Um áramótin 2023/24 tók til starfa ný stofnun matvælaráðuneytisins, Land og skógur, sem fer með málefni landgræðslu og skógræktar á landsvísu. Ágúst Sigurðsson er forstöðumaður stofnunarinnar sem tekið hefur við hlutverkum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Hugmyndinni um sameiningu stofnanna tveggja hefur verið varpað nokkrum sinnum fram í gegnum tíðina en varð loks að veruleika í júní árið 2023 þegar frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar varð að lögum á Alþingi.
Í ljósi þessa hefur undanfarið verið unnið að því að samræma stofnanasamninga sem gilda fyrir almenna starfsmenn nýrrar stofnunnar og falla undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fh. ríkisjóðs. Innan Framsýnar hafa nokkrir félagsmenn starfað hjá Skógrækt ríkisins á Vöglum, nú Landi og skógi. Starfsgreinasamband Íslands fer fyrir kjaraviðræðunum við ríkið. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, á sæti í samninganefnd sambandsins. Að hans sögn reiknar hann með því að viðræður aðila endi með kjarasamningi á næstu vikum, það er fyrir jólin. Góður gangur sé í viðræðunum.
Samiðn – landssamband iðnfélaga lýsir yfir áhyggjum af andvaraleysi stjórnvalda vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, en lokun verksmiðjunnar hefur víðtæk áhrif á atvinnulíf og búsetuskilyrði á Norðurlandi sem og þjóðarbúið allt. Þetta kemur fram í meðfylgjandi ályktun frá sambandinu. Þess má geta að Þingiðn er aðili að Samiðn fyrir sína félagsmenn sem jafnframt fagnar ályktun sambandsins.
Ályktun vegna PCC á Bakka
„Samiðn – landssamband iðnfélaga á Íslandi lýsir yfir áhyggjum af andvaraleysi stjórnvalda vegna lokunar kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, en lokun verksmiðjunnar hefur víðtæk áhrif á atvinnulíf og búsetuskilyrði á Norðurlandi sem og þjóðarbúið allt.
Samiðn kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málinu með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu.
Rekstrarstöðvun verksmiðjunnar má rekja til ýmissa þátta, s.s. erfiðleika á mörkuðum fyrir kísilmálm og raskana á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs, en þó ekki síst til samkeppni við niðurgreiddan innflutning í skjóli fríverslunarsamnings Íslands við Kína.
Lokun PCC á Bakka er áfall fyrir atvinnulíf á Norðurlandi. Hátt í 200 störf tengjast starfsemi verksmiðjunnar auk afleiddra starfa sem telja hundruð til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikið til samfélagsins, en á árinu 2024 varði fyrirtækið 3,7 milljörðum króna í laun, gjöld, skatta og kaup á þjónustu á svæðinu.
Samiðn hvetur stjórnvöld til að taka málið alvarlega og bregðast strax við. Miklir hagsmunir eru í húfi og tryggja þarf starfsemi PCC á Bakka til framtíðar.“
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar auk stjórnar Framsýnar-ung komu saman til fundar kl. 17:00 og var fundinum að ljúka rétt í þessu. Eðlilega urðu miklar umræður um atvinnumál, ekki síst stöðuna á Bakka en fjöldi starfsmanna hefur misst vinnuna auk starfsmanna hjá undirverktökum. Eðlilega höfðu fundarmenn almennt miklar áhyggjur af stöðu starfsmanna sem eiga í hlut hjá PCC og undirverktökum sem og atvinnuástandinu almennt enda atvinnuleysið aukist hratt síðustu mánuði í sveitarfélaginu Norðurþingi eða um allt að 30%.
Starfsmenn sem eiga í hlut hafa komið kvörtunum sínum á framfæri þar sem þeim finnst ekki vera tekið á þeirra málum af alvöru auk þess sem ekkert sé talað um vinnumarkaðsúrræði eða vanda fólks. Í umræðunni sé aðeins talað um tekjutap samfélagsins og þar með sveitarfélagsins hvað varðar lokunina á Bakka, minna sé talað um stöðu starfsmanna og jafnvel talað um að erlendir starfsmenn geti „bara“ farið aftur heim, það sé þögn í samfélaginu sem sé mikið áhyggjuefni.
Forsvarsmenn Framsýnar, sem hafa unnið mjög náið með starfsmönnum PCC, taka heilshugar undir áhyggjur þeirra og hafa komið þeim á framfæri við þingmenn, ráðherra og sveitarstjórnarfólk auk þess að krefjast þess að Vinnumálastofnun verði með fasta viðverutíma á Skrifstofu stéttarfélaganna í vetur. Það mál er í frekari skoðun. Þá sé athyglisvert að ekki sé fjallað sértaklega um vanda starfsmanna PCC og hvað taki við eftir uppsögnina í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um atvinnumál á Húsavík er tengist lokunninni á Bakka. Það hafi væntanlega hreinlega gleymst sem sé óásættanlegt með öllu. Þeim athugasemdum hefur þegar verið komið á framfæri við formann starfshópsins sem fór fyrir skýrslu forsætisráðherra. Á fundinum, sem eins og áður hefur komið fram var að ljúka, kom fram gagnrýni á innihald skýrslunnar.
Eins og sjá má hefur atvinnuleysið farið mjög vaxandi í sveitarfélaginu Norðurþingi síðustu mánuðina. Því miður eru allar líkur á því að það muni hækka frekar á næstu vikum og mánuðum enda klárast sláturtíðin á Húsavík á næstu dögum og frekari uppsagnair á Bakka fara að telja um næstu mánaðamót og mánaðamótin þar á eftir. Í byrjun árs var fjöldi atvinnulausra 85 en þegar þetta er skrifað hefur þeim fjölgað upp í 111 eða um 30% sem er veruleg hækkun, því miður.Eins og sjá má hefur þróunin hvað varðar atvinnuástandið verið með eðlilegum hætti í Þingeyjarsveit. Þar hefur atvinnulausum fækkað jafnt og þétt frá síðustu áramótum en algengt er að það hækki aðeins yfir hörðustu vetrarmánuðina enda liggur ferðaþjónustan að mestu leiti niðri í sveitarfélaginu. Í upphafi árs voru 47 einstaklingar án atvinnu en um þessar mundir eru þeir 13 og ferð aðeins fjölgandi af skiljanlegum ástæðum. Atvinnuástandið hefði verið með sambærilegum hætti í Norðurþingi hefði ekki komið til að PCC ætti framleiðslu í sumar. Áður hafði fyrirtækið hafið uppsagnir á starfsmönnum.
Í tilefni af Kvennafrídeginum síðasta föstudag stóðu nokkur félagasamtök fyrir samstöðufundi í Félagsheimilinu Breiðumýri. Fjölmenni lagði leið sína á fundinn sem fór vel fram enda mögnuð dagskrá í boði með söng og fróðlegu efni. Framsýn var meðal þeirra félagasamtaka sem stóðu að samkomunni sem var til mikillar fyrirmyndar. Ljósmyndari á vegum Framsýnar var á staðnum og fangaði samverustundina á ljósmyndir:
Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, var gestur Framsýnar í morgun, en hún gerði sér ferð til Húsavíkur til að skiptast á skoðunum við forsvarsmenn félagsins.
Umræður urðu um atvinnumál s.s. stöðuna hjá PCC á Bakka, heilbrigðismál, húsnæðimál, vaxtamál, menntun á framhaldskólastigi, samgöngumál, flugsamgöngur við Húsavík, veiðigjöld, byggðakvóta, standveiðar, gjöld á skemmtiferðaskip, skerðingar á framlögum til jöfnunar á örorkubyrgði lífeyrissjóða, skerðingar á atvinnuleysisbótum, skerðingar á framlögum til íslenskukennslu fyrir útlendinga, breytingar á samsköttun hjóna, hækkanir á vörugjöldum á bifreiðar og jarðefnaeldsneyti og síðast en ekki síst urðu umræður um hugmyndir sem fela í sér breytingar á kosningalögum til að jafna atkvæðavægi í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að ráðist verði í slíkar breytingar sem ber með sér að fækka verulega þingmönnum á landsbyggðinni og fjölga þeim um leið á höfuðborgarsvæðinu. Spurt var, hvort ekki væri nær að miða vægið við gjaldeyristekjurnar? Það er, hvar þær verða til en um 70 til 80% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar vegna sjávarútvegs verða til á landsbyggðinni svo ekki sé talað um iðnaðinn.
Fundurinn með þingmanninnum var mjög vinsamlegur. Eydís meðtók skilaboðin og þakkaði fyrir ánægjulegan fund um leið og forsvarsmenn Framsýnar sögðust treysta því að tillögur félagsins fengju brautargengi í málefnavinnu Samfylkingarinnar og þingsins. Þingmaðurinn mun án efa gera sitt besta til að svo verði, enda afar mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að hlusta á raddir félagasamtaka sem láta sig atvinnu- og velferðarmál varða.
ASÍ stóð fyrir málþingi um stöðu kvenna af erlendum uppruna í tilefni af Kvennaverkfalli 2025. Fór málþingið fram undir heitinu Nútíma kvennabarátta og var skipt upp í þrjá meginflokka þar sem áherslan var sérstaklega á málaflokka sem varða erlendar konur a íslenskum vinnumarkaði. Agnieszka Szczodrowska og Christine Irma Schröder voru fulltrúar Framsýnar á ráðstefnunni og tóku þar virkan þátt undir liðnum Samfélag – sameiginleg ábyrgð og framtíð. Flutti Agnieszka þar erindi, en Christine tók þátt í pallborðsumræðum. Málþingið var vel sótt og þótti takast einstaklega vel. Hægt er er nálgast þetta áhugaverða málþing í streymi:
ASÍ stóð fyrir málþingi um stöðu kvenna af erlendum uppruna í tilefni af Kvennaverkfalli 2025. Christine Irma Schröder sem er félagsmaður í Framsýn er hér ásamt Höllu Gunnars formanni VR og Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Þær tóku þátt í pallborðsumræðum.
Liðlega tvö þúsund tonn af laxi hafa verið unnin á þessu ári í Silfurstjörnunni, landeldisstöð Samherja fiskeldis ehf. í Öxarfirði sem er afar jákvætt fyrir atvinnulífið á félagssvæði Framsýnar en starfsmenn landeldisstöðvar Samherja eru flestir í Framsýn.
Árið 2023 voru unnin þar tæplega 1800 tonn, sem var hið mesta hér á landi af öllum landeldisstöðvum. Þetta þýðir í raun að nýtt Íslandsmet verður slegið á degi hverjum til áramóta í Öxarfirði.
Allar aðstæður til landeldis og framleiðslu á hágæðaafurðum eru ákjósanlegar í Öxarfirði en Silfurstjarnan nýtir græna orku, jarðvarma og kristaltært borholuvatn til framleiðslunnar. Fiskeldi sem fer fram í kerjum eins og hjá Silfurstjörnunni gefur kost á góðri stjórn á öllum stigum framleiðslunnar.
Starfsfólk Samherja fiskeldis býr yfir mikilli reynslu og faglegri sérhæfingu varðandi alla þætti fiskeldis, enda hefur Samherji komið að landeldi á laxi í yfir tuttugu ár.
Silfurstjarnan hefur gengist undir miklar endurbætur á undanförnum árum. Í síðasta mánuði var því fagnað að framkvæmdum er svo að segja lokið og er framleiðslugeta stöðvarinnar um 3.000 tonn á ári en var áður um 1.800 tonn.
97,3 prósent í hæsta gæðaflokk
Byggð voru ný eldisker sem eru tvöfalt stærri að umfangi en kerin sem fyrir voru. Þá hefur sjótaka verið aukin til muna, sett upp ný hreinsitæki, auk þess sem stoðkerfi og margvíslegur tækjabúnaður hefur verið endurnýjaður. Nýtt seiðahús var tekið í notkun í fyrra og á þessu ári hófst starfsemi í nýju vinnsluhúsi sem er tæknilega vel búið á allan hátt.
Forsvarsmenn Framsýnar og Lsj. Stapa voru beðnir um að vera með almenna fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða fyrir nemendur Framhaldsskólans á Laugum. Fræðslan fór fram í mötuneyti skólans í gær. Nemendur voru mjög áhugasamir um viðfangsefni dagsins. Þá voru lagðar nokkrar spurningar fyrir nemendur í lok fræðslunnar sem þeir svöruðu samviskusamlega auk þess sem nemendum var ætlað að vinna verkefni eftir fyrirlesturinn um starfsemi Framsýnar.
Nýnemum var boðið upp á fyrirlestur um starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða. Hér er Jóna Finndís Jónsdóttir frá Lsj. Stapa að fara yfir málefni sjóðsins. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson fór yfir tilgang og markmið stéttarfélaga.Vinkonurnar Þórdís Lilja Guðnadóttir og Camilla Silfá Sigurðardóttir settust niður eftir fyrirlestrana til að vinna verkefni.
Jóna Finndís forstöðumaður réttindasviðs Lsj. Stapa lagði skemmtilegar spurningar fyrir nemendur sem tengdust hennar fyrirlestri.
í síðustu viku undirrituðu fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands undir nýjan stofnanasamning við Náttúruverndarstofnun og Þjóðgarðinn á Þingvöllum og leysir hann af hólmi eldri samning milli SGS og Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Náttúruverndarstofnun varð til 1. janúar 2025 og tók þá við verkefnum sem snúa að náttúruvernd, lífríkis- og veiðistjórnun frá Umhverfisstofnun og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs.
Viðræður aðila um nýjan stofnanasamning hafa staðið yfir frá því í mars á þessu ári. Fyrir hönd Starfsgreinasambandsins sátu í viðræðunefnd þau Aðalsteinn Árni Baldursson, Guðrún Elín Pálsdóttir, Halldóra Sveinsdóttir og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, auk fulltrúa frá Landvarðafélaginu.
Á meðfylgjandi mynd eru hressir starfsmenn Náttúruverndarstofnunnar sem eru með starfsstöð í Glúfrastofu í Kelduhverfi.
Haldið var upp á 100 ára afmæli Framhaldsskólans á Laugum í Þingeyjarsveit á laugardaginn frá morgni til kvölds. Hátíðin var glæsileg í alla staði. Ekki er ólíklegt að um 1000 gestir hafi verið á svæðinu sem er frábært enda bera margir hlýjar taugar til Laugaskóla. Boðið var upp á metnaðarfulla hátíðardagskrá af því tilefni. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum óska Framhaldsskólanum á Laugum til hamingju með afmælið.
Í tilefni dagsins stóðu nokkur félagasamtök fyrir samstöðufundi kl. 14:00 í Félagsheimilinu Breiðumýri. Fullt hús og boðið var upp á magnaða dagskrá með söng með fróðlegu efni í bland. Framsýn var meðal þeirra félagasamtaka sem stóðu að samkomunni sem tókst í alla staði afar vel enda einstaklega vel skipulögð og þeim sem að henni stóðu til mikils sóma. ÁFRAM KONUR!
Á aðalfundi Framsýnar í vor var ákveðið að minnast kvennaársins 2025 með gjöf á 5 sætisbekkjum sem komið yrði fyrir í núverandi og þáverandi sjávarbyggðum á félagssvæðinu. Það var við hæfi að fyrsti bekkurinn væri vígður formlega á Kvennafrídaginn en bekknum var komið fyrir á Stangarbakkanum í morgun og fór vígslan fram kl. 11:00. Fjöldi fólks lagði leið sína á viðburðinn en um 60 konur voru við vígsluna en þær höfðu flestar fyrr um morguninn lagt niður störf í Borgarhólsskóla. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, fór nokkrum orðum um gjöfina og sagði að bekkirnir væru gefnir í tilefni Kvenréttindadagsins þann 19. júní, af virðingu við konur sem misst hefðu ástvini sína í greipar Ægis. Hann sagði jafnframt yndislegt að sjá þann fjölda sem væri samankominn til þessarar samverustundar. Því næst flutti Ósk Helgadóttir varaformaður stutt ávarp sem er svohljóðandi:
„Framsýn stéttarfélag hefur samþykkt að festa kaup á nokkrum sætisbekkjum á kvennaárinu 2025 sem komið verður fyrir í sjávarbyggðum á félagssvæðinu, Húsavík, Raufarhöfn og Kópaskeri. Bekkjum verður jafnframt komið fyrir í Flatey og við Tungulendingu á Tjörnesi, en þaðan var rekin blómleg útgerð og fiskvinnsla á sínum tíma. Bekkirnir eru gefnir í tilefni Kvenréttindadagsins þann 19. júní, af virðingu við konur sem misst hafa ástvini sína í greipar Ægis.
Bekkirnir verða staðsettir við sjávarsíðuna í fullu samráði við viðkomandi sveitarfélög sem tóku hugmyndinni vel auk þess að bjóðast til að koma bekkjunum fyrir. Félag Húseigenda í Flatey bauðst til að koma fyrir bekk í eyjunni fögru á Skjálfanda fyrir hönd Framsýnar. Fyrir það ber að þakka. Í heildina er um að ræða 5 vandaða bekki. Það er von Framsýnar að bekkirnir verði öllum þeim sem þá nota, til blessunar og góðrar hvíldar á göngunni.
Þegar talað er um að hafið gefi og hafið taki, liggur í þeim orðum sannleikurinn um að þrátt fyrir að hafið færi okkur vissulega gæfu og velferð, þá geti að sama skapi fylgt því miklar fórnir. Þeir sem alist hafa upp við sjávarsíðuna vita að það þarf sterk bein, kjark og þor til að sækja sjóinn þar sem veður geta oft verið válynd.
Við þekkjum öll frásagnir af hetjum hafsins sem lent hafa í sjávarháska og margar bækur hafa verið skrifaðar um æðruleysi sjómanna í glímutökum við óblíð náttúruöfl á ögurstundu. Ekki höfðu allir betur í þeim átökum og fylla þeir látnu flokk hinna fjölmörgu íslensku sjómanna sem týnt hafa lífi við krefjandi störf. Minning þeirra verðskuldar virðingu.
Það gleymist hins vegar oft að bak við hvern sjómann stendur kona, sem staðið hefur við hlið hans, eiginkona, móðir, dóttir eða systir.Sögur þeirra kvenna sem séð hafa á eftir ástvinum sínum í hafið hafa ekki oft verið skrifaðar, enda reynsluheimur venjulegra kvenna að margra áliti ekki til þess fallinn að vera færður í letur. Þessar „venjulegu konur“ hafa háð lífsbaráttuna á landi, sinnt þeim mikilvægu verkum sem þar hefur þurft að vinna, verið stoð og stytta sjómannsins, fjölskyldunnar og heimilisins.
Höfum jafnframt í huga að konur þurftu oft á tíðum að vaka langar og þungbærar nætur með ugg í brjósti, vitandi af eiginmönnum sínum, sonum, feðrum og bræðrum úti á sjó í vonskuveðri. Margar þeirra hafa síðan staðið frammi fyrir því að það sem þær óttuðust mest að gæti gerst, varð einn daginn helkaldur veruleiki þar sem menn skiluðu sér ekki heim af sjónum.
Ónefndum hetjum hversdagsins sem fer svo litlum sögum af, hafa ekki verið reistir sérstakir bautasteinar eða minnismerki eins og títt er um íslenska merkismenn. Þær sátu eftir með óvissuna um framtíðina, óttann og einmanaleikann en börðust áfram í gegnum lífsins ólgusjó. Það er okkar að halda minningu þeirra á lofti um ókomna tíð.“
Ósk Helgadóttir flutti ávarp í tilefni dagsins en fyrsti af 5 bekkjum sem Framsýn hefur gefið var vígður formlega í dag.Okkar frábæri sóknarprestur sagði nokkur falleg orð um gjöfina og mikilvægi hennar fyrir samfélagið.Þrjár góðar, Ósk Helgadóttir, Sólveig Halla og Katrín sveitarstjóri sem tók til máls líkt og þær Ósk og Sólveig Halla sem þakkaði Framsýn fyrir höfðinglega gjöf sem kæmi að góðum notum.Kristín Helgadóttir kom með áhugavert innlegg í dag varðandi gjöfina en gestum var boðið að taka til máls við athöfnina.Það var smá kalt en menn létu það ekkert á sig fá. Gengið eftir Stangarbakkanum að bekknum góða sem vígður var í morgun.Bara frábært, konur komu úr öllum áttum til að taka þátt í vígslunni á bekknum góða á Stangarbakkanum sem er stutt frá versluninni Néttó á á Húsavík.Já konur komu úr öllum áttum til að taka þátt í athöfninni.Segðu, Áfram konur!Að sjálfsögðu var kveikt á kertum við þessa fallegu athöfn.Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, opnaði athöfnina í morgun og fór nokkrum orðum um gjöfina, það er gefa 5 bekki á félagssvæðið á kvennaárinu 2025. Myndirnar sem fylgja þessari frétt eru teknar af starfsmönnum Framsýnar og Hafþóri Hreiðarssyni.
Konur og kvár komu saman í morgun í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík þar sem boðið var um á veglega dagskrá í tilefni dagsins. Mikil baráttuandi var á fundinum enda stendur yfir Kvennaverkfall nú þegar 50 ár eru frá því fyrsta, 1975. Kvennaverkfallið stendur yfir í dag og hafa fjölbreyttir viðburðir verið skipulagðir af aðstandendum verkfallsins frá morgni til kvölds víða um land. Hér norðan heiða, er varðar félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, verður hápunktar dagsins samkoma sem boðað hefur verið til í Félagsheimilinu Breiðumýri kl. 14:00 í dag. Skorað er á konur og kvár að mæta á viðburðinn til stuðnings baráttumálum þessara hópa.
Fundarsalur stéttarfélaganna var fullur af baráttuglöðum konum í dag.
Í tilefni dagsins verður verulega skert þjónusta á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag. Lokað verður frá kl. 11:00 til 12:00 og svo aftur frá kl. 13:30 til 16:00 vegna kvennafrídagsins og viðburðar sem verður á Stangarbakkanum kl. 11:00 þegar sætisbekkur verður vígður sérstaklega í tilefni af kvennaárinu 2025. Þá skorum við á fólk að gera sér ferð í Breiðumýri og taka þátt baráttusamkomu sem byrjar kl. 14:00.
Framsýn stéttarfélag hefur samþykkt að festa kaup á sætisbekkjum á kvennaárinu 2025 sem komið verður fyrir í sjávarbyggðum á félagssvæðinu, Húsavík, Raufarhöfn og Kópaskeri. Bekkjum verður jafnframt komið fyrir í Flatey og við Tungulendingu á Tjörnesi, en þaðan var rekin blómleg útgerð og fiskvinnsla á sínum tíma. Bekkirnir eru gefnir í tilefni Kvenréttindadagsins þann 19. júní, af virðingu við konur sem misst hafa ástvini sína í greipar Ægis og verður komið fyrir við sjávarsíðuna á þessum stöðum á næstu dögum og vikum í fullu samráði við viðkomandi sveitarfélög. Í heildina er um að ræða 5 sætisbekki. Fyrsti bekkurinn verður afhentur á Kvennafrídaginn, það er á morgun, föstudag kl. 11:00. Sætisbekknum verður komið fyrir á Stangarbakkanum á Húsavík norðan við verslunina Nettó. Að sjálfsögðu eru öll velkomin á athöfnina, reyndar væri ánægjulegt að sjá sem flesta.
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar ásamt stjórn Framsýnar-ung kemur saman til fundar miðvikudaginn 29. október kl. 17:00. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins:
Fjölmennum á baráttufundi út um allt land á kvennafrídaginn 24. október til að krefjast kjarajafnréttis. Fimmtíu ár eru liðin frá því að konur lögðu fyrst niður störf til að krefjast jafnréttis á Íslandi, en enn er verk að vinna. Framsýn stendur að baráttufundi ásamt fleirum sem haldinn verður í Félagsheimilinu Breiðumýri næstkomandi föstudag. Samkoman hefst kl. 14:00. https://framsyn.is/2025/10/02/samstodufundur-ad-breidumyri/
Formannafundur Alþýðusambands Íslands var haldinn í gær, þriðjudag, í Reykjavík. Hörð gagnrýni kom fram á vinnubrögð ríkistjórnarinnar sem gerir í því að gera árásir á velferðarkerfið sem snýr sérstaklega að réttindum og kjörum láglaunafólks. Fundarmenn kröfðust þess að ályktað væri um málið sem var og gert. Sjá ályktun fundarins:
Ályktun um efnahags- og kjaramál
„Formannafundur ASÍ 2025 gagnrýnir harðlega niðurskurðarstefnu og samráðsleysi stjórnvalda og árásir ríkisstjórnarinnar á réttindi og kjör launafólks.
Formannafundur lýsir yfir vaxandi áhyggjum af stöðu efnahags- og kjaramála. Skýr merki eru um kólnun í hagkerfinu, atvinnuleysi fer vaxandi, verðbólga og stýrivextir eru enn óásættanlega háir og ekkert lát virðist vera á hávaxtastefnunni. Helsti drifkraftur verðbólgunnar er enn úrræðaleysi stjórnvalda í húsnæðismálum sem bitnar verst á ungu fólki og tekjulægri heimilum, en einnig gróðasókn fyrirtækja sem hafa ekki haldið aftur af verðhækkunum. Með undirritun stöðugleikasamninganna á vinnumarkaði vorið 2024 axlaði launafólk ríka ábyrgð á því að stuðla að hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta. Ábyrgðin á verðstöðugleikanum verður ekki sett eingöngu á herðar launafólks. Nú er komið að því að stjórnvöld og fyrirtæki axli sína ábyrgð.
Formannafundur hafnar þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað til að ná markmiðum í ríkisfjármálum en með þeim eru þyngstu byrðarnar lagðar á atvinnulausa, barnafólk, ellilífeyrisþega og heimilin í landinu. Verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt mun það þýða skerðingar á lífeyrisréttindum verkafólks, rýrnun barnabóta og húsnæðisstuðnings, lækkun á framlögum til íslenskukennslu, hærri gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni og veikari atvinnuleysistryggingar nú þegar atvinnuleysi fer vaxandi.
Jafnframt ítrekar fundurinn ákall sitt til ríkisstjórnarinnar um að endurskoða áform sín um niðurfellingu framlags til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða þar til um annað fyrirkomulag hefur verið samið, til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna með fullnægjandi hætti. Verkalýðshreyfingin mun aldrei fallast á að verka- og láglaunafólk verði eitt látið bera byrðarnar af misskiptri örorkubyrði með frekari lækkun á lífeyrisréttindum sínum.“
Áhugaverð skýrsla Alþýðusambands Íslands um vinnumarkaðsmáler komin út. Eins og fyrri ár inniheldur skýrslan ítarlegar greiningar á vinnumarkaðstengdum málefnum en að þessu sinni er atvinnuþátttaka, atvinnuleysi og áhrif umönnunarbyrði á atvinnuþátttöku í sérstökum forgrunni.
Meðal helstu niðurstaða sem lesa má um í skýrslunni auk annarra eru:
Ísland er með mestu atvinnuþátttöku innan OECD.
Sérstaðan felst í að þátttaka er mikil meðal allra hópa, þ.e. kvenna, ungs fólks, eldra fólks og innflytjenda.
Atvinnuleysi er lágt og langtímaatvinnuleysi lítið.
Samsetning langtímaatvinnulausra eftir aldri, menntun og bakgrunni er svipuð og hjá atvinnulausum almennt, enginn hópur er þar í meirihluta.
ASÍ-UNG hélt sitt 11. þing föstudaginn 17. október og var yfirskriftin að þessu sinni „Raddir ungs fólks til áhrifa – Kraftur til breytinga“. ASÍ-UNG eru samtök ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar sem sér til þess að hagsmunamál ungra Íslendinga á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins. Birta og Sunna voru fulltrúar Framsýnar á þinginu en þær eru báðar í stjórn Framsýnar-ung.
Á þinginu var unnið öflugt málefnastarf þar sem málefni voru valin út frá stefnumótunarstarfi stjórar. Til umræðu voru málefni sem snerta ungt fólk sérstaklega; málefni fjölskyldufólks, húsnæðismál, brotastarfsemi og samgöngumál. Niðurstaða þingsins voru fjórar ályktanir, sem marka stefnu nýrrar stjórnar. Þær má lesa hér á slóðinni: https://vinnan.is/vel-heppnad-thing-asi-ung/