Glæsileg hátíðarhöld framundan 1. maí

Stéttarfélögin, Framsýn, STH og Þingiðn, hafa unnið að því undanfarið að skipuleggja 1. maí hátíðarhöldin sem fram fara á Fosshótel Húsavík. Boðið verður upp á heimsins bestu kaffiveitingar og frábær skemmtiatriði sem heimamenn sjá um að mestu. Páll Rósinkranz verður sérstakur gestur á hátíðarhöldunum og flytur nokkur lög með Grétari Örvarssyni sem sér um undirspilið. Ræðumaður dagsins verður Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar og ávarp flytur Guðmunda Steina Jósefsdóttir sem var um tíma formaður Framsýnar-ung. Já, það er veisla framundan. Ekki gleyma, það er kvennaárið 2025, þess vegna hvetjum við konur til að klæðast Íslenska þjóðbúningnum en hátíðarhöldin í ár eru tileinkuð þeim baráttukonum sem mörkuðu sporin.

Kynning í boði Framsýnar

Framsýn stóð í gær fyrir kynningu í Stórutjarnarskóla fyrir nemendur í elstu bekkjum skólans.  Kynningin gekk afar vel enda nemendur áhugasamir um sín mál. Varaformaður Framsýnar sem starfar í skólanum var á kantinum og aðstoðaði við kynninguna.

Aðalfundur Þingiðnar

Aðalfundur Þingiðnar verður haldinn þriðjudaginn 29. apríl kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í störfum félagsins. Góðar veitingar í boði.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Kjör á starfsmönnum fundarins
  3. Skýrsla stjórnar
  4. Ársreikningar
  5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
  6. Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
  7. Lagabreytingar
  8. Ákvörðun árgjalda
  9. Laun stjórnar, annara stjórna og nefnda
  10. Kosning löggilts endurskoðanda

2. Sameining stéttarfélaga

3. Önnur mál

Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum

Tillögur sem liggja fyrir aðalfundi Þingiðnar 2025

Tillögur sem liggja fyrir fundinum frá stjórn félagsins:

Tillaga 1
Löggiltur endurskoðandi félagsins

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2025.

Tillaga 2
Um félagsgjald

Tillaga stjórnar er að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum.

Tillaga 3
Lágmarksfélagsgjald

Tillaga stjórnar er að lágmarksfélagsgjaldið verði 0,3% af mánaðarlaunum iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins.

Tillaga 4
Fræðslusjóður Þingiðnar

Tillaga stjórnar er að fræðslusjóðsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,3% af launum.

Tillaga 5
Ráðstöfun á tekjuafgangi

Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári.

Tillaga 6
Launakjör stjórnar, annara stjórna og nefnda

Laun stjórnar og varastjórnar:

Tillaga er um að laun stjórnar og varastjórnar verði óbreytt milli ára. Það er þrír tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins, yfirvinna 2.

Laun trúnaðarráðs Þingiðnar:

Tveir tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins, yfirvinna 2.

Laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir kjörnar á aðalfundi:

Kjörstjórn, Kjörnefnd, Sjúkrasjóður, Vinnudeilusjóður, Orlofssjóður, Fræðslusjóður, Laganefnd, 1. maí nefnd, skoðunarmenn reikninga, aðrar nefndir:

Tveir tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins, yfirvinna 2.

Tillaga 7
Úthlutun úr sjúkrasjóði félagsins

Tillaga er um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar milli aðalfunda.

Tillaga 8
Styrkveitingar úr Fræðslusjóði Þingiðnar

Tillaga er um að styrkir til félagsmanna úr fræðslusjóði taki mið af úthlutunarreglum Fræðslusjóðsins Landsmenntar.

Akstursgreiðslur:                                                                       

Varðandi akstur á fundi á vegum félagsins eða aðildar samtaka sem félagsmenn eru sérstaklega boðaðir á greiðist kílómetragjald Ferðakostnaðarnefndar ríkisins eins og það er á hverjum tíma. Félagsmenn sem þetta á við um, skulu leitast við að ferðast saman á fundi.

Aðalfundur STH

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn þriðjudaginn 29. apríl kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í störfum félagsins. Góðar veitingar í boði.

Aðalfundur er æðsta vald félagsins og skal hann haldinn ár hvert fyrir lok maí. Sérstök verkefni aðalfundar eru þessi:
a) Kjör á starfsmönnum fundarins
b) Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
c) Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu
d) Ákvörðun félagsgjalds
e) Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarskrifstofu
f) Lagabreytingar, ef þær liggja fyrir
g) Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna samkvæmt 8. grein
h) Kosning fulltrúa í orlofsnefnd, ferðanefnd og starfskjaranefnd
i) Kosning fulltrúa á þing BSRB
j) Ákvörðun um laun stjórnar, annarra stjórna, ráða og nefnda
k) Önnur mál

Starfsmannafélag Húsavíkur

Tillögur sem liggja fyrir aðalfundinum

Tillaga 1
Löggiltur endurskoðandi félagsins

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2025.

Tillaga 2
Um félagsgjald

Tillaga stjórnar er að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 1% af launum.

Tillaga 3
Ráðstöfun á tekjuafgangi

Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári.

Tillaga 4
Laun stjórnar og varastjórnar

Tillaga er um að laun stjórnar og varastjórnar fyrir setinn stjórnarfund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga:

Skrifstofuvinna II með 8% álagi. Formaður hafi einn tíma til viðbótar í yfirvinnu per fund vegna undirbúnings og frágangs stjórnarfunda.

Þá hafi formaður á hverjum tíma fasta greiðslu kr. 31.050,- á mánuði fyrir störf sín sem formaður félagsins samkvæmt nánara samkomulagi aðila.

Tillaga 5
Laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir kjörnar á aðalfundi

Tillaga er um að laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir per setinn fund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga: Skrifstofuvinna II með 8% álagi.

Aðalfundur Framsýnar- stéttarfélags

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags verður haldinn miðvikudaginn 23. apríl kl. 20:00 í fundarsal félagsins.

Dagskrá:

1.   Venjuleg aðalfundarstörf

  1. Félagaskrá
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Ársreikningar
  4. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
  5. Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
  6. Kosning löggilts endurskoðanda/endurskoðunarskrifstofu
  7. Lagabreytingar
  8. Ákvörðun árgjalda
  9. Laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og stjórna innan félagsins

2. Kvennaár 2025

3. Önnur mál

Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
„Tillögur stjórnar, trúnaðarráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.“

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í að móta félagið til framtíðar. Boðið verður upp á heimsins bestu veitingar á fundinum og smá glaðning frá félaginu.

Framsýn stéttarfélag

Tillögur sem liggja fyrir aðalfundinum:

Tillaga 1

Ráðstöfun á tekjuafgangi

Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári.

Tillaga 2

Löggiltur endurskoðandi félagsins

Lagt er til að endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers ehf. sjái um endurskoðun á bókhaldi félagsins fyrir starfsárið 2025.

Tillaga 3

Um árgjald

Tillaga er um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 1% af launum félagsmanna.

Tillaga 4

Lágmarksfélagsgjald 2025
Til að öðlast full félagsréttindi þarf að greiða mánaðarlegt félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalfundar á hverjum tíma, nú 1% af heildarlaunum.

Lágmarksfélagsgjaldið skal ekki vera lægra en sem svarar til 0,3% byrjunarlaunum 18 ára afgreiðslufólks, samkvæmt launataxta LÍV-SA sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma.

Félagsgjaldið tekur breytingum í samræmi við umsamdar breytingar á launataxta LÍV-SA. Þegar rætt er um lágmarksfélagsgjald er miðað við gjald samtals í eitt ár, eða undangengna 12 mánuði.

Félagsmenn sem ekki hafa náð lágmarksfélagsgjaldi eiga rétt á aðstoð við kjaramál og réttindi í sjóðum félagsins í hlutfalli við greiðslur. Til þess að viðhalda fullgildum félagsrétti í Framsýn þurfa félagsgjaldsgreiðslur að berast reglulega. Ef ekkert félagsgjald er greitt í sex mánuði samfellt fellur viðkomandi af félagsskrá. Hægt er að ná aftur fullgildingu frá þeim mánuði sem næsta félagsgjaldsgreiðsla berst, ef lágmarksfélagsgjaldi er náð undangengna 12 mánuði.

Tillaga 5

Laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og stjórna innan félagsins

Tillaga er um að laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs og stjórna deilda innan félagsins verði óbreytt milli ára.

Launakjör félagsmanna í trúnaðarstörfum fyrir félagið starfsárið 2025-26

Stjórn og varastjórn Framsýnar:

Þrír tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks

Formaður + varaformaður 1,5 tími í undirbúning og frágang funda til viðbótar

Trúnaðarráð Framsýnar:

Þrír tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks

Stjórnir deilda Framsýnar, það er Sjómannadeildar og Deildar verslunar- og skrifstofufólks:

Tveir tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks

Formaður 1,5 tími í undirbúning og frágang funda til viðbótar

Aðrar fastar stjórnir og nefndir kjörnar á aðalfundi sem og nefndir/stjórnir sem stjórn og trúnaðarráð félagsins skipar á hverjum tíma:

Tveir tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks

Akstursgreiðslur:

Varðandi akstur á fundi á vegum félagsins eða aðildarsamtaka sem félagsmenn eru sérstaklega boðaðir á greiðist  kílómetragjald Ferðakostnaðarnefndar ríkisins eins og það er á hverjum tíma. Félagsmenn sem þetta á við um, skulu leitast við að ferðast saman á fundi.

Tillaga að breytingu á reglugerð sjúkrasjóðs:

11. grein: Dagpeningar og styrkir

11.3 Dagpeningar í 90 almanaksdaga (þrjá mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð miðað við starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu fjórum mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar. Leggja þarf fram staðfestingu þess efnis frá hlutaðeigandi lækni/sérfræðingi eða heilbrigðisstofnun að þörf sé á sérstakri umönnun aðstandenda í tilfellum sem þessum.

11.4 Dagpeningar í 90 almanaksdaga (þrjá mánuði) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð miðað við starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu sex mánuðum. Leggja þarf fram staðfestingu þess efnis frá hlutaðeigandi lækni/sérfræðingi eða heilbrigðisstofnun að þörf sé á sérstakri umönnun aðstandenda í tilfellum sem þessum.

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í að móta félagið til framtíðar. Boðið verður upp á heimsins bestu veitingar á fundinum og smá glaðning frá félaginu.

Ótrúlegt en satt – Íslandsmet

Fimmtudaginn, 13. mars, hófu tólf flutningarbílar ferð sína frá Selfossi til Húsavíkur með sex íbúða raðhús Bjargs íbúðafélags, um sólahring síðar var húsið risið á Húsavík. Hvert hús samanstendur af tveimur einingum.

Nýju húsin eru að Lyngholti 42-52 á Húsavík. Ferðalagið tók um 16 klukkutíma og var bílalestin komin á leiðarenda um hádegi, föstudaginn 14. mars. Aka þurfti um 800 km leið þar sem ekki var hægt að fara í gegnum nein jarðgöng eða minni og þrengri brýr. Þegar á leiðarenda var komið var strax hafist handa við að hífa húsin á grunninn sem beið tilbúinn á Húsavík. Fyrsta einingin var komin niður á grunn um klukkan 12:00 og sú síðasta klukkan 19:30 á föstudagskvöldinu.

Um er að ræða nýsköpunarverkefni þar sem íbúðirnar voru smíðaðar á Selfossi og fluttar nánast fullbúnar norður. Á sama tíma og húsin voru í smíðum á Selfossi sáu heimamenn á Húsavík um jarðvinnu og sökkla fyrir húsið. Þannig var hægt að vinna að tveimur verkþáttum á sama tíma sem styttir byggingartíma töluvert.

Ekki er ólíklegt að um Íslandsmet sé um að ræða en íbúðirnar voru afhentar nýjum leigutökum í dag 8. apríl, það er innan við mánuði frá því að raðhúsið kom í einingum til Húsavíkur. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, í umboði Bjargs íbúðafélags afhenti þremur leigutökum íbúðir í dag. Hinar íbúðirnar þrjár, eru jafnframt klárar, og verða afhentar á næstu dögum. Það var Unnur Lilja Erlingsdóttir sem tók við fyrstu lyklunum. Um er að ræða tímamót enda hefur Bjarg íbúðafélag ekki áður boðið upp á leiguíbúðir á Húsavík. Framsýn hefur ákveðið að fylgja því eftir að Bjarg komi að frekari uppbyggingu á Húsavík hvað varðar hentugar íbúðir fyrir félagsmenn í fullu samráði við Norðurþing.

 Nýjum íbúðum fagnað

Í gær var því fagnað að nýtt og glæsilegt raðhús að Lyngholti 42-52 á Húsavík væri tilbúið til leigu. Fulltrúar frá Bjargi íbúðafélagi, SAhúsum á Selfossi, Norðurþingi og stéttarfélögunum komu saman og vígðu formlega nýju íbúðirnar. Eins og fram hefur komið er um að ræða nýsköpunarverkefni þar sem íbúðirnar voru smíðaðar á Selfossi og fluttar nánast fullbúnar norður. Á sama tíma og húsin voru í smíðum á Selfossi sáu heimamenn á Húsavík um jarðvinnu og sökkla fyrir húsið. Aðalsteinn Árni startaði samkomunni og þakkaði öllum þeim sem komu að verkinu fyrir þeirra framlag, sérstaklega Bjargi og Norðurþingi sem komu að því að láta verkið ganga upp. Framkvæmdin hefði gengið afar vel og öllum til mikils sóma. Ef eitthvað væri, hefði húsið þurft að vera töluvert stærra. Það er með fleiri íbúðum þar sem 44 fjölskyldur sóttu um þessar 6 íbúðir. Þörfin fyrir húsnæði sem þetta væri greinilega mikil. Framsýn ætlaði sér að setja sig í samband við Norðurþing og Bjarg á næstu dögum varðandi frekari uppbyggingu á Húsavík. Því næst afhenti Baldur Pálsson framkvæmdastjóri SGHÚS Birni Traustasyni framkvæmdastjóra Bjargs lyklana að íbúðunum. Katrín Sigurjónsdóttir tók til máls og þakkaði samstarfsaðilum fyrir samstarfið og uppbygginguna á Húsavík.

Fjölmennur kynningarfundur á vegum Carbfix

Carbfix boðaði til íbúafundar á Húsavík gær. Tilgangur fundarins var að kynna áform fyrirtækisins um uppbyggingu og rekstur athafnasvæðis til móttöku, niðurdælingar og bindingar CO₂ við Húsavík. Sameiginleg yfirlýsing Carbfix og Norðurþings um uppbyggingu Codastövar á Bakka við Húsavík var samþykkt á fundi sveitarstjórnar undir lok síðasta mánaðar.

Frummælendur á fundinum voru:

-Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Norðurþingi
-Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar
-Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar var beðinn um að halda utan um fundinn sem fundarstjóri. Fundargestir voru hátt í tvö hundruð, það er í sal og á netinu en fundinum var streymt. Eftir góðar kynningar á verkefninu var opnað fyrir fyrirspurnir. Fjölmargir fundarmenn lögðu fram spurningar sem forsvarsmenn verkefnisins leituðust við að svara eftir bestu getu. Ekki var annað að heyra á fundargestum en að þeir hefðu verið mjög ánægðir með fundinn og færu út af fundinum miklu fróðari um verkefnið.

Hvenær var Framsýn stofnað?

Fulltrúar frá Framsýn gerðu sér ferð í Reykjahlíðarskóla í gær til að fræða unga nemendur um starfsemi stéttarfélaga, helstu reglur á vinnumarkaði og atvinnulífið í Þingeyjarsýslum. Virkilega áhugaverður og skemmtilegur hópur nemenda. Eftir líflegan fyrirlestur var opnað fyrir fyrirspurnir. Ekki stóð á spurningum enda nemendur mjög áhugsamir um efnið sem var til kynningar í skólanum. Einn nemandi spurði m.a. um sögu Framsýnar, hvenær félagið hefði verið stofnað. Ekki stóð á svari, Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað 14. apríl 1911 sem ber í dag nafnið Framsýn stéttarfélag. Nokkrir dagar eru því að félagið verði 114 ára gamalt.

Tekið hús á Leigufluginu ehf / Air Broker Iceland

Formaður Framsýnar hefur undanfarna daga, vikur og mánuði átt samtöl við þingmenn, ráðherra, sveitarstjórnarmenn og flugrekstraraðila um mikilvægi áætlunarflugs milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem  nú liggur niðri. Í gær þáði hann boð Ásgeirs Ö. Þorsteinssonar og Einars Hermanssonar sem eiga og stýra nýju fyrirtæki sem heitir Air broker Iceland og er leigumiðlun með flugvélar og þyrlur. Félagarnir, sem áður störfuðu hjá Flugfélaginu Erni, hafa báðir mikla reynslu af störfum tengdum flugi. Á fundinum í gær kom fram að verkefnin eru margvísleg og eftirspurnin stundum umfram það sem hægt er að sinna með góðu móti. Tekin var umræða um innanlandsflugið, ríkisstyrki á flugleiðum og framtíð áætlunarflugs til flugvalla á Íslandi, s.s. Húsavíkur, Hornafjarðar, Ísafjarðar og Vestmannaeyja sem hefur verið til umræðu í fjölmiðlum undanfarið. Fundurinn var vinsamlegur og góður í alla staði.

Rekstur Þorrasala til mikillar fyrirmyndar

Aðalfundur Húsfélagsins í Þorrasölum 1-3 fór fram í Kópavogi í gær. Framsýn og Þingiðn eiga orðið sex íbúðir í húsinu. Auk venjulegra aðalfundarstarfa urðu umræður um nokkur viðhaldsverkefni sem ráðast þarf í á næstu mánuðum. Fundarmenn voru mjög ánægðir með rekstur og starfsemi húsfélagsins. Stjórnin var endurkjörin en formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, hefur verið stjórnarformaður húsfélagsins undanfarin ár. Var hann beðinn um að gegna starfinu áfram en hugur Aðalsteins stóð til þess að skipt yrði um formann enda hann búinn að gegna stöðunni til margra ára. Svo fór að hann samþykkti að gegna formennskunni áfram. Með honum í stjórn eru Helga Rúna Péturs gjaldkeri og Sandra Björg Bendiktsdóttir ritari.

Óska eftir samtali við þingmenn um áætlunarflug til Húsavíkur

Með bréfi til þingmanna Norðausturkjördæmis í dag kallar Framsýn eftir samtali og stuðningi frá þingmönnum kjördæmisins hvað varðar áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur.

„Framsýn stéttarfélag efast ekki um að þingmenn Norðausturkjördæmis hafi góðan skilning á mikilvægi góðra samgangna. Reyndar má halda því fram að öruggar samgöngur sé forsendan fyrir því að byggð haldist í landinu og stuðli jafnframt að því að jafna lífskjör í landinu.

Flugfélagið Ernir hóf að fljúga til Húsavíkur í apríl 2012 í góðu samstarfi við heimamenn allt til Raufarhafnar. Þá höfðu flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur legið niðri í tæp 12 ár. Því miður hætti flugfélagið að fljúga til Húsavíkur á síðasta ári, það er eftir að aðrir eigendur eignuðust meirihluta í flugfélaginu.

Forsvarsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, sveitarfélaga, ríkisstofnana, fyrirtækja, félagasamtaka sem og almennir íbúar hafa kallað eftir öruggum flugsamgöngum inn á svæðið. Flugleiðin var ríkisstyrkt í þrjá mánuði í vetur, eftir að flugið hafði legið niðri í nokkra mánuði á síðasta ári, en Norlandair kom að því að fljúga til Húsavíkur frá desember fram í mars 2025. Í dag liggur flugið niðri og óvíst er um framhaldið enda komi stjórnvöld ekki að því að styrkja flugið frekar með ríkisstyrkjum. Þá gera heimamenn kröfu um að viðhaldsverk á flugbraut og flugstöð á Húsavíkurflugvelli, sem  eru á samgönguáætlun, verði unnin sem fyrst enda mikilvægt að mannvirkjum sem tengjast flugsamgöngum um völlinn fái eðlilegt viðhald.

Höfum í huga að fjölmargir þurfa að reiða sig á flugið fyrir utan svokallaða hagsmunaaðila sem nefndir eru hér að ofan, það er allur sá fjöldi sem þarf af heilsufarsástæðum að leita lækninga og sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og treystir á öruggar flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Svo ekki sé talað um útgjöldin sem munu stóraukast til framtíðar, ekki síst hjá efnalitlu fólki, verði reglubundnu áætlunarflugi endanlega hætt til Húsavíkur.

Á fundi stjórnar Framsýnar þriðjudaginn 18. mars var formanni félagsins falið að koma skoðunum félagsins á framfæri við þingmenn kjördæmisins. Kallað verði eftir stuðningi þeirra við að tryggja áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur. Þess er vænst að þingmenn svari ákalli Þingeyinga og gangi til liðs við heimamenn í þessu mikilvæga atvinnu- og byggðamáli.

Fulltrúar Framsýnar eru reiðubúnir að funda með þingmönnum og/eða veita þeim frekari upplýsingar verði eftir því leitað enda mikilvægt að þingmenn kjördæmisins séu vel upplýstir um málið. Vonandi sjá þingmenn ástæðu til að setja sig í samband við félagið varðandi þetta mikilvæga mál. Við bíðum við símann enda þolir málið ekki bið.“

(Mynd með frétt: Gunnar Jóhannesson)

Skrifað undir – allt á fullu

Fulltrúar frá Bjargi voru á Húsavík í gær. Tilgangurinn var að skoða framkvæmdirnar en vel gengur að reisa sex íbúða raðhús á vegum félagsins á Húsavík. Í morgun voru 16 iðnaðarmenn og verkamenn við störf við húsið í frábæru veðri. Allt gengur eftir áætlun og ekkert er því til fyrirstöðu að flutt verði inn í íbúðirnar í næsta mánuði. Væntanlegir leigutakar komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær og skrifuðu formlega undir leigusamninga við Bjarg en fulltrúar frá þeim gengu frá samningum í húsnæði stéttarfélaganna. Um var að ræða mikla hátíðarstund. Meðfylgjandi eru myndir frá heimsókn formanns Framsýnar í morgun á verkstað en hann fór yfir stöðuna á verkinu með verkstjóranum, Gatis Kauzens.

Kauptaxtaauki tekur gildi 1. apríl – félagsmenn Framsýnar

Forsendunefnd kjarasamninga hefur úrskurðað að kauptaxtaauki virkjast frá og með 1. apríl næstkomandi. Kauptaxtaaukinn felur í sér að lágmarkstaxtar kjarasamninga hækka um 0,58%. Forsendur þessa eru hækkun launavísitölu á almennum markaði umfram umsamdar taxtahækkanir á fyrsta tímabili stöðugleikasamningsins.

Samkvæmt kjarasamningum á árunum 2024-2028, ber nefndinni að fylgjast með efnahagslegum forsendum og mögulegum áhrifum á markmið samninga um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Einnig verður lagt mat á samningsforsendur í september 2025 og september 2026.

Yfirlýsing launa- og forsendunefndar í heild sinni

Launa- og forsendunefnd kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem skipuð er fulltrúum frá ASÍ og SA, kom saman til fyrsta fundar föstudaginn 7. mars. Á fundinum var úrskurðað að kauptaxtaauki virkjast frá og með 1. apríl næstkomandi. Kauptaxtaaukinn felur í sér að kauptaxtar kjarasamninga hækki um 0,58% frá og með 1. apríl og skýrist af því að launavísitala á almennum markaði hækkaði umfram umsamdar taxtahækkanir viðmiðunartaxtans á fyrsta tímabili stöðugleikasamningsins.

Nefndinni, sem starfar samkvæmt kjarasamningum á árunum 2024-2028, ber að fylgjast með framvindu efnahagslífs og mögulegum áhrifum á markmið samninga um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Nefndinni ber jafnframt að leggja mat á samningsforsendur í september 2025 og september 2026.

Verðbólga gengið niður og kaupmáttur aukist

Meginmarkmið samninganna er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Verðbólga mældist um 8% þegar undirbúningur kjarasamninga hófst haustið 2023. Forsendunefndin er sammála um að árangur samninganna hafi verið merkjanlegur, verðbólga mælist í dag 4,2% en 2,7% ef horft er fram hjá áhrifum húsnæðisverðs. Kaupmáttur launa hefur aukist á fyrsta ári samnings.

Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli í október síðastliðnum og hafa stýrivextir lækkað um 1,50 prósentur frá gerð samninga. Á sama tíma hefur aðhald peningastefnunnar aukist og raunvextir hækkað.

Aukin óvissa um efnahagshorfur

Forsendur eru fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum og þar með frekari lækkun vaxta. Hins vegar hefur alþjóðleg óvissa um efnahagshorfur aukist og hætta á að Ísland verði fyrir áhrifum af vaxandi átökum á alþjóðavettvangi og viðskiptastríðum. Forsendunefndin telur mikilvægt að stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og fyrirtæki vinni áfram að markmiðum samninganna og skapi þannig forsendur fyrir áframhaldandi minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þar telur nefndin brýnt að ríki og sveitarfélög vinni með peningastefnunni, gæti hófs í álagningu gjalda og taki markviss skref í íbúðauppbyggingu.

Trúnaðarmannanámskeið í gangi

Um þessar mundir stendur yfir tveggja daga trúnaðarmannanámskeið á vegum stéttarfélaganna. Trúnaðarmennirnir koma frá Framsýn, Þingiðn, Starfsmannafélagi Húsavíkur og Verkalýðsfélagi Þórshafnar. Við látum myndirnar tala sínu máli en námskeiðið klárast síðar í dag.

Flugsamgöngur, kvótamál og fjölmörg önnur mál til umræðu

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar á morgun, þriðjudag. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins.

Dagskrá:

1. Inntaka nýrra félaga

2. Fundargerð síðasta fundar

3. Bjarg íbúðafélag – uppbygging á Húsavík

4. Málþing – Konur í nýju landi

5. Flugsamgöngur Húsavík-Reykjavík

6. Stjórn sjúkrasjóðs félagsins

7. Fjárhagsáætlun Skrifstofu stéttarfélaganna 2025

8. Erindi sjómenn-byggðakvóti Raufarhöfn

9. Strandveiðar-samantekt Norðurþings

10. Heimsóknir frá Carbfix/Heildelberg

11. Tilgreind séreign

12. Stofnanasamningur við Náttúruverndarstofnun

13. Aðalfundur Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum

14. Lagfæringar á húsnæði stéttarfélaganna

15. Hátíðarhöldin 1. maí

16. Orlofsmál 2025

17. Trúnaðarmannanámskeið

18. Önnur mál

Ótrúlegt en satt

Í gærmorgun mátti sjá grunn í Lyngholti 42-52 á Húsavík undir raðhús. Sólarhring síðar er risið 6 íbúða raðhús á grunninum. Um er að ræða raðhús, svokölluð ‘kubbahús’, sem Bjarg íbúðafélag er að reisa á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs hefur sagt í fjölmiðlum að þetta sé í raun fyrsta verkefni félagsins þessarar tegundar, en örugglega ekki það síðasta. Húsin eru smíðuð á Selfossi, af SG húsum. Eins og fram hefur komið á heimasíðu stéttarfélaganna var slegist um þessar sex íbúðir og bíða leigjendur spenntir eftir því að flytja inn í nýjar og glæsilegar íbúðir. Um er að ræða sérbýli með litlum garði, en allar íbúðirnar eru 4ra herbergja. Reiknað er með að íbúðirnar verði tilbúnar í apríl 2025. Framsýn, sem hafði frumkvæði að því að Bjarg kæmi að uppbyggingu á Húsavík, mun hvetja til frekari húsbygginga á vegum Bjargs á Húsavík enda eftirspurnin greinilega mikil eftir óhagnaðardrifnum leiguheimilum. Aðalmarkmið Bjargs er að tryggja fólki húsnæðisöryggi án hagnaðarsjónarmiða. Í þessu kerfi þarf fólk ekki að hafa áhyggjur af því að missa húsnæðið. Íbúar halda húsnæðinu eins lengi og þeir vilja og breytir engu þó að tekjur íbúa hækki þegar líður á.

Kvóti og flugsamgöngur – Þingmaðurinn fékk skýr skilaboð

Þingmaðurinn Ingvar Þóroddsson óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar í dag til að fara yfir atvinnu- og byggðamál í Þingeyjarsýslum og önnur þau mál sem brenna á heimamönnum. Ingvar er þingmaður í Norðausturkjördæmi auk þess að sitja í nefndum og ráðum á vegum Alþingis. Aðalsteinn Árni lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að þingmenn kjördæmisins gangi til liðs við heimamenn, hvað varðar samgöngumál, með það að markmiði að tryggja öruggar flugsamgöngur um Húsavík til framtíðar. Þá lagði hann ekki síður áherslu á mikilvægi þess að byggðakvóti til handa Raufarhöfn verði aukin verulega. Að mati Framsýnar er aukin byggðakvóti ein besta byggðaaðgerðin fyrir Raufarhöfn sem lengi hefur verið í vörn og ekki getað treyst á fjölbreytt atvinnulíf, fiskeldi eða vaxandi ferðaþjónustu líkt og þekkist víða í hinum dreifðu sjávarbyggðum landsins. Til upprifjunar má geta þess að Raufarhöfn var eitt fyrsta byggðarlagið á Íslandi sem fór í verkefni Byggðastofnunar „Brothættar byggðir.“ Ingvar sagðist átta sig vel á stöðunni, þakkaði fyrir upplýsingarnar um leið og hann lagði mikið upp úr góðu samstarfi við Framsýn og íbúa svæðisins hvað varðaði hagsmunamál Þingeyinga.  

Bílalest á leið norður

Eins og áður hefur komið fram á heimasíðu stéttarfélaganna hefur Bjarg íbúðafélag, sem er óhagnaðardrifið íbúðafélag, unnið að því að byggja sex íbúða raðhús að Lyngholti 42-52 á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Nú liggur fyrir að bílalestinn mun væntanlega leggja af stað frá Selfossi á morgun með einingarnar til Húsavíkur. Hún ætti því að vera á komin norður síðdegis á föstudaginn gangi allt eftir. Hamingjustund og rúmlega það. Húsavík, blómstarandi bær, enda vorveður í lofti.

Á meðfylgjandi mynd má sjá að allt er að verða klárt fyrir ferðina norður með einingarnar. Búið er að lesta flutningabílana fyrir langa ferð til Húsavíkur. Alls þarf 12 öfluga flutningabíla til að færa Þingeyingum sex íbúða raðhús sem er hreint út sagt magnað.

Lágmarksfélagsgjald og kjörgengi í Framsýn

Félagsgjöld í Framsýn eru ákveðin á aðalfundi félagsins á hverjum tíma. Þau hafa verið óbreytt til fjölda ára eða 1% af launum starfsmanna. Til að teljast fullgildur félagsmaður þurfa menn að vera á vinnumarkaði og hafa náð að greiða lágmarksfélagsgjald kr. 16.379,- á árinu 2024. Félagsmenn sem eru á vinnumarkaði og ná ekki að greiða lágmarksgjaldið s.s. vegna þess að þeir eru í hlutastarfi eða störfuðu á vinnumarkaði, aðeins hluta af árinu, stendur til boða að greiða mismuninn á greiddu félagsgjaldi á árinu og lágmarksgjaldinu enda ætli þeir sér  að vera  áfram á vinnumarkaði. Geri menn það hafa menn fullt kjörgengi í félaginu og teljast fullgildir félagsmenn. Eða eins og stendur í lögum félagsins; „Þeir félagsmenn, sem ekki hafa náð að greiða það lágmarksgjald, sem aðalfundur hefur ákveðið skulu færðir á aukafélagaskrá. Greiði þeir skuld sína vegna næstliðins starfsárs fyrir 31. mars, skulu þeir á ný færðir á skrá yfir fullgilda félagsmenn.“ Rétt er að taka skýrt fram að greiðslur til félagsmanna úr sjóðum félagsins s.s. sjúkra- orlofs eða starfsmenntasjóðum taka ávallt mið af greiðslum atvinnurekenda í þessa sjóði af viðkomandi félagsmönnum ekki lágmarksgjaldinu enda kjarasamningsbundið að atvinnurekendur greiði í þessa sjóði, ekki almennir félagsmenn. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna eða með því að senda fyrirspurn á  netfangið kuti@framsyn.is.