Nú kl. 14:00 hófust hátíðarhöld á Húsavík í tilefni af 1. maí. Mikið fjölmenni er samankomið á Fosshótel Húsavík þar sem hátíðarhöldin fara fram. Boðið er upp á magnaða dagskrá, tónlist, barátturæður og kaffihlaðborð. Hér má lesa hátíðarræðu formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna, sem er ekki hefðbundin í ár þar sem hann fagnar 30 ára starfsafmæli. Hér má lesa ræðuna:
Ágæta samkoma!
Það er laugardagsmorgun og það er landburður af fiski. Árið er 1979.
Dagurinn er tekinn snemma og allir sem vettlingi geta valdið eru á leið niður að höfn til starfa í Aðgerðinni, deild innan Fiskiðjusamlags Húsavíkur.
Ingvar í Bókabúðinni fagnar, sem og aðrir kaupmenn. Þeir vita sem er, að verslun eykst í bænum þegar fiskast vel.
Nágrannar mínir, Eysteinn og Heiða, bjóða mér góðan daginn um leið og þau setjast upp í bílinn á Iðavöllunum.
Reyndar tók það yfirleitt töluverðan tíma fyrir þau að koma sér niður í fjöru enda Eysteinn langt frá því að vera þekktur ökuníðingur. Hann þótti reyndar fara mjög rólega og rúmlega það.
Utar í götunni má sjá aftan á þá bræður, Dóra og Stjána Hákonar rölta til vinnu. Stjáni var ekki glaður í bragði, enda hafði ÍA tapað fótboltaleik, kvöldinu áður, en hann var mikill Skagamaður.
Dóri skildi hins vegar ekkert í því hvað bróðir hans væri viðkvæmur fyrir fótbolta og brosti í kampinn. Að hans mati skipti það engu einasta máli hvort ÍA hefði farið með sigur að hólmi, eða ekki. Undir það tóku hjónakornin Guðný og Óli Bjarna á Sólvöllunum, sem sögðust reyndar ekkert vit hafa á fótbolta.
Liðið á Torginu, sem er bæjarhluti á Húsavík, hélt áfram að safnast saman á leið sinni til vinnu og hópurinn þéttist. Reyndar höfðu Siggi Steini og Dilli farið fyrr um morguninn, enda báðir sjómenn, en algengt var að bátar, stórir sem smáir, létu úr höfn eldsnemma á morgnanna. Pabbi tilheyrði þessum hópi sem fór snemma, enda þurfti hann að gera allt klárt fyrir daginn í fiskimjölsverksmiðjunni, þar sem þrærnar voru yfirfullar af fiskúrgangi.
Kristjana og Bjössi Þorkels sem bjuggu á Reykjaheiðarveginum kinkuðu kolli og gengið af Brávöllunum kom stormandi að venju.
Fyrir hópnum fór Þráinn Kristjánsson, barnmargur maður. Í humátt á eftir honum komu þrír af sonum hans, þeir Siffi, Lilli og Goði, allt hörkuduglegir ungir menn.
Fyrir aftan þá glitti í kratann, Dóra Þorgríms, sem veifaði Alþýðublaðinu með bros á vör, enda Alþýðuflokkurinn komið vel út úr nýlegri skoðanakönnun.
Hann hvatti okkur ungu mennina til að setja X við A í næstu kosningum. Já menn voru pólitískir á þessum árum, vissulega voru þeir flestir sannir vinstrimenn, kratar eða kommar, sem unnu fyrir neðan Bakkann.
Máni í Tungu verður á vegi okkar, hálf þreytulegur. Sagði hann kartöflurnar í garðinum hafa haldið fyrir sér vöku þá um nóttina og hann því lítið sem ekkert sofið. Þær þroskuðust svo hratt. „Það brakar og brestur í jarðveginum þegar þessir rosalegu boltar eru að ryðja frá sér moldinni með hávaða og látum“ sagði Máni íbygginn á svip.
Jónas og Hulda bjóða okkur góðan daginn um leið og við göngum fram hjá Árholti.
Já það lífgaði upp á tilveruna að hlýða á ýkjusögurnar hjá Mána í Tungu enda bjó hann yfir mikilli frásagnargáfu, þessi mikli meistari.
Þegar komið var yfir Garðarsbrautina við Hrunabúð, verslun kaupfélagsins, hélt verkafólkið áfram að streyma frá öðrum götum bæjarins, sjómenn, beitningamenn og fiskvinnslufólk gengu í takt. Lífsbjörgin var sjórinn og það sem hann gaf.
Á þessum tíma unnu flestir fyrir neðan Bakkann. Bjarney í Múla veifar unga manninum og spyr hvað sé að frétta, hvort þetta sé fyrsti dagurinn í vinnu eftir búfræðinámið á Hvanneyri.
Áður en ég næ að svara konunni með þykku gleraugun tekur Geiri í Ásgarði af mér orðið og fer að lýsa frétt sem hann hafði heyrt í útvarpinu fyrr um morguninn sem enginn annar kannaðist við að hafa heyrt. Er hann sakaður um að fara ekki rétt með. Geiri var fljótur til svara, hann skildi það vel að aðrir hefðu ekki heyrt sömu fréttina og hann, sem varðaði alla heimsbyggðina, enda ætti hann öðruvísi útvarp en aðrir. Hans útvarp væri nefnilega rússneskt og það flytti öðruvísi og ábyrgari fréttir.
Menn hristu höfuðið yfir þessum útskýringum Geira í Ásgarði. Þetta væri kallað að hagræða sannleikanum. Geiri gerði lítið fyrir það og hélt göngu sinni áfram með bros á vör, enda náð að hækka blóðþrýstinginn hjá nokkrum í hópnum.
Áfram var haldið niður í Aðgerð og Ívar Geirs, Palli Helga, Hjalli Geira, Doddi Kobbi, Hallgrímur Guðmunds og Torfi Sig. bætast í hópinn á lokametrunum. Við tekur langur og strangur vinnudagur undir stjórn Alla Þorgríms verkstjóra.
Já, það var ómetanlegt að verða samferða öllu þessu frábæra og yndislega fólki, sem mörg hver þurftu að hafa verulega mikið fyrir lífinu á þessum árum.
Það sem er fallegt við þennan tíma er að það voru allir jafnir sem störfuðu í Aðgerðinni, það hjálpuðust allir að.
Vissulega voru ekki allir heilsuhraustir og sumir reyndar með skerta starfsorku. Það skipti bara engu máli, við litum á okkur sem jafningja og léttum undir hver með öðrum. Vinnustaðamenningin var einstök.
Ég skal fúslega viðurkenna að ég sakna þessa tíma þegar ég horfi yfir farinn veg.
Óhætt er að segja að þessi tími hafi mótað mig til lífstíðar þar sem grunnurinn að ævistarfinu var lagður. Annars stæði ég ekki hér í dag, þetta löngu síðar, sem formaður í stéttarfélagi.
Vinnufélagarnir kusu mig sem trúnaðarmann árið 1981, þegar ég var tvítugur að aldri auk þess að hvetja mig til þess að taka að mér formennsku í Verkalýðsfélagi Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags þann 3. maí 1994.
Fyrir þennan mikla og góða stuðning er ég þakklátur nú þegar ég fagna 30 ára formennsku. Þetta hefur verið langur og strangur tími sem hefur gefið mér mikið.
Þegar ég tók við félaginu árið 1994 lofaði ég fráfarandi formanni Verkalýðsfélags Húsavíkur, Helga Bjarnasyni, að viðhalda hátíðarhöldunum 1. maí. Blessuð sé minning hans.
Helgi hafði ákveðnar áhyggjur af því að ungir menn eins og ég hefðu ekki sama skilning á mikilvægi dagsins eins og þeir sem eldri væru.
Síðan þá hef ég reynt að fylgja eftir vegvísi félaga Helga með mínu frábæra samstarfsfólki sem sannast með þessum glæsilegu hátíðarhöldum.
Ég veit að Helgi Bjarnason er með okkur í anda hér í dag og upplifir stemninguna sem fylgir baráttudegi verkafólks. Það svífur baráttuandi yfir hátíðinni.
Ágætu félagar
Á undanförnum áratugum hefur margt áunnist í réttindabaráttu verkafólks. Þökk sé, ekki síst, öflugu starfi Alþýðusambands Íslands og annarra samtaka s.s. BSRB.
Að baki þeim er fjölmennur hópur launþega sem telur vel á annað hundrað þúsund félagsmenn.
Meðal þeirra eru einstaklingar sem gegna mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna, það er, með þátttöku þeirra í nefndum, stjórnum og ráðum. Án þeirra væri ekki hægt að halda úti öflugri hreyfingu verkafólks.
Ég er ekki endilega viss um að allir geri sér grein fyrir mikilvægi stéttarfélaga og hlutverki þeirra. Hugsanlega mættu félögin standa sig betur hvað kynningarstarfsemi varðar.
Við sem störfum á Skrifstofu stéttarfélaganna efumst ekki einn einasta dag um þýðingu stéttarfélaga enda stoppar ekki síminn og þá eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar.
Flestar fyrirspurnirnar snúast um kjara- og réttindamál auk fyrirspurna um sjúkra- og orlofsíbúðir á vegum félaganna. Einnig hefur færst í vöxt að fólk leiti til okkar með sín persónulegu mál, sem tengjast ekki endilega störfum þeirra á vinnumarkaði. Fólki finnst gott að leita til okkar.
Það þarf enginn að efast um mikilvægi stéttarfélaga. Sem dæmi nefni ég að Framsýn greiddi félagsmönnum á síðasta ári tæplega 100 milljónir í styrki vegna veikinda, launataps eða annara þátta sem snúa að heilsufari félagsmanna. Þá fengu þeir um 24 milljónir í námsstyrki, svo eitthvað sé nefnt.
Allt frá upphafi hefur stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum verið umhugað um velferð fólks enda eitt af aðalhlutverkum félaganna að styðja vel við nærsamfélagið.
Þau hafa jafnframt stutt við mörg áhugaverð verkefni í gegnum tíðina sem snúa ekki síst að atvinnu- og byggðamálum, stuðningi við menningu- og listir svo ekki sé talað um æskulýðs- og íþróttastarf í Þingeyjarsýslum.
Því verður ekki neitað að Framsýn hefur verið mjög svo áberandi í samfélaginu.
Flestir þekkja auk þess baráttu félagsins fyrir mörgum framfaramálum s.s. flugsamgöngum milli Húsavíkur og Reykjavíkur, samgöngumálum, atvinnu- og byggðamálum, uppbyggingu íbúða fyrir lágtekjufólk og betri matvöruverslun á Húsavík. Verkefnin eru reyndar endalaus.
Höfum í huga; „Það er sælla að gefa en þiggja“. Segja má að stéttarfélögin hafi haft þetta að leiðarljósi í gegnum tíðina enda oft gefið veglegar gjafir til samfélagsins.
Upp í hugann kemur þegar konur í Verkakvennafélaginu Von hér á Húsavík samþykktu einróma að leggja fram kr. 5000, sem var töluverð upphæð á þeim tíma, til kaupa á hjartalínuritstæki sem sárvantaði á Sjúkrahúsið á Húsavík um miðja síðustu öld.
Verði sambærileg tillaga þess efnis samþykkt á aðalfundi Framsýnar næstkomandi föstudag er ætlunin að félagið færi Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum að gjöf, fullkomið hjartaskoðunartæki sem hefur ekki verið til staðar hér á Húsavík. Um er að ræða algjöra byltingu hvað varðar þjónustu við þá fjölmörgu sem þurfa á slíkri þjónustu að halda á hverjum tíma, en búið er að ráða hjartalækni í hlutastarf hjá HSN, það er hann kemur reglulega til Húsavíkur.
Forsendan fyrir því að hann geti starfað á þessu starfssvæði er að hann hafi aðgengi að tæki sem þessu. Gjöfin sparar auk þess sjúklingum bæði vinnutap og eins dvalar- og ferðakostnað þar sem þjónusta sem þessi hefur ekki áður verið í boði í heimabyggð, þess í stað hafa menn þurft að sækja þjónustuna um langan veg með tilheyrandi óþægindum.
Að sjálfsögðu eykur hjartaskoðunartækið líka öryggi þeirra sem þurfa á því að halda enda helsti tilgangurinn með gjöfinni.
Í heildina er andvirði gjafarinnar um 15. milljónir en hluti hennar mun renna til kaupa á öðrum smærri tækjum sem sárvantar á sjúkrahúsið á Húsavík, í endurhæfinguna á Hvammi og á starfsstöðvar HSN í Mývatnssveit, Kópaskeri og á Raufarhöfn.
Tilefnið er tvíþætt, 60 afmæli Verkalýðsfélags Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags og vilji félagsins til að efla okkar nærsamfélag í Þingeyjarsýslum, okkur öllum til hagsbóta.
Ágætu félagar
Að lokum þetta, til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag verkafólks!
Þrátt fyrir að 1. maí sé alþjóðlegur baráttudagur er mikilvægt að hafa í huga að allir dagar eru baráttudagar, ekki bara 1. maí.
Við sem störfum í verkalýðshreyfingunni í umboði félagsmanna upplifum þetta í okkar daglegu störfum fyrir hreyfinguna. Baráttan er endalaus.
Takk fyrir að umbera mig í 30 ár, takk fyrir að treysta mér til að stýra einu öflugasta stéttarfélagi á Íslandi í þrjá áratugi, sem er ekki sjálfgefið. Megi okkur öllum vegna vel á komandi mánuðum og árum. Góðar stundir.