Framsýn stéttarfélag hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra.
Framsýn sendi frá sér 5 ályktanir og yfirlýsingar milli aðalfunda sem eru meðfylgjandi skýrslunni.
Þann 2. mars 2023 stóð Framsýn fyrir opnum fundi stjórnar og trúnaðarráðs um lífeyrismál í samstarfi við Lsj. Stapa.
Framsýn stóð fyrir opnum starfslokanámskeiðum með Þekkingarsetri Þingeyinga á Húsavík og í Breiðumýri í Þingeyjarsveit.
Framsýn hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.
Þó nokkuð er um að forsvarsmenn félagsins séu beðnir um að flytja erindi á fundum og ráðstefnum auk þess að taka þátt í umræðuþáttum um velferðar og verkalýðsmál enda greinilegt að starf félagsins nýtur mikillar virðingar í samfélaginu.
Framsýn hefur komið að því að styðja við bakið á ungmenna- og íþróttafélögum á svæðinu. Þá hefur félagið einnig komið að því að niðurgreiða leikhúsmiða fyrir félagsmenn á sýningar hjá Leikfélagi Húsavíkur og Leikdeild Eflingar.
Töluverð ásókn er í félagið frá starfsfólki sem starfar ekki á félagssvæði Framsýnar. Stundum er hægt að verða við óskum viðkomandi aðila en almenna reglan er sú að menn greiði í þau félög sem eru starfandi á því svæði sem viðkomandi starfar á enda séu menn að vinna eftir kjarasamningum sem gilda fyrir félagsmenn Framsýnar.
Framsýn hefur í gegnum tíðina lagt mikið upp úr góðu samstarfi við stjórnmálamenn sem gefið hafa kost á sér til starfa á Alþingi eða í sveitarstjórnir á félagssvæðinu. Alþingismenn, ráðherrar og sveitarstjórnarmenn hafa átt það til að líta við á Skrifstofu stéttarfélaganna til að taka stöðuna um málefni líðandi stundar.
Landsfundur VG fór fram í mars 2023 á Akureyri. Formaður Framsýnar var fenginn til að flytja ræðu um stöðu verkalýðshreyfingarinnar á fundinum. Í ræðu sinni ræddi hann m.a. átökin innan hreyfingarinnar, sem ekki sér fyrir endann á og tók þar helst til framgöngu Eflingar í tengslum við nýyfirstaðna kjarasamningagerð. Hvatti hann jafnframt VG til að standa vörð um verkalýðshreyfinguna og beita sér fyrir því að fyrirhugað frumvarp Sjálfstæðismanna um félagafrelsi á vinnumarkaði nái ekki fram að ganga. Ræða formanns fékk afar góð viðbrögð fundargesta og í fjölmiðlum.