Fundað með þingmanni

Eins og kunnugt er hefur Framsýn alla tíð lagt mikið upp úr því að eiga gott samstarf við þingmenn kjördæmisins um málefni íbúa og atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum enda eitt af hlutverkum félagsins að vinna að því efla svæðið á flestum sviðum til búsetu. Hvað það varðar, biðlaði Framsýn nýlega til þingmanna kjördæmisins um að koma að því með félaginu og öðrum stéttarfélögun á svæðinu að tryggja áframhaldandi flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Viðbrögð þingmanna hafa valdið miklum vonbrigðum svo ekki sé meira sagt með fáeinum undantekningum.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG svaraði kalli félagsins ásamt Kára Gautasyni framkvæmdastjóra þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með því að óska eftir fundi með formanni Framsýnar til að kynna sér málið frekar. Komu þau við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær. Góðar umræður urðu um mikilvægi þess að fluginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur verði viðhaldið með stuðningi frá ríkinu. Þá urðu umræður um atvinnu- og velferðarmál og yfirstandandi kjaraviðræður verkalýðshreyfingarinnar við Samtök atvinnulífsins sem eru í uppnámi um þessar mundir. Þrátt fyrir það er líklegt að viðræðum verði fram haldið á allra næstu dögum. Það mun væntanlega skýrast betur síðar í dag.

Deila á