Bændur verðlaunaðir og ályktað um samgöngumál

Aðalfundur Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga fór fram síðasta mánudag í Félagsheimilinu Heiðarbæ. Auk venjulegra aðalfundarstarfa voru haldin fróðleg erindi auk þess sem bændur á félagssvæðinu voru verðlaunaðir fyrir góðan árangur í búfjárrækt. Erindi fluttu Vigdís Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands sem fjallaði um starfsemi samtakanna. Ágúst Torfi Hauksson framkvæmdastjóri Norðlenska fjallaði um tollvernd, breytingar á búvörulögum og sameiningu afurðarstöðva og Jóhannes Sveinbjörnsson dósent við LBHÍ  var fenginn til að fjalla um áhrif kögglunar á grasi og öðru gróffóðri á fóðrunarvirði. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar tók að sér fundarstjórn sem fór vel fram og óhætt er að segja að líflegar umræður hafi farið fram á fundinum auk þess sem fundarmenn töldu mikilvægt að álykta um samgöngumál á svæðinu. Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða í lok fundarins.

„Aðalfundur Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga lýsir áhyggjur yfir ástandi brúar yfir Skjálfandaflót á þjóðvegi 85 og skorar á Vegagerðina að flýta framkvæmdum sem mest má. Mikill kostnaður er á svæðinu vegna lokunnar brúarinnar og fyrirsjáanlegt að aukist enn“.

Deila á