Á fjölmennum hátíðarhöldunum á Húsavík í dag í tilefni af 1. maí var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar heiðraður sérstaklega fyrir vel unninn störf í þágu félagsmanna Framsýnar og samfélagsins alls en hann hefur verið mjög áberandi í umræðunni um verkalýðsmál í þrjá til fjóra áratugi. Var hann sæmdur gullmerki félagsins fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins. Hátíðargestir stóðu upp og klöppuðu fyrir honum vel og lengi. Hér má lesa ávarp varaformanns félagsins:
Um þessar mundir eru liðin 30 ár frá því að Aðalsteinn Árni Baldursson var kjörinn formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur. Í tilefni þeirra tímamóta ákvað stjórn og trúnaðarráð Framsýnar að sæma hann gullmerki félagsins fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins. Því bætist Aðalsteinn Árni nú í hóp þeirra sem þegar hafa hlotið æðstu viðurkenningu fyrir störf sín í þágu félagsins, sem formenn eða varaformenn. Frá árinu 1996 hafa fjórir einstaklingar hlotið þessa viðurkenningu. Þau eru Helgi Bjarnason, Kristján Ásgeirsson, Kristbjörg Sigurðardóttir og Ósk Helgadóttir.
Aðalsteinn Árni var alinn upp á Rauða torginu hér í bæ, um og eftir miðja síðustu öld, meðan enn voru þeir tímar að allir komu öllum við og sterk samkennd ríkti í samfélaginu. Hann er verkalýðsleiðtogi af gamla skólanum, félagshyggjumaður sem lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi og hefur til að bera ríka réttlætiskennd. Hann er bóngóður og greiðvikinn, ávallt boðinn og búinn að rétta fram hjálpandi hönd og vill hvers manns vanda leysa. Sjálfur segir Aðalsteinn Árni að karlarnir í Aðgerðinni hafi mótað sig. Árin þar hafi verið honum mikilvægur þroskatími, en hann starfaði hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur í rúman áratug áður en hann hóf störf á Skrifstofu stéttarfélaganna.
Fyrstu afskipti Aðalsteins Árna af verkalýðsmálum hófust árið 1981 er áðurnefndir vinnufélagar kusu hann sem trúnaðarmann sinn og kannski má segja að þá hafi verkalýðsboltinn byrjað að rúlla. Hann var kjörinn í stjórn Verkalýðsfélags Húsavíkur árið 1986, kjörinn varaformaður félagsins árið 1991, en tók síðan við formannstaumunum árið 1994. Því starfi gegndi hann til ársins 2008, eða þar til félagið sameinaðist Verslunarmannafélagi Húsavíkur, undir merkjum Framsýnar stéttarfélags. Áður hafði hann leitt sameiningu Verkalýðsfélags Raufarhafnar og Öxarfjarðar við Verkalýðsfélag Húsavíkur. Hann hefur haldið um stjórnartauma Framsýnar frá upphafi, auk þess að gegna starfi forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna.
Félaginu hefur Aðalsteinn Árni stjórnað af festu í góðu samráði við samferðafólk í stjórn og trúnaðarráði á hverjum tíma, með öflugt starfsfólk skrifstofunnar sér við hlið. Hann hefur setið í ótal nefndum, ráðum og stjórnum fyrir félagið og sinnt að auki margvíslegum trúnaðarstörfum innan verkalýðshreyfingarinnar, bæði hér heima og eins erlendis.
Aðalsteinn Árni er vel að því kominn að vera heiðraður með þessum hætti. Hann hefur notið mikillar virðingar fyrir störf sín í þágu Framsýnar og ávallt verið reiðubúinn að vinna þau verk sem þurft hefur að skila í þágu félagsmanna á hverjum tíma. Hann er forkur til vinnu, duglegur og fylginn sér, kemur fram sem jafningi allra, en segir mönnum líka hiklaust til syndanna ef með þarf. En er að sama skapi einlægur og góður félagi og góður vinur ef á reynir.
Á þeim 30 árum sem liðin eru frá því að Aðalsteinn Árni tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Húsavíkur hefur viðfangsefnum íslenskrar verkalýðshreyfingar fjölgað og allt starf stéttarfélaganna orðið faglegra í eðli sínu, jafnvel sérfræðilegt í sumum tilvikum. Og þau eru orðin ærið mörg verkefnin sem búfræðingurinn Aðalsteinn Árni hefur fengið inn á sitt borð, sum auðleyst, en önnur meira krefjandi og hafa jafnvel tekið á. Hann býr því yfir víðtækri reynslu og þekkingu og þau verkefni sem hann hefur tekist á við í gegnum árin hafa reynst honum gott veganesti í starfi, sem er allt í senn vinnan hans, lífsstíll og hugsjón.
Við minnumst í dag að liðin eru 60 ár frá því að Verkamannafélag Húsavíkur og Verkakvennafélagið Von gengu í eina sæng. Félögin tvö áttu það sammerkt að hafa fleiri mál á stefnuskrám en eingöngu málefni tengd kaupi og kjörum félagsmanna, því þar á bæ beitti forsvarsfólk félaganna sér ekki síður fyrir ýmsum umbótamálum sem vörðuðu hag alls almennings. Þau gerðu sér grein fyrir að styrkleiki samfélagsins fælist ekki síst í því fólki sem er annt um samfélagið sitt og hversu reiðubúið það er að láta gott af sér leiða. Fólk sem hefur slíkar hugsjónir til að bera er hverju samfélagi dýrmætt.
Aðalsteinn Árni hefur stýrt félaginu í sömu átt og fyrirrennarar hans. Hann hefur látið til sín taka í opinberri umræðu og verið óþreytandi við að berjast fyrir málefnum landsbyggðarinnar og beitt sér á margvíslegan hátt í hinum ýmsu samfélagsmálum. Að öðrum ólöstuðum er hann kjölfestan í félaginu okkar og til hans er leitað úr samfélaginu öllu.
Aðalsteinn Árni Baldursson. Hafðu innilegar þakkir fyrir mikilvægt og afar óeigingjarnt starf í þágu félagsmanna Framsýnar og þar með samfélagsins alls. Þú hefur unnið þitt starf af árvekni og ódrepandi eljusemi og vonandi fáum við sem allra lengst að njóta þinna krafta. Takk fyrir allt.
Þess ber að geta að gullmerki Framsýnar er unnið af Kristínu Petru Guðmundsdóttur gullsmið. Það er gert eftir upprunalegu merki félagsins, sem hannað var af grafískum hönnuði, Bjarka Lúðvíkssyni, og tekið upp við sameiningu Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis og Verslunarmannafélags Húsavíkur undir nafninu Framsýn stéttarfélag árið 2008.
Ósk Helgadóttir