Starfsfólk sem verður fyrir slysi við vinnu skal tilkynna það vinnuveitanda eða stjórnanda eins fljótt og hægt er.

Það er á ábyrgð vinnuveitanda að tilkynna Vinnueftirlitinu um vinnuslys innan sjö daga ef hinn slasaði verður óvinnufær í einn eða fleiri daga umfram daginn sem slysið varð, líkur eru á að hinn slasaði hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni eða hinn slasaði lætur lífið. Tilkynning til Vinnueftirlits er afar áríðandi svo upplýsingar liggi fyrir um slysið.

Það er líka á ábyrgð vinnuveitanda að tilkynna Sjúkratryggingum Íslands tafarlaust um vinnuslys, sem ætla má að sé bótaskylt samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Hinn slasaði starfsmaður getur þó líka tilkynnt stofnuninni um slysið sjálfur og svo er það á ábyrgð hans sjálfs að fylgja því eftir að tilkynningarskyldunni sé fullnægt. Vanræki vinnuveitandi tilkynningarskyldu sína til Sjúkratrygginga Íslands getur starfsmaður t.d. leitað til lögreglu. Það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef tilkynningarskyldu til Sjúkratrygginga Íslands er ekki sinnt og það jafnvel varðað missi bótaréttar ef slysið er ekki tilkynnt innan árs frá slysdegi.

Að lokum er nauðsynlegt að tilkynna slysið til vátryggingafélags vinnuveitanda, enda getur verið til staðar réttur til bóta úr launþegaslysatryggingu vinnuveitanda og stundum ábyrgðartryggingu hans. Sá sem á rétt til bóta, hinn slasaði starfsmaður,  getur glatað þeim rétti ef ekki er gerð krafa um bætur til tryggifélagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á. Upphaf þess tímamark getur verið matskennt og er oft ekki löngu eftir slysið sjálft.

Þá getur einnig skipt máli að starfsmenn hafi leitað til læknis sem fyrst eftir slys til að tryggja sér sönnun um áverka sína.

Í ljósi alls framangreinds ráðleggur Framsýn félagsmönnum sínum eindregið að ganga úr skugga um það sjálfir að öll vinnuslys séu tilkynnt A. Vinnueftirliti, B. Sjúkratryggingum Íslands og C. vátryggingafélagi vinnuveitanda tafarlaust, auk þess að D. leita til læknis til að fá skráðar upplýsingar fyrir áverkavottorð. Komi til þess að slys hafi ekki varanlegar afleiðingar og engin þörf verði á að krefja um bætur þarf ekki að aðhafast frekar. En verði um tjón að ræða skiptir öllu máli að rétt sé staðið að þessum tilkynningum frá upphafi.


Mál vegna vinnuslysa geta verið flókin og eru starfsmenn Framsýnar ávallt tilbúnir til að ráðleggja félagsmönnum og aðstoða þá ef eitthvað kemur upp á. Starfsmenn Framsýnar hafa jafnframt beinan aðgang að lögmanni félagsins, komi upp flókin tilvik sem þarfnast frekari skoðunar.

Deila á