Staða félagsfólks Framsýnar almennt betri en annars launafólks

Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins framkvæmir árlega kannanir meðal launafólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB með það að markmiði að varpa ljósi á lífskjör launafólks á Íslandi þar með talið fjárhagsstöðu og heilsu. Könnunin var lögð fyrir nú í janúar og óskaði Framsýn eftir að staða félagsfólks þeirra yrði greind sérstaklega.

Samkvæmt könnuninni er fjárhagsstaða félagsfólks Framsýnar á heildina litið betri en annars félagsfólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Hærra hlutfall félaga í Framsýn eiga mjög auðvelt, auðvelt eða nokkuð auðvelt með að ná endum saman (66% á móti 57%), geta mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar (67% á móti 51%) og metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun betri en fyrir ári síðan (42% á móti 24%). Einnig er lægra hlutfall félagsfólks Framsýnar sem býr við efnislegan eða verulegan efnislegan skort sem mælir fátækt en það á við um 5% félagsfólks (á móti 11%) og einnig hafði lægra hlutfall þurft fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi eða hjálparsamtökum.

Talsvert mikill munur kom fram á aðstöðu foreldra innan Framsýnar í samanburði við foreldra í öðrum stéttarfélögum. Foreldrar voru spurðir hvort að fjárskortur á síðastliðnu ári hefði komið í veg fyrir að þeir gætu greitt fyrir grunnþætti fyrir börnin sín. Niðurstöður könnunarinnar sýna að lægra hlutfall foreldra í Framsýn en foreldra í öðrum stéttarfélögum innan ASÍ og BSRB höfðu ekki efni á að greiða kostnað vegna viðburða tengdu skólastarfi (5% á móti 7%), félagslífs barna (5% á móti 16%), nauðsynlegan fatnað (6% á móti 15%) og næringarríkan mat fyrir börnin sín (5% á móti 15%).

Auk þess sem fjárhagsstaða félagsfólks Framsýnar mælist almennt betri leiddi könnunin auk þess í ljós að lægra hlutfall Framsýnarfólk býr við slæma andlega heilsu (27% á móti 35%). Mjög ólíkt mynstur kom fram þegar líkamleg heilsa var skoðuð en nokkuð hærra hlutfall félagsfólks Framsýnar metur líkamlegt heilsufar sitt frekar eða mjög slæmt (27% á móti 18%).

Samantekt þessa gerði Kristín Heba Gísladóttir framkvæmdastjóri  Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Hér er hægt að skoða skýrsluna:

Hér er heimasíða Vörðu.

Deila á