Silfurstjarnan í Öxarfirði með opið hús

Í tilkynningu frá Samherja kemur fram að á undanförnum misserum hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar í Silfurstjörnunni, landeldisstöð Samherja fiskeldis að Núpsmýri í Öxarfirði. (Meðfylgjandi mynd Samherji)

Framkvæmdum er nú lokið og af því tilefni er áhugasömum boðið að kynna sér starfsemina næstkomandi föstudag 5. september. Húsið opnar klukkan 14:00.

Tæknilega vel búin

„Verklegar framkvæmdir við stækkun Silfurstjörnunnar hófust í byrjun 2022 og hefur stöðin nú verið stækkuð um nær helming. Silfurstjarnan gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífi svæðisins, enda um að ræða stærsta vinnustaðinn fyrir utan sjálft sveitarfélagið. Eftir þ‏essar breytingar telst Silfurstjarnan tæknilega mjög vel búin á allan hátt og ‏‏‏það verður ánægjulegt að kynna starfsemina á föstudaginn. Við vonumst því til að sjá sem flesta,“ segir Elvar Steinn Traustason rekstrarstjóri Silfurstjörnunnar.

Fræðsla og veitingar

Dagskráin hefst klukkan 14:30 með kynningu Jóns Kjartans Jónssonar framkvæmdastjóra Samherja fiskeldis. Húsið opnar klukkan 14:00.

Þar á eftir verður gengið um vinnslusvæðið og gestir fræddir um starfsemina.

Léttar veitingar verða á boðstólum og sælkeraréttir úr afurðum landvinnslunnar frá veitingahúsinu RUB23.

Allir eru hjartanlega velkomnir !

Formaður SGS spyr, á verkafólk að bera uppi breytingar á örorkukerfinu?

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er formaður Starfsgreinasambands Íslands er harðorður á Facebook er varðar boðaðar breytingar stjórnvalda á lífeyrissjóðakerfinu og skrifar;

Hvernig má það vera að stjórnvöld sem kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð láti þetta viðgangast? Að láta verkafólk í erfiðisvinnu greiða fyrir lagfæringuna á örorkukerfinu? Mikið er það lítilmannlegt.

Stjórnvöld hafa ákveðið að fella niður 10 milljarða framlag sem fimm verkamannalífeyrissjóðir eiga rétt á til jöfnunar á örorkubyrði. Það þýðir ekkert annað en að það verði ellilífeyrisþegar og réttindaávinnsla verkafólks í verkamannalífeyrissjóðum sem bera kostnaðinn við þetta nýja örorkukerfi!

Það er vissulega gott að félagsmálaráðherra hafi náð að láta sólina skína á öryrkja. En hún gerir það með því að skella sólmyrkva yfir ellilífeyrisþega og réttindaávinnslu verkafólks.

Munum það: stór hluti þessarar lagfæringar er fjármagnaður í formi lakari réttinda fyrir ellilífeyrisþega og verkafólk í verkamannalífeyrissjóðum.

Samkvæmt nýjustu tölum greiddi Tryggingastofnun 1,2 milljörðum meira í þessum mánuði en í þeim síðasta. Það jafngildir rúmum 14 milljörðum á ári í aukinn kostnað við nýja örorkukerfið. En af þessum 14 milljörðum hyggjast stjórnvöld láta 10 milljarða koma frá verkafólki og ellilífeyrisþegum í verkamannalífeyrissjóðum, með því að fella niður jöfnunarframlagið. Með öðrum orðum: stærsti hluti lagfæringanna fyrir öryrkja er fjármagnaður með skerðingu á réttindum þeirra sem þegar hafa lakari lífeyri.

Nú þegar eru lífeyrisréttindi í verkamannasjóðunum 15–20% lakari en í sjóðum með litla örorkubyrði. Nú þegar dugar jöfnunarframlag ríkisins, sem nemur 4,6 milljörðum, ekki til. Þegar 10 milljarðarnir hverfa alfarið um næstu áramót verða því enn frekari skerðingar óhjákvæmilegar.

Þessi óréttláta staða bitnar mest á verkafólki sem vinnur erfiðisvinnu – hópi þar sem örorka er margfalt algengari en í öðrum starfshópum. Þeir sem hafa minna í launum, skemmri starfsaldur og lakari lífeyrisréttindi þurfa að bera stærstan hluta kostnaðarins. Það er ekki samtrygging, það er ekki jöfnuður – það er kerfisbundið óréttlæti.

Nú ætla stjórnvöld að frýja sig með því að hefja vinnu við „framtíðarskipulag örorkukerfisins“ innan lífeyrissjóðanna. Verkefni sem getur tekið mörg ár, jafnvel áratugi – og enginn veit hvernig það endar. Því er útilokað að fara í slíka vinnu nema tryggja áframhaldandi framlag til jöfnunar á örorkubyrði.

Er þetta „besta lífeyriskerfi í heimi“? Er þetta „samtrygging“ Nei. Þetta er hvorki réttlæti né jöfnuður – heldur til skammar og rannsóknarefni hvernig stjórnvöld hafa látið þetta óréttlæti viðgangast árum og áratugum saman.

Frekari uppsagnir á Bakka

Fyrr í sumar var um 80 starfsmönnum sagt upp hjá PCC á Bakka. Fyrirtækið hefur nú ákveðið í ljósi aðstæðna að segja upp 30 starfsmönnum til viðbótar. Eftir standa um 15 til 20 starfsmenn. Framsýn hefur kallað eftir því að sveitarstjórn Norðurþings kalli þingmenn kjördæmisins til fundar til að ræða stöðuna og framhaldið. Eftir því sem best er vitað verður fundurinn haldinn á allra næstu dögum. Af þeim 150 starfsmönnum sem starfað hafa hjá PCC eru um 130 starfsmenn í Framsýn og Þingiðn. Meðallaunin eru um milljón á mánuði. Ljóst er að staðan er grafalvarleg. Stjórnendur PCC hafa gert í því að upplýsa forsvarsmenn stéttarfélaganna á hverjum tíma um stöðuna, reyndar lagt mikið upp úr því að eiga gott samstarf við félögin sem er vel. Fréttastofa Sýnar fjallaði um málið í hádeginu í dag og talaði m.a. við formann Framsýnar. https://www.visir.is/g/20252770107d/-eg-treysti-thvi-ad-stjorn-vold-vakni-og-hjalpi-okkur-

Kom færandi hendi með tertu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundaði síðasta miðvikudag. Mörg áhugaverð mál voru tekin fyrir á fundinum og afgreidd. Þann sama dag átti Guðný I. Grímsdóttir afmæli en hún hefur komið að stjórnarstörfum fyrir Framsýn til fjölda ára auk þess að sækja þing og ráðstefnur á vegum verkalýðshreyfingarinnar í gegnum tíðina í umboði félagsins. Guðný hefur staðið sig framúrskarandi vel í alla staði. Að sjálfsögðu kom hún með afmælistertu með sér á fundinn sem smakkaðist einstaklega vel. Fundarmenn sungu afmælissöng fyrir afmælisbarnið auk þess að þakka vel fyrir veitingarnar.  

SGS óskar eftir verkefnastjóra

Erum við að leita að þér? Starfsgreinasamband Íslands leitar að skipulögðum, drífandi og jákvæðum verkefnastjóra í 100% framtíðarstarf á skrifstofu sambandsins. Um er að ræða lifandi og fjölbreytt starf þar sem margþætt menntun og reynsla nýtist vel.

Fríðindi í starfi:

  • Fjölbreytt og krefjandi verkefni
  • Tækifæri til að móta og þróa starfið
  • Hádegismatur
  • Líkamsræktarstyrkur

Helstu viðfangsefni verkefnastjóra:

  • Sinnir ráðgjöf og þjónustu við aðildarfélög SGS á sviði kjara-, vinnumarkaðs- og starfsfræðslumála.
  • Leiðbeinir starfsfólki og félagsmönnum aðildarfélaga SGS varðandi túlkun á kjarasamningum.
  • Hefur umsjón með útgáfu- og kynningarmálum SGS.
  • Þátttaka í skipulagningu og undirbúningi viðburða.
  • Þátttaka í innra starfi SGS, seta í nefndum og vinnuhópum fyrir hönd SGS, seta á formanna- og framkvæmdastjórnarfundum.
  • Almenn skrifstofustörf, skýrslugerð, fundarritun.
  • Önnur tilfallandi verkefni í samráði við framkvæmdastjóra.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Hagnýt menntun sem nýtist í starfi
  • Framúrskarandi samskiptahæfni og lipurð í mannlegum samskiptum
  • Skipulagshæfni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Hæfni til að miðla upplýsingum í töluðu og rituðu máli
  • Lausnamiðað viðhorf til verkefna
  • Reynsla og áhugi á kjaramálum og málefnum stéttarfélaga
  • Góð tölvufærni skilyrði
  • Góð íslenskukunnátta skilyrði
  • Góð enskukunnátta skilyrði

Umsókninni þarf að fylgja ýtarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Umsóknarfrestur er til 1. september nk. og hægt er að leggja inn umsókn hér.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Nánari upplýsingar veitir Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri SGS, á netfanginu bjorg@sgs.is eða í síma 899 2331.

Framsýn kallar eftir aðgerðum – stríð verður aldrei liðið

Nýlega var stofnaður íslenskur samráðsvettvangur verkalýðs- og almannaheillafélaga gegn þjóðarmorði og hernámi Ísraels í Palestínu og því afskiptaleysi sem einkennt hefur viðbrögð alþjóðasamfélagsins við glæpum Ísraels. Stærstu aðildarfélög ASÍ hafa þegar tilkynnt um þátttöku sína, auk annarra heildarsamtaka launafólks.  Hópurinn sem kallar sig Samstaða fyrir Palestínu stendur fyrir kröfufundum víða um land laugardaginn 6. september undir heitinu Þjóð gegn þjóðarmorði.  Fundirnir verða haldnir á Akureyri, Ísafirði, Stykkishólmi og í Reykjavík og hefjast kl. 14:00. Fundurinn á Akureyri verður haldinn á Ráðhústorginu. Við hvetjum fólk að mæta þangað og láta rödd sína heyrast.

Á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gær var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða um leið og skorað er á sem flesta að taka þátt í kröfufundum dagsins:

„Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir með hópnum sem kallar sig „Samstaða fyrir Palestínu“ um kröfu til stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins um tafarlausar aðgerðir til að stöðva þjóðarmorðið í Palestínu. Þá hvetur Framsýn landsmenn til að taka þátt í kröfufundum sem haldnir verða víða um land laugardaginn 6. september undir heitinu Þjóð gegn þjóðarmorði.“

Til viðbótar má geta þess að í nær tvö ár höfum við horft upp á ólýsanlegar þjáningar palestínsku þjóðarinnar vegna grimmdarverka Ísraela í Palestínu. Heimsbyggðin fylgist með þeim hryllingi hungursneyðar sem Ísraelar hafa framkallað á Gaza með því að loka fyrir alla neyðaraðstoð, á meðan stjórnvöld í Ísrael fyrirskipa herafla landsins að myrða af svívirðilegu miskunnarleysi saklaust fólk er það leitar hjálpar.  Þá bíður hungurdauði nú tveggja milljóna manna, þar af fjölda barna, vegna þeirrar yfirlýstu stefnu ofstækismanna að leggja undir sig allt land Palestínumanna. Alþjóðadómstóllinn hefur lagt framgöngu Ísraela að jöfnu við þjóðarmorð og úrskurðað hersetu Ísraela á palestínsku landi ólöglega. 

Alþjóðasamfélagið hefur algjörlega brugðist í að stöðva þessar hörmungar og látið léttvægar yfirlýsingar og hvatningar til stjórnvalda Ísraels um að gæta meiri hófsemdar í glæpaverkum sínum nægja. Eftir nær tvö ár af hryllingi leikur enginn vafi á að orð munu ekki duga til.  Kallað er eftir aðgerðum strax til að stoppa þjóðarmorð á Palestínumönnum.

Nánar má lesa um fundina inn á slóðinni https://www.facebook.com/thjodgegnthjodarmordi

Staða PCC í umræðu

Framsýn boðaði fulltrúa PCC og Norðurþings til fundar eftir hádegi í dag. Tilgangur fundarins var að fara yfir stöðuna hvað varðar rekstur og framtíðarhorfur í rekstri PCC. Ekkert nýtt kom fram á fundinum, áfram verður unnið að því að finna leiðir svo hægt verði að enduræsa opna verksmiðunnar sem fyrst. Um 40 starfsmenn eru við störf í verksmiðjunni um þessar mundir. Þá eru tollamálin óljós hvað varðar útflutning á kísilmálmi til Evrópu og annarra viðskiptalanda. Framsýn hefur í samtölum við stjórnendur fyrirtækisins og stjórnvöld lagt mikla áherslu á að aðilar málsins sem og Landsvirkjun/Landsnet sameinist um að finna leið út úr vandanum enda PCC afar mikilvægt fyrirtæki fyrir samfélagið hér norðan heiða auk þess að skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Til viðbótar má geta þess að Framsýn hefur kallað eftir því að þingmenn kjördæmisins verði kallaðir til fundar við stéttarfélögin og Norðurþing til að ræða stöðuna sem vissulega er alvarleg enda engin framleiðsla í gangi hjá fyrirtækinu um þessar mundir.

Vilja byggja meira íbúðarhúsnæði

Framsýn stóð fyrir fundi í gær með forsvarsmönnum Norðurþings og Bjargs íbúðafélags um frekari uppbyggingu á íbúðum á vegum Bjargs í sveitarfélaginu enda stendur vilji félagsins til þess að Bjarg haldi áfram uppbyggingu  á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu Norðurþingi. Fyrr á þessu ári kom Bjarg að því að byggja sex íbúða raðhús á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Framkvæmdin gekk afar vel í alla staði.

Eins og fram hefur komið eru íbúðir Bjargs íbúðafélags fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og sem hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB í a.m.k. 16 mánuði, sl. 24 mánuði miðað við úthlutun.

Fundurinn var vinsamlegur. Áhugi er fyrir því að halda samstarfinu áfram og meta þörfina fyrir frekari uppbyggingu á hagstæðu íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Þá er verið að skipuleggja lóðir fyrir hús sem þessi í sveitarfélaginu.

Í umræðunni um frekari uppbyggingu er horft til þess að haldið verði áfram með byggingu raðhúsa líkt og í Lyngholti 42-52 á Húsavík.  Það er íbúðir í raðhúsi á einni hæð. Um er að ræða 95m2 sérbýli með litlum garði og allar íbúðir með tveimur bílastæðum. Allar íbúðirnar eru 4ra herbergja (3 svefnherbergi). Fyrsta skóflustunga var tekin í október 2024. Íbúðirnar skiptast í anddyri, þrjú svefnherbergi, baðherbergi og alrými með eldhúsi. Geymslurými innan íbúðar og fataskápur er í hjónaherbergi. Íbúðirnar voru tilbúnar til afhendingar í apríl 2025. 

Eins og fram kemur í fréttinni er eitt af því sem þarf að skoða hvað varðar áframhaldandi uppbyggingu á íbúðarhúsnæði að meta þörfina fyrir slíkt húsnæði í Norðurþingi og reyndar í Þingeyjarsveit líka. Framsýn efast ekki um að þörfin sé til staðar.

Til þess að eiga möguleika á því að komast inn í íbúðir hjá Bjargi þurfa menn að skrá sig á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi. Fyrstur kemur, fyrstur fær enda standist viðkomandi skilmála Bjargs. Samhliða því að skrá sig á biðlistann þurfa menn að greiða ákveðið gjald nú, kr. 1500,- á ári vilji menn vera á biðlistanum. Skorað er á áhugasama að skrá sig sem fyrst á listann, þannig er hægt verði að átta sig betur á þörfinni á hentugu húsnæði fyrir tekjulága í Þingeyjarsýslum.

Hér er slóðin inn á heimasíðu Bjargs íbúðafélags https://www.bjargibudafelag.is/

Bærinn fullur af ungu íþróttafólki

Foreldraráð Völsungs stóð fyrir fjölmennu knattspyrnumóti um helgina fyrir unga keppendur. Um 800 þátttakendur tóku þátt í mótinu auk þess sem reikna má með að með foreldum hafi komið um 3000 gestir til Húsavíkur vegna viðburðarins sem fór afar vel fram og öllum þeim sem komu að mótinu til mikils sóma. Lið frá íþróttafélögum á Norður- og Austurlandi voru áberandi á mótinu. Framsýn og Þingiðn komu að því að styrkja mótið. Eins og myndirnar bera með sér var mikil stemning á Húsavík um helgina.

Góður fundur um húsnæðismál í Þingeyjarsveit

Framsýn stóð í morgun fyrir fundi með forsvarsmönnum Þingeyjarsveitar og Bjargs íbúðafélags um hugsanlega uppbyggingu á íbúðum á vegum Bjargs í sveitarfélaginu. Íbúðir Bjargs íbúðafélags eru fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og sem hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB í a.m.k. 16 mánuði, sl. 24 mánuði miðað við úthlutun. Fundurinn var virkilega áhugaverður og fullur vilji er til þess meðal aðila að taka málið til frekari skoðunar, það er hvort grundvöllur sé fyrir því að reisa íbúðir í sveitarfélaginu á vegum Bjargs í samráði við sveitarfélagið. Hér er slóðin inn á heimasíðu Bjargs íbúðafélags https://www.bjargibudafelag.is/

Dagskrá stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar

Eins og fram kemur í annarri frétt á heimasíðunni kemur stjórn og trúnaðarráð Framsýnar saman til fundar í næstu viku til að ræða fyrirliggjandi málefni. Stjórn Framsýnar-ung tekur einnig þátt í fundinum. Dagskrá fundarins er nokkuð löng, því má búast við löngum og ströngum fundi komandi miðvikudag.

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Þing SGS 8. – 10. október/kjör fulltrúa

4. Þing ASÍ-UNG 17. október/kjör fulltrúa

5. Fulltrúaráðsfundur AN 24. september/kjör fulltrúa

6. Málefni PCC

7 Atvinnumál á félagssvæðinu

8. Uppbygging á vegum Bjargs íbúðafélags

9. Málefni starfsmanna Náttúruverndarstofnunnar

     a) Starfsumhverfi starfsmanna við Dettifoss

     b) Stofnanasamningur

10. Svört atvinnustarfsemi

11. Sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal

12. Málefni Fiskþurrkunar ÚA á Laugum

13. Framkvæmdir við húsnæði stéttarfélaganna

14. Heimsókn þingmanna til félagsins

15. Dómsmál – VHE

16. Verkefnið í „Góðu lagi“

17. Fundur með forstjóra Icelandair

18. Fundur með starfshópi forsætisráðherra um málefni PCC

19. Málefni Fiskifélagi Íslands

20. Rótarskot-Kynning á starfsemi Framsýnar

21. Bekkir-áletrun

22. Stríðsátök í Palestínu

23. Afmælisfagnaður fræðslusjóðanna SA-SGS

24. Önnur mál

Atvinnumál og komandi þing m.a. til umræðu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar auk stjórnar Framsýnar-ung kemur saman til fundar miðvikudaginn 27. ágúst kl. 17:00.  Að venju eru mörg mál á dagskrá fundarins. Til dæmis má nefna að byggða- og atvinnumál verða til umræðu enda starfsemi PCC í miklu uppnámi. Félagið hefur verið að þrýsta á Bjarg íbúðafélag að reisa íbúðarhúsnæði fyrir tekjulága í sveitarfélögunum Norðurþingi og Þingeyjarsveit. Þá eru þing og ráðstefnur framundan, ganga þarf frá kjöri á fulltrúum á fundina. Um 30 félagsmenn sitja í stjórn og trúnaðarráði Framsýnar. Búast má við líflegum umræðum um málefni fundarins.

Þú tapar réttindum með því að vinna svart

Dæmi eru um að atvinnurekendur hafi snúið sér til Skrifstofu stéttarfélaganna í sumar vegna óánægju með samkeppnisaðila í ferðaþjónustu sem bjóða starfsmönnum að vinna svart komi þeir til starfa hjá þeim. Sérstaklega á þetta við um smærri aðila í ferðaþjónustu sem bjóða upp á gistiþjónustu og eru í samkeppni við þá atvinnurekendur sem virða kjarasamninga og lög. Eðlilega eru þeir afar óánægðir með þennan veruleika enda ekki auðvelt að keppa við svarta atvinnustarfsemi en fyrirtækin hafa verið að missa frá sér starfsmenn sem hafa látið glepjast og ráðið sig til fyrirtækja sem virða ekki almennar leikreglur á vinnumarkaði. Starfsmenn sem gera sér greinilega ekki grein fyrir því, að vinni þeir svart, eru þeir ótryggðir við sín störf. Vissulega á ekki að þurfa að taka fram að það er ólöglegt með öllu að fyrirtæki bjóði starfsmönnum að vinna svart, þeim standi ekki annað til boða.

Skrifstofa stéttarfélaganna hefur hvatt þá fyrirtækjaeigendur í ferðaþjónustu, sem leitað hafa til félaganna, að setja sig í samband við Skattinn og koma ábendingum sínum um svarta atvinnustarfsemi á framfæri við stofnunina enda um lögbrot að ræða sem skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja. Það er það eina sem dugar gagnvart svona óheiðarlegri starfsemi enda Skattinum ætlað að fylgjast með því að einstaklingar sem fyrirtæki greiði skatta til samfélagsins samkvæmt fyrirliggjandi lögum og reglum.

Þá er rétt að taka fram að félagsmenn stéttarfélaganna sem verða uppvísir að því að vinna svart missa réttindi til styrkja hjá félögunum s.s. námsstyrkja og styrkja úr sjúkrasjóðum félaganna. Það á einnig við um almenna þjónustu á vegum félaganna, lögfræðiþjónustu og aðgengi að orlofsíbúðum.

Framsýn kallar eftir fundi með Bjargi íbúðafélagi

Framsýn hefur óskað eftir fundi með forsvarsmönnum Norðurþings, Þingeyjarsveitar og Bjargs um frekari uppbyggingu á öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur á félagssvæðinu sem nær frá Raufarhöfn að Vaðlaheiði. Eins og kunnugt er byggði Bjarg sex íbúða raðhús í samstarfi við Norðurþing fyrr á þessu ári. Slegist var um íbúðirnar þar sem yfir 40 umsóknir bárust um íbúðirnar sex.

Framsýn vill sjá frekari uppbyggingu í Norðurþingi auk þess sem Bjarg komi að því að byggja sambærilegt húsnæði í Þingeyjarsveit. Forsvarsmenn beggja sveitarfélaganna hafa lýst yfir miklum áhuga á samstarfi við Bjarg um uppbyggingu á íbúðarhúsnæði í sveitarfélögunum.

Eins og kunnugt er, þá er Bjarg íbúðafélag sjálfseignarstofnun og rekin án hagnaðarmarkmiða. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norænni fyrirmynd. Fyrstu íbúðir voru afhentar leigutökum á höfuðborgarsvæðinu í júní 2019.

Þess er vænst að fundur aðila um málið verði haldinn á næstu dögum eða vikum, það er í síðasta lagi fyrir næstu mánaðamót. Beiðni um fund var ítrekuð síðast í morgun.

Sumarferð stéttarfélaganna á Flateyjardal

Stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur stóðu fyrir sumarferð á Flateyjardal  laugardaginn 9. ágúst fyrir félagsmenn og gesti þeirra. Ferðin var fullsetin og tókst hún í alla staði mjög vel, þótt veðurútlit hafi verið nokkuð tvísýnt fyrir daginn. Hópurinn lagði upp frá Húsavík í þokusúld og norðan nepju snemma morguns og var í öruggum höndum Andra Rúnarssonar bílstjóra hjá Fjallasýn, sem sá til þess að vel færi um farþega. 

Dumbungurinn í morgunsárið kom ekki að sök, það var sól í hverju hjarta sem auðvitað hafði áhrif enda birti upp þegar leið á morguninn. Í Fnjóskadalnum bættist fararstjórinn, Ósk Helgadóttir í hópinn og leiddi hún gestina um eyðibyggðina nyrst í Fnjóskadal, Flateyjardalsheiði og Flateyjardal og fræddi þá um sitthvað er tengist sögunni og búsetu þar ytra. Á Brettingsstöðum hittum við fyrir Bjart Aðalbjörnsson, ungan Vopnfirðing af kyni Brettinga, sem staddur var heima á ættaróðalinu. Bjartur rölti með okkur yfir í kirkjugarðinn og fór yfir sögu Brettingsstaðakirkju, tengsl byggðarlagana við ysta sæ og flutning kirkjunnar milli lands og eyjar.  Eins og ævinlega í sumarferðum stéttarfélaganna er boðið upp á grill og léttar veitingar og nýtti hópurinn sér frábæra aðstöðu í skála Ferðafélags Húsavíkur að Hofi.  Það voru  Aðalsteinn Árni, Jónas Kristjánsson og Margrét Bjartmars sem stjórnuðu aðgerðum við grillið og sáu til þess að enginn færi svangur heim. Undu menn sér lengi á dalnum fagra við söng og gleði í blíðviðrinu.

Ferðin var afar vel heppnuð og full ástæða er til að þakka Fjallasýn og gestum stéttarfélaganna fyrir ánægjulega ferð sem í alla staði var til mikillar fyrirmyndar. Þá skemmdi ekki fyrir að nokkrir í ferðinni höfðu sterk tengsl til dalsins fagra við Skjálfanda enda komin af fólki sem þar bjó um tíma. Meðfylgjandi eru myndir úr ferðinni.

Skrifstofuhúsnæði stéttarfélaganna málað

Um þessar mundir er unnið að því að mála skrifstofuhúsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík enda mikilvægt að fyrirtæki, félagasamtök og opinberir aðilar viðhaldi sínum eignum með sómasamlegum hætti svo bæjarprýði sé af. Þá var nýlega skipt um útihurðir til að bæta aðgengi viðskiptavinna að skrifstofunni. Í haust verður svo ráðist í að laga glugga á efri hæðinni sem snúa í norður enda orðnir verulega lélegir. Eftir þessar lagfæringar verður skrifstofuhúsnæðið vonandi eins og nýtt og öllum til mikils sóma.

Hús rís við höfnina

Um þessar mundir er verið að reisa myndarlegt iðnaðarhúsnæði á uppfyllingu við höfnina á Húsavík sem er virkilega ánægjulegt. Væntanlega verður svo hafist handa við frekari hafnarframkvæmdir við höfnina á Húsavík á næstu mánuðum/árum. Um þessar mundir stendur yfir útboð vegna Þvergarðsins sem sumir kalla Suðurgarð. Garðurinn kemur til með að lengjast um 50-70 metra til suðurs sem skapar aukin tækifæri í komum skipa til Húsavíkur, ekki síst skemmtiferðaskipa. Lenging garðsins kemur auk þess til með að bæta hafnaraðstæður enn frekar hvað aðra atvinnustarfsemi varðar er tengist góðum hafnaraðstæðum.

Auglýsing – Laus staða matráðs í Stórutjarnaskóla

Matráður í 80-100% stöðu

Helstu viðfangsefni og ábyrgð
– hefur yfirumsjón með starfsemi í eldhúsi og annast almenn eldhússtörf
– annast matseld í samræmi við ráðleggingar landlæknis um mataræði barna í leik- og grunnskólum
– er í samstarfi við matráð Þingeyjarskóla varðandi innkaup matvæla og frágang og geymslu á þeim
– annast tilfallandi önnur störf s.s. í tengslum við fundi, aðrar samkomur og uppbrotsdaga

Hæfnikröfur
– matartækninám
– þarf að hafa góða samskiptahæfni og kappkosta að sýna nemendum og samstarfsfólki virðingu í hvívetna
– þekking/reynsla af daglegum rekstri mötuneytis
– þekking/reynsla af næringarfræði, sérfæði, gæðum og fjölbreytileika matar er nauðsynleg

Stórutjarnaskóli stendur í Ljósavatnsskarði og er samrekinn leik- grunn- og tónlistarskóli með um 45 nemendur frá eins árs til 16 ára aldurs. Öll starfsemi skólans er í sama húsnæði. Skólinn er Grænfánaskóli og Heilsueflandiskóli og er að innleiða teymiskennslu. Lögð er áhersla á að búa nemendum og starfsfólki fjölbreytt leik- náms- og starfsumhverfi sem eflir alhliða heilsu og þroska. Mikið samstarf er milli námshópa innan skólans og er skólinn í góðu samstarfi við nágrannaskóla sína og samfélagið í sveitinni.

Staðan er laus frá og með 15. ágúst 2025.  Umsóknarfrestur er til 11. ágúst 2025.
Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband í síma 4643220/8483547 eða í gegnum netfangið birnada@storutjarnaskoli.is

Umsóknir skulu sendar á netfangið birnada@storutjarnaskoli.is
Umsókninni þarf að fylgja ferilskrá og afrit af leyfisbréfi.

Konur þjóðveganna

Í gegnum tíðina hefur Eimskip rekið mjög öfluga aksturdeild á Húsavík og hafa margir magnaðir bílstjórar starfað hjá fyrirtækinu, nægir þar að nefna höfðingjana Gulla Sveinbjörns og Bjarna Sveins sem hætti fyrir nokkrum árum eftir áratuga akstur flutningabíla milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Eins og kunnugt er, þá er bílstjórastarfið bæði gefandi og krefjandi starf. Lengst af hefur verið um að ræða karlæg störf, en sem betur fer, hefur það verið að breytast á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna, þá hafa væntanlega aldrei verið fleiri konur við störf hjá akstursdeild Eimskips á Húsavík en um þessar mundir. Í dag starfa þrjár konur hjá fyrirtækinu við akstur á stórum og öflugum flutningabílum. Þetta eru þær, Alice, Susanna og Aðalbjörg talið frá vinstri á meðfylgjandi mynd. Til viðbótar má geta þess að Susanna er fyrsta konan sem ráðin er sem bílstjóri á flutningabíla hjá Eimskip á Húsavík. Þekkt er að flutningabílstjórar eru duglegir við að skreyta bílstjóraklefann í sínum anda og þá má oftar en ekki sjá nafn viðkomandi bílstjóra við framrúðuna þegar þeir keyra um þjóðvegi landsins. Ekki er ólíklegt að með tilkomu fleiri kvenna í stéttinni eigi skreytingarnar í bílstjóraklefanum eftir að taka kvenlegum breytingum í anda þess sem situr undir stýri á hverjum tíma.

Endalaust líf við höfnina

Hvalaskoðunarferðir frá Húsavík hafa almennt gengið vel í sumar enda mikið verið um ferðamenn á svæðinu sem sóst hafa eftir því að komast í skoðunarferðir. Meðfylgjandi myndir voru teknar um helgina þegar farþegar voru að ganga um borð í hvalaskoðunarbátinn Vin sem er nýjasti báturinn í flotanum sem siglir með farþega um Skjálfandann en mikið hefur verið um hval og lunda í flóanum í sumar.