Standið vörð um íslenskan landbúnað

Sjálfstæðisflokkurinn stóð nýlega fyrir opnum fundi á Húsavík um atvinnumál og stöðuna í þjóðfélaginu. Eðlilega fengu atvinnumálin á svæðinu töluverða athygli enda liggur starfsemi PCC á Bakka að mestu niðri. Óvíst er hvort eða hvenær starfsemi hefst á ný á Bakka. Fleiri mál fengu jafnframt athygli svo sem íslenskur landbúnaður og staðan í ferðaþjónustunni nú þegar til stendur að auka verulega álögur á fyrirtæki í ferðaþjónustu með alls konar sköttum á komur ferðamanna. Vegna þessa er ferðaþjónustan í miklu uppnámi, ekki síst er varðar komur skemmtiferða til landsins á komandi ári, jafnvel árum.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var boðið að sitja fundinn og taka þátt í umræðum á fundinum. Hann fór almennum orðum um stöðuna í atvinnumálum á svæðinu s.s. á Bakka. Hann kom einnig inn á þann mikla vanda sem blasir við ferðaþjónustunni og íslenskum landbúnaði. Hvatti hann formann og þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að berjast fyrir tilvist landbúnaðar á Íslandi. Máli sínu til stuðnings afhendi hann formanni Sjálfstæðisflokksins, Guðrúnu Hafsteinsdóttir, Lambadagatal 2026. Höfundur dagatalsins er, Ragnar Þorsteinsson, bóndi í Sýrnesi í Aðaldal. Dagatalið, sem prýtt er myndum af maglitum unglömbum, hefur vakið mikla athygli en megintilgangur útgáfurnar er að breiða út sem víðast fegurð og fjölbreytni íslensku sauðkindarinnar.

Aðalsteinn Árni sagði að um táknræna gjöf væri um að ræða til að minna á mikilvægi landbúnaðar á Íslandi, taldi hann við hæfi að dagatalinu yrði komið fyrir í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins við Austurvöll. Guðrún tók skilaboðunum og gjöfinni vel  enda myndirnar í dagatalinu einstaklega glæsilegar. Þakkaði hún fyrir gjöfina um leið og hún hét því að standa vörð um íslenskan landbúnað.  

Í nýlegu Bændablaði er fjallað um Lambadagatalið 2026. Höfundur dagatalsins er, Ragnar Þorsteinsson, bóndi í Sýrnesi. Dagatalið er prýtt myndum af maglitum unglömbum, megintilgangur útgáfurnar er að breiða út sem víðast fegurð og fjölbreytni íslensku sauðkindarinnar.

Formaður Framsýnar þreifaði á málefnum PCC á Bakka við ráðamenn

Viðskiptagreining Landsvirkjunar stóð fyrir opnum fundi í Hörpu fimmtudaginn 4. desember um þróun mála hjá álverum og kísilframleiðendum síðustu misseri og hún sett í samhengi við íslenskan raunveruleika og alþjóðamarkaði. Eftir tvö áhugaverð erindi um stöðu mála og horfur var boðið upp á pallborðsumræður þar sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra, Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Íslandi, Kári Marís Guðmundsson fyrrum forstjóri PCC á Bakka og Karl Guðmundsson verkefnastjóri stórfjárfestinga hjá forsætisráðuneytinu sáttu fyrir svörum um fundarefnið. Aðalsteinn Árni Baldursson var að sjálfsögðu á svæðinu til að kynna sér stöðuna og ná tali á þeim sem eru í stöðu til að hafa áhrif á það að starfsemi PCC hefjist á ný á Bakka. Eins og staðan er í dag er það ekki útilokað enda kom fram í samtölum sem formaður Framsýnar átti við ráðherra atvinnumála og verkefnastjóra stórfjárfestinga að stjórnvöld ætluðu sér að gera allt sem þau gætu til að vinna að framgangi málsins með það að markmiði að starfsemi hefjist á Bakka á ný sem fyrst.

Formaður Framsýnar náði samtali við Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra um stöðuna á Bakka og framtíðina hvað varðar starfsemi fyrirtækisins. Hanna fullvissaði formann Framsýnar um að allt yrði gert á vegum stjórnvalda til að liðka fyrir því að starfsemin á Bakka hefjist á ný sem fyrst.

Framsýn hefur ákveðið að leggja mikla vinnu í atvinnumál, ekki síst í ljósi þess að starfsemi PCC liggur niðri. Félagið hefur falið formanni félagsins, Aðalsteini Árna, að fylgja málinu eftir enda hagsmunir félagsins miklir. Liður í því er að eiga gott samstarf við stjórnvöld um framvindu mála. Á fundi Landsvirkjunar í gær notaði hann tækifærið og fundaði óformlega með Karli Guðmundssyni verkefnastjóra stórfjárfestinga hjá forsætisráðuneytinu um málefni PCC. Niðurstaðan var að eiga mjög gott samstarf um verkefnið, það er að starfsemi PCC á Bakka geti hafist aftur af fullum krafti.

Staðan tekin, Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Íslandi, Kári Marís Guðmundsson fyrrum forstjóri PCC á Bakka, Kristín Anna Hreinsdóttir núverandi forstjóri PCC á Bakka og Þórður Magnússon dr. í málmfræðum og ráðgjafi í ofnrekstri hjá PCC eru hér ásamt formanni Framsýnar Aðalsteini Árna Baldurssyni.

Viðskiptagreining Landsvirkjunar stóð fyrir áhugaverðum fundi í Hörpu í gær um þróun mála hjá álverum og kísilframleiðendum á Íslandi í samhengi við íslenskan raunveruleika og alþjóðamarkaði.

Bakkavík og Framsýn funda um landeldi

Á dögunum funduðu forsvarsmenn Framsýnar og Bakkavíkur um áform fyrirtækisins um að byggja upp landeldi á Bakka við Húsavík. Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bakkavíkur landeldis og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar fóru yfir verkefnið en Framsýn hefur lagt mikla áherslu á að eiga gott samstarf við þá aðila sem sýnt hafa svæðinu áhuga hvað varðar atvinnuuppbyggingu. Bakkavík landeldi ehf., hefur þegar undirritað viljayfirlýsingu vegna lóðar undir hugsanlega landeldisstöð á vegum Bakkavík landeldi ehf. á iðnaðarsvæðinu á Bakka norðan Húsavíkur. Í viljayfirlýsingunni kemur meðal annars fram að Bakkavík landeldi ehf. telur mikil tækifæri fyrir hendi til sjálfbærrar auðlindanýtingar og atvinnusköpunar í Norðurþingi með uppbyggingu landeldisstöðvar fyrir lax á lóðinni. Með því móti verður jafnframt styrkari stoðum skotið undir atvinnulíf og búsetu í Norðurþingi og nágrannabyggðum. Fram hefur komið að um þróunarverkefni sé um að ræða sem taki nokkur ár.

Nýr stofnanasamningur kominn á netið

Nýr stofnanasamningur hefur verið undirritaður við Land og Skóg og leysir hann af hólmi eldri samning frá 2022 við Skógræktina. Land og Skógur tók við verkefnum Skógræktarinnar og Landgræðslunnar 1. janúar 2024. Nýi samningurinn gildir fyrir starfsmenn sem áður störfuðu hjá Skógræktinni og Landgræðslunni. Viðræður hófust um miðjan október sl. og fyrir hönd Starfsgreinasambands Íslands sátu í viðræðunefnd þau Aðalsteinn Árni Baldursson, Guðrún Elín Pálsdóttir og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir. Eru þeim færðar kærar þakkir frá SGS fyrir góða og gagnlega vinnu. Nýjan samning er að finna hér.

Vilt þú taka þátt í öflugu starfi Framsýnar – bara gaman!

Uppstillinganefnd Framsýnar fundar stíft um þessar mundir. Hlutverk nefndarinnar er að stilla upp í flestar trúnaðarstöður á vegum Framsýnar fyrir komandi kjörtímabil 2026-2028, það er í stjórnir, ráð og nefndir á vegum félagsins, samtals um 80 félagsmönnum. Þeirri vinnu skal lokið fyrir 31. janúar 2026 og skal hún þá auglýst eftir samþykki stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar. Hér með er skorað á áhugasama að hafa samband við formann nefndarinnar Ósk Helgadóttir vilji menn gefa kost á sér í trúnaðarstörf fyrir félagið sem er bæði gefandi og skemmtilegt starf í alla staði. Það er að taka þátt í að móta kjör félagsmanna og starf félagsins til framtíðar. Netfangið hjá formanni nefndarinnar er okkah@hotmail.com. Einnig er velkomið að hafa samband við formann félagsins, Aðalstein Árna Baldursson kuti@framsyn.is sem veitir frekari upplýsingar. Aðeins þeir sem eru á vinnumarkaði og greiða til Framsýnar eru kjörgengir í embætti innan félagsins. Frestur til að gefa kost á sér er til 14. janúar 2026.

Lágmarksfélagsgjald og kjörgengi í Framsýn

Félagsgjöld í Framsýn eru ákveðin á aðalfundi félagsins á hverjum tíma. Þau hafa verið óbreytt til fjölda ára eða 1% af launum starfsmanna. Til að teljast fullgildur félagsmaður þurfa menn að vera á vinnumarkaði og hafa náð að greiða lágmarksfélagsgjald kr. 16.474 á árinu 2025. Félagsmenn sem eru á vinnumarkaði og ná ekki að greiða lágmarksgjaldið s.s. vegna þess að þeir eru í hlutastarfi eða störfuðu á vinnumarkaði, aðeins hluta af árinu, stendur til boða að greiða mismuninn á greiddu félagsgjaldi á árinu og lágmarksgjaldinu enda ætli þeir sér  að vera  áfram á vinnumarkaði. Geri menn það hafa menn fullt kjörgengi í félaginu og teljast fullgildir félagsmenn. Eða eins og stendur í lögum félagsins; „Þeir félagsmenn, sem ekki hafa náð að greiða það lágmarksgjald, sem aðalfundur hefur ákveðið skulu færðir á aukafélagaskrá. Greiði þeir skuld sína vegna næstliðins starfsárs fyrir 31. mars, skulu þeir á ný færðir á skrá yfir fullgilda félagsmenn.“ Rétt er að taka skýrt fram að greiðslur til félagsmanna úr sjóðum félagsins s.s. sjúkra- orlofs eða starfsmenntasjóðum taka ávallt mið af greiðslum atvinnurekenda í þessa sjóði af viðkomandi félagsmönnum ekki lágmarksgjaldinu enda kjarasamningsbundið að atvinnurekendur greiði í þessa sjóði, ekki almennir félagsmenn. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna eða með því að senda fyrirspurn á  netfangið kuti@framsyn.is.

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður haldinn miðvikudaginn 14. janúar 2026 kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

  • Kosning starfsmanna fundarins
  • Skýrsla stjórnar
  • Stjórnarkjör

2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn deildarinnar sem falla undir deildina að mæta á fundinn og taka þátt í líflegum umræðum. Það er félagsmenn Framsýnar sem starfa við verslun, þjónustu og skrifstofustörf á almenna vinnumarkaðinum.

Stjórn deildarinnar

Auknar líkur á atvinnuleysi út árið 2027

Vinnumarkaður þykir sýna merki um kólnun og líkur eru á auknu atvinnuleysi út árið 2027. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýlegri hagspá Alþýðusambands Íslands(ASÍ) sem má nálgast í heild sinni hér.

Fram kemur að hægt hafi á fjölgun starfa á þessu ári sem mældist 0,5% í ágúst samanborið við 1,8% vöxt í sama mánuði 2024. Þá hafi atvinnuleysi farið vaxandi undanfarin misseri. ASÍ tekur fram að gögn sem sýni nýjustu tölur um fjölda starfandi nái hins vegar ekki til gjaldþrots lággjaldaflugfélagsins Play og fleiri mælikvarðar bendi til sömu þróunar.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi á þessu ári verði 4,5% og spáð að það aukist í 4,9% á árinu 2026. Helstu áhrifaþættir eru taldir samdráttur á byggingarmarkaði og minni umsvif í ferðaþjónustu.

Spá breytt vegna Norðuráls

Norðurál á Grundartanga tilkynnti framleiðslustöðvun í lok október í kjölfar bilunar á rafbúnaði álversins sem myndi leiða til minni afkasta verksmiðjunnar um ófyrirséðan tíma.  ASÍ breytti spá sinni með hliðsjón af því fyrir útgáfu. Varlega áætlað mun útflutningur áls dragast saman um 20% frá síðasta ársfjórðungi 2025 til og með fyrsta ársfjórðungs 2026, samanborið við fyrri horfur í álútflutningi.

Þá hafa breyttar forsendur í álútflutningi ekki mikil áhrif á spáð atvinnuleysi þessa árs (4,5%), en horfur á næsta ári voru færðar upp um 0,2 prósentustig, úr 4,7% í 4,9%. Teygist framleiðslustöðvunin fram á þriðja ársfjórðung 2026 telur ASÍ að atvinnuleysið verði 5% á næsta ári.

Vinnumarkaðshorfur góðar í alþjóðasamanburði

Nýlega gaf ASÍ út skýrslu sem bar heitið: Íslenskur vinnumarkaður 2025, sem fjallar ítarlega um þróun atvinnuþátttöku, atvinnuleysis og þau kerfi sem mestu máli skipta fyrir afkomu og öryggi launafólks.

Niðurstöður sýna að íslenskur vinnumarkaður stendur sterkur í alþjóðlegum samanburði. Ber helst að nefna að atvinnuþátttaka hér landi er með því mesta sem þekkist innan OECD-ríkja, þ.e. lágt atvinnuleysi og langtímaatvinnuleysi með minnsta móti. Sérstaðan hér landi felst m.a. í mikilli atvinnuþátttöku meðal allra hópa, til að mynda kvenna, ungs fólks, eldra fólks og innflytjenda.

Viðræður við fjárfesta

Töluvert er um að aðilar sem hafa til skoðunar að hefja atvinnurekstur á Húsavík hafi verið í sambandi við stéttarfélögin á Húsavík. Félögin búa yfir mikilli þekkingu er varðar ýmislegt er tengist atvinnustarfsemi á svæðinu. Í gær var fundað með aðilum sem hafa til skoðunar að byggja upp landeldi á Bakka, þá eru aðilar sem tengjast orkumálum væntanlegir í heimsókn til stéttarfélaganna eftir helgina. Fleiri aðilar sem tengjast s.s. landeldi og gagnaverum hafa jafnframt verið í sambandi síðustu daga og vikur. Áhuginn er greinilega mikill hjá fjárfestum að koma að uppbyggingu á Húsavík enda gangi þeirra áætlanir eftir að það borgi sig að hefja atvinnurekstur hér norðan heiða. Leiðin er löng að því marki. Nú er bara að krossa fingur og vona að eitthvað af þessum hugmyndum verði að veruleika, ekki síst í ljósi þess að fullkomin óvissa er með áframhaldandi rekstur PCC á Bakka.

Desemberuppbót launafólks 2025

Þar sem jólamánuðurinn nálgast vill Framsýn vekja athygli á því að samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki sínu desemberuppbót í desemberbyrjun ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof. Um er að ræða fasta krónutölu sem tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Áunnar uppbætur skal gera upp samhliða starfslokum.

Almennur vinnumarkaður
Desemberuppbót er 110.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist eigi síðar en 15. desember. Þeir sem eru í starfi fyrstu vikuna í desember eða hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eiga rétt á uppbót. Fullt ársstarf miðast við 45 vikur eða 1.800 klst. á tímabilinu 1. janúar til 31. desember. Nálgast má reiknivél hér.

Ríki
Desemberuppbót (persónuuppbót) er 110.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. desember. Þeir sem eru við störf fyrstu viku nóvember eða hafa starfað í 13 vikur samfellt á árinu skulu fá greidda desemberuppbót. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Nálgast má reiknivél hér.

Sveitarfélög
Desemberuppbót (persónuuppbót) er 140.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. desember. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag. Nálgast má reiknivél hér.

Sjá nánar í kjarasamningum viðkomandi aðila.

Félagsmenn Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur eiga jafnframt rétt á sambærilegum desemberuppbótum og getið er um í kjarasamningum.

STH: https://www.kjolur.is/is/kjarasamningar/kjarasamningar-vid-samband-isl-sveitarfelaga/desemberuppbot

Hvað er fólkið að gera?

Því er fljótt svarað, húseigandi og leigjendur í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 stóðu fyrir eldvarnaræfingu í gær í samráði við Slökkvilið Norðurþings. Ákveðið að hafa rýmingaræfingu í Hrunabúð þar sem nokkur fyrirtæki eru með aðstöðu á efri hæðinni. Stéttarfélögin leggja mikið upp úr öryggi starfsmanna sem starfa í húsnæðinu hvað þessi mál varðar. Æfingin gekk í flesta staði mjög vel. Um er að ræða árlega æfingu. Á meðfylgjandi mynd má sjá þá starfsmenn sem voru við störf í Hrunabúð, þegar æfingin fór fram, saman komna á söfnunarstað. Komið hefur verið fyrir merkingum við húsnæðið þar sem ætlast er til að menn safnist saman komi til þess að það kvikni í húsinu.

Nýr sætisbekkur vígður á Raufarhöfn

Á aðalfundi Framsýnar í vor var ákveðið að minnast kvennaársins 2025 með gjöf á 5 sætisbekkjum sem komið verði fyrir í núverandi og þáverandi sjávarbyggðum á félagssvæðinu. Fyrsti bekkurinn var  vígður formlega á Húsavík á Kvennafrídaginn í haust. Bekknum hefur verið komið fyrir á Stangarbakkanum við verslunina Nettó.  Í gær var komið að því að koma fyrir bekkjum á Raufarhöfn og á Kópaskeri. Bekkirnir eru gefnir af virðingu við konur sem misst hafa ástvini sína í greipar Ægis.

Starfsmenn SSNE og Norðurþings, þau Nanna Steina Höskuldsdóttir og Einar Ingi Einarsson hjálpuðu starfsmönnum Framsýnar við að ganga frá bekknum á Raufarhöfn en þar verður hann við listaverkið Síldarstúlkuna við höfnina. Á Meðfylgjandi mynd má sjá Nönnu og Einar Inga á bekknum ásamt formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna. Nanna og Einar Ingi þökkuðu Framsýn kærlega fyrir gjöfina. Ekki tókst að ganga endanlega frá bekknum á Kópaskeri þar sem finna þarf honum stað svo hann njóti sín sem best. Heimamenn á Kópaskeri tóku að sér að finna viðeigandi stað fyrir bekkinn. Síðan á eftir að koma fyrir bekkjum í Flatey á Skjálfanda og í Túngulendingu á Tjörnesi. Það verður gert við fyrsta tækifæri.

Fjölmennur íbúafundur um framtíð fiskþurrkunar á Laugum

Þingeyjarsveit bauð í gær til upplýsingafundar um stöðu fiskþurrkunar ÚA á Laugum.

Athugasemdir höfðu áður borist til umhverfisnefndar sveitarfélagsins frá íbúum og eigendum fasteigna í nágrenni fiskþurrkunarinnar.

Var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar og bókað: „Nefndin leggur til við sveitarstjórn að haldinn verði íbúafundur hið fyrsta um málefni fiskþurrkunarverksmiðju Samherja á Laugum. Á þann fund verði boðaðir fulltrúar Samherja og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.“

Á fundinum gerði Leifur Þorkelsson, forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra grein fyrir þeim kröfum sem uppfylla þarf til að starfsleyfi fyrir starfsemina verði gefið út. Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja gerði grein fyrir þeim framkvæmdum sem nú standa yfir til að uppfylla þau skilyrði sem sett eru varðandi starfsemi fiskþurrkunar.

Fiskþurrkun hefur verið starfrækt á Laugum síðan á áttunda áratugnum og hefur veitt fjölda fólks atvinnu í gegnum tíðina en að jafnaði starfa þar um 20 manns. Fyrirtækið starfar eftir starfsleyfi sem Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra gefur út. Við endurnýjun leyfisins 2023 voru gerðar athugasemdir við lyktar- og hávaðamengun og veittur frestur til að lagfæra frávikin.

Á fundinum skiptust fundarmenn á skoðunum sem fór vel fram. Meðal fundarmanna var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar en starfsmenn ÚA á Laugum hafa óskað eftir aðkomu félagsins á málinu enda óttast þeir framtíð starfseminnar á Laugum.

Jólasveinn ársins 2025 – eftirsótt verðlaun

Agnieszka Szczodrowskavar valin „Jólasveinn ársins 2025“ á lokafundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á árinu. Fundurinn fór vel fram að venju og skemmtu fundarmenn sér afar vel undir heimatilbúnum skemmtiatriðum og góðum veitingum frá Gamla bauk.

Hefð er fyrir því að kjósa félagsmann ársins á lokafundi félagsins ár hvert. Trúnaðarmönnum á vinnustöðum, starfsmönnum stéttarfélaganna og stjórn Framsýnar-ung var einnig boðið að sitja fundinn sem fram fór í gærkvöldi. Fundarmönnum bauðst að kjósa þann félagsmann sem þykir hafa skarað fram úr í starfi Framsýnar á árinu. Titilinn „Jólasveinn ársins 2025“ hlaut Agnieszka Szczodrowskafyrir hennar mikla og óeigingjarna starf í þágu félagsins og félagsmanna. Sjö félagsmenn fengu tilnefningu til þessara eftirsóttu verðlauna. Agnieszka eða Aga eins og hún er jafnan kölluð hóf störf á Skrifstofu stéttarfélaganna í ársbyrjun 2023. Hennar hlutverk hefur verið að sinna almennum skrifstofustörfum með áherslu á þjónustu við erlenda félagsmenn. Jafnframt því hefur hún komið að vinnustaðaeftirliti og túlkun fyrir stéttarfélögin. Aga hefur verið liðtæk í starfi Framsýnar og tekið þátt í þingum og ráðstefnum á vegum verkalýðshreyfingarinnar sem og málstofum um málefni kvenna af erlendum uppruna. Hvað það varðar hefur hún tekið virkan þátt í kvennaráðstefnum sem haldnar hafa verið á Kvennaári 2025 bæði sem framsögumaður, túlkur og skipuleggjandi. Aga er verðugur fulltrúi erlendra einstaklinga sem hingað hafa komið til starfa.  Sem sagt hörkukona og góður félagsmaður í alla staði. Þegar valið fór fram gafst mönnum kostur á að gera grein fyrir atkvæði sínu.

Hér koma nokkur dæmi:

  • Hún er frábær starfsmaður og stendur sig sérstaklega vel í þjónustu við félaga í Framsýn.
  • Aga hún er mögnuð.
  • Hún er góð manneskja, góð fyrirmynd, góður starfsmaður og frábær sendiherra erlends verkafólks á Íslandi.
  • Gefandi, skemmtileg og frábær í alla staði. Tekur alltaf brosandi á móti viðskiptavinum Skrifstofu stéttarfélaganna.
  • Er eðal kona, dugnaðarforkur, alltaf boðin og búin þegar leitað er til hennar.
  • Aga er alltaf svo kát og hress og tekur svo vel á móti manni.
  • Ljúf og hjálpsöm.
  • Hún er afskaplega jákvæð, dugleg og skemmtileg. Frábær fyrir erlenda félagsmenn.

Aga fékk ekki Óskarinn að gjöf fyrir að vera virkasti félagsmaðurinn 2025 heldur fallegan jólasvein í verðlaun. Framsýn óskar Ögu til hamingju með titilinn.

STH selur Sólheima

Starfsmannafélagið hefur tekið ákvörðun um að selja íbúð félagsins í Sólheimum í Reykjavík og hefur salan þegar farið fram. Gengið var frá sölunni í síðustu viku. Til stendur að kaupa nýja íbúð og er leit hafin að nýrri íbúð á góðum stað á höfuðborgarsvæðinu. Vilji er til þess að kaupa í Þorrasölum þar sem Framsýn og Þingiðn eiga fyrir sex íbúðir.

Framsýn þakkað fyrir velvilja í garð HSN í Þingeyjarsýslum

Aðalfundur Styrktarfélags HSN í Þingeyjarsýslum var haldinn á dögunum. Þar var farið yfir rekstur félagsins árið 2024 auk þess sem stjórn félagsins afhenti HSN gjafabréf fyrir þeim tækjum sem félagið hefur fjármagnað fyrir stofnunina. Alls styrkti sjóðurinn HSN fyrir um 14,6 milljónir króna árið 2024 og það sem af er þessu ári hefur sjóðurinn fjármagnað tækjakaup fyrir tæplega 20 milljónir.

Tekjur félagsins árið 2024 voru alls 21,2 milljónir en þar vegur mest myndarlegur styrkur frá Framsýn stéttarfélagi upp á 15 milljónir króna. Kvenfélögin í Þingeyjarsýslum styrktu félagið um alls 2,9 milljónir króna en þau hafa verið öflugur bakhjarl Styrktarfélagsins og HSN undanfarin ár. Árgjöld félagsmanna skiluðu um einni milljón króna, sala minningarkorta 640 þúsund krónum og arfleiðslugjöf frá einstaklingum 410 þúsund krónum.

Á fundinum afhenti stjórn félagsins helstu styrktaraðilum sínum þakkarbréf fyrir veittan fjárstuðning og voru alls 19 félagasamtök og fyrirtæki sem veittu þeim viðtöku.

Það er því mikill stuðningur í nærsamfélaginu við uppbyggingu og viðhaldi á hinni öflugu heilbrigðisþjónustu sem tekist hefur að standa vörð um hér í héraði. Enda er hann algjör forsenda fyrir því að hægt er að uppfæra tækjabúnað og fá þannig sérfræðilækna til að sinna þjónustu hér á svæðinu. Það má heldur ekki gleyma því að öflug heilbrigðisþjónusta styður við jákvæða byggðaþróun á svæðinu hvað varðar uppbyggingu atvinnutækifæra og þar með fjölgun íbúa.

Fulltrúar frá Félagi eldri borgara á Húsavík afhenti HSN á Húsavík prjónaða bangsa sem hugsaðir eru sem verðlaun fyrir yngstu kynslóðina eftir heimsókn til læknis eða hjúkrunarfræðings.

Skráðir félagsmenn í Styrktarfélaginu eru um 350 talsins. Full ástæða er til að hvetja fólk að ganga í félagið en árgjaldið er aðeins 3000 krónur. Hægt er að finna skráningareyðublað á Facebooksíðu styrktarfélagsins. https://www.facebook.com/styrktarfelagHSN/?locale=is_IS (Fréttin er að mestu tekin af facebooksíðu Styrktarfélags HSN)

Húsavíkurgjafabréfin góð jólagjöf – verslum í heimabyggð

Eins og áður er afar mikilvægt að Þingeyingar versli í heimabyggð, ekki síst fyrir jólin, þegar jólaverslunin fer fram. Góð leið til að gleðja sína nánustu sem og aðra er að kaupa Húsavíkurgjafabréf í Sparisjóðnum sem er með bréfin til sölu. Um 50 verslunar- og þjónustuaðilar taka við bréfunum. Koma svo og verslum í heimabyggð, þannig styðjum við sterkara samfélag í Þingeyjarsýslum.

Boranir í gangi

Jarðborinn Sleipnir er um það bil að klára borun vinnsluholu í suðurhlíðum Kröflu og er hún númer 42. Um skáborun 30° er að ræða og er dýpið tæpir 2000 metrar. Hafist verður handa við að flytja Sleipni til Þeistareykja, en þar verður boruð hola sem ætluð er til niðurdælingar á vatni og gasi. Reiknað er með að verkið standi út árið. Það jákvæða við svona framkvæmdir er að ýmsir þjónustuaðilar koma að verkinu s.s. veitingastaðurinn Gamli-baukur sem kemur að því að fæða  starfsmenn meðan á verkinu stendur.

Meðfylgjandi eru myndir sem Stefán Stefánsson stjórnarmaður í Framsýn tók á verkstað við Kröflu.

Samningaviðræður standa yfir við nýja stofnun, Land og skóg

Um áramótin 2023/24 tók til starfa ný stofnun matvælaráðuneytisins, Land og skógur, sem fer með málefni landgræðslu og skógræktar á landsvísu. Ágúst Sigurðsson er forstöðumaður stofnunarinnar sem tekið hefur við hlutverkum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Hugmyndinni um sameiningu stofnanna tveggja hefur verið varpað nokkrum sinnum fram í gegnum tíðina en varð loks að veruleika í júní árið 2023 þegar frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar varð að lögum á Alþingi.

Í ljósi þessa hefur undanfarið verið unnið að því að samræma stofnanasamninga sem gilda fyrir almenna starfsmenn nýrrar stofnunnar og falla undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fh. ríkisjóðs. Innan Framsýnar hafa nokkrir félagsmenn starfað hjá Skógrækt ríkisins á Vöglum, nú Landi og skógi. Starfsgreinasamband Íslands fer fyrir kjaraviðræðunum við ríkið. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, á sæti í samninganefnd sambandsins. Að hans sögn reiknar hann með því að viðræður aðila endi með kjarasamningi á næstu vikum, það er fyrir jólin. Góður gangur sé í viðræðunum.

Samiðn ályktar um stöðuna á Bakka

Samiðn – landssamband iðnfélaga lýsir yfir áhyggjum af andvaraleysi stjórnvalda vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, en lokun verksmiðjunnar hefur víðtæk áhrif á atvinnulíf og búsetuskilyrði á Norðurlandi sem og þjóðarbúið allt. Þetta kemur fram í meðfylgjandi ályktun frá sambandinu. Þess má geta að Þingiðn er aðili að Samiðn fyrir sína félagsmenn sem jafnframt fagnar ályktun sambandsins.

Ályktun vegna PCC á Bakka

„Samiðn – landssamband iðnfélaga á Íslandi lýsir yfir áhyggjum af andvaraleysi stjórnvalda vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, en lokun verksmiðjunnar hefur víðtæk áhrif á atvinnulíf og búsetuskilyrði á Norðurlandi sem og þjóðarbúið allt.

Samiðn kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málinu með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu.

Rekstrarstöðvun verksmiðjunnar má rekja til ýmissa þátta, s.s. erfiðleika á mörkuðum fyrir kísilmálm og raskana á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs, en þó ekki síst til samkeppni við niðurgreiddan innflutning í skjóli fríverslunarsamnings Íslands við Kína.

Lokun PCC á Bakka er áfall fyrir atvinnulíf á Norðurlandi. Hátt í 200 störf tengjast starfsemi verksmiðjunnar auk afleiddra starfa sem telja hundruð til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikið til samfélagsins, en á árinu 2024 varði fyrirtækið 3,7 milljörðum króna í laun, gjöld, skatta og kaup á þjónustu á svæðinu.

Samiðn hvetur stjórnvöld til að taka málið alvarlega og bregðast strax við. Miklir hagsmunir eru í húfi og tryggja þarf starfsemi PCC á Bakka til framtíðar.“

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-10-31-hafa-ahyggjur-af-andvaraleysi-stjornvalda-vegna-lokunar-kisilversins-a-bakka-457786