Ríkisstjórnin þverbrýtur leikreglur vinnumarkaðarins

Hér má lesa yfirlýsingu ASÍ, BHM, BSRB, Fíh og KÍ: 

Í dag birtust í samráðsgátt stjórnvalda áform ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um
réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Meðal breytinganna er ákvæði sem ætlað er að
auðvelda stjórnendum að reka starfsfólk ríkisins.

Með þessu áformar ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að skerða einhliða réttindi
launafólks. Fordæmalaust er að stjórnvöld taki einhliða ákvörðun um breytingar á
grundvallarréttindum vinnandi fólks án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Nú bætist
þetta við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar af sama toga um skerðingu atvinnuleysistrygginga
sem og skerðingu réttinda örorku- og ellilífeyrisþega í lífeyrissjóðum.

Grunnstoð íslenska vinnumarkaðsmódelsins er náið samráð og samskipti aðila
vinnumarkaðarins og stjórnvalda um öll þau mál er snúa að kjörum launafólks. Þetta
módel er undirstaða sterks vinnumarkaðar á Íslandi og velferðarsamfélagsins og er
lykilatriði að farsæld þeirra verkefna sem unnin eru á vettvangi ríkisins.

Með þessum áformum afhjúpar ríkisstjórnin þekkingar- og skeytingarleysi sitt á mikilvægi
samstarfs við aðila vinnumarkaðarins.

Íslensk verkalýðshreyfing hafnar þessum vinnubrögðum og áformum og mun verjast
skerðingum á réttindum launafólks af hörku.


Finnbjörn A Hermannsson forseti ASÍ
Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh
Magnús Þór Jónsson formaður KÍ
Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSR

Kalla eftir úrbótum þegar í stað

Fulltrúar frá Framsýn fara reglulega í vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu sem nær yfir sveitarfélögin, Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshrepp. Meðal annars var farið nýlega í heimsókn til starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs sem fellur undir Náttúruverndarstofnun. Við skoðun kom í ljós að ýmsu er ábótavant að mati félagsins er varðar aðbúnað og starfsumhverfi starfsmanna við Dettifoss er tengist eftirliti, þrifum og umsjón með þurrsalernisaðstöðu sem tekin var í notkun sumarið 2021. Við Dettifoss að vestan er salernishús með 14 þurrsalernum enda ekkert vatn til staðar fyrir snyrtingarnar. Um 400.000 ferðamenn koma á hverju ári að Dettifossi, eða um 3.000 – 4.000 manns á hverjum degi yfir háanna tíma.

Framsýn hefur með bréfi til Náttúruverndarstofnunnar krafist þess að gripið verði til aðgerða þegar í stað til að bæta úr ástandinu. Stofnunin hefur brugðist vel við erindinu og fundað með forsvarsmönnum auk þess að kynna úrbótaáætlun er varðar eftirlit, þrif og umsjón með þurrsalerisaðstöðunni við Dettifoss. Framsýn mun fylgja málinu eftir með það að markmiði að starfsmönnum verði tryggt ásættanlegt starfsumhverfi er varðar ekki síst öryggis- og vinnuverndarmál. Þá telur félagið eðlilegt að Vinnueftirlitið og Heilbrigðiseftirlitið komi einnig að málinu.

Borað í Kröflu

Til stendur að bora vinnsluholu í Kröflu og niðurrennslisholu á Þeistareykjum. Borinn Sleipnir er væntanlegur norður á næstunni en hann verður notaður við verkið. Þá eru starfsmenn Garðvíkur við störf um þessar mundir en síðustu daga hafa starfsmenn frá fyrirtækinu unnið að því að moka grjóti úr gufuhljóðdeyfi. Það var höfðinginn, Stefán Stefánsson, sem lánaði okkur myndirnar sem eru meðfylgjandi fréttinni fyrir utan myndina af Þeistareykjavirkun en hann starfar hjá Landsvirkjun.  

Silfurstjarnan eflir atvinnulíf Öxarfjarðar og trú fólks á svæðið

Meðal þeirra sem kynntu sér starfsemi Silfurstjörnunnar voru Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags.

„ Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með þessum framkvæmdum, sem sannarlega hafa skilað sér með margvíslegum hætti inn í þingeyska hagkerfið. Öxarfjörður hentar vel til landeldis, hérna er nóg af heitu og köldu vatni og stutt er í tært Atlantshafið. Silfurstjarnan er burðarásinn í atvinnumálum svæðisins og með þessari stækkun er verið að fjárfesta til framtíðar, sem styrkir atvinnulífið og svæðið allt,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri.

Aðalsteinn Árni Baldursson tekur í sama streng. „ Með þessari stækkun eykst starfsöryggi starfsfólks, sem hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Stækkunin er góð vísbending um að hérna starfar fólk með mikla og góða reynslu af fiskeldi, starfsfólkið er auðvitað lykillinn að farsælli starfsemi. Strjálbýlið á Íslandi á víða í vök að verjast og íbúum hefur fækkað. Þessi stækkun Silfurstjörnunnar styrkir og eflir trú fólks á svæðinu, þannig að ég fagna þessari stækkun mjög,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar.

Umfjöllun og mynd er tekin af heimasíðu Samherja, þar má jafnframt sjá frekari frétt um málið. https://www.samherji.is/is/frettir/staekkun-silfurstjornunnar-stort-framfaraskref-i-atvinnumalum-oxarfjardar

Hvert stefnir ráðherra?

Fyrirhugaðar breytingar félags- og húsnæðismálaráðherra á atvinnuleysistryggingakerfinu fela í sér að hámarkstími atvinnuleysisbóta verði styttur úr 30 mánuðum niður í 18 mánuði. Þetta er kynnt sem leið til að „hvetja til virkni“, en í reynd er hér um að ræða skerðingu á réttindum sem bitnar á fólki sem stendur höllustum fæti á vinnumarkaði – þeim sem þegar eru í mestri hættu á langtímaatvinnuleysi og félagslegri einangrun.

Það er ekki í fyrsta sinn sem stjórnvöld tala um að bæta þjónustu við atvinnuleitendur samhliða niðurskurði á bótaréttindum. Slíkar yfirlýsingar hafa komið fram áður en reynslan sýnir að þær hafa ekki gengið eftir að fullu. Ráðist hefur verið í lokanir á þjónustuskrifstofum fyrir atvinnuleitendur víða um land s.s. á Húsavík undir yfirskriftinni að draga úr útgjöldum. Á meðan er það fólkið sem þarf á kerfinu að halda sem situr eftir með minna öryggi og færri úrræði. Ef raunverulegur stuðningur á að koma í stað bótanna þarf hann að vera skýrt fjármagnaður og útfærður, ekki aðeins nefndur í áformaskjali.

Eitt helsta réttlætingaratriðið sem nefnt er, er samanburður við hin Norðurlöndin. Þar er bótatíminn víða styttri, og því sé sjálfsagt að Ísland fylgi í kjölfarið. En hvers vegna ætti það að teljast galli að við höfum hingað til boðið betri réttindi en nágrannalöndin? Þvert á móti má segja að það sé styrkleiki íslenska kerfisins að veita fólki betri tryggingu á meðan það leitar sér að vinnu. Í stað þess að miða sig alltaf við lægstu sameiginlegu mörk ættum við að spyrja: hvað þjónar best hag fólks og samfélags til lengri tíma?

Ráðherra leggur áherslu á að sparnaður vegna breytinganna geti numið allt að sex milljörðum króna á ári. En ekkert er sagt um hvað það mun kosta að innleiða ný úrræði og veita þá auknu þjónustu sem lofað er. Reynsla sveitarfélaga bendir jafnframt til að þegar ríkið skerðir bótarétt lendi byrðin að verulegu leyti á félagsþjónustu sveitarfélaga. Þannig er í raun ekki verið að leysa vandann heldur færa hann á annað borð.

Ráðherra áformar einnig að breyta lágmarksskilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta þannig að atvinnuleitandi þurfi að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 12 mánuði á ávinnslutímabili til að teljast tryggður innan kerfisins en í gildandi kerfi er gerð krafa um þátttöku á vinnumarkaði í 3 mánuði. Áætlað er að sú breyting lækki árleg útgjöld um 200 milljónir króna. 

Þá má einnig velta því fyrir sér hvort þessi stytting muni í raun stuðla að virkni. Hættan er sú að hópur atvinnuleitenda, sem nú á rétt á bótum í allt að 30 mánuði, verði eftir 18 mánuði án tekna frá atvinnuleysistryggingakerfinu og fái í staðinn félagslegar bætur eða neyðist til að sækja um örorkumat. Slíkt er ekki hvatning heldur hætta á að festa fólk í langvarandi vanvirkni og kerfisbundinni útilokun frá vinnumarkaði. Það er í raun bein hætta á að markmiðin snúist upp í andhverfu sína.

Ráðherra talar um mannúð og mikilvægi þess að grípa fólk fyrr. Það er vissulega rétt að snemmtæk íhlutun skiptir sköpum, en hún verður að byggjast á raunverulegum úrræðum og stuðningi – ekki einhliða niðurskurði á réttindum. Ef stjórnvöld vilja forðast ótímabært örorkumat og efla virkni þá þarf að tryggja að endurhæfing, starfsnám, ráðgjöf og stuðningsúrræði séu aðgengileg og að fullu fjármögnuð. Að öðrum kosti er hættan sú að við sjáum aðeins aukinn kostnað annars staðar í kerfinu, og verra en það: fólk sem missir tengsl við vinnumarkað og samfélag til lengri tíma.

Niðurstaðan er því sú að fyrirhugaðar breytingar fela í sér skerðingu sem fyrst og fremst bitnar á þeim sem síst skyldi. Það er ekki réttlætanlegt að leggja slíkt á viðkvæma hópa undir yfirskini sparnaðar. Viljum við virkilega hvetja fólk til virkni þá verðum við að fjárfesta í raunverulegri þjónustu, menntun og atvinnutækifærum – ekki að stytta þann tíma sem fólk fær til að fóta sig á ný.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar

(grein þessi er á visi.is https://www.visir.is/g/20252772898d/hvert-stefnir-radherra-)

Göngur og réttir

Um komandi helgi verða víða göngur og réttir á félagssvæði Framsýnar, m.a. verður réttað í Mývatnssveit, Aðaldal, Reykjahverfi, Húsavík, Tjörnesi, Öxarfirði og í Núpasveit. Heimasíða stéttarfélaganna sendir bændum og búaliði kærar kveðjur með von um að allt gangi vel um helgina enda mikil hátíð framundan þegar réttað verður eftir krefjandi göngur.  Meðfylgjandi myndir voru teknar af bændum í Aðaldal sem voru að smala Þeistareykjaland í gær. Þeir munu væntanlega koma til byggða síðdegis á morgun en réttað verður í Hraunsrétt á sunnudaginn.

Þjóð gegn þjóðar­morði – stéttar­fé­lög hvetja til þátt­töku

Hópur formanna stéttarfélaga skrifar 5. september 2025: Greinin er á visi.is

Á morgun, laugardag, er efnt til fjöldafunda víða um land til að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni og krefjast aðgerða til að stöðva þjóðarmorðið sem nú á sér stað í Palestínu. Heildarsamtök launafólks og fjöldi stéttarfélaga standa að fundinum, ásamt fjölmörgum öðrum samtökum. Með fundinum er vonast til að sýna fram á víðtæka samstöðu og krefjast um leið aðgerða til að stöðva blóðbaðið í Palestínu, þar sem almennir borgarar eru ekki aðeins gerðir að hernaðarlegum skotmörkum, heldur líka sveltir í hel. Blaðamenn eru myrtir skipulega til að reyna að draga úr möguleikum almennings til að fá áreiðanlegar upplýsingar um stríðsglæpina og glæpina gegn mannkyni sem eru framdir á hverjum einasta degi.

Alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur ítrekað ályktað um málefni Palestínu og krafist vopnahlés, lausnar gísla, tafarlausrar mannúðaraðstoðar á svæðinu og viðurkenningar á Palestínu sem ríki. Palestína fékk nýverið áheyrnaraðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) að undirlagi verkalýðshreyfingarinnar. Enn fremur hefur verkalýðshreyfingin sett fram kröfu til ILO um að ísraelskum stjórnvöldum sé gert að stöðva réttindabrot gegn palestínsku launafólki og taka á grófum launaþjófnaði sem a.m.k. 200 þúsund Palestínumenn hafa sætt.

Við, sem undir þessa grein ritum og erum í forsvari fyrir stéttarfélög og heildarsamtök launafólks, stöndum með palestínsku launafólki og öllum almenningi í Palestínu. Við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu launafólks sem lætur sig málið varða og við höfnum því að þögn sé ásættanlegur valkostur á tímum þjóðarmorðs.

Við hvetjum félagsfólk íslenskra stéttarfélaga til að taka þátt í samstöðufundum í Reykjavík, Stykkishólmi, á Akureyri, Egilsstöðum, Húsavík og Ísafirði á laugardag kl. 14.

Tími aðgerða er löngu runninn upp.

  • Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags
  • Andri Reyr Haraldsson, formaður Félags íslenskra rafvirkja
  • Aneta Potrykus, formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar
  • Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju
  • Anný Björk Guðmundsdóttir, formaður Félags rafiðnaðarmanna á Suðurlandi
  • Anton Már Gylfason, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum
  • Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags
  • Baldvin M. Zariho, formaður Félags háskólakennara
  • Berglind Kristófersdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands
  • Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, formaður Visku
  • Eiður Stefánsson, formaður Landssambands ísl. verzlunarmanna og Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni
  • Eyþór Þ. Árnason, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar
  • Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ
  • Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna
  • Georg Páll Skúlason, formaður GRAFÍU
  • Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrenni (VSFK)
  • Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara
  • Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna
  • Guðrún Elín Pálsdóttir, formaður Verkalýðsfélags Suðurlands
  • Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara
  • Halla Gunnarsdóttir, formaður VR
  • Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara
  • Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar og FIT
  • Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfgreinafélags
  • Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur
  • Jakob Tryggvason, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands
  • Jóhanna Fríður Bjarnadóttir, formaður Póstmannafélags Íslands
  • Kári Sigurðsson, formaður Sameykis
  • Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM
  • Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands
  • Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands
  • Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands
  • Ólafur Egill Egilsson, formaður Félags leikstjóra á Íslandi
  • Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS
  • Pétur Maack Þorsteinsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands
  • Rafiðnaðarfélag Norðurlands
  • Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands
  • Sigrún Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum
  • Sigrún Ólafsdóttir, formaður Félags prófessora við ríkisháskóla
  • Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands
  • Sigurður Sigurjónsson, formaður Félag stjórnenda leikskóla
  • Silja Eyrún Steingrímsdóttir, formaður Stéttarfélags Vesturlands
  • Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
  • Steinunn Bergmann, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands
  • Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands
  • Trausti Björgvinsson, formaður Starfsmannafélags Suðurnesja
  • Unnur Sigmarsdóttir, formaður Starfsmannafélags Vestmannaeyjabæjar
  • Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands
  • Vignir S. Maríasson, formaður Verkalýðsfélags Snæfellinga
  • Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Verkalýðsfélags Akraness
  • Þorkell Heiðarsson, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga
  • Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands
  • Þóra Leósdóttir, formaður Iðjuþjálfafélags Íslands
  • Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags

Silfurstjarnan í Öxarfirði með opið hús

Í tilkynningu frá Samherja kemur fram að á undanförnum misserum hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar í Silfurstjörnunni, landeldisstöð Samherja fiskeldis að Núpsmýri í Öxarfirði. (Meðfylgjandi mynd Samherji)

Framkvæmdum er nú lokið og af því tilefni er áhugasömum boðið að kynna sér starfsemina næstkomandi föstudag 5. september. Húsið opnar klukkan 14:00.

Tæknilega vel búin

„Verklegar framkvæmdir við stækkun Silfurstjörnunnar hófust í byrjun 2022 og hefur stöðin nú verið stækkuð um nær helming. Silfurstjarnan gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífi svæðisins, enda um að ræða stærsta vinnustaðinn fyrir utan sjálft sveitarfélagið. Eftir þ‏essar breytingar telst Silfurstjarnan tæknilega mjög vel búin á allan hátt og ‏‏‏það verður ánægjulegt að kynna starfsemina á föstudaginn. Við vonumst því til að sjá sem flesta,“ segir Elvar Steinn Traustason rekstrarstjóri Silfurstjörnunnar.

Fræðsla og veitingar

Dagskráin hefst klukkan 14:30 með kynningu Jóns Kjartans Jónssonar framkvæmdastjóra Samherja fiskeldis. Húsið opnar klukkan 14:00.

Þar á eftir verður gengið um vinnslusvæðið og gestir fræddir um starfsemina.

Léttar veitingar verða á boðstólum og sælkeraréttir úr afurðum landvinnslunnar frá veitingahúsinu RUB23.

Allir eru hjartanlega velkomnir !

Formaður SGS spyr, á verkafólk að bera uppi breytingar á örorkukerfinu?

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er formaður Starfsgreinasambands Íslands er harðorður á Facebook er varðar boðaðar breytingar stjórnvalda á lífeyrissjóðakerfinu og skrifar;

Hvernig má það vera að stjórnvöld sem kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð láti þetta viðgangast? Að láta verkafólk í erfiðisvinnu greiða fyrir lagfæringuna á örorkukerfinu? Mikið er það lítilmannlegt.

Stjórnvöld hafa ákveðið að fella niður 10 milljarða framlag sem fimm verkamannalífeyrissjóðir eiga rétt á til jöfnunar á örorkubyrði. Það þýðir ekkert annað en að það verði ellilífeyrisþegar og réttindaávinnsla verkafólks í verkamannalífeyrissjóðum sem bera kostnaðinn við þetta nýja örorkukerfi!

Það er vissulega gott að félagsmálaráðherra hafi náð að láta sólina skína á öryrkja. En hún gerir það með því að skella sólmyrkva yfir ellilífeyrisþega og réttindaávinnslu verkafólks.

Munum það: stór hluti þessarar lagfæringar er fjármagnaður í formi lakari réttinda fyrir ellilífeyrisþega og verkafólk í verkamannalífeyrissjóðum.

Samkvæmt nýjustu tölum greiddi Tryggingastofnun 1,2 milljörðum meira í þessum mánuði en í þeim síðasta. Það jafngildir rúmum 14 milljörðum á ári í aukinn kostnað við nýja örorkukerfið. En af þessum 14 milljörðum hyggjast stjórnvöld láta 10 milljarða koma frá verkafólki og ellilífeyrisþegum í verkamannalífeyrissjóðum, með því að fella niður jöfnunarframlagið. Með öðrum orðum: stærsti hluti lagfæringanna fyrir öryrkja er fjármagnaður með skerðingu á réttindum þeirra sem þegar hafa lakari lífeyri.

Nú þegar eru lífeyrisréttindi í verkamannasjóðunum 15–20% lakari en í sjóðum með litla örorkubyrði. Nú þegar dugar jöfnunarframlag ríkisins, sem nemur 4,6 milljörðum, ekki til. Þegar 10 milljarðarnir hverfa alfarið um næstu áramót verða því enn frekari skerðingar óhjákvæmilegar.

Þessi óréttláta staða bitnar mest á verkafólki sem vinnur erfiðisvinnu – hópi þar sem örorka er margfalt algengari en í öðrum starfshópum. Þeir sem hafa minna í launum, skemmri starfsaldur og lakari lífeyrisréttindi þurfa að bera stærstan hluta kostnaðarins. Það er ekki samtrygging, það er ekki jöfnuður – það er kerfisbundið óréttlæti.

Nú ætla stjórnvöld að frýja sig með því að hefja vinnu við „framtíðarskipulag örorkukerfisins“ innan lífeyrissjóðanna. Verkefni sem getur tekið mörg ár, jafnvel áratugi – og enginn veit hvernig það endar. Því er útilokað að fara í slíka vinnu nema tryggja áframhaldandi framlag til jöfnunar á örorkubyrði.

Er þetta „besta lífeyriskerfi í heimi“? Er þetta „samtrygging“ Nei. Þetta er hvorki réttlæti né jöfnuður – heldur til skammar og rannsóknarefni hvernig stjórnvöld hafa látið þetta óréttlæti viðgangast árum og áratugum saman.

Frekari uppsagnir á Bakka

Fyrr í sumar var um 80 starfsmönnum sagt upp hjá PCC á Bakka. Fyrirtækið hefur nú ákveðið í ljósi aðstæðna að segja upp 30 starfsmönnum til viðbótar. Eftir standa um 15 til 20 starfsmenn. Framsýn hefur kallað eftir því að sveitarstjórn Norðurþings kalli þingmenn kjördæmisins til fundar til að ræða stöðuna og framhaldið. Eftir því sem best er vitað verður fundurinn haldinn á allra næstu dögum. Af þeim 150 starfsmönnum sem starfað hafa hjá PCC eru um 130 starfsmenn í Framsýn og Þingiðn. Meðallaunin eru um milljón á mánuði. Ljóst er að staðan er grafalvarleg. Stjórnendur PCC hafa gert í því að upplýsa forsvarsmenn stéttarfélaganna á hverjum tíma um stöðuna, reyndar lagt mikið upp úr því að eiga gott samstarf við félögin sem er vel. Fréttastofa Sýnar fjallaði um málið í hádeginu í dag og talaði m.a. við formann Framsýnar. https://www.visir.is/g/20252770107d/-eg-treysti-thvi-ad-stjorn-vold-vakni-og-hjalpi-okkur-

Kom færandi hendi með tertu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundaði síðasta miðvikudag. Mörg áhugaverð mál voru tekin fyrir á fundinum og afgreidd. Þann sama dag átti Guðný I. Grímsdóttir afmæli en hún hefur komið að stjórnarstörfum fyrir Framsýn til fjölda ára auk þess að sækja þing og ráðstefnur á vegum verkalýðshreyfingarinnar í gegnum tíðina í umboði félagsins. Guðný hefur staðið sig framúrskarandi vel í alla staði. Að sjálfsögðu kom hún með afmælistertu með sér á fundinn sem smakkaðist einstaklega vel. Fundarmenn sungu afmælissöng fyrir afmælisbarnið auk þess að þakka vel fyrir veitingarnar.  

SGS óskar eftir verkefnastjóra

Erum við að leita að þér? Starfsgreinasamband Íslands leitar að skipulögðum, drífandi og jákvæðum verkefnastjóra í 100% framtíðarstarf á skrifstofu sambandsins. Um er að ræða lifandi og fjölbreytt starf þar sem margþætt menntun og reynsla nýtist vel.

Fríðindi í starfi:

  • Fjölbreytt og krefjandi verkefni
  • Tækifæri til að móta og þróa starfið
  • Hádegismatur
  • Líkamsræktarstyrkur

Helstu viðfangsefni verkefnastjóra:

  • Sinnir ráðgjöf og þjónustu við aðildarfélög SGS á sviði kjara-, vinnumarkaðs- og starfsfræðslumála.
  • Leiðbeinir starfsfólki og félagsmönnum aðildarfélaga SGS varðandi túlkun á kjarasamningum.
  • Hefur umsjón með útgáfu- og kynningarmálum SGS.
  • Þátttaka í skipulagningu og undirbúningi viðburða.
  • Þátttaka í innra starfi SGS, seta í nefndum og vinnuhópum fyrir hönd SGS, seta á formanna- og framkvæmdastjórnarfundum.
  • Almenn skrifstofustörf, skýrslugerð, fundarritun.
  • Önnur tilfallandi verkefni í samráði við framkvæmdastjóra.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Hagnýt menntun sem nýtist í starfi
  • Framúrskarandi samskiptahæfni og lipurð í mannlegum samskiptum
  • Skipulagshæfni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Hæfni til að miðla upplýsingum í töluðu og rituðu máli
  • Lausnamiðað viðhorf til verkefna
  • Reynsla og áhugi á kjaramálum og málefnum stéttarfélaga
  • Góð tölvufærni skilyrði
  • Góð íslenskukunnátta skilyrði
  • Góð enskukunnátta skilyrði

Umsókninni þarf að fylgja ýtarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Umsóknarfrestur er til 1. september nk. og hægt er að leggja inn umsókn hér.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Nánari upplýsingar veitir Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri SGS, á netfanginu bjorg@sgs.is eða í síma 899 2331.

Framsýn kallar eftir aðgerðum – stríð verður aldrei liðið

Nýlega var stofnaður íslenskur samráðsvettvangur verkalýðs- og almannaheillafélaga gegn þjóðarmorði og hernámi Ísraels í Palestínu og því afskiptaleysi sem einkennt hefur viðbrögð alþjóðasamfélagsins við glæpum Ísraels. Stærstu aðildarfélög ASÍ hafa þegar tilkynnt um þátttöku sína, auk annarra heildarsamtaka launafólks.  Hópurinn sem kallar sig Samstaða fyrir Palestínu stendur fyrir kröfufundum víða um land laugardaginn 6. september undir heitinu Þjóð gegn þjóðarmorði.  Fundirnir verða haldnir á Akureyri, Ísafirði, Stykkishólmi og í Reykjavík og hefjast kl. 14:00. Fundurinn á Akureyri verður haldinn á Ráðhústorginu. Við hvetjum fólk að mæta þangað og láta rödd sína heyrast.

Á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gær var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða um leið og skorað er á sem flesta að taka þátt í kröfufundum dagsins:

„Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir með hópnum sem kallar sig „Samstaða fyrir Palestínu“ um kröfu til stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins um tafarlausar aðgerðir til að stöðva þjóðarmorðið í Palestínu. Þá hvetur Framsýn landsmenn til að taka þátt í kröfufundum sem haldnir verða víða um land laugardaginn 6. september undir heitinu Þjóð gegn þjóðarmorði.“

Til viðbótar má geta þess að í nær tvö ár höfum við horft upp á ólýsanlegar þjáningar palestínsku þjóðarinnar vegna grimmdarverka Ísraela í Palestínu. Heimsbyggðin fylgist með þeim hryllingi hungursneyðar sem Ísraelar hafa framkallað á Gaza með því að loka fyrir alla neyðaraðstoð, á meðan stjórnvöld í Ísrael fyrirskipa herafla landsins að myrða af svívirðilegu miskunnarleysi saklaust fólk er það leitar hjálpar.  Þá bíður hungurdauði nú tveggja milljóna manna, þar af fjölda barna, vegna þeirrar yfirlýstu stefnu ofstækismanna að leggja undir sig allt land Palestínumanna. Alþjóðadómstóllinn hefur lagt framgöngu Ísraela að jöfnu við þjóðarmorð og úrskurðað hersetu Ísraela á palestínsku landi ólöglega. 

Alþjóðasamfélagið hefur algjörlega brugðist í að stöðva þessar hörmungar og látið léttvægar yfirlýsingar og hvatningar til stjórnvalda Ísraels um að gæta meiri hófsemdar í glæpaverkum sínum nægja. Eftir nær tvö ár af hryllingi leikur enginn vafi á að orð munu ekki duga til.  Kallað er eftir aðgerðum strax til að stoppa þjóðarmorð á Palestínumönnum.

Nánar má lesa um fundina inn á slóðinni https://www.facebook.com/thjodgegnthjodarmordi

Staða PCC í umræðu

Framsýn boðaði fulltrúa PCC og Norðurþings til fundar eftir hádegi í dag. Tilgangur fundarins var að fara yfir stöðuna hvað varðar rekstur og framtíðarhorfur í rekstri PCC. Ekkert nýtt kom fram á fundinum, áfram verður unnið að því að finna leiðir svo hægt verði að enduræsa opna verksmiðunnar sem fyrst. Um 40 starfsmenn eru við störf í verksmiðjunni um þessar mundir. Þá eru tollamálin óljós hvað varðar útflutning á kísilmálmi til Evrópu og annarra viðskiptalanda. Framsýn hefur í samtölum við stjórnendur fyrirtækisins og stjórnvöld lagt mikla áherslu á að aðilar málsins sem og Landsvirkjun/Landsnet sameinist um að finna leið út úr vandanum enda PCC afar mikilvægt fyrirtæki fyrir samfélagið hér norðan heiða auk þess að skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Til viðbótar má geta þess að Framsýn hefur kallað eftir því að þingmenn kjördæmisins verði kallaðir til fundar við stéttarfélögin og Norðurþing til að ræða stöðuna sem vissulega er alvarleg enda engin framleiðsla í gangi hjá fyrirtækinu um þessar mundir.

Vilja byggja meira íbúðarhúsnæði

Framsýn stóð fyrir fundi í gær með forsvarsmönnum Norðurþings og Bjargs íbúðafélags um frekari uppbyggingu á íbúðum á vegum Bjargs í sveitarfélaginu enda stendur vilji félagsins til þess að Bjarg haldi áfram uppbyggingu  á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu Norðurþingi. Fyrr á þessu ári kom Bjarg að því að byggja sex íbúða raðhús á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Framkvæmdin gekk afar vel í alla staði.

Eins og fram hefur komið eru íbúðir Bjargs íbúðafélags fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og sem hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB í a.m.k. 16 mánuði, sl. 24 mánuði miðað við úthlutun.

Fundurinn var vinsamlegur. Áhugi er fyrir því að halda samstarfinu áfram og meta þörfina fyrir frekari uppbyggingu á hagstæðu íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Þá er verið að skipuleggja lóðir fyrir hús sem þessi í sveitarfélaginu.

Í umræðunni um frekari uppbyggingu er horft til þess að haldið verði áfram með byggingu raðhúsa líkt og í Lyngholti 42-52 á Húsavík.  Það er íbúðir í raðhúsi á einni hæð. Um er að ræða 95m2 sérbýli með litlum garði og allar íbúðir með tveimur bílastæðum. Allar íbúðirnar eru 4ra herbergja (3 svefnherbergi). Fyrsta skóflustunga var tekin í október 2024. Íbúðirnar skiptast í anddyri, þrjú svefnherbergi, baðherbergi og alrými með eldhúsi. Geymslurými innan íbúðar og fataskápur er í hjónaherbergi. Íbúðirnar voru tilbúnar til afhendingar í apríl 2025. 

Eins og fram kemur í fréttinni er eitt af því sem þarf að skoða hvað varðar áframhaldandi uppbyggingu á íbúðarhúsnæði að meta þörfina fyrir slíkt húsnæði í Norðurþingi og reyndar í Þingeyjarsveit líka. Framsýn efast ekki um að þörfin sé til staðar.

Til þess að eiga möguleika á því að komast inn í íbúðir hjá Bjargi þurfa menn að skrá sig á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi. Fyrstur kemur, fyrstur fær enda standist viðkomandi skilmála Bjargs. Samhliða því að skrá sig á biðlistann þurfa menn að greiða ákveðið gjald nú, kr. 1500,- á ári vilji menn vera á biðlistanum. Skorað er á áhugasama að skrá sig sem fyrst á listann, þannig er hægt verði að átta sig betur á þörfinni á hentugu húsnæði fyrir tekjulága í Þingeyjarsýslum.

Hér er slóðin inn á heimasíðu Bjargs íbúðafélags https://www.bjargibudafelag.is/

Bærinn fullur af ungu íþróttafólki

Foreldraráð Völsungs stóð fyrir fjölmennu knattspyrnumóti um helgina fyrir unga keppendur. Um 800 þátttakendur tóku þátt í mótinu auk þess sem reikna má með að með foreldum hafi komið um 3000 gestir til Húsavíkur vegna viðburðarins sem fór afar vel fram og öllum þeim sem komu að mótinu til mikils sóma. Lið frá íþróttafélögum á Norður- og Austurlandi voru áberandi á mótinu. Framsýn og Þingiðn komu að því að styrkja mótið. Eins og myndirnar bera með sér var mikil stemning á Húsavík um helgina.

Góður fundur um húsnæðismál í Þingeyjarsveit

Framsýn stóð í morgun fyrir fundi með forsvarsmönnum Þingeyjarsveitar og Bjargs íbúðafélags um hugsanlega uppbyggingu á íbúðum á vegum Bjargs í sveitarfélaginu. Íbúðir Bjargs íbúðafélags eru fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og sem hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB í a.m.k. 16 mánuði, sl. 24 mánuði miðað við úthlutun. Fundurinn var virkilega áhugaverður og fullur vilji er til þess meðal aðila að taka málið til frekari skoðunar, það er hvort grundvöllur sé fyrir því að reisa íbúðir í sveitarfélaginu á vegum Bjargs í samráði við sveitarfélagið. Hér er slóðin inn á heimasíðu Bjargs íbúðafélags https://www.bjargibudafelag.is/

Dagskrá stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar

Eins og fram kemur í annarri frétt á heimasíðunni kemur stjórn og trúnaðarráð Framsýnar saman til fundar í næstu viku til að ræða fyrirliggjandi málefni. Stjórn Framsýnar-ung tekur einnig þátt í fundinum. Dagskrá fundarins er nokkuð löng, því má búast við löngum og ströngum fundi komandi miðvikudag.

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Þing SGS 8. – 10. október/kjör fulltrúa

4. Þing ASÍ-UNG 17. október/kjör fulltrúa

5. Fulltrúaráðsfundur AN 24. september/kjör fulltrúa

6. Málefni PCC

7 Atvinnumál á félagssvæðinu

8. Uppbygging á vegum Bjargs íbúðafélags

9. Málefni starfsmanna Náttúruverndarstofnunnar

     a) Starfsumhverfi starfsmanna við Dettifoss

     b) Stofnanasamningur

10. Svört atvinnustarfsemi

11. Sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal

12. Málefni Fiskþurrkunar ÚA á Laugum

13. Framkvæmdir við húsnæði stéttarfélaganna

14. Heimsókn þingmanna til félagsins

15. Dómsmál – VHE

16. Verkefnið í „Góðu lagi“

17. Fundur með forstjóra Icelandair

18. Fundur með starfshópi forsætisráðherra um málefni PCC

19. Málefni Fiskifélagi Íslands

20. Rótarskot-Kynning á starfsemi Framsýnar

21. Bekkir-áletrun

22. Stríðsátök í Palestínu

23. Afmælisfagnaður fræðslusjóðanna SA-SGS

24. Önnur mál

Atvinnumál og komandi þing m.a. til umræðu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar auk stjórnar Framsýnar-ung kemur saman til fundar miðvikudaginn 27. ágúst kl. 17:00.  Að venju eru mörg mál á dagskrá fundarins. Til dæmis má nefna að byggða- og atvinnumál verða til umræðu enda starfsemi PCC í miklu uppnámi. Félagið hefur verið að þrýsta á Bjarg íbúðafélag að reisa íbúðarhúsnæði fyrir tekjulága í sveitarfélögunum Norðurþingi og Þingeyjarsveit. Þá eru þing og ráðstefnur framundan, ganga þarf frá kjöri á fulltrúum á fundina. Um 30 félagsmenn sitja í stjórn og trúnaðarráði Framsýnar. Búast má við líflegum umræðum um málefni fundarins.

Þú tapar réttindum með því að vinna svart

Dæmi eru um að atvinnurekendur hafi snúið sér til Skrifstofu stéttarfélaganna í sumar vegna óánægju með samkeppnisaðila í ferðaþjónustu sem bjóða starfsmönnum að vinna svart komi þeir til starfa hjá þeim. Sérstaklega á þetta við um smærri aðila í ferðaþjónustu sem bjóða upp á gistiþjónustu og eru í samkeppni við þá atvinnurekendur sem virða kjarasamninga og lög. Eðlilega eru þeir afar óánægðir með þennan veruleika enda ekki auðvelt að keppa við svarta atvinnustarfsemi en fyrirtækin hafa verið að missa frá sér starfsmenn sem hafa látið glepjast og ráðið sig til fyrirtækja sem virða ekki almennar leikreglur á vinnumarkaði. Starfsmenn sem gera sér greinilega ekki grein fyrir því, að vinni þeir svart, eru þeir ótryggðir við sín störf. Vissulega á ekki að þurfa að taka fram að það er ólöglegt með öllu að fyrirtæki bjóði starfsmönnum að vinna svart, þeim standi ekki annað til boða.

Skrifstofa stéttarfélaganna hefur hvatt þá fyrirtækjaeigendur í ferðaþjónustu, sem leitað hafa til félaganna, að setja sig í samband við Skattinn og koma ábendingum sínum um svarta atvinnustarfsemi á framfæri við stofnunina enda um lögbrot að ræða sem skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja. Það er það eina sem dugar gagnvart svona óheiðarlegri starfsemi enda Skattinum ætlað að fylgjast með því að einstaklingar sem fyrirtæki greiði skatta til samfélagsins samkvæmt fyrirliggjandi lögum og reglum.

Þá er rétt að taka fram að félagsmenn stéttarfélaganna sem verða uppvísir að því að vinna svart missa réttindi til styrkja hjá félögunum s.s. námsstyrkja og styrkja úr sjúkrasjóðum félaganna. Það á einnig við um almenna þjónustu á vegum félaganna, lögfræðiþjónustu og aðgengi að orlofsíbúðum.