Meðlimir Starfsmannafélags Húsavíkur hafa nokkra möguleika til starfsmenntunar. Þrír möguleikar eru í boði. Það er að segja:
- Mannauðssjóður Samflots
- Starfsmenntunarsjóður Starfsmannafélags Húsavíkur
- Þróunar- og símenntunarsjóður bæjarstarfsmanna hjá ríkinu
Mannauðssjóður SAMFLOTS.
Starfsmannafélag Húsavíkur hefur aðild að Mannauðssjóði SAMFLOTS.
Aðild að sjóðnum eiga stofnafélagar og félagsmenn þeirra.
Upplýsingar um stjórn sjóðsins eru á heimasíðu sjóðsins. Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum veitir nánari upplýsingar um Mannauðssjóð Samflots í síma: 456-4407 á milli 10:00-12:00 og 13:00-15:00. Eða í gegnum netfangið mannaudssjodur@samflot.is
Sótt er um styrki á þar til gerðum eyðublöðum. Hægt er að prenta út umsóknareyðublað á heimasíðu sjóðsins undir flipanum eyðublöð.
Sjóðsstjórn heldur fundi að jafnaði þriðja hvern mánuð og er umsóknarfrestur: 15. febrúar, 15. maí, 15. ágúst, 15. nóvember. Umsóknir sem lagðar eru fyrir fund eru afgreiddar í lok viðkomandi mánaða. Sjóðsstjórn er heimilt að fresta/fella niður fundi ef svo ber undir.
Áður en umsókn er tekin fyrir hjá stjórn sjóðsins þarf launagreiðandi að vera búinn að greiða í sjóðinn frá 1.3.2010. Einnig þurfa öll gögn að fylgja umsókn, sjá reglur sjóðsins undir flipanum eyðublöð.
Í aprílmánuði 2010 var undirritað samkomulag milli Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga um stofnun Mannauðssjóðs Samflots. Samkomulagið byggir á bókun 3 í kjarasamningi aðila frá 29. nóvember 2008.
Mannauðssjóði Samflots bæjarstarfsmannafélaga er ætlað að styrkja sveitarfélög í símenntunarmálum starfsmanna sinna eða eins og segir í 3. grein m.a;
„Markmið sjóðsins er að stofna og reka sameiginlegan starfsmenntunarsjóð á grundvelli kjarasamnings Samflots bæjarstarfsmannafélaga og Launanefndar sveitarfélaga, sbr. bókun 3 í kjarasamningi aðila frá 1. des. 2008“,
og í 4. grein segir;
„Sjóðurinn sinnir markmiðum sínum á sviði símenntunar og mannauðs með því að veita styrki til;
a) sveitarfélaga, stofnana og launagreiðenda sem greiða í sjóðinn,
b) aðildarfélaga Samflots og eftir atvikum annarra bæjarstarfsmannafélaga,
c) verkefna sem sjóðsstjórn skipuleggur eða á aðkomu að.
Umsóknir skulu sendar stjórn sjóðsins þar sem fram kemur lýsing á því verkefni sem sótt er um styrk til, skipulagi þess, efnisinntaki, áætlaðri framkvæmd, kostnaði, öðrum styrkjum og framlagi umsækjanda“
Þróunar og símenntunarsjóður bæjarstarfsmannafélaga hjá ríkinu.
Markmið sjóðsins er að auka möguleika ríkisstofnana, sem neðangreind stéttarfélög eiga félagsmenn sem starfa þar, til að þróa starfssvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til stofnana á hverjum tíma og efla símenntun félagsmanna sem eru í hlutaðeigandi stéttarfélögum með það fyrir augum að þeir séu færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni.Þær stofnanir sem rétt hafa að sækja í sjóðinn vegna félagsmanna í bæjarstarfsmannafélögum hjá ríkinu eru:
Heilbrigðisstofnanir Austurlands, Norðurlands, Suðurnesja, Suðurlands, Vestfjarða, Vesturlands, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæslustöðvar, Sjúkrahúsið á Akureyri, Framhaldsskólar Framhaldsskólar Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Suðurlands, Vesturlands, Framhaldsskólinn á Húsavík, Laugum, Austur-Skaftafellssýslu, í Vestmannaeyjum, Menntaskóli Borgarfjarðar, Verkmenntaskóli Austurlands og á Akureyri.
Stéttarfélög sem geta sótt í sjóðinn eru:
Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, FOSS stéttarfélag í almannaþjónustu, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Starfsmannafélag Fjallabyggðar, Starfsmannafélag Dala- og Snæfellssýslu, Starfsmannafélag, Kópavogs, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar, Starfsmannafélag Húsvíkurkaupstaðar, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar.
Stjórn sjóðsins skal skipuð fjórum mönnum til tveggja ára í senn, tveimur skipuðum af fjármálaráðherra og tveimur af hlutaðeigandi stéttarfélögum. Stjórnin kýs sér formann og varaformann. Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður fulltrúi Kjalar stéttarfélags Guðmundur H. Guðmundssson, varaformaður fulltrúi fjármálaráðherra Unnur Sigmarsdóttir meðstjórnandi fulltrúi Samflots bæjarstarfsmannafélaga
Hægt er að sækja um í sjóðinn hér.
Starfsmenntunarsjóður Starfsmannafélags Húsavíkur.
Starfsmenntunarsjóður S.T.H. starfar innan Starfsmannafélags Húsavíkur. Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn sem eru á vinnumarkaði til náms og endurmenntunar svo þeir geti á hverjum tíma tileinkað sér tæknibreytingar og tekist á við vandasamari störf. Rétt til styrks hafa þeir sem verið hafa félagsmenn í sex mánuði og eru virkir félagsmenn við lok náms/námskeiðs.
Um úthlutanir fer eftir reglugerð sjóðsins. Launagreiðendur greiða framlag í sjóðinn í samræmi við kjarasamninga á hverjum tíma.
Stjórn sjóðsins er skipuð þremur mönnum, þ.e. frá Starfsmannafélagi Húsavíkur annars vegar og Norðurþingi hins vegar.
Helstu úthlutunarreglur sjóðsins eru:
- Styrkir til félagsmanna vegna starfstengdra námskeiða. Hámarksstyrkur kr. 140.000,- á ári. Námskeiðsgjald/námskostnaður er greiddur að fullu. Útlagður ferða- og gistikostnaður er greiddur að fullu.
- Styrkir til félagsmanna vegna tómstundanámskeiða. Hámarksstyrkur kr. 40.000,- á ári. Námskeiðsgjald/námskostnaður er greiddur að hálfu.
- Styrkur til háskólamenntaðra félagsmanna. Stjórn sjóðsins getur ákvarðað háskólamenntuðum félagsmönnum hærri styrki, vegna þátttöku á starfstengdum námskeiðum, sem nemur allt að áttföldu iðgjaldi launagreiðanda sbr. grein 3.a. vegna þeirra s.l. 12 mánuði. Heildarstyrkur félagsmanns verður þó aldrei hærri en kr. 195.000,- á ári.
- Sjóðnum er ekki heimilt að taka þátt í tekjutapi félagsmanna vegna námskeiða eða námsdvalar, fæðiskostnaði eða kostnaði sem launagreiðanda greiðir í samræmi við ákvæði kjarasamninga.
- Félagar sem vinna hluta úr ári fá styrk sem nemur að hámarki fimmföldu félagsgjaldi síðustu 12 mánuði.
Nánari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna sími 464-6600.