. Helga ásamt þeim Helga Bjarnasyni formanni og Kristjáni Ásgeirssyni varaformanni hættu þá í aðalstjórn félagsins að eigin ósk.  Áður hafði Helga verið í ýmsum ráðum, nefndum og stjórnum, auk þess að sækja fundi og þing á vegum Verkalýðsfélagsins. Hún var m.a. um tíma í trúnaðarráði auk þess að sitja í stjórn sjúkrasjóðs félagsins. Hvað stjórn sjúkrasjóðsins varðar þá hefur alltaf verið lagt upp úr því að hafa traust og gott fólk í þeirri stjórn, enda verið að vinna með mjög viðkvæmar og persónulegar upplýsingar er tengjast félagsmönnum og veikindum þeirra. Helgu var treyst til þessara verka af sínum félögum innan Verkalýðsfélags Húsavíkur.

Helga Gunnarsdóttir var alla tíð mjög virk og sannur verkalýðsfrömuður og var ávallt tilbúin að taka að sér verkefni fyrir Verkalýðsfélag Húsavíkur í nefndum, ráðum og stjórnum. Það var gott fyrir mig að fá að þroskast í starfi sem formaður verkalýðsfélags við hliðina á henni ungur að árum innan verkalýðshreyfingarinnar. Það hefur án efa hjálpað mér mikið í mínum daglegu störfum að verkalýðsmálum.

Mín kæra, hafðu miklar og kærleiksríkar þakkir fyrir leiðsögnina í gegnum verkalýðsbaráttuna og framlag þitt til Verkalýðsfélags Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags sem nýtur mikillar virðingar á landsvísu fyrir störf sín í þágu verkafólks. Það er ekki síst þér að þakka og þeim öðrum sem mörkuðu sporin á sínum tíma. Minning um baráttukonu mun lifa áfram um ókomna tíð. Blessuð sé minning þín.

Aðalsteinn Árni Baldursson
Formaður Framsýnar stéttarfélags

Framsýn kaupir íbúð í Þorrasölum

Stjórn Framsýnar hefur samþykkt að kaupa eina íbúð í viðbót í Þorrasölum. Þegar hefur verið gengið frá kaupunum. Reiknað er með að íbúðin, sem er á jarðhæð, komist í útleigu í byrjun apríl en hún verður afhent þann 24. mars. Þá verður hún máluð og græjuð. Eftir kaupin á íbúðinni á Framsýn fimm íbúðir í fjölbýlishúsinu og Þingiðn eina. Mikil hagræðing er í því fyrir félögin að eiga allar íbúðirnar á sama stað. Þá er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, stjórnarformaður húsfélagsins. Hamingjuóskir til félagsmanna.

Málstofa 8. mars – Framlag kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags

Árið 2025 hefur verið útnefnt Kvennaár, með það að markmiði að vekja athygli á jafnrétti og styrkja stöðu kvenna í samfélaginu.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing munu standa fyrir opinni Málstofu og pallborðsumræðum  laugardaginn 8. mars kl. 11.00 – 14.00, á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Þar  verður sjónum beint að fram­lagi kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags og stöðu þeirra hér á landi.

Nánar auglýst er nær dregur.

Þingmaður og verkalýðsforingi á Menntadegi atvinnulífsins

Menntadagur atvinnulífsins fór fram á Hilton Nordica þann 11. febrúar undir yfirskriftinni „Störf á tímamótum“. Menntadagurinn er sameiginlegt verkefni Samtaka atvinnulífsins og allra aðildarsamtaka þar sem fræðslu- og menntamál atvinnulífsins eru í forgrunni.

Á Menntadeginum var 25 ára afmæli starfsmenntasjóðanna m.a. fagnað, menntaverðlaun atvinnulífsins afhent og staða menntunar rædd í arinspjalli við forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur. Eftir formlega athöfn var gestum Menntadagsins boðið að taka þátt í tveimur lotum af áhugaverðum málstofum og kynna sér árangur fjölbreyttra fyrirtækja í fræðslu- og menntamálum á sérstöku menntatorgi dagsins. Viðburðurinn stóð yfir í fjóra klukkutíma. Meðal þeirra sem tóku þátt í Menntadeginum var formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Var hann beðin um að vera í áhugaverðu pallborði um „Starfsánægju og samkeppnishæfni – Fagbréf atvinnulífsins“.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Samorku , Samtaka ferðaþjónustunnar , Samtaka fjármálafyrirtækja , Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi , Samtaka iðnaðarins , og Samtaka atvinnulífsins .

Hér má sjá myndir frá Menntadegi atvinnulífsins sem var mjög fjölmennur.

https://www.facebook.com/atvinnulifid/posts/955108600083343

Kjarasamningar SGS komnir í endurbættan búning

Eitt af hlutverkum Starfsgreinasambandsins er að gefa út þá kjarasamninga sem sambandið á aðild að, bæði á prenti og á stafrænu formi (PDF).

Sambandið hefur á undanförnum mánuðum unnið að svokölluðum heildarútgáfum á þeim samningum sem undirritaðir voru 2024 og hefur sú vinna m.a. falið í sér nýja uppsetningu og breytt útlit. Allt umbrot er nú orðið stílhreinna og staðlaðra sem gerir samningana mun læsilegri fyrir vikið. Þá er komin skýrari litapalletta sem hjálpar til við aðgreiningu samninganna og mun sambandið koma til með að nota viðkomandi liti í auknum mæli á öðrum miðlum, s.s. nýrri vefsíðu sem fer senn í loftið.

Þessari heildarútgáfu er nú lokið og eru vefútgáfur samninganna orðnar aðgengilegar á vef sambandsins. Prentuð eintök verða aðgengileg félagsmönnum á skrifstofum aðildarfélaga SGS um miðja næstu viku.

Um er að ræða útgáfur á eftirtöldum samningum:

Þá eru enskar og pólskar þýðingar á núgildandi kjarasamningum SGS og SA einnig orðnar aðgengilegar á vef sambandsins.

Staðan tekin með formanni Framsýnar

Þingmennirnir Jens Garðar Helgason, Vilhjálmur Árnason og Diljá Mist Einarsdóttir gerðu sér ferð til formanns Framsýnar í morgun. Vildu þau fræðast um stöðuna á svæðinu og helstu áherslumál heimamanna varðandi atvinnu- og byggðamál. Þá var einnig farið inn á velferðar-og samgöngumál sem og mikilvægi góðar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.  Formaður Framsýnar kallaði eftir átaki í viðhaldi á þjóðvegum í Þingeyjarsýslum. Þá væri átsandið á brúnni yfir Skjálfandafljót við Rangá ekki boðlegt. Flugmál voru einnig til umræðu og sagðist Aðalsteinn Árni ekki annað fært en að stjórnvöld kæmu að því að styrkja flug til Húsavíkur til frambúðar. Flug til Húsavíkur legðist af, enn og aftur, í næsta mánuði eftir þriggja mánaða fjárstuðning frá ríkinu sem væri gjörsamlega ólíðandi með öllu. Eftir góðar umræður var Aðalsteini Árna formanni boðið í heimsókn á Alþingi, þannig gæfist honum tækifæri á að fylgja betur eftir áherslum félagsmanna Framsýnar, íbúum í Þingeyjarsýslum til framdráttar. Framsýn hefur í gegnum tíðina lagt mikið upp úr því að eiga gott samstarf við þingmenn á hverjum tíma um málefni er tengjast velferð og uppbyggingu í Þingeyjarsýslum íbúum til heilla. Fundurinn í morgun með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins var verulega góður.