Um síðustu mánaðamót greiddi Framsýn samtals 466 félagsmönnum sem starfa hjá Þingeyjarsveit og Norðurþingi samtals kr. 35.979.927,-. Reyndar tókst ekki að greiða þeim öllum út þar sem reikningsupplýsingar vantar fyrir 66 einstaklinga. Hafi starfsmenn sveitarfélaga, sem eru félagsmenn Framsýnar, ekki fengið greiðslu um mánaðamótin er líklegasta skýringin að bankaupplýsingar vanti fyrir viðkomandi aðila. Endilega komið þeim þegar í stað til Skrifstofu stéttarfélaganna svo hægt verði að gera upp við þá. Hægt er að senda upplýsingarnar á netfangið nina@framsyn.is
Hvaða greiðsla er þetta? Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga starfsmanna sveitarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn tilheyrir greiða sveitarfélögin ákveðna greiðslu í Félagsmannasjóð sem Framsýn heldur utan um fyrir starfsmenn sveitarfélaga innan raða félagsins. Þann 1. febrúar ár hvert ber félaginu síðan að greiða upphæðina út til viðkomandi aðila, það er upphæðina sem hefur safnast upp fyrir árið á undan.