Mikil gleði og hamingja fylgir því þegar nýtt barn kemur í heiminn. Það að sækja um fæðingarorlof getur þó verið stjarnfræðilega flókið fyrir marga verðandi foreldra. Ferlið er stundum ruglingslegt og það er óþarfa hausverkur fyrir verðandi foreldra sem hafa í nógu að snúast. Núna er hægt að sækja um fæðingarorlof á netinu.
Verðandi foreldrar, sem eru á vinnumarkaði og sjálfstætt starfandi, geta nú sótt um fæðingarorlof á einfaldan hátt. Umsóknarferlið fer í gegnum island.is. Ný stafræn umsókn um fæðingarorlof hefur síðustu misseri verið í vinnslu í samstarfi við Vinnumálastofnun og er enn í stöðugri þróun. Ferlið sækir sjálfkrafa öll þau gögn sem þurfa að fylgja umsókninni og sendir sjálfkrafa áfram til maka og atvinnurekanda til samþykktar. Enn er unnið að þróun umsóknar fyrir aðra hópa, einstaklinga sem hafa verið á atvinnuleysisbótum eða eru að koma úr fæðingarorlofi.
Hverjir hafa rétt til fæðingarorlofs?
Foreldri sem er í meira en 25% starfshlutfalli á rétt á launuðu fæðingarorlofi í sex mánuði. Greiðslur frá fæðingarorlofssjóði eru tekjutengdar og fær fólk 80% af meðaltali heildarlauna síðustu 12 mánuði. Þessu 12 mánaða tímabili lýkur sex mánuðum áður en barnið kemur í heiminn.
Fólk sem á von á barni, til dæmis 17. ágúst 2022, þarf að gefa upp tekjur á tímabilinu 17. mars 2021 til 17. mars 2022. Meðaltal launa fólks á þessu tímabili gilda í reikningi til orlofs.
Samkvæmt heimasíðu fæðingarorlofssjóðs eru lægstu greiðslur úr fæðingarorlofssjóði fæðingarstyrkir. Fæðingastyrkir eru fyrir foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða í námi.
Fólk utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi á rétt á 87.062 kr. á mánuði í fæðingarstyrk. Ef fólk er í 75-100% námi fær það 199.522 kr. á mánuði í fæðingastyrk.
Fæðingarorlof foreldris í fullu orlofi eru 80% af meðaltali heildarlauna. Þó aldrei hærri en 600.000 kr. á mánuði. Tölurnar miðast við 2022 og er barnshafandi foreldrum bent á að klára stafræna umsókn á undan maka sínum.
Heimild mbl.is